Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Auðunnir 100 dollarar

worldcolumbianexpositionexhibithall_small.jpg

Alfred J Raavad bróðir Thors Jensens, sem ég greindi frá í greininni hér á undan flutti til Bandaríkjanna með konu sinni og fjórum börnum árið 1890. Þar kallaði hann sig Roewad og síðar Roewade.

Þann 1. október árið 1892 var viðtal við Alfred í Chicago Daily Tribune í tilefni þess að hann hafði unnið til verðlauna í hönnunarkeppni. Hann vann 100 dali fyrir hönnun merkis fyrir Heimssýninguna Chicago World´s Fair, sem einnig var kölluð The Columbian Exposition sem haldin var í borginni 1892-93.

mr_roewads_banner.jpg

Vinningstillaga Alfred Raavads var eins konar rúnartákn, hvítt á leirrauðum fleti. Hann hannaði fána, skrúðfána og skjöld með þessu merki. Ekki er laust við að hið forna danska sóltákn sem frændi hans Björgólfur Thor notaði um tíma á stél einkaþotu sinnar sé aðeins skylt þessu tákni sem Alfreð hannaði árið 1892. Þegar menn stefna á miklar hæðir er víst best að hafa góða skildi og tálkn til að verjast falli.

Blaðamaður Chicago Tribune hefur greinilega haft mikið álit á þessum 44 ára Dana, og skrifaði m.a. í forsíðugrein um vinningshafann:

Although Mr. Roewad said with a smile last night that he had never earned $100 so esaily before, it is evident from his career that he has the ability and purpose to earn many hundreds of hundred dollars before he dies.

Þeir voru því greinilega líkir bræðurnir Thor og Alfred Jensen þegar að auramálum kom. Þess má geta að 100 Bandaríkjadalir árið 1892 samvara 2632 dölum í dag (eða 354.293,52 ISK).

manufacturingbldg_1261154.jpg

abraham_gottlieb.jpgÍ viðtalinu við Chicago Daily Tribune greindi Alfred örlítið frá högum sínum. Eftir að hann hafði flust með fjölskylduna til Chicago í maí 1890 hafði hann m.a. unnið hjá Keystone Bridge Company. Síðan fékk hann starf hjá Abraham Gottlieb, sem um tíma var yfirmaður framkvæmda á heimssýningunni. Gottlieb var gyðingur, og eru nú til sögunnar taldir tveir gyðingar sem Alfred Jensen Raavad vann með. En síðar á ævinni gerðist Raavad mikill gyðingahatari eins og ég greindi frá í fyrri grein minni um Alfred.

Raavad vann síðar á teikni- og hönnunarstofu heimssýningarinnar og starfaði mest við hönnum hins risastóra Manufactures og Liberal Arts skála (sjá mynd efst og hér fyrir ofan). Skáli þessi var teiknaður af arkitektinum Robert Swain Peabody sem var frá Boston.

harpersexpositionbureau.jpg

Teikning sem sýnir teiknistofu Chicago World´s Fair. Teikninguna gerði T. de Thulstrup. Úr Harpers Week 1892.

Raavad lofaði mjög Bandaríkjamenn og borgina Chicago. Hann gerði samlíkingu á Ameríku og Evrópu, sér í lagi á Englandi sem hann hafði augljóslega ekki miklar mætur á. Ekki er laust við að þegar árið 1892 sé farið að bera á mannbótastefnu og herrafólkshugsjónum í skoðunum Alfred Jensen Raavads:

In spite of my love for my country I decided my ideas and work were too American to agree with the slow Danish Development. After a struggle I sold out everything and started to find the center of the world and its civilization. I was sure the westward growing civilization had its headquarters in the United States, but where in this country was the center? I thought it would be in Chicago, but nobody could be sure of this, and it was a kind of lottery to select any place. As soon as the Word´s Fair question was settled I came to Chicago at once.

Of course it is a serious thing to shift nationality. A thousand questions streamed into my soul. You are too American for Copenhagen, are you American enough for Chicago? I had been studying in Paris, Vienna and other cities and it was plain every place hat its originalities , and of course Chicago hat its. I will see London and see how Chicago and Chicagoans look. I knew that the women of the other European metropolises were most characteristic of the inhabitants. I will look at the women of London and see how they compare with my ideal. I staid there a week, but it is far more difficult to find the English Types than those of other cities. Homely faces, short and clumsy figures, dressed without taste, were the ruling features. Either a special nose fostered by the fog and smoke or the remains of the Celts. 

Arriving here my first task was to seek the American type as it expressed itself in the street passengers. Who can reveal my joy! I looked and was afraid it was a dream. I saw the most beautiful and vivid type of man. The slender, lovely girls, with small hands and feet, natural and healthy, with brighter eyes than I ever saw before, expressed my ideal in better form. This was my first impression and it has grown stronger since.

Heimild: Chicago Daily Tribune, 1. október 1892; forsíða og bls. 3. Hér má lesa hluta greinarinnar.

sigga_rokk_1261148.jpgP.s. Frú Sigríður E. Magnússon, kona Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge var eins konar sýningargripur á sýningunni í Chicago árið 1893. Þar var hún klædd skautbúningi, hélt fyrirlestra um sögu Íslendinga, lék á gítar og sýndi íslenska silfurgripi. Ekki voru allir sáttir við þátttöku hennar á sýningunni. Harpa Hreinsdóttir hefur skrifað afar skemmtilegt blogg um það.

 


Bróðir Thors

radsmannsibud_1917.jpg

alfred_raavad_1848-1933_1916.jpg

Thor Jensen ættfaðir Thorsaranna átti 11 systkini og þar af 4 hálfsystur. Einn bróðir Thors var líka vel gefinn piltur eins og Thor og komst á spjöld sögunnar líkt og hinn framtakssami bróðir hans á Íslandi. Hann hét Alfred J. Raavad (síðar stafað Råvad; Sjá ljósmynd til vinstri). Alfred breytti eftirnafni sínu árið 1880, enda Jensen bara nafn fyrir venjulegt alþýðufólk. Alfred fæddist árið 1848 og var því töluvert eldri en Thor, sem fæddist árið 1863. Faðir þeirra var Jens Christian Jensen múrarameistari og móðir þeirra hét Andrea Louise Martens.

Alfred Jensen Raavad

Alfred starfaði í Danmörku og Bandaríkjunum (þar sem hann kallaði sig Roewade). Hann var sæmilega vel þekktur fyrir nokkrar byggingar beggja vegna Atlantsála, en sömuleiðis fyrir áhuga sinn og skrif um borgarskipulag, sem hann byrjaði að sýna áhuga í Bandaríkjunum. Hann varð t.d. fyrstur manna til að teikna skipulag Reykjavíkur, þar sem hann hugsaði sér einhvers konar Akropolis stjórnsýslunnar og "aðalsins" í Öskjuhlíðinni.

Íslenskur arkitekt, Hilmar Þór Björnsson, sem oft skrifar áhugaverðar greinar um byggingalist fyrir alþýðuna á bloggi sínu á Pressunni, hefur haldið því fram, að Alfred J. Raavad hafi aldrei notið sanngirni þegar seinni tíma menn útmældu heiður fyrir landvinninga í byggingarlist og bæjarskipulagi (sjá hérhér og hér).

Hilmari Þór telst svo til, að Alfred J. Raavad hafi fyrstur stungið upp á fingraskipulagi stór-Kaupmannahafnar, sem löngum hefur verið kennt við Peter Bredsdorff og Steen Ejler Rasmussen og talið að þeir hafi átt heiður að því þegar þeir kynntu það árið 1947. Hilmar Þór álítur að Raavad hafi ekki notið heiðursins vegna þess að hann hafi verið gyðingahatari. Þarna held ég að Hilmari Þór förlist byggingalistin í sagnfræðiathugunum sínum, því þetta er einfaldlega ekki rétt og meinloka og óhugsuð samsæriskenning í besta lagi.

Þó svo að Alfred J. Raavad hafi verið svæsinn gyðingahatari, félagi í Foreningen til Fremmedelementers Begrænsning, sem síðar var gefið nýtt nafn (Dansker Ligaen), þá var gyðingahatur svo rótgróið í löndum Evrópu á fyrri hluta 20. aldar, þar með talið Danmörku, að lítið var eftir því tekið, nema hjá þeim sem fyrir því urðu. Íslendingar flestir geta ekki gert sér grein fyrir því hatri. Það var því ekki Raavad sem var fórnarlamb, heldur fólkið sem hann hataði.

En nú er það einu sinni svo, að gyðingar stjórna ekki ritun sögunnar í Danmörku eða almenningsáliti. Gyðingar höfðu ekki og hafa aldrei haft þau völd í Danmörku, að skipa mönnum sess í sögunni og gera minna úr verkum þeirra til að hefna haturs í garð gyðinga.

Hvaðan Hilmar Þór hefur þess þvælu, veit ég ekki. Hún sýnir frekar fordóma í garð gyðinga en vitsmunalega þanka. Vona ég svo að þessu upplýstu, að fólk sem hugsanlega enn telur Thorsaranna gyðingaættar, fari að taka sönsum, þegar þeir frétta af þessum skoðunum ættingjanna í Danmörku.

Tiltölulega nýlega birtist bók eftir Anne Sofie Bak um Gyðingahatur í Danmörku og þá fyrst var aftur farið að minnast á gyðingahatur Raavads og ýmissa annarra þekktra manna manna í Danmörku. Þess er greinilega getið í yfirlitsverkum og alfræðiritum í Danmörku að hann eigi heiðurinn eða réttara sagt hugmyndina að framtíðarskipulagi stór-Kaupmannahafnar áður en Ejler Rasmussen og Bredsdorff nýttu sér hugmyndir hans. Sá heiður hefur aldrei verið tekinn af Alfred Raavad, hvorki af gyðingum með "öll þeirra völd", né öðrum. 

chicago.jpg

Þessi bygging, sem Raavad teiknaði með öðrum í Chicago, líkist engum byggingum sem hann skildi eftir sig í Kaupmannahöfn. Hún hafði heldur engin áhrif á Guðjón Samúelsson.

Teiknaði hús fyrir Íslending af gyðingaættum

Máli mínu til stuðnings verð ég að nefna 20 blaðsíðna ritling þann er Alfred birt árið 1918 og sem út var gefinn hjá Høst og Søn í röðinni Dansk-Islandsk Samfunds Smaaskrifter / 1. Bæklingurinn var tvítyngdur og kallaðist á íslensku Íslensk Húsgerðarlist (Hilmar Þór fer rangt með nafnið og kallar bæklinginn "Íslensk Húsagerðarlist") og á dönsku Islandsk Architektur. Bæklingurinn var gefinn út fyrir tilstuðlan manns af íslenskum ættum og gyðinglegum. Það var enginn annar en Aage Meyer Benedictsen (1866-1927), sem ég hef greint frá rhér og hér.

_mb_1909_johannes_frigast_kalundborg_b_1261121.jpgAage var í móðurlegg kominn af íslenskum og dönskum kaupmönnum, en faðir hans Philip Ferdinand Meyer (1828/9 -1887) var gyðingur sem snerist til kristni og kallaði sig síðan Johan Philip Ferdinand Meyer. Meyer, sem lifði framan af tiltölulega áhyggjulausu lífi þökk sé auðlegð föður hans, byggði sér sumarhús árið 1912, sem enn stendur. Hann kallaði húsið Videvang (Víðavang), og er húsið nærri bænum Videbæk á Jótlandi og í dag í eigu austuríska milljónamæringsins og Vínarbarnsins  Kurt Daell (f. 1940,hann hét upphaflega Kurt Hauptmann) síðasta eiganda Daells Varehus í Kaupmannahöfn. Uppeldisdóttir Aaage Meyer Benedictsens og konu hans Kari ól upp tvö börn frá Austurríki. Nokkrum árum eftir að húsið var byggt hafði Aaage áform um að byggja annað hús í íslenskum stíl. Hafði hann samband við Alfred J. Raavad, sem skömmu áður hafði verið á Íslandi og farið með bróður sínum til Bandaríkjanna (sjá um þá ferð hér í prýðis grein Péturs heitins Péturssonar) og voru þeir báðir Aage og Alfred félagar í Dansk Islandsk Samfund.

Meyer Benedictsen hafði í hyggju að byggja sér "Ráðmannsíbúð" með kirkju og "Klukkuhliði", sem Raavad birti teikningar af í ritlingi sínum. Meyer Benedictsen fékk einnig teikningar frá Raavad og eru þær í skjalasafni Meyer Benedictsens í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn (sjá efst og hér fyrir neðan). Því miður varð ekkert úr þeirri byggingu, og ég veit ekki af hverju, en tel sennilegt að Aage hafi skort fjármagn til þeirra.

Þegar yfirlýstur gyðingahatari eins og Alfred J. Raavad, frændi Thorsaranna á Íslandi, gat unnið með Meyer Benedictsen og öfugt, er kannski of mikið gert úr gyðingahatrinu í karlskömminni honum Alfred.

framhli_kirkju_air_1917_1261118.jpg

Kirkja sem Meyer Benediktsen vildi reisa. Stal Guðjón þessu frá Alfred Raavad? Ekki man ég eftir því. framhli_kirkju_air_1917.jpg

Var Guðjón Samúelsson hugmyndaþjófur?

Hilmar Þór Björnsson gerið því líka skóna, að Alfred J. Raavad hafi ekki hlotið þann heiður á Íslandi sem honum bar, og telur Guðjón Samúelsson hafa leitað of fjálglega smiðju Raavads án þess að Raavad fengi neinar þakkir fyrir. Þar á meðal telur Hilmar Björn að Guðjón hafi sótt um of í smiðju Raavads og megi það t.d. sjá á teikningum Raavads að Ráðsmannsíbúðinni.

Ekki var það þá vegna þess að Raavad var gyðingahatari. Ég get vissulega samþykkt að Guðjón hefur greinilega lesið ritling Raavads um íslenska húsgerðarlist, en hvort það var meira en það, stórefa ég. Raavad byggði engin hús í "islandica stíl" með burstum og slíku í Danmörku og það þarf að rökstyðja það vel, ef einhver sér svip með húsum Guðjóns á Íslandi og húsum Raavads í Danmörku eða Bandaríkjunum. Burstahús Guðjóns svipar ekkert til tillögu Raavads að Íslandshúsi gyðingaafkomandans Meyer Benedictsens frá 1917. Eglise_Hallgrimskirkja

douaumont2

Arkitektar leita svo sem oft í smiðju starfsbræðra sinna án þess að geta þess og það er mönnum oft efni í margar, langar og leiðinlegar ritgerðir (sjá hér og myndirnar hér fyrir ofan). Maðurinn er í eðli sínu hópdýr og eftirherma (kópíisti) og langt er á milli þeirra sem fá nýju og stóru hugmyndirnar, og eru þeir sjaldan spámenn í sínu heimalandi. Hvað varðar bæjarskipulag Raavads fyrir Reykjavík, er hægt að sjá að ýmsar hugmyndir Guðjóns eru komnar frá Raavad. En Guðjón setti þó sinn Akropólis á Sólavörðuholtið en ekki í Öskjuhlíðina.

Alfred var vissulega merkilegur "Thorsari" og saga hans afar áhugaverð, nema hvað hann trylltist víst (stundum) þegar hann sá og heyrði gyðinga. En það gerðu menn og gera svo margir enn. Hatrið stendur oft lengur en rammgerðustu byggingar stórra arkitekta.

Grein þessi byggir eins og margar greinar höfundar á rannsóknum hans í Ríkisskjalasafninu í Kaupamannahöfn. Teikningarnar Raadvads af Ráðsmannsíbúð og kirkju er að finna í einkaskjölum Aage Meyer Benedictsens. Ljósmyndin af Aage Benedictsen Meyer er frá 1909 og er í eigu háskólans í Vilnius í Litháen.


Gullfoss

gullfoss.jpg

Út er komin í Danmörku bókin Gullfoss. Þótt titillinn gæti bent til þess, er þetta hvorki bók um sögu okkar stærstu náttúruperlu né ádeilurit á innheimtu gjalds fyrir aðgengi að sameign þjóðarinnar eða aðra ónáttúrulega náttúrusölumennsku.

Gullfoss er eitt af merkari sagnfræðiritum síðari ára um 20. öldina á Íslandi. Bókin er greinasafn um tengsl danskrar og íslenskrar menningar. Í henni má finna gott yfirlit yfir sögu Dana á Íslandi á 20. öld. Birtar eru rannsóknir á baráttu Dana með íslenskuna og íslenska menningu, sem og frásagnir af Dönum sem settust að á Íslandi, sér í lagi dönskum konum sem minnihlutahópi á Íslandi á síðari hluta 20. aldar. Afstöðu Íslendinga, jákvæðri sem neikvæðri, er einnig lýst og sömuleiðis mikilvægum áhrifum danskrar menningar á íslenskan "kúltúr"; sömuleiðið þeirri menningarblöndun sem átti sér stað og hvernig hún smitaðist út í ranghala þjóðfélagsins.

Bókinni er ritstýrt af Auði Hauksdóttur hjá stofnun Vigdísar Finnboga, Guðmundi Jónssyni sagnfræðiprófessor og stórvini Íslands, Erik Skyum-Nielsen, og eru þau jafnframt höfundar að efni ásamt yngra fólki eins og Íris Ellenberger, Christinu Folke Ax og Þóru Björk Hjartardóttur. Nestor höfundanna er hins vegar Sigurður Pétursson fyrrverandi lektor í latínu og grísku við HÍ. Grein hans ber af. Vigdís Finnbogadóttir ritaði formála að bókinni.

Í gær var mér og konu minni, sem er ein af þessum fallegu dönsku konum sem íslenskir menn reyndu að draga með sér til Íslands á 20. öld, boðið í hóf í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Ástæðan fyrir því að eins ómenningarlegum manni og mér var boðið var sú, að ég kom í mýflugumynd að útgáfu bókarinnar. Ég útbjó og skrifaði svokallað peer-review, leitaði uppi leiðar villur og misskilning sem ég stakk í. Ekki þó svo að skilja að mikið hafi verið að slíku í verkinu.

benedikt_jonsson_1260955.jpg  skyum_nielsen_og_audur.jpg

T.v.Sendiherra Íslands í Danmörku, Benedikt Jónsson, býður gesti velkomna. T.h. Auður Hauksdóttir og Erik Skyum-Nielsen við kynningu bókarinnar í íslenska sendiráðinu í gær.

Eins og ég sagði, bar ein greinanna af. Það er ritgerð Sigurðar Péturssonar eins mesta latínumanns okkar Íslendinga, en Sigurður kenndi mér sögu Rómverska lýðveldisins fyrsta vetur minn í Háskóla. Sigurður fjallar um fjölskyldu sína. Greinin er skrifuð á eins konar gullaldardönsku og eins hefur maður á tilfinningunni að Sigurður hafi lengi hugsað alla þætti greinar sinnar í þaula. Þetta er greinilega saga, sem hann hefur lengi langað að segja og tími var til kominn. Hún er rosinen i pølseenden í annars góðri veislu.

Sigurður segir sögu íslensk-danskrar fjölskyldu sem tengdi það besta á Íslandi og í Danmörku. Afi höfundar og nafni var fyrsti skipstjóri á Gullfossi Eimskipafélagsins og þar tengist greinin beint í nafn bókarinnar - eða öfugt. Danskur afi hans Olaf Paludan-Müller var háttsettur í Det Østasiatiske Kompagni (ØK). Hann kvæntist heldri konu í Síam (eins og Tæland hét fyrrum) Nang Lek Lot Channung að nafni og giftist dóttir þeirra Ebba (1912-2004) Pétri Sigurðssyni forstjóra Landhelgisgæslunnar. Sigurður Pétursson gefur okkur innsýn í samspil þriggja menningarheima, sem voru ef til vill ólíkir flestum þeim fjölskylduböndum sem Íslendingar og Danir tengdust, en greinin hlýtur í framtíðinni að verða skyldulesning í kennslu á Íslandi í minnihlutum, nýbúum og minni háttar culture-clash kenningum, eða hvað sem það nú heitir. ebba.jpg

Móðir Sigurðar Péturssonar í Síam (fyrir miðju með slaufu í hárinu) með systkinum sínum og þjónustufólkinu Leib og Töng. Árið er 1917.

Ásamt bók Guðmundar Magnússonar um Thorsarana er bókin Gullfoss stærsti fengurinn fyrir dansk-íslenskra menningasögu á síðari árum. Við sem ólumst upp með íslenska afa og ömmur sem keyptu "ný dönsk blöð" í stórum stíl og töluðu um stikkontantinn (stikkontakten), ergelsi og fornermelsi (ærgelse og fornærmelse), sópuðu fortóið (fortovet) og keyptu billettin (billetterne) þekkjum söguna að vissu marki. Greinasafnið Gullfoss sem hlýtur að verða gefin út á íslensku, veitir öðrum, sem ekki komu frá svo "menningarsnauðum" heimilum, nauðsynlega innsýn. En jafnvel var orðið of seint fyrir útgáfu Gullfoss, að veita góða heildarmynd, því margt af því góða fólki sem gæti hafa sagt bestu sögurnar var dáið.

Gullfoss: Mødet mellem dansk og islandsk kultur i 1900-tallet. Redigeret af Auður Hauksdóttir, Guðmundur Jónsson og Erik Skyum-Nielsen. Forlaget Vandkunsten 2015.

Fornleifur gefur bókinni sex grafskeiðar, danskar. Meira er ekki hægt að biðja um, og meira fá menn ekki hér.

6_grafskei_ar_1180436_1260958.jpg


Rannsökum nasistana í Sjálfstæðisflokknum!

nasistarreykjavik.jpg

"Það hefur verið farið með stjórnmálastarfsemi hinna íslenzku þjóðernisinna sem feimnismál og enginn virðist hafa haft áhuga á því að fara nánar ofan í tengsl manna hér á Íslandi við Þýzkaland á þessum árum."

Svo skrifaði Styrmir Gunnarsson á bloggi sínu í dag. Ekki held ég að þetta sé alls endis rétt hjá Styrmi. Þór Whitehead hafur skrifað býsnin öll og líka um íslenska nasista, en mest hefur hann skrifað sína styrjaldasögu út frá íslenskum, breskum og bandarískum heimildum. Jökulssynirnir, þeir Hrafn og Illugi hafi skrifað góða bók um Íslenska nasista (meðlimi Flokks Þjóðernissinna) án þess þó að geta heimilda, og  Ásgeir Guðmundsson hafi velt fyrir sér íslenskum nasistum í grein og bók sinni Berlínarblús, en einnig með takmarkaðri komu í erlend skjalasöfn.

9a8b3490ed04f8484e3918dc0f291e25.jpg

ec700bccc3e330886e39722353c0b752.jpg

78487821_10157164795676843_8128157480908750848_oHver varð að lokum "móðurflokkur" þessara manna? Draumkennd áadýrkun og ást á brjóstvöðvum 1942. Sólkrossinn á skildinum, sem t.d. norskir nasistar notuðu, sómdi sér nýlega á einkaþotu Björgólfs Thors.

Ekki tel ég þó að þessir aðilar og aðrir sem hafa skrifað hér og þar um íslenska nasista hafi ekki misst af svo miklu í Þýskalandi. Þar er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að upplýsingar um áhuga þýskra nasista og yfirvalda á Íslandi eftir 1933. Margt eyðilagðist kannski í stríðinu og tengsl íslenskra manna við flokk og foringja í Þýskalandi voru líka takmörkuð. Það er ekki eins og rjómi þjóðarinnar hafi verið meðlimir í Flokki þjóðernissinna á Íslandi. Sumir af þessum körlum voru ótíndir tukthúslimir og innbrotsþjófar. Afi Jón Geralds Sullenbergers, Gunnar Jóelsson, var t.d. einn þessara manna og með honum í slarkinu var Haukur Mortens. Þeir félagar reyndu eitt sinn lukkuna með því að gerast laumufarþegar (sjá hér og hér).

nazi-march-reykjavik-iceland.jpgÞað voru helst menningarlega þenkjandi Þjóðverjar, og margir þeirra nasistar, sem höfðu áhuga á Íslandi. Íslendingum sem tengdust félaginu Germaníu eða sem meiri eða minni nasistar gengu í Nordisches Gesellschaft var boðið til Þýskalands, þættu þeir nógu áhugaverðir. En Þýskaland sem lagði kapp á að byggja upp hernaðaráform sín vörðu takmörkuðu fé í Ísland og settu t.d. lok á fyrirhugaðar rannsóknir á Íslandi á vegum Ahnenerbe-SS sumarið 1939.

Þjóðverjar búsettir á Íslandi voru vitanlega margir hverjir gargandi nasistasvín, en þó ekki í betri samböndum við Das Vaterland en íslensku nasistarnir.

Sem bein tengsl við Þýskaland má nefna ferðir sem ýmsum Íslendingum var boðið í. Gunnar Gunnarsson hitti Hitler. Öðrum sem boðið var var María Markan, Stefán Islandi, Jóns Leifs, Guðmundur Kamban (sjá greinar mínar Kamban er ekki hægt að sýkna og Kamban og Kalkúnninn). Guðmundar frá Miðdal, rektorar HÍ Alexander Jóhannesson rektor og Níels Dungal og fleiri aðdáendur þýskrar menningar. 

Því er haldið fram að þetta fólk hafi ekki verið nasistar, en það hreifs með að mikilli áfergju. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður og þingmaður fékk sent mikið magn af alls kyns áróðursefni frá Berlín. Því var vísvitandi eytt af Þór Magnússyni hér um árið þegar tekið var til í skjalasafni Matthíasar (sjá grein mína Þegar Matthíasi var hent á haugana). Mér tókst að bjarga örlitlu broti af nasistableðlunum sem Matthías fékk. Það verður að leita á öskuhaugunum til að finna restina.

Hvað varðar tengsl flokksbundinna íslenskra nasista við móðurflokkinn er ljóst, að hinn kynlegi kvistur Eiður Kvaran fékk einhvern stuðning frá móðurapparatinu í Þýskalandi fyrir "vísindastörf" sín (sjá niðurstöður rannsókna minna á sögu hans og félaga hans í greininni Heil Hitler og Hari Krishna). Einstaka nasisti var einnig betur gefinn en meirihlutinn í flokknum. Nasistinn Davíð Ólafsson er sagður hafa stundað nám í hagfræði í Þýskalandi, en því lauk hann aldrei, þótt því sé haldið fram af vefsíðu hins háa Alþingis (sjá grein mína Próf seðlabankastjóra, alþingismanns og nasista).

davi_lafsson_og_flaskan.jpg

Davíð kyssir bokkur með félögum úr áður en hann hélt til Þýskalands til "náms".

Hann hafði þó aldrei fyrir því að segja okkur um samskipti sín við nasista í Þýskalandi. Þeir gáfu honum ekki einu sinni titil á pappír fyrir heimsóknina.

"Foringinn" og Þýskaland

Gísli Sigurbjörnsson í Ási (einnig kenndur við Grund), einn af foringjum íslenskra nasista, skrifaði örugglega einhver bréf til kollega sinna í fyrirheitna landinu, en hvar þau eru niður komin er engin leið að vita. Sjálfur brenndi hann bréfasafn sitt frá þessu tíma líkt og flestir flokksbræður hans og stuðningsmenn. Þýska utanríkisþjónustan hefur ekkert um hann og heldur ekki Bundesarchiv. Ég hef heldur ekkert fundið sem vísað gæti til skrifa Knúts Arngrímssonar við yfirvöld í Þýskalandi. Ég hef leitað.

litli_ariinn.jpg

Árið 1938 útvegaði Gísli í gegnum sambönd sín við Þýskaland, þjálfara fyrir Knattspyrnulið Víkings.

En er ekki fremur hlægilegt að fyrrverandi ritstjóri blaðs sem birti minningargreinar um Gísla í Ási sé að biðja um rannsókn á tengslum hans við Þriðja ríkið, þegar ekkert kom fram um nasisma Gísla í minningargreinum um hann í Mogganum árið 1994. Afneitunin var algjör. Hvað veldur áhuganum nú? Er Styrmir að reyna að skaffa ríkisstyrk handa einhverjum ættingja til að stunda "rannsóknir" við HÍ?

Guðbrandur "Bralli" Jónsson

bralli.jpgMenn eins prófessor Guðbrandur Jónsson, sem ekki voru flokksbundnir, en heilluðust af Hitler, voru líklegar beintengdari við Þýskaland en pörupiltarnir og slagsbræðurnir í Þjóðernissinnaflokk Íslands sem síðar urðu margir hverjir góðir Sjálfstæðismenn. "Bralli", sem af einhverjum furðulegum ástæðum taldi sig vera krata, var einn þeirra sem dreymdi um að gera þýskan prins og nasista að konungi Íslands.

Var Guðbrandur óspart notaður til Þýskalandstengsla, t.d. þegar vinur hans Hermann Jónasson vildi varpa gyðingum úr landi. Þá þýddi Guðbrandur bréf yfir á þýsku, þar sem dönskum lögregluyfirvöldum var sagt hvað þau ættu að gera við gyðingana ef Danir vildu ekki sjá þá (Sjá bók mína Medaljens Bagside (2005) sem má fá að láni á íslenskum bókasöfnum sunnan og norðan heiða). Guðbrandur hafði fyrr á öldinni starfað fyrir utanríkisþjónustu Þjóðverja. Stærra idjód hefur víst aldrei fengið prófessorsnafnbót á Íslandi fyrir ekkert annað en að vera sonur föður síns. Stórmenntaður gyðingur, Ottó Weg (Ottó Arnaldur Magnússon) fékk hins vegar aldrei vinnu við neina menntastofnun á Íslandi (Sjá grein mín Gyðingar í hverju húsi).

Í skjalsöfnum Danska utanríkisráðuneytisins má sjá hvernig Danir fylgdust grannt með Íslendingum, sem utanríkisþjónustunni þótti hafa of náin sambönd við nasista. Það hef ég skrifað um á bloggum mínum. En í skjalsöfnum í Kaupmannahöfn eru ekki heimildir finna um íslenska flokksbundna nasista nema Gísla í Ási (Grund).

Styrmir telur Ísland nafla alheimsins líkt og margur landinn

Mig grunar að Styrmir Gunnarsson falli í vangaveltum sínum í þann hyl sem margir Íslendingar eiga það til að drukkna í í heimalningshugsunarhætti sínum. Þeir halda að Íslandi hafi veið eins konar nafli alheimsins sem allir höfðu og hafa áhuga á.

Vissulega höfðu Þjóðverjar og sjálfur Hitler áhuga á Íslandi, hernaðarlega séð, en ekki fyrr en mjög seint (sjá hér). Í dönskum skjalasöfnum hef ég fundið upplýsingar um að enginn áhugi hafi verið hjá Þjóðverjum þegar ruglaður Íslendingur í Kaupmannahöfn bauð Þjóðverjum bóxítnámur og hernaðaraðstöðu á Íslandi (sjá hér), en Þjóðverjar töldu manninn snarruglaðan. Danir ákváðu að ákæra Íslendinginn ekki þó hann hefði oft gengið á fund þýsks njósnara sem þeir dæmdu til fangelsisvistar, manns sem ég hef sýnt fram á að hafi viðurkennt það árið 1945 að hafa myrt Karl Liebknecht árið 1919 (sjá neðarlega í þessari grein)

Guðmundur Kamban, sem naut góðs af nasistaapparatinu, þó hann væri ekki skráður í flokkinn svo vitað sé. Hann elskuðu Þjóðverjar vegna þess að hann var menningarfrömuður sem Þjóðverjar elskuðu að sýna sem vini nasismans. Kamban gerðist líka aðalsérfræðingur Flokksins í miðaldakalkúnum (sjá sjá greinar mínar Kamban er ekki hægt að sýkna og Kamban og Kalkúnninn). Reis þar líklegast hæst virðuleiki Íslendinga í Þriðja ríkinu, fyrir utan ferð Gunnars Gunnarsson til Þýskalands og Hitlers árið 1940.

gunnar_hittir_hitler_1a_lille_1172715_1260921.jpg

Þessa mynd og aðrar af Gunnari í ferð sinni fyrir nasistaflokkinn í Þýskalandi vill Gunnarstofa á Skriðuklaustri ekki sýna gestum sínum, og heldur ekki FB síðan Gamlar Ljósmyndir, sem stjórnað er af gömlum harðlínustalínista og mönnum sem komnir eru af karlinum sem seldi Gunnari Skriðu. Allir afneita því að Gunnar hafi verið nasisti. Það er sjúkleg afneitun.

Nasistar eru að kjarna til mjög hlægilegt lið. Ekki ósvipað ISIS og baklandi þeirra morðingja í dag. En hlægilegt fólk getur vissulega líka verið hættulegt, eins og mörg dæma sanna.

En þegar stór hluti Flokks Þjóðernissinna var ósendibréfsfær hópur götustráka með drykkjuvandamál, og einstakra sona velmegandi Dana á Íslandi og íslenskra kvenna þeirra, er líklegast ekki um auðugan garð að gresja fyrir þá sögu sem Styrmir vill sjá og hvetur Illuga Gunnarsson til að veita fé í.

Eins og Illugi sé ekki búinn að gera í nóg í buxurnar með dauðanum í moskunni Feneyjum. Margt gott hefur þegar verið skrifað um íslenska nasista af leikum sem lærðum, og heyri undan mér að á Íslandi sé blaðamaður að skrifa ekki meira né minna en 800 síðna verk um stríðárin. Kannski verður það betra en það sem sagnfræðingar hafa boðið upp á. Hann leitar samt grimmt í smiðju sérfræðinga og heimtar að fá efni hjá þeim lærðu sér að kostnaðarlausu. Ég hef látið hann hafa efni, en sé eftir því, því ugglaust þakkar hann ekki fyrir stafkrók af þeim upplýsingum eða þær myndir sem ég hef látið honum í té.

Nasistar og Sjálfstæðisflokkurinn

En Styrmir gerir á bloggi sínu einfaldlega of mikið úr þessum drulludelum sem þrömmuðu um götur Reykjavíkur á 4. áratugnum, en urðu síðar góðir þegnar í Sjálfstæðisflokkunum.

Nær væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ef prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerir það ekki af sjálfsdáðum, að flokkurinn veitti eigið fé í að skoða sögu áhrifa nasistanna í Sjálfstæðisflokknum og gera upp við þá fortíð sína, þegar gyðingahatarar, ofstopamenn og jafnvel svikahrappar gengu í flokkinn; Að það verði með rannsóknum skýrt hvernig "fyrrverandi" nasistar gátu orðið að flugmálastjórum, bankastjórum og lögregluyfirvaldi.

Ég man svo heldur ekki betur en að nasistar sjálfir hafi haldið því fram að Gísli Sigurbjörnsson hafi stofnað nasistaflokkinn í bróðurlegu samstarfi við Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins (sjá hér). Ætli til séu heimildir um það í Valhöll? Eða ríkir þar líka afneitunin ein líkt og hjá mörgum íslenskum kommum?


Hvalbein í og á húsum

sk-c-1409_2.jpg

    Alls staðar í heiminum, þar sem menning tengdist áður fyrr hvölum, hvalreka eða hvalveiðum, hafa menn nýtt afurðir hvalsins til hins ýtrasta. Þar með talið til húsbygginga.

Íslendingar, norrænir menn á Grænlandi, Inúítar, Indíánar, Hollendingar, Bretar, Þjóðverjar (aðallega í Brimum), Maóríar, Japanir ásamt öðrum þjóðum hafa allir nýtt hvalakjálka, rifbein, hryggjaliði og önnur bein í byggingar, sem sperrur, rafta og jafnvel sem stoðir. Hryggjarliðir hafa orðið að stólum og hnöllum og þannig mæti lengi telja.

Þegar á 17. öld veiddu Hollendingar manna mest hval. Það þekktist í Hollandi að hvalbein væru notuð í girðingar eða hlið, líkt og síðar á Holtsetalandi (Holstein). Hvalbein, nánar tiltekið kjálkar, voru mikið notuð í hlið og gerði í Brimum (Bremen).

e9050021-engraving_of_a_house_made_from_whale_bones-spl.jpg

Olaus Magnus sýnir á ristum í verki sínu Historia de gentibus septentrionalibus frá 1555 hús byggð úr hvalbeinum.

yorkshire.jpg

I Whitby Norður-Jórvíkurskíri á Englandi var þessi hlaða eða skemma rifin á 4. áratug síðustu aldar. Kjálkabein úr stórum skíðishvölum hafa verið nýtt sem sperrur í braggann. Ekki er húsið mikið frábrugðið kjálkahúsinu í verki Olaus Magnusar (Sjá frekar hér).

Sá siður Hollendinga að hengja neðri kjálka úr stórhvelum, sér í lagi skíðishvölum, utan á hús er vel þekktur, og við þekkjum þessa notkun hvalbein einna best vegna hins mikla myndlistaarfs þeirra frá 17. og 18. öld.

been_van_walvis_1658_1260888.jpg

Utan á gamla ráðhúsinu í Amsterdam, sem brann til kaldra kola árið 1651, héngu mikil kjálkabörð í járnkeðju. Málarinn Pieter Janszoon Saenredam málaði olíumálverk af húsinu árið 1657 eftir minni eða eldra verki) (stækkið myndina efst til að sjá smáatriðin eða farið hingað til að láta heillast).

Riddarasalurinn (Ridderzaal) í Haag í Hollandi var miðaldabygging sem byggður var á miðöldum. Í dag er hann hluti af svokölluðum Binnenhof (Innri Garði), þar sem hollenska þinghúsið er er í dag. Um miðja 17. öld máluðu tveir listamenn bygginguna og tvö kjálkabein úr skíðishval sem hengd voru á bygginguna árið 1619. Seinni tíma listfræðingar hafa kallað þetta bein búrhvals, sem er tannhvalur, en greinilegt er að þarna hanga kjálkabörð skíðishvals. Aftaka fór fram við húsið árið 1619 og mynd stungin í kopar af þeim viðburði. Þar sjást hvalbeinin ekki, þannig að þau hljóta að hafa verið hengd á bygginguna síðar en 1619.

ridderzaal-in-verval.jpg

binnenhof_ridderzaal_-_detail.jpg

 

walvisbeen_stadhuis_haarlem.jpg

Í ráðhússal í Haarlem í Hollandi hanga þessir veglegu hvalskjálkar. Þau voru flutt til Hollands frá eyjunni Waiigat (Vindrassgati), sem Jan Huyghen frá Linschoten tók með sér til Hollands úr merkri ferð sem hann fór með Willem Barentsz til Novu Zemblu árið 1595. Í miklu yngri ráðhúsum í Norður-Þýskalandi héngu einnig hvalbein og voru t.d. notuð sem ljósakrónur (sjá hér).

het_walvis_been_isn_nu_steen.jpgVíða í Hollandi hefur það lengi tíðkast að menn settu fallega úthöggna steina á gafl húsa sinna. Gaflsteinar þessir báru gjarna nafn eiganda eða einhverja mynd sem lýsti eigandanum eða starfi hans. Á pakkhúsi frá 18. öld í Amsterdam, sem því miður var rifið árið 1973, hékk þessi steinn : með áletruninni : HET WALVIS BEEN IS NU STEEN. Síðar var steininum komið fyrir á öðru húsi. Kannski hafa hvalaafurðir einhverju sinni verið geymdar í pakkhúsinu á Haarlemmer Houttuinen númer 195-99 (sjá myndina hér fyrir neðan). Gatan fékk nafn sitt af tréverslunum og viðargeymslum Amsterdamborgar sem voru staðsettar þarna frá því á 17. öld, þegar svæðið lá í útjaðri borgarinnar. þar sem minnst eldhætta var af byggingaefninu sem þar var geymt.

haarlemmerdijk168_3_gr.jpg

Hvalbeinin sem héngu á húsum í Hollandi hafa að öllum líkindum átt að sýna fólki stærð sköpunarverka Guðs. Þau sýndu einnig mátt og megin verslunar og umsvifa Hollendinga á gullöld lýðveldis þeirra á 17. öld, þegar hvalaafurðir voru sóttar til fjarlægra slóða. Beinin voru líklegast til vitnis um þá mikilvægu verslun sem Hollendingar stunduðu og þann iðnað sem tengdist henni. En alltaf var trúarlegur grunnur. Alli könnuðust við söguna af Jónasi í hvalnum. Í beinunum sáu menn einnig sönnun þess að hvalir gætu hæglega gleypt menn.

brueghel_j_d_a_jonas_walfisch.jpg

Jónas stígur út úr hval í þorsklíki. Málverk frá 1595 eftir Jan Breughel eldri. Málverkið hangir í Gamla Pinachotekinu í München.

180809am127.jpg

Annars staðar gerðist það að hvalbein voru hengd upp vegna þess að hvalreki varð. Það gerðist t.d við Litla Belti í Danmörku, þegar stórhveli rak þar á land þann 30. apríl árið 1603. Hvalbein, kjálki og voru hengd upp í kirkjunni í Middelfart og eru þar enn.

 

Í borginni Verona á Ítalíu hangir rifbein úr litlum hval yfir borgarhliðinu.verona_1260893.jpg


Menningarferð til Lundar

gervityppi_og_rasstappi_1260840.jpg

Í dag fór ég einn í drossíuferð til Lundar í Svíþjóð á bláa Skódanum okkar. Ég skildi fjölskylduna hreinlega eftir heima. Tilgangurinn með ferðinni var menningarleg vorgleði. Ætlun mín var að kaupa nýja bók um sænska viðskiptajöfra í Póllandi í síðari heimsstyrjöld, sem ég fann svo ekki. Ég ætlaði líka að skoða safn, sem ég og gerði.

hyrir_dyravinir_1.jpgÉg fékk hins vega dálítið viðbótarupplevelsi fyrir utan kaffi og sushi. Á Tegnérstorgi var húllumhæ, og sá ég fljótt á fánunum að þarna var einhvers konar gay-pride hátíð. Þarna voru allskyns samtök með sölu, meira að segja hýrir sósíaldemókratar og Animal-rights hópar, sem kannski vill hleypa hýrum svínum út úr stíunum. Ekki þorði ég þó að vera svo írónískur við þetta unga fólk og spyrja hvort dýr gætu verið gay eða kratar svín?

gay_animal_liberation_front_lund_sweden.jpg

Þarna í miðjum hópi litskrúðugra pilta og lesbía sem voru verr klæddar en ég, var ég örugglega svona svaka heteró eða bara púkó, eins og einn gamall nágranni minn á Íslandi, hann Andri, kallaði mig þegar á 8. aldursári, að einhverju var kastað í fótlegginn á mér. "Áái, helvítis". Þetta var sárt.

Bláa typpið og svarti rasstappinn

Ég leit niður og uppgötva mér til mikillar undrunar að bláu gervityppi hefur verið hent í löppina á mér. Mér steinbrá, en uppgötvaði að ungar og glaðlegar lesbíur voru að æfa typpaskotfimi.

Ég tók typpið upp. "Það var minna en mitt" upplýsti ég algjörlega húmorslausar lesbíurnar, en ein sem mig grunar að hafi bara verið bí, upplýsti mig þá á skánsku, eitthvað í þá veru að stærðin, storleken, skipti ekki máli. Ég jánkaði því föðurlega. Enda minn ekki mikið stærri en sá blái. Mér var þá boðið í typpakast, en var svo square að ég afþakkaði það vingjarnlega - Maður veit ekki hvar þessi limir hafa verið.

Ég spurðu einnig konurnar, hvað þetta svarta væri á miðjum vellinum (sjá efst). Þær litu á mig eins og ég væri frá annarri pláhnetu og sögðu "det heter arsplög"   - "Jåvist", sagði ég bara og fór.

Nú er það ekki að skilja, að ég sé eins og Gylfi Ægisson, þegar ég sé samkynhneigða. Gagnstætt Gylfa er ég svo heppinn að þeir eru fyrir löngu hættir að gefa mér undir fótinn, svo ég þarf ekki að binda hnút á þarminn eins og sumir karlar gera í nærveru homma.

Þó var þarna myndalegasti klæðaskiptingur í kúrekstígvélum með afar ljóta hárkollu. Ekki ósvipaður JR í Dallas, en rauðhærður. Ekki var laust við að hann sendi mér hýrt augnaráð, enda ég ekki ólíkur Roy Rogers, þegar hann var upp á sitt besta.

Vinir Palestínu

vinir_gisla_gunn.jpg

Jæja, ég yfirgaf þennan skemmtilega minnihluta, öll typpin og rasstappann, og hélt niður á Stortorget í leit minni að góðri bókabúð. Þar var nýlokið annarri uppákomu hinseginfólks.

En aðrir minnihlutar biðu eftir að komast að. Stór barnahljómsveit sagaði fiðlur, en þar nærri stóð brátt þessi föngulegi 5 manna hópur stuðningsmanna Palestínu. Dálítið steinrunnið lið að mínu mati. Þetta var eins og að vera á Sergelstorgi í Stokkhólmi. Minnihlutahópar í biðröðum. En allt samt mjög sænskt, sett og alvarlegt og tímasetningar pössuðu. Eins og biðröð við salerni.

Hélt ég síðan upp á Clemenstorget og keypti gamla prentmynd af Skagen á 15 krónur af skrankonu frá austur-Evrópu. Skömmu síðar sá ég bókaútgefandann (minn) Søren Møller Christensen á Vandkunsten ásamt konu sinni koma akandi fyrir horn í svarta Volvoinum sínum í leit að ódýru bílastæði. Hann hefur líklega leitað í allan dag og er enn að, því í Lundi kostar greinilega að leggja, nær hvar sem er í bænum. Hann sá mig ekki, en fær brátt skeyti og sms frá Säpo um að hann hafi sést við menningarnjósnir í Lundi í dag, samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum frá Mossad.

Þannig leið þá þessi dagur. Bíð ég nú eftir því að háma í mig ljúffengan danskan og hýran hanakjúkling, sem aldrei var hleypt út, en var líklega glaður þangað til hann kom undir fallöxina og sagði gaggagaggagóóó... eftir að hafa heyrt bæn á arabísku. Það verður að taka tillit til allra minnihluta. Gleymum því ekki!

israel_i_lund_halleluja.jpg

Á Kulturen sá ég kraftaverk. Ísraelski fáninn í Lundi.


Toppstykkið fundið

Toppstykkið

Fyrir tveimur árum skrifaði ég um brot af litlum styttum sem sýna mittismjóar yngismeyjar, sem oft finnast í jörðu í Hollandi, og sem nær alltaf finnast brotnar og án þess að efri hlutinn finnist. Stytturnar hafa greinilega oftast brotnað um mittið, sem var heldur til mjótt.

Fyrir tæpu ári síðan sendi vinur minn í Amsterdam, Sebastiaan Ostkamp, mér mynd af toppstykki af einni mittismjórri. Hún fannst illa farin í bænum Enkhuizen. En forverðir gátu sett hana saman.

Það er ekki laust við að hún minni eilítið á ákveðna skeggjaða söngkonu með þennan drulluhýjung í andlitinu, og á það vel við að sýna hana á þessum degi, þegar Ísland gaular í Evrópukakófóníunni í Vín í kvöld.

Thank you very much, Sebastiaan Ostkamp.


11. Getraun Fornleifs

kj_43_1260692.jpg

Nú þegar Fornleifur er hvort sem er kominn í listastuð með greinar um tvíæringja í Feneyjum og mynd eftir Þorvald Skúlason sem er til sölu í Kaupmannahöfn (sjá síðustu greinar), er við hæfi að láta listhneigða fornfræðinga landsins rembast örlítið.

Þess vegna er 11. getraun Fornleifs listagetraun, og líklega er hún allt of létt. Myndin er um 75 x 60 sm að stærð

Hver málaði myndina?

Hvenær?

Hvaða stað sýnir hún?

Hvar hangir myndin?

Hvað borgaði sá sem keypti hana síðast?


Falleg mynd eftir Þorvald Skúlason til sölu í Kaupmannahöfn

_orvaldur_skulason_hos_nina_1260611.jpg

Fornleifur hefur fengið leyfi listaverkasala og vinar síns í Kaupmannahöfn að birta mynd af einstaklega fallegu málverki með einstaklega fallegri litasamsetningu. Verkið er frá yngri árum Þorvaldar Skúlasonar.

Málverkið er nú til sölu í Kunsthandel Nina J, í Gothersgade 107.  Myndin er úr safni hjónanna og listamannanna Maríu H. Ólafsdóttur, sem var íslensk, og Alfreds I. Jensens.

Málverkið er líklega málað í Osló eða Kaupmannahöfn. Ég hallast sjálfur að Vesterbro í Kaupmannahöfn. Ég tel að það sé málað á sömu árum og þetta verk sem var til sölu hér um árið í Gallerí Fold í Reykjavík:

_orvaldur_skulason.jpg

Ef menn vilja eignast gott verk, er um að gera að flýta sér. Hér eru upplýsingar um Kunsthandel Nina J, þar sem myndin er til sölu. Verðið kemur mjög á óvart. Eins og Danir segja; Først kommer, først får

maestro_orvaldur_1260615.jpg

Meistari Þorvaldur


Netlusaga

56945.jpg

Mikill áhugamaður um fræ, frjókorn, ofnæmi og alls kyns undarleg grös sendi mér upplýsingu um skemmtilega sögu af Dr. Ágústi H. Bjarnasyni grasafræðingi. Ágúst er mikill áhugamaður um netlur og leitaði fyrir fáeinum árum til Þjóðminjasafns og skráði símtal sitt eins og lærðum mönnum einum er lagið:

"Símtal við Þjóðminjasafn:

Fyrir nokkrum árum var eg að kynna mér brenninetlu (Urtica dioica L.), útbreiðslu hennar, notkun og náttúru. (Því miður hef eg ekki lokið enn við það verk; en það er önnur saga.) Meðal annars vissi eg um dúka og klæði, sem voru ofin úr netlu-þráðum, eins og algengt var annars staðar í Evrópu og er reyndar farið að tíðka víða að nýju.

Mér datt þá í hug að hringja í Þjóðminjasafnið og spyrja, hvort netludúkar hefðu fundizt við uppgröft á Íslandi. Kvenmaður svaraði, og eg bar upp erindið. „Andartak,“ anzaði hún. Þá heyrði eg hana kalla: „Margrét, hafa fundizt netludúkar við uppgröft?“ – „Hver er að spyrja um það,“ heyrði eg úr fjarska. „Það er einhver kall,“ svaraði símadaman. Síðan hljómaði hátt eftir örstutta bið: „Segðu nei.“

Konan sneri sér síðan aftur að símtólinu og sagði við mig mjög háttprúð í tali: „Nei, því miður, þeir hafa aldrei fundizt, því miður.“ – Og þar með þakkaði eg fyrir og kvaddi."

Já, Ég hef í mörg ár reynt að segja Þjóðminjasafninu að símarnir þar séu mjög næmir. Það er bókstaflega hægt að hlera það sem fólk segir.

Nú tel ég víst að "Magga" sú sem heyrðist í hafi strax litið niður í Sarp sinn, enn svo heitir skráningarkerfi safna á Íslandi - og fullvissað sig um að netludúkar væru þar ekki nefndir. En ég myndi nú ekki treysta þeirri skrá, meðan að gler er skráð sem postulín á Þjóðminjasafninu. Vona ég þó að fornleifafræðingar á Íslandi finni brátt netludúka handa Ágústi.

Reyndar hafa fundist netlufræ við rannsóknir á Bergþórshvoli, en hvar þau eru niður komin nú veit ég ekki. Ég reyndi eitt sinn á 9. áratug síðustu aldar að hafa upp á þeim en fann ekkert á Þjóðminjasafni. Þar er hins vegar varðveittar leifar af skyri frá Bergþórshvoli. Hér er góð framsóknargrein um netlur. Sigmundur Davíð er örugglega mikill áhugamaður um netluplástra.

Brenninetlur er hægt að verka eins og lín (hör) og ég hef séð netlubuxur. Í Hollandi og á Englandi hef ég fengið netluost og oft sötrað brenninetlusúpu með káli hér í Danmörku. Ég á þó ekki netludúk, en er annars mikið fyrir brenninetlur, og vona svo að Íslendingar fari ekki að kasta því leiða sulli roundup, eða öðru eiturkyns á þær, eins og þeir kasta á allt lífrænt sem stingur og særir hina rósbleiku, silkimjúku ofnæmishúð Íslendinga. Slíka húð verður að herða með netlum, mýbiti og húðstrýkingum, því ekki á að nota húðina í leðursófasett, er það nokkuð?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband