Bloggfærslur mánaðarins, september 2021

Ísland lýgur að Evrópuráðinu og svíkur loforð á alþjóðavettvangi

Í dag og í gær kom út eftir mig grein (sama greinin á frönsku og ensku). Greinin birtist í franska nettímaritinu Revue K (K-LaRevue) Á ensku ber hún heitið: What happened to Holocaust-education in Iceland? , en á frönsku: Pourquoi l’Islande résiste à enseigner l’histoire de la Shoah

Í greininni fjalla ég m.a. um óefnd loforð yfirvalda á Íslandi, sem eitt sinn sóru að kenna íslenskum börnum og unglingum um helförina í Evrópu á 20. öld. Nú dreifa íslenskir diplómatar hjá Evrópuráðinu, ósannindum um Rómafólk á Íslandi á vefsíðu Evrópuráðsins og segja þar að engir Rómamenn séu til á Íslandi:

Iceland has not established a Holocaust Remembrance Day. There are no plans to establish a Remembrance day to commemorate the Holocaust. Consequently, Iceland has not officially recognized the Roma Genocide. It is to be noted that according estimates, Iceland does not count any Roma.

Screenshot 2021-09-30 at 09-55-09 Factsheet on the Roma Genocide in Iceland

Sérfræðingur við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Dr. Sofiya Zahova, sem er frá Búlgaríu, segir Rómafólk á Íslandi telja um 400 sálir.

Ég tel að Dr. Zahova, sem hefur unnið mikilvægt starf fyrir Rómafólk á Íslandi, hafi vafalítið rétt fyrir sér og fáviska íslenskra stjórnvalda endurspegli aldagamalt áhugaleysi Íslendinga á öðrum en sjálfum sér, sem veldur því að menn vaða í villu, sem þeir ómaka sig ekki við að leiðrétta.

Roma og Sintifólk í Evrópu, sem áður voru almennt kallaðir sígaunar, var ætluð sömum örlög og gyðingum, af helstu herraþjóðinni Þjóðverjum - og skósveinum þeirra víða um Evrópu. Nú búa fleiri Roma-menn en t.d. gyðingar á Íslandi, já og fleiri en múslímar - En fulltrúar Íslands á erlendri grund hafa útrýmt Rómafólkinu, með því að að lýsa því yfir að engin þeirra búi á Íslandi.

Ætla illa upplýst yfirvöld á Íslandi einnig að þegja helför Roma og Sinti í hel, líkt og gert hefur verið á Íslandi um helför gyðinga? Ég spyr kannski stórt, en þegar yfirvöld svíkja og einstaka embættismenn sýna dónaskap og yfirgang ef maður leyfir sér að spyrja hvað varð um loforðin, má vitaskuld fyrr eða síðar búast við spurningum.

flag

Rómafólk sem býr og starfar á Íslandi kemur frá nokkrum mismunandi löndum, flestir frá Rúmeníu, Ungverjalandi, Búlgaríu og Póllandi. Þeir eiga hins vegar eitt sameiginlegt. Það er hræðsla þeirra við að afhjúpa uppruna sinn og við ofsóknir og mismunum hans vegna. Ofsóknir í heimalandinu byggja á gamalli hefð, en greinilegt er að einstaklingar af ætt Róma, eða ættmenn þeirra sem kalla sig Sinti, Kale, Manusch og Romanchial hafa takmarkaðan áhuga á að standa stoltir fram á Íslandi og segja að þeir tilheyri ætt Roma. Á Íslandi eru, eins og einhverjir vita mætavel, einnig fordómar í garð Romafólks. 

DV. 19.6. 2002, s. 14Screenshot 2021-09-30 at 08-48-42 Dagblaðið Vísir - DV - 137 tölublað (19 06 2002) - Tímarit is

Þannig á það ekki að vera hjá þjóð sem gengur jafnmikið upp í réttindum fólks víða um heim eins og Íslendingar gera; og þar sem fjöldi manna hafa gert eina þjóð og jafnvel hryðjuverkasamtök þeirra að gæluverkefni.

Á síðari árum, eða allt síðan um 2002, hafa yfirvöld á Íslandi vísað úr landi sígaunum, Romafólki, sem til landsins kom. Sumt af því fólki leyndi alls ekki uppruna sínum og aðhafðist "hræðilega hluti" eins og að spila á hljóðfæri fyrir utan verslanir. Stundum hafa þessum brottvísunum fylgt fordómafullar og furðulegar yfirlýsingar yfirvalda og ekki síður íslenskra (smá)borgara, sem greinilega höfðu ættgengt og rótgróið menningarlegt óþol gegn Roma-fólki. 

Starfsmaður utanríkisráðuneytisins, sem "útrýmdi" Roma-fólki á Íslandi með dæmalausri fávisku sinni, er ekki starfi sínu vaxinn. Er eðlilegt að slíkir "sérfræðingar" séu að vinna fyrir sendinefnd Íslands í Evrópuráðinu á kostnað íslenskra skattborgara? Í ráðuneyti Íslands bráðvantar líkt og á hið háa Alþingi betur menntað fólk, sem getur hugsað rökrétt.

Undirdeild Evrópuráðsins, ODIHR, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kransakökufígúra hjá um tíma, áður hún flýði starf og skildi ODIHR eftir án stjórnanda vegna COVID, hafði vitaskuld ekki andlega burði til að uppgötva vanþekkingu embættismannsins í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík. Áhuginn var líka takmarkaður.

Umheimurinn veður því enn í villu um ágæti Íslands og Íslendinga.

Juli---BB-2-177

Sígaunar (eins og þeir hétu) á Seyðisfirði árið 1912. Ljósmynd Björn Björnsson / Þjóðminjasafn Íslands (sjá nánar í næstu grein á Fornleifi)


Kosningasvindl og kosningasvik

Umslag Ólafs Ragnarssonar

Lýðræðið er afar vandmeðfarin stærð. Sumir fatta aldrei hvað lýðæði er - jafnvel heilu ríkin. Lengi hefur verið vitað að kosningarloforð eru flest brotin. Stjórnmálamenn segja eitt en gera oftast annað. Lýðræði breytir ekki endilega eðli mannsins, en samt sættum við okkur við lygara í löggjafarþingi landsins. Ætt hellisbúans, sem fyrstur laug, hefur haldið völdum æ síðan að fyrstu ósannindin flugu yfir hlóðareldinn.

Þótt kosningasvik séu örugglega ólíkleg á Íslandi, er samt til fólk sem býst við því versta í öðrum; t.d. stjórnmálamenn sem telja 7 kosningaseðla mun á flokkum geta verið svik eða handvömm þeirra sem vinna við talningu.

Endurtalning í Suðurkjördæmi leiddi sem betur fer annað í ljós. En þjófar halda hvern mann stela er gömul en góð greining.

Meðferð á kjörgögnum er lýst í lögum, en samt virðist ærið erfitt fyrir kjörstjórnir að fylgja þessum lögum. Það þarf ekki að vera tilraun til kosningasvika, heldur gamall og gildur slóðaskapur og afdalaháttur.

Fyrir nokkrum árum var allt í einu hægt að kaupa 30-40 ára gömul umslög utan af utankjörstaðaatkvæðaseðlum Íslendinga erlendis á Frímerkjasölum erlendis (Sjá hér). Slíkum gögnum átti fyrir löngu að hafa verið eytt.

Í grein minni um málið og umslögin sem ég keypti sum, velti ég fyrir mér hugsanlegum atburðarrásum. Sama hvað gerðist, þá brugðust kosningastjórnir og þau embætti sem sáu um kosningar fyrr á tímum. Einhver frímerkjasafnararotta komst í umslög sem tilheyrðu kjósendum. Rottan kom þeim í verð. Eða var atburðarrásin öðruvísi?

Umslag Matthildar Steinsdóttur 1991

Á eitt af umslögunum (sjá efst), sem ég keypti, sem hafði verið sent af íslenskum farmanni, sem var staddur í Aþenu, því hann sigldi á erlendu skipi. Einhver hjá Kjörstjórninni hefur skrifað bókstafinn D með blýanti á bakhlið ysta umslagsins sem sent var frá Aþenu. Líklegt er að starfsmaður kjörstjórnar sem opnaði umslagið á Íslandi hafi forflokkað atkvæðin eftir að hann hafði opnað innra umslagið með kosningaseðlinum.

En hvernig stóð á því að starfsmaður kjörstjórnar fór með umslög heim og setti þau í sölu?  Það er er illa skiljanlegt, nema ef stórir brestir hafi verið í starfsemi kjörstjórnanna og sýslumannsembættanna. Lýðræðið er vandmeðfarið í landi, þar sem lög eru stundum lítils virði.

Yfirvaldið á Íslandi á okkar tímum hefur ekki talið ástæðu til að rannsaka eða tjá sig um fund minn á kjörumslögum sem til sölu voru (og eru) á erlendum frímerkjasölum, enda kosningarnar sem um ræðir um garð gengnar fyrir löngu. En þau umslög sýna, að brotalamir hafa verið á túlkun kosningalaga á Íslandi.

Fussusvei.


Kynusli forðum

urn cambridge.org id binary 20210720144631713-0539 S1461957121000309 S1461957121000309_fig3

Í útlegð sinni hefur Fornleifur einatt og yfirleitt heilmiklar áhyggjur af íslensku þjóðinni, sér í lagi þjóðarlíkamanum í heild sinni, bæði því sem gerist efst á milli eyrnanna - en ekki síður því sem gerjast undir beltisstað, og þar er langmestur hamagangurinn að því er virðist.

Orðið "kynusli" er einkar leiðinleg orðskrípi sem ég heyrði fyrst fyrir rúmum mánuði síðan, og las það á vef RÚV, (sjá hér).

Alveg sér og persónuleg þykir mér þetta mjög óheppilegt orð og minna nokkuð á rasískt orðaval. Mér skildist á frétt RÚV, að þeir sem eru kynsegin og intersex séu haldnir kynusla. Allur þessi usli rúmast aftur á móti í hinu nýja stafrói fjölbreytileikans: LGBTQIA+ . Ég viðurkenni fúslega, að ég á afar erfitt með að læra það stafró, en passa þó vandlega orðaval mitt varðandi fólk haldið svokölluðum "kynusla" - um leið og ég slæ í það orð stóran og mikinn 12 tommu varnagla. Ég held að orðið sé afar ósmekklegt.

Þegar forstokkaðir fornleifafræðingar eru komnir út úrskápnum sem laghentir bókmenntafræðingar, og leiða sannleikann í ljós um lygaheilkenni Halldórs Kiljan Laxness, meðan að bókmenntamenn þegja þunnu hljóði, er ef til vill ekki furðulegt að bókmenntafræðingar séu farnir að túlka fornleifafræði og jafnvel DNA-rannsóknir.

Bókmenntafræðingum er nefnilega margt til lista lagt, og ekki síst Ármanni Jakobssyni, sem er furðanlega klár til að vera úr röðum bókmenntafræðinga - klár eins og systir hans - sama hvað kveifarlegir kratar grenja og sósíalistaflokksmenn væla og vola. Það var Ármann sem RÚV tók tali og sem tjáði sig m.a. um kynuslann.

En þegar fornleifafræðingurinn notar ósköp einfaldar heimildir er hann raðgreinir Laxness, virðist enn hægt að digta aðeins upp við DNA-rannsóknir á manni sem greftraður var í Finnlandi á 12. öld. Raðgreining á mjög illa varveittum leifum beina hans, sem fundust árið 1969 í Suontaka Vesitorninmäki, Hattula héraði, sýna að hann var hugsanlega með með svokallað Klinefelter syndrome. Klinefelter-heilkenni eru menn með, þegar að þeir hafa einn auka X-litning í persónulegu genamengi sínu og eru XXY-menn.  Harry hét hann Klinefelter (1912-1990) sem skilgreindi þessi heilkenni í mönnum og þökk sé honum fyrir það. Menn geta lesið grein um raðgreininguna á European Journal of Archaeology

Þegar "karlmaður", sem fær slíkar erfðir, vex úr grasi, fær hann oftast einkenni sem gerir hann eilítið hávaxnari en kynbræður hans í sömu ætt, en kveifarlegri á annan hátt: Tippið er afar lítið og vesælt, honum vex ekki grön og sumir drengir með þessi heilkenni eru kynsegin og intersex eins og það heitir í dag. Að fornu voru menn "ragir". Ekki veit ég hvort gamalt orð fyrir raga einstaklinga sé til á finnsku, en hér má finna ýmis orð um raga og arga menn í 1000 vatna landinu, sem ég tel þó vart að hafi verið notuð um einstaklinginn sem fannst í gröfinni í Suontaka Vesitorninmäki árið 1969. Sum þessara orða eru nokkuð svæsin en notast þó af samkynhneigðum sjálfum við ýmis tækifæri; Þó líklegast ekki Ruskean Reiän Ritari. Ég ætla ekki að upplýsa hvað þau ósköp þýða. Menn verða að finna sér orðabók sjálfir - Fjölmör börn lesa nefnilega Fornleif og líka einstaka móðgunargjarnt fólk undir fimmtugsaldri. Þessi mynd er fyrir það:

Screenshot 2021-09-25 at 20-06-59 5 Very Weird Themes in Medieval Manuscripts

Orðið Kirkasvärinen (Bjartur, litríkur) var líka til um hýra hali í Finnlandi forðum. Það þykir mér fallegt orð og tel næsta líklegt að það sé frá tímum Kalevala.

Þessi kyngreining á erfðaefni og kynusla mannsins í Suontaka Vesitorninmäki er svo komin út í heimsfréttirnar í ýmsum myndum og oftast tekst blaðamönnum að nauðga vísindunum og niðurstöðunum, því eins og kunngut er hafa margir blaðamenn örugglega einhverja skekkju á einum eða fleiri litningum sinna.

Vinsamlegast takið eftir því, að ég segi ekki að hinn forni Finni hafi verið þjáður af Klinefelter, því ég tel ekki að hann hafi verið haldinn usla, þó hann gæti kannski ekki eignast börn vegna veikleika kynsins. Það geri ég þó alls ekki vegna þess að ég er pólitískt kórréttur og áhugasamur um stafróf og regnboga hinsegins fólks sem verður æ flóknara í framburði fyrir karlpunga eins og mig. En maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og verður að sætta sig við að heimurinn breytist.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því, eftir að hafa fylgst með raðgreiningum og útreikningum erfðafræðinga sem vinna með A-DNA (Ancient DNA) að þegar brotakenndar DNA-leifar sem unnar eru úr beinum er "amplifisérað" þá geta gerst furðulegustu hlutir - m.a. oftúlkanir.

Það er því miður orðið vel þekkt að DNA-sérfræðingum þykir mun skemmtilegra að halda fram mögulegum villum en að draga rangar eða hugsanlegar niðurstöður til baka.

Kynsegin-maður á Íslandi: Á Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal

gay-vikingÞað skyldi þó aldrei vera, að það hafi fyrrum verið margir einstaklingar með Klinefelter heilkenna á Íslandi?

Jú alveg örugglega; Ekki að spyrja að því: Iceland has it all - and volcanoes too. Klinefelter-heilkennin fundust vitaskuld fyrst í fornum Íslendingi, og áður en Finnar fóru í vímu út af sínu eintaki. Hugsið ykkur landkynninguna ef okkar Klinefelter karl hefði komist fyrstur í fréttirna.

S.S. Ebeneserdóttir hjá Íslenskri Erfðagreiningu(ÍE) og aðrir samstarfsmenn hennar á Íslandi og erlendis birtu árið 2018 í grein í ritinu SCIENCE, sem ber heitið ´Ancient genomes from Iceland reveal the making of a human population´ (sjá hér) niðurstöður raðgreininga á erfðaefni úr 27 beinagrindum fornum á Íslandi. Og viti menn, það fannst auðvitað XXY-kynseginn einstaklingur, og var sú "uppötvun" gerð áður en "Riddarinn" finnski var raðgreindur.

Þetta er sagt um íslenska kynseginn kumlbúann:

«To our knowledge, this is the firs report of an individual with Klinefelter syndrome or any kind of aneuploidy based on aDNA... ».

 Haugbúinn sem greindur var sem kynseginn maður með Klinefelter heilkenni, var grafinn upp af Kristjáni Eldjárn í kumli árið 1954 að Ytra-Garðshorni norður í Svarfaðardal. Kumlbúinn fékk greiningarheitið YGS-BT í rannsókn S.S. Ebenesardóttur og alls aðstoðarfólks hennar.

Alvarleg kynvilla í beinagreiningu

Hildur Gestsdóttir mannabeinafræðingur hjá einkafyrirtækinu Fornleifastofnun Íslands, hafði í grein í Árbók Fornleifafélagsins 2000 dæmt einstaklinginn í kumli í á Öndverðarnesi á Snæfellsnesi sem "gelding" í grein í Árbók Fornleifafélagsins árið 2000, án hjálpar DNA (Sjá hér). Hildur nefndi einnig þann möguleika að að kumlbúinn hafið verið haldinn Klinefelter-heilkenni. En þess ber þó að geta að Klinefelter-einstaklingar voru ekki geldir eins og Hildur heldur fram. Þeir eru oftast alveg eða nær alveg ófrjóir. Á því tvennu er mikill munur og vona ég að Hildur þekki nú orðið muninn á því tvennu. Vísindamenn geta þó verið andlega geldir, en það er annað vandamál.

Adolf Friðriksson bætti síðan um betur í endurútgáfu á Kuml og Haugfé Kristjáns Eldjárns, og gerir geldinginn með Klinefelter í Öndverðarnesi að "vönuðum" einstaklingi. Vönun er aðeins skurður á sáðstreng og annað en gelding, þar sem meira rýkur af. Það var eins gott að Dolfi og Hilda fóru ekki læknisfræðina.

Rannsókn S.S. Ebeneserdóttur et al. (sjá hér) sýndi hins vegar, ef tölfræði rannsóknarinnar er yfirleitt marktæk, engin merki um Klinefelter-heilkenni í einstaklingnum í kumlinu á Öndverðarnesi á Snæfellsnesi (DKS-A1) sem Hildur hafði talið að gæti hugsanlega hafa verið kynseginn einstaklingur eða geldingur, og sem Adolf Friðriksson kallar vanaðan.

Þannig lauk þeirri kynlegu æfingu. Mannskepnan hefur því sem betur fer ekki breyst svo mikið síðan á 10. öld.

Erfðamengjaheimurinn er hverfull, en lítið fer fyrir leiðréttingum þegar í ljós kemur að menn hafa vaðið í villu.

Auðvitað hljóta einhverjir Íslendingar að hafa verið með Klinfelter-heilkenni frá upphafi - þó það nú væri. En hvernig slíkum mönnum var tekið í samfélögum fyrri alda er svo annað mál. Á Íslandi voru þeir að minnsta kosti ekki heygðir eins og furstinn í Finnlandi með því haugfé sem nútímafólk tengir kvenmönnum.

Ekkert erfðagóss í gröfinni var frá mömmu eða ömmu kynsegins landnámsmannsins að Ytra Garðshorni sem greindist með Klinefelter i sparnaðarraðgreiningu ÍE; Var það vegna þess að samfélagið sætti sig ekki við "ergi"? Voru Landnámsmenn á sömu línu og einhver Guðmundur Ólafsson sem uppi var á 17.öld og skrifaði: Ragur er sá sem wid rassen glýmer. Fékk hinsegin fólk frið á landnámsöld eða voru þá alveg sömu ofsóknir í gangi og þegar meira og minna kynruglaðir munkar/nunnur í klaustrum skrifuðu um brókar-Auði (í Laxdælu) og annað fólk sem ekki var alveg eins og "við hin" þessi stöðluðu sem göngum í siðlegum og sæmandi fötum.

Allir sem hafa lesið Njáls sögu og Laxdælu vita, hvers kyns var og hve mikill kynuslinn var forðum - að minnsta kosti í klaustrunum þar sem bókmenntirnar voru ritaðar með hönd á pung. Brókar-Auður var til þá sem nú. Taðskegglingar Njálu og hoppandi Gunnar eru það sem gerir þjóðfélagið litríkt.

Miðausturlandaguðfræði kirkjunnar reyndi hins vegar að fela kjötið, sem var veikt, og lystina, og skilgreindu allt sem synd sem útilokaði vist í Himnaríki eftir böl jarðvistarinnar. Bönn skapa hins vegar löngun.

Bókmenntafræðingar og sagnfræðingar (t.d. Gunnar heitinn Karlsson), sem kynið kitlar, gleyma svo algjörlega grundvallar vinnureglum sínum þegar kemur að lýsingu ástarlífs og hvers kyns er, því þeir tala þá um hvernig slíkt hafi verið á söguöld, þó svo að Íslendingasögurnar séu ritaðar á kristnum miðöldum af mönnum sem hugsanlega hafa litið kynferði öðrum augum en t.d. landnámsmenn og þar að auki öðruvísi en samtímamenn þeirra. 

801ace7da1a6a3c9796ba21226d4d028

Vitnisburður Hómilíubókar

Í Hómilíubók (eða Íslenskri hómilíubók) sem er safn af fornum stólræðum, bænum og lífsreglum, sem jafnframt elsta bók íslensk sem þekkt er (frá ca. 1200 e.Kr.), þó hún sé aðeins til í afriti sem varðveitt er í Stokkhólmi í handriti frá 17. öld (og nefni organsöng). Svíar keyptu handritið fyrir slikk. Bókin hefur auk ræðna að geyma fræðslugreinar og bænir. Hómilíubók er talin rituð um aldamótin 1200 (fyrir utan organsönginn) og margir telja hana meðal þjóðargersema íslenskrar tungu.  Enginn veit hins vegar hver skráði Hómilíubókina eða hvar hún var niðurkomin á landinu í fjórar aldir áður en Svíar kræktu í hana.  Í henni má lesa um ýmsar syndir undir beltistað:

   "Öll kristnispell, þau er bannsakar eru, og allir lagalestir, þeir er sakaraðili á vígt um, svo ið sama þær inar leiðilegu launþurfasyndir, er sumir menn gera, þeir er eigi þyrma körlum heldur en konum eða misþyrma kykvendum ferfættum, þessir hlutir allir lykja himinríki, þeim er eigi vill af láta né upp bera fyr kennimenn."

EmoO_gdXEAM-E-C

Enn fremur er tekið ótvírætt til orða utan ramma þess sem kirkjunni var þóknanlegur í þessum boðskap:

"Aldregi má," kveður bókin, "karlmaður konu saurga." Það er svo að skilja, að kona verður því aðeins af karlmanns sauri saurug, ef hennar vilji er til. En ef viljinn er til og þá, þá er þó þess synd, er hana elskar, þótt hann vinni eigi sjálfur hana, sem Páll mælti: "Slíkir hlutir," kvað hann, "skilja mann frá himinríki, eigi aðeins þá menn, er gera þá, heldur bæði og hina, er samþykkir eru við slíka atferð."

Hér var ekki verið að tala um coprofílíu, held ég (sláið því upp svo börnin skaðist ekki), en eftirfarandi spakmæli í Hómilíunni eiga jafnvel við í hinum sauruga og vesæla nútíma þar margar óhreinar sálir búa í heilbrigðum líkama. Um það segir:

  En það er eigi fjallamannvit, að maðurinn viti það, hvað hann er eða hverjar greinir hans vesningar eru. Líkami heitir einn, inn óæðsti hlutur mannsins og inn ysti. En sá heitir önd, er bæði er innri og æðri. En sá heitir andi, er miklu er æðstur og göfgastur og innstur.

Kynuslinn Klinefelter-heilkenni, sem höfundur siðvendninnar í Hómilíubókinni þekkti ekki, hefur væntanlega fylgt manninum lengi. Víst má telja að margir þeirra sem haldnir hafa verið þessum usla hafi verið illa séðir, t.d. þegar mannskepnan fór að trúa því að andinn væri æðri líkamanum. Nauðgandi prestar og biskupar á okkar eigin tímum hafa líklega aldrei lesið heillaráð Hómilíubókar, þótt synd annarra hafi verið þeim afar hugleikin í pontu.

Screenshot 2021-09-25 at 20-05-32 Oddities in Medieval Manuscript Illustrations

Tré forboðinna ávaxta óx aldrei á hjara veraldar. Konur mega líka láta sig dreyma. Þetta tré verður ekki einu sinni ræktað í gróðurhúsi ímyndunarveikinnar á Íslandi, og ekki eru þetta bjúgaldin í Eden.

Leitað var að kynsegin-hrossum

Í nýlegri rannsókn á kyni fornra hrossa á Íslandi var leitað að XXY-hrossum, það er að segja í leggjum og tönnum hrossa frá Landnámsöld. Aðstendendur rannsóknarinnar leituðu vitaskuld líka að Klinefelter-hrossum og Abby Normal hrossum.

Þegar stagað hafði var í holur niðurstaðnanna í spálíkani, sem útbúið hefur veri til Forn-DNAstags, kom í ljós að ekkert fornhrossanna sem greint var var XXY-hestur. Það eru mér og mörgum öðrum mikil vonbrigði.

Screenshot 2021-09-11 at 11-40-06 Super Gay Horse

Frændur vorir Svíar hafa aldrei borið skinbragð á öl eður mjöð. Hægt er að hella á þá hrossakeytu og gera þá glaða. Super Gay Horse er bjórr sænskur. Hvort hann hentar fólki með kynusla skál ósagt látið.

Ég er þó alveg viss um að glysgjörn XXY hross hafi verið mörg á Ísland, sem skýrir brokk og tölt, og að það hafi verið kynvilltir jálkar úr Skagafirði sem héldu að þeir væru trippi sem KEA seldi hér um árið sem saxbauta á dós í stað beljubuffs.

Getur skapast "XXY kynusli", þegar brotakennt fornerfðaefni er útreiknað með spálíkani?

Í samdrætti um greinina um íslensku hrossin, sem birtist í Journal of Arcaeological Science, (Sjá einnig hér) kemur strax fram að leitað var eftir sparnaði við DNA rannsóknir á fornum beinum: This costeffective method provides statistical confidence to allow for sexing of highly fragmented archaeological specimens with low endogenous DNA content; Slíkur sparnaður er ekki alltaf heilladrjúgur. 

En DNA-menn viðurkenna sjaldan gangrýni. Erfðaefni er líka orðið æðri öðrum máttarvöldum og heimstrúarbrögðunum. Menn trúa á DNA eins og guð úr vél.

Væri ekki annars unaðslegt ef hann Hýr frá Ytra-Garðshorni, þessi forðum svo jarpvindótti og skjótti hestur hefði verið Equus caballus domesticus sexualis? Það myndi svo sannarlega hafa fullnægt kenjum þeirra sem eru á kafi í klofinu á sér og öðrum og hinni afar þreytandi og afdönkuðu kynjafræði sem enn grasserar á Íslandi vegn vanmáttar í fræðunum.

Gárungar í þéttbýli raðgreina einnig á fullu og telja nú nær öruggt, að gunnfáni Miðfokksins minnist einmitt Hýrs, gredduhestins utan gátta, og sem aldrei stóð nema að lestrarhesturinn nærsýni athugaði málið sérstaklega. Fornleifur gæti japlað á hráu nautahakki, þjóðlegu og jafnvel úr útlöndum, upp á að það sé rétt greining hjá sér.

logo

Skrifað á nærbuxunum síðla í september 2021.


Fyrstu Ólympíuleikar Íslendinga 1908

IMG_0004 (6) lille til publ

Fyrir nokkrum dögum síðan barst Fornleifssafni áhugaverður safnauki, sem safnvörður á ljósmyndadeild safnsins gróf upp djúpt úr iðrum skransölunnar eBay. Það er þessi skyggnumynd (Laterna Magica skyggna) hér fyrir ofan frá 1909, sem sýnir tvo íslenska glímukappa á erlendri grundu.

Myndin var framleidd af ljósmyndastofu Walter Tyler Ltd. í Lundúnum árið 1909, en á árunum 1909-1910 gaf þetta fyrirtæki út um 60 myndaseríur með fréttaefni (Tyler´s Topical Slides), meðal annars seríu nr. 10. sem þessi mynd hér að ofan hefur tilheyrt. 

Myndir þessar voru sýndar víða í samkomuhúsum á Bretlandseyjum, á undan öðru efni, og sú hefð hélst lengi áfram þegar kvikmyndirnar tók við af skyggnusýningunum. Fréttakvikmyndir voru síðar sýndar á undan bíómyndum. Á Íslandi gátu menn upplifað slíkar fréttakvikmyndir fram yfir 1970, þegar Þýskalandsáhugafélagið Germanía (forveri ESB-áhugamanna) sýndi enn áróðurs- og fréttamyndir um Wirtschaftswunder og aðra viðreisn sem var gerð kleif með Marshallaðstoð. Einnig voru sýndar svipaðir stuttir, en gamlir fréttapistlar í Kanasjónvarpinu sem einu sinni sást á miklum menningarheimilum á suðvesturhorninu.

Í skrá fyrir seríu Walter Tylers nr. 10, sem var gefin út 20. mars 1909, og sem fylgdi pökkum sem hver innihélt 20 skyggnumyndir, hefur Mynd 17 hér á ofan borið titilinn: Iceland Wrestlers, ready to start. Á skyggnunni sjálfri stendur: Iceland wrestlers showing the only method of gripping allowed.

Svo vill til, að mynd þessi var ekki þekkt hjá LUCERNA, samtökum stofnanna og háskóla í Evrópu, sem eiga söfn Laterna Magica ljósmynda og hlúa að þeim og efla rannsóknir á þessum forvera kvikmyndanna. Sjá hér. Fornleifssafn deilir, þegar þessi pistill verður birtur, myndinni með LUCERNA og mun hún örugglega brátt birtast á vefsíðu þeirra. 

Myndin er frá Ólympíuleikunum 1908 í Lundúnum

Á "nýjustu" ljósmynd Fornleifssafns úr myndaröð Walter Tayler má sjá tvo íslenska glímumenn sýna list sínar í almenningsgarði í Lundúnum árið 1908.

Ekki sýndu þeir glímuna á Stadium sem reist var í Vesturhluta Lundúna, þar sem nú heitir White City í norðanverðu Hammersmith/Fulham, heldur á grösugum völlum almenningsgarðs þar rétt hjá sem heitir Sheperd's Bush. Íslenski glímuhópurinn tók ekki formlega þátt í leikunum sjálfum í keppni, en hafði verið boðið að sýna glímu og ganga inn á leikvanginn við upphaf þeirra.

1908

Glímukapparnir bjuggu á YMCA (KFUM) hótelinu í London við Tottenham Court Road, sem var mjög glæsileg bygging. Hún var síðar rifin (um 1971) og þá byggður sá óskapnaður sem nú hýsir YMCA og St Giles Hotel í London, og þar sem margir Íslendingar hafa gist í hryllingslegum húsakynnum. Íslendingunum þótti það harla löng og erfið ferð þeir átta kílómetrar sem þeir þurftu að fara frá miðborginni út til Hammersmith.

Nærmynd

Maðurinn sem sést framan í er, Pétur Sigfússon, og sá sem við sjáum í hnakkann á er líklegast Sigurjón Pétursson. Þetta getum við sagt með nokkurri vissu, því teknar voru myndir af íslensku glímuköppunum fyrir póstkort (bréfkort) sem prentuð voru á Englandi árið 1908. Eitt slíkt hefur lengi verið í eigu Fornleifs.

IMG_20210917_0003 (3)

Íslenski Ólympíuhópurinn fór til Lundúna til að sýna glímu undir stjórn glímumeistarans Jóhannesar Jósefssonar (sem síðar var kenndur við Hótel Borg). Frá vinstri má skjá Jóhannes Jósefsson (1883-1960)í fornmannabúningi, Hallgrímur Benediktsson (1885-1964), Guðmundur Sigurjónsson (1883-1968), Sigurjón Pétursson (1988-1954), Páll Guttormsson (1889-1948), Jón Pálsson (1887-?; sem sýndi glímu með Jónannesi í Bandaríkjunum og ílentist þar um skeið, og Pétur Sigfússon (1891-1962). Kort í Fornleifssafni frá 1908. Kortið var sent árið 1907 til "Ungfreyjunnar Sigríðar Böðvarsdóttur á Seyðisfirði" (1875-1955) af Frú Maríu Guðbrandsdóttur (1855-1942) á sama stað, "með vinsemd og virðingu". Svona kort og menn í nærfatnaði og í ólum höfðuðu greinilega jafnt til hals sem drósar. Þetta var Unisex á undan sinni tíð. Þess má geta að móttakandinn var 33 ára og sendandinn 54 ára. Sem sagt djarfar konur á besta aldri. Ljósm. Fornleifssafn.

Stór-danskur yfirgangur

Íslendingarnir neituðu að ganga með hópi Danmerkur inn á leikvanginn í White City, Hammersmith. Jóhannes Jósefsson vildi að Íslendingar gengu undir eigin nafni og fána.

Vinur vinar hans, William Henry Grenfell (1855-1945), síðar first Baron of Desborough, sem var í stjórn bresku Ólympíunefndarinnar, leyfði íslenska glímuhópnum að taka þátt í göngunni við opnunarathöfnina inn á leikvanginn.

Lord_Desborough

William Henry Grenfell

Aðalþjálfari Dananna, Fritz Edvard Hansen (1855-1921), var hins vegar ekki alveg á sömu skoðun. Dönum var skipað að hindra inngöngu íslenska hópsins. 50 danskir íþróttamenn mynduðu skjaldborg hvítklæddra þátttakenda sinna við innganginn á White City Stadium og vörnuðu Íslendingunum aðgengið. Bolabíturinn Hansen, sem einnig var foringi í danska hernum, fór fremstur í flokki. Hann bannaði Íslendingum að ganga inn á leikvanginn, þar sem þeir væru danskir þegnar og taldi hann að þeir ættu því að ganga undir dönskum fána. 

Fritz Edvard Hansen

Fritz Edvard Hansen

Áður en hitnaði enn frekar í kolunum krafðist Sir William Henry Desborough að Danirnir vikju og fyrirskipaði að Íslendingarnir gætu gengið inn á völlinn. 

Jóhannes Jósefsson tók þátt í grísk-rómverskri glímu fyrir Danmörku og lenti í fjórða sæti í sínum flokki, þó hann hafi aðeins geta notað einn handlegg. Hann slasaðist í fyrstu glímunni sinni. Sannir Víkingar voru ekkert að gefast upp á þessum tímum. Komst enginn Íslendingur nær verðlaunapalli á Ólympíuleikum fyrr en Vilhjálmur Einarsson stökk í annað sætið á leikunnum í Melbourne 48 árum síðar.

Olympics.cartoon

Þessi stórdanska tálmun við innganginn að leikunum var ekki eini skandallinn á þessum 4. Ólympíuleikum. Sænska og bandaríska fánann vantaði í fánaborg leikanna; mjög svo móðgaðir Svíar ákváðu að taka ekki þátt í opnunarathöfn leikanna. En hins vegar voru þar fánar Kína og Japans þar dregnir við hún þó þær merku þjóðir tækju ekki þátt í leikunum. Finnar ákváðu að ganga án fána, því þeir neituðu að ganga undir fána Rússa, hvers hæl Finnar voru undir um þessar mundir. Síðast en ekki síst, Bandaríkjamenn höguðu sér ekki mjög íþróttamannslega á leikunum 1908, eins og teiknarinn reynir að sýna á myndinni hér fyrir ofan. Allt var sem sagt í hers höndum hjá Tjallanum á fyrstu Ólympíuleikunum. 

wwwopac.ashx 8

wwwopac.ashx7

Showmanninum Jóhannesi Jósefssyni þótti gaman að fara í fornkappadrag og hnykla vöðvana í ýmsum löndum. Takið eftir nafni fyrirtækis hans.

Með honum sýndu aðrir Íslendingar m.a. Jón Pálsson, sem einnig sýndi "this most peculiar Sport" á Ólympíuleikunum í London árið 1908. Takið eftir íslenska fálkamerkinu á ljósbláum grunni á rauðri treyju Jóhannesar. Þetta var hreinræktuð vöðvaþjóðrækni, sem þekktist víða um heim á 20. öld.

Vöðvaþjóðrækni og "samræði gegn náttúrulegu eðli"

Og inn gengu þeir í hvítu nærfötunum og skýlunum smáu, allir leðurólaðir að neðan. Það var vitanlega klæðnaður sem kitlaði ýmsan breskan hal og annan. Jóhannes var klæddur í einhvern fornmannabúning, sem kynntur var til sögunnar sem íslenskur þjóðbúningur, en allt saman var þetta hálfgert drag.

Þegar menn kaupa myndir á glímuköppum á netinu er myndum þessum lýst sem myndum sem LGBTQIA+ fólk kynni að hafa meiri áhuga á en aðrir. Í mínu tilfelli er bara mannlegur áhugi á fyrri tímum sem drífur áhugann á glímu; ekkert sem kitlar fyrir neðan belti.

Gordon

En einn af glímuköppunum á Ólympíuleikunum 1908 var reyndar samkynhneigður og var pískrað um það í hornunum á Íslandi. Það var Guðmundur Sigurjónsson fánaberi Íslendinganna á Ólympíuleikunum 1908. Eftirfarandi vísa um Guðmund á Ólympíuleikunum gekk eins og eldur í sinu í Reykjavík, þangað sem Guðmundur hafði flust norðan úr Mývatnssveit til náms. Lítið varð hins vegar úr námi.

Gvendur undan gutta her
gekk og bar sinn klafa,
af því hann á eftir sér
enginn vildi hafa.

GayGlimaNokkuð hefur verið ritað um samkynhneigð Guðmundar, einna helst af Þorvaldi Kristinssyni fyrrverandi formanni Samtakanna ´78. Þessi grein hans gefur ágætt yfirlit yfir líf Guðmundar, en nokkrar myndanna sem sagðar eru vera af honum í greininni eru það reyndar ekki.

Þegar Guðmundur Sigurjónsson var í Kanada fram til 1920, kallaði hann sig Gordon, og þegar hann sneri aftur til Íslands og starfaði við verslun tók hann upp ættarnafnið Hofdal.

Snemma árs 1924 var hann dæmdur í átta mánaða hegningarhúsavist fyrir kynmök við aðra karlmenn. Hann var dæmdur eftir 178. grein hegningarlaganna frá 1869: „Samræði gegn náttúrulegu eðli varðar betrunarhúsvinnu.“

Jónannes Jósefsson og flokkur

Sýningahópur Jóhannesar Jósefssonar í Vesturheimi. Hreinræktað Viking-drag sem enn virðist örva smekklausa Bandaríkjamenn með veik germönsk gen.

Lýsing glímukappans Páls Guttormssonar Þormars í Austra á ferðinni til Lundúna árið 1908 (stafsetningin er alfarið hans)

P. Þormar lille

Elsta lýsing Íslendings á ólympíuleikum er vafalaust frásögn glímukappans Páls Guttormssonar, sem má sjá hér til vinstri á mynd frá  um aldamótin 1900. Hann kallaði sig síðar Pál G. Þormar og gerðist mikill athafnamaður og verslunareigandi á Seyðisfirði og Norðfirði og var m.a. í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar sem stofnaður var árið 1920.

Bréf til Austra.          London 12/7.

  Eg lofaði þér, Austri sæll, að senda þér einhvern tíma línur frá ferð okkar Lundúnafara.

  Þá er fyrst til að taka, að ferðin hefir gengið vel það sem af er. Við fórum 7 frá Reykjavík sunnudaginn 28. júní kl. 6 e. h. og fengum bezta veður út yfir hafið svo enginn varð sjóveikur það sem teljandi var, og ekkert markvert bar til tíðinda. Til Leith komum við að morgni þ. 3. júlí en komumst ekki inn í höfnina fyr enn um kl. 4.

  Strax er við vorum komnir inn fyltist af blaðamönnum í kring um okkur, og komu svo greinar þeirra um hina íslenzku glímu daginn eptir. Þegar er við gátum losazt frá tollþjónum og prangaradrasli fórum við upp í Edinburgh til konu nokkurrar, sem leigði út herbergi. í Edinburgh dvöldum við svo par til á mánudaginn 6. júlí, að við fórum hingað til Lundúna með járnbrautarlest og erum við búnir að dvelja hér 5 daga.

ExoqRn9WEAMUc0C

  Við komum á stöðina í Lundúnum kl. 9. e. h. í svarta myrkri, og fórum strax á þetta gistihús, sem við nú dveljum á; það er eign Kristilegs félags ungra manna, og er mjög skemmtilegt hús með ljómandi garði, svo okkur líður ágætlega, það eina sem amar að, er að það er nokkuð langt til „Stadion" par sem Olympisku leikirnir fara fram og við æfum okkur daglega.

NAEST-045-556-Page-13

  Þegar við komum hingað fengum við aðgöngumiða að Fransk-Ensku-sýningunni, sem við notum altaf þegar við viljum fara þangað, og er það heldur ekki sparað, því margt má par sjá.

  Við glímdum í gær á Olympisku leikjunum fyrir 20,000 áhorfenda, og „The Sports Suplement of The Weekly Dispatch" segir þar sem ritað er um sýningarnar þennan dag, að síðast en en ekki sízt megi minnast á hina eptirtektaverðu íslenzku glímu, sem hafi verið sýnd af hinum íslenzka flokki. Annars hefi eg ekki séð fleiri blöð ennþá, en þegar við glímdum, safnaðist fjöldi blaðamanna og myndasmiða í kringum okkur, og eptir að við höfðum hætt glímunni urðum við að fara aptur upp á pallinn til að láta taka myndir af ýmsum glímubrögðum sem svo síðan eiga að koma í blöðunum.

„Programið" var svo skýrt að áreiðanlega allir vissu hvað fram fór og lítur út fyrir að talsverður áhugi vakni fyrir glímunni, því alltaf er veriðað spyrja okkur hvenær við glímum aptur. í gær var afar fjölbreytt skemmtun á Olympiu, og óskaði eg opt í huga mér að við værum undir það búnir að taka þátt í hinum ýmsu íþróttum sem par fóru fram, en eg varð aðeins að hugga mig við það, að við mundum síðar verða færir um að koma fram á sjónarsvið kappleikjanna sem þátttakendur.

  Hið helzta í „Programinu" var: leikfimi, sund, hjólreiðar, kapphlaup, kappganga, hnefaleikur o. fl., sem eg sökum tímaskorts tel ekki upp.

  Það sem mest hreyf mig af öllu þessu var leikfimin; fyrst kom fram flokkur enskra karlmanna sem var auðsjáanlega vel æfður, en svo kom kvennflokkur, sem gjörði mikla lukku, enda hefir ekkert, sem eg hefi enn séð hér jafnazt á við þann flokk, nema Norðmannaflokkurinn, sem er afar fallegur enda á hann að koma fram fyrir enska og gríska konungafólkið á morgun kl. 3 e. h. Norðmenn unnu fyrstu verðlaun í leikfimi á síðustu Olympisku leikjunum í Athenu og er búizt við að þeir gjöri það enn.

  Í kapphlaupum og göngu er eg nærri viss um að Íslendingar gætu með æfingu tekið þátt.

   Sundið er ákaflega gaman að horfa á, par sem sundmennirnir stungu sér ofan af margra mannhæða háum palli og fóru marga hringi í loptinu, en hnefaleikurinn þótti mér ekkert skemtilegur. enda getur hann varla talizt fögur íþrótt, en þó klöppuðu áhorfendurnir aldrei meir en þegar einhver var sleginn flatur til jarðar.

fyrstiformadurstj  Við höfum æft okkur á leiksviðinu, áður en leikir byrja á daginn, til þess að sem flestir íþróttamenn geti fengið að kynnast glímunni, enda er hér saman kominn fjöldi þjóða, og er ekki minnst í varið að sjá séríþróttir þeirra.

  Ef ætti að skrifa nákvæmlega um leiki þessa þá mundi það taka lengri tíma en eg hefi í aflögum, svo eg læt hér staðar numið og verð að biðja alla lesendur að fyrirgefa hve lítið og ónákvæmt er skýrt hér frá hverri einstakri íþrótt, enda er minnst búið af því sem fram á að fara á Olympisku leikjunum.

Með kærri kveðju. P. G.

Síðari endurminningar Péturs Sigfússonar

Screenshot 2021-09-18 at 16-31-20 Vísir - Jólablað - Megintexti (24 12 1954) - Tímarit isHér og hér má einnig lesa áhugaverða lýsingu Péturs Sigfússonar um "upplefelsi" hans á Lundúna-Ólympíuleikunum 1908 í jólablaði Vísis árið 1954. Pétur var yngstur þeirra glímukappanna, aðeins 17 vetra. Hann glímdi síðar við viðskipti og var kaupfélagsstjóri á Borðeyri fram undir síðara stríð. Hann var glímumaðurinn sem lesendur mínir sjá framan í á safnauka Fornleifssafn. Bók hans Enginn ræður sínum næturstað, þar sem einnig greinir frá Ólympíuleikunum 1908, kom út fyrri jólin 1962 að Pétri nýlátnum.

 

Viðbót 7.4. 2022: Þess má svo til viðbótar geta, að nú hefur verið greint frá myndinni á LUCERNA en hún var ekki þekkt áður nema af lista sem fylgdi myndum Walter Tyler frá Ólympíuleikunum 1908.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband