Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014
Dræplingur og sögur bundnar inn í Oseberg
22.5.2014 | 08:20
Eigi vakti það mikla athygli í Danmörku, er Þórarinn Eldjárn flutti Þórhildi Danadrottningu og fornleifafræðingi dræpling í gær. Drottningu líkaði hins vegar vel og sagði "mange tak skal I ha´", en skildi samt ekki baun í bala.
Þórarinn er líka þekktur fyrir að yrkja níð, og ég tel mig hafa móttekið eitraðar vísur eftir hann sem sem mágur hans sendi á afar nútímalegan máta úr faxvél í Pósthússtræti forðum. Ég skemmti mér mikið yfir því og hef deilt þeirri sögu með lesendum mínum. Ég uppskar níðvísurnar vegna þess að ég var eitt sinn ráðinn að Þjóðminjasafni Íslands, og í fornleifanefnd í stað konu án lokaprófs í fornleifafræði. Faxskáldin vissu greinilega ekki að ég fékk silfurverðlaun Háskólans í Árósi árið 1986, en hafði ekki tíma til að taka við þeim úr höndum Danadrottningar á sal, því ég þurfti að flýta mér í uppgröft á Stöng í Þjórsárdal. Árið 1992, þegar ég fékk ph.d. titil hafði ég heldur ekki tíma til að hitta drottningu þar sem ég var aftur staddur í Þjórsárdal. Ég hef, til að bæta gráu ofan á svart, hafnað þriðja boðinu til að komast í návígi við Margréti Þórhildi, enda sjálfur af konungakyni í báðar ættir.
Nú fær Danadrottning lofkvæði, en er ekki einu sinni með almennilegt próf í fornleifafræði. Þó að drápan hafi ekki verið send henni á faxi, var það óttalegt apparat sem flutti henni kvæðið. Forðum kunnu skáldin þó að flytja kvæði sín með stíl - telja menn.
Eitt sinn var það siður, að konungar og drottningar færðu góðum skáldum gull og jafnvel skip. Þórarinn fékk ekkert slíkt hjá Þórhildi, ekki einu sinni baug úr íslensku silfri sem aldrei fellur á, enda slíkir góðmálmar sjaldfundnir í Danmörku. Tak skal I ha' er samt betra en ekkert þegar maður á tímum Ipads fær fimm bindi af Íslendingasögunum á nýrri dönsku og skýrri bundnar inn í brakandi gervileður. Íslendingasögurnar verða aldrei tímaskekkja, ef menn gera sér grein fyrir því að þær eru fyrst og fremst skáldskapur og góðar trivialbókmenntir.
Það vekur einnig athygli mína, að það sem áður voru kallaðir bútar af sögum, kallast nu totter á nútímadönsku, en ekki fragmenter eins og áður. Aumt þykir Fornleifi einnig og einber hottintottaháttur, að kassinn sem inniheldur Íslendingasögurnar á norsku, dönsku og sænsku sé skreyttur með mynd af ljónshöfði sem fannst í Osebergskipinu í Noregi, sem heygt var árið 834, löngu áður en norræn búseta hófst á Íslandi. Hafa menn aldrei heyrt af Þjóðminjasafninu? Þar réði faðir dræplingaskáldsins eitt sinn ríkjum, og þar er fullt af gripum sem sæmt hefðu sér betur sem skreyti á útgáfum Íslendingasagna en norskur kattarhaus.
Sjá frétt RÚV um dræplinginn: Hér og hér.
Fyrri færslur um Eldjárn: T.d. Hér og hér.
Íslendingasögur | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fornleifafræði í dag (Monty Python)
18.5.2014 | 20:03
Íslensk fornleifafræði er líklega ekki alveg eins ruglingsleg og fornleifafræði félaganna í Monty Python.
Myndin hér fyrir neðan er af dr. Bjarna F. Einarssyni. Hún sýnir ekki fornleifafræðing með stæla. Bjarni er líklega hæsti fornleifafræðingur landsins og víðsýnn eftir því. Hér er hans gáfumannahaus tæpum 7 metrum fyrir óhreyfðum jarðlögum á Stöng í Þjórsárdal, þar sem hann hjálpaði mér dyggilega eitt sumarið. Lengi verður eins góðs grafara og hans leitað. Hjá mér vann þó lögfræðingur og sagnfræðingur sem var betri, en enga stæla nú... Þetta atriði Monty Pythons er líka einstaklega raunsætt.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heil Hitler og Hari Krishna
17.5.2014 | 19:38
Eiður S. Kvaran og Wolf Helmuth Wolf-Rottkay tengjast sögu íslenskrar fornleifafræði óbeint. Árið 1936 námu þeir ólöglega á brott mannabein úr miðaldakirkjugarðinum að Skeljastöðum í Þjórsárdal (sem sést hér á myndinni fyrir ofan sem var tekin er miðaldabærinn á Skeljastöðum var rannsakaður árið 1939). Beinin fóru þeir með af landi brott. Þau átti að nota í rannsóknir á Greifswalder Institut für menschliche Erblehre und Eugenik, stofnun fyrir mannerfðafræði og mannkynbætur við háskólann í Greifswald. Rasísk mannerfðafræði var grundvallargrein í nasismanum og spratt upp fjöldi háskóladeilda um allt Þýskaland, sem starfaði eftir kynþáttastefnu nasistaflokksins.
Kvaran
Árið 1936 kom til sumardvalar á Íslandi Eiður Sigurðsson Kvaran (1909-1939), sem stundað hafði nám í sagnfræði í Þýskalandi og fengið þar doktorsnafnbót í þýskri kynbótamannfræði sem var reyndar ekki meira virði en pappírinn sem örstutt ritgerð hans var prentuð á. Ritgerðin bar hið hjákátlega nafn: Sippengefühl und Sippenpflege im alten Island im Lichte erbbiologischer Betrachtungsweise (sem ef til vill má útleggja sem: Ættartilfinning og frændsemi á Íslandi að fornu í ljósi erfðafræðilegar nálgunar).
Eiður S. Kvaran var heittrúaður nasisti og einnig dyggur liðsmaður í Þjóðernishreyfingu Íslendinga. Það er engum vafa undirorpið um eldmóð Eiðs í nasismanum eða um áhuga hans á nasískri erfðafræði, kynbótastefnu sem og kynþáttastefnu. Hann byrjaði að stunda rasistafræðin eftir dvöl á heilsuhæli í Sviss haustið 1930, en þessi kvistur af Kvaransættinni gekk ekki heill til skógar á þeim árum sem hann dýrkaði nasismann.
Næstu skólaárin dvaldi hann í München og sótti fyrirlestra hjá vafasömum fræðimönnum í mannfræði og kynbótastefnu, eins og þjóðarmorðingjanum Theodor Mollison (sem var lærifaðir Auschwitzlæknisins Josefs Mengele) og Fritz A. Lenz.
Í bréfi til háskólans í Greifswald dags. 11. janúar 1934 upplýsir Eiður Kvaran um stjórnmálastarfsemi sína á Íslandi, m.a. um að hann hafi á fyrri hluta árs 1933 verið ritstjóri málgagns Þjóðernishreyfingar Íslendinga, nasistaritsins Íslenskrar Endurreisnar. Hann upplýsti einnig að borgaralegir flokkar á Íslandi hefðu horft þegjandi og hljóðalaust á uppkomu marxismans á Íslandi og að hann sjái því það sem skyldu sína að berjast gegn honum. Hann upplýsir einnig háskólayfirvöld í Greifswald um, að hann sé með verk í vinnslu um nauðsyn kynbótaráðstafana (rassenhygienischer Maßnahmen) á Íslandi.
Með Eiði til landsins kom eins og fyrr segir annar nasisti, ungur þýskukennari og norrænufræðinemi Wolf Helmuth Wolf-Rottkay frá Greifswald. Eiður Kvaran hafði kennt honum íslensku við háskólann í Greifswald. Þeir héldu í Þjórsárdalinn og rótuðu þar upp beinum í kirkjugarðinum við Skeljastaði. Talið er að Eiður og Wolf-Rottkay hafi tekið með sér um 30-35 beinagrindur til Þýskalands, en líklegast voru það aðeins höfuðkúpur sem þeir fluttu úr landi.
Hvorki Eiður né Wolf Helmuth höfðu nokkrar fræðilegar forsendur til að "rannsaka", eða hvað þá heldur heimild til að ræna jarðneskum leifum fornra Íslendinga. Þeir félagar fóru í Þjórsárdal með því markmiði að fá sér þar beinagrindur/höfuðkúpur til mannfræðirannsókna. Ætlun þeirra var fara með þessi bein á nasíska mannfræðistofnun, Greifswalder Institut für menschliche Erblehre, sem var undir stjórn prófessors Günther Just, sem veitti Eiði doktorsgráðu sína. Just starfaði upphaflega fyrir og síðar í samvinnu við Rassenpolitisches Amt sem var hluti af NSDAP, þýska nasistaflokknum.
Söguna af þessari beinatínslu Eiðs Kvarans, Wolf Hellmut Wolf-Rottkays og nokkurra íslenskra nasista sagði Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur frá í útvarpserindi árið 1964. Síðar kom frásögnin út í ágætri grein í Árbók Hins Íslenzka Fornleifafélags árið 1967 (sjá hér) sem bar heitið 'Beinagrindur og bókarspennsli'.
Áður en Sigurður heitinn Þórarinsson birti grein sína um rannsókn Eiðs og Rottkays, hafði Kristján Eldjárn þjóðminjavörður samband við Rottkay, þar sem hann var kennari í þýsku og germönskum fræðum á Salamanca á Spáni. Rottkay skrifaði Eldjárn:
Mér þykir ákaflega leitt, að ég get varla orðið yður að miklu liði í beinagrindamáli þessu, sem þér nefnið, en sem von er eftir því næst þrjátíu ár stríðs, tjóns og endurreisnar man ég heldur lítið um ferð okkar Eiðs til Skeljastaða. Ég get því ekki einu sinni sagt með fullri vissu, hvort ferðin hafi verið farin til Skeljastaða, eða hvort beinagrindurnar eða heldur mannabein þessi hafi fundizt þar eða á einhverjum öðrum stað í þeirri ferð, eða hve mörg mundi hafa verið. Beinin munu síðan hafa verið flutt til Þýzkalands, helzt til Greifswald, en ekki man ég hvort þau voru á skipinu á ferð okkar frá Íslandi þetta ár eða um örlög þeirra í Greifswald. Væri þó hugsandi, að próf. Just, sem þá var prófessor i mannfræði og erfðafræði í Greifswald, gæti sagt meira um þetta efni. Hann er sagður fyrir nokkrum árum kominn til Tübingen. Spennslið, sem þér skrifið um í bréfinu, hlýtur að hafa verið með eignum Eiðs Kvarans í Greifswald, þegar hann dó. Þær voru geymdar af bæjarstjórninni eftir andlát hans, en eins og þér vitið skall stríðið á fáum vikum eftir dauða hans. Virðist mér efasamt, hvort hlutirnir hafi nokkru sinni komizt til Íslands, þar sem landshornið þetta var hertekið af Rússum 1945". Kristján Eldjárn bætti svo við eftirfarandi athugasemd sem ritstjóri Árbókarinnar: "Eftir þetta svar virðist vonlitið að fá fyllri svör frá Þýzkalandi um Skeljastaðaferðina 1935. Ritstj."
Wolf-Rottkay
Ferill Wolf Helmuth Wolf-Rottkay var afar einkennilegur. Hann var argur nasisti líkt og Eiður Kvaran. Eiður Kvaran sá þó aldrei "bestu ár" helstefnu þeirrar sem hann fylgdi, því hann lést úr berklum í Greifswald árið 1939.
Margar tilkynningar um dauða Eiðs voru birtar í dagblöðum í Greifswald.
Wolf Hellmuth Wolf-Rottkay fæddist í Berlín, sonur leutnants í þýska hernum. Hann ólst að hluta til upp í Oberstgau í Allgäu í SV-Þýskalandi. Þar sem hann fékk einkakennslu eftir barnaskóla, en tók síðar gagnfræðapróf í bænum Kempten. Fjöskyldan flutti síðan til Garmisch-Partenkirchen, þar sem hann hann fékk einnig einkakennslu. Vegna þrálát lungnakrankleika var pilturinn sendur til Davos í Sviss, þar sem hann tók stúdentspróf. 1930-1931 stundaði hann nám í enskum málvísindum við háskólann í Rostock og München. 1931-32 stundaði hann nám og lauk prófi í ensku við túlkadeild verslunarháskólans í Mannheim. Hann vildi samkvæmt upplýsingum sem hann gaf háskólanum í Greifswald halda áfram námi í ensku en einnig í norrænum málvísindum sem og "Rassen- und Vererbungslehre", en vegna fjárskorts settist hann ekki á skólabekk eftir prófið í Mannheim, en hélt til Svíþjóðar, þar sem hann var gestur sænsk vinar síns.
1. janúar 1933 gekk Wolf-Rottkay í Þýska nasistaflokkinn, NSDAP, og varð félagi númer 433014. Þá vænkaði hagur hans í háskólakerfinu. Eftir sumardvöl í Svíþjóð og Danmörku 1933, stundaði hann nám við Háskólann í Frankfurt í enskum og norrænum málvísindum. Á vorönn 1934 sat hann fjórar annir í sömu greinum og þar að auki Vererberungswissenschaft við háskólann í Greifswald. Hann framfleytti sér m.a. við málakennslu og þýðingar. M.a. þýddi hann úr sænsku yfir á þýsku. Árin 1935, 1936 og 1937 dvaldi hann samanlagt 10. mánuði á Íslandi, þar sem hann stundaði m.a heimildasöfnun og eins og fyrr greinir beinasöfnun, eða öllu heldur beinaþjófnað, í Þjórsárdal.
Í byrjun júlí 1938 kvæntist hann vísindateiknaranum Ursulu Wilczek, sem mest vann við að teikna landakort og mála nái í Greifswald, og vann hún lengstum fyrir sér fyrir teikningar sínar af líkum sem birtst hafa í mörgum líffærafræðibókum læknanema um allan heim. Í september 1939 var hann formlega útnefndur sendikennari í þýsku við Háskóla Íslands af Reichsminiser der Auswartiges (utanríkisráðherra, sem þá var Joachim Ribbentrop), og rektor háskóla Íslands, Níels P. Dungal. Wolf-Rottkay kenndi þýsku tvo tíma í viku, en hélt einnig marga opinbera fyrirlestra um þýska tungu, um sögu Þýskalands, hin mörgu héruð landsins en fyrst og fremst hið "nýja Þýskaland", oft með skyggnumyndasýningum (skuggamyndum eins og fjölmiðlar kölluðu það þá).
Morgunblaðið lýsir einum slíkum fyrirlestri með mikilli hrifningu, og urðu margir frá að hverfa, því aðsókn að fyrirlestrinum var mikil. Hann hélt einnig þýskunámskeið í félaginu Germaníu, sem á þeim árum var ekkert annað en nasistasamunda. Ljóst má vera að Rottkay starfað fyrri áróðursöfl í Þýskalandi. Þann 4. apríl 1939 hélt hann "háskólafyrirlestur með ljósmyndum um hina nýju bílvegi í Þýskalandi (Reichsautobahnen")" Hann hélt af landi brott með konu sinnu Ursulu Wolf-Rottkay, sem komið hafði til landsins árið 1938 í lok apríl með Dettifossi.
Á stríðárunum vann W.H. Wolf-Rottkayh um tíma fyrir áróðursstofnun í Þýskalandi, Deutsche Informationsstelle, undir utanríkisráðuneytinu Þýska og gaf út andgyðinglega bók um menntakerfið á Bretlandseyjum [Wolf-Rottkay, Wolf Helmuth: Der Aufstieg der Reichen. Berlin: Dt. Informationsstelle 1940]. Árið 1938 hafði hann gerst meðlimur í SS. Það hefur ugglaust létt fyrirgreiðslu um að hann fékk styrk til kennslunnar frá þýska utanríkiráðuneytinu.
"Prússi" í Salamanca
Eftir stríð kenndi W.H. Wolf-Rottkay um hríð við háskólann í München. Síðar gerðist hann þýskulektor við háskólann í Salamanca á Spáni. Þar þótti nemendum hans hann dularfullur og lýstu "prússnesku göngulagi hans" en hann var samt talinn þokkaleg persóna þrátt fyrir að vera ekki kaþólikki. Í Salamanca vann hann m.a. undir verndarhendi stórfasistans Antonios Tovar Llorente, latínuláka sem hafi verið útvarpsstjóri fasistastjórnarinnar á 4. áratugnum og aðstoðaráróðursráðherra undir Franco í síðari heimsstyrjöld. Meðan Tovar Llorente gegndi þeirri stöðu hafði hann náin samskipti við Paul-Otto Schmidt foringja fjölmiðladeildar þýska Utanríkisráðuneytisins sem var einn helsti túlkur Hitlers. Í ráðherrastöðu sinni hafði Tovar Llorente Tovar Llorente, sem hafði fengið heiðursdoktorsnafnbót gefins frá Franco fyrir lítið, fengið að hitta Hitler árið 1940. Þessi rektor og smánarblettur háskólans í Salamanca (sem þó er farið að dýrka á Spáni á ný) gaf út eitt vinsælusta áróðursrit fasista í síðara stríði á Spáni. El Imperio de Espana, þar sem hann hann lýsti því yfir að framtíðin tilheyrði sterkum þjóðum og að Spánverjar væru þjóð sem ætti þeirri gæfu að fagna að vera valin til að stjórna í náinni framtíð þar sem "all fiction of freedom for the tiny national states are going to dissapear."
Árið 1955 greindi Prófessor Halldór Halldórsson frá ráðstefnu um germönsk fræði í Feneyjum á Ítalíu sem hann sótti: Í viðtalsgrein í Þjóðviljanum sagði hann frá Wolf-Rottkay, sem einnig var staddur á ráðstefnunni með konu sinni Ursulu:
"En einn daginn vék sér að mér maður og ávarpaði mig á lýtalausri íslenzku. Þessi maður er prófessor Wolf-Rottkay í Salamanca á Spáni, en hann var þýzkur sendikennari hér við háskólann um skeið fyrir stríð. Þá dvaldist kona hans hér einnig stuttan tíma, en síðan er hún svo mikill Íslendingur að hún hefur heimþrá til Íslands."
Wolf Helmuth Wolf-Rottkay gaf út ýmis rit og greinar um málfræði og málsifjafræði og meðal annars út bókina Altnordisch-isländisches Lesebuch.
Til Bandaríkjanna og undir annan hakakross
Árið 1966 leggja hjónin Wolf H. Wolf-Rottkay, kona hans Ursula og tvö börn land undir fót og setjast að í Los Angeles í Kaliforníu. Hann virðist ekki hafa haft neina fasta stöðu í nýja landinu en var skráður sem lektor (associate professor) við University of Southern California 1969-70.
Skömmu síðar var hann greinilega aftur kominn á fullt flug í kukli og hindurvitnum. Hann var í byrjun 8. áratugarins orðinn fyglismaður Hari Krishna hreyfingarinnar og á næstu árum er hann í miklum bréfaskrifum við aðalgúrú þess safnaðar
.Gamlir nasistar heilluðust greinilega mjög af Hari Krishna, eða kannski Hari Krishna liðar að nasistum. Hér sést Karlfried barón von Dürckheim (1896-1988) með gúrú Srila Prabhupada (sem er gamli maðurinn með gula pokann) árið 1974. Dürckheim var aðstoðarmaður Ribbentrops og komst til áhrifa í þýska nasistaflokkunum og í embættiskerfinu, en þegar í ljós kom að hann var afkomandi bankaættanna Oppenheim og Rotschild og "blendingur af annarri gráðu" eins og nasistar kölluðu slíka menn, var hann sendur til Japan sem embættismaður, þar sem hann heillaðist af búddisma.
Nasistinn Wolf H. Wolf-Rottkay virðist hafa talið Hari Khrisna-söfnuðinum trú um að hann væri mikill vísindamaður sem flúið hafði frá Þýskalandi nasismans. Hann kemur oft fyrir í ritum þeirra, þar sem hann er sagður hafa verið spurull, aldraður fræðimaður, sem hafði áhuga á hreyfingunni. Að lokum fengu heilaþvegnir fylgismenn í Hari Krishna hreyfingunni þó nóg af Dr. Wolf-Rottkay:
"In the following weeks, we had several heated discussions, and when Dr. Wolf saw that I was not prepared to change Prabhupada's words just because a description didn't fit his conception, he began to question Prabhupada's position. Having fled Nazi Germany, he felt that our vision of Prabhupada's authority was dangerously similar to the inflated image of Hitler in the 1930s. Finally he stopped coming. But he sent me a letter explaining his stand on the way our books should be presented. He mailed a copy to Prabhupada, who replied to him as follows." (Sjá hér).
Kona hans, Ursula, gerði sér einnig far um að gefa fólki í BNA ranga mynd af uppruna sínum og bakgrunni. Hún var undir það síðasta farin að gefa sig út fyrir að vera gyðingur og tók þátt í listasýningum aldraðra gyðinga í Kaliforníu. Myndir hennar, sem ekki voru af líkum, hafa verið til sýnis á Platt & Borstein listasafninu við The American Jewish University i Los Angeles. Hjónin virðast hafa lifað fátæklega í lítilli íbúð og lifað á anatómískum teikningum hennar.
Samstarfsmaður Rottkays við University of Southern Californa, Robert Kaplan, lýsti honum m.a. þannig í tölvupósti þ. 27.5.2014:
Wolf Helmuth Wolf-Rottkay andaðist í Los Angeles árið 1991, kona hans lést árið 1977.
Enn er beina Þjórsdæla leitað
Eftir grein Sigðurðar Þórarinssonar um beinakrukk Kvarans og Wolf-Rottkays, gleymdu menn þessum beinum. Mér var hins vegar í tengslum við kandídatsritgerð mína í Árósum (1986), og síðar í tengslum við doktorsnám mitt, mikið hugsað til beinanna sem Kvaran og Wolf-Rottkay stálu árið 1936. Ekki var ég eins vondaufur og Kristján Eldjárn.
Fyrst þegar ég hafði samband við mektarmenn í DDR árið 1985, upplýsti prófessor Frau Dr. Zengel við Staatliche Museen zu Berlin Hauptstadt der DDR mér í bréfi dags. 3.10.1985:
Herr Dr. Rottkay dürfte als Informationquelle kaum in Frage Kommen, da er nach Ihrer Aussage nach dem Kriege nicht mehr in der DDR war und daher keine kompetenten Aussagen treffen kann. ... Unsere Sammlung war zwar bis 1958 zur sichere Aufbewahrung in der Sowjetunionen, soweit sie von dem kämfenden Truppe an ihren Auslagerungsorten gerettet wereden konnte, wude aber in ihren gut gepflegtem Zustand und nachdem die größten Kriegszertörungen auf unserer Museumsinsel beseitigt waren, mit genauer Auflistung wieder an die Statlichen Museen zu Berlin / DDR übergeben.
Nú voru beinin frá Skeljastöðum aldrei í Berlín, en mér hafði verið tjáð í Greifswald, að þau gætu verið þar. Eftir að Berlínarmúrinn hrundi hef ég einnig í þrígang haft samband við nýja menn við háskólann í Greifswald, og nú er komið ljós, samkvæmt prófessor Thomas Kopper, yfirmanni safnsins sem nú heyrir und Institut für Anatomie und Zellbiologie, að seðlasafnið yfir beinasafnið í Greifswald týndist í
stríðinu. Hauskúpusafnið við Institut für Anatomie und Zellbiologie, sem nasistar bættu mikið við af beinum fólks sem t.d. var tekið af lífi í nafni kynbótaráðstafana Þriðja ríkisins, er vart hægt að nota til nokkurs, þar sem lítið er vitað um uppruna stærsta hluta safnkostsins. Erfitt virðist fyrir starfsmennina að greina á milli jarðfundinna höfuðkúpa og þeirra sem safnast hafa á annan hátt.
Ég hef beðið forsvarsmenn safnsins við háskólann í Greifswald að hafa augun opin fyrir einstaklingum með torus mandibularis og palatinus, sem voru einkenni sem algeng voru í Þjórsdælum (sjá hér og hér). Ég hef sömuleiðis áform um að fara til Greifswald með dönskum líkamsmannfræðingi, Hans Christian Petersen, sem manna best þekkir bein Þjórsdælinga og hefur mælt þau gaumgæfilega. Við ætlum að reyna að leita að beinunum. Innan um þúsundir hauskúpur safnsins liggja kúpur Þjórsdæla hinna fornu. Spurningin er bara hvar?
Höfundur: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2014
Þakkir
Þakkir fyrir aðstoð fá:
Dr. Dirk Alvermann, Leiter des Universitätsarchivs, Greifswald.
Robert Kaplan prófessor og fyrrum Director of the English Communications Program for Foreign Students við University/later the American Language Institute of Southern California (USC).
Heimildir
Prentaðar heimildir og skýrslur:
Eberle, Henrik (2015). "Ein wertvolles Instrument": Die Universität Greifswald im Nationalsozialismus. Böhlau Verlag, Köln (bls. 388) sem vitnar í Fornleif (sjá hér). [Þetta er viðbót sett inn 15.12. 2016].
Petersen, Hans Christian (1993). Redegørelse for projektet ISLÆNDINGENES OPRINDELSE på grundlag af undersøgerlser foretaget på Islands Nationalmuseum sommeren 1993. Bordeaux [Skýrsla].
Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (1986). Þjórsárdalur-bygdens ødelæggelse. 263 sider + bilag. [Kandidatsspeciale Aarhus Universitet; ikke trykt/udgivet].
Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (1990), 'Archaeological Retrospect on Physical Anthropology in Iceland'. In: Elisabeth Iregren & Rune Liljekvist (eds.) Populations of the Nordic countries Human population biology from the present to the Mesolithic. [Proceedings of the Second Seminar of Nordic Physical Anthropology, Lund 1990]. Report Series from the Archaeological Institute, University of Lund No. 46 (1990), 198-214. Sjá hér.
Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (2013) 'Einn á kjammann". Grein á blogginu Fornleifi.
Þórarinsson, Sigurður (1968). Beinagrindur og bókarspennsli. Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags 1966, 50-58. (Sjá hér).
Heimildir í skjalasöfnum:
UAG: Akten des Universitätsarchivs Greifswald (Skjalasafn Háskólans í Greifswald):
1) (UAG, PA 1775) Personal-Akten der Wolf Helmuth Wolf-Rottkay.
2) (UAG, Altes Rektorat, R 845) Dánartilkynningar og umfjöllun um Eið S. Kvaran í dagblöðum í Greifswald. [ACTA der Ernst-Moritz-Arndt-Universität Greifswald betreffend Ableben von hierigen Universitäts-Angehörigen (Professoren, Dozenten u. Beamte), Angefangen Nov. 1936. Abgeschlossen: 28. Juli 1941].
3) (UAG Kurator K 633) Registratur des Universitäts-Kuratoriums Greifswald; Besondere Akten betreffend Verb. Isländische Institut; Abteilung C, Nummer 685.
Persónulegar upplýsingar:
Robert B. Kaplan, sem var prófessor í málvísindum við University of Southern California, sem var vann á sömu deild og Wolf Helmuth Wolf-Rottkay í lok 7. áratugar 20. aldar].
P.s.
Árið 1988 mátti í DV og Morgunblaðinu lesa mjög háttstemmdar deilur um Eið S. Kvaran í kjölfarið á að Páll Vilhjálmsson blaðamaður ritaði ritdóm um bók Illuga og Hrafns Jökulssona Íslenskir Nasistar. Sjá hér, hér og hér (neðst). Einn ættingi Eiðs taldi að æru Eiðs S. Kvarans vegið. Ekki ætla ég að setjast í dómarasæti um það, en lesendur mínir geta sjálfir dæmt út frá þeim heimildum sem sumar hafa verið lagðar hér fram í fyrsta sinn. Ég tel hins vegar, að maður sem lærði sömu gervivísindi og Josef Mengele og við sama háskóla og sá þjóðarmorðingi, hafi verið, og verði, vafasamur pappír.
Ég ritaði ekki alls fyrir löngu um glaða konu sem lét ljósmynda sig með beinum í kirkjugarðinum að Skeljastöðum árið 1939 (sjá hér). Fyrir það uppskar ég því miður hótanir og skítast frá einhverri konu "úti í bæ"sem reyndist skyld einum nasistanna íslensku sem fóru með Kvaran og Wolf-Rottkay að ræna mannabeinum og fornleifum í Þjórsárdal sumarið 1936. Af máli konunnar mátti halda að ættingjar íslenskra nasista hefðu mátt þola verri hörmungar en t.d. gyðingar. Nasismi ættingjanna og beinaþjófnaður er því enn vandamál sem sumir Íslendingar takast á við út um borg og bý. Vona ég því að með þessari grein séu öll spil lögð á borðið, svo menn vefjist ekki lengur í vafa um hvers eðlis "rannsóknir" Eiðs Kvarans og Wolfs Helmuths Wolf-Rottkays voru.

Saga íslenskrar fornleifafræði | Breytt 15.12.2016 kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hvað á þetta fólk sameiginlegt?
7.5.2014 | 08:45
Myndin sýnir Humphrey Bogard, Jacqueline Kennedy-Onassis, Black Jack Bouvier og Cornelius Vanderbilt. Þið þekkið vitaskuld öll hann Bogie. Hin snoppufríða Jackie var eins og allir vita bara gift honum JFK og síðar skipakónginum Onassis, en Jack Bouvier var faðir hennar. Cornelius Vanderbilt var frægur athafnamaður og miljarðamæringur og forfaðir trilljónamæringa. Nokkrir Íslendingar hafa ugglaust búið á hótelum sem kennd eru og voru við þá ætt.
Allt á þetta fólk á það sameiginlegt að hafa verið afkomendur eins manns, Anthony Janszoons van Salee sem flutti til Ameríku frá Hollandi árið 1629. Antonius Jansen (1607-1676), eða Anthony Jonson eins og enskumælandi samtímamenn kölluðu hann, var meðal fyrstu hollensku íbúa Nýju Amsterdam (New York). Í skjölum frá þessum frumbyggjatíma Long islands og Manhattan er ritað að hann hafi verið mulatto og síðar er einnig vísað til hans sem The Turk, The Terrible Turk, van Fez og Teunis.
Stúdía Pieter Paul Rubens (1577-1640) af negra. Musées Royaux Des Beaux-Arts, Brussel.
Komin af sjóræningja
Öll þessi viðurnefni voru engar tilviljanir. Anthony var sonur Jans Janszoons frá Haarlem í Hollandi (ca. 1570-1641). Jan Janszoon var enginn annar en sjóræninginn Murat Reis (yngri) sem talinn er hafa staðið á bak við Tyrkjaránin á Íslandi árið 1627.
Jan Janszoon var kaupmaður og skipstjóri sem gerði út frá Cartagena á Spáni, en síðar hóf hann að herja á Spánverja og gerðist að lokum sinn eigin herra í hinni síðarnefndu útgerð. Hann var tekinn höndum af sjóræningjum í Alsír og gekk í þjónustu þeirra og tók nafnið Murat Reis og gerðist múslími. Ekki má rugla honum við sjóræningja með sama nafn sem kallaður var Murat Reis eldri, en sá var ættaður frá Albaníu.
Jan Janszoon/Murat Reis átti margar konur, og var önnur kona hans þeldökk og múslími frá Cartagena á Spáni. Hún var móðir Antons og einnig bróður hans Abrahams, sem síðar fluttu báðir til Hollands og þaðan áfram til Ameríku. Talið er að þeir bræður hafi báðir verið múslímar. Talið er að Anthony hafi fæðst í Salé í Marokkó, eða að minnsta kosti alist þar upp. Þess vegna tók hann sér nafnið van Salee.
Anthony Janszoon hefur vart verið skrifandi. Hann undirritaði skjöl með A[nthony] I[anszoon] og greinilega með viðvangslegri rithönd.
Anthony Janszoon, sem var víst afar dökkur á brún og brá og risi af manni, gekk að eiga Grietje Reyniers (Grétu Reynisdóttur), þýska konu sem hafði skandalíserað ærlega í Hollandi fyrir saurlifnað sinn og vergirni. Þau voru gefin saman á skipinu á leið til Nýju Haarlem. Með henni átti Anthony fjórar dætur: Evu, Corneliu, Annicu (sem er formóðir Vanderbiltanna) og Söru og af þeim er fyrrnefnt frægðarfólk komið.
Vegna ósæmilegrar hegðunar hvítrar eiginkonu sinnar í Nýja heiminum neyddist Antonius van Salee að flytja frá Manhattan og Long island yfir á Coney Island (sunnan við Brooklyn í dag). Coney Island, var allt fram á 20. öld einnig á tíðum kölluð Turk's island eða Tyrkjaeyja, og líklegast með tilvísunnar til Antons van Salee
Prófessor einn, Leo Hershkowitz við Queens University, taldi að Anthony van Selee hafi aldrei snúið til kristinnar trúar. Kóran, sem talið er að hann hafi átt, mun hafa verið í eigu eins afkomenda hans þangað til fyrir tæpum 90 árum síðan. Því miður veit enginn hvar kóraninn er niður komin nú. En ætli Anthony van Salee hafi getað lesið Kóraninn, ef hann gat ekki skrifað nafn sitt með rómverskum bókstöfum?
Jackie Kennedy vildi ekki vera negri
Þegar Jackie Kennedy var eitt sinn beðin um að koma fram og segja frá "afrískum rótum" sínum, þ.e. forfeðrum sínum i Sale í Marokkó og Cartagena á Spáni, til að vera manni sínum innan handa í baráttu hans gegn kynþáttamismunun, mun Jackie hafa krafist þess að vitnað væri til van Salee-ættarinnar sem gyðinga. Frúin vildi ekki vera af blökkukyni - þá var nú betra að vera gyðingaættar.
Þá vitið þið það. Fína fólkið í Ameríku eru afkomendur þýskrar portkonu, sem og sjóræningjahöfðingja sem réðst á Íslendinga árið 1627 og sem olli því að Vestamanneyingar voru með PTS (post traumatic stress) í 200 ár þar á eftir, og sumir enn.
Play it again, Sam, eins og afkomandi sjóræningjans sagði í Casablanca. Það verður víst að setja Árna Johnsen í að krefjast bóta fyrir Tyrkjaránin.
Skyld færsla: Mínir bræður, víðar er fátæktin en á Íslandi
Sagnfræði | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Beðið eftir Skussaráðuneytinu
6.5.2014 | 06:49
Það eru ekki bara skussar í embættisverki ESB, sbr. færslu bloggvinar míns Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar í gær. Á Íslandi er til nóg af þeim. Það er ekki bara ráðuneyti Hönnu Birnu sem hefur lokaða rifunni og sem engin svör veitir. Við stöndum frammi fyrir ríkisstjórn sem ætlar sér að valta yfir allar reglur og lög.
Í byrjun apríl skrifaði ég skrifstofustjóra Menningararfsskrifstofu Forsætisráðuneytisins til að fá ósköp einfaldar upplýsingar um starfsemi þeirrar skrifstofu. Ég hef enn ekki fengið svör. Jú, nú veit ég reyndar að skrifstofan er búin að endurskíra Þjóðmenningarhúsið. Safnahúsið á að sýna valin verk frá t.d. Náttúruminjasafni Íslands sem skrifstofustjóri Menningararfskrifstofu forsætisráðherra slátraði fyrir fáeinum árum.
Getur verið að skrifstofustjórinn, sem var ráðinn að þessari nýju skrifstofu viti ekki hvað hún hefur verið að gera sl. 5. mánuði. Eða er hún svo mikil með sig að hún telji sig geta brotið lög með því að svara ekki þessari fyrirspurn frá 3. apríl 2010 sem ég ítrekaði þann 9. apríl. sl.
"Sæl Margrét,
ég hef án árangurs, t.d. hér; http://www.forsaetisraduneyti.is/leit?q=Skrifstofa+Menningararfs, leitað að markmiðslýsingu, skilgreiningu og starfslýsingu fyrir Skrifstofu Menningararfs í Forsætisráðuneytinu. Værir þú ekki til í að senda mér allt það sem ákveðið hefur verið um tilurð og rekstur þessarar skrifstofu ráðuneytisins.
Ég sá á vefsíðu Forsætisráðuneytisins, að Hildur Jónsdóttir er sérfræðingur á deildinni. Ég tel næsta öruggt að hér sé komin sama konan sem hafði samband við mig út af Ikea vörulistum sem hún þýddi fyrir margt löngu, og sem stundaði nám um tíma í Árósum. Hver er sérfræðiþekking Hildar Jónsdóttur hvað varðar menningararf?
virðingarfyllst,
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, ph.d.
atvinnulaus fornleifafræðingur
Danmörku"
"The Simmonian Museum"
Nú fer ég að skilja sitt af hverju. Menningararfskontór Simma var svo upptekin í að búa til skyndilistasafn við Hverfisgötuna fyrir haustið að hann gat ekki svarað því hvað skrifstofan starfar.
Hefði ekki verið viturlegra, þegar Hús íslenskra fræða fær ekki að rísa, að nota þetta góða gamla hús fyrir sýningu á handritaarfinum? Í stað þess er búið til skyndibitasafn með geirfugli, róðukrossum og skruddum í belg og biðu. Mini Simmonian safnið við Hverfisgötu, gjöriðisovel! Það breytist auðvitað ekkert við að gefa gömlum kassa nýtt nafn. Ráðuneyti verða að svara bréfum.
Sjá einnig fyrri færslu um málið: Menningararfspizzan
![]() |
Þjóðmenningarhúsið verður Safnahúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
"Menningararfurinn" | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Logið að Páfanum í Rómi
5.5.2014 | 09:30
Það vekur athygli mína, að forseti Íslands er sjálfur farinn trúa þeirri sögu að Guðríður Þorbjarnardóttir hafi verið fyrsta hvíta og kristna móðirin í Ameríku, og að íslensk kona hafi því skákað Kólumbusi í víðförli. Þótt Bill Clinton geti ekki lesið Njálu ætti Ólafur Ragnar að geta lesið sér til gagns.
Guðríður Þorbjarnardóttir var ekki fyrsta "hvíta" konan í Vesturheimi. Þótt hún hafi samkvæmt sögunum eignast Snorra son sinn og Þorfinns Karlsefnis þar, og einnig lýst því yfir að hún væri kristin, er hún ekki nauðsynlega fyrsta hvíta móðirin í Vesturheimi. Forsetinn segir í ræðu sinni, að Snorri hafa verið skírður á Vínlandi. Það stendur hvorki í Grænlendinga sögu eða Eiríks sögu rauða. Heldur ekki að Guðríður hafi farið til Rómar. "Hún gekk suður", en það er ekki þar með sagt að hún hafi verið í Róm. Reyndar var það ekki orðið sérlega algengt að menn gengu til heilagra staða á 11. öld. Sérstaklega ekki frá Norður-Evrópu. Sagan um Guðríði er vitanlega að mestu leyti tilbúningur.
En fyrir þá sem trúa bókstaf fornsagnanna okkar má upplýsa, að fyrsta hvíta konan í Ameríku var Freydís Eiríksdóttir, mikill vargur sem drap indíána og alla þá sem í vegi hennar urðu. Hún gæti vel hafa verið kristin og átt börn á Grænlandi.
Ég hef því miður aðeins skrifað um málið á ítölsku, svo Páfastóll gæti fengið innsýn í hvernig menn reyna að fegra landafundasögu íslenskra kvenna. Setjið ítölskuna í google translate og lesið (best er að þýða yfir á ensku).
Kvenvargurinn sem var fyrst hvítra kvenna í Ameríku var Freydís, og hún var líka morðingi.
Freydís, dóttir Eiríks rauða var einnig fyrsti rasistinn á Vínlandi. Hún myrti einnig "norrænar" kynsystur sínar þar vestra með öxi. Samkvæmt Eiríks sögu rauða þótti henni lítið koma til varna karlpeningsins gegn skrælingjum:
Freydís kom út og sá er þeir héldu undan. Hún kallaði: "Hví rennið þér undan slíkum auvirðismönnum, svo gildir menn er mér þætti líklegt að þér mættuð drepa þá svo sem búfé? Og ef eg hefði vopn þætti mér sem eg mundi betur berjast en einnhver yðvar." Þeir gáfu öngvan gaum hvað sem hún sagði. Freydís vildi fylgja þeim og varð hún heldur sein því að hún var eigi heil. Gekk hún þá eftir þeim í skóginn en Skrælingjar sækja að henni. Hún fann fyrir sér mann dauðan, Þorbrand Snorrason, og stóð hellusteinn í höfði honum. Sverðið lá hjá honum og hún tók það upp og býst að verja sig með. Þá koma Skrælingjar að henni. Hún tekur brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið. Þeir fælast við og hlaupa undan og á skip sín og héldu á brottu. Þeir Karlsefni finna hana og lofa happ hennar.
Þannig var nú fyrsta, hvíta mamman í Ameríku. White trash ættuð frá Íslandi og morðóð þegar hún var á túr.
Mér þykir ólíklegt að Vatíkanið sé búið að viðurkenna Guddu, eins og Ólafur Ragnar telur, fyrst þeir eru ekki enn búnir að viðurkenna að Kólumbus hafi verið gyðingur. En kannski hafa þeir nú góða átillu til að gleyma Busa og kenna íslenskri herfu, Freydísi Eiríksdóttur, um allt sem miður hefur farið í Ameríku að völdum kirkjunnar og hvíta ma... hvítra kvenna.
Ítarefni og aukaupplýsingar til gamans:
Sjá einnig þetta. Margfrægt er einnig orðið að Dorrit Moussaieff mætti í Vatíkanið með kaþólskan prestahatt þegar Ólafur var að vinna í PR fyrir styttu Ásmundar Sveinssonar af Guddu, sjá hér. Nú má einni telja víst að frumgerð styttu Ásmundar sem sýnd var á Heimssýningunni í New York árið 1939 hafi verið komið fyrir kattarnef af Mafíunni. Mafían dýrkar, eins og kunnugt er, mjög minningu Kristófers Kólumbusa, sem þeir telja ítalskan. Get ég mér til að styttan liggi sundurskotin á botni Hudsonflóa, eða bundin um ökkla Albano Mozzarellos, mafíósa sem kastað var út af Brooklyn Bridge.
![]() |
Clinton réði ekki við Njálu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sagnfræði | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)