Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

Sofie með örið

img_6429_detail2

Lesendur Fornleifs tóku ef til vill eftir greinaröð sem hér birtist um fyrstu Íslandsmyndirnar sem sýndar voru með Laterna Magica ljóskösturum. Myndirnar eru í dag afar sjaldgæfar og sjaldséðar. Ef þið hafið ekki lesið um þessar myndir, hafið þið vissulega misst af stórviðburði. Nú vill svo vel til að Fornleifur selur ekki dýrt inn á almennings-fræðsluverkefni sín, enda drifinn áfram af þeirri hugsjón að ef eitthvað er að gefa skal því miðlað til allra sem vilja heyra og sjá. Hér getið þið lesið allar greinarnar um Íslandsseríu Riley bræðra frá ca. 1883.

Menn í skyggnumyndaiðnaði 19. aldar höfðu ekki aðeins áhuga á Íslandi. Grænland og íbúar þess voru einnig í uppáhaldi þegar Englendingar létu heillast af myndafræðslu áður en kvikmyndirnar komu til að vera.

Fyrr í ár keypti Fornleifur myndir úr annarri af skyggnumyndum frá 1889/90, sem eru álíka sjaldgæfar og myndirnar frá Íslandi. Þær eru allar handlitaðar. Nú rita ég grein fyrir tímarit í Danmörku um þessar myndir mínar sem voru öllu dýrari að eignast en myndirnar frá Íslandi – en að sama skapi áhugaverðari. Myndirnar eru  handlitaðar eftir leiðbeiningum frá þeim sem tóku myndirnar og hafa því verið framleiddar árið 1890 eða skömmu síðar.

Hér fá lesendur Fornleifs sýnishorn áður en myndirnar í hans eigu birtast erlendis. Myndin efst var tekin í Upernavik snemma í júnímánuði árið 1889. Með hjálp dagbókar leiðangursmanna þeirra sem tóku þessa og aðrar myndir á Grænlandi árið 1889 hef ég dundað mér við að komast að því hvað fólkið á myndunum heitir og leita annarra upplýsinga. Það hefur tekist vonum framar, því flestar kirkjubækur Grænlands eru á netinu og önnur þekkt ljósmyndasöfn frá Grænlandi eru betur aðgengileg en svipuð söfn á Íslandi.

Örið á augnbrúninni gefur vísbendingu

Fjórar fríðar heimasætur sátu fyrir í Upernavik árið 1889 í sínu fínasta pússi. Stúlkan sem sat fremst hét Sofie (f. 1876; Fullt nafn: Olava Sofie Emma Kleemann). Var hún dóttir þýsks manns sem settist að á Grænlandi og sem kvæntist hálfgrænlenskri konu, Agathe Willumsen. Ferðalangar þeir sem tóku myndina vissu ekki

Sofie og arret 2

Sofie Kleemann, síðar Karlsen, frá Upernavik í byrjun júní 1889. Ljósmynd í eigu Fornleifs.

hvað stúlkan hét. En það get get ég nú sagt með vissu vegna tveggja annarra mynda sem þekktar eru af henni. Ein var tekin af henni, foreldrum hennar og yngri systkinum af Dana sem hét Carl Hartvig Ryder árið 1887, en hin var tekin árið 1956 er hún var öldruð kona (80 ára) og orðin blind. Örið á hægri augnbrúninni hefur Sofie fengið á unga aldri. Það sést greinilega á glerskyggnunni frá 1889, og það er enn yfir auganu á myndinni frá 1956. Ljósmyndafornleifafræði getur verið skemmtileg grein.

Sofie 3

Sofie Karlsen í Upernavik árið 1956. Ljósmynd Jette Bang.

Arktisk Institut, Kaupmannahöfn.

 

Kleemann familie Upernavik

Sofie Kleemann lengst til hægri ásamt foreldrum sínum Heinrich og Agathe og yngri systkinum. Ljósmynd Carl Hartvig Ryder 1887.

Þakkað með handabandi

Leiðangursmenn, sem tóku myndir á Grænlandi árið 1889, höfðu verið á Íslandi árið 1887. Þar höfðu þeir einnig tekið ljósmyndir, sem enduðu hins vegar ekki sem myndir í skyggnuseríum. Búið var að framleiða slíka röð eins og ofar greinir. Leiðangursmenn höfðu búnað um borð á skipum sínum til að framkalla og sýna fólki myndir af því meðan það beið. Það gerðu þeir einnig á Grænlandi og greindu svo frá er þeir voru á verstöðinni og verslunarstaðnum í Nugssuak yst á samnefndu nesi norðan Discoeyju:

I photographed the Governor, his wife, and the chief Esquimaux, a fine looking fellow. I presented each with a copy, and here as in Iceland, I noticed that on receipt of a present the recipient shakes hands with the donor.


Ísland brýtur gegn Kúrdum í nauð

Sabre family

Ég hef sent þetta erindi til Sigríðar Á Andersen og afrit til ráðuneytis hennar og útlendingastofnunar. Ég hvet lesendur Fornleifs að skrifa eða hringja og biðja ráðherrann að snúa við ákvörðun um að reka úr landi kúrdíska fjölskyldu. Þið getið ritað til þessara aðila,

Útlendingastofnun 4440900 - email utl@utl.is .
Dómsmálaráðuneyti 5459000 postur@dmr.is.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, saa@althingi.is or

Sjá frekar hér:

Sigríður Á. Andersen

Dómsmálaráðherra

Erindi varðandi fyrirhugaða brottvísun Sabre fjölskyldunnar 17. júlí 2017

Virðulegi dómsmálaráðherra

Ég frétti af því að nú hefðu íslensk yfirvöld ákveðið að vísa úr landi fjórum Kúrdum, Fjölskyldunni Sabre, hjónum komnum yfir miðjan aldur og tveimur dætrum þeirra sem eru 17 og 20 ára.

Um leið og ég minni á að Kúrdar eru ofsótt þjóð, m.a. af Tyrklandi, fasistaríki undir harðri stjórn Receps Erdogans, sem Ísland er í mjög góðri samvinnu við í t.d. NATO, langar mig að láta í ljós þá skoðun mína í ljós að þessi brottvísun Sabre hjónanna og dætra þeirra er fyrir mig að sjá óeðlilega grimm og ómannúðleg aðgerð og minnir á brottvísanir gyðinga frá Íslandi í lok 4. áratugar 20. aldar. Um þær aðgerðir forvera þinna í Dómsmálaráðuneytinu hef ég m.a. skrifað um í bók minni Medaljens Bagside sem olli því árið 2005 að þáverandi forsætisráðherra Dana og síðar framkvæmdastjóri NATO, Anders Fogh Rasmussen, baðst afsökunar á aðgerðum fyrri ríkistjórna í Danmörku gagnvart gyðingum og öðrum sem vísað var frá Danmörku af dönskum yfirvöldum á tímabilinu 1936-1943.

Ég vona að þú hafir það náðugt í kvöld með fjölskyldu þinni og verðir ekki ein af þessum ráðherrum sem einhver þarf að biðjast afsökunar fyrir eftir nokkra áratugi, þegar upp rennur fyrir arftökum þínum í embætti að þú og ráðuneyti þitt komuð ekki í veg fyrir reginskyssu í meðferð kúrdískra flóttamanna sem leituðu ásjár hjá Íslendingum. Kúrdar eru ofsóttir af mörgum öfgafullum ríkjum og hópum í Miðausturlöndum, sem ekki virða lágmarksmannréttindi. Það er því afar sorglegt að sjá að þú og ríkisstjórn þín verðið völd að brottvísun kúrdískra flóttamanna um leið og Ísland er í stjórnmálasambandi við suma af verstu ofsækjendum Kúrda. Það er ámælisvert og verður að koma til kasta alþjóðlegra stofnanna, ef íslensk yfirvöld sjá ekki neina galla í slíkum tvískinnungi.

Bestu kveðjur,

Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
 
----
 
assadasaassadcanbe
 
Á þetta að verða þekktasta aðgerð íslensks utanríkisráðherra? Þarna var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að reyna að koma Íslandi í Öryggisráð SÞ til að geta gerst helsti stuðningsmaður hryðjuverkasamtaka. Til þess taldi hún hentugt að ræða við einn helsta ofsækjanda Kúrda.

Woody og ég á Amákri

Fornleifur og Woody Allen eru samanlagt langt yfir íslenskum fornleifaaldri. Friðaðir og friðlýstir og náttúruminjar að auki. Þess vegna tel ég mig hafa ærna ástæðu til að blogga um Woody. Hér verður þó ekkert ritað um Rosemary´s Baby eða annað sem gleður Íslendinga sem vilja drepa fólk sem þegar hefur verið dæmt eða hefur verið borið er ósönnuðum ásökunum. Leggist út í rennusteininn eða syndið í Skituvík Dr. Dags til að leita frétta af slíku. Þið munuð örugglega finna blóðugt bindi eða skitið blað við ykkar hæfi.

IMG_8160 bFoto. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2017.

Ég var svo heppinn hér um daginn að hljóta bestu afmælisgjöf sem ég hef fengið í langan tíma og það fyrirfram. Kona mín bauð mér fyrr í vikunni á tónleika með Woody Allen og Eddy Davis New Orleans Jazz Band. Hún hafði keypt sæti á besta stað í Amager Bio, þar sem Woody og félagar léku á Jazzhátíðinni í Kaupmannahöfn.

Woody and band

Foto. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Tónleikarnir voru frábærir, ég var í sæluvímu í að minnsta kosti tvo daga eftir tónleikana, og eins og ég skrifaði á FB mína: What an evening! Finally, I discovered that Woody is taller than I thought. He might not play like Benny Goodman, and even at times he plays like Elmer Fudd on the goose flute. But what a night. The guys in the band gave Jazz relief. They love what they are doing and everyone loves them. This was the best Birthday present (in advance) in ages. Kiss mmmah Irene.

Já maður verður svo sentímental þegar árin líða. Þið þekkið þetta. Hér deili ég með ykkur sneið af afmæliskökunni minni, fyrirfram (ég er alltaf að heiman á deginum) og nokkrar myndir sem ég tók á tónleikunum. 

Ég gat því miður ekki spurt Woody, hvort hann myndi taka upp næstu mynd sína á Íslandi … en ég tel það mjög sennilegt. Titillinn verður A Summer in Shitvik.


Dysnes, Dalvík og Dys

DMR-160516 2

Mjög ánægjulegt var í sl. mánuði að fylgjast í fréttum með rannsókn á kumlateignum við Dysnes í Eyjafirði. Það er enn án nokkurs vafa fundur sumarsins og skákar hann útstöðinni sem byggð hefur verið fyrir landnám í höfði dr. Bjarna F. Einarssonar.  Á Dysnesi voru rannsökuð bátskuml, því þar vilja hugaróramenn sem dreymir vota drauma um heimshitnun reisa alþjóðlega höfn þar sem Eyfirðingar geta gerst auðmjúkir þjónar þeirra sem sigla um ísfrí norðurhöf framtíðarinnar.

DMR-164262 2

Þótt fréttir væru fullar af kjaftæði, t.d þess hljóðandi að Dysnes væri eins og allir aðrir minjastaðir við ströndina, að fara á kaf eða brotna í sjó fram af öldugangi, er ljóst að þessi staður var alls ekki í neinni hættu af náttúrunnar völdum.

Eina hættan sem steðjaði að honum, áður en fornleifafræðingar fundu kumlateiginn, var græðgi manna sem sjá gull og græna skóga í hafnarstæði sem mun endanlega gera út af við allt líf í Eyjafirði.

Fréttinni af kumlunum sem voru í hættu var svarað fjálglega af pólitískum amlóða úr vinstrigrænum sem hrópaði í fjölmiðlum að fornleifafræðinga (les: sjálfseignar- og einkafyrirtækið Fornleifastofnun Íslands) vantaði 300.000.000 króna til að skrá allar strandminjar á Íslandi. Menn komast greinilega í einhverja vímu á sumrin. Ungstalínistinn úr VG, sem hefur látið sig heillast af fornleifabissness, vill láta ríkið gefa prívatfyrirtæki úti í bæ skitnar 300.000.000 til að hægt verði að reisa fullt af höfnum við heimskautabaug án þess að rekast á fornleifar. Já, þegar RÚV flytur aðeins fréttir af Pútín, Trump og örfáum gargandi vitlausum múslímum í gúrkutíðinni, kæta fornleifafræðingar fréttastofurblækur með hverri sensasjóninni á fætur annarri.

Kumblin á Dysnesi eru reyndar hinar áhugaverðustu fornleifar og verður spennandi að bíða þess hvað fæst úr frekari rannsókn á bátskumlunum, sem í æsingi leiksins urðu að skipakumblum hjá blaðamannasauðunum syðra. Kumlin minna mjög á kuml frá 9. og 10. öld í Norður Noregi, og á skosku eyjunum sem og í Sebbersund við Limafjörð í Danmörku.

DB83vLMXgAEZVVp

Ég skoðaði fallegar uppgraftarmyndir frá rannsókninni á Twitter-síðu Hildar Gestsdóttur sem ber sama nafn og varða ein forn sem vísaði mönnum leið yfir hálendið fyrir langalöngu. Beinakerling heitir síða nútímafornleifafræðingsins Hildar, og vísar víst til kunnáttu hennar í sjúkleika beina, en forðum bar varðan Beinakerling annað nafn sem var anus (í kvenkyns beygingu). Mig klæjaði í fingurna þegar ég sá myndirnar á anusi Hildar og gladdist yfir því hve miklu betur Hildur grefur en afi hennar hann Gísli frá Hala gerði. Ég minntist einnig Dalvíkurkumlanna sem fundust ekki langt fjarri fyrir 108 árum síðan og voru rannsökuð af danska liðsforingjanum og landkönnuðinum Daniel Bruun.

DCTNsTcXcAELYwr

Myndin efst á þessu bloggi sýnir burstadreng Daniels Bruuns, líklega strák frá Dalvík, sem hefur fengið heiðurinn að vinna við merkan fornleifagröft. Hann komst þó aldrei í blöðin. Nú var Bruun ekki fornleifafræðingur en kunni samt dável til verka og árangurinn af því þekkjum við frá frábærum verkum hans um Ísland og Grænland, þó hann sé kannski nú orðið þekktastur fyrir rannsóknir sínar í Suður-Túnis.

Svo skemmtilega vildi til að meðan Dysnes var rannsakað af kollegum mínum, komst ég sjálfur í lok júní í návígi við dysjar á nesi litlu um klukkustundarakstur frá Reykjavík. Ég var á ferð með góðum vini, konu minni og syni. Nesið að arna heitir einfaldlega Dys.

IMG_7806 (2)

Dys

Mér sýndist ég sjá að minnsta kosti fjögur kuml á staðnum og sex ef ég væri haldin ótemjandi ímyndunarafli "fóstru grænlensku kvennanna á Skriðu". Er ekki tilvalið að byggja höfn þarna við nesið? Jafnvel fríhöfn þar sem það besta sem Íslendingar eiga: súkkulaðirúsínur, Tommaborgarar og SS-pylsur verða seldar á uppsprengdu verði og opnaður verður almennilegur unisex hórukassi, Fjallkonan Fríð, svo þeir sem sigla um brædda póla geti létt á þungri pyngju sinni, áður en þeir eygja uppsveitir Vladivostok, Ósaka eða Shanghæ, eftir að þau bæli hafa farið undir ímyndunarvatn, og halda því áfram sem fyrst og fremst hefur drifið farmenn til dáða í aldanna rás.


Dellufornleifafræði í tímaritinu Sögu

konan_a_klukkunni (2)

Fyrir tæplega tveimur árum var hér á Fornleifi gagnrýnd afar viðvaningsleg túlkun á merkum grip fornum, sem enn er notaður í Helgafellskirkju. Það er kirkjuklukka frá 16. öld (á klukkunni er steypt árið 1547), en gagnrýni mín var sett fram í tengslum við klausturverkefni undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur prófessors við HÍ. Sjá meira í grein minni frá 2015 sem ber heitið Klausturrannsóknin undir smásjá Fornleifs.

Ég sendi í ágúst 2015 Steinunni grein mína og álit á hlekk í tölvupósti, en setti einnig hlekkinn á smettiskruddu klausturverkefnisins sem kallast afar furðulegu nafni á ensku, Monasticism in Iceland.

Ég fékk því miður engin viðbrögð frá Steinunni, hvorki svör á blogginu ellegar á Facebook. Greinilega trúir Steinunn ruglinu í sjálfri sér líkt og svo oft áður, því hún endurtók villurnar í greinarstúfi sem nýverið gaf út ásamt Völu Gunnarsdóttur í tímaritinu Sögu (LV:2017). Þar er hvergi minnst á gangrýni mína á túlkun hennar (sem reyndar var upphaflega kölluð uppgötvun nemanda hennar Völu Gunnarsdóttur) á klukkunni í Helgafellskirkju, sem höfundarnir skilgreina sem bjöllu.

Kirkjuklukkan nú sögð spænsk og sýna heilaga Barböru

Steinunn heldur að lítil mynd sem á klukkunni er, sem hún hefur ákveðið að sé spænsk og það án nokkurra haldbærra raka, sýni tengsl við Katrínu af Aragóníu en að dýrlingurinn á myndinni sé heilög Barbara.

... en fyrst var það Katrín (Catalina) af Aragon

Steinunn Kristjánsdóttir hélt hins vegar eftirfarandi fram árið 2015 á FB klaustursverkefnisins, sem einnig var til vonar og vara sett á FB Þjóðminjasafnsins: 

Aftur á móti virðist sem að konan á myndinni eigi að vera Catherine af Aragon sem var drottning á Englandi árin 1509-1533. Hún var gift Henry VIII, en blómið á myndinni er merki Tudor ættarinnar - Tudor rósin. Það sem líkist ávexti er granateplið frá Granada og er það skjaldarmerki ættar Catherine. Catherine var mjög vinsæl drottning meðal almennings á Englandi og var heittrúaður kaþólikki. Hún sýndi trú sína vel þegar hún neitaði að skilja við Henry VIII þegar hann hafði hug á að giftast Anne Boyelin. Að lokum afneitaði Henry völdum páfans á Englandi og fékk hjónabandinu við Catherine lýst sem ógildu.

Katrín af Aragóníu hefur aldrei hlotið helgi. Konan á myndinni á bjöllunni gat því á engan hátt verið Katrín þó Steinunn héldi því fyrst fram. Það var ekki fyrr en 2011 að leikari og uppistandari í Georgíu í Bandaríkjunum hafði samband við erkibiskup bandarískan og stakk upp á því að Katrín af Aragóníu yrði tekin í dýrlinga tölu. Maðurinn, sem var atvinnulaus leikari, var greinilega að vekja athygli á sjálfum sér frekar en Katrínu (sjá hér). Katrín af Aragóníu hefur aldrei borið geislabaug á neinum myndum af henni. Það hefðu Steinunn og Vala geta gengið úr skugga um án þess að vera hið minnsta menntaðar í miðaldafornleifafræði.

Í greininni í Sögu LV -1 2017 hefur sagan hins vegar umbreyst og þróast örlítið í meðförum óvenjufrjós ímyndunarafls Steinunnar, því nú heldur Steinunn því fram að dýrlingurinn á myndinni sé engin önnur en heilög Barbara. En Steinunn gleymir því, þó hún hafi sjálf fundið hollenska Barbörumynd úr pípuleir í brotum á Skriðuklaustri, að heilög Barbara var iðulega sýnd með pálmagrein í hægri hendi. Það fer nú lítið fyrir henni á myndinni á bjöllunni frá Helgafelli. Hvað varð af pálmagreininni Steinunn?

Granateplið í tengslum við Katrínu af Aragon.

Juan_de_Flandes_002

Höfundar greinarinnar um kirkjuklukkuna í Helgafellskirkju, Steinunn og Vala, héldu því upphaflega fram að granateplið sem sést á kirkjuklukkunni að Helgafelli sé hluti af ættarskildi ættar Katrínar. Enn er vaðið í villu. Þær gleyma einnig að nefna að Katrín var fyrst lofuð og gefin Artúri, bróður Hinriks VIII. Foreldrar Katrínar voru Ferdinand II af Aragoníu (Aragónía liggur á norðaustur-Spáni víðs fjarri Granada) og Ísabella (Elísabet 1) af Castillíu.

Eftir að herir þeirra hjóna höfðu endanlega ráðið niðurlögum á veldi Nasrid konunganna múslímsku (Imarat Gharnatah í Al-Andaluz sem stofnað var 1230 e.Kr.), tóku hjónin sér af og til búsetu í höllinni Alhambra.

Nafn borgarinnar og héraðsins umhverfis var ekki Granada á tímum Nasrid ættarinnar - heldur Gárnata (Karnatha) sem þýðir hæð útlendinganna á arabísku og vísar til þess að gyðingar, sem fyrir múslímunum voru ávallt útlendingar og óæðri músílmönum, bjuggu í miklum mæli á þeirri hæð sem borgríkið fær nafn sitt af. Borgin var reyndar einnig nefnd Gárnata al-Yahud á arabísku. Gyðingar í Granada, sem síðar flýðu í miklum mæli undan Ferdínandi og Ísabellu, m.a. til Portúgals og síðar til Hollands, voru rétt mátulega þolaðir af múslímum, því þekking þeirra, lærdómur og hagleikur kom sér vel fyrir hina múslímsku herfursta, sem keyptu sér það sem hugurinn girntist.

Granada var því aðeins hljóðmyndun af nafninu Gárnada. Ferdínand hinn kaþólski og Isabella spúsa hans, foreldrar Katrínu litlu og ófríðu, voru í furðu æðiskenndu gyðingahatri sínu eftir að múslímar höfðu verið hraktir á brott úr Gárnata. Þau hjónin gerði allt til að koma þeim í burtu og m.a. þess vegna varð Gárnata al-Yahud að Granada, fyrst og fremst með vísun til Maríu Meyjar og ávaxtar hennar Jesús, og táknaði granteplið la granada á trénu el granado, á myndmáli miðalda og endurreisnartímabilsins að María sé þunguð. Granateplið var einnig tákn eða allegoría fyrir kirkjuna sem safnar sama þeim sem trúa (með vísun til berjanna/fræjanna í fræbelgnum), og á síðmiðöldum er granateplið stundum sýnt í hendi Jesúbarnsins og táknar hið nýja líf sem fórnað er fyrir mannkynið. Hins vegar var granateplið aðeins lítill hluti af skjaldamerki ættar Katrínar árið 1492.

aragonhorenbout1

Katrín hljóp í spik sem hústrú Hinriks og fæddi honum engan karlkyns erfingja

Þess ber að geta að þegar Hinrik VIII var að reyna að losa sig við Katrínu, því hún gat ekki fætt honum annað en lífvana drengi og stúlkur en aðeins eina lifandi stúlku (Maríu). Karlstaulinn var einnig farinn að daðra við aðrar konur. Hann taldi að hjónabandið með Katrínu væri undir álögum og að bróðir hans Artúr hefði í raun átt samfarir við Katarínu og að hún hafi alls ekki verið hrein mey þegar Hinrik tók við henni og kvæntist.

Hinrik VIII leitaði m.a. ráða hjá sefardískum (spænskum) rabbínum búsettum í Modena á Ítalíu til að losast undan hjúskaparheitunum. Hann taldi gyðinga geta lagt til frumkristin rök fyrir því að hann fengi veittan skilnað. Í guðfræði Sefaradim-gyðinga var fjölkvæni leyft og skilnaður gerður auðveldari en hjá þýskum gyðingum. En hann gat ekki kallað til Englands gyðinga því þeir höfðu verið bannaðir þar í landi síðan 1290. Þess vegna lét hann kalla til Englands guðfræðing einn, kristnaðan gyðing Marco Raphael að nafni, til að færa sér þægileg rök úr lögmálið gyðinga. Hinrik útvegaði sér m.a. Talmúd til til að leita raka og vísdóms til að losa sig við Katrínu. Hann vissi greinilega hvað fór í taugarnar á Katrínu af Aragon og foreldrum hennar (sjá t.d. hér), sem voru meðal svæsnustu gyðingahatara, kaþólskra sem sögur fara af.

Ekki fór mikið fyrir granateplinu í skjaldamerki konungsættar spænsku. Faðir Ferdínands II var farin að kalla Granada hluta af spænska konungsríkinu árið 1475. En sigur þar var víst mest í munninum á kóngsa. Granateplið var þó ekki tekið upp sem merki Granada-ríkisins fyrr en eftir fullnaðarsigur sonarins yfir Nasrid konungunum. Þá var ávexti Maríu Meyjar, komið fyrir í skjaldamerki konungsættarinnar í mýflugumynd og reyndar fyrst á gullmynt, svo kölluðum exelentum /exelente de Granada), sem hafin var slátta á árið 1497. Hins vegar er það alrangt að granateplið hafi verið skjaldamerki ættar Katrínar líkt og Steinunn hélt upphaflega fram árið 2015.

2028605l

Granatepli á tveimur greinum var merki Granada eftir 1492 og sést fyrst neðst á hinum konunglega skildi á myntum frá 1497. Á Skjaldamerki Katrínar á Englandi, meðan að hún var drottning, fór sömuleiðis lítið fyrir granateplinu, sem upphaflega var kaþólskt tákn fyrir Jesús, barn Maríu meyjar.

2000px-Coat_of_Arms_of_Catherine_of_Aragon.svg

 

Myndin á Helgafellsklukkunni sýnir í raun Maríu mey

Ég taldi til margt í grein minni árið 2015 sem útilokar það algjörlega að konan á bjöllumyndinni sé Katrín af Aragon líkt og Steinunn hélt upphaflega fram. Það helsta er að konan á myndinni sem ég tel vera Maríu mey er með geislabaug. Hún er því helg kona. Rök mín fyrir því geta menn lesið í grein minni frá 2015, sem Steinunn afneitar. Ég tel einni ólíklegt að bjallan sýni heilaga Barböru.

En nú er Katrín, sem yfirmaður klaustursverkefnisins hélt upphaflega fram að væri á myndinni á klukkunni, orðin að Barböru í heimatilbúinni dýrlínatölu Steinunnar Kristjánsdóttur. Eitt af táknun (attribútum) Barböru er vissulega turn. Ef það er turn sem sést hægra megin við dýrlinginn en ekki gosbrunnurinn sem oft er sýndur á helgimyndum af hinum umlukta garði hortus conclusus, þá gleymir Steinunn því sem ég ritaði henni til hjálpar fyrir tveimur árum síðan: Táknrænn turn Davíðs konungs í Jerúsalem (Hebr. Mevo Dovid Melech) stendur einnig i hortus condlusus í miðaldamyndum af þessum forláta garði. Það er ekki bara Barbara sem sýnd er með turn. Stundum er turninn í garði Maríu sýndur sem gosbrunnur.

Áletrunin á bjöllunni H C sem Steinunn les sem H G stendur fyrir Hortus Conclusus (sjá grein mína frá 2015). En Steinunn telur það vera upphafsstafi klukkusteypumannsins - sem þá hefur kannski verið einhver Hector Gonzalez, því Steinunn hefur nú gert bjölluna spænska án nokkurra raka nema þeirra að ónafngreindur aðili á Englandi hafi haldið það.

Að bjallan sé spænsk eins og Steinunn lætur sér detta í hug í grein sinni í Sögu er út í hött. Íslendingar voru á engan hátt í verslunarsamböndum við Spánverja á 16. öld. Hlutir frá Spáni berast fyrst óbeint til Íslands á 17. öld. Ensk gæti bjallan verið, en engar hliðstæður eru til á Bretlandseyjum. Líklegast er að bjallan sé úr Niðurlöndum eða frá Þýskalandi, en ekki er hægt að útiloka Bretlandseyjar.

Í byrjun 16. aldar og um miðja öldinar voru majúsklar (stórir bókstafir á öllum bókstöfum orða í áletrunum (epigrafíu) aftur komnir í tísku. Bjallan var einmitt steypt á þeim tíma, árið 1547. Lag bjöllunnar minnir nokkuð á bjöllur frá því fyrir og um 1200. Slíkt lag kom aftur í tísku um tíma í Þýskalandi.

Í Þýskalandi hafði Lúther einnig gert bænina sem hefst á orðunum DA PACEM DOMINE IN DIEBVS NOSTRIS (sem er að finna á bjöllunni á Helgafelli) að sínum orðum og samdi m.a. sálm sem hann kallaði Verleih uns Frieden gnädiglich, sem byggir á þessari gömlu kaþólsku morgunbæn.

Tveir möguleikar eru hugsanlega fyrir því að prófessor við HÍ virði að vettugi athugasemdir frá kollega sem er sérmenntaður í kirkjufornleifafræði og miðaldafræðum, sem Steinunn er alls ekki.

Þeir eru að:

1) Steinunn hafi afhent Sögu greinarstúf sinn áður en að ég gagnrýndi skoðun hennar og sendi henni.

2) Hún virðir ekki þekkingu annarra og er enn á þeirri skoðun að hún hafi rétt fyrir sér um túlkun sína á kirkjuklukkunni á Helgafelli.

Það skiptir einu hvaða skýringu maður velur. Ritstjórn Sögu er til háborinnar skammar. Ritstjórarnir ættu að hafa fræðilegt bolmagn til að sjá að greinin inniheldur fjölmargar villur, vangaveltur og staðhæfingar í stað fræðilegra raka, og hefur greinin því takmarkað fræðilegt gildi. Ritstjórar eiga vitaskuld að kynna sér hvort aðrir hafi ritað um sama efni.

Tímaritið Saga virðist í einhverri fræðilegri lægð og getuleysinu er greinilega fagnað með því að setja greinarstúf með alvarlegum rangfærslum fremst í tímaritið og nota myndefnið fyrir greinina sem kápumynd. Myndin á kápunni er álíka óskýr og tilgátur Steinunnar. Ljósmyndirnar með greininni eru einnig í hræðilega bágum gæðum. Spyrja mætti, hvort að í tísku sé á Íslandi að hylla fáfræði og vitleysu, þar sem ógrunduð persónuleg skoðun háskólaprófessors með skáld í maganum sé meira virði en fræðileg rök undirbyggð með dæmum?

Höfundar greinarinnar í Sögu vitna í blogg á vefsíðu The Museum of London, þar sem Vala Gunnarsdóttir hefur sett inn fyrirspurn. Engin svör hafa borist Völu nema frá mér á þeirri síðu (Sjá hér).

Greinilegt er að mýtufornleifafræði á upp á pallborðið á Íslandi (sjá t.d. grein mína hér á undan um túlkun fornleifa í Stöðvarfirði). Það er líkast til tímanna tákn á Íslandi. Formóðir fílamannsins og fóstra eskimóakvennanna og annars rugls (sjá t.d. hér, hér, hér um alla tíð, hér, hér, hér og hér) hefur einnig hlotnast fálki með slaufu. Það er víst víðar verðbólga en í spilltum fjármálum Íslands eða ferðamannaplokkinu.

Leitið, og þér munuð finna...

Ef Steinunn Kristjánsdóttir hefði í raun og veru sökkt sér niður í fræðin í stað þess að vera á eintómu fjölmiðlatrippi með þvælukenndar tilgátur, hefði henni, fyrir ritun hneisulegrar greinar sinnar í Sögu, verið kunnugt um prýðisgóða fræðigrein eftir Hope Johnston:

CATHERINE OF ARAGON'S POMEGRANATE, REVISITED. Transactions of the Cambridge Bibliographical Society, Vol. 13, No. 2 (2005), pp. 153-173 (sjá  http://www.jstor.org/stable/41154945).

Þá hefði prófessorinn getgjarni vitað að rós og granatepli voru myndmál margs annars á 16. öld en hjónabands Arthúrs og Katrínar - eða síðar Hinriks og sömu Katrínar. Þessa grein ættu ritstjórar líka að hafa fundið og með henni getað bent Steinunni á villur hennar. Það fer greinilega lítið fyrir fræðilegri getu á Sögu. Kannski kannast ritstjórarnir ekki við Google?

2017-07-07 (1)

Við látum hér í lokin meistara Bob biðja fyrir okkur og hringja klukkum sínum fyrir fremsta grillufangara íslenskrar fornleifafræði. Henni er vitaskuld leyfilegt að svara fyrir sig. En hingað til hefur ekki verið neinn vilji hjá Steinunni að gera það nema þá á bak við tjöldin. Þögnin og yfirklór hefur hentað henni betur þegar yfirlýsingarnar í fjölmiðlunum reyndust vera dómadags rugl. En nú hefur hún hins vegar fengið tímabundið sérleyfi á ruglið í sér með grein í hinu virta tímariti Sögu. Það er allt annað og mun alvarlegra mál en að vera með delludreif í gúrkutíðinni á fjölmiðlum.

Bobbi á bjöllunni í Japan árið 1997. Þetta er einfaldlega ekki hægt að gagnrýna.

 

Sjá fyrri grein um efnið hér


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband