Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012
Stúlkan frá Egtved
13.4.2012 | 18:58
Stundum skilur maður einfaldlega ekki baun í tilganginum með sumum rannsóknum á fornleifum. Síðast fékk ég þá tilfinningu er ég heyrði í fréttum hér í Danaveldi um verkefni líffræðings nokkurs við Kaupmannahafnarháskóla. Hann DNA-greinir hár úr fólki frá bronsöld, sem fundist hafa í mýrum í Evrópu.
Líffræðingurinn, Morten Allentoft að nafni, safnar nú hárlokkum af mýrarlíkum, þ.e. fólki sem fórnað hefur verið, eða grafið, í mýrum í Þýskalandi, Póllandi. Oftast eru bein þessa einstaklinga alls ekki varðveitt, en húð og hár eru meira eða minna varðveitt og sömuleiðis fatnaður. Nú síðast fékk Allentoft lokk úr hári Egtved stúlkunnar, sem fannst í Egtved á Jótlandi árið 1921.
Stúlkan frá Egtved er talin einn merkasti fornleifafundur í Danmörku, þó svo að hún hafi ekki verið nema um 16-18 ára að því er fróðustu menn telja. Hún gaf upp öndina, blessunin, um 1357 f.Kr. Þá var hún sveipuð kýrfeldi og lögð í kistu sem var gerð úr eikarbol.
Tilgangurinn með DNA-rannsókninni á hárinu á bronsaldarfólki er sagður vera til þess að sjá, hvort einhver skyldleiki sé með þeim sem teknir hafa verið af lífi eða grafnir úti í mýri á bronsöld.
Þegar ég las um þetta verkefni Allentofts og heyrði, var mér spurn: Telur maðurinn virkilega að hann gæti séð náinn skyldleika manna á milli, þótt þeir hvíli lúin bein eða hafi endað daga sína í mýri einhvers staðar í Evrópu? Ég leitaði því betri upplýsinga en fjölmiðlar gáfu. Blaðamenn skilja ekki alltaf allt samhengið, þótt þeir vilji komast á þing og verða forsetar.
Kom þá ýmislegt í ljós, sem skýrði fyrir mér rannsóknina - og kannski ekki. Kristian Kristiansen, prófessor í fornleifafræði við háskólann í Göteborg ber ábyrgð á verkefninu. Hann langar að endurrita sögu bronsaldar - ekki meira né minna. Hann telur skoðun þá um bronsaldarsamfélagið í Norður-Evrópu, sem hingað til hefur verið við lýði, úrelda. Kristiansen sættir sig ekki lengur við þá túlkun kollega sinna, að bronsöld í Norðurevrópu hafi verið tími lítilla fólksflutninga og ferðalaga. Krisiansen, sem er Dani, telur þessu öðruvísi farið og telur að ýmsir fundir á síðustu árum sýni að mikil hreyfing hafi verið á fólki. Þetta telur hann m.a. sig sjá í forngripunum.
Hann telur að DNA muni gefa svarið. Ég held ekki. Ég held að það sé þegar hægt að sýna fram á hve lítið skylt og blandað fólk í Danmörku, Svíþjóð, Pólandi og Þýskalandi var á bronsöld, með beinamælingum einum saman. Mikill staðbundinn munur í er keramík, en glæsigripir, sem gætu hafa borist um langa vegu sem verslunarvara, þurfa ekki endilega að sýna uppruna þess fólks sem þeir finnast hjá. Gripur frá Búlgaríu í Danmörku sýnir ekki endilega að einhverjir frá Búlgaríu hafi verið í Danmörku.
Kristiansen telur konuna geta hafa verið langförula, því að það er talið að konur hafi oft verið sóttar langt í burtu til að giftast, t.d. til þess að styrkja bönd milli stríðandi hópa. Því telur Kristiansen að DNA úr stúlkunni frá Egtved geti sýnt að hún hafi komið annars staðar frá á Jótlandi eða t.d. frá Sjálandi. En á móti má spyrja, var mikill munur á erfðamengi fólks í austur og vestur Danmörku á þessum tíma? Til þess þarf auðvitað enn frekari DNA rannsóknir, en þær hafa ekki farið fram. Varðveitt bein eru líka af skornum skammti og beinamælingar (osteometria) er því erfið.
Því er oft þannig farið, að þótt gripur sem finnst á Norðurlöndunum, sem er greinilega kominn langt að, þá þýðir það ekki að fólkið sem átti hann hafi verið aðkomufólk úr fjarlægum löndum.
Nú er bara vonandi, að ekki komi í ljós að Egtved stúlkan var söngelskur drengur sem hafði gaman af blómum og að setja hár. En það þætti þeim í kynjafræðinni líklega afar kræsilegt.
Ég er hins vegar viss um, að ef ég fengi lokk úr hári konu minnar, og sendi hann til Allentofts, þá myndi koma í ljós að þær væru nátengdar, enda er konan mín komin af svipuðum slóðum og Egtved stúlkan, og hefur sama fólkið búið þar lengi og talað einkennilegt tungumál.
Efst má sjá Flemming Kaul fornleifafræðing við Þjóðminjasafn Dana (tvífara Kristjáns IV) segja frá stúlkunni frá Egtved á makalausri densku (Danglish).
Fornminjar | Breytt 2.10.2018 kl. 05:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Londonlambið og lærin á dóttur jólasveinsins
7.4.2012 | 08:33
Sjónvarpsmaðurinn Þorsteinn J. Vilhjálmsson bjó til athyglisverða og skemmtilega heimildamynd um hið misheppnaða ævintýri Iceland Food Centre í London. Myndin var sýnd á Stöð 2 í fyrra. Nú hefur Þorsteinn J. fyrir skömmu ákveðið að gefa öllum möguleika á að sjá myndina, sem hann hefur sett á heimasíðu sína http://www.thorsteinnj.is/. Hef ég nýtt mér það og mæli með því að aðrir geri það líka, því myndin er vel upp byggð og dálítið drama. Ég er þó ekki sammála öllu sem haldið er fram í myndinni. Var þetta einhver vasaútrás í líkingu við þá sem síðar olli hruninu á 21. öldinni eins og gefið er í skyn í myndinni? Það held ég að sé af og frá.
Ég át þarna roastbeef á rúgbrauði
Ég kom sjálfur árið 1971 inn á þennan stað íslenska" matstað í Lower Regent Street 5, talsverðan spöl frá, Mount Royal hóteli (Thistle í dag) þar sem ég dvaldi í London með foreldrum mínum. Mig minnir að staðurinn hafi enn heitið Iceland Food Center, þó hann hafi þá líklegast verið kominn undir vængi Angus Steak House keðjunnar. Ég var á Evrópureisu með foreldrum mínum og við höfðum farið með Gullfossi til Skotlands og eftir 2-3 daga þar í borg vorum við nú stödd í London. Þetta var í ágúst.
Eftir að ég sá heimildarmynd Þorsteins, sem helst byggir á rannsóknum Sólveigar Ólafsdóttur sagnfræðings, sá ég að ég hafði munað innréttinguna og litina rétt og man ég t.d. eftir hraunmyndinni sem allir tóku eftir. Ég kom þarna i hádeginu með föður mínum eftir að við höfðum gengið frá British Museum. Pabbi hafði komið þarna áður og hafði þótt ágætt og við lögðum á okkur nokkra göngu til að leita uppi staðinn. Við fengum okkur roastbeef á rúgbrauði, sem mér þótti nú ekkert sérstaklega gott, því þá þótti mér blóðugt kjöt hálfókræsilegt. Það var dimmt þarna inni og óþolandi heitt. Staðurinn líktist mest amerískum Hotel-diner/cafeteríu. Það var engin sæla að borða smurbrauð á Iceland Food Center í 40 stiga hita. Ég get ekki einu sinni gefið þessum stað hálfa stjörnu út frá minningunni.
Ég minnist hins vegar úr sömu ferð með ánægju kjúklingsins í körfu, sem við fengum á veitingastaðnum Chicken Inn við hliðina á Victoria Palace Theatre, þar sem rétturinn Chicken in the Basket var rómaður. Líkt og á Naustinu voru þar þjónar, en innréttingin var í ósmekklegum í breskum stíl með myndum af hestaveðhlaupum og sveitasetrum aðalsins á rauðfóðruðum veggjunum. Ég tók ungur eftir lélegum smekk Breta.
Niðurstöður myndarinnar eru ekki alveg réttar og alls ekki sanngjarnar
Ég leyfi mér að hafa aðra skoðun á nokkrum hlutum í sambandi við Iceland Food Centre en þá sem kemur fram í kvikmyndinni og í ýmsum ályktunum Sólveigar Ólafsdóttur sagnfræðings heimildarmyndarinnar.
Í fyrsta lagi tel ég alls ekki réttlátt að líkja þessari me-me veitingasölu Íslenska ríkisins við þá svikamyllu sem við sáu hrynja fyrir þremur árum. Siggi Einarsson eiturbrasari í London var Michelin kokkur miðað við þetta afdaladæmi í Lower Regent Street. Það var ekki farið út í þetta matarævintýrið á sömu forsendum og loddaravíkingarnir fóru um heiminn. En tíðarandinn var nú ekkert ósvipaður í öðrum löndum, og fólki á 21. Öld, sem ekki man þessa tíma skilur kannski ekki alveg hvernig þeir voru. Það eina sem sameinar þetta er skussahátturinn og skipulagsleysið og vöntun á framtíðarsýn. Íslendingar lifa alltaf í núinu.
Minnimáttarkenndin dreif líka þetta dæmi því, því boðið var upp á Chicken in a Basket sem önnur hver krá og veitingastaður var með á þessum tíma Bretlandseyjum. Lambið var ekki nógu gott eða humarinn. En í landi þar sem matarmenning var langt undir meðallagi, eins og á Bretlandseyjum, voru menn ekki nýjungagjarnir frekar en í öðrum nágrannalöndum Íslands.
Einnig er leitt að Halldór Gröndal, framkvæmdastjórinn á Iceland Food Center, vildi ekki í viðtal í myndinni. Áhorfandinn er skilinn eftir í þeirri meiningu að hann hafi legið drukkinn alla tíma. Það tel ég illa að góðum manni vegið. Séra Halldór var annars opinskár um þessi ár, þegar hann kenndi mér trúarbragðasögu í Hlíðaskóla um 1973, nýorðinn prestur. Hann lagði alls ekki dul á á þennan kafla lífs síns í Lundúnum. Hann sagði okkur krökkunum dæmisögur af því og veitingahúsareynslu sinni.
EL AL hér og EL Al þar
Ég hjó líka líka eftir því að það þykir merkilegt hjá aðstandendum myndarinnar, að húseignin sem var tekin á leigu undir Iceland Food Center tilheyrði ísraelska flugfélaginu El Al. Er tönnlast heldur mikið á því, án þess að áhorfandinn fái nokkru sinni að vita hvort það skiptir einhverju máli. El El hafði verið með skrifstofu á Lower Regent Street 5 mjög lengi og þarna var húsnæði laust.
Hvað kemur það málinu við, að íslenskur kaupsýslumaður í London, Björn Björnsson, fyrrv. bakari í Björnsbakarí og eigandi Hressingaskálans, sem þegar fluttist til London árið 1935, hafi þénað 1250 pund við það að útvega húsnæðið, húsnæði sem sagnfræðingi og framleiðanda heimildamyndarinnar þykir greininga of lítið fyrir það verð. Gefið er í skyn, að íslenska ríkið og hinir 12 athafnamenn sem stóðu að þessu dæmi hafi látið hlunnfara siga, að það hljóti að hafa verið betri staðir til en þessi hola" sem leigð var út af El Al fyrir stórfé. Sólveigu Ólafsdóttur verður svara fátt þegar hún er spurð hvað mikið það 1250 pund séu. Það rétta er að 1250£ árið 1966 er sama og 19.507£ í dag, eða um 3.745.150 ISK, sem eru svo sem lambaspörð miðað við það sem menn taka fyrir sinn snúð á Íslandi í dag fyrir einhverja smágreiða eða þjónustu. Sólveig heldur því fram í myndinni, að árslaun einhvers ótiltekins starfsmanns Flugfélagsins (kannski Páls Heiðars Jónssonar?) í London hafi verið 1250£ á þessum tíma. Hvað kemur það málinu við og hvar er sönnunargagnið?
Heldur sagnfræðingurinn að jafnlaunastefna" hafi ríkt á Englandi á gullöld Labour? Það kostaði á láta menn finna fyrir sig húsnæði á þessum tíma í heimsborginni. Íslendingar fengu enga sérmeðferð. Björn Björnssonvar, sem formaður Íslendingafélagsins og eini íslendingurinn í framtaki í Lundúnum, mörgum hnútum kunnugur. Hann var ekki óþekktur fyrir glæsileika þegar þurfti að búa til veislu og þær kosta eins og kunnugt er. Íslendingar héldu lengi vel á 7. áratugnum árshátíðir á Dorchester Hotel. Þetta var bara dæmigert fyrir flottræfilshátt Íslendinga. Flottasta hótelið, ekkert minna gat gert það.
Því er haldið frem að þeir" (strákarnir í Icelandic Food Centre) hafi farið út til að sigra heiminn" vegna þess að þeir hafi skrifað undir leigusamning til 14. ára. Var hægt að fá stað í miðborg London á leigusamningi til færri ára á þessum árum? Þetta verður að minnsta kosti að rannsaka áður en því er haldið fram að menn hafi ætlað sér að sigra heiminn með lambalæri, London lambi, rækjum og humri. Mig minnir að ýmis lönd væru með landkynningarveitingarstaði í Lundúnum á þessum árum, og þess vegna reyndu menn að gera sitt besta. En þeir eru nú, löngu síðar, ásakaðir um að hafa verið fyrstu útrásarvíkingarnir. Það er einfaldlega mjög óréttlátt og lýsir betur lélegri rannsóknarvinnu en þeim mönnum sem er verið að dæma.
Voru gengilbeinurnar sexí trekkplástur?
Eitt að því einkennilegasta í heimildarmyndinni finnst mér undirtónninn um að stúlkurnar sem unnu í peysufötum og appelsínugulum treyjum og hnésíðum (MIDI) pilsum á Iceland Food Centre hafi verið þar til að trekkja kúnna að með útliti sínu og "sex appíl". Þær koma sjálfar af fjöllum, en voru náttúrlega gullinhamraslegnar, þegar þær eru spurðar um þá hugdettu. Mér finnst jafnvel að verið sé að gefa í skyn skyn að karlarnir í tengslum við þetta framtak hefi verið gömul svín. Það þykir mér langsótt í meira lagi. Að það hafi átt að nota stúlkur sem trekkplástur kemur nú ekki fram í neinum heimildum. Ungar konur voru oft gengilbeinur á þessum tíma, fyrr og síðar, og þótt ein þeirra hafi leikið dóttur jólasveinsins og klæðst nýjustu tísku og sokkabuxum úr Carnaby street, er eitthvað athugavert við það? Skrítið að sagnfræðingur á 21 öld finnist það kyndugt, en misjafnt er auðvitað þol manna og kynáhugamál. Stúlkurnar á IFC í Lundúnum voru ugglaust frómar en lífsgalaðar stúlkur sem ekkert gerðu annað en að púla til þess að koma íslenskri matarmenningu" á framfæri. Þær áttu ekki neinn þátt í því að það mistókst. Þær eiga því ekki skilið að verða skotspænir femínístiskrar fantasíu.
London Læri - eða réttara sagt lærin á dóttur jólasveinsins
Nær hefði verið að dvelja við framleiðanda innréttingarinnar sem græddi á fingri og tá við þetta ævintýri og jafnvel þá er því lauk.
Getur kannski verið að menn hafi verið meiri kosmópólítanar árið 1966 en 2012? Nú er harðstífur mórall og vísifingur femínistaruglsins á lofti í öllum fræðum sem kallast hugvísindi. Allt er gert að klámi. En umbreytt peysuföt eru ekki verða aldrei sexí, ekki einu sinni í augum fornleifafræðings. En ekki ætla ég að að sökkva mér frekar í fantasíur femínistanna.
Kokkurinn á BSÍ er engin heimild heldur léleg fylling
Bjarni Snæðingur með það besta í íslenskri matargerðalist - velbekomme!
Að lokum má nefna, að það virkar sem ótrúverðugleiki að spyrja einhvern braskokk á BSÍ álits á veitingarekstri í London sem hann kom hvergi nærri. Kokkurinn á BSÍ var varla fermdur þegar þetta ævintýri var sett á laggirnar og því eru það einungis djúpsteiktar kjaftasögur og brasað slúður sem hann hefur upp á að bjóða með Gróubúðingi með rugli og rjóma á Leiti. Þórður Sigurðsson, sem kemur einstaklega trúverðuglega fram í myndinni, vann hins vegar á Iceland Food Center í London. Þorsteinn hefði átt að láta nægja viðtal við hann í stað þess að fara að fá hræring frá braskokki á BSÍ eða fínni smábitakokki í London í dag. Maður bjóst jafnvel við að Sænski kokkurinn úr Prúðuleikurunum kæmi og syngi eina uppskrift frá Iceland Food Centre.
Páll Heiðar Jónsson, sem nýlega er látinn, var líka kallaður til sem samtímaheimild, þar sem hann sat broslega setningarhátíð staðarins. Broslegar uppákomur voru margar á Íslandi og á vegu landsins erlendis og ekki við öður að búast að fá eina slíka við opnun Iceland Food Center. Í litlu landi, þar sem menn vilja vera marktæk þjóð, verður margt að grátbroslegri uppákomu. Það verður bara að taka með og sætta sig við einkennilegheit Íslendinga og afdalahátt. Svona voru tímarnir. Við höfðum ekki graða kentára í sendiherrastöðum þa. Það voru líka skrítnir tímar þegar Páll heitinn hælaði með öðrum nýnasistum í Kópavogskirkjugarði við legstað þýskra sjóliða úr 2. heimsstyrjöld - þessi annars svo prúði maður.
Íslendingar halda veislu á dýrasta hótelinu í London árið 1963
Þegar ég var að skrifa þessa grein, rakst ég á mynd af manni í einum af flottræflaveislum Íslendingafélagsins í London á Dorchester Hotel, einu dýrasta hótelinu í Lundúnaborg. Þetta er Loftur flugkappi" Jóhannesson, dáður af sumum sem íslenskur billjóneri" sem meikaði það hér um árið. Hann var þó ekkert annað en ómerkilegur vopnasali sem þjónustaði hryðjuverkaríki og vann fyrir Stasi í vopnaflutningum. Sjá nánar um Loft flugkappa í dag. Þorsteinn J. ætti kannski að að búa til eina bláa mynd um hann. Bláa, því þegar ég hugsa til baka um mynd Þorsteins er þessi blámi sem er yfir öllu. Gott trikk, en gert of mikið úr því. Horfið nú á mynd Þorsteins J.
Sagnfræði | Breytt 14.7.2012 kl. 03:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)