Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Mikilvæg verðmæti

handritin_heim_1971.jpg

Fornleifur er sammála Guðrúnu Nordal. Þegar handritin byrjuðu að koma heim á sínum tíma, hafði í flýti verið reist frekar léleg bygging, sem er í dag er lítið meira varið í en flekablokk í Grafarvogi. Þeir sem biðu eftir handritunum bjuggust við meiru.

Ég heyrði um daginn, að ferðamannaiðnaðurinn hefði nýlega farið fram úr fiskveiðum og -vinnslu hvað varðar verðmætasköpun. Fólk verður að gera sér grein fyrir því, að þegar ríkisstjórnin telur sig hjálpa fólki með lánabyrðarnar, þá heggur hún á lífvænlega undirstöðu þeirrar menningar sem margir ferðalangar koma til að sjá. Peningarnir eru teknir frá menningararfleifðinni og settir í dalla fólks sem sumt var í græðgikasti er það setti sig í skuldir. Handritið og annar menningararfur eru mikilvægar grunnstoðir "ferðamannaiðnaðarins" sem hefur eina mestu verðmætasköpun í landinu. 

Skammtímavermir fyrir fólk, sem flest mun hvort sem ekki er kjósa ríkistjórnina aftur, veldur því að stóra menningarholan hennar Guðrúnar Nordal við Hótel Sögu (sjá hér) verður ekki fyllt með menningarmiðstöð fyrir ritaðan menningararf þjóðarinnar. En ef Íslendingar geta ekki sýnt það glæsilega sem þeir eru frægastir fyrir utan bankahruns og Bjarkar, og byggt upp nútímalegar sýningar á hinum ritaða arfi sem og á fornminjum, þá eykst ekki þessi blómlega verðmætasköpun sem nú keppir við fiskinn. Gestirnir sem færa peninga í búið þurfa í staðinn að horfa niður í stóra gryfju við Hótel Sögu, holu þar sem átti að rísa Hús Íslenskra Fræða. Þar er nú stór ómenningarhylur.

Forsætisráðherra hefur eins og kunnugt er hertekið menningararfinn og ætlar að liggja á honum eins og Miðgarðsormurinn. En hann gerir ekkert að ráði fyrir arfinn. Fornleifafræðingar örvænta. Ráðherrann hefur látið smáskildinga af hendi rakna sem runnið hafa í framkvæmdir á gömlum húsum í kjördæmi hans. Greinilegt er að hann ætlar sér í sparnað á menningararfinum, sem nota á til þess að fjármagna kosningarloforðin. Þetta má einnig sjá á vali hans á embættismanni, Margréti Hallgrímsdóttur, sem var þjóðminjavörður fram til 1. febrúar. Menning er bara í munninum á Sigmundi.

Hvergi í löndum sem við líkjum okkur við, myndi kona með eins litla grunnmenntun og Margrét fá stöðu Þjóðminjavarðar. Hún hefur hins vegar sýnt frábæra takta í að spara, skera niður, reka fólk og loka öðrum söfnum. Margrét situr eins og Neró við hlið Miðgarðsormsins til þess að stjórna niðurrifi, og mikilvæg verðmæti "fuðra upp" í óvissunni og "gætu orðið að engu" eins og Guðrún Nordal orðar það.

Reyndar er ljótt að líkja Neró við Margréti, því nú vita menn að orðspor Nerós hefur verið svert af samtímamönnum hans og sagnfræðingum um aldaraðir. Hann var ekki einu sinni í Róm þegar borgin brann. En flestir muna ef til vill eftir því, að Guðrún Nordal sótti handrit í Þjóðmenningarhúsið, vegna þess að þessi óábyrgi þjóðminjaneró vildi ekki hafa næturvaktmann í húsinu (sjá hér). Færri vita að aðkomu hennar í lokun Náttúrminjasafns Íslands og er það hin ljótasta saga.

simmi_et_nero.jpg
Neró og Sigmundur
 

Ef taka á Sigmund Davíð alvarlega og þennan rómaða "menningaráhuga" hans, verður að efla það hugvit og þær stofnanir sem margir ferðamenn hafa áhuga á. Margréti Hallgrímsdóttur hefur ekki tekist það, þótt hún hafi fengið nýtt safn upp í hendurnar eftir að Þór Magnússon var látinn fara fyrir áratuga skussahátt og óreiðu. Þjóðminjasafnið er enn statísk stofnun með storknaða sýningu, og er starfsólkið í fræðilega hlutanum fátt og ekki eins vel menntað og það ætti að vera. Þjóðminjasafnið er með ómögulega safnastefnu. Gæslufólk á ekki að vera í meirihluta starfsmanna á safni og kökubakstur í anddyrinu á ekki að vera helsti reksturinn, þótt kaka sé vissulega líka mikil menning. En það sýnir vel forgangsröðunina að skrifstofustjóri safnsins gengur í starf Margrétar á meðan hún er í sérverkefnum fyrir Sigmund.

Sigmundur verður nú að sýna hinn mikla áhuga sinn fyrir öllu fornu og fallegu sem fyrst. Annars er ljóst að hann er bara áhugamaður um gerviantik eins og þá sem hægt er að kaupa í of dýrum skranbúðum. Það er ekki nóg að segja túristunum frá handritunum í rútunni, og miðað við staðnaða menningarmiðlun Þjóðminjasafnsins og svöðusárið hjá Bændahöllinni, þá er Sigmundur ekki í verðmætasköpun. Hann er bara að borga fyrir gömul kosningarloforð og gerir það á kostnað menningararfsins í landinu.


mbl.is Mikilvæg verðmæti gætu orðið að engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínir bræður, víðar er fátæktin en á Íslandi

ferdinand_medici_mauri_livornese.jpg

 

Síra Ólafur Egilsson prestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum (1564-1639) var einn þeirra Íslendinga sem mannræningjar námu á brott á hinn hrottalegasta hátt árið 1627. Mannrán sjóræningja frá Alsírsborg var ekki aðeins aðferð til að ná í þræla og ambáttir. Leikurinn var einnig gerður til þess að reyna að krefjast lausnargjalds. Þetta var ekkert annað en fjárkúgun á fólki sem þótti vænna um mannslíf en mönnum þótti í Norður-Afríku. Sumir sjóræningjanna voru Norðurevrópumenn, t.d. Hollendingar sem sjálfum hafði verið rænt og sem höfðu snúist/eða verið beygðir til Íslam. Þess vegna var síra Ólafur settur á skipsfjöl í Salé, ári eftir að hann kom í Barabaríið. Skipið sigldi  til hafnarborgarinnar Livorno í Toscana á Norður-Ítalíu. Ólafur var talin vænlegastur Íslendinganna til að koma skilaboðum um lausnargjaldskröfu til réttra aðila.

jan_luykens_slaves.jpg
Hluti af ristu eftir Jan Luykens í bók Pierre Dans Pierre. Historie van Barbaryen, en des zelfs zee-roovers, 2 delen. Amsterdam: Jan Claesz ten Hoorn, 1684. Hægt er að stækka myndina mikið með því að klikka á hana, og sjá hana alla hér í boði Fornleifs.

 

Reisubók Séra Ólafs var gefin var út í danskri þýðingu árið 1741 og síðar á íslensku í Höfn. Hún er til í fjölmörgum afritum og er frábær heimild um mannránin á Íslandi, dvöl Íslendinganna í Barabaríinu, en sömuleiðis vitnisburður af ferð Ólafs frá Salé til Íslands, sem og af gífurlega glöggu auga prestsins. Ég hef margoft lesið bókina í ágætri útgáfu Sverris Kristjánssonar sem kom út hjá AB árið 1969, sömuleiðis sum handritin, og dönsku útgáfuna frá 1651. Sumar lýsingar síra Ólafs eru mér eftirminnilegri en aðrar. Þótt Reisubókin sé stutt finnst mér ég alltaf vera að uppgötva nýja hluti í hvert sinn sem ég les frásögnina.

Livorno

Ég held mikið upp á lýsingunni á ferð hans frá Salé (nú í Marokkó), sem tók lengri tíma en ætlað varð þar sem sjóræningjar eltu skipið og skipstjórnaði hörfaði allt austur til Möltu. Áhöfn og farþegar urðu vatnslausir og urðu að leita lands til að finna sér vatn.Ólafur lýsir ferðafélögum sínum þannig:

Fyrst voru þar á þeir Italiani vij, Gyðingar iiij, hverjir mér gáfu nokkra brauðmola stundum, item iiij Engelskir, iiij Spanskir, v Franskir, og þá óttaðist eg, því þeir sáu jafnan súrt upp á mig, item v Þýskir með mínum förunaut. 

Það bætti enn í hræðsluna og hremmingar síra Ólafs, þó svo að súrir Frakkar væru alveg nóg. Skipið var einnig sett í sóttkví og er lýsing Ólafs sú fyrsta sem til er af þeirri aðgerð í sögu Evrópu. Íslendingar eru alltaf á staðnum. Loks komst Ólafur í land í fríföninni Livorno, sem hann kallaði Legor (þ.e. Leghorn sem var annað nafn borgarinnar sem Norðurevrópumenn kölluðu hana). Honum þótti mikið til borgarinnar koma, og fékk glorsoltinn vín epli og ost þegar hann komst í land eftir 6 daga á ytri höfninni í Livorno. Hann lýsir borginni vel, m.a. miklu "meistaraverki" sem fyrir augun bar: ­­

Þessu framar sá eg þar það meistaraverk, sem eg sá hvergi slíkt, hvað að voru iiij mannsmyndir steyptar af eiri, sem að svo sátu við einn stólpa af hvítum marmarasteini. Þær myndir voru í fjötrum af eyri. Stólpinn var ferskeyttur og sat einn við hvern flöt, og sáu því nær út sem lifandi menn, eftirmynd eins Tyrkja og þriggja hans sona, hverir eð kristninni höfðu stóran skaða gert, þeir eð voru að vexti sem risar, en sá hertogi sem þann stað byggði, vann þá í stríði, og lét svo steypa þeirra myndir til minningar, og hans mynd stendur upp yfir þeim með stóru sverði í hendi, og þar á múrnum eru settir Tyrkja hausar í kring, og svo rekinn stór gaddur í gegnum þau ofan í múrinn. Nú hljóðar ritningin, að ólukkan sú kom i yfir þá óguðlegu, sem þeir fyrirbúa þeim.livorno_lille.jpg

Stytta þessi stendur enn í dag í Livorno. Hún var gerð af Giovanni Bandini og Pietro Tacca á árunum 1617-1626 og sýnir Ferdinand I Medici greifa sem gerði Livorno af fríhöfn árið 1595. Gyðingar borgarinnar sem voru fjölmargir þökkuðu fyrir borgararéttindi sín með því að borga fyrir þetta mikla verk. Koparristan er eftir Stefano della Bella og er frá 1655.

 

Marseille

Ólafur ferðaðist frá Livorno til Marsaille og aftur var Ólafur í vanda:

Um kvöldið þess sama daga fékk eg hvergi hús í þeim stað allt til dagseturs. En eg bað með grátandi tárum vel í 20 stöðum. Á móti sjálfu dagsetri þá kom að mér ein kvinna, sem til mín talaði í réttri íslensku, þar eg sat með harmi hugar, sú sem sagðir: "Hvað ertú fyrir einn?". Eg ansaði og sagði: "Einn aumur Íslendur" Ertu Íslendur?" sagði hún, "svo kom með mér. Ég skal ljá þér hús í nótt. Eg er og svo íslend kvinna og svo herleidd." En þá ég kom í hennar hús, þá voru þar bæðir þýskir menn og engelskir, hverir að undirstóðu mín orð, og einn af þeim engelsku þekkti mig, sá eð var einn brillumakari. Þessi sagði, eg væri einn prestur af Íslandi. Þá skipaði hún mér strax út áf húsinu. Í því bili, þá hún tók til mín og vildi hrinda mér út af húsinu, þá uppvakti guð minn góður einn þýskan kaupmann. Sá gekk strax fram og upp frá drykkjuborðinu - því það var víndrykkjarhús - og lofaði að bítala fyrir mig mat og drykk, hús og sæng svo lengi sem ég væri í þeim stað.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort kráarmúttan íslenska hafi ekki í raun verið táknmál hjá síra Ólafi fyrir sjálfan djöfulinn, sem reyndi að lokka hann. Líklegast hefur hann í veruleikanum látið lokkast af portkonu og lent á porthúsi þar sem hann var ekki borgunarmaður fyrir neinu.

Þá má furðu sæta að Ólafi hafi tekist að ná til Íslands, aura- og allslausum, en á einhvern yfirnáttúrulegan hátt hitti hann ávallt gott fólk og gjafmilt sem hjálpaði honum í nauð og áfram áfram á ferð sinni. T.d. hinn hollenski kapteinn Caritas Hardspenner sem tók hann upp á arma sína í Marseille og sigldi með hann til Hollands á aðfangadag jóla 1628. Ferðin tók rúman mánuð. Ólafur segir frá:  

11 dögum fyrir Pálsdag missti ég um nóttina mína nærpeysu, hverja ég hafði þvegið  og upp í togin fest, hverja bátsfólkið niður sté um nóttina, þó óviljandi, svo eg þá ekki hefi eftir á mínum kropp, nema skyrtu gamla og lífstykki gamalt, í hverju ég var með fyrstu fangaður. Og strax þar eftir missti eg af hattinn af veðri. Þá gaf mér aftur annan hatt lítinn og gamlan minn frómi Caritas, og einn stýrimaður hálfa peysu gamla, en eg keypti hálfa sjálfur.

Í Kaupmannahöfn vildi Kristján 4. engu spandera á herleidda þegna frá Íslandi, sem nú voru fangar í Barbaríinu. Hann þurfti að nota hvern dúkat og eyri í hallir sínar og stríð. Hann fyrirskipaði því söfnun í kirkjum á Sjálandi og henni lauk ekki fyrr en 1635. Fé það sem þar safnaðist, sem og gjafir af Íslandi, voru sendar til mannræningjanna, sem að öllum líkindum hafa verið með vafasama umboðsmenn í Hollandi og Livorno sem tóku sér ríflega prósentu. Íslendingar voru leystir úr haldi fyrir um 4000 kýrverð eða 16.687 dali. Hinir útleystu voru þó aðeins 37 að tölu, en talið er að 300 Íslendingar hafi ekki snúið heim úr ánauðinni. Sumir vildu reyndar ekki snúa aftur, voru líklega af því kyni sem þykir allt betra annars staðar, sumir voru of dýrir, enn aðrir dauðir og snúnir til Íslam.  

Fyrir hina 300 Íslendinga voru aldrei manngjöld greidd. Þeir lágu óbættir hjá garði. Líkt og þeir rauðhæru kynlífþrælar sem hnepptar voru í þrældóm og fluttar til Íslands af norskum höldum, ef trúa skal DNA-fræðingum (sem ég geri aðeins mátulega). Konu sína, Ástu Þorsteinsdóttur, prests á Mosfelli, fékk Ólafur aftur úr Barbaríinu árið 1637, en þrjú börn þeirra urðu eftir. Síra Ólafur hefur örugglega andast í mikilli sorg. Ásta lifði mann sinn fram í háa elli. Ekki hefur sorgin verið henni minni.

Fleygust athugasemda síra Ólafs þykir mér: Mínir bræður, víðar er fátæktin en á Íslandi, sem hann lét flakka um lífið í Marseille. Þetta er eru orð sem enn eiga við og sem margir hálærðir prófessorar og herrar landsins hafa ekki skilið.

luykens_detail.jpg

Flogið hátt

Grein þessi birtist árið 2008 í því ágæta riti Sagan Öll meðtitlinum "Flogið hátt lotið lágt".

litli belgur  

Fimmtíu ár voru liðin síðastliðið sumar frá því að nokkuð sérstætt loftfar sást á sveimi yfir Íslandi. Þetta var mannaður loftbelgur og flug hans var hið fyrsta sem farið var á slíku fari yfir Íslandi. Flugferðin átti sér stað sunnudaginn 23. júní 1957 í tengslum við Flugdag sem Flugmálafélag Íslands hélt. Flugmálayfirvöld höfðu fengið tilboð um sýningu á loftbelgsflugi frá hollenskum hjónum, Jo og Nini Boesman, sem þá voru orðin heimsfræg fyrir lofbelgjaflug sín víða um lönd. Ákveðið var að bjóða hjónunum hingað og komu þau með lofbelginn Jules Verne, sem var nýkominn úr sinni fyrstu för. Lofbelgir þessa tíma voru gasbelgir, frábrugðnir þeim belgjum sem mest eru notaðir í dag, þar sem notast er við heitt loft sem er blásið inn í belginn með gasblásara. Reyndar var líka notast við heitt loft í fyrstu lofbelgina á 18. og 19. öld en oft tókst illa til og belgir áttu það til að hrapa til jarðar.

Lent við Korpúlfsstaði 

Gasbelgur eins og Jules Verne var eins og stór blaðra fyllt með vetni. Vetnið í belginn fékkst á Íslandi í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Gasbelgir þessa tíma voru umvafðir sterku, stórmöskva neti sem tengdist burðarlínunum sem karfan hékk í. Þegar landfestar voru leystar og sandpokar tæmdir, steig belgurinn fullur af vetni til himins eins og lögmál gera ráð fyrir. Ef belgfarar vildu til jarðar töppuðu þeir hins vegar smám saman vetni af belgnum. 

Flugbelgnum Jules Verne var flogið frá Reykjavíkurflugvelli og lent var á túninu við Korpúlfsstaði. Ekki var því um langa ferð að ræða. Mikilvægur þáttur við þetta flug var póstur sá sem mönnum bauðst að senda með belgnum. Áhugafólki um frímerki, sem var fleira þá en nú, bauðst að senda bréfkort eða ábyrgðarbréf með belgnum. Bréfin og kortin voru stimpluð með sérstökum stimplum, sem síðar skal vikið að. Þegar sérstöku pósthúsi ballónflugsins á Reykjavíkurflugvelli var lokað klukkan þrjú eftir hádegi og umslög og kort höfðu verið stimpluð, var þeim vandlega komið fyrir í 10 kg póstpoka sem var lokað og hann innsiglaður. Í honum voru 2.480 bréf samkvæmt frétt Morgunblaðsins tveimur dögum síðar.

Belgurinn flaug svo af stað í góðu veðri og sveif austur fyrir borgina með Boesman-hjónin prúðbúin undir flugsamfestingnum. Þegar loftbelgurinn lenti við Korpúlfsstaði var þar margmenni sem tók á móti belgnum og reyndi að hemja hann þegar hann lenti. Allt gekk vel í þessari fyrstu belgför á Íslandi. Póstritari frá Pósti og síma fór með póstsekkinn að pósthúsinu að Brúarlandi í Mosfellssveit og voru kort og bréf, sem hollensku hjónin höfðu haft milli fóta sinna í mjög lítilli körfu belgsins, stimpluð móttökustimpli, og aftur í Reykjavík áður en bréfin voru send móttakanda.

Hollendingarnir fljúgandi

Boesmann hjónin, Jo (1914-1976), sem einnig kallaði sig Jan, John og Johan og Nini (fædd Visscher, 1918, andaðist 2.júní 2009), höfðu bæði flogið síðan á fjórða áratugnum. Reyndar flaug Jo ekki mikið á stríðsárunum. Hann var gyðingur og þurfti því að fara í felur. Hann hafði fyrst flogið loftbelg árið 1934 og hún árið 1937. Eftir stríð giftust Jo og Nini og fóru hjónin víða og flugu mismunandi flugbelgjum í fjölda landa. Oft var flug þeirra fyrsta flugbelgsflug sem

 

belgur 1  

Mynd 1. Loftbelgurinn Jules Verne tilbúinn til brottfarar á Reykjavíkurflugvelli. Sjóklæðagerðin og Belgjagerðin höfðu greinilega keypt sér góða auglýsingu á belgnum. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.belgur 2

Mynd 2.  Loftbelgurinn Jules Verne, með einkennisstafina OO-BGX, stígur til himins frá Reykjavíkurflugvelli. Belgurinn var búinn til í Belgíu hjá lofbelgjagerð Albert van den Bembdens og var fyrst skráður 31. maí 1957. Í körfunni standa Boesman hjónin prúðbúin að því virðist [Þetta er reyndar faðir minn heitinn sem boðið var í prufuferð með frú Nini Boesman]. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.

flogið var í þessum löndum. Þannig voru þau fyrst til að fljúga lofbelg yfir Grikklandi árið 1952, á Jamaíku 1953, í Súrínam 1955, Suður-Afríku 1958, í Ísrael og Írak árið 1959, Malí 1963, Pakistan 1964, Júgóslavíu 1967 og Marokkó 1968. Á ferli sínum sem kapteinar á belgjum, fóru þau því víða og gaf Jo Boesman út þrjár bækur um ævintýri sín og flugbelgjaflug t.d. Wij waren en de Wolken (Við vorum í skýjunum) og seinni útgáfa þeirrar bókar Luchtic Avontuur (Ævintýri í loftinu). Löngu eftir dauða hans var gefin út bókin Gedragen door de Wind (Á valdi vindsins) (1990) sem fjallar um 50 ára feril Nini Boesman, sem enn er á lífi. Bæði hjónin teljast til fremstu belgfara 20. aldarinnar.

Kaffiboð var munaður 

Mér sem er höfundur þessarar greinar og fæddur þremur árum eftir að þetta fyrsta ballónflug átti sér stað, þótti ávallt gaman að heyra um og skoða myndir frá ballónfluginu árið 1957 í myndaalbúmi foreldra minna. Faðir minn hafði, sökum þess að hann var ættaður frá Hollandi, komist í samband við ballónfarana og lenti í því að greiða götu þeirra og uppvarta þá á ýmsan hátt og varð úr því nokkuð amstur, enda ævintýrafólk oft fyrirferðarmikið. Myndir þær sem fylgja þessari grein voru allar teknar af móður minni og föður. Eins og fram kemur var ballónförunum boðið í íslenskt kaffiboð með tertum, smákökum og öllu tilheyrandi. Í Hollandi þekktust ekki slík kaffiboð og -borð á þessum tíma. Allt var enn skammtað og Hollendingar voru lengi of fátækir eftir Síðari heimsstyrjöld til að leyfa sér slíkan munað. Kökurnar féllu greinilega flugbelgsförum í geð og var ein rjómaterta móður minnar skreytt með mynd af lofbelgnum.

ballon 3

Mynd 3. Frá vinstri sitja Jacques Deminent vinur og samstarfsmaður Boesman hjónanna í Haag, Jo Boesman, standandi er móðir höfundar sem býður kaffi og kökur og til hægri við hana situr Nini Boesman. Ein hnallþóran var skreytt með mynd af loftbelgnum Jules Verne. Ljósm. Vilhjálmur Vilhjálmsson.

lítill belgur lentur

Grunsamlegur Ballónpóstur

Hinn 8. febrúar 1958 skrifaði Jónas Hallgrímsson (1910-1975) forstöðumaður Manntalsskrifstofunnar í Reykjavík og frímerkjafræðingur einn af sínum mörgu frímerkjapistlum í Morgunblaðið. Fyrirsögn greinarinnar í þetta sinn var hins vegar aðeins frábrugðin því sem menn áttu að venjast í fáguðum frímerkjapistlum Jónasar: „Íslenzkur ‘ballón-póstur´ falsaður" stóð þar:

„Þess hefur orði vart hjá bresku fyrirtæki, sem sérstaklega er þekkt vegna sölu alls konar flugfrímerkja og umslags sem send hafa verið með sérstökum flugferðum, að það hefur haft á boðstólum póstkort sem á er stimplað, að þau hafi verið send með loftbelg þeim, er hóf sig til flugs á Reykjavíkurflugvelli 23. júní 1953 og tók með sér takmarkað magn af pósti ... Verð þessara póstkorti hjá fyrirtæki þessu er aðeins 15 shillings, en vitað er að verð þeirra bréfa, sem send voru með loftbelgnum fór ört hækkandi skömmu eftir að flugið átti sér stað og hafa umslög þessi komist í allhátt verð og að undanförnu verið seld á 350 kr. stykkið. -  Óneitanlega vakti það athygli manna, að komast að því hvernig þessu var háttað og skrifaði því safnari hér í bænum fyrirtæki þessu og bað um að senda sér eitt „ballón" umslag, en fékk það svar, að umslög þau sem send voru með loftbelgnum væru ekki fáanleg, en í stað þess var honum sent póstkort það er hér birtist mynd af, en það sem það sem strax vakti athygli, var það að í fyrsta lagi var kortið stimplað með venjulegum Reykjavíkur stimpli og dagsetningin í honum  - 26.6.1957 -  en eins og áður segir var haldinn flugdagur Flugmálafélagsins 23. júní 1957."

Skrýtin póstkort 

Ekki var nema von að Jónas frímerkjafræðingur hafi klórað sér í höfðinu þegar hann sá þessi skrýtnu póstkort. Til að fá stimpluð ábyrgðarbréf og póstkort á Reykjavíkurflugvelli þann 23. júní 1957 urðu menn að setja minnst 25 krónur á ábyrgðabréfið og 90 aura á póstkortin sín. Bréfin voru stimpluð með póststimpli Flugdags á Reykjavíkurflugvelli á framhlið en á bakhlið með póststimpli pósthúsanna á Brúarlandi og í Reykjavík.

Á framhlið bréfanna var einnig sérstakur sporöskjulaga stimpill lofbelgsfaranna, sem á stóð „The Hague Balloon-Club Holland, on board of the freeballon „Jules Verne", Ballooncomm[ander]. John Boesman." Á kortinu sem hægt var að kaupa í Lundúnum, var aðeins póststimpill pósthússins í Reykjavík með dagssetningunni 27.6. 1958, en engir stimplar á bakhlið eins og á bréfunum frá 23.júní. Á póstkortunum sem voru til sölu á 15 shillinga voru hvorki 25 kr. eða 90 aurar í frímerkjum. En þau báru hins vegar stimpil Jo Bosesmans, sem hafði verið notaður þann 23. júní, en þar fyrir utan var stimpill, sem á stendur: FLUG  MALAFELAG  ISLANDS: FIRST FLIGHT BY DUTCH BALLOON: Pilots: John & Nini Boesman, REYKJAVIK - 1957.

belgur 4

Mynd 4. Stimplar ballónflugsins. Hinn opinberi (neðst) og stimpill sem notaður var á fölsuð umslög sem seld voru í London. Báða stimplana stimpluðu Boesman-hjónin í gestabók í Reykjavík 26. júní 1957

Ef þessi grunsamlegu kort, sem Jónas Hallgrímsson bar réttilega brigður á eru skoðuð nánar, er augljóst að einhverjir hafa reynt að gera sér belgflugið að féþúfu með vafasömum hætti. Vafalaust voru það Boesmann hjónin sjálf. Póstkortin bera stimpil þeirra, sem þau ein höfðu undir höndum, og íslenskan á einum stimplanna bendir ekki til þess að Íslendingur hafi staðið að gerð þessara korta.

Alvarlegt mál 

Þessi póstkort, sem enn eru á markaðnum, og sem valda því að menn erlendis og á veraldarvefnum telja ranglega að fyrsta flug loftbelgs á Íslandi hafi átt sér stað 26. júní 1957, en ekki þann 23. júní, bera oft myndir af þeim hjónum. Slík kort hafa vart verið til í miklum mæli á Íslandi og er því afar ólíklegt að aðrir en Boesman hjónin sjálf hafi verið að reyna að drýgja tekjurnar með minjagripasölu þessari.

Jónas Hallgrímsson hvatti árið 1958 yfirvöld til að rannsaka þessi dularfullu umslög og hann orðaði áskorun sína þannig: „Það gefur því auga leið, að um alvarleg vörusvik er að ræða eða jafnvel fölsun á verðmætum og vil ég eindregið vara safnara við að kaupa ekki þessi póstkort þótt þeir hafi tækifæri til ...Vegna þessa atburðar, ættu þeir aðilar sem að þessu „ballón" flugi stóðu, t.d. Flugmálafélag Íslands og póststjórnin, að taka þetta mál til rækilegrar rannsóknar og fá úr því skorið hvaðan þessi póstkort hafa borizt á frímerkjamarkað erlendis". 

Ekki mun það hafa gerst svo kunnugt sé. Þetta mál var reyndar smámál miðað við frímerkjamisferlismálið sem kom upp árið 1960. Nokkrir starfsmenn Pósts og Síma urðu þá uppvísir að því að taka gömul frímerki í stórum stíl úr geymslum Póstsins. Það mál var, þótt alvarlegt væri, ekki aðalskandallinn á Íslandi árið 1960. SÍS málið svokallaða var í algleymingi og var það meira að vöxtum en rauður loftbelgur og nokkur umslög.

belgur 5

Mynd 5. Tveir menn halda á póstpokanum sem flogið var með í lofbelgnum. Pokinn innihélt umslög heiðvirðra póstáhugamanna og -safnara, sem sáu fram á skjótan gróða af umslögum sínum sem send voru með loftbelgnum. Á þessum tíma þótti frímerkjasöfnum hollt og gagnlegt tómstundargaman, sem menn brostu ekki að eins og oft er gert er í dag. Sumir gerðu sér þá grillu að frímerki ættu eftir að verða góð fjárfesting, sérstaklega örfá umslög sem höfðu verið send í fyrstu ferð lofbelgs á Íslandi. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.

 postritari_lille4

Mynd 6. Starfsmaður Pósts og Síma heldur á innsigluðum poka með bréfum og kortum sem send voru með lofbelgnum. Árið 1960 var þessi og aðrir starfsmenn Pósts og staðnir að misferli með frímerki úr safni Póstsþjónustunnar. Hinir seku voru dæmdir í fangelsi og háar fjársektir fyrir að hafa stungið gömlum og fágætum frímerkjum, sem geymd voru í læstum skáp, í eigin frímerkjasöfn eða selt þau. Ljósm Erla Vilhelmsdóttir.

belg_haldi_a_vi_korpulfssta_i_b.jpgMynd 7. Loftbelgurinn nýlentur á Korpúlfsstaðatúni. Nini Boesman situr i körfunni og til vinstri við hana standa Jacques Deminent og Jo Boesman. Maðurinn með hattinn er starfsmaður Pósts og Síma. Ljósmynd Erla Vilhelmsdóttir.

Minnisstæð för

Hvað sem líður misferli með umslög og frímerki flugdaginn árið 1957, var ferð Boesman-hjónanna þeim minnisstæð. Nini Boesman gefur litríka lýsingu af því sem gerðist á Íslandi í endurminningum sínum sem gefnar voru út. Hún greinir þar frá flugi belgsins á flugdeginum og segist hafa verið í lofbelgnum Marco Polo, sem er misminni. Hún lýsir aðdragandanum og ferðinni og vandamálum við að fylla belginn með vetni frá Gufunesi, því ekki voru til nægilega mörg gashylki í Gufunesi til að fylla hann í einni umferð.

Hún minnist þess að Agnar Kofoed Hansen flugmálastjóri hafi boðið þeim belgflugshjónum í flugferð í Cessnunni sinni til að sýna þeim landslagið fyrir flugferðina. Hún lýsir Reykjavík úr lofti sem stórri litríkri blikkdós, þar sem sum þökin voru máluð ljósblá, önnur rauð, gul eða græn. Fólk vinkaði til hennar frá svölum sínum og húsþökum og hrópaði eitthvað sem Nini Boesman túlkaði sem „góða ferð".

Fúlskeggjaður villimaður 

En eitthvað hafa minningar hennar verið komnar á loft 32 árum eftir flugið. Hún lýsir lendingunni og segið að það hafi fyrstur komið á vettvang maður, með langt og mikið skegg. Hún hélt að hér væri kominn einhver villimaður og vissi ekki hvað á sig stóð veðrið. Svo tók sá skeggjaði til máls og tilkynnti henni á fínni ensku, að hún væri lent í landi Þingvalla, þar sem Alþingi hefði verið stofnað árið 930. Sá skeggjaði hafði verið í Kína í áraraðir en var nú sestur í helgan stein sem bóndi og umsjónamaður lítillar kirkju.

Sá skeggjaði gæti hafa verið sr. Jóhann Hannesson síðar prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands (1910-1976), sem var þjóðgarðsvörður á þessum tíma. Hann hafði verið trúboði í Kína og var með snyrtilegt skegg, en var langt frá því að geta talist villimannlegur. Ætlunin hafði verið að reyna að komast til Þingvalla, en belgurinn komst ekki lengra en til Korpúlfsstaða, þar sem hann lenti heilu og höldnu eftir tveggja og hálfs tíma flug. Þar var þegar saman komið margmenni er belgurinn lenti. Nini Boeseman lýsir því svo hvernig hinn skeggjaði maður létti henni biðina þangað til að bílar komu aðvífandi. Fyrstur á staðinn var „póstmeistarinn" sem spurði: „hvar er pósturinn"? og frú Nini Boesman segist hafa hafið póstpokann sigursællega á loft og fengið rembingskoss fyrir af póstmeistaranum, sem spurði hvor að ekki væri allt í lagi um borð. Hann ku svo hafa dregið fram flösku af ákavíti og hellt á mannskapinn sem skálaði fyrir ferðinni. Svona er sagan auðvitað skemmtilegri, þótt margt af því sem frú Boesman man sé greinilega misminni eða hreinar ýkjur.

Hvað varð svo um belginn Jules Verne? Hann breytti um nafn eftir hentugleikum en gekk einatt undir gælunafninu Le Tomate, eða tómaturinn. Hann var tekinn af skrá árið 1973 og var þá kallaður Pirelli þar sem hann flaug fyrir samnefnt dekkjafyrirtæki. 

belgur 7

Mynd 8. Loftbelgurinn nýlentur á Korpúlfsstaðatúni og margmenni tekur á móti honum. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.

TF-HOT

Löngu síðar, eða 1972, var mönnuðum lofbelg aftur flogið á Íslandi. Það gerði ungur maður sem á menntaskólaárum sínum í Hamrahlíð hafði gert tilraunir með lofbelgi og geimflaug. Geimflaugin fór reyndar hvergi, þar sem geimflugasmiðirnir höfðu ruglast á tommum og sentímetrum á breidd eldsneytistanks flaugarinnar. Holberg Másson, einn geimskotsmanna, sem flaug loftbelg á Sandskeiði árið 1972 keypti síðar almennilegan flugbelg frá Bretlandseyjum árið 1976 og flaug mikið með farþega sumarið 1976. Meðal annars gafst mönnum möguleiki á því að fara í loftferðir með loftbelgnum TF-HOT á útihátíð við Úlfljótsvatn. Belgurinn var heitaloftsbelgur og því mjög frábrugðinn belgnum Jules Verne sem flogið var hér sumarið 1957. Reyndar var breskur belgfari, Dunnington að nafni, um tíma búinn að ræna heiðrinum af Holberg Mássyni, en þóttist hann vera fyrsti maður sem flaug heitalofts loftbelg á Íslandi árið 1988.

Hassi smyglað með loftbelg 

En ekki var önnur kynslóð loftbelgja á Íslandi laus við skandal frekar en sú fyrsta, en það mál var miklu alvarlegra en nokkur frímerki og fölsuð fyrstadagsumslög. Eigandi belgsins TF-HOT, Holberg Másson, sem einnig reyndi við heimsmet i lofbelgsflugi í Bandaríkjunum, smyglaði hassi með lofbelg sem hann flutti inn frá Bandaríkjunum til Íslands. Síðar, þegar þessi loftbelgsfari var búinn að afplána dóm sinn, varð hann fyrsti maðurinn á Íslandi til að tengjast tölvuneti og var reyndar líka frumkvöðull í pappírslausum viðskiptum fyrirtækja á Íslandi. Slíkar aðgerðir hafa síðan hafið sig í ólýsanlegar hæðir. Kannski eru miklu fleiri Íslendingar komnir í hörku belgflug án þess vita það. En ef menn eru í vímu í háloftunum er það vonandi frekar út af fegurð landsins en vegna kynlegra efna.

Síðastliðið sumar var flogið með lofbelg á norðanverðu landinu, til dæmis við hvalaskoðun, og þykir þetta greinilega ekkert nýmæli lengur. Sumarið 2002 var hér á landi svissneskur hópur frá verkfræðistofu með grænan belg sem þeir flugu um allt land (hægt er að skoða myndir þeirra á veraldarvefnum: http://www.inserto.ch/ballon/20022006/index.html# [Hlekkurinn er ekki lengur virkur], þar sem líka er hægt að lesa greinagerð þeirra um ferðina).

Ballonclub Iceland B

Eitt hinna löglegu "fyrstadagsumslaga" frá 23.6.1957. Geðþóttaákvörðun póstmeistara í Reykjavík réði því að flugpósturinn sem flaug í loftbelgnum yrðu að vera frímerkt sem ábyrgðarpóstur. Hér hefur sendandinn fengið Nini Boesman til að árita umslagið sem flaug með flugbelgnum.


Torfhús í Hollandi

plaggenhut_nederlands-openlucht-museum.jpg

 

Margir Íslendingar skömmuðust sín mjög fyrir að hafa búið í torfhúsum. Sumir menn, sem fæddust á fyrri hluta 20. aldar og fyrr, hafa reyndar haft þá draumsýn að skálar að fornu hafi verið miklu merkilegri hús en síðari tíma gangna- og burstabæir, eða þá kotin sem þeir fæddust sumir sjálfir og ólust upp í, sótugir í fasi. Það er þjóðernisrómantík, sem hefur alið af sér sögufölsun og afskræmi eins og Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, sem á ekkert skylt við síðasta skálann á Stöng í Þjórsárdal, sem eftirlíkingin á að sýna.

Ekki var "torfkofinn" fyrr yfirgefinn á Íslandi, en að einhver ruddist yfir hann með jarðýtu sem fengin var að láni úr vegavinnunni. Ég hef talað við gamlan mann sem ruddi niður rústum og torfbæjum í sveit þegar hann vann við vegavinnu. Það var kvöldvinna hjá honum. Hann fékk kaffi, stundum eitthvað sterkara, og gott bakkelsi fyrir greiðann. Karl Marx nefndi þessi híbýli Íslendinga og gerði lítið úr þeim í einhverju verka sinna. Íslenskir marxistar, sem hafa lesið Marx eins vel og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur, hafa því alltaf verið miklir áhugamenn um steinsteypu. Danska hugtakið "Beton-kommunist" er því nafn með réttu, þó það hafi orðið til að öðru tilefni.

Fornleifafræðingar telja vitaskuld enga skömm af torfhúsum enda rum við flest komin af fólki sem byggði sér slík hús. Íslendingar byggðu með því efni sem þeir höfðu aðgang að. En sökum skammar og annarra þátta eru þau fáu torfhús sem enn standa á Íslandi söfn eða hluti af söfnum. Hitt varð tímans tönn að bráð eða jarðýtunum.

plaggenhut2.jpg

Torfhús í Hollandi

Eftir þetta formálasteyputorf er best að koma sér að efninu.

Það kemur kannski á óvart að torfhús voru einnig þekkt, og búið í þeim fram á 20. öldina í öðru Evrópulandi en Íslandi og það í landi sem er eitt rótgrónasta ESB-landið í Evrópu. Fæstir Hollendingar vita reyndar, að í landi þeirra bjó fólk í frekar hrörlegum torfhúsum sem Hollendingar kölluðu plaggenhut (plaggenhuten í fleirtölu). Fólk sem bjó í slíkum húsum var fátækt fólk til sveita, og það þótti skömm af búa úr slíkum hreysum, líklega svipað og að búa í Höfðaborginni í Reykjavík. Þessi hús var að finna í nyrstu héruðum Hollands, Drendthe, Fríslandi og Overijssel.

oude_peel001.jpg

Ýmsar aðferðir voru við byggingar þessara hollensku torfhúsa. Stundum voru veggir úr eins konar torfhnauss, en torfið var ekki skorið af sömu list og á Íslandi. Þetta voru oftast kofar reistir í neyð og engin stórbýli. Stundum var gafl úr múrsteini eða timbri. Oftast var þekjan torfi lögð en brenndir þaksteinar voru undir að strá-/reyrmottur. Það var enginn stíll yfir þessu eins og stundum á Íslandi, enda torfið kannski eins gott alls staðar í Hollandi og það var á Íslandi. Langhús úr torfi voru líka reist á járnöld á Fríslandi og á Jótlandi og menn telja að torfhýsi hafi einnig verið til í Hollandi á miðöldum og síðar.

 

15372.jpg

Í dag eru Hollendingar farnir, í nostalgíu og náttúruæði, að byggja eitthvað í líkingu við plaggenhuten fyrri tíma. Þeir koma víst ekki nær náttúrunni en það, í landi þar sem hver fermetri hefur verið umturnaður af mönnum. Þessar eftirlíkingar er ekki eins óhrjálegar og hús fátæklinganna sem bjuggu í hollensku torfhúsunum forðum. Í dag má einnig finna þessi torfhús endurgerð á byggðasöfnum og sumir hafa búið sér til sumarhús í þessum fátæklega byggingarstíl Hollendinga, sem vart getur talist til gullaldar þeirra.

Hér fylgja nokkrar myndir af hollenskum torfhúsum, stækkið líka myndina efst, hún er í góðri upplausn:

veen5.jpg
 
westerhaar-villa_bruggink.jpg
Þetta hús höfðu eigendur kallað Westerhaar Villa. Ekki skorti kímnigáfuna þrátt fyrir fátæktina.
binnenkant_harkema_spitkeet.jpg
 
spitkeet_harkema.jpg
 
plaggenhut_van_j_van_dijk_pb_middendorp.jpg
 
resolve.jpg 

Þessi mynd sýnir örvingluð hjón í Suður-Hollandi sem hófu að byggja sér torfhýsi árið 1937, þegar þeim hafði verið varpað á götuna. Hollenskir lögregluþjónar koma að. Enn aðrir reistu sér þessi hús þó þeir væru komnir í góðar álnir og aðallega til að minnast æskuáranna. Fjölskyldan sem átti húsið hét Vis (sem þýðir fiskur).

minne-vis-plaggenhut.jpg

Skyr på dansk

 skyrlifi.jpg

Danskerne påstår gerne, tynget af deres verdenskendte selvironi, at deres sprog er en afart af en halssygdom. Når det kommer til stykket, så vil de ikke altid indrømme det, sådan som så meget andet.

Dansk accent gennemsyrer også danskernes udtalelse af andre sprog. Danskere synes derimod selv, at svenskere og nordmænd ikke kan tale engelsk. Svensken og nordmænd er dog helt klart bedre til at ytre sig på engelsk en danskerne - siger jeg som islænding, for vi er naturligvis bedst til engelsk og amerikansk, bortset fra dem der bor i Oxford og Harvard. 

Engelsksprogede nationer undrer sig over det bløde d efter en lang vokal når danskere siger noget på engelsk. Det bliver således til "many possibilitiiids", eller da danske hippier sagde "Piiiids meehn" (Peace man). Nogle islændinge gør også en dyd ud af at udtale "udenlandsk" med hård islandsk accent. Blot for at vise sit vikingetrods, så ruller de ekstra hårdt på alle r'er og hvæser alle s, så det lyder som en boremaskine som er kørt fast i en betonvæg.

Man har som islænding vænnet sig til forskellige danske forvanskninger af islandske ord. Ordet Geysir lyder i dansk mishandling som en tysker der forsøger at sige gæs (gæsir) på islandsk. Ey, i geysir, udtales som a-et i det engelske orde late, og i-et lyder som et kort, dansk e eller i i det engelske ord is.

Den danske Skyr-voldtægt

Velmenende danskerne har nu taget det oldgamle islandske produkt skyr til sig. De tror det er en slags yoghurt (sådan som en skribent i Weekendavisen analyserede produkter), men det er faktisk ens slags ost.

Produktet blev i det tidlige 20. århundrede eksporteret fra Island til Danmark og endda forsøgt produceret i Danmark til nogle af datidens børns skræk og væmmelse. For den gang var det ikke det flødeblandede eller frugtberigede skyr som vi kender det i dag.

Jeg er holdt op med at mundhugges med danskere som udtaler ordet som om det er noget i slægt med skyer på himlen. Uanset om folk får at vide, eller hører, at jeg er islænding, så nægter de at tro mig med hensyn til ordet skyr. "De kan jo læse hvad der står på dosen", og der står "Skyer". Jeg afskyr når danskere er så stædige.

Hvis man, derimod, vil være lidt finkulturel og forstående overfor et stakkels, fintfølende mindretal i Nordatlanten, og ikke spise deres "skyer" (som Arla har fået et tysk mejeri til at producere for sig) på doser, så skal y-et i ordet skyr udtales som et kort e på dansk uden stød og r-et skal ikke sluges eller rulles, men dannes blidt bag fortænderne med svagt blæselyd forrest i munden. Hvis det gøres helt rigtigt, så lyder det endda sexet på islandsk.

Hvis man ikke kan udtale skyr rigtigt, virker den diabetesnedsættende effekt, produktet har ifølge forskerne, slet ikke.

Helt ærligt, så kan danskerne for min skyld forvanske alle ord og navne på islandsk, men skyr er et mere end 1000 år gammelt, islandsk produkt, som omtales i Sagaerne som glidekrem og underarmshårbalsam, og hvis indtagelse bl.a. har medført at gennemsnitslevealderen i min mors familie siden 980 har været 77 år, og det til trods for vulkanudbrud, hungersnød og temmelig megen druknedød på havet. Sådant et kulturelt ladet ord skal danskere og andre "værsgu" kunne udtale lige så godt som jeg udtaler rødgrød med fløde

 

Billedet øverst viser Islands tidligere udenrigsminister, Jón Baldvin Hannibalsson, som for mange år siden gjorde reklamefremstød for Skyr og påstod, at han ville gøre alt for islandsk landbrug, bortset fra at posere nøgen. På Island er man lige så glad for at han undlod at strippe, som man er utilfreds med dansk afskyerlig sprogfascime.

Kampen fortsætter

2018: Kampen for skyr fortsætter. Efter at den overstående udtalelsesvejledning for danskere blev skrevet, har firmaet ARLA, efter en forbrugerafstemning, bestemt! at det islandske ord skyr skal voldtages og kaldes for skyer, eller noget i den stil, (se her). Flertallet af danske skyr-spisere har fortsat ingen fornemmelse for sprog. Det har "islandske rådgivere" heller ikke når du påstår at skyr skal udtalers som "sgir" på dansk. De dansk-svenske mælkepushere hos Arla har tyskere i sin tjeneste i små lejre syd for grænsen, hvor de laver "skyer" til danskerne. Det er den omvendte Samarbejdspolitik, men respekten for andres kultur og sprog er lige så lille som hos et rigtigt Herrenvolk. Lad os hellere kalde det stjålne produkt for Rådgrod med flude, for danskeren kan nok aldrig kureres for deres halslidelse, deres manglende fornemmelse for sprog eller deres æselstædige sind - og det indrømmer de ikke.

 


Fyrsta skóflustungan

kopavogskirkja.jpg

Þessa mynd af fyrstu skóflustungunni fyrir byggingu Kópavogskirkju árið 1958 fann ég nýlega á netflakki. Myndin er svo falleg að hún verður að teljast til fornminja. Mér sýnist að hún sé tekin í kvöldbirtu. Kórinn er samsettur af fallegu fólki í sínu fínasta pússi og maður heyrir hann næstum því syngja angurvært og ein konan syngur aðeins falskt. Myndina sér maður í lit þó hún sé svarthvít. Presturinn er virðulegur og stórglæsilegur þar sem hann heldur fyrirmannlega á gleraugunum og horfir íbygginn inn í framtíðina, sem varð líklega allt önnur en hann hafði hugsað sér hana.

Aldrei hef ég inn í Kópavogskirkju stigið. Mér þótti þetta musteri svo fallegt þegar ég var barn, og fallegast áður en það var málað. Síðar hef ég komið nær því og orðið fyrir vonbrigðum. Mér sýnist að kórinn og presturinn standi þarna á einhverri rúst, sem horfið hefur þegar kirkjan var byggð. Það voru örlög rústa á þessum tíma. Takið eftir landmælingastikunni til vinstri á myndinni. Hún er nærri því eins virðuleg og síra Gunnar.

Heimild: Ljósmynd Vikunnar/Ljósmyndasafn Reykjavíkur


Drakúla á Þjóðminjasafninu

christopher-lee-001.jpg

Skömmu eftir að ég hóf störf á Þjóðminjasafninu í mars 1993 var haldin norræn kvikmyndahátíð í Reykjavík.

Ég hafði ekki tíma til að líta á hana, þar sem ég stóð í búferlaflutningum og var að koma mér fyrir í turni Þjóðminjasafnsins. Þjóðminjasafnið var lokað á mánudögum og er líklega enn. Ég var þennan morgun að koma út úr lyftu og að ganga inn í  fornaldarsalinn fyrrverandi, sem var orðin nokkuð fornfálega sýning en ágæt miðað við aldur, þegar að ég sé eldra, mjög vel klætt fólk komið inn á gólf í anddyri safnsins. Aðeins lítill hluti ljósanna var kveiktur og ég sá ekki hvaða fólk þetta var til að byrja með, en er ég gekk nær þeim sá ég að þarna var kominn sjálfur Drakúla greifi og spúsa hans, þ.e.a.s leikarinn heimsþekkti Christopher Lee (f. 1922) og kona hans dönsk. Lee var dómari á norrænu kvikmynda-hátíðinni.

Úti var leiðindaveður og éljagangur, og þau hjónin höfðu gengið veðurbarinn frá Hótel Sögu til safnsins til að fræðast um íslenska menningu. Þá var gengið inn um annan enda en nú á safnahúsinu. Árni húsvörður hafði líkast ekki enn lokað dyrunum þegar hann var að skafa tröppurnar en hann kom einnig að Drakúlu þegar hann var búinn að koma frá sér verkfærum.

Frúin talaði við mig dönsku og var ánægð yfir því að ég gæti talað við hana á dönsku, en heldur óhress á mjög yfirvegaðan og aristókratískan hátt yfir því að safnið væri lokað. Ég ég bað þau að koma daginn eftir.  Ég sé enn eftir því að hafa ekki boðið Drakúlu að skoða safnið í fylgd með mér. En ég var, man ég nú, upptekinn við að vinna verkefni sem tengdist sýningu íslenskra gripa í Bogasal sem höfðu verið á stórri víkingasýningu erlendis, en ég hafði skrifað sýningatexta um íslensku gripina fyrir þá sýningu.

En svona er maður stundum vitur eftirá og lítil blóðsuga í sér. Vona ég svo sannarleg að Drakúla hafi fyrirgefið mér þetta blóðleysi og skort á gestrisni í lok mars árið 1993. Annars er ég með blóðsugutryggingu, nóg af geirlauk og hælum sem reka má á bólakaf, og ef ég leita gæti verið að hentugur kross leyndist einhvers staðar ofan í skúffu uppi á háalofti.

chris-lee-dracula-web.jpg

Tannpína á laugardegi

nikolin.jpg

Í bráðskemmtilegu bréfi Benedikts Gröndals til Þorsteins Jónssonar læknis í Vestmannaeyjum árið 1895, sem birtist í Óðni árið 1919 má lesa ofanstæða klausu um Nikolin nokkurn sem stundaði "tannlækningar" á Íslandi á tímabilinu 1887-1895.

Nikolin var ekki maður sem Gröndal syrgði, en ekki höfðu allir eins slæman bifur á þessum manni og Gröndal. Var þessi tannsi aldrei öðruvísi nefndur á nafn en Nikolin, sem líkast til hefur verið eftirnafn hans. Auglýsti hann "þjónustu" sína í tímaritum og þar kemur fram að hann hafi stundað tannatog úr fátæklingum á þriðjudögum, fimmtudögum og laugadögum milli kl. 10 og 12.

_burns_archive_american_dentist_11.jpg
Ekki er þetta Gröndal í stólnum hjá Nikolin, en svona gæti Nikolin hafa borið sig að er hann dró tennur úr Íslendingum, þegar hann var ekki á fylleríi með Gröndal.

 

nikolin2.jpg

Ég býst við því að verðlagi hafi annað hvort verið stillt í hóf fyrir fátæklingana (sem í dag væri ólíkleg góðverk á meðal tannlækna), eða að Nikolin hafi veitt ómögum og fátækralimum verri þjónustu en þeim efnameiri. Oft var það þó svo, að fátækir voru með betri tennur en þeir sem endalaust sugu brjóstsykur, kandís og sykurmola. En það þótti fínt að láta draga úr sér tennurnar á tímabili, eða öllu heldur að fá nýjar mublur á góminn. Sumir fátæklingar gera eins og kunnugt er allt til að fylgja tískustraumum.

Svo mikill þjóðþurftarmaður taldist þessi Nikolin vera hjá þjóð kvalinni af tannverkjum, að hann var settur á fjárlög. Í 17. tölublaði Norðurljóssins árið 1891, þar sem greint er frá fjárlögum þess og næsta árs er undir Aðrar Styrkveitingar taldir upp þeir fræðimenn og sérfræðingar sem ekki gátu flokkast með aðalverkefnum sem fjármögnuð voru af hinu opinbera: Adjunkt Þorvaldi Thoroddsen veittar 1000 kr. hvort árið til jarðfræðisrannsókna í Skaptafellssýslu m. m. Hannesi Þorsteinssyni cand. theol. 600 kr. hvort árið til að koma skipulagi á landsskjalasaftnið o. s. frv. Nikolin tannlækni 500 kr. hvort árið til að halda áfram tannlækningum her á landi. Birni Ólafssyni augnlækni á Akranesi sömuleiðis 500 kr. hvort árið til að halda hér áfram augnalækningum. Halldóri Briem 300 kr. fyrra árið til að gefa út kennslubók i þykkvamálsfræði (sem á fræðimáli kallast stereometri).

Líklega finnast svör við því hverra mann Nikolin var, eða hvaðan hann kom, í ritgerð Lýðs Björnssonar um tannlækningar fyrr á öldum sem birtist fyrir löngu í Tannlæknatali. Enginn getur álasað mig fyrir að hafa ekki keypt æviskrár tannlækna, miðað við hvað ég hef bætt efnahag margra tannlækna. Ég vil helst ekki af þessari stétt vita. En samt þætti mér vænt um ef einhver gæti upplýst mig frekar um Nikolin þennan og hvaðan hann kom til að lina tannpínu Íslendinga.

nikolinaaa.jpg

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband