Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013
Nú árið er liðið í aldanna skaut
31.12.2013 | 16:24
Kveikið ekki í ykkur í kvöld, þó þið séuð í spreng. Þessi mynd er til að minna á fyrstu flugeldasýninguna á Íslandi, sem komst í erlenda fjölmiðla árið 1874 (sjá hér). Nú árið er liðið eftir séra Valdimar Briem var hins vegar ekki ort fyrr en árið 1886, en það er ekki eins mikið fútt í því. Nú eyði ég ekki í ykkur meira púðri. Gleðilegt og giftusamlegt 2014.
Forn fróðleikur | Breytt 15.1.2014 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Innanklæðaþukl Naflajóns - líka á Íslandi
29.12.2013 | 15:00
ÁÞorláksmessu, áður en nýjasta tölvan mín var höggvin í hné af KB2670838 (sem er glæpsamleg viðbót sem er neydd upp á notendur um leið og Internet Explorer 10 og 11 er halað niður, og sem lamar sumar tölvur með ákveðna gerð grafíkkorta), birti ég grein um kerlingu og karl á spýtu sem ég skrifaði um fyrir löngu í bókina Gersemar og Þarfaþing sem Þjóðminjasafnið gaf út á 130 ára afmæli sínu, og sem líklegast er meðal merkustu bóka sem safnið hefur gefið út.
Helga Kristjánsdóttir bara húsmóðir", sem er tryggur lesandi Fornleifs, skrifaði eftirfarandi athugasemd við greinina um hjónin og ljónin:
Var einmitt að rýna í fatnað karlsins, með tilliti til tísku. Greinilegt er að hann stingur vinstri hendi í einskonar útbungaðan vasa,sem er á hægri boðungi,nema að hann sé þar fráflettur.Það gæti hafa verið siður ef kalt er,en líklegra finnst mér að hann geymi þar digran pengepung sinn og listamaðurinn þekki takta þeirra sem fálma eftir þeim.annað hvort til öryggis,eða á leið að kaupa fyrir konu sína t.d. sjal eða nælu,giska á Jólunum!!
Við þessa athugasemd vöknuðu hjá mér gamlar heilaboðleiðir - sem virka ágætlega þótt ég sé nú að þjösnast á fornri tölvu (5 ára gamalli) sem ég hef eitt ófyrirsjáanlegum tíma í að setja upp á ný vegna mistaka Bill nokkurs Gates - boðleiðir sem minntu mig á að ég hafði fyrir nokkrum árum lesið haldbæra skýringu á því af hverju Naflajón (Napoleon Bonaparte) hafi alltaf stungið hendinni inn undir boðung á jakka sínu eða frakka.
Menn hafa í tímans rás sett fram ótal tilgátur varðandi þetta háttalag Naflajóns, og sumir menn ganga um á þennan hátt og halda að þeir séu keisarar. Sumir töldu hann hjartveikan, aðrir kenndu magakveisu um eða gallsteinum, enn aðrir töldu víst að keisarinn væri á kafi í naflaskoðun eða haldinn ólæknandi kláða. En það var allt saman tóm þvæla og kjaftæði. Höndin sem Naflajón stingur inn undir fötin má rekja til þess að skoskur aðalsmaður, Douglas að nafni, mikill aðdáandi Korsíkumannsins, pantaði málverk af Naflajóni hjá hinum þekkta franska málara Jacques-Louis David sem málaði margar myndir af Bonaparte. Málverkið, sem Douglas pantaði, var í þetta sinn málað án þess að Naflajón sæti fyrir. Myndin líktist víst ekkert keisaranum, en Napolen sá hana og honum líkaði hún vel þar sem David hafði fegrað hann til muna. Bonaparte sendi á David kveðju er hann hafði séð málverkið á sýningu, sem hljóðaði svo:" Þú hefur skilið mig, kæri David".
Á 19. öld varð þessi mynd og aðrar skyldar til þess að Naflajón var ávallt sýndur klórandi sér innan klæða, stundum með vinstri hönd, annars með þeirri vinstri. Þannig hefur hann verið matreiddur í óteljandi kvikmyndum, t.d. ríðandi um Rússland með höndina á mallakútnum.
Glöggur bandarískur listfræðingur, Arline Meyer að nafni, hefur í merkri grein í Art Bulletin (College Art Association of America), Vol. 77, sem hún kallar Re-Dressing Classical Statuary: The Eighteenth-Century 'Hand-in-Waistcoat' Portrait", bent á að siðurinn að mála karla með höndina eins og Naflajón hafi verið mjög algengt fyrirbæri í portrettmálverkum á 18. öld. Meyer sýndi fram á, að farið hafði verið að mála menn með aðra hvora höndina á þennan hátt áður en Naflajón fæddist. Hún benti á að Francois nokkur Nivelon hafi árið 1783 gefið út bókina A Book On Genteel Behavior, þar sem þessari stellingu" var lýst og átti hún að sýna karlmannlegt fas með sneið af lítillæti. Meyer telur enn fremur að 18. aldar menn hafi orðið fyrir áhrifum af því hvernig Grikkir og Rómverjar sýndu rithöfunda sína og ræðumenn í höggmyndalist. Þeir voru gjarnan sýndir með eina höndina undir togunni. Eskines frá Makedóníu (390-331 f. Kr.) sem var leikari og ræðusnillingur hélt því fram í bók sem eignuð er honum, að það væri ekki góður siður að tala nema með hendurnar undir togunni. En ekki gátu allir menn ráðið við hendurnar á sér undir klæðum eins og kunnugt er.
Karlar á Íslandi tolldu glögglega vel í tískunni eins og spýtukarlinn frá Munkaþverá í Eyjafirði sýnir okkur. Parísartískustraumar voru ekki óþekkt fyrirbæri meðal karla á Íslandi. Konurnar voru hins vegar í klæðnaði sem að hluta til átti ættir að rekja aftur til miðalda og höfðu sumir karlar greinilega ekkert annað að gera í harðærum í lok 18. og 19. aldar en að velta fyrir sér hvernig hægt væri að pakka konum inn í sem fyrnstar flíkur, meðan þeir leyfðu sér að spankólera um eins og tískudræsur í París.
Kannski er það þó svo að karlinn á spýtunni eigi einfaldlega að vera Naflaljón og kerlingin sé hún Jósefín, en þau voru hjón. Hvað er betra en að setja þau ofan á keisaraleg ljón sem urðu aflögu af einhverju spýtnarusli frá fyrri hluta miðalda sem ekki þótti lengur fínt að hafa uppi við í kirkju. En líklegra er þó að þetta séu einhver hreppstjórahjón sem viðvaningur í útskurði, eða listhneigður unglingur, setti á stall, þegar honum var ekki þrælkað út dags daglega.
Listasaga | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Quisling ráðlagði Hitler að hertaka Ísland
26.12.2013 | 09:11
Bæði Gunnar Gunnarsson og Guðmundur Kamban voru meðlimir í "nasistamenningar-samkundunni" Nordische Gesellschaft. Verndari þess félagsskapar var Alfred Rosenberg einn helsti hugmyndafræðingur nasista í gyðingahatrinu sem á endanum leiddi til helfararinnar.
Gunnar Gunnarsson kemur af fundi hjá Hitler árið 1940. Með honum er böðull gyðinga í Eystrasaltslöndunum Hinrich Lohse, kallaður Slátrarinn frá Riga. Hann var í mörg ár einn nánasti samstarfsmaður Rosenbergs í að æsa upp gyðingahatrið í Þýskalandi.
Ekki er hægt að sýkna nokkurn þann sem var meðlimur í Nordische Gesellschaft af gyðingahatri eða nasisma. Það reynir þó Sveinn Einarsson í nýrri bók sinni um Kamban, sem var einnig merkilegt skáld og kalkúnasérfræðingur, en sem rýrði arfleifð sína með nánum tengslum sínum við nasismann. Sveinn Einarsson notar ekki allar tiltækar heimildir til að gera lífi Kambans fyllileg skil. Það verður að teljast vafasöm sagnfræði og rýrir það annars gott verk Sveins til muna.
Fyrir nokkrum dögum voru dagbókarbrot (lausblöðungar) Alfreds Rosenbergs sem "týndust" eftir Nürnberg-réttarhöldin sett á netið af U.S. Holocaust Memorial Museum (USHMM) í Washington. Rosenberg var í þeim réttarhöldum dæmdur til dauða og hengdur í árið 1946. Lengi var vitað að Robert Kempner, einn saksóknara Bandaríkjamanna við Nürnberg-réttarhöldin, fékk leyfi til að taka meginþorra dagbókablaða Rosenbergs með sér heim til rannsókna að réttarhöldunum liðnum.
Róbert Kempner var gyðingarættar og fæddur í Þýskalandi. Hann var fjarskyldur Alfred Kempner, flóttamanni sem var hrakinn frá Íslandi.
Eftir lát Kempners voru þessar heimildir geymdar af einum af riturum Kempner, en lentu að lokum hjá óferjandi bandarískum prófessor sem reyndi að koma dagbókarbrotunum og öðru efni í verð. NSA og FBI komust á sporið, en nú er þessi heimild komin á viðeigandi safn og aðgengileg öllum.
Rosenberg og Quisling árið 1942. Þeir kynntust fyrst um miðbik árs 1939.
Dagbækur Rosenbergs eru hins vegar hvorki merkilegar né lýsa þær heldur merkilegum manni. Alfred Rosenberg var gróðrarstía gyðingahaturs og heltekinn af samsæris-kenningum um Rotschild og Hambro. Þar að auki er hatur hans á kaþólsku kirkjunni sjúklegt og minnir um margt á það frumstæða og nærri trúarofstækislega hatur sem sumir Íslendingar sýna trúarbrögðum. Sjálfsálitið hjá þessum samsærisheila og áróðursmeistara vantaði heldur ekki.
Alfred Rosenberg hélt sig líka vera pottinn og pönnuna í ýmsum málum, ef trúa má dagbókum hans. Sérstaklega hafði hann þá skoðun að hann hefði eitthvað um málefni Noregs að segja. Þetta var m.a. vegna þess að einn náinn samstarfsmaður hans til margra ára Hans Draeger, sem einnig var góður vinur Kambans og Gunnars Gunnarssonar (sjá hér), var mikill áhugamaður um Noreg. H G. var sömuleiðis mikill vinur Quislings. Dagbókarbrotin sýna, að þegar Noreg bar á góma, var Rosenberg allur á lofti.
Þann. 19. september 1939 skrifar hann í dagbók sína:
"Fyrsta áfanganum af fyrirhugaðri Noregsaðgerð er lokið. Þann 15. tók Foringinn á móti Quisling og Hagelin og skrifstofustjóra mínum Scheidt. Ég lá veikur með fótinn og gat ekki farið með. Um kvöldið komu þeir til að sjá mig - mjög ánægðir. Foringinn hafði fyrst talað í 20 mínútur: hann vildi vitaskuld helst að Skandinavía yrði hlutlaus, en hann gæti aldrei þolað að Englendingar mynd t.d. koma til Narvik . Þá las hann minnispunkta Quislings: Þörf er fyrir stórgermanskt samband. Q. lýsti svo hinu ólöglega ástandi í Norska Ríkinu eftir 10.1.40, sem marxistar og gyðinglegum demókratar höfðu valdið. Björgun Noregs var á sama tíma afgerandi fyrir D. í afgerandi baráttu hans gegn Englandi.
Q. kom til baka mjög ánægður. - þann 17. (?) kallaði Foringinn herrana enn einu sinni til sín og talaði í 1 klukkustund um allt málið, þar sem hann lagði áherslu á að ósk hans væri að Norska ríkið yrði áfram hlutlaust. Hann spurði þá: Hr. Staatsrat Q. ef Þér leitið til mín um hjálp, þá vitið þér að E [nglendingar] munu. lýsa stríði á hendur yður ? Q.: Já , ég veit það og reikna með því að viðskipti Noregs leggist niður þess vegna Í lok samtalsins, sem Scheidt skrásetti nákvæmlega, spurði Q.: Herra Ríkiskanslari, hafi ég skilið yður rétt, viljið Þér hjálpa okkur? Foringinn : Já , ég geri það.
Q. ók rólegur og glaður heim í bílnum og skyndilega sagði hann við Scheidt : Ég geri mér grein fyrir því að það ert til einhvers konar örlög. Fyrir ýmsum hef ég hef kynnt hugsanir mínar; og það gekk ekki beinlínis fram. Og nú er allt í einu, á afgerandi stundu , mun okkur verða hjálpað.
Í öðru viðtali Q. [við foringjann] afhenti hann viðhefta greinargerð um hernaðarlegt mikilvægi Færeyja, Íslands og Grænlands, sem Foringinn las af áhuga án þess að taka afstöðu". Sjá nánar hér
Ég er búinn að spyrjast fyrir um, hvort að skjal Quislings um t.d. Ísland hafi enn legið viðheft dagbókarblöðin þegar þau komu á USHMM í Washington fyrr á árinu, en það er ekki nefnt í tengslum við afskriftina af textanum.
Vart getur talist líklegt að Quisling hafi fært Hitler nýjar hugmyndir með þessu plaggi sínu, en það er aldrei að vita, og gaman væri að fá að lesa það sem hann færði Foringja sínum.
Í september 1941 lýsti Vidkun Quisling því yfir að hann tryði því að Þýskaland myndi hertaka Bretland og Bandaríkin og að Noregur fengi aftur lendur sínar Ísland og Grænland.
Alfred Rosenberg og Arabar í Palestínu
Rosenberg var ekki yfir sig hrifinn af aröbum eða múslímum yfirleitt, en það breyttist eftir 1939 frá því að hann skrifar um þá í sumum ritlingum sínum. Árið 1939 var hann hins vegar farinn að sjá þá sem mögulega meðreiðarsveina nasismans gegn gyðingum. Um miðjan maímánuð 1939 skrifaði hann:
"Leiðtogi Araba í Palestínu heimsótti mig; menn þekkja alls staðar verk mín. [Hann spurði] hvort við vildum ekki hjálpa siðferðislega. Kannski." Sjá frekar hér
Stórmúftinn í Jerúsalem, Amin Al Husseini, hafði samkvæmt þessu lesið annað en Kóraninn og var á kafi í gyðingahatursbókum Rosenbergs. Síðar voru stórmúftinn og Rosenberg eftir að hittast og síðast á andgyðinglegri ráðstefnu sem Hitler bað Rosenberg um að halda í Berlín þann 15. júní 1944. Þetta stefnumót Rosenbergs og Amin Al Husseinis árið 1939 staðfestir það sem áður var vitað. Trúarlegur leiðtogi Araba í Palestínu vildi ólmur hjálpa til við að útrýma gyðingum. Arabar og aðrir á undan þeim höfðu hrakið gyðinga í burtu úr landi sínu og vildu með öllum ráðum koma í veg fyrir að þeir snéru fleiri til baka til síns gamla lands. Leiðtogar svokallaðra Palestínuaraba tóku einnig beint og óbeint þátt í helförinni gegn gyðingum. Sú helför heldur áfram og eru hjá mörgum hluti af trúarbrögðum og hugsjón margra vinstri manna.
Sagnfræði | Breytt 18.7.2020 kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Hjón og ljón
23.12.2013 | 15:27
Oft er erfitt að segja til um aldur gripa. Nýtni eða endurnotkun verður til þess að gripir frá ýmsum tímum eru settir saman og valda þá oft vísindamönnum miklum heilabrotum. Þessi virðulegu útskornu hjón, sem vafalaust hafa farið á flakk, hafa lent á spýtu sem líklega er miklu eldri en þau. Á spýtuna, sem er undir þeim, eru skorin tvö ljón. Bæði ljónaspýtan og hjónin eru úr birki og hafa einhvern tíma verið máluð. Nú er ljónaspýtan orði mjög máð en litirnir á karli og kerlingu eru ennþá greinilegir.
Sé hugsað að uppruna verksins er fátt til stuðnings. Jón Jónsson hreppstjóri á Munkaþverá í Eyjafirði gaf safninu gripinn árið 1873 en honum fylgdi engin saga. Því verður að leita upprunans í hlutnum sjálfum.
Mannslíkönin ná rétt niður fyrir brjóst og eru 27 cm og 35 cm að hæð. Bæði líkönin eru samsett. Framhlutinn af hempu konunnar er sérstakt stykki Það er fellt undir háls henni og að bakhluta hempunnar. Þessi framhluti er festur með trénöglum sem ganga í genum líkanið. Líkan karlsins er sett saman á svipaðan hátt, þar er treyjubakið fellt i að aftan en nær sá hluti upp á hnakka. Í gegnum karlinn eru líka tveir naglar til að halda honum saman.
Karlinn og kerlingin eru vafalaust skorin út á seinni hluta 18. aldar eða fyrri hluta þeirrar 19. Konan hefur kraga um hálsinn og er í hempu með leggingum í kringum hálsmálið og niður með börmum. Hempan er krækt niður á mitt brjóstið, en þar fyrir neðan sér í rautt. Þessi búnaður kemur vel heim og saman við búninga um aldamótin 1800. Þá höfðu pípukragarnir vikið en undirlag þeirra hélst sem kragi. Höfuðklútar voru algengir og hempan var notuð fram yfir aldamótin 1800. Klæðnaður karlsins er líka dæmigerður fyrir þennan tíma. Hugsanalegt er að karlinn og kerlingin hafi upphaflega verið fest á
rúmstólpa eða stól. Í Þjóðminjasafni er til rúmstokkur með stólpa frá Laufási í Eyjafirði, frá miðri 18. öld, sem á er skorið mannslíkneski og svipar til hjónanna frá Munkaþverá.
Spýtan sem líkönin standa á er 39 cm að lengd. Ljónin sem á hana eru skorin liggja og snúa hölum saman og leggja þá upp á bökin. Afar ólíklegt er að hjónin hafi upphaflega staðið á ljónaspýtunni. Þau passa illa á hana, standa út af og falla ekki vel að yfirborði spýtunnar. Auk þess er stíll útskurðarins allur annar. Ljónin sem hafa stór og sakleysisleg kringlótt augu með bogadregnum augabrúnum eru greinilega í rómönskun stíl og svipar mjög til ljóna sem algeng eru í alls kyns kirkjulist á 12 og 13. öld. Líkjast þau ljónum á útskurði í norskum stafkirkjum, á dönskum granítkirkjum og skírnarfontum frá
Gotlandi.
Athyglisvert er laufskrúðið á milli ljónanna. Nærri alveg ein ljón með laufskrúð á milli sín eru á broti úr steini sem fannst við fornleifarannsókn í dómkirkjunni í Niðarósi. Hann var undir turni elstu miðaldasteinkirkjunnar. Tvö ljón með tré, blóm eða pálmasúlu á milli sín eru oft á steinbogum fyrir dyrum kirkna frá fyrri hluta miðalda, sérstaklega þó í Danmörku. Algengt er í miðaldalist að tvö ljón beri súlu eða tré, sem táknaði súlu sannleikans, þ.e.a.s. krossinn, Tvö ljón með laufskrúð á milli sín eru í miðaldalist oft undirstaða róðu, lífstrésins sem á latínu heitri arbor vitae, öðru nafni crux florida, eða blómakrossinn
Mjög líklegt er að ljónaspýtan hafi upphaflega verið undirstaða róðukross á altari eða ofan á kórþili. Róða þýðir upphaflega staur eða eða súla. Ferkantað gat er í gegnum miðja spýtuna og gæti kross hæglega hafa verið skorðaður þar. Hugsanlegt er einnig að götin, sem líkönin hafa verið skorðuð í, hafi upphaflega verið fyrir Maríu mey og Jóhannes, sem oft eru sýnd standa við krossinn.
Það er ekki hægt að útiloka að ljónaspýtan sér frá því um 1200, en hugsanlega er hún eitthvað yngri. Á Munkaþverá var kirkja og klaustur frá árinu 1155 til siðaskipta. Þess má geta að um leið og líkneskin komu á safnið komu fleiri hlutir frá Munkaþverá, m.a. fjöl frá miðöldum sem hugsanlega er komin úr kirkju (Þjms. 964).
Grein þessi er eftir Vilhjálm Örn Vilhjálmsson og Berglaugu Skúladóttur og birtist árið 1994 í hinni stórmerkilegu bók Gersemar og þarfaþing; Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Ritstjóri Árni Björnsson, bls. 32-33. Heimildaskrá á bls. 282.
Hjónin og ljónin hafa safnnúmerið Þjms. 960.
Ljósmynd Ívar Brynjólfsson, Þjóðminjasafn Íslands.
Viðbót: Höfundur er í dag ekki lengur sammála aldurgreiningu á hjónunum, sem byggðu á fræðum Elsu E. Guðjónssons. 1750-1775 finnst mér líklegri aldur út frá tísku karlsins, jafnvel þótt tekið sé tillit til að tískan hafi ekki komið eins fljótt til Íslands og úti í hinum stóra heimi.
Forngripir | Breytt 24.12.2013 kl. 04:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvít jól
21.12.2013 | 16:23
Flestir kannast við fyrirbærið Delft-keramík (Delft ware), sem er nafn sem hinn enskumælandi heimur hefur gefið öllu leirtaui (fajansa) sem er blátt og hvítt, sama hvort það kemur frá bænum Delft eður ei. Delft var þó langt frá því að vera eini bærinn í Hollandi þar sem hin blámálaða og hvíta keramík var framleidd.
Bláhvítur fajansi var þegar á fyrri hluta 17. aldar framleiddur í Hollandi. Hin mikla fjöldaframleiðsla á bláum og hvítum fajansa sem hófst í Hollandi upp úr 1625, átti að hluta til uppruna sinn að rekja til innflutnings og áhrifa frá Norður Ítalíu, Spáni og Portúgal í lok 16. aldar. Umfangsminni fajansaframleiðsla hófst þó miklu fyrr í Hollandi. Í Hollandi hófu menn einnig á fyrri hluta 17. aldar að líkja eftir blámáluðu skreyti á kínversku postulíni, sem barst í æ vaxandi mæli til Niðurlanda með austurförum hollenska austurindíska kompaníinu (VOC). Blámálaði, hvíti fajansinn í Hollandi var oft undir áhrifum af skreyti á kínversku postulíni, og stundum gerðist það að hollenskar gerðir diska og skála bárust til Kína, þar sem Kínverjar gerðu strax vandaðri eftirmyndir af þeim úr postulíni sem betur stæðir Hollendingar 17. aldarinnar sóttust mikið í.
Nú er í gangi sýning sem nýlega opnaði á Borgarsafninu í Haag (Gemeentemuseum den Haag). Það er ekki blámálaðri Delft vöru, heldur hvítri og rjómahvítri Delft-framleiðslu, sem er gert hátt undir höfði á þeirri sýningu. Sýningin ber heitið Delfts Wit, Het is niet alles blauw dat in Delft blinkt, á ensku White Delft, Not just blue sem á íslensku gæti útlagst Ekki er allt blátt sem í Delft blikar.
Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út mikil bók/sýningarskrá á hollensku og ensku, og svo vill til að ég er höfundur að efni í þeirri bók sem er einstaklega vel hönnuð. Það er svo sem ekkert merkilegt sem ég hef til málanna að leggja en ég hef ritað tvo litla innskotskafla í mjög merka grein ungs og efnilegs fornleifafræðings Ninu Jaspers sem ritar um hvítan fajansa frá Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Portúgal sem hefur fundist í jörðu í Hollandi. Bókina er hægt að kaupa hér. Hollendingar keyptu t.d. hvítan, franskan fajansa fram til 1659 er þeir seldu t.d. íslenskan fisk í Frakklandi og keyptu þar salt, sem m.a. var notað til að salta íslenskan fisk. Nina Jaspers, sem rekur fyrirtæki í Amsterdam, leiddi mig í allan sannleika um uppruna sumra þeirra brota sem fundust í flakinu á hollenska skipinu de Melckmeyt (Mjaltastúlkunni), sem sökk í Höfninni við Flatey árið 1659, og sem byrjað var að rannsaka árið 1993.
Skál frá Spáni eða Portúgal sem fannst í flaki de Melckmeyt árið 1993. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Þegar ég fór með nokkur brot úr de Melckmeyt til Hollands árið 1995 hélt einn af fremstu sérfræðingum Hollands í keramík á þeim tíma, Jan Baart, því fram að hvítu diskarnir úr de Melckmeyt væri Ítölsk vara. Mjög áhugaverðar rannsóknir Ninu Jaspers hafa aftur á móti leitt í ljós, að brotin hvítu sem fundust á meðal bláhvítra brota í Flateyjarhöfn sé frönsk, og eitt brotanna, sem er úr fínni grautarskál er líklega frá Spáni eða Portúgal. Verslun með fisk frá Íslandi í höndum Hollendinga náðið allt suður til Kanaríeyja um miðja 17. öldina. Saltið var fengið á Spáni, í Portúgal og Frakklandi og fiskurinn sem allir vildu var m.a. sóttur til Íslands.
Brot af ýmsum gerðum fajansa. Bylgjaða brotið lengst til vinstri í efri röðinni er af frönskum diski og kemur annað hvort frá Rouen (Rúðuborg) eða Nevers. Hinir diskarnir eru hollenskir og gætu sumir þeirra verið frá Delft eða nálægum bæjum. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Fyllilegri saga skipaskaðans í Flatey árið 1659 og stærra samhengi þeirrar sögu reifa ég í grein sem nýlega kom út í síðasta tölublaði danska fornfræðiritsins SKALK árið 2013, sem ber heitið Købmand, Kaptajn og Helligmand sem hér má lesa. Í þessari nýju grein er að finna upplýsingar sem ekki hafa áður komið fram um leigjanda skipsins de Melckmeyt, Jonas Trellund, svo nú þýðir ekkert annað en að dusta rykið af dönskunni og lesa sér til fróðleiks. Jonas Trellund var danskur maður sem snemma leitaði hamingjunnar í Hollandi, færði síðan tengdafólki sínum mikil auðæfi, varð síðar gjaldþrota í Kaupmannahöfn og endaða ævina sem heilagur maður í bænum Husum í Suður-Slésvík. Þetta er spennandi Flateyjarsaga sem fer um alla Evrópu.
Ég stefni nú að því með dr. Ragnari Edvardssyni, að halda áfram rannsóknum á de Melckmeyt i Flateyjarhöfn, og vonast til að sem flestir vilji styrkja þær rannsóknir, svo ekki sé talað um Sigmund Davíð og upprennandi fornleifadeild ráðuneytis hans. Sigmundur, fornir diskar og Gleðileg Jól...
Sjá einnig Allen die willen naar Island gaan og Frönsku tengslin
Menning og listir | Breytt 22.12.2013 kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vond ljós og góð
20.12.2013 | 13:41
Íslensk norn, sem oft er afar pólitískt korrekt, en þess á milli algjörlega ókórrétt og óþægileg örgustu kynsystrum sínum, skrifaði nýlega jólapistil þar sem hún vildi fullvissa menn um að sjöarma, sænska jólastikan sem hefur orðið svo vinsæl á Íslandi, sé alls ekki nein "gyðingaljós".
Það verður auðvitað að vara menn við að vaða í villu, ef þeir halda að þessi ljótu tröppuljós frá Svíþjóð eigi eitthvað skylt við gyðinga. Ekki er t.d. Össur gyðingur, svo mikið er víst, þó svo að hann hafi klínt sænskri ljósastiku í gluggann heima hjá sér.
Eva Hauksdóttir, sem menn héldu um tíma að væri af gyðingaættum, fræðir bæði í Kvennablaðinu og á Eyjunni um að þessar sænsku týrur séu ekki gyðinglegar og því með öllu óhættulegar. Góðir Íslendingar, þið móðgið sem samt ekki Palestínuþjóðina með því að vera með þessa lampa heima hjá ykkur.
Í fremur lélegri greinargerð sinni í Kvennablaðinu og Eyjunni um þessi ljós sem blásaklaus og illa gefinn almúginn leyfir sér að kalla "gyðingaljós", hefur Eva ekki einu sinni fundið hinn sanna uppruna ljósanna sænsku (sjá hér og hér), og heildsalinn sem byrjaði að flytja þetta "hemslöjd" frá Svíþjóð er rangnefndur í grein nornarinnar.
En sama hvað Eyjan og Kvennablaðið segja, eða hvað Eva norn lætur ljós sitt skína, þá er það nú staðreynd, að ljósastika gyðinga, hin sjöarma menorah, er fyrirmyndin að ljósunum sænsku. Sjöarma ljósastikur voru oft í kirkjum Evrópu á síðari hluta miðalda og t.d. á altörum sænskra kirkna frá því á 17. öld. Menn vildu minnast þess að kirkja þeirra stóð i beinu sambandi við musteri Salómons í Jerúsalem.
Í dómkirkjunni í Lundi er forláta sjöarma stika úr messing frá 15. öld, sem framleidd var í Niðurlöndum.
Á myndinni efst stendur Kristján Sveinsson sagnfræðingur og starfsmaður Alþingis við stikuna stóru í Lundi og lætur ljós sitt skína, og er hann hvorki gyðingur né aðdáandi sænskrar stórmenningar. Kristján er hins vegar með hærri mönnum, þannig að þið sjáið að sjö arma ljósastikur eru oft hærri og veglegri en hæstu Svíar, svo ekki sé talað um spítnaruslaljósin sænsku sem seld eru í IKEA og víðar.
Svíaljósin, sem ekki eru "gyðingaljós", eru búin til af misnotuðum smábörnum sem þrælkað er út í Kína. Þið getið því hæglega haldið áfram að nota þessi ljós án vondrar samvisku. Gyðingar hafa ekkert grætt á þeim og þau hafa nú verið gæðastimpluð af virtri norn á Íslandi sem fremur særingar á Eyjunni, þar sem menn selja ekki söguna dýrar en þeir keyptu hana.
Kinga frá 2. eða 3. öld e. Kr. , fundin í Jerúsalem, og sem sýnir m.a. Menoru, sjö arma ljósastiku gyðinga, sem var upphaflega olíulampi.
Forn fróðleikur | Breytt 21.12.2013 kl. 05:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gamalt kók á gömlum flöskum
12.12.2013 | 05:10
Hver kannast ekki við akfeita jólasveininn, sem drekkur kók í einum teyg? Hver man ekki eftir kókbílnum sem keyrði um sveitir og varð stærri og stærri sem árin liðu? Hver hefur ekki séð kóklestina, þetta unaðslega samgöngutæki sem svalar þorsta mannkyns og tendrar jólaljósin hvert sem hún fer, nema kannski í Darfúr?
Hver man ekki eftir fallega fólkinu, af öllum mögulegum og ómögulegum kynþáttum, sem söng á hæð (í Kaliforníu) á Ítalíu? Og allir sungu með: "I'd like to teach the world to sing". Milljón ropum síðar og með sætar minningar um rotnandi tennur og kókvömb, er fróðlegt að minnast þess að kókið hefur leikið mikilvægt hlutverk í utanríkisstefnu (sem sumir kalla heimsveldisstefnu) Bandaríkjamanna. Rússar áttu ekki drykk eins og Coca Cola, og því fór sem fór.
Kókið kom til Íslands árið 1942, um svipað leiti og Kaninn tók við af Bretum í hernáminu. Vildi Bandaríkjastjórn sýna sjálfri sér og heiminum, hve annt Íslendingum var um hersetuna, m.a. hvernig dátarnir svöluðu þorsta Íslendinga með kóki, þar sem þeir keyrðu um sveitir í jeppum og deildu út kóki á fólk í bæjum og til sveita. Allir teyguðu brátt kókið til sjós og lands.
Ætli þessi þjóðardrykkur Íslendinga sé ekki meira drukkinn af Íslendingum en blávatnið?
Með þessari kókminningu óska ég lesendum mínum gleðilegra jóla, og vona að Grýla, Leppalúði og Jólakötturinn fari ekki illa með ykkur. Ég er viss um að nokkrar þúsundir lítra af heimsveldisgosinu muni renna niður með steikinni ykkar um jólin og valda þembu og sýruátu á tönnum og í maga. Verið samt blessuð og sæl.
Hér er gömul Pepsi-saga og Sinalco-saga.
Viðbót: Ég varð snemma kókþræll. Nýlega greindi ég meira frá dvöl minni í Riftúni, þaðan sem 3 börn komu aldrei söm til baka:
10. júlí árið 1969 skrifaði ég þaðan hróðugur til móður minnar og föður. "Við erum hér heppin að það er strákur hér og afi hanns heitir Björn Ólafsson og hann á Kóka Kóla verksmiðjuna og þers vegna fáum við Kók og Kóla að drekka í afmælum og segðu henni Siggu [systur minni] það." Drengurinn hét Halldór, en hann lést fyrir nokkrum árum síðan. ...
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 05:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Kamban og kalkúnninn
6.12.2013 | 13:52
Það fer að líða að jólum og þá falla oft margir kalkúnar. Guðmundur Kamban var mikill áhugamaður um kalkúna og alveg er ég viss um að Sveinn Einarsson hafi sagt frá því í bók sinni um Kamban. En hvað sem því líður, þá læt ég söguna flakka hér, enda hef ég ekki lesið bókina hans Sveins.
Árið 1888 fékk forvörðurinn August Olbers þann starfa að forverja kalkmálverk í dómkirkjunni í Slésvík. Olbers var Ólafur forvörður síns tíma, en ekki eins vandaður af meðölum og Óli falsarabani nútímans. Olbers tók sig til og málaði stóra kalkúna hátt uppi við kirkjuhvelfinguna, kalkúna sem aldrei höfðu verið þar áður (sjá mynd). Enginn tók eftir þessum nýju kalkúnum sem bætt var við meistarastykki frá 14. öld.
Í byrjun árs 1939 fékk prófessor Fey frá Lübeck þann starfa að forverja kalkmálverkin í dómkirkjunni, en vegna veikleika þessa prófessors og eins samstarfsmanna hans, sem hét Lothar Malskat, fjölgaði nú kalkúnunum um helming.
Það fréttist í þetta sinn fljótt að kalkúnshanar væru efst uppi á veggnum undir kirkjuloftinu í Slésvík, og þótti mönnum það mjög merkilegt. Áður en menn vissu af, var heimsfrægur Íslendingur orðinn að helsta sérfræðingi nasista í kalkúnunum í Slésvík á miðöldum. Það var enginn annar en "Prófessor" Guðmundur Kamban. Prófessorstitlinum klíndu Þjóðverjar alltaf á Kamban, án þess að Kamban væri að fúlsa við því. Þar var hann ekkert öðruvísi en margur landi hans sem hefur gengið kinnroðalaust með falstitil.
Kamban tjáði sig um kalkúnana, Die Truthahnen, í dómkirkjunni í skrifaði grein sem birtist í nasistafjölmiðlum um hvernig kalkúnninn hafði borist frá Vesturheimi til Evrópu með Íslendingum (sjá hér). Kamban taldi víst, að kalkúnarnir hefðu verið veiddir af norrænum mönnum og teknir með til Grænlands, fyrst og fremst karlfuglar, hanar, sem voru sterkari til feðralaga en kvenfuglinn. Myndir hrappanna Feys, Malskats og Olbers voru einmitt af kalkúna-hönum.
Kamban taldi, að forfeður sínir hefðu haft fuglana sér til matar á langferðum sínum frá Vesturheimi og þannig hefðu þeir náð til Evrópu, löngu, löngu áður en Kólumbus lagði sér til munns "safaríkar" kalkúnabringur.
Lothar Malskat (1913-1988) var frægur falsari og falsaði annað en kalk- og Kalkúnsmálverk. Grallaralegur var hann. Hann var mest leiður yfir því að prófessor Fey hefði fengið mestan heiður fyrir myndverkin af kalkúnunum í Slésvík. Fey fékk 20 mánuði í steininum en Malskat aðeins 18. (sjá)
Þannig var nú Kamban, íslenskur rugludallur, sem fólk vill hefja til skýjanna árið 2013. Árið 1952 viðurkenndi Lothar Malskat fyrir rétti í Lýbíku að hann hefði bætt við kalkúnum á kirkjuloftinu í dómkirkjunni í Slésvík árið 1938, og enn er hægt að sjá Kambanskalkúnana, því menn ákváðu að fjarlæga ekki fölsunina eins og gert var við aðrar falsanir sem Malskat málaði í Maríukirkjunni í Lýbíku.
Ég vona að Sveinn Einarsson sé mér ekki gaggandi reiður fyrir birta efni sem hann hlýtur að vera með í bókinni sinni um Kamban. Leggur Fornleifur hér með til að Þakkargjörðarhátíðin, Thanks Giving, sem ameríkaníseraðir Íslendingar eru farnir að halda í miklum mæli, verði héðan í frá kölluð Kambansvaka, til heiðurs þessum fremsta sérfræðingi þjóðarinnar í kalkúnum, sem einnig átti líf dansk gyðings á samviskunni.
Kambankambankambankaka
Forndýrafræði | Breytt 7.9.2019 kl. 04:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Kamban er ekki hægt að sýkna
5.12.2013 | 18:05
Um daginn hlustaði ég á viðtal við Svein Einarsson fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra og menningarfulltrúa um Guðmund Kamban. Í dag hlustaði ég á annað viðtal sem Björn Bjarnason átti við Svein á Íslands Nýjasta Nýtt (ÍNN). Sveinn hefur einmitt gefið út bók um skáldið umdeilda, Kamban, líf hans og starf, og ekki er nema von að Sveinn brosi sínu breiðasta og sé rjóður í vöngum í misheppnaða húsinu í Efstaleiti.
Sveinn lét í ljós þá skoðun sína, að margt nýtt hefði komið fram í sagnfræðirannsóknum í Danmörku á síðustu árum, en lét skilja á sér, að ásakanir á hendur Kamban um nasisma og samskipti við þýska setuliðið í Danmörku væru lítilvægar. Sveinn telur ekki að hann hafi verið réttdræpur nasisti "vegna þess að hann hafi ekki verið á lista frelsisráðsins". Listi frelsisráðsins var reyndar búinn til eftir að Kamban hafði verið skotinn! Sveinn sagði á ÍNN að hann teldi að Guðmundur hefði verið sýknaður, hefði hann verið tekinn höndum. Ég er ósammála.
Á ÍNN sagði Sveinn sömuleiðis að fyrirliggjandi upplýsingar væru "ekki ástæða til að hengja hann upp á einhvern kross fyrri það." Hins vegar skilst mér á gagnrýni í Silfri Egils að Sveinn sé fyrst og fremst að gera skáldinu og leiklistarmanninum Kamban skil í bók sinni og fari ekki mikið út í aðra sálma, og velti því ekki fyrir sér hlutum eins og drápinu á Kamban eða skoðunum manna á samskiptum Kambans við nasista í Þýskalandi og þýska hryðjuverkaliðið. Sveinn Einarsson gerir það m.a. vegna þess að Danir setja svo ströng skilyrði fyrir birtingu þeirra gagna sem upplýst geta um dauða hans. Þetta er því ekki nein fullnaðarúttekt um Kamban. Það er hins vegar sögufölsun þegar hermt er í öðrum þætti á RÚV (Rás 1) að "múgæsingarmaður" hafi skotið Kamban á Pensionat Bartoli í Upsalagade 20 í Kaupmannahöfn, líkt og einn starfsmaður RÚV gaf í skyn í viðtali við Svein Einarsson nýverið.
Kamban var mjög samsettur maður og náttúrulega getur maður ekki gengið framhjá öðru en leiklistinni í lífi þessa manns, þar sem skilin milli veruleika og þess lygilega voru ekki alltaf augljós. Hann hóf feril sinn með því að halda því fram að einhverjir að handan, m.a. H.C. Andersen og Jónas Hallgrímsson skrifuðu í gegnum sig. Hann taldi einnig sér og öðrum trú um að hann gæti snúið við gangi styrjaldarinnar og fékk að sögn 1500 kr. á mánuði frá Þjóðverjum fyrir uppfinningu sem átti að geta snúið við stríðsgæfu nasista. Leiklistaskáld og ævintýramaður. Sveinn kallar Kamban "Andlegan aristókrat", sem oft eru líka ævintýramenn, eiga það oft til að verða misskildir, og sér í lagi ef þeir veðja á rangan hest. Guðmundur veðjaði stórt á nasistabikkjuna - og veðjaði rangt.
Ég bendi fólki sem vill fræðast betur um nasistaveikleika Kambans á að lesa bók Ásgeirs Guðmundssonar, Berlínarblús, til að fræðast meira um Kamban og samskipti hans við nasista.
Ein af nýrri bókum um sögu stríðsáranna í Danmörku sem hvað mesta athygli vakti árið 2005, þegar 60 ár voru liðin frá stríðslokun var bók mín Medaljens Bagside (2005). Hún fjallar ekki um Guðmund Kamban. En á mjög furðulegan hátt kom Kamban þó með í bókina, og eftir að ég skrifaði bók mína hef ég skoðað lögregluskýrslur í skjalasafni danska dómsmálaráðuneytisins vegna rannsóknar á drápinu á Kamban, sem fullvissar mig um að dauði Kambans var slys. Þær sagðist Sveinn Einarsson ekki hafa skoðað, Hann "vildi ekki kynna sér það" eins og hann sagði á ÍNN, og finnst mér það afar léleg sagnfræði hjá Sveini Einarssyni. Skot hljóp af í æsingi sem skapaðist er Kamban neitaði að láta handtaka sig. Ég þekki málið, veit hverjir voru til staðar og tel það vafasama aðferð hjá Sveini að afneita vitneskju, þó svo að strangar reglur gildi um birtingu þeirra og nafna. Reyndar heyrðist mér á öðru því sem Sveinn talaði um í þætti Björns Bjarnarsonar á ÍNN, að Sveinn hlyti að hafa lesið gögnin í skjalasafni danska dómsmálaráðuneytisins.
Samvinna Kambans við nasista í Danmörku var ef til vill ekki ekki dauðasök, en það fór ekki fram hjá mönnum að hann var innsti koppur í búri nasista, fyrirlesari hjá Nordisches Gesellschaft og hyllti opinberlaga í dönskum fjölmiðlum Göbbels er sá vitleysingur setti á gagnrýnisbann á ritdóma árið 1936. Þegar Sveinn Einarsson leyfir sér að kalla Kamban "friðarsinna", er Sveinn búinn að missa tökin á efniviði sínum, og maður gæti haldið að hann hafi frá upphafi ætlað sér að skrifa sýknudóm um leið og hann gerði ritlist Kambans skil.
Mynd af Thalmay varðveitt í Frøslev búðunum í Danmörku, áður en hann var sendur til Þýskalands. Myndin er líklega tekin í Vestre Fængsel í Kaupmannahöfn.
Sagan af Thalmay gleraugnasala
Stærsti "glæpur" Kambans var hann ekki skotinn fyrir, en hér verður sagt frá þeim glæp eins og mér var sagt frá honum. Mér þykir líklegt að þessar upplýsingar hafi farið fram hjá Sveini, því Sveinn hélt því fram á ÍNN að hann hefði ekki séð eða heyrt að Kamban hefði borið blak af gyðingaofsóknum. Samvinna við Nordisches Gesellschaft, sem Kamban hafði, bendir til þess að hann hafi haft lítið álit á gyðingum, því það var algild regla um alla meðlimi þess vafasama félags.
Einn þeirra gyðinga sem vísað var úr landi á stríðárunum í Danmörku var Jacob Thalmay. Ég vitna hér í bók mína: "Meðal þeirra 77 fanga sem voru fluttir af Þjóðverjum til Sachsenhausen þann 21. janúar 1944, voru tveir aðrir gyðingar, sem báðir voru danskir ríkisborgarar. Einn þeirra var úrsmiðurinn og gleraugnasalinn Jacob Thalmay (f. 1904). Hann fæddist í Varsjá, en hafði búið stærstan hluta ævi sinnar í Danmörku. Hann hafði þó fyrst fengið danskt ríkisfang árið 1942 eftir að hann hafði búið í Palestínu og verið með [enskt] protektorate vegabréf síðan 1922. Jacob Thalmay hafði orðið eftir í Danmörku eftir að kona hans og dóttir flýðu til Svíþjóðar. Ástæðan til þessa var að hann var orðinn virkur í andspyrnuhreyfingunni og vann hugsanlega sem gagnnjósnari. Hann hafði litað hár sitt ljóst og samkvæmt bróðursyni hans hafði hinn íslenski rithöfundur og meðreiðarsveinn nasista, Guðmundur Kamban, borið kennsl á Jacob Thalmay í Shell-húsinu sem fyrrverandi nágranna sinn og uppljóstrað fyrir Þjóðverjunum, að Thalmay væri gyðingur.
Í einni af neðanmálsgreinin við þessar upplýsingar má lesa:
"Jacob Thalmays nevø, Mark Thalmay, Tjele ved Viborg, fortalte forf. følgende under en telefonsamtale d. 11.8. 2000: "...Min frabror var kontraspion og kom i Shell-huset. Der blev han genkendt af en islandsk digter, Kamban, som genkendte ham, selvom han havde farvet håret lyst. Han fortalte tyskerne, at Jacob var jøde. De havde været naboer. Han genkendte ham" ."
Ég geri mér grein fyrir því að erfitt hefði verið að sanna þessa sögu fyrir rétti, en kannski gerðu Danir Íslendingum greiða með því að skjóta Kamban fyrir slysni. Því fyrir rétti hefði þessi saga ekki komið vel út fyrir Guðmund Kamban, og hvað þá Íslendinga. Ég tel fullvisst að sagan sé sönn. Ég hafði samband við óþekktan mann í síma, sem ekki hafði fengið neinar upplýsingar fyrir um erindi mitt. Ég man að ég varð mjög undrandi yfir því að Kamban væri strax nefndur til sögunnar.
Örlög Jacobs Thalmays urðu þau að hann var fluttur frá Sachsenhausen til Auschwitz og þaðan var hann sendur í dauðagöngu til fangabúðanna í Melk, undirbúða Mauthausen búðanna illræmdu í Austurríki. Talið er að hann hafi látist á leiðinni eða í búðunum í Melk í mars árið 1945.
Jacob Thalmay, áður en Guðmundur Kamban sá hann í Shell húsinu, sem var fangelsi og ein af stjórnstöðvum Gestapos.
Sagnfræði | Breytt 29.4.2020 kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Lík 133 á Akureyri sumarið 1907
4.12.2013 | 20:29
Fornleifur er konungasleikja, en þó mest í hófi. Þegar nýir íslenskir stjórnmálaflokkar eru farnir að pakka kjánalegum hugsýnum sínum inn í glapsýn af dönsku þorpi og hjólastígum í Vatnsmýrinni verður manni hins vegar um og ó. Það er greinilegt að undirlægjuháttur sumra Íslendinga fyrir Danskinum og erlendu yfirmætti er enn til staðar og er ræfilssnobbið fyrir ESB hluti af því.
Að því tilefni og vegna þess að það er alltaf í tísku að vera með Danska daga á Íslandi, sem notaðir eru til að selja allan andskotann, langar mig á næstunni að minnast sumra þeirra stórmenna sem voru meðvitaðir um að konungstign þeirra byggði einnig á trúum þegnum sem byggðu hið auma sker Ísland. Þessir konungar sáu sér ekki fært að vitja eigna sinna fyrr en að Kristján 9. gerði það árið 1874. Sonur hans, Friðrik 8., langafi Margrétar Danadrottningar, kom til landsins árið 1907. Jú, hann var einmitt sá sem andaðist í Hamborg og fannst, sumir segja dauður af reiðarslagi, á bekk í Herbertsstrasse 5 árum eftir að hann heimsótti Ísland. Konungur hafði brugðið sér án fylgdarmanna út í nóttina og rétt fyrir miðnætti hins 14. maí 1912 fannst hann dauður á bekknum og var færður á líkhús í grenndinni. Þar var hann ekki færður til bókar sem einhver hátign, heldur sem lík númer 133. Margir Danir eiga erfitt með að heyra söguna um að konungur þeirra hafi gefið upp öndina á hóruhúsi í grenndinni, en sú dánarorsök hefur verið höfð í flimtingum, en verður víst aldrei hægt að sanna. Merkilegt þótti þó að hann færi einn út á lífið.
Myndstúfurinn efst er frá heimssókn þessa mikilmennis til Akureyrar. Þarna sést eitthvað af Íslendingum, sýslumönnum, prestum og sveitaofstopum bukkandi fyrir kóngsa. Takið eftir öllum hvítu hestunum sem smalað hefur verið saman til hópreiðarinnar og hvítklæddu fjallkonunum við Góðtemplarahúsið.
Nærri lokum myndarinnar, sem er varðveitt á Dansk Filminstitut, má sjá Matthías Jochumsson flytja drápu fyrir konung. Matthías hitti einnig Kristján 9. föður Friðriks og skrifaði: Ég átti tal við þá báða konungana, Kristján 9. og Friðrik 8. bæði erlendis og hér á landi og má því trútt um tala. Kristján var hnífréttur hermaður og aristokrat" að eðli, en enginn andans maður ... stirður til máls og eins og óvanur að mæla margt við eða umgangast alþýðufólk. Sonur hans aftur á móti var öðlingur í lund, vel menntaður og málsnjall og svo auðveldur og aðlaðandi, sem formið" ýtrast leyfði." Það þurfti konunga til að þekkja konunga.
Friðrik 8. við Gullfoss. Konan er Rose Bruhn, sem var eini kvenkyns fregnritari konungs.
Sagnfræði | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)