Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Afar sérstakur saksóknari

malverkin_tvo.jpg

Ég ritaði hér um daginn um nýja málverkafölsunarmálið, þar sem tvö málverk eftir Svavar Guðnason voru tekin í hald lögreglunnar í Kaupmannahöfn sama dag og bjóða átti upp málverkin hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen.

Það sem Bruun Rasmussen var ekki tjáð nákvæmlega hvaðan ákæran kæmi, samkvæmt upplýsingum Niels Raben yfirmanni uppboða nútímalistar, og eigandi eins málverksins K.O. hefur heldur ekki fengið upplýsingar um hver hafi sett fram ákæruna, hafði ég samband við Ríkislögregluna á Íslandi. Þar sagði mér lögfræðingur, að Embætti sérstaks saksóknar að Skúlagötu 17 í Reykjavík væri það embætti sem sæi um þetta mál og hefði sett fram kæruna sem leiddi til þess að lögreglan í Kaupmannahöfn lagði hald á tvö málverk.

Er ég hafði samband við Sérstakan saksóknara í dag var mér tjáð að Ólafur Þór sérstakur saksóknari sæi um þetta fölsunarmál ásamt embættismanni hjá embættinu sem heitir Sveinn. Þeir voru fara á fund og gátu því ekki svarað erindi mínu, sem ég býst við að þeir svari skriflega og hafa þeir fengið erindið.

Spurning mín til embættisins er einfaldlega sú: Hvernig ákæra frá forverði við Listasafn Íslands, sem séð hefur málverk á netinu og slær því fyrirvaralaust út að það sé falsað, verði mál sem sérstakur saksóknari og Lista Sveinn starfsmaður hans taka að sér að kæra í og krefja lögregluyfirvöld í Danmörku gegnum NORPOL að gera upptæk. Ég fæ alls ekki séð af lögum nr. 135/2008, að það sé í verkahring Sérstaks saksóknara að rannsaka meintar málverkafalsanir. Sjá hér.

Hvað kalla menn rannsókn ?

Samkvæmt nýjum lögum (2014) um ráðstafanir gegn málverkafölsunum hefur Alþingi ályktað að fela "mennta- og menningarmálaráðherra að setja á laggirnar starfshóp skipaðan fulltrúum Listasafns Íslands, Myndstefs, Bandalags íslenskra listamanna, Sambands íslenskra myndlistarmanna, embættis sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem geri tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og skilgreiningu á ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins. Þá fái hið opinbera frumkvæðisskyldu til að rannsaka og eftir atvikum kæra málverkafalsanir."

Þess ber að geta að slíkur starfshópur hefur ekki komið saman. Hins vegar hljóp embætti Saksóknara til nú eins og að verk látins íslensks listamanns væru í verðflokknum Picasso plus, og sala á meintri fölsun á verki hans (sem dæmt var falsað eftir að Ólafur Ingi Jónsson forvörður sá það á netinu/það var ranbsókn) væri brot sem setti efnahag Íslands í vanda. Það er eins dæmalaust vitlaust og þegar Bretar settu Íslendinga á hryðjuverkalistann. Vita menn hvað áætlað verð var á málverkinu á uppboði Bruun Rasmussen sem K.O. á Jótlandi setti á uppboð? Það eru skitnar 5350 € (40.000 DKK/825.000 ISK) Er ekki mikilvægara fyrir sérstakan saksóknara að setja bankafalsarana og bankaellurnar undir lás og slá?

Hvað haldið þið lesendur góðir? Er rétt að nota embætti sérstaks saksóknara til að eltast við hugsanlega fölsun í Danmörku, þegar embættinu ber fyrst og fremst að lögsækja menn sem settu Ísland á hausinn? Verk í eigu manns á Jótlandi, sem erfði verkið eftir foreldra sína sem voru þekktir listaverkasafnarar, sem keyptu málverkið árið 1994, getur vart hafa sett Ísland á hausinn árið 2008. En hvað veit ég?

Hvenær endar hin sér íslenska vitleysa? Vonandi verður sérstakur saksóknari eins duglegur við að lögsækja bankabófana og hann hefur verið í þessu nýupptekna fölsunarmáli. Fyrir nokkrum árum síðan var málverkafölsunarmálið talið eitt mesta og dýrasta mál landsins. Nú eru slík mál bara peanuts bæði hvað varðar stærð og kostnað.

bf6c200b165df26bf08deb3f0725afad.jpg

Tvær falsanir af 900 ?

766301.jpg

Fyrr í ár var samþykkt þingsályktunartillaga um ráðstafanir gegn málverkafölsunum. Ég skrifaði skömmu áður lítillega um málið hér á Fornleifi.

Í fyrradag kom svo upp enn eitt fölsunarmálið. Forvörðurinn Ólafur Ingi Jónsson hafði frétt af tveimur málverkum eftir Svavar Guðnason á uppboði hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Hann taldi sig þegar sjá, að um falsanir væri að ræða. Hann sendi um það greinargerð eða eitthvað þvíumlíkt til embættis Ríkissaksóknara, sem svo glæsilega tókst að klúðra fyrri fölsunarmálum með lagatæknilegu rugli. En nú átti greinilega að sýna röggsemi svo embættið sendi lögreglunni í Kaupmannhöfn tafarlaust beiðni um að koma í veg fyrir sölu málverkanna, því þau voru talin fölsuð.

Að morgni þess dags sem uppboðið átti að vera hafði lögreglan í Kaupmannahöfn samband við uppboðsfyrirtækið sem tók myndirnar af skrá, allt fyrir orð sérfræðings sem aðeins hafði séð ljósmyndir af málverkunum en ekki skoðað þær hjá uppboðsfyrirtækinu eða rannsakað. Þess verður þó að geta, að danska lögreglan vildi ekki gefa Bruun Rasmussen upp, hverjir hefði kært í málinu og hver héldi því fram að málverkin væru fölsuð. 

_lafur_forvor_u.jpg
Ólafur Ingi Jónsson forvörður Listasafns Íslands.

 

Íslenskir fjölmiðlar hafa nokkrir greint frá málinu og út frá þeim fréttaflutningi má ætla að málverkin séu m.a. talin fölsuð, þar sem þau eru máluð með alkyd litum (akryl) og er því haldið fram í fjölmiðlum að slík málning hafi ekki verið framleidd fyrr en eftir dauða listamannsins, Svavars Guðnasonar (1934-1988).  Í fyrri málum hefur einnig verið haldið fram að undirskriftin, signatúrinn, sé ekki Svavars sjálfs og að myndirnar séu viðvaningslegar. Þar að auki var því fleygt fram í fjölmiðlum nú að málverkin sem síðast voru á uppboði Bruun Rasmussens væru líklega máluð eftir fyrirmyndum.

Málverkin keypt árið 1994

Af uppboðsgögnum, sem því miður voru dregin til baka, má sjá úr hvaða safni ein myndanna var. Það voru hjón á Jótlandi sem voru þekkt fyrir listaverkasafn sitt. Dönsk listasöfn höfðu haldið sér sýningar á hlutum þess safns.  Sonur þeirra erfði öll listaverkin að þeim látnum. Eins og einn sýnandi verka foreldra hans sagði, þá var hann dreginn með á sýningar og listasöfn allan sinn barndóm, settur á baksætið í bílnum með bunka af Andrés Andarblöðum, meðan foreldrarnir keyptu inn listaverk og þræddi öll listsöfn hins siðmenntaða heims með hann á aftursætinu. Hann selur nú þessi verk sem hann hefur engan persónulegan áhuga á.  

Ég hafði samband við K.O. son hjónanna og hann var undrandi að heyra að mynd hans hefði verið tekin af uppboðinu og að hún væri nú í vörslu lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Hann á kvittun fyrir kaupum málverkanna og voru þau keypt af foreldrum hans af galleríi í Grønnegade í Árósum 1994.

Vilhjálmur Bjarnason veit eitthvað sem Bruun Rasmussen veit ekki

Vilhjálmur Bjarnarson alþingismaður, einn þeirra sem setti fram þingsályktunartillöguna sem fyrr er nefnd, hélt því fram við RÚV í gær (24.9.2014) að honum væri "kunnugt um það að Bruun Rasmussen hafði vísbendingar um það áður að verkin væru fölsuð. Þannig að það var ósköp einfalt að leita þessara leiða. " Þetta bar ég í morgun undir Niels Raben hjá Bruun Rasmussen, sem sagði það af og frá. Hann hefði ekki vitað né haft neinar vísbendingar um að verkin væru hugsanlega fölsuð fyrr en hann fékk erindi frá Kaupmannahafnarlögreglunni, sem ekki vildi gefa upp hver á Íslandi kærði myndirnar sem falsanir.

Vilhjálmur Bjarnarson verður að skýra þessi orð sín, og nú er líklega komið að því að framkvæma aðrar "rannsóknir" en að dæma út frá ljósmyndum á vefsíðum. Það stenst einfaldlega ekki fræðilega og maður leyfir sér að lýsa furðu á vinnubrögðum Ríkissaksóknara, þó það sé greinilega komið í tísku af öðrum sökum.

Þáttur Ríkissaksóknara

Ég á mjög erfitt með að skilja, hvernig hægt er að fá Ríkissaksóknara að aðhafast nokkuð í máli nema að fyrir liggi einhvers konar rannsókn, t.d. ferð Ólafs Inga til Uppboðshúss Bruun Rasmussens í Bredgade í Kóngsins Kaupmannahöfn, þar sem hann hefð getað skoðað myndirnar gaumgæfilega. En það eru greinilega ekki venjulegar aðferðir Ólafs Inga eða stofnunar þeirrar sem hann vinnur fyrir. Eins má furðu sæta, að sú deild lögreglunnar í Kaupmannahöfn sem gerði verkin upptæk sl. þriðjudag hafi ekki viljað upplýsa hver hafi sett fram ákæru og á hvaða grundvelli. Þar með hefur danska lögreglan líklegast brotið dönsk lög segir mér lögfróður vinur minn.

Lesendur Fornleifs muna kannski eftir furðumyndunum 24 sem Ólafur Ingi sagði hollenskar og frá 17. öld. Þær voru nú ekki hollenskar og eru frá 18. öld og eru líklegast málaðar af Sæmundi Hólm, fyrsta Íslendingnum sem gekk á listaakademíu. Ólafur hélt meira að segja lærðan fyrirlestur á Listasafni Íslands um hollensku málverkin áður en ég sýndi fram á annað og meira, sjá hér og hér.

Enn er ég ekki búinn að sjá neinn rökstuðning frá Ólafi Inga Jónssyni fyrir yfirlýsingum hans um að 900 falsanir séu í umferð. Vissulega hafa verið falsanir í umferð á Íslandi, og dreg ég það ekki í vafa, en það gefur mönnum ekki "veiðileyfi" á listaverkasala og uppboðshús ef haldbærar sannanir liggja ekki fyrir. Enn hef ég ekki séð efnagreiningar eða lærðar greinar eftir Ólaf forvörð. Er ekki komin tími til fyrir Listasafn Íslands að gefa það út?  Er hægt að tjá sig um málverkafalsanir án þess? Er nóg að mæta með sjónvarpsmenn í gallerí, eins og Ólafur hefur gert í Reykjavík, og heimta að fá að rannsaka verk í beinni útsendingu. Hvað varð um hinn undirbyggða grun, svo ekki sé talað um grunninn?


Spurning á 400 ára fæðingarafmæli Hallgríms

hallgrimur_p2.jpg

Margrét Eggertsdóttir, einn helsti sérfræðingurinn á sviði starfs og lífs Hallgríms Péturssonar, hefur haldið því fram að það sé ekki að finna tangur né tetur af gyðingahatri í Passíusálmum hans. Hún hefur þó ekki sett fram nein haldbær rök fyrir því, utan að sveifla sérfræðingskortinu. Margrét er vitaskuld ekki gyðingur og leggur allt annað mat á illa orðræðu um gyðinga en gyðingar sjálfir, sem lesið hafa Passíusálmana og undrast það sem vel má kalla dýrkun þeirra og Hallgríms á Íslandi.

Hverjir aðrir en gyðingar hafa bestan skilning og dómgreind á því hvað gyðingahatur er? Þeir verða fyrir því hatri, og hafa orðið fyrir því síðan að frumkirkjan hóf að stunda skipuleg leiðindi og ofsóknir gegn þeim, ofsóknir sem leiddu til annars og verra og að lokum leiddi það af sér helförina og ofsóknir í garð Ísraelsríkis, sem til varð vegna afleiðinga hatursins í Evrópu og annars staðar.

Árið 2011 gagnrýndi Stofnun Símon Wiesenthals, SWC, dýrkun á Passíusálmunum á Íslandi, því stofnunin telur sálmana andgyðinglega. SWC freistaði þess að fá RÚV til að láta af árlegum lestri sálmanna. Margrét Eggertsdóttir sagði þá í raun rabbínum stofnunar Simon Wiesenthals, sem berjast gegn gyðingahatri, að þeir vissu ekki hvað gyðingahatur væri. Páll Magnússon útvarpsstjóri vitnaði í sérfræðiþekkingu hennar ákvörðun sinni til stuðnings. Passíusálmarnir verða lesnir um ókominn tíma á RÚV og eru jafnöruggur dagsskrárliður og hatur sumra fréttamanna RÚV í garð Ísraelsríkis. Á Íslandi vega orð Íslendinga meira en útlendinga og vitaskuld eru Íslendingar langtum meiri sérfræðingar í gyðingahatri en gyðingar. Þarf að spyrja að því?

En af hverju er þetta gyðingahatur í Passíusálmunum ekki að finna í þeim guðspjöllum sem  Hallgrímur orti upp úr, eða telur Margrét bara að gyðingahatur sé óþarfa hársæri?

Fornleifur og fjöldi manna sem lesið hafa Passíusálma Hallgríms Péturssonar telja þá innihalda svæsið, guðfræðileg gyðingahatur (Anti-judaisma) 17. aldar,  sem  bæði er tímaskekkja og smekkleysa, sér í lagi ef sálmarnir eru taldir uppbyggilegir og jafnvel mikil list sem á erindi til fólks á 21. öld. 

Til dæmis vekur það furðu manna erlendis, að dæmigert trúarlegt gyðingahatur 17. aldar, sem er mjög ríkt í Passíusálmunum, sé enn vinsælt og í hávegum haft á Íslandi á 21. öld. Menn undrast einnig að yfirlýstir guðleysingjar og trúleysingjar úr röðum íslenskra þingmanna og annarra stjórnmálamanna flykkjast í kirkjur fyrir páska til að lesa upp úr sálmunum (síðast hér). Helgislepjan er þá mikil, líkt og tvískinnungurinn. Þetta einkennilega trúaræði trúleysingjanna virðist reyndar vera bundið við Passíusálmana. Einhver fullnæging hlýtur að fylgja þessari fíkn yfirlýstra atheista eftir sálmalestri í kirkjum. Ég hef vitaskuld velt því fyrir mér, hvort það sé í raun gyðingahatrið í sálmunum um manninn sem þetta fólk trúir alls ekki á, sem gerir trúleysingja að sálmaáhugafólki?

Persónuleg lífsreynsla Hallgríms og gyðingahatur

Margrét Eggertsdóttir sagði um daginn við opnun nýrrar sýningar um Hallgrím á 400 ára afmælishátíð hans, að "persónuleg lífsreynsla Hallgríms skíni í gegnum margt af því sem hann hefur ort og gert."

Réttmæt þykir mér í því sambandi þessi spurning :

Hvaða lífsreynsla síra Hallgríms gerði það að verkum að hann er svo illur í orði gagnvart gyðingum, svo mikið að hvergi finnst annað eins í varðveittum trúarlegum kveðskap frá 17. öld?

Hér skal reynt að svara því:

Marteinn Lúther

Eins og allir vita ritaði Lúther, guðfræðingurinn með harðlífið, rætinn og sviksamlegan bækling um gyðinga  Von den Jüden und i[h]ren Lügen sem út kom árið 1543. Hann bætti um betur og gaf sama ár út ritið Vom Schem Hamphoras und vom Geschlecht Christi, sem skreytt var með myndum af gyðingum í miður siðlegum atlotum við gyltu (sjá neðar), sem var vel þekkt minni úr kaþólskri list.  Þrátt fyrir "siðbót" tók Lúther það versta upp úr kaþólskri "guðfræði".

Líkt og sumir Íslendingar hatast út í múslíma í dag og t.d. halal-slátrað kjöt þeirra, sagðist Lúther hafa borðað kosher mat, það er kjöt af gripum sem slátraðir voru schechíta (slátrað að hætti gyðinga), og hafa orðið illt af. Lúther taldi gyðinga hafa reynt að byrla sér eitur. Þau rit þar sem Lúther greindi frá þessu hatri sínu voru til í Kaupmannahöfn og hafa verið aðgengileg manni sem lærði til prests í Kaupmannahöfn. Þess ber einnig að geta að nasistar notuðust óspart við þessi rit Lúters sér til halds og gagns, og lúterska kirkjan hefur enn ekki beðist afsökunar á framferði sínu eins og t.d. sú kaþólska hefur verið að myndast við að gera. Í litlu lútersku landi á hjara veraldar þykir enn fínt að þylja andgyðinglega, lúterska sálma.

wittenberg_judensau_grafik.jpg

 

Sumir guðfræðingar lútersks siðar hafa afsakað þessi rit meistara síns með því að halda því fram að gyðingahatrið í Lúther hafi mest verið í nösunum á honum og hafi raun verið "hluti af stefnu hans gagnvart kaþólsku kirkjunni". Það er vitaskuld dómadags rugl. Bábiljan lifir sem sagt enn, og er varin af lúterskum trúfræðingum og líka kaþólskum. Þá er ekki að furða að menn dáist af Passíusálmunum, sem endurspegla andgyðinglega guðfræði Lúthers. En samt afneita "fræðimenn" og útvarpsstjóri Íslandi, og auðvitað Egill Helgason sá er allt veit, að það sé gyðingahatur í Passíusálmunum. 

Gyðingahatur Lúthers, sem þjóðkirkja Íslendinga kennir sig við, hefur með sönnu mótað gyðingahatrið í Passíusálmunum. Hið trúarlega gyðingahatur voru helstu fordómar Norðurevrópumanna á 17. öld. Undantekningu var þó að finna í hluta samfélagsins í Hollandi.

Gyðingahatur var ríkt á tímum Hallgríms

Er Hallgrímur dvaldi í Kaupmannahöfn gekk bylgja af gyðingahatri yfir Danaveldi, fyrst og fremst ættuð úr Þýskalandi. Gyðingahatur var þó engin ný bóla, heldur löng hefð úr kaþólskum sið, sem Lúterstrúarmenn létu ekki af og gagnrýndu ekki. Gyðingahatrið var eins og elexír fyrir kristna trú á þessum tíma. Lúterskir biskupar Danmörku vildu fyrir enga muni leyfa gyðingum að setjast að í Danmörku þegar það kom til tals. Gyðingar voru hins vegar afar fáir í Danaveldi og þeir sem til Kaupmannahafnar komu og ætluðu sér að vera þar eða að halda til Íslands, var skipað að taka kristna trú. Það gerðist t.d. árið 1620 er Daniel Salomon, fátækur gyðingur frá Pólandi var skírður í Dómkirkju Kaupmannahafnar að viðstöddu margmenni og konungi. Síðar, árið 1625, fékk hann 6 ríkisdali frá konungi til að halda til Íslands. Þá hét hann ekki lengur Daniel, heldur Jóhannes Salómon.

Glückstadt

En leiðum hugann að veru Hallgríms í Danaveldi. Sagan segir, að áður en Brynjólfur Jónsson (síðar biskup) kom Hallgrími til náms við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, hafi Hallgrímur hugsanlega verið járnsmíðasveinn bænum Glückstadt í Suður-Slésvík (Ekki Lukkuborg eins og sést hefur í ritum íslenskra sérfræðinga um Hallgrím; Lukkuborg eða Glücksburg er allt annar staður en Glückstadt).

Brynjólfur mun hafa heyrt Hallgrím bölva húsbónda sínum á íslensku. Portúgalskir gyðingar voru þá farnir að setjast að í Glückstadt, bæ sem Kristján 4. stofnaði árið 1616. Hugsast gæti að Hallgrímur hafi verið í vist hjá gyðingakaupmönnum sem hann bölvaði, eða verið nágranni þeirra, t.d. Samuel Jachja, sem einnig kallaði sig Albert Dionis (einnig Anis eða Denis og jafnvel Jan Didrichs; Portúgalskir Gyðingar notuðu oft mörg mismunandi nöfn allt fram á 20. öld; Þessi nafnafjöldi var oft til þæginda og til að koma í veg fyrir gyðingahatur), sem þekktur var fyrir myntfölsun og þrælaverslun og var einmitt beðinn um að setjast að í Danaveldi vegna þess, Samuel Jachja og auður hans og sá auður sem beindi til Glückstadts byggði bæinn upp. Hins vegar gæti Hallgrímur allt eins hafa verið vinnumaður Danans Hans Nansen, guðhrædds lúthertrúarmanns, sem settur var yfir Íslandsverslunina, Islandske Kompagni, sem frá 1628 hafði sínar bækistöðvar í Glückstadt. Auður Íslands var einnig notaður til byggingar bæjarins. Nansen var hins vegar einn versti arðræninginn sem "verslað" hefur á Íslandi í einokuninni. Hann varð síðar borgarstjóri Kaupmannahafnar, vellauðugur af viðskiptum sínum á Íslandi. Albert Dionis (Anis, Denis, Didrichs) setti ásamt öðrum gyðingum í Glückstadt einnig fjármagn í Íslandsverslunina og lagði til skip þegar fáir sigldu til Íslands.

gavnoe_anti-semitism.jpg
Háðungsleg mynd af gyðingum að deila um ritninguna. Málverkið (olía á fjöl) hangir í höll Thott ættarinnar á Gavnø á Suður-Sjálandi og er greinilega frá síðari hluta 16. aldar og þýskt að dæma út frá textanum í bók sem gyðingarnir eru að bera saman við sinn Tanach (Nevi´im Aharonim) og stendur bókin opin við Jesaja 4:18 : Höret, ihr Tauben, und schauet her, ihr Blinden, daß ihr sehet!. Fjallað var fyrir nokkrum árum síðan um málverkið í tímaritinu Rambam sem ég var ritstjóri fyrir í nokkur ár. 

 

Tíðarandinn var andgyðinglegur trúarlega séð, þó svo að konungur byði gyðingum fríhöfn í Glückstadt. Í Danmörku var öðrum en Lútherstrúarmönnum bannað að búa eða setjast að. Vinátta og gestrisni Kristjáns 4. við gyðinga af portúgölskum uppruna, sem hann leyfði að setjast að i Glückstadt kom sömuleiðis aðeins til af því að konungur sá sér fjárhagslegan ávinning í því. Hallgrímur gæti hafa kynnst gyðingahatrinu í bænum Glückstadt (ef upplýsingarnar í þjóðsögunni um veru hans þar eru réttar) og hann gæti einnig hafa kynnst því meðal guðfræðinganna sem kenndu honum í Frúarskóla í Kaupmannahöfn.

Það var ekkert í lífi Hallgríms, sem við þekkjum sem réttlætt getur hatrið í píslarlýsingum hans. Þetta hatur finnst, eins og áður segir, alls ekki í nýja Testamentinu nema ef það er túlkað á hatursfullan hátt, líkt og öfgamúslímar hafa túlkað Kóraninn til að myrða með honum og aflima fólk. Sálmarnir eru því afurð þess tíma sem Hallgrímur lifði á. Ef menn telja þann tíma eiga listrænt og siðferðilegt erindi  við fólk á 21. öld, er kannski eitthvað mikið að í því landi sem slíkt gerist, eða hjá því fólki sem slíkt boðar. Þetta hatur var hluti af þeim tíma sem hann lifði á.

Passíubókmenntir 16. og 17. aldar

Fólk sem kallar sig sérfræðinga í lífi og verkum Hallgríms,  og sem segir lífsreynslu hans hafa mótað list hans verða að kynna sér líf hans og tíðarandann í Danmörku og Glückstadt betur. Þeir verða að þekkja guðfræðilegt hatur kennara hans við Frúarskóla og hatrið í ritum Lúthers, hatrið í ritinu Soliloquia de passione Jesu Christi , píslarsögu eftir þýska skáldið Martin Moller (1547-1606) sjá hér, (Soliloquia de passione Jesu Christi ) sem greinilega hafa haft mikil áhrif á Hallgrím og sem var það sama og í Passíusálmum hans. Píslarsagan eftir Martein Moller, sem reyndar er ekki lesin upp í útvarpi í Þýskalandi, var gefin út á íslensku fram á miðja 18. öld í þýðingum Arngríms lærða og einnig Péturs Einarssonar lögréttumanns. Greinilegt er að eftirspurn hafi verið eftir slíkri afurð meðal Íslendinga í trúarhita 17. og 18. aldar.

Önnur íslensk skáld, sem uppi voru á sama tíma og Hallgrímur, voru ekki ekki eins hatrömm í garð gyðinga og hann. Jón Þorsteinsson prestur í Vestmannaeyjum, sem var veginn í Tyrkjaráninu skrifaði t.d. og fékk prentaða Genesis-sálma á Hólum, þar sem ekki var að finna snefil af illyrðum um gyðinga. Það hlýtur að hafa verið eitthvað í lífsreynslu Hallgríms sem gerði hann örðuvísi en t.d. Jón Píslarvott í Eyjum.

Meðan Passíónsbók Marteins Mollers er að mestu gleymd og grafin í Þýskalandi eru Íslendingar, og jafnvel örgustu trúleysingjar á hinu háa Alþingi, á kafi í dýrkun Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Þegar menn gera sér grein fyrir því að Hallgrímur var ekkert öðruvísi en samtími hans, sjá þeir kannski hatrið sem skín út úr sálmum hans.

Það er frekar frumstætt hatur 16. og 17. aldar sem ekkert erindi á til okkar á 21. öld frekar en hatursrit Marteins Lúthers, safarík passíón Mollers eða þá Öfgaíslam. 


Fiskveiðimaskína Sæmundar Magnússonar Hólm

saemundur_fornleifur.jpg

 

Ekki alls fyrir löngu skrifaði ég um 24 olíumálverk frá Íslandi sem Þjóðminjasafninu áskotnaðist árið 1928 úr dánarbúi dansks baróns. Þau eru nú geymd í Listasafni Íslands. Myndirnar áttu að sýna ýmsa staði á Ísland, en sýna miklu heldur ímyndunarafl listamannsins sem málaði myndirnar. Ég tel nokkuð víst, að Sæmundur Hólm (1749-1821) hafi verið höfundur myndanna og að hanni hafi selt þær Otto Thott greifa. Færði ég fyrir því ýmis rök (sjá hér og hér).

Otto Thott greifi skildi eftir sig meira sem Sæmundur hafði gert og selt honum. Greifinn hefur ugglaust verið velunnari margra stúdenta á listaakademíunni í Kaupmannahöfn, en þar var Sæmundur fyrsti Íslendingurinn sem stundaði nám. Otto Thott var líka mikill bóka og handritasafnari og safnaði m.a. ritum upplýsingaaldar. Eftir hann liggur eitt merkilegasta safn pólitískra ritlinga á franska tungu, sem margir hverjir varðveittust í Danmörku en ekki í ringulreið byltingar í Frakklandi fallaxarinnar. Thott greifi var afar upplýstur maður. Hann safnaði sömuleiðis bókum og ritum um alls kyns atvinnubætur og nýjungar í anda upplýsingaaldarinnar. Hann unni sömuleiðis mjög myndlist og fornum fræðum, þó svo að hann hefði ekki hundsvit á þeim efnum. Í höll Thotts á Gavnø á Suður-Sjálandi hangir fjöldi málverka af þekktum persónum sögunnar. Myndirnar eru greinilega málaðar eftir prentmyndum og koparristum. Gæðin eru ekki mikil og það læðist að manni sá grunur að Thott greifi hafi látið mála þessar myndir fyrir sig á akademíunni. Vel get ég ímyndað mér að Sæmundir ætti þar einhver verkanna.

Machina Sæmundar Hólm

Sæmundi var meira til listanna lagt. Hann úthugsaði líka vélar, Machinu, til fisk og selveiða. Hann settist niður og handritaði lítinn ritling á kynvilltri dönsku og myndskreytti, þar sem hann lýsti tillögum sínum að veiðiaðferðum á fiski og selum sem honum hafði dottið í hug. Ritlinginn kallaði hann Nogle Tanker om Fiske og Laxe Fangsten.

Ég tel næsta víst að verkið Traité général des pesches, et histoire des poissons qu'elles fournissent  (Almennar frásögur af fiskveiðum, og saga af fiski þeim sem þær færa) hafi haft einhver áhrif á Sæmund. Höfundar verksins voru Henri-Louis Duhamel du Monceau (1700-1782), sem var einn af risum upplýsingaaldarinnar í Frakklandi, og Jean-Louis De La Marre. Byrjað var að gefa út ritið, sem var í þremur bindum, í París árið 1769. Hér er hægt að fletta verkinu góða.

silungar.jpg
Teikning af laxfiskum í bók  Duhamel du Monceau og de la Marre

 

Ugglaust hefur þetta verk verið til í einkabókasafni Thotts greifa, og einn þeirra 120.000 titla sem eftir hans dag voru seldir hinu Konunglega Bókasafnsins. Eins tel ég nokkuð öruggt að Sæmundur hafi komist í þetta verk og hugsanlega hjá greifanum. Það var ekki langt að ganga frá Listaakademíunni yfir í Kaupmannahallarslot Thotts, sem kallað var Det Thottske Palae, sem á okkar tímum hýsir franska sendiráðið í Danmörku. Svo tilgátusmíðum og vangaveltum sé haldið fjálglega áfram, þykir mér allt eins líklegt að Sæmundur hafi, líkt og íslendinga er siður, sniglast í kringum fyrirmenn og fengið að skoða og lesa í þessu merka franska verki um fiskveiðar og fiskirækt.

Ljóst þykir mér af öllu, að Sæmundur hafi verið okkar fyrsti Georg gírlaus, en greinilega var hann einnig haldinn vægum átisma. Hann gat ekki lært dönsku sér til gagns, og latína var ekki hans sterka hlið ef dæma skal út frá fleygum orðum á latínu á forsíðunni. En hann sá hins vegar smáatriði í eldgosum og úthugsaði vélar í smáatriðum til að efla veiðar. Ekki ætla ég að dæma um notagildi fiskivélar Sæmundar, en skemmtileg er hugmyndin.

tabula_vii_skarp_c.jpg
 
tab_iii_karlar_1245452.jpg
Hugmyndir Sæmundar Hólm
 
part_2_section_2_plate_17_b.jpg
Úr bók  Duhamel du Monceau og de la Marre 
 

Hvort Sæmundur hefur hugsað sér ritkorn sitt til útgáfu, er ekki hægt að segja til um með vissu, en það þykir mér þó líklegt. Greinilegt er út frá lýsingum á staðháttum að Sæmundur hefur haft íslenskt umhverfi í huga, enda hvergi neitt landslag í núverandi Danmörku sem líkist því sem hann lýsir í ritlingnum. Handritið komst í safn Háskólabókavarðarins, guð og sagnfræðingsins Abrahams Kall, sem var einnig mikill safnari í samtíð sinni. Safn hans var síðar selt Konunglega bókasafninu. Handritið með þönkum Sæmundar um fisk og laxveiðar fékk handritaeinkennisstafina Kall 628 b 4to.

Hér skal ráðin bót á þekkingarleysi Íslendinga á þessu framtaki Sæmundar Hólm. Fornleifur gefur hér með út lýsingu Sæmundar Magnússonar Hólm á fiskveiðimaskínu hans. Bókina er ekki hægt að kaupa.

Hér er hægt að lesa ritling Sæmundar Hólms Nogle Tanker om Fiske og Laxe Fangsten og hér má betur skoða myndir ritlingsins.

Hér er síðan hægt að lesa afritun mína af af textanum í ritlingnum með myndum Sæmundar.


Eldgosamyndir Sæmundar Hólm

katla_naermynd_eldingar.jpg
 

Nú á tímum flýgur meistari Ómar Ragnarsson jafnan fyrstur yfir nýbrunnin hraun og landbrot og getur samtíminn lengi þakkað honum þau afrek, þótt sum þeirra jaðri jafnvel við lögbrot.

Á 18. öld var Sæmundur Magnússon Hólm, prestur, listamaður og altmúligmaður ein besta heimild okkar um eldsumbrot. Sæmundur var jafnvel svo góður, að han skrifaði bók, sem kom út á dönsku (Om Jord-Branden paa Island i Aaret 1783)  og þýsku  (Vom Erdbrande auf Island im Jahr 1783) um Skaftárelda, og það án þess að hafa séð eldana sjálfur. Reyndar var Sæmundur fæddur í Meðallandssveit og kannaðist því vel við alla staðhætti. Lýsingar hans á Skaftáreldum byggja þó eingöngu á rituðum frásögnum sem honum bárust til Kaupmannahafnar, þar sem hann dvaldist við nám á meðan á gosinu stóð.

Þótt áhugamenn um íslenska eldfjallasögu þekki flestir rit Sæmundar um Skaftáreldana 1783, þá kannast líklegast fæstir við litaðar pennateikningar hans af ýmsum íslenskum eldfjöllum og gosum þeirra. Sæmundur hófst greinilega allur á loft og teiknaði gos, sum hver sem hann hafði aldrei séð.  Hvað hefði þessi maður ekki getað gert hefði hann flogið FRÚ eins og Ómar. 

Myndir Sæmundar eru í dag geymdar á Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn og í fyrravor gerði í mér ferð á safnið til að skoða þær og fékk að ljósmynda án eldingarljósa. Nú á þessum síðustu gosvikum deili ég nokkrum af þessum lélegu ljósmyndum mínum með ykkur til að minnast meistara Sæmundar, sem var margt til lista lagt (eins og áður greinir; sjá hér og hér).

Af þessu má ef til vill sjá að Ármann Höskuldsson og  Magnús Tumi Guðmundsson komast ekki með tærnar þar sem Sæmundur hafði hælana. Sérhver öld rúmar nefnilega ekki marga háfleyga Íslendinga.

Efst er mynd af Kötlugjá svo af Heklu, Skaftáreldum, Trölladyngju og Súlu. Líklegt er að Sæmundur hafi séð gosið í Heklu árið 1766, þá sautján vetra, en 1755 var hann aðeins sex ára er Katla gaus, en hver veit, ef til vill hefur hann séð gosið. Takið eftir lýsingu hans á Kötlugosinu (efst). Jafnvel má sjá eldingar í gosmekkinum.

eldingar_yfir_eyjafjallajokli.jpg

Eldingar yfir Eyjafjallajökli

kotlugja.jpg
 

 

hekla.jpg
 
skaftarjokull.jpg
 
trolladyngja.jpg
 
sula.jpg

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband