Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2020

Gröf Davíðs konungs

Davids Tomb

Mynd þessa keypti ég nýlega. Þetta er laterna magica skyggna frá því á síðasta áratugi 19. aldar og ljósmyndin er líklega tekin um 1890 - í morgunsólinni sýnist mér.

Myndin er af svæði í gömlu Jerúsalem sem gegnum tíðina hefur stjórnast af mörgum herrum, Gyðingum, Rómverjum, múslímum og kristnum.

Þarna töldu kristnir sig finna gröf sjálfs Davíðs konungs. Deildir úr þremur trúarbrögðum hafa síðan trúað að svo sé. Ekkert er því til sönnunar og menn halda aðeins í hefðina.

Í dag er gröfin undir umsjá hóps heittrúaðra þjóðernissinna sem fylgja gyðingdómi. Fyrir nokkrum árum síðan braut brjálæðingur fornar flísar frá þeim tíma er þarna var moska. Skemmdarverkið var unnið í því húsi sem gröf Davíðs er talin vera í. Margt gæti hins vegar bent til þess að bygging sú sem hýsir meinta gröf Davíðs hafi verið samkunduhús gyðinga á 2. og 3. öld e.Kr.

Takið eftir gröfunum í forgrunninum. Þær eru margar horfnar nú, því kristnir menn ákváðu í byrjun aldarinnar að byggja þarna á svæðinu nýtt klaustur og kirkju í byrjun 20. aldar. Það olli ekki öfgum og óeirðum, líkt og þegar hróflað er við grafreitum múslíma í dag. En virðingarleysi hefur oft verið mikið á Zíonsfjalli sem er nafn sem notað um þessa hæð í suðurhluta gömlu Jerúsalemborgar.

Til samanburðar set ég hér að lokum ljósmynd eftir franska stórljósmyndarann Felix Bonfils sem tekin var árið 1865.

Souvenirs_d'Orient,_1878_by_Félix_Bonfils_0130-2


Gluggað í skjalasafn heiðraðrar fornleifanefndar - Anno 1996

Screenshot_2020-07-13 17917550(1)

Þegar ég sá myndina hér að ofan á tímarit.is um daginn, var mér af einhverjum ástæðum hugsað til setu okkar Bjarna F. Einarssonar í Fornleifanefnd um 1996. Þar sat einnig Þór Magnússon Þjóðminjavörður, en fyrir nefndinni sat lögfræðiprófessor, mjög formfastur maður, eins og lögfræðingum ber að vera - fyrir utan að þekkja reglurnar. 

Það var Páll Sigurðsson og Páll má ekki vamm sitt vita, og því til jarteina hefur einhver (og líklegast hann sjálfur) skrifað lengsta kafla um nokkurn mann, íslenskan, á Wikipediu.

En, eins og fornleifafæðingum, og ekki síst lögfræðingum sem ekki vita að það er fallið á silfur sem finnst í jörðu, getur lögfræðiprófessorum einnig orðið á í messunni. Eitt sinn, svo vitað sér, henti það Pál Sigurðsson, og skal sagt frá því hér.

Páll Sigurðsson kallaði til fundar í Forleifanefnd þann 22. júlí 1996 með ólöglega stuttum fyrirvara. Ég frétti aðeins af fundinum fyrir tilviljun. Þá voru menn ekki komnir með tölvupóstkerfi og þess háttar. Boðleiðin brást og hún brást hjá Þór Magnússyni. Hann gleymdi að segja mér frá fundi í nefndinni.

220px-Pall_Sigurdsson

Páll Sigurðsson vísaði mér ólöglega af fundi

Við upphaf fundar vísaði Páll mér af fundinum. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. En það kom fljótlega í ljós. Páll hafði greinilega ekki haft tíma til að lesa fundargerðina, sem Þór Magnússon hafði tekið saman, þó að síðarnefndi ætti ekkert með að gera það. Ég maldaði í móinn við Pál, en var þá skipað af yfirgefa fundarherbergið og fékk ekki að skýra mál mitt. Allt sem ég reyndi að segja við formanninn við dyr fundaherbergisins, sem einni var aðalkaffistofa safnsins, drukknaði í orðskrúð Páls, sem oft gat verið fjandi kúnstugt og "barokkt", ef hægt er að nota það orð fyrir málnotkun í íslensku máli. Sem dæmi má nefna að Páll svaraði oft mönnum og vísaði í "heiðruð" bréf þeirra. 

Það var hins vegar ekki heiðruð meðferð sem ég fékk frá þessum heiðvirða manni, heldur skagfirskur ruddaháttur sem þekktur er frá örófi alda þegar fautar í því héraði hafa brunað yfir lítilmagnana á hrossum sínum.

Páll hafði séð í fundarboði, sem hann hafði ekki haft fyrir því að nærlesa, að mál var á borði nefndarinnar varðandi eitthvað Miðhús. Hann ályktaði að um væri að ræða Miðhús við Egilsstaði, sem nokkur styr stóð út af á þeim tíma, sérstaklega heima hjá Þórarni Eldjárn.

Ég tel víst að hinir nefndarmennirnir hafi verið á sömu skoðun og Páll, því þeir gerðu engar athugasemdir við brottrekstur minn af fundi, og heldur ekki Bjarni Einarsson sem þó vissi betur en þeir sem ekki höfðu lesið fundarboð og málsgögn, enda fyrir löngu búið að ákveða að ég skyldi "tekinn af lífi" varðandi þetta margfræga silfurmál sem einnig tengdist miðhúsum. Glæpur minn var að vera sammála breskum sérfræðingi.

Prófessor Páll Sigurðsson ýtti mér bókstaflega út úr gátt fundarherbergi safnsins, og ég hundskaðist upp á skrifstofu mína í turni Þjóðminjasafnsins. Í góðu stuði skrifaði ég þegar harðort kvörtunarbréf vegna þess að mér var meinað að setja fund í nefnd sem ég var skipaður í. Bréfið sendi ég Menntamálaráðuneytinu og síðar fékk hin heiðvirða Fornleifanefnd einnig bréf dags. 29. júlí 1996. 

Hvort það var vegna mjög langra sumarleifa starfsmanna ráðuneytinu, fékk ég ekki svar þaðan fyrr en 9. september (sjá bréfið hér). Það kom frá gamalli skrifstofurottu ráðuneytisins, Árna Gunnarssyni, sem  ósjaldan var haukur í horni þegar forsvarsmenn Þjóðminjasafns óku útaf í fjármálum og öðrum málum. Árni Gunnarsson tjáði mér að prófessor Páll myndi svara mér. Takið eftir því að bréf Árna Gunnarssonar er dags. 9. september 1996 - en 9. September 1996 er einnig dagsetning á svari Páls til mín. Boðleiðin á milli Ráðuneytis og prófessors í lögfræði var greinilega hraðvirkari en svarviðleitni við doktorsræfil í fornleifafræði sem vissi, án þess að vera staðkunnugur, að Miðhús er mjög algengt nafn á kotum um land allt. 

Eins sjá má tók það málskreytingamanninn Pál Sigurðsson 11 línur að komast að merg málsins og niðurstaðan sem er furðu klaufalega er þessi:

... Sökum ónógrar staðkunnáttu minnar á Austurlandi hef ég þá ekki áttað mig á því að leyfisumsóknin mun ekki hafa beinst að rannsóknum á þeim bæ, sem málaferlin tengjast, heldur öðrum, samnefndum, sem einnig er á Fljótsdalshéraði en í öðru sveitarfélag. Hér er um mistök mín að ræða, sem ég ábyrgist að öllu leyti einn. Á þeim mistökum biðst ég velvirðingar. (Sjá bréfið í heild sinni hér).

Þetta var furðuleg niðurstaða í ljósi þess að Miðhús við Egilsstaði höfðu ekkert verið rædd í nefndinni.

Ég sætti mig vitaskuld aldrei við þessa afsökunarbeiðni. Hvaða erindi hann átti sem formaður í þessa nefnd var alltaf ofar mínu skilningi. Hann er einn af þessum skrýtnu köllum sem stjórnað er af mönnum með nábláar hendur  sem trúa því sem eðlilegum hlut að silfur finnist óáfallið í jörðu á Íslandi. Hvar annars staðar en á Íslandi?

Vanþekking Páls prófessors á Miðhúsum var líka merkileg, þegar tillit er tekið til að afi hans, Stefán Vagnsson hagyrðingur, fæddist á einum af mörgum þessara Miðhúsa, en það var á Miðhúsum í Blönduhlíð. Ekki er því hægt að kenna bláum krumlum um fávisku prófessorsins um staðarnöfn landsins. Maður bjóst við meiru, því um skeið var prófessor Páll líka ofarlega í stjórn Ferðafélagsins. 

Skömmu síðar þetta sama sumar 1996, óskaði Þór Magnússon ekki starfa minna á Þjóðminjasafni vegna opinberrar gagnrýni minnar á störf hans, til að mynda á óstjórn og framúrkeyrslur á ráðstöfunarfé stofnunarinnar. En fyrir slíkan utanvegaakstur var honum að lokum vikið úr starfi með mikilli skömm eins og frægt er orðið. Sjálfur hafði ég um vorið 1996 ákveðið að flytja úr landi. Kona mín fór fyrst með dóttur okkar nýfædda og ég fór síðar á árinu. Við settum síðan að í besta stað í Kaupmannahöfn í janúar 1997. Þar pakkaði ég skjöl mín varðandi Fornleifanefnd niður í kassa og skoðaði þau ekki að ráði aftur fyrr en hér um daginn. Ég gat ekki setið á mér og varð að deila sögunni af þessari valdbeitingu í dyragátt kaffistofu Þjóðminjasafns 22. júlí 1996. Hún er þó ekkert einsdæmi um dómgreindarleysi manna sem titla sig prófessora í íslenskum lögum.

Málsbætur til handa Páli Sigurðssyni áður en dómur fellur

Einu langar mig við að bæta, háheiðruðum Páli Sigurðssyni til málsbóta, þrátt fyrir svínslega meðferð hans á mér, og það á afmælisdegi mínum mínum. Páll var kominn í mikla ormagryfju þegar hann tók að sér stjórn Fornleifanefndar. Sumir fornleifafræðingar sem sátu í nefndinni notuðu hana óspart í sinn hag. Aðrir notuðu allan sinn tíma til kærumála, enda komið stríð um töglin og hagldirnar í þessum málum á Íslandi. Hér fáið þið eitt sýnishorn: Félag Íslenskra Fornleifafræðinga (FíF) nauðaði á þessum árum mikinn og barmaði sér. Félagsmenn sumir sem gengu í lið við bláu höndina og fengu hana nær upp í afturendann, kvörtuðu þá undan framgangi Bjarna F. Einarssonar í nefndinni. Félagsmenn þar útbjuggu þetta skjal og sendu Þór Magnússyni. Ef menn fletta yfir á bls. 2. sjá þeir afrit til Páls Sigurðssonar af bréfinu með miða Bjarna F. Einarssonar til Páls (þ.e. Bjarna með arabísku augnperlurnar).

Bjarnakæra1996

Bjarni, vinur minn, sá greinilega ástæðu til að greina Páli frá því að "varamaður minn í nefndinni hefði stutt ályktun FíF".

Ég man að ég hló þegar ég sá þetta, því mér var sannast sagna ekki vel kunnugt um hver var varamaður minn, og enginn samskipti hef ég haft við hann (hana?) um athæfi Bjarna sem sjálfskipaðan fornleifalögreglumann. Mest hló ég þó í einhvers konar angist, því mér varð ljóst að maður sem ég taldi til vina minn, var greinilega svona falskur.

Bjarni óð einnig í villu eins og oft áður og síðar. Varamaður minn í Fornleifanefnd var Margrét Hallgrímsdóttir sem ég hafði engin tengsl við, hvorki persónuleg né fagleg. En núverandi þjóðminjavörður hafði vitaskuld mörg horn í síðu Bjarna F. Einarssonar á óvenjulegri leið hennar í þær stjórnunarstöður sem hún sótti í. Það var ekkert leyndarmál. Horn hans stóðu einnig í síðu hennar. Það var þó ekkert sem ég lét mig varða, og kom ekkert starfi í Fornleifanefnd við - að því er ég held. En í klíkuveldinu Íslandi veit maður aldrei.

Líklegt tel ég að Bjarni Einarsson, með miður hreina samvisku sína í "Miðhúsaupphlaupinu" þ. 22. júlí 1996, hafi verið að reyna að koma því inn hjá lögfræðiprófessornum, að ég stæði á bak við gagnrýnina á sig meðal félagsmanna í FÍF. Ég hafði ekkert samband við það fólk.

Já, þannig eyddu menn tíma sínum og skattpeningum landsmanna árið 1996. Fróðleiksfúsir menn gætu vissulega spurt: Hefur nokkuð breyst síðan að ég sat rúmt ár í þessari nefnd? Svari þeir sem svara vilja.


Metin falla

Met Sandtorgum svart

Glöggir lesendur Fornleifs, (sem þeir eru vitaskuld allir), muna kannski eftir grein um met frá fornrústinni Bólstað í Álftafirði og hliðstæðu þess, nokkuð minni, sem fundist hefur í grafreit norrænna manna í Wales.

Í gær frétti ég af meti (sjá mynd efst, sem tekin er af Tor-Erik Krokmyrdal) sem fundist hefur á Hálogalandi í Norður-Noregi, og sem er af sömu gerð - og mjög líkt metunum frá Bólstað og Llanbedrgoch á Angelsey í Wales sem ég greindi frá árið 2013.

large better

Met frá Anglesey í Wales

 

435637

Metið frá Bólstað í Álftafirði vestri.

Norska metið fann fornleifafræðingurinn Tor-Erik Krokmyrdal  sem nýlega lauk mastersnámi í fornleifafræði við háskólann í Tromsö. Hann fór um miðjan aldur í nám í fornleifafræði vegna brennandi áhuga síns á málmleitartækjum.

Efniviður ritgerðar hans voru merkir fundir sem hann hafði fundið með tækjum sínum í Sandtorgum (Norska Sandtorg, upphaflega ef til vill Sandhörgi) i Tjeldsund, sem er í bæjarfélaginu Harstad í Þrumu (Troms og Finnmark fylke) - þaðan sem margir landnámsmanna á Íslandi voru ættaðir. Hér á vefsíðu Háskólans í Tromsö má lesa um árangur mjög merkilegra rannsókna Tor-Eriks Krokmyrdals.

T-Erik telur Sandtorg geta hafa verið mikilvægan verslunarstað og byggir það m.a. á rökum örnefnafræðingsins og fornfræðingnum Oluf Rygh sem uppi var á 19. öld. Mín þekking á þeim meistara er sú að það verður að taka hann með fyrirvara þegar kemur að örnefnarannsóknum hans, sem oft voru tómar staðhæfingar. Sandtorg þarf ekki að hafa rótina torg líkt og sumir telja, heldur getur rótin vel verið hörg, og var því nafni ef til vill upphaflega Sandhörg. Hörg (eða hörgur) voru heiðnir blótstaðir kallaðir og orðið þekkist í ýmsum örnefnum á Íslandi (t.d. Hörgárdalur, Hörgsholt og Hörgshlíð svo eitthvað sé nefnt). Nafnið getur því hæglega þýtt blótstaður á Sandi. En við blótstaði og hof var oft blómleg verslun eins og síðar við útvalda kirkjustaði, eða þar sem fólk hittist oft þegar menn fóru í stað. Á Sandtorgi gæti því vel hafa verið blómleg verslun.

Ég hef gert Krokmyrdal viðvart um metin á Íslandi og í Wales, sem eru hliðstæður metsins frá Sandtorgi, en hann þekkti þau ekki og þau eru ekki nefnd í lokaritgerð hans sem má lesa i heild sinni hér. Metin sem Krokmyrdal fann eru nefnd á blaðsíðu 38. 

Screenshot_2020-07-15 Science brings to life the witnesses to the Viking-age in North Wales

Ég er nú alls ekki alveg sammála ályktun Krokmmyrdals um aldur metsins. Í kumlateignum í Llanbegdrgoch (mynd hér fyrir ofan),  þar sem sams konar met hefur fundist, fannst mynt sem er frá  10. öld. Mannabein úr kumlateignum hafa einnig verið aldursgreind til 10. aldar og hér fyrir neðan get menn skemmt sér við að skoða túlkun á því hvernig fólkið sem þar var heygt, leit út. Það var allt innbyrðis skylt að sögn mannfræðinganna. Mér sýnist næsta víst að þetta hafi verið Íslendingar, ja ef vera skyldi "Hálygingar" eða Hálogaverjar eins og þeir eru kallaðir einhvers staðar í fornum ritum. En mig grunar einnig að mannfræðingarnir/listammennirnir sem unnu þessar styttur í Manchester hafi starfað fyrir kvikmyndirnar Apaplánetuna. Höfukúpurnar og önnur bein í Llanbegdrgoch eru af fínlega byggðu fólk, en ég þykist sjá samísk einkenni - og er vitaskuld meðvitaður um að engum hafi dottið það í hug í Wales, en maður verður að koma sínum metum við, eins og sagt var til forna.

Screenshot_2020-07-15 Science brings to life the witnesses to the Viking-age in North Wales(1)

Nú eru met af þessari gerð þessi talin hafa verið framleidd á Bretlandseyjum eða á Írlandi, og það þykir mér líklegt. Hins vegar er mjög athyglisvert að sjá víðáttumikla dreifingu þessarar gerðar af metum nú. Líklega breytist myndin síðar, þegar fleiri met finnast.

Þyngdin er mismunandi. Metið frá Bólstað er 86,5 gr. en Llanbedrgoch er léttara eða 57,2 gr. Gaman væri að fá þyngd metsins frá Sandtorg.

Til gamans skal hér látinn fylgja elsti ritaði texti þar sem nefnt er staðarnafnið Sandtorg í Þrumu, en hann er frá 1321 og varðar að sjálfsögðu kaup, og lesið nú það sem Nútímanorðmenn skilja ekki bofs í. Ég hef lent á tali við fræðimenn í Noregi, sem ekki trúa því að ég og aðrir Nútímaíslendingar geti lesið texta sem þennan:

Ollum monnum þeim sem þetta bref sea eða heyra, senda
Ogmundr prestr a Þrondarnese ok Jwar loghmaðr a Haloghalande, Q.G. ok sina, yðr se kunnikt. at vit varom þar hia i Oddzhusum i Vaghom a friadaghen nesta eptir kross messo vm varet anno domini millesimo, trescentesimo, vicesimo primo. er Helgi huasse lauk herra Ellingi Viðkunnar syni með handa teke spannzleighu iarðar i Sandtorghe j sakareyri þan sem Helgi var honom skylldugr, frialsa ok veðeslausa firir huerium manne. Ok til sanz vitnisburðar settom vit okor insigli her firir.

sandtorgÍ Sandtorgum


Hvítt dusilmenni verður undir í glímu á Snæfellsnesi

adolf-hitler-150448_960_720

Já, á Snæfellsnesi arkar vel skyldleikaræktað dusilmenni um með svart frímerki á efrivörinni og límir eins og óður maður miða með skítkasti út um allt.

Líklegast kemst slíkur moðspreðill í kynferðislegt stuð þegar hann er að líma haturssnepla sína. Það er ágætt að fá frétt í  Morgunblaðið um slíka límstauta. En hjá blaðinu skrifar einn ungritstjóranna reglulega greinar um heri og hermenn nasista og "glæsileg" afrek þeirra á vígvöllum sem nasisminn skapaði.

Það verður að teljast flókið og frekar sjúkt hobbí sem blaðamaðurinn fær að deila meðal áskrifenda Moggans. Áskrifendur eru ekki einu sinni spurðir hvort þeir vilji lesa um Gunther og Frantz, sem í ímynduðum glæsileika "germanans" brytja niður Igor og Leonid á Austurvígstöðvunum. Það hefur líklega farið fram hjá þessum kúlupenna Moggans að Kalda Stríðið er fyrir löngu forbí.

Dusilmennið á Snæfellsnesi lætur sig hins vegar dreyma um hengingar í Suðurríkjunum, sem er miklu verra en að skrifa hermannasögur á Mbl. Fjölmiðlar Íslands ættu að líta sér aðeins nær. Það er ekki nóg að skrifa um kynþáttahatur á útkjálkum Íslands - nasistadýrkun á síðum Moggans er líka tímaskekkja.

Lesið sögu svarta mannsins á Íslandi á dálkinum hér til vinstri, en við hana bættist enn einn ljótur kafli með Miðalími á Vegamótum. Einnig má benda á skoðanakönnunina efst á hinum siðvandaða dálki Fornleifs.


mbl.is Rasísk skilaboð límd á bíl mæðgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir eru að fáana á Spáni

103272070_2663645677247290_3888717254164586686_o

alterskab_08_3bÞeim sem þykir gaman af líkneskjum aftan úr pápísku og sem lásu greinar mínar um Madonnuna frá Múla nýlega (sjá hér og hér, mynd hér til vinstri) þykir líklega sú veiðifrétt sem sögð verður hér nokkuð góð fiskisaga.

Í miðri ánni Sar, sem á íslenskan mælikvarða er töluverð spræna en ekki straumhörð þegar hún rennur gegnum Santiago, hrasaði Fernando um hálan stein þegar hann leitaði betri fótfestu í eltingaleik sínum við þann stóra.  Honum var litið á bölvaðan steininn eins og menn gera þegar þeir kenna dauðum hlutum um klaufsku sína. Á móti starði kona upp úr slýgrænni ánni. Fernando Brey datt um fornt líkneski, styttu af Maríu mey, sem situr í sömu stellingu og Madonnan frá Múla, sem er sjúkdómsteppt í Barcelona með soninn í kjöltunni.

a-virxe-do-sar-15Veiðimaðurinn til vinstri.

Það bar vel í veiði hjá spænska stangveiðimanninum Fernando Brey, sem í byrjun júní brá sér í veiðiferð við ána Sar nærri Santiago de Compostela á Norðvestur-Spáni. Eins og margir Spánverjar, langþreyttir og hrjáðir af faraldrinu sem hrjáir okkur öll, sótti Fernando út í náttúruna til að róa geð sitt í einangruninni. Stöng og vöðlur er leið hans til afslöppunar.

Maria SAR Brey gerði safnafólki þegar viðvart og sérfræðingar frá Pílagrímasafninu (Museo das Peregrinacións) í Sankti-Jakobsborg komu á vettvang með grímur. Í veiðifatnaði og í tilhlýðilegri fjarlægð frá hverjum öðrum, dáðust fornleifafræðingar og listfræðingar safnsins að styttunni í ánni.

1592284071606

María komin á Safn Pílagrímanna í Santiago.

IMG_2333-1536x1024

Undir fæti styttunnar í ánni var höggvið blóm og fléttuverk. Kannski hefur steinninn verið endurnotaður? Kannski var styttan tilraun ungs steinhöggvara, sem mistókst?

Styttan er um 700 ára gömul og er líklega eitthvað yngri en  Múla-María, sem er frá seinni hluta 13. aldar.  Farið var með styttuna til Santiago til rannsóknar og lítið hefur síðan frést til hennar, nema hvað upplýst hefur verið að hún sé um 150 kg. að þyngd.

Hvað olli því að menn losuðu sig við svona forlátafína styttu skal ósagt látið, en henni hefur ekki verið kastað þar nýlega. Líklega skoða sérfræðingar kirkjur og klaustur í nágrenni fundarstaðarins til að leita að hugsanlegum uppruna Maríumyndarinnar í ánni Sar. Guðshús eru þar fjölmörg, enda áin Sar nærri Sankti Jakobsvegi, sem sífellt verður vinsælla að arka eftir, sama hvaða trúar maður er.

a-virxe-do-sar-13

Nú bíður forvarsla.


Skoðanakönnun á Fornleifi

Kuifje en Congo

Takið þátt efst á vinstri dálkinum hér á Fornleifi

Hvaða orð mega helst heyra sögunni til þegar rætt er um þeldökkt fólk?

Eftir að ég birti grein um grafalvarlegt mál á blogginu Fornleifi hér um daginn (sjá hér), fletti ég yfir á nýja síðu á Tinna-veggjadagatali mínu (þið vitið hvað barnalegur ég er í anda). Ég var búinn að gleyma því að það var kominn júlí.  Tinna-myndin fyrir júlímánuð á vel við greinina á Fornleifi. Þótt Tinni hafi mikið verið gefin fyrir drengi, trúi ég því ekki upp á hann að hann hafi talað eins illa um svart fólk og hann talaði um konur. En sá sem skóp Tinna var greinilega með gömul rasistagleraugu sem voru algeng víðar en í Belgíu þegar hann var að alast upp.

Hvað finnst ykkur lesendur góðir? Eru orð eins og blökkumaður og þeldökkur of hlaðin til að við getum notað þau á 21. öld? Látið í ljós skoðun ykkar.  Ég er sjálfur farinn að vera í vafa um notkun þessara og annarra orða, eftir að ég fékk tölvupóst frá Íslendingi sem lítur á sig sem litaðan mann. Orð eins og svertingi, blökkumaður, þeldökkur, surtur, blámaður, og meira mætti telja upp, eru ekki lengur nauðsynleg, sér í legi ef þau særa fólk og ef þau eru einvörðungu notuð til að hæðast að fólki.

Hvað finnst ykkur?  - Takið vinsamlegast (nafnlaust) þátt í skoðanakönnuninni um nokkur orð.

Lesið ykkur til fræðslu sögu svarta mannsins neðar á vinstri spássíu Fornleifs.


Nú er það aftur svart ... og kannski tími til íhugunar

Negir Ásmundar

Nú eru miklir niðurbrotstímar. Í hinum velstæðari ríkjum jarðar ríkir eins konar aflátsæði sem kemur niður á fortíðinni. Allt gamalt sem er talið vera af hinu vonda hjá nútímadýrkendum er brotið og bramlað. Yfirvöld þjónkast við óskirnar og fjarlægja styttur. T.d. í BNA, þar sem nær væri að aðstoða sjúkt fólk í faraldrinum í stað þess að láta styttur angra sig. Bandaríkjamenn styðja greinilega illfyglið í Hvíta Húsinu á marga vegu.

Ungt fólk, sem fyrst og fremst dýrkar EGO sitt, og heldur sig vera bestu og fremstu verur mannkyns, vill brjóta niður allt sem minnir á gamlan tíma. Sjálfselskan hjá þessari illa upp öldu og naflapillandi kynslóð, leiðir til þess að hún telur að hún verði að brjóta niður styttur og fjarlægja orð og jafnvel skoðanir sem eru á öndverður við skoðanir þess sjálfs - til að bjarga heiminum. Þegar mikil vandamál hrjá íslenskt þjóðfélag, líkt og víða annars staðar, rís þessi sjálfselska kynslóð upp í örvinglan því hún hefur aldrei þekkt mótgang eða erfiði líkt og fyrri kynslóðir. COVID-19 hefur einnig sett ýmislegt í gang, sem þó ekki verður rætt hér.

Hræðsla mannsins - og ungviðisins - lýsir sér oft sem öfgar í eina eða aðra áttina.

Ungur maður hafði samband og vill að ég noti ekki orðið blökkumaður

Ungur Íslendingur hafði samband við mig í síðustu viku og bað mig um að fjarlægja orðið blökkumaður af bloggi mínu. Ég svaraði honum á eftirfarandi eins og sjá mér neðar. Ég skýrði út fyrir honum að hann væri víst að herja á rangan bæ ef hann leitaði manna sem nota orðið blökkumaður að staðaldri.

Eitt áður en þíð fáið að lesa svar mitt: Veit einhver, hvort "Svertingi" Hafnfirðinga nr. 2 (sem ég nefni í svari mínu) sé enn uppi við í skrúðgarði Hafnarfjarðar? Hann er glögglega dæmi um hafnfirskan rasisma og ætti því, ef hann er til, að setja hann á safn sem dæmi um birtingarmynd kynþáttahaturs Hafnfirðinga, sem er er þó ekkert gífurlegra en gengur og gerist á Íslandi. Svartir verða örugglega fyrir miklum fordómum á Íslandi, líkt og gyðingar, fólk frá Filippseyjum og Taílandi, og þegar maður sér augljóst kynþáttahatur fáeinna Pólverja og Litháa í garð annarra innflytjenda á Íslandi, og jafnvel Íslendinga sjálfra, er vitaskuld vandamál í landinu litla við heimsskautsbaug.

Hér kemur svo svarið. Nafn mannskins, sem sendi mér línu um orðið blökkumaður, hef ég fjarlægt og ég kalla hann N.N.. Best er að undirstrika að í því felast engin dulin skilaboð sem leyfilegt er að misskilja á nokkurn hátt.

Ágæti N.N.,

Ég þakka áhugaverðan póst, sem þú sendir mér í síðustu viku (25. júní sl.) Það gleður mig mikið að vita af því að yngra fólk en kjarnalesarinn er að stelast inn á hið sífellt unglega blogg Fornleif.

Póstur þinn undrar mig þó töluvert, ef tekið er tillit til þess að orðið blökkumaður kemur fyrir fjórum sinnum á bloggum mínum en óbeint (sem skýring og tilvitnun):

Tvisvar er ég með það, þegar ég skýri andstöðu manna við ýmis orð sem notuð eru um svart fólk; einu sinni kemur það fyrir í texta úr dagblaði sem ég vitna í og í fjórða skiptið á spássíu Fornleifs, þegar verið er að vitna í grein í eldra bloggi mínu (Hvað er í ísskápnum;https://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/356276/ ). Í þeirri grein fjallaði ég m.a. um styttu í Hellisgerði sem Hafnfirðingar kölluðu "svertingja". Gaflararnir gerðu það enn árið 2006, er ný stytta af svörtum manni var sett upp í garðinum (sjá Fjarðarpóstinum 2006 https://timarit.is/page/5812215?iabr=on#page/n7/mode/2up ). Svo mjög söknuðu Gaflararar (Hafnfirðingar) fyrstu "svertingjastyttunnar". Hvort búið er að rífa niður hina síðari birtingarmynd hins annálaða rasisma í Hafnarfirði, veit ég ekki?

En þú hlýtur að sjá, N.N., að þú hefur hoppað yfir gerðið þar sem það er lægst, þegar þú skrifa mér,  líkt og ég sé helsti notandi orðsins blökkumaður á Íslandi. Skoðaðu frekar notkun orðsins á rituðum fjölmiðlum á Íslandi eða. Menn verða  nefnilega að vita, hvert þeir eiga að beina spjótum sínum í baráttu við hatrið og fordómana.

Ert þú sjálfur svartur Íslendingur (afrískur Íslendingur) ? Afsakaðu svo nærgöngula spurningu.  Ef þú ert það sannanlega, má vera að ég íhugi að breyta orðalagi hjá mér nema þar sem um beina tilvitnun er að ræða (innan gæsalappa eða í skáskrift). Skilyrðið er að þú og aðrir svartir Íslendingar móðgist út af orðinu blökkumaður. En ég verð að fá betri rök frá þér en að tilsvarandi orð og blökkumaður sé ekki til um hvíta.

Orðið hvítingi er vissulega til, en það er þegar upptekið og stundum notað fyrir albínóa, en í því samhengi er orðið vissulega dálítið hjákátlegt. Þegar næpuhvítir og svínabelgsbleikir Íslendingar uppgötvuðu að til var fólk með annan húðlit en þorri Íslendinga er og var með, var enn ekki til nein krafa frá  svörtum mönnum um hvernig tala  ætti um útlit þeirra, enda svarti maðurinn í 99,9% allra tilfella þræll án nokkurra áhrifa í samfélögum þangað sem þeir voru oftast fluttir nauðugir. Sú krafa kom þó loks frá svörtu fólki, sem náttúrulega leiddist orðin nigger, negro og svo framvegis. Nú þekki ég ekki neinn íslenskan mann, svartan, sem hefur kvartað yfir orðinu blökkumaður. Það gæti verið að þetta hafi breyst, og að einhver svartur Íslendingur hafi gert athugasemd. Þess vegna hringdi ég í lögregluna á Höfuðborgarsvæðinu í þegar ég fékk póstinn þinn. Þar voru allir uppteknir, en símakonan komst að því hjá sérfræðingi að það væri ekki lögbrot sem varðaði t.d. við hegningarlög að nota orðið "blökkumaður", ef ekki væri fari niðrandi orðum um svarta menn.

Ég hef notað orðið blökkumaður í greinum á bloggum mínum tveimur um svarta menn á Íslandi, eins og ég skýri ofar,  - án þess að notkun þess sé á neinn hátt niðrandi (að mínu mati).

Ég geri mér grein fyrir því að orð eins og blakkur minni vitanlega nútímafólk á litaskilgreiningu dýra og þar gæti hnífurinn staði í kúnni.  En lýsingarorðið blakkur er af gamalli rót og sama orðið og black á ensku og af sama meiði og orðin blæc ("black, dark") í fornensku og sögnin að blika á norrænum málum; sem málsifjalega er skylt blakkaz (brennt) í frum-Germönsku og bhleg- (sem þýðir að brenna, skína, glimta og blika á frum-indóevrópsku; Og af sama meiði eru sagnorðin flagrare á latínu (að brenna, tendra, kynda eld) og "phlegein" (að brenna, svíða) á grísku.

Dags daglega nota ég sjálfur ekki orðið svertingi og orðið negri nota ég aðeins sjaldan vegna þess að sumt svart fólk, sem notar orð eins og nigger og nigga um sit sjálft, krefst þess að aðrir geri það ekki.

En þegar orð móðga, án þess að þau varði við hegningarlög ríkja, eigum við þá ekki bara að banna orðabækur eða brenna þær um leið og við brjótum niður styttur á sama hátt og með sama ofsa og liðsmenn ISIS, þegar þeir eru ekki að útrýma fólki? Þá þykir mér baráttan fyrir jafnrétti sökkva í djúpan og dimman hyl.

Það nú líka óumflýjanleg staðreynd að orðið blökkumaður stendur enn í öllum orðabókum íslenskum og lög "orðalögreglunnar" er, eins og allir vita, orðabókin = https://islex.arnastofnun.is/is/ord/6225/tungumal/DA ...

Eins og þú kannski veist hefur ekki fallið dómur yfir mönnum sem nota orðið blökkumaður. Ég hef heldur ekki séð yfirvöld nota ákvæði í lögum um hatursræðu gegn þeim fjölda manna sem á samfélagsmiðlum tjá sig um gyðinga á miður geðslegan hátt, sér í lagi þegar stríð blossa upp fyrir botni Miðjarðarhafs. Maður einn, Bobby Fischer, sem fékk heldur sérstakt dvalarleyfi og ríkisfang á Íslandi, var heldur aldrei sóttur til saka fyrir svæsið gyðingahatur sem hann dreifði um allan heim með hjálp japönsku konunnar sem erfði hans jarðnesku eigur. Bobby var tæknilega séð gyðingur, en hann afneitaði uppruna sínum og hataðist síðan  sjúklega út í gyðinga. EKKERT yfirvald á Íslandi aðhafðist nokkuð vegna brota Fischers á hegningarlögum, þegar hann var orðinn íslenskur ríkisborgari.

Orðið blökkumaður lýsir ekki, eitt og sér ef það er notað hlutlaust (ef það er þá hægt), hatri notenda orðsins á fólki með afrískan uppruna. En nú verð ég líka að minna á að ekki er fólk með afrískan uppruna allt svart. Ég get ekki skýrt fyrir þér af hverju ég er með niturbasa (DNA) í erfðamengi mínu sem gerir að verkum að það eru 5% líkur eru á því að ég eigi negra að forföður á síðustu 500 árum. Þessi svarti angi í mér kemur vafalaust úr ætt föður míns sem var frá Hollandi. Eins hvítur og ég er, er nær ótrúlegt að ég hafi átt svarta forfeður. Eitt sinn var ég á ferð með pabba á Ítalíu í hópferð þar sem flestir voru gyðingar frá Hollandi og tveir frá Súrínam. Það voru tvær konur frá Súrínam komnar vel yfir sextugt, dökkar á húð (svo þær myndu flokkast sem svartar konur), vel í holdum og með álíka stífhrokkið hár og faðir minn. Þær voru reyndar með skærblá augu. Þær horfðu alltaf svo hugfangnar á pabba, að ég unglingurinn var farinn að hafa áhyggjur á hrifningunni í bláu augum systranna. Eitt kvöld sátu þær við sama borð og við og yfir pastinu sögðu þær af þessu glápi sínu. Pabbi var að þeirra sögn "alveg eins og faðir þeirra" í útliti nema að faðir minn var hvítur en faðir þeirra var svartur maður, en blandaður.

En öll samúð mín í garð svarta mannsins og baráttu hans fær mig nú ekki til að hætta að nota orðið blökkumaður í því samhengi sem það var notað á 20. öld, t.d. um blökkumanninn í Hellisgerði, sem var rasísk stytta sem Hafnfirðingar og aðrir höfðu mikið yndi af og grétu sárt þegar hún hvarf. En ég tek þó ekki í mál að kalla hann "svertingja" líkt og helv. Gaflararnir gerðu svo seint sem árið 2006, þessir bévítis þorparar.

Fjardarpóstuinn 29.6.2006Mynd þessi birtist í frétt um "svertingjann í Hellisgerði", sem birtist í Fjarðarpóstinum 29. júní 2006.

Afsakaður orðabelginginn í mér, en málið er vitaskuld viðkvæmt. Of fá orð geta verið hættuleg því við lifum á tímum hálfsögulausra endurskoðunarsinna, sem virðast ekkert betra hafa við tímann að gera en að bregða fæti fyrir náungann með nútíma siðvendni, sem í raun er alveg eins og sama gamla siðvendnin. Ágætt er að benda fólki á að tímar eru breyttir og orð líka, en minni ástæða er til að gera það að einhvers konar sporti, líkt og margir gera, en þar er ég ekki að meina þig.

Með bestu kveðju,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

 

ATH. Innan við klukkustund frá því að ég sendi ungamanninum langloku mína, fékk ég stutt en laggott svar, sem gefur okkur hinum svínslituðu mörlöndum vafalaust góða ástæðu til að íhuga mjög vandlega orðaval okkar:

Já ég er svartur/litaður Íslendingur. Já ég móðgast yfir þessu orði. Fólk hefur kallað mig og mömmu mína allt frá afrikunegrum og apa til múlatta og þeldökkan. Mér svíður mest undan því að fjölmiðlum hérna finnst líka í lagi að nota niðrandi samheiti yfir litað fólk. 

Meira lesefni um vandamálið / Styttan efst ber heitið Negri og er eftir Ásmund Sveinsson. Sjá einnig greinar Fornleifs um sögu svarta mannsins á Ísland, sem og grein á hægri dálki um hvað íslensk mannfræði hefur verið að bauka með sögu svarta mannsins út frá blindri, en jafnframt barnalegri tröllatrú á DNA-rannsóknir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband