Færsluflokkur: Fiskveiðar

Þórður Sigurðsson sjómaður (1863-1950)

014a.jpg

Jólin 1939 birtist viðtalsgrein við langafa minn Þórð Sigurðsson í Sjómanninum. Inngangsorð greinarinnar voru þessi:

ÞÓRÐUR SIGURÐSSON, Bergstaðastræti 50 hér í bænum, verður 77 ára gamall í maímánuði næstkomandi. Hann er enn ótrúlega unglegur og það er einkennilegt hve lítinn svip hann ber af æfistarfi sínu, sjómennskunni. Hann er liðlegur á velli, næstum fíngerður og enginn skyldi ætla, að hann hafi eytt meirihluta æfi sinnar á sjónum og við hin erfiðustu störf. Við fyrstu sýn lítur hann út eins og uppgjafalæknir utan af landi, eða gamall kaupmaður. En málið segir til sín. Um leið og hann mælir fyrstu setninguna verður maður ekki lengur í vafa um, hvaða æfistarf þessi maður hefur haft. Hann talar ómengað sjómannamál. Þórður Sigurðsson stundaði sjómennsku í 47 ár, þar af var hann í 27 ár stýrimaður, og hann hefur rétt til að sigla millilandaskipum, þó að hann hafi aldrei tekið neitt próf eða gengið á sjómannaskóla. Þetta leyfi fékk hann fyrir mörgum árum hjá stjórnarráðinu. Það er þó engin hætta á, að hann fari að keppa við hina sprenglærðu sjómenn; hann er seztur í helgan stein. Nú heyrir hann aðeins byljina berja súðina sína og sér hvítfyssandi öldurnar, þegar hann horfir út á hafið.

Viðtalið allt er mjög góð heimild um líf ungs sjómanns á Íslandi í lok 19. aldar.

Ég er ættleri

Þegar ég, sem vart hef migið í saltan sjó, les þetta samtal í Sjómanninum við langafa minn Þórð Sigurðsson, er mér ljóst, að ég er ekkert annað en ættleri. Atvinnulaus í ESB með mitt einskisnýta doktorspróf, því hásetar og síst af öllu háttsettir á Íslandi þurfa slíkar merkistikur til neinna starfa, beygi ég mig lotningu fyrir þessum langafa mínum, sem var ekki uppgjafadoktor eins og ég.

Ég hvet menn til að lesa viðtalið við hann, sem ég tel næsta víst að Jón Axel Pétursson (1898-1980), hafnsögumaður og síðar bankastjóri m.m. (bróðir Péturs heitins Péturssonar þuls) hafi tekið og skráð. Líklegt þykir mér einnig, að afi minn, Vilhelm Kristinsson (1903-1993), lengstum vatnsvörður hjá Reykjavíkurhöfn, sem var ævivinur Jóns Axels, hafi hóað í Jón þegar hann var ritstjóri Sjómannsins og látið hann taka viðtalið við Þórð tengdaföður sinn.

Eitt langar mig að leiðrétta. Þórður var ekki Sunnlendingur, eins og fram kemur í greininni. Hann var Skagfirðingur í húð og hár, en foreldrar hans höfðu flust suður vegna fátæktar eða til að leita sér betri tækifæra í lífinu. Þórður fæddist reyndar að Minna-Mosfelli í Kjós árið 1863, en foreldrar hans Sigurður Bjarnason og Sigríður Hannesdóttir voru bæði Skagfirðingar og framættir þeirra að mestu úr Skagafirði og Húnaþingi. Það kemur þó fram í greininni að Þórður og Stephan G. Stephansson hafi verið systrasynir. Svo kemur heldur ekki fram í greininni, að Þórður var einnig á erlendum hvalveiðiskipum á sjómannsárum sínum.

stephan_og_or_ur.jpg

Systrasynirnir Stephan G. og Þórður Sigurðsson voru greinilega steyptir í sama skagfirska mótinu. Þegar Stephan G. heimsótti Ísland bjó hann hjá frænda sínum Þórði. Amma mín, Sigríður Bertha Engel Þórðardóttir, minntist ávallt með ánægju þeirra gjafa sem hann hafði fært henni barnungri, t.d. mikils pappapáskaeggs, fullu að dýrindis sælgæti, sem hann færði henni er hún var nýstigin upp úr miklum veikindum.

Myndin efst frá 1890 sýnir skonnortur frá Gloucester í Massachusetts. En það voru einmitt skonnortur frá Gloucester við Boston, sem Þórður Sigurðsson stundaði lúðuveiðar á frá Dýrafirði á sama tíma og myndirnar voru teknar. Ég sé að Þjóðminjasafnið er með spurningarlista í gangi um lúðuveiðar og -verkun (sjá hér). Safnið hefði líklegast átt að vera úti heldur fyrr.

Neðri myndin aths: Sama myndin af langafa mínum (t.h.) og birtist í Sjómanninum hékk ávallt í stofunni hjá Sigríði Berthu, ömmu minni, og afa Vilhelm á Hringbrautinni. Margir í ættgarði ömmu fengu hana að láni til eftirtöku. Er amma mín lést árið 1998 var myndin ekki lengur í íbúð hennar. Ef einhver ættingja minna eða aðrir hafa fengið myndina lánaða hjá ömmu, langar mig vinsamlegast að biðja viðkomandi að skila henni til móður minnar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband