Bloggfærslur mánaðarins, september 2020

Fjölskyldur í felum

Ruben og Felix

Fæstir Íslendinga vita, hvað það er að vera í felum undan samtökum sem vilja myrða mann.

Fornleifur sér allt í sögulegu samhengi, einnig mál Kehdr fjölskyldunnar sem er komin af menningarþjóð sem byggði pýramída, um það leyti sem erfðaefnið í Íslendingum var enn á flakki hér og þar um Evrasíu og forfeðurnir að brjóta bein til mergjar í hellisskútum í Svartaskógi eða á enn myrkari stöðum.

Þegar Íslendingar vísuðu Rottberger fjölskyldunni úr landi árið 1937 var ástæðan sú að fjölskyldan voru gyðingar. Sumum Íslendingum, jafnvel vel stæðum, stóð stuggur af þessum fátæku gyðingahjónum og börnum þeirra. Þeir töldu hjónin vera  hættulega samkeppnisaðila. En gyðingahatrið var líka til á Íslandi og því miður faldi enginn Rottberger fjölskylduna. Lesið um sögu gyðingahatursins á Íslandi hér í bókinni Antisemitism in the North. (hér er beinn tengill í greinina/Sænska rannsóknarráðið gerði ykkur mögulegt að lesa)Kempner.lille

Vísað úr landi: Robert Kempner (1914-1975). Myndin er úr bók minni Medaljens Bagside (2005). Efst má sjá Felix Rottberger, fyrsta gyðingur sem fæddist á Íslandi, þar sem hann bregður á leik við son minn Ruben á heimili okkar.

Felix Rottberger, sem þið sjáið á efstu myndinni, í eitt þeirra skipta sem hann hefur heimsótt mig, var fyrsti gyðingurinn sem fæddist á Íslandi - í landi sem í dag fer á hausinn ef ekki koma nógu margir útlendingar til landsins. Ekki var hægt að umskera drenginn, því enginn kunni það á Íslandi. Læknar við Landspítalan voru meira uppteknir við að að koma lækni af gyðingaættum úr landi.

Íslendingar vísuðu einnig Robert Kempner úr landi. Hann naut heldur ekki náungakærleika Íslendinga, sem hann leitaði ásjár hjá. Enginn þeirra gyðinga sem vísað var úr landi á Íslandi var öfgamaður, sem hafði fengið þá flugu í hausinn að þeir hefðu heilagan rétt frá Guði almáttugum til að útrýma nágrannaþjóð sinni.

Öfgamennirnir voru nefnilega Íslendingar og margir þeirra kölluðu sig Framsóknarmenn.

Örlögin, tilviljanir og gott fólk leiddi svo sem betur fer til þess að þessir einstaklingar voru ekki sendir af Dönum til Þýskalands, þó svo að til væru Danir sem höfðu sama hugsunarhátt og og margir íslenskir stjórnmálamenn sem hræddust efnahagsleg örlög þjóðarinnar. En á Íslandi hræddust menn einnig örlög íslenska "kynstofnsins", og meint hreinleika hans, vegna örfárra fjölskyldna sem flýðu ógnarveldi nasismans.

62214(1)

Hér er mynd af ungum hollenskum gyðingi á leið í felur. Hann var svo óheppinn að vera stöðvaður af Þjóðverjum á Damrak í Amsterdam, en svo heppinn að vera ljós yfirlitum, með fölsuð skilríki og vera falinn af þremur fjölskyldum á Fríslandi fram í stríðslok. Bara eitt dæmi um að náungakærleikurinn er mikilvægasta veganesti mannsins.

Enn er til fólk á Íslandi sem vafalaust, sumt hvert, saknar "hreinleika nasismans" og enn annað segist vera svo kristið að það vilji ekki heiðingja í kringum sig.

Lítið fer þó fyrir náungakærleikanum hjá hinum sannkristnu sem vilja losna við egypsku fjölskylduna Khedr sem fyrst. 

Nú reynir á gamla góða náungakærleikann

Hjón með þrjú börn eru í felum undan íslenskum yfirvöldum, sem vilja senda þau til Egyptalands.

Þó svo að fjölskyldufaðirinn tilheyri ógnarsamtökum, sem hvatt hafa til morða á sama fólkinu og Íslendingar vildu losa sig við á 40. áratug 20. aldar, er um að gera að sýna sama góðviljann og t.d. marghrjáðir Palestínumenn verða aðnjótandi á Íslandi, einir þjóða. En þó að nú séu til alþjóðasáttmálar sem eru hagstæðir þeim sem vilja:

A) halda Íslandi hreinu

B) koma í veg fyrir efnahagshrun vegna flóttafólks

C) fylgja lögum þó líf geti verið í hættu

þá er eru til lög sem eru ofar þessum þremur tálmum í vegi einhvers hluta íslensku þjóðarinnar. Það er hinn mannlegi þáttur; kærleikurinn við þá sem minna mega sín og eiga um sárt að binda. Maður sparkar ekki í þá sem liggja.

Sumt af því fólki sem vinnur fyrir Kehdr hjónin frá Egyptalandi, án vafa af manngæsku einni saman, hefur falið fjölskylduna undan lögum og hinu gamla óþoli við útlendinga á Íslandi. Sumt af þessu velviljaða fólki tel ég að geti einnig bætt sjálf sig. Það fer fremst í flokki kona sem fyrir áratug síðan líkti Ísraelsmönnum (gyðingum) við SS-sveitir Þjóðverja. Hún er nú að hjálpa manni sem er á flótta vegna þess að hann vill drepa fólk á sama hátt og SS útrýmdi fólki. Sama kona hélt því fram að það væri lýðræði á Tyrklandi.

Ég vona, vegna þess að ég var nýlega kallaður "blettur á sögu Skandinavíu" af einhverjum frumstæðum, dönskum nasista, sem gerði athugasemd við stutta grein mína frá hjartanu um hinn mikla forhúðaróróa sem nú geisar í Danmörku (sjá hér), að Khedr fjölskyldunni verði veitt hæli á Íslandi. Annað væri slys og álitshnekkir fyrir Íslendinga.

Til eru Íslendingar sem eru miklu verr ferjandi en þessi egypska fjölskylda og við sitjum uppi með fangelsin full af þeim og jafnvel nokkra á hinum háa Alþingi. Ísland fer ekki á hausinn út af 5 manna fjölskyldu.

Það er miklu líklegra að alíslenskur bankastjóri grandi þjóðinni en egypsk fjölskylda.

Við getum í ofanálag vonað að fjölskyldufaðirinn verði við það að fá landvist að betri manni sem ekki hyggur á útrýmingar á nágrannaþjóð Egyptalands.

Ég hvet lögreglumenn á Íslandi að neita að aðstoða við brottvísun fimm manna fjölskyldu frá Íslandi sem ekkert hefur gert af sér sem varðar við íslensk lög. Ég bið presta, imama og rabbínan góða, sem landið getur nú státað af, að taka höndum saman og krefjast griða fyrir Kehdr fjölskylduna.

Ég bið heiðvirtan forsætisráðherra landsins að stöðva brottvísunina -  ja, annars kýs ég helv... Samfylkinguna í næstu kosningum og við vitum hvað slíkt óðagot getur haft í för með sér.


Nesti, te og nýir skór

Ný mynd úr leiðangri Burnetts og Trevelyans lille

Ljósmyndafornleifarannsóknir eru örugglega meðal hreinlegri fornleifarannsókna sem þekkjast. Hér skal sagt frá nýjustu uppgötvun Fornleifssafns í þeirri grein.

Í safnauka Fornleifssafns á pestarárinu 2020 er þessi ljósmynd frá 1883 (eða 1886). Forstöðumaður ljósmyndadeildar safnsins þiggur allar haldgóðar upplýsingar um hvar mennirnir sitja og snæða nestið sitt. Það verður víst aðeins ráðið af fjallinu í bakgrunninum.

nærmynd a

Myndin var tekin í einum af veiðiferðum Maitland James Burnetts (1844-1918) og Walter H. Trevelyans (1840-1884) til Ísland. Líklegast má telja að myndin sé tekin í leiðangri austur fyrir fjall sem hófst 31. júlí 1883.

Íslandsferðum Burnetts og Trevelyans hafa verið gerð góð skil í frábærri bók Frank heitins Ponzis, Ísland fyrir aldamótin (1993) Ponzi var mikill grúskari og safnaði ýmsu. Árið 1987 komst hann yfir óvenju merkilegt myndaalbúm á fornbókasölu í London. Hann leitaði svo uppi dagbók Burnetts í einkasafni og byggði bók sína á ljósmyndunum og dagbókinni. Og úr varð sagnfræðileg perla Bandaríkjamanns sem settist að á Íslandi - því glöggt er gests augað eins og allir vita nema heimalingarnir sem vita allt.

nærmynd b

Fimm gerðir af höttum

Fornleifur á aðrar myndir sem tengjast leiðöngrum Burnetts og Trevelyans, sem bent gætu til þess að sumar myndanna í albúminu sem Frank Ponzi hafði upp á hafi verið teknar af Sigfúsi Eymundssyni. Hægt er að lesa um það hér í fyrstu úttekt Fornleifs á Laterna Magica skyggnum sínum sem sýna Ísland.

Nú, skemmst er frá því að segja að ljósmyndin hér efst er ekki með í bók Ponzis. Það útilokar þó ekki að hún sé ekki með í albúminu sem hann fann. Ég er búinn að senda skilaboð til Tómasar Ponzi tómataplantekrueiganda, geirlauksbónda og kaffilistamanns m.m. í Mosfellsbæ, en er ekki búinn að fá svar. Líklegt þykir mér þó að ljósmyndin í Fornleifssafni sé ekki í albúmi Brúarmanna á Tómatabúgarðinum í Mosfellsbæ.

Á pappagrunn sem mynd Fornleifssafns er límd á hefur verið ritað Our Encampment for Lunch. Iceland. Það er ekki rithönd Burnetts sem við þekkjum úr dagbókinni sem Frank Ponzi hafði upp á. Sá sem skrifar var hins vegar örugglega með á myndinni, sem Burnett tók.

Út frá rannsóknum Frank heitins Ponzi, getum við upplýst lesendur örlítið um kallpeninginn á myndinni. Íslenskir lóðsar útlendinganna sitja alveg sér til vinstri. Það eru þeir Þórður og Einar Zoëga og einnig maður sem nefndur er til sögunnar í bók Ponzis sem Jóhannes. Þeir eru allir frekar óskýrir á mynd Burnetts og hafa líklega allir verið á iði vegna ljósmyndatökunnar.

Skotarnir og Bretarnir sitja hins vegar í andakt kringum tinkassa sem á stendur RAMMAYAN TEA MANCHESTER. Þessi forláta tekassi leiðangursmanna sést einnig á mynd 37 í albúminu sem Ponzi fann (sjá hér að neðan), þar sem veiðimennirnir eru líka að fá sér í gogginn. Allt eru þetta sömu mennirnir í sömu fötunum. Ponzi taldi hugsanlegt að skeggjaði maðurinn sem horfir undan við myndatökuna gæti hafa verið William Gilbert Spence Paterson (1854-1898) breski ræðismaðurinn á Íslandi. Sami maður horfir niður í tebollann eða samloku sína á mynd Fornleifssafns, svo ekki verða þær ráðgátur, hvor þetta sé hann eða að myndin sé frá 1883 eða 1886, leystar í þessu sinni, að því er forstöðumaður ljósmynddeildar Fornleifssafns telur.

Tea for Three

Tea for three, and some milk for the Icelanders, please! 

Þar sem fyrrgreind mynd, númer 37 (sjá hér fyrir neðan), er sögð tekin á fyrsta áningarstað hópsins á leið hans frá Reykjavík til Þingvalla, er mynd Fornleifssafns sennilega úr einhverjum síðari hádegisverð nær Þingvöllum. Það gæti hjálpað staðkunnugum við að staðsetja myndina fyrir Ljósmyndadeild Fornleifssafns - með fyrirfram þökkum.

Mynd 37 Ponzi


Jesús Jósefsson ... og brjóstin í lífi hans

Screenshot-2020-09-04-at-17.10.43-1280x640

Það vekur furðu Fornleifs, að fólk kippi sér upp við það að Jesús hafi verið með brjóst. Það verður að skoðast í sögulegu samhengi.

Mörgum íslenskum mektarmanninum hefur vaxið álitleg brjóst á ákveðnum aldri og sýnast þeir þá um leið fremur óléttir. Jesús var ávallt mikill brjóstakarl allt frá fornu fari. Móðir hans er sýnd rekandi tútturnar framan í hann í kirkjulistinni, og stundum heldur harkalega. Og var ekki einu sinni sungið Mjólk er góð á Íslandi?

uglybaby

Fornleif, sem man allt aftur fyrir Krists burð, langar að benda mönnum á að Jesús Jósefsson rak einhverskonar klúbb karlmanna, svo kallaðra lærisveina, og einu konurnar sem fengu að koma á fundi í þeim félagsskap voru útskúfaðar úr þjóðfélaginu. Bara það eitt hljómar eins og fornt LGBT-félag.

Er ekki alveg sama HVAÐ karlinn var, fyrst ekki er hægt að sanna HVER hann var? Það skiptir líklegast mestu máli að á hann sé trúað. Birtingarmyndir hans hafa verið margar í listaverkum síðustu 1800 árin, enda ekki bannað að sýna hann opinberlega eins og aðrar helgar verur.

Hinn brjóstagóði Jesús sem á að lokka börn í sunnudagaskóla er í takt við tímann. Munið, að fyrir 40 árum síðan var hann Maóisti með hliðatösku og sænskt passíuhár. Ekki var það miklu betra. Þjónar hans hafa líka tekið töluverðum hamskiptum á síðustu áratugum. Biskup einn var helgimynd utan á úlfi og yfirpreláti í Reykjavík nauðgaði börnum á yngri árum. Kirkjan er auðvitað í sjálfsmyndarkrísu.

Ef ég væri kristinn, þá myndi ég líka sýna Jesús allsberan og til að sanna að hann hann hafi verið rækilega umskorinn á 8. degi lífs síns. En þar sem sumir af hinum nýfrelsuðu með brjóstafíkn eru fordómafyllri en flestir og hatrammir í afstöðu sinni gegn umskurði, hefur víst ekki tekist að ota typpinu á Kristi að börnunum í þetta sinn.

Og þökk sé föður hans fyrir það.

Nú, benda má svo sem á í lokin, að Búddistar hafa ekkert á móti bobbingum á sínum meistara sem og að múslímar velta þessum brjóstum Jesús fyrir sér líka af miklum áhuga, sjá hér.

Hafa menn ekkert annað að gera?

AMEN


Villatal

WILLEM FLOKKUR A færdigreduceret mindre skærpet

Vegna viðloðandi gróusagna utan ritstjórnargangsins á Fornleifi um að Vilhjálmarnir í fjölskyldu sendisveins Fornleifssafns séu úr Árnessýslu, skal slíkt slúður hér með kveðið niður fyrir fullt og allt. Menn verða að fara aðeins lengra með ættfærsluna en austur fyrir fjall.

Ekki má skilja þetta þannig, að sendisveininn hafi eitthvað á móti því að vera úr Árnessýslu. Nei, svei mér þá, nei, en hann langar þó ekki til að menn haldi að hann sé skyldleikaræktaður eins og ritstjórinn.

Hér verða kynntir til sögunnar nokkur aðeins föngulegri menn en konungur sá sem greint var frá í færslunni hér á Fornleifi um daginn. Reyndar bera allir karlarnir sem sagt verður frá hér há-konunglegt og keisaralegt nafn. Vilhjálmur heiti ég og faðir minn hét það líka, þó hann hafi upphaflega heitið Willem. Afar mínir voru báðir að fyrsta nafni Willem og Vilhelm á Íslandi (sem ég hef skrifað um hérhér og hér) og langafi minn var einnig Willem. Ég telst því vera Vilhjálmur 4. í minni fjölskyldu og geri aðrir betur. Fáar fjölskyldur eiga eins marga Villimenn.

Willem Izak mindre

Willem I

Fyrstur Vilhjálmanna var langafi minn í Hollandi. Þegar faðir hans fæddist var Willem Frederick 1 Hollandskonungur (1772-1843) við völd. Hann var krýndur  konungur Niðurlanda árið 1815 (þmt Belgíu fram til 1830) og stórhertogi af Lúxemborg). Áður, eða frá 1813 til 1815 hafði hann stjórnað því sem skilgreint var sem Furstadæmið Hollandi (sem varaði í aðeins tvö ár eftir Bonapartekonungana tvo). Bar hann þá nafnið Willem VI Frederick.

Fjölskylda mín var svo þakklát borgararéttindum, sem Willem I veitti þeim, að nú skyldu allir heita Willem eða Frederick, að minnsta kosti sem annað nafn. Eitt af því fáa sem ég veit um Willem Izäk er að amma hans var frá Livorno á Ítalíu og var hann því mjög rómantískur, dramatískur og skapstór. Hann rak trésmíðaverkstæði sem sérhæfði sig í dyrabúnaði, hurðum og þiljum, m.a. í opinberar byggingar í Amsterdam. Hann var með verkstæði sín í Amsterdam, en aðallega í Dordrecht, þar sem vinnuaflið var ódýrt. Ekki held ég að hann hafi sjálfur verið trésmiður, en hurðir þær sem verksmiðja hans framleiddi voru sumar mjög veglegar og á stundum útskornar af listamönnum og síðan þykkt lakkaðar. Þær má enn sjá í gamla ráðhúsinu í Amsterdam og í hráefniskauphöllinni Beurs van Berlage (sem ber nafn arkitektsins H.P. Berlage). Ég veit afar lítið um karlinn, annað en að amma mín var lítt hrifinn af honum og kallaði hann dachshundinn (langhundinn) þótt lágur væri hann í loftinu - hún átti víst við andlitsdrættina.

Faðir minn man eftir afa sínum er fjölskyldan kom saman og bar Vilhjálmur fyrsti þá alltaf háan hatt um hátíðir. Pabbi sagði að skeggið á honum hafði stungið eins og kaktus þegar hann kyssti hann á kinnina. Svo ekki hefur karlinn verið allvondur ef hann var góður við börn. Ég skoðaði stoltur nokkrar hurðir hans hér um árið, þegar mér var boðið að flytja svokallaðan Capita Selecta fyrirlestur við Fornleifadeild Háskólans í Amsterdam, sem þá var til húsa við Singel.

IMG_20200814_0005 b

Willem II

Sonur hans og nafni fór aðrar brautir og skráði sig í hollenska herinn, þó faðir hans vildi að hann héldi áfram hurðaframleiðslunni. Hann var í verkfræðisveit hersins. Efst er mynd af honum (með háa hattinn) með liði sínu rétt eftir fyrri heimsstyrjöld. Það var stíll yfir karli.

Faðir minn og hann voru harla ólíkar týpur. Hermaðurinn var fyrir aga og nákvæmni og faðir minn greindi mér frá því að hann hefði vikulega tekið alla skó og gljápússað þá og raðað þeim meðfram veggnum í forstofunni. Síðar varð hann starfsmaður í landvinningadeild innanríkisráðuneytis Hollands í den Haag, fram til 1941/42. Hann var landmælingamaður að mennt og verksvið hans í ráðuneytinu var umsjón með landuppbyggingu í IJsslemeer (nánar tiltekið því svæði sem heitir Nordoostpolder). Hann var einnig mjög gefinn fyrir fleiri kvenmannshendur en þær tvær sem venjulega eru í boði fyrir góða menn; Hann lét sér víst ekki nægja konu þá sem hann kvæntist. Þannig var það einnig með einn bróður hans, sem að sögn átti konur í þremur heimsálfum, m.a. í Indónesíu. Ég þarf víst að fara að finna frændur mína í austurálfu.

d_bloggi_afi_i_gar_i2

Afi minn í garði sínum í den Haag árið 1940.

Willem III IMG_20200814_0004 b

Þriðji Vilhjálmurinnn, faðir minn, bjó fyrstu æviár sín alveg á horninu við Waterlooplein, þar sem nú er óperuhús Amsterdam en þar sem áður var Holdsveikradíki (Leprosengracht). Þegar nýja óperan (Stopera) var byggð hafði pabbi á orði að hann hefði fæðst á sviðinu í óperunni. Skömm var því að því að hann söng aldrei og var vitalaglaus.

Faðir minn þótti ekki neinn fyrirtaksnemandi í skóla og frekar dreyminn og listrænn að því er sagt var. Vilhjálmur embættismaður átti það til að vera mættur utan við skóla föður míns til að skoða einkunnabók sonar síns. Sú árátta, að hafa gífurlega "ambisjón" fyrir hönd barna sinna er mjög óholl hegðun gagnvart börnum. Faðir minn hjólaði í hraði frá skólanum og umhverfis alla borgina til að koma í veg fyrir að hitta á föður sinn og einkunnarbókarkontroll hans. Það segir sig því sjálft að faðir minn burstaði sjaldan skóna sína og hafði ekki hina ströngu sýn á lífsformunum og faðir hans hafði haft. Það var líkast til ein af skýringunum á því að engin bönd, heldur ekki axlabönd, heldu honum þegar hann komst í stríðsterturnar og allan góða matinn á Íslandi. Hér eru nokkrar myndir af pabba 4 ára (fyrir ofan), 14 ára fyrir stríð, og um tvítugt eftir stríð.

Wim

IMG_20200814_0006 b

Vilhjálmur IV

IMG_8178 b

Að lokum eru tvær myndir af síbreytilegum ásjónum ástsæls yfirsendisveins og ritstjóra Fornleifs, Vilhjálms bastarðs IV, einræðisherra málgagnsins Fornleifs. Hann þótti afar ljúfur drengur í æsku - en það varaði nú ekki lengi og versnar enn.

Hér er hann svo áratug síðar, orðinn kommúnisti og greinilega að sleppa sér í skopstælingu á borgaralegum Travolta-glímuskjálfta án þess að vera á nokkru sterku nema kannski Prins Póló og Þjóðviljanum. Eins og sjá má, fyrir meira en fjórum áratugum síðan, fór þetta allt á verri veginn. Ekki er vert að ræða framhaldið.

IMG_8205 b

Takið eftir blendingsþróttinum í þessum sauð

Ég tók mér hlé á þessu hugmyndaleysi fjölskyldunnar þar sem kónganöfunum er klínt á drengi sem þökk fyrir eitthvað sem sjálfsagt má þykja. Sonur minn er því ekki neinn Villi, þótt William, Vilhelm og álíka pjátursnöfn séu mjög í tísku í Danaveldi um þessar mundir. Ruben, en það heitir hann, þakkar sínu sæla fyrir það. En það kom nýr Villi (Vilhelm) í fjölskylduna fyrir 10 árum síðan, No 5, og ég treysti víkingunum Villa eða Valla bróður hans til að halda þessari konunglegu hefð í heiðri eða einfaldlega að láta strákana sína heita í höfuðið á sendisveini Fornleifs í stað einhvers díkjakonungs.

Kannski skrifa ég um konur fjölskyldunnar seinna. Þær voru, og eru, í raun miklu merkilegri en karlpeningurinn, en það er svo erfitt að segja frá slíku og viðurkenna það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband