Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018

Getur einhver lesið á japönsku kassana mína ?

Fig 1b
Ég segi eins oft og ég get:  Ég er með heppnari mönnum, og það er fyrst og fremst vegna betri helmingsins. Mín elskulega ektakvinna, hin síunga Irene, dekrar mjög við manninn sinn. Til að mynda nýlega, þegar hún gaf mér afmælisgjöf. Ég fékk gjöfina nokkrum vikum fyrir afmælið, alveg eins og í fyrra er hún bauð mér á eftirminnilega tónleika með Woody Allen og hljómsveit hans.

Í ár fékk ég hins vegar japanskan kassa fyrir afmælið mitt sem er 22. júlí ár hvert - en stundum skömmu áður eða í áföngum.

Eina sólríka helgi fyrir skömmu, (síðan hefur sólin brunnið á himninum hér í Danmörku), brugðum við okkur í stórbæinn og fórum meðal annars inn í litla verslun í Nágrannaleysu (Naboløs), sem selur verðandi japanska forngripi. Verslunin er rekin af nokkrum ungmennum á þrítugsaldri sem ferðast mikið til Japan vegna brennandi áhuga síns á landinu. Þar kaupa þau einnig góða gripi sem þau leggja örlítið á í Kaupmannahöfn og reyna svo að lifa af því sem þau þéna með námi eða til að greiða fyrir frekari ferðir til Japans. Mig grunar þó að þau hafi aðgang að búðarrýminu fyrir lítið, þar sem verslunin er á afar góðum stað.

Kona mín sá strax að ég slefaði eins og krakki yfir bambuskassa einum í búðinni sem og loki af minni kassa. Þetta var eini slíki gripurinn í versluninni. Kassinn og lokið eru frá byrjun 20. aldar og bera áletranir ritaðar með japönsku tússi. Ég keypti mér lokið fyrir lítið. Konan mín sá líka að mér langaði óhemjumikið í kassann  svo hún keypti hann sísona og gaf mér í fyrirframafmælisgjöf.

Kassar sem notaðir voru fyrir postulín eða lakkvörur

Kassar sem þessir voru jafnan smíðaðir úr bambus utan um dýrmætan varning svo sem postulín eða lakkvöru, þegar slíkir eðalgripir voru seldur á fyrri öldum. Konan mín, sem lagði stund á japönsku með námi sínu í stjórnmálafræði í Árósi á síðustu öld, gat ekki lesið áletrunina á kössunum. Hún sá strax að þetta var að miklu leyti skrifað með kínverskum táknum sem kallast kanji.

Fig 3 b

Mynd II

Fig 4 b Mynd III


Ég spurði þá verslunareigendurna sem voru til staðar, hvort þau gætu lesið japönsku, en það gerði aðeins ein þeirra, sem er hálfur Japani. Hún gat hins vegar heldur ekki lesið  áletrunina. Hún tók þá myndir og sendi föður sínum, sem er japanskur, og hann varð líka að gefast upp, en upplýsti að þetta væri gömul japanska frá því yfir leturbreytingu á 20. öld. Þegar hætt var að nota ýmsa kínverska bókstafi og hljóðkerfi annarra stafa breyttist alfarið. Í dag er þessi japanska ekki kennd nema í háskólum, og afar fáir geta lesið texta með kínverskum táknum og gamla hljóðkerfinu.

Ég hafði þá samband við Toshiki Toma prest innflytjenda á Íslandi, og síðar prófessor einn í Kaupmannahöfn, en báða skorti aldur og þekkingu til að geta lesið þennan gamla kanji-texta. Til þess þarf maður víst helst að vera orðinn rúmlega 90 ára eða sérfræðingur. Ekki þýðir heldur að biðja Kínverja að lesa textann, því þó þeir þekki táknin, þýða þau og hljóða oft á tíðum allt öðruvísi á gamalli japönsku en á kínversku.

Í kassanum á myndinni efst voru japönsk dagblöð frá 3. áratug síðustu aldar. Það gæti vel gefið hugmynd um aldur kassans.

Geta lesendur hjálpað með ráðningu textans?

Fig 2

Mynd IV

Vera má að lesendur Fornleifs séu sleipir í japönsku og geti lesið fyrir mig hvað stendur á

(I)   kassanum (á myndinni efst),

(II)  innan á loki hans (mynd IV)

(III) báðum hliðum loksins af litla kassanum (myndir II og III)

Kassinn er listavel smíðaður og ekki er notaður einn einasti járnnagli. Hann er einnig mjög vel nothæfur. Ég nota hann eftir hreinsun og vöxun til að hylja snúrur og leiðslur sem hrynja í tugatali af tækjum sem á okkar tímum fylla öll skrifborð. Leiðslur frá tölvu, lömpum, hátölurum, hleðslutæki og skánskri myndavél, fara allar ofan í kassan og sem felur svarta spaghettíið sem lekur ofan af skrifborðinu mínu. Kassinn og áletranir hans sjást vel undir borðinu, en mig vantar enn skýringu á áletrunum til þess að vera alsæll. Ég tek fram að það stendur hvorki Honda, Toyota, Mishubishi, Nissan, Suzuki, Daihatsu eða Datsun á kassanum.

Þýðingarnar á áletrun kassanna minna þarf ég helst að fá ekki miklu síðar en á morgun, sem minnir mig á það hvernig vörumerkið Datsun varð til:

   Framleiðendum Datsun vantaði fangandi, erlent nafn á fyrstu bifreiðina sem þeir framleiddu. Þeir leituðu til helsta ráðgjafa um fangandi bílanöfn á sínum tíma. Hann bjó í New York, sem hét vitaskuld Cohen. Cohen spurði útsendara japanska bílframleiðandans hve fljótt þeir þyrfti að fá hið nýja nafn. "Aooh, Helst á morgun" sagði sá japanski. Cohen svaraði þá uppvægur á brooklensku "Dat soon?" Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti.


Catwalk með íslenska hundinn

Dorrit á Alþingi mynd Alþingis

Hin glæsilega, fyrrverandi forsetafrú bjargaði uppistandinu á Þingvöllum í gær. Að vanda kom Dorrit, sá og sigraði.

Hún  Dorrit fullkomnar nefnilega listina að vera alþýðleg. Hún gerði sér lítið fyrir, líkt og oft áður, og talaði við hinn almenna mann þegar hún var komin niður Almannagjá.  Hún fékk lánaðan íslenskan hund í sömu litum og hún sjálf og saman tóku Mússa og Seppi catwalk á Þingvöllum.

Að núverandi forsetfrú ólastaðri, þá sakna ég dálítið Dorritar. Hún var algjör hrádemantur. Það var svo gaman á Íslandi þegar hún var á Bessó.

Ég þakka skrifstofu Alþingis fyrir að birta þessa mynd, sem er frábær. Loks hafa menn þar á bæ lært að taka almennilegar ljósmyndir. Ég þakka fyrir hönd pöpulsins sem fylgdist með úr fjarska.

... og Pía hvað...


Out of Africa - or Eurasia

Homo-erectus-702x336

Hér fer Fornleifur mjög langt aftur í tímavél sinni til að kynna niðurstöðu íslensk vísindamanns í Lundi. Eldra getur það vart orðið. Þetta er jafnvel óþægilega fornt fyrir Fornleif, þó hann kalli ekki allt ömmu sína í forneskjunni.

Haldið skal aftur til þess tíma er sum okkar urðum eldklár og þenkjandi: sapiens sapiens, meðan aðrir héldu áfram að vera bara sapiens, og jafnvel hálfgerðir imbecilles, eða imbar og "silly".

Laglegi pilturinn, á myndinni hér fyrir ofan, er ekki mjög ósvipaður sumum af þeim knattspyrnuhetjum sem berjast í Rússlandi þessa dagana. Þá er ég ekki að velta fyrir mér hve útiteknir þeir eru (litinn þori ég ekki einu sinni að nefna). Þessi kappi, sem var ekki hávaxnari en 12 ára íslenskur krakki, er framkallaður á grundvelli hauskúpu sem er um tveggja milljón ára gömul og sýnir Homo erectus, forföður þeirra mannskepna, sem brugðu undir sig betri fætinum fyrir ca. 2 milljónum árum síðan: Þessi manntegund sem voru eðalmenni frá Afríku sem gengu upprétt, tók meðvitaða ákvörðun eins og Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur myndi kalla það. Þeir höfðu slitið barnsskónum í nokkur milljóna ára áður en þeir héldu í mikla langferð norður á bóginn. Ekki miklu síðar en fyrir um það bil 1,8 milljónum árum, var erectus-ættin búin að dreifa sér um það sem síðar var kallað Evrópa og Asía.

homo-sapiens

Homo Sapiens Sapiens, þrútinn um augun af allt of miklum hugsunum og ákvörðunartökum

Karlinn hér fyrir ofan var hins vega yngri og var hann nokkuð glúrnari en forfeður hans sem flykktust norður á bóginn. Hann er afkomandi þess á efri myndinni. Þessi mynd er gerð eftir beinaleifum manns sem mun hafa verið uppi fyrir um 150.000 árum síðan; Og nokkurn veginn þannig litu fyrstu forfeður okkar einnig út, þegar við af tegundinni homo sapiens sapiens byrjuðum að greinast að fullu frá Homo sapiens Neanderthalensis, fyrir meira en 500.000 árum síðan, einhvers staðar í Evrasíu.

Íslenskur vísindamaður, Úlfur Árnason, prófessor emerítus í sameindarþróunarfræði í Lundi, greindi frá þeim skilnaði fyrir tveimur ári síðan í áhugaverðri grein tímaritinu Gene, á mjög sannfærandi hátt. En fyrst fyrir 150.000 árum, eða þar um bil (þetta er ekki svo nöje), hafi homo sapiens sapiens snúið til Afríku frá Evrasíu. Þannig að skilja, að fyrstu viti bornu mannverurnar sem bjuggu í Afríku komu frá Evrópu og Asíu. 

Þetta eru ugglaust ekki allir eftir að éta hrátt og eins hratt og niðurstöður í þróunarfræði mannsins og erfðafræði breytast, gæti sú kenning þegar verið orðin úreld án þess að ég vissi það - en ég hef ekki haft spurnir af neinu nýrra. 

En ef fyrstu fullvita Afríkumennirnir voru "Evrópumenn" (frá svæðum núverandi ESB) eða "Asíubúar", mætti til gamans segja í anda ESB-keisarans Merkels, að þeir Afríkumenn sem nú leita til Evrópu í miklum mæli, sér og sínum til þæginda, séu bara að snúa aftur til síns heima. Tyggið á því, sem haldið í hreinum nasisma ykkar að Íslendingar séu óflekkuð "þjóð" (sjá t.d. þetta rugl). 

Ég heyrði fyrst um fræðileg afrek Úlfs Árnasonar frá uppeldisföður hans Gils Guðmundssyni, sem ég hitti oftar en einu sinni í flugvélum á leið til Íslands á 9. áratugi og ræddi við hann á Kastrup flugvelli. Þá var Úlfur Árnason að vinna við erfðafræði hvala, þar sem hann hefur unnið mikið og þarft starf.

Mér þykir grein Úlfs Árnasonar, Out of Africa hypothesis and the ancestry of recent humans: Cherchez la femme (et l´homme) (sjá einnig þessa frásögn í öðru riti) mun merkilegri en það sem Íslensk Erfðagreining er að gera; T.d. það skemmdaverk að þeir fengu að  bora í tennur 97 íslenskra kumlverja sem hvíla á Þjóðminjasafninu og raðgreina efnið úr tanntökunni til að fá tölfræðilega óhaldbæra niðurstöðu sem ekki segir neitt marktækt (sjá hér), um leið og eldri rannsóknir með öðrum aðferðum sem ekki reiða sig á hið heilaga efni DNA, sameindina Deoxyribonukleinsýru, er hunsaðar.

Jú, það urðu greinilega ekki allir sapiens sapiens í einum grænum hvelli. Stundum held ég að langt sé í að allir nútímamenn geti státað sig af þessu tegundaheiti, t.d. ekki forseti Bandaríkjanna, en í honum held ég þó frekar að hafi orðið stökkbreyting, sem valdið hefur alvarlegri heilaskerðingu. Hugsið ykkur: Allt þetta erfiði við kynbætur í gegnum hundruð þúsundir ára til einskis.


Fornleifafundur sumarsins: Ævaforn skáti

Fundur sumarsins

Bjarni F. Einarsson leiðir nú keppnina um stærstu fornleifagúrku sumarsins. Hann fer líklega með sigur úr býtum þegar upp verður staðið í haust.

Hann hefur fundið hvorki meira né minna en fornan skáta. Geri aðrir betur. Skátinn "tók meðvitaða ákvörðun" um að setjast að á Íslandi.

Fornleifur sagði álit sitt varðandi fornleifar að Stöð í Stöðvarfirði í fyrra, sem og kenningasmíð dr. Bjarna. Það álit hefur ekkert breyst.

Við þökkum Fréttablaðinu þessa smellnu fyrirsögn.

Tómar dósir


Brjánslækjarkonur ota sínum tota

Valgerður Briem NM Kobenhavn 3
Ég er farin að halda að kvenleggur Briemsættarinnar (borið fram Brím en ekki Breim) sé sérstaklega lagið við að ota sínum tota.

Fornleifur greindi fyrr á árinu frá Ingibjörgu Briem, sem komst í franska upptöku, þ.e.a.s hún varð fyrst Íslendinga til þess að komast á hljómplötu og þar með að eilífa undurfagra rödd sína. 

Frummóðir Briemsættar, frú Valgerður Briem á Grund í Eyjafirði, kona Gunnlaugs sýslumanns Guðbrandssonar Briem frá Brjánslæk í Barðastrandasýslu (Briem er, af því er sagt er, afbökun á Brjánslæk) ættföður Briemsættgarðsins valdamikla.

Valgerður sem fæddist árið 1779 er talin vera sá Íslendingur sem fæddist fyrst allra þeirra sem ljósmynd var tekin af á Íslandi. Því hélt Mogginn fram er Þjóðminjasafnið opnaði eftir breytingar hér um árið og birti ljósmynd af Valgerði. Og ekki lýgur Mogginn. Er safnið opnaði aftur eftir dýrar endurbætur "breyttist allt" nema þjóðminjavörður, því miður, en ekki ætla ég að daga upplýsingar Þjóðminjasafnsins um Valgerði í efa án rökstuðnings. 

Ljósmyndina af henni sem Morgunblaðið birti, var sögð vera tekin af barnabarni hennar, Trggva Gunnarssyni trésmiði, sem síðar gerðist bankastjóri (f. 1835). Tryggvi var í minni æsku betur þekktur sem "hundraðkallinn". Þessi ljósmynd af frú Valgerði mun þó ekki vera á meðal elstu ljósmynda af Íslendingi, heldur er því haldið fram að hún sé af þeim Íslendingi sem fæddist fyrst þeirra sem ljósmyndir voru fyrst teknar af.  Ljósmyndin á enduropnunarsýningu Þjóðminjasafnsins, sem Morgunblaðið upplýsti að væri tekin af Tryggva Gunnarssyni, hlýtur þá að vera frá því fyrir 1872, en það ár andaðist Valgerður Briem. 

Akne Hustergaard ??

Sama mynd og sýnd var á Þjóðminjasafninu eftir viðgerð þess, er til á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (sjá hér og efst). Á síðastnefnda staðnum standa menn algjörlega á gati hvað varðar módelið. Í skráningu á myndinni er því haldi fram að þarna sér komin "Akne Hustergaard". Já ég sel það ekki dýrara en ég keypti.

Akne Hustergaard er vitaskuld einhver furðuleg afskræmin eða mislestur illa menntaðs safnafólks í Kaupmannahöfn. Það er víðar til en í Reykjavík. Gæti verið að það standi Høstergaard?  Myndin í Höfn er úr safni Íslandsvinarins Daniels Bruuns, sem ferðaðist mikið um Ísland og skrifaði merkar bækur um þær ferðir. Þjóðminjasafn Dana telur þá mynd af Valgerði vera tekna af Bruun. En það getur vart  verið, því hann hafði ekki enn komið til Íslands fyrir 1872 er Valgerður deyr. En ef myndin er tekin af Bruun, þá er þetta allt önnur kona en Valgerður Briem.

Málið er greinilega flókið. Tryggvi lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn. Þaðan sneri hann ekki aftur frá Danmörku og Noregi fyrr en 1865. Þá var Valgerður amma hans á níræðisaldri. Hann gæti því vel hafa tekið myndina.  En ef Daniel Bruun hefur tekið myndina, þá er konan greinlega ekki frú Valgerður Briem.

Valgerður Briem Umbreytt Minjasafn Akureyrar
Til er önnur ljósmynd (greinilega prentmynd frá 20. öld) af Valgerði í Minjasafninu á Akureyri (sjá hér). Á þeirri mynd sýnist hún miklu yngri. En næsta víst tel ég að sú mynd sé retúsering af ljósmyndinni sem fyrr var rædd. Myndinni hefur verið breytt af ljósmyndara, þannig að gamla konan liti yngri út að árum. En þetta er samt sama ljósmyndin að mínum dómi. Módelinu hefur ekki verið gerður greiði með því að yngja hana upp.

Eiríkur BriemÞað sem ég trúi því að hvorug ljósmyndin sé af Valgerði Eiríksdóttur Briem, læt mér detta í hug að konan á myndinni sé móðir Tryggva Gunnarssonar. Hún hét Jóhanna Gunnlaugsdóttir Briem (1813-1878). Mér er þó reyndar einnig ófært að sjá að Eiríkur Briem (1811-1894; Sjá mynd til vinstri), sonur Valgerðar og Gunnlaugs, geti hafa verið sonur konunnar á myndunum sem taldar eru vera af Valgerði. Ef svo er, þá hefur eiginmaður hennar, Gunnlaugur Guðbrandsson frá Brjánslæk, sá er tók sér nafnið Briem, verið mun snoppufríðari en stórskorin kona hans. En nú má ekki gleyma að önnur myndin af henni er umbreytt. Þar hefur ljósmyndarinn ekki gert gömlu konuna fríðari.

Látum meistara Dylan ljúka þessari ljósmyndakrufningu Fornleifs með laginu Girl from the North Country sem hann syngur í gegnum nefið með Johnny Cash, þó að Brownsville Girl hafi einnig verið viðeigandi. Í Brownsville Girl hlýtur Dylan að vera að syngja um stúlku af Briemsætt. Brjánslækur og Brownsville eru ekki ósvipuð örnefni. Cash kemur þessu hins vegar ekkert við, nema að því leyti að Briemsættin hefur ávallt átt nóg af því og því mikið látið með þetta fólk, langt fram um efni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband