Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
Undarlegt efni
30.9.2011 | 05:44
Oft vakna fleiri spurningar við fornleifarannsóknir en þær mörgu sem fyrir voru.
Fornleifafræðingar geta alls ekki svarað öllum spurningum sjálfir, þótt stundum gæti svo virst í fljótu bragði. Þeir hafa aðra sérfræðingum sér til hjálpar, oft færa náttúruvísindamenn, sem ráða yfir tækjum og tækni sem fornleifafræðingar kunna ekkert á. Þetta þýðir þó ekki að fornleifafræðingar hafi, eða þurfi að hafa blinda trú á því sem tæki annarra fræðimanna segja. Tæki eru búin til og stjórnað af mönnum og tæki geta því gefið rangar niðurstöður. Errare machinam est.
Fornleifafræðingar standa oft frammi fyrir vandamálum vegna þess að náttúrvísindamenn líta á vandamál og lausnir á annan hátt en menn í hugvísindunum. Í náttúruvísundum eiga hlutirnir það til að vera ekki afstæðir fyrr en sýnt er fram á að tækin og tæknin dygðu ekki til. Tökum dæmi. Fornleifafræðingur fær gerða kolefnisaldursgreiningu sem sýnir niðurstöðuna 600 e. Kr. +/- 50 Hvað gera fornleifafræðingar ef slík niðurstaða fæst úr sama lagi og mynt sem er frá 1010 e. Kr. ? Tæki geta ekki alltaf svarað öllum spurningum, þó stundum gæti svo virst. Tæki eiga það líka til að skapa fleir spurningar en fyrir voru. Þannig eru vísindin. Þá leitum við lausna, eða sum okkar.
En hér ætlaði ég að segja frá rannsókn sem er "pottþétt", þótt gömul sé. Fyrsta náttúrvísindalega greiningin sem gerð var fyrir fornleifafræðina á Íslandi var gerð í Kaupmannahöfn árið 1886 af Vilhelm Storch forstöðumanni rannsóknarstofu í lanbúnaðarhægfræðilegum rannsóknum (Landøkonmiske Forsøg) við Konunglega Landbúnaðarháskólann á Friðriksbergi. Niðurstöðurnar birti hann fyrst í litlum bæklingi á dönsku, sem gefinn var út í Kaupmannahöfn af Hinu íslenzka Fornleifafélagi, sem bar heitið
Kemiske og Mikroskopiske Undersogelser af Et Ejendommeligt Stof, fundet ved Udgravninger, foretagne for det islandkse Oldsagssalskab (fornleifafélag) af Sigurd Vigfusson paa Bergthorshvol i Island, hvor ifølge den gamle Beretning om Njal, Hans Hustru og Hans Sønner indebrændtes Aar 1011.
Sigurður Vigfússon forstöðumaður Fornminjasafnsins, sem þá var á loftinu í Alþingishúsinu í Reykjavík, hafði samband við Vilhelm Ludvig Finsen í Kaupmannahöfn og sendi honum nokkur sýni af undarlegu efni, sem hann hafði grafið upp á Bergþórshvoli árið 1883 (sjá grein Sigurðar Vigfússonar). Þetta voru hnullungar af hvítu efni, frauðkenndu, sem Sigurður og aðrir töldu geta verið leifar af skyri Bergþóru. Vilhjálmur Ludvig Finsen (1823-1892) leitaði til nokkurra manna til að fá gerða efnagreiningu vísuðu allir á Vilhelm Storch, sem rannsakaði efnið mjög nákvæmlega og skrifaði afar lærða grein sem nú er hægt að lesa í fyrsta sinn í pdf-sniði hér. Greinin birtist einnig í íslenskri þýðingu í Árbók Fornleifafélagsins árið 1887, sjá hér.
Til að gera langt má stutt, þá var Storch mjög nákvæmur og varfærinn maður, sem velti öllum hlutum fyrir sér. Hann gaf engin ákveðin svör um hvort sýni 1 (sjá mynd) væri af skyri, en hin sýnin 2-4 taldi hann nær örugglega vera af osti. Storch fékk Vilhelm Finsen til að senda sér skyr frá Íslandi til að geta gert samanburð í efnagreiningunni. Storch gat með vissu sagt að leifar mjólkurleifanna frá Bergþórshvoli hefðu verið í tengslum við tré sem hafði brunnið, enda fann Sigurður Vigfússon efnið undir 2 álna lagi af ösku.
Sigurður Vigfússon (1828-1892) i kósakkafornmannabúning sínum
Samkvæmt Storch var það líklegast ostur Bergþóru og Njáls frekar en skyr, sem Sigurður Vigfússon gróf niður á árið 1883. Kannski skildi Storch þó ekki alveg framleiðslumáta skyrs, en skyr er í raun ferskur súrostur.
Gaman væri að fá gerða greiningu á efninu aftur, svo og aldursgreiningu. Það eru enn til leifar af því á Þjóðminjasafninu. Fornleifur vill vita hvor slett var skyri eða hvort það var ostur sem kraumaði undir brenndri þekju Bergþórshvols. Osturinn/skyrið gæt vel verið úr meintri Njálsbrennu árið 1011, þótt menn hafi lengi talið rústirnar þar sem rannsakaðar voru á 5. áratug síðustu aldar vera frá 11. eða 12. öld. Sjá grein Kristjáns Eldjárns og Gísla Gestssonar. Tvö sýni, eitt af koluðu birki sem kolefnisaldursgreint var í Kaupmannahöfn (K-580) og hitt af koluðu heyi og korni, sem aldursgreint var í Saskachewan (S-66), útiloka ekkert í þeim efnum, en aldursgreiningarnar voru reyndar gerðar í árdaga geislakolsaldurgreininga. Sjá hér.
Aðrir fræðingar velta svo fyrir sér öðru undarlegu efni og óefniskenndara í Njálu, eins og hvort Njáll hafi verið hommi, og er það af hinu besta. En ég tel þó að osturinn á Bergþórshváli hafi frekar lokkað að unga menn eins og Gunnar á Hlíðarenda, en vel girtur Njáll Þorgeirsson.
Er nema von að Gunnar á Hlíðarenda hafi verið eins og grár köttur á Bergþórshvoli, þegar nóg var þar til af ostinum? Hvállinn hefur líkast til verið Dominos Pizza síns tíma.
Fornleifafræði | Breytt 1.10.2011 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fiskur frá Íslandsmiðum í hollensku skipi ?
28.9.2011 | 05:11
Jólanótt árið 1593 sukku 24 skip í aftaka suðvestanstormi við strendur Hollands á grynningum alræmdu við eyjuna Texel. Talið er að um 1050 sjómenn hafi farist þessa nótt. Eitt af þeim skipum sem fórust í þessu mikla óveðri var rannsakað af fornleifafræðingum á árunum 1987-1997. Verkefnið er hluti af miklu stærra verkefni neðansjávarfornleifafræðinga hjá stofnun fyrir neðansjávarfornleifafræði (ROB/NISA, sem í dag er hluti af Rijksdienst voor het Cultureel Erfgoed) í Hollandi. Skipið sem hér greinir frá hefur fengið nafnið Scheurrak SO1. Það var stórt hollensk verslunarskip, 34 metrar að lengd og 8 metrar breytt. Skipið var byggt eftir 1571 samkvæmt trjáhringaaldursgreiningu.
Lestar skipsins voru fullar af korni frá Eystrasaltslöndum er það sökk, en einnig fundust í skipinu níu tunnur á efstu lest og þremur þeirra voru miklar leifar af fiski. Fiskur þessi hefur verið rannsakaður og er líklegt að þetta hafi verið skreið sem veidd og unnin í norðurhöfum og þá líklega við Íslandsstrendur.
Skreið
Fornvistfræðingurinn Dick C. Brinkhuizen skrifaði árið 1994 merkilega grein, sem ég fékk eintak af hjá kollega mínum á Sjóminjasafninu í Amsterdam (Nederlands Scheepvaartsmuseum). Brinkhuizen kemst af þeirri niðurstöðu, að fiskurinn í tunnunum hafi mestmegnis verið þorskur (Gadus morhua), en einnig var þar að finna keilu (Brosme brosme) og löngu (Molva molva). Brinkhuizen telur að fiskurinn hafi verið matur áhafnarinnar. Sjáið einnig safn merkilegra forngripa sem fundust í skipsflakinu Scheuraak SO1 hér.
Fiskibeinin eru skorin/hafa skurðarmerkri á þann hátt að enginn vafi getur leikið á því að fiskurinn hafi verið verkaður sem skreið. Taldi Brinkhuizen líklegt vegna stærðar fisksins og tegundanna, að hann sé ættaður úr "norðurhluta Norðursjávar eða t.d. frá Íslandsströndum". Það síðasta er nokkru líklegra, vegna þess að skreiðarverkun var líklega erfið á svæðum við Norðursjó.
Leifar þeirrar skreiðar sem fannst í SO1 flakinu, er líklega það sem hér fyrr á öldum var kallaður Malflattur fiskur á Íslandi, eða plattfiskur á Hansaramáli eða stokkfiskur. Malflattur fiskur var einnig kallaður kviðflattur eða reithertur.
Þýska öldin (16. öldin) sem íslenskir sagnfræðingar kalla svo, var kannski ekki meira þýsk en nokkuð annað. Virðist sem Hollendingar/Niðurlendingar hafi í Hansasambandinu gert sig mjög heimankomna á Íslandi á 16. öldinni. Verslunin á þessum tíma í Hansasambandinu var alþjóðleg í vissum skilningi. Fiskinn gætu Hollendingar hafa keypt í Brimum, en alveg eins hafa sótt hann sjálfir.
Í dag er reyndar hægt að rannsaka hvaðan fiskur sem finnst við fornleifarannsóknir er uppruninn með DNA- rannsóknum. Hefur ritstjóri Fornleifs farið þess á leit við þá stofnun í Hollandi, sem sér um minjar frá SO1, að hún hafi samvinnu um rannsókn beinanna frá SO1 við íslenska fornleifa- og líffræðinga.
Mynd efst: Tunnubotn og fiskibein úr SO1.
Ítarefni:
Brinkhizen, Dick C. 1994: "Some notes on fish remains from the late 16th century merchant vessel Scheuraak SO1": Offprint from: Fish Exploitation in the Past; Proceedings fo the seventh meeting of the ICAZ Fish Remains Working Group. Edited by W. van Neer. Annales du Musée Royal de l´Afrique Centrale, Sciences Zoologiques no 274, Trevuren, 197-205.
Lúðvík Kristjánsson: Skreiðarverkur. Íslenzkir Sjávarhættir 4, s. 310-316.
Fornleifafræði | Breytt 13.10.2011 kl. 06:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Veni Vidi Vici
27.9.2011 | 06:19
Αlltaf finnst eitthvað skemmtilegt í jörðinni.
Vorið 2009 fannst forláta gullhringur vestan við Þingvallakirkju. Þetta kom í fréttum og sumarið 2009 var gripurinn kosinn gripur mánaðarins á vefsíðu Þjóðminjasafns Íslands. Þar, eins og í frétt Morgunblaðsins, var því haldið fram að þetta væri innsiglishringur og að á honum stæði F og I, og að þar væri jafnvel hægt að sjá kórónu og skjöld.
Ég var spurður um álit mitt á þessum grip. Ég var sammála því að hringurinn væri úr gulli og að steinninn væri blóðsteinn (heliotrop). Ég taldi af myndum að dæma, að gullkarat hans væri mjög lágt.
Ég er hins vegar ekki sammála sérfræðingi Seðlabankans um áletrun þá sem skorin er í stein hringsins. Sérfræðingurinn er oft fenginn til að tjá um sig um áletranir og myntir.
Í stein hringsins er skorið A ω og I sem ekki þýðir neitt annað en Alfa, Omega Ω (með litlum staf) og Iesous, skrifað upp á grísku. Skammstöfun fyrir Jesús, Upphafið og Endinn.
Til að kóróna þetta, er það sem sérfræðingur Seðlabankans taldi vera kórónu, þrjú V, V V V, sem samkvæmt þessum fornleifafræðingi er skammstöfun fyrir Veni, Vidi, Vici. Þessi fleygu orð Cæsars hafa oft verið tengd Jesús, sem kom sá og sigraði.
Þjóðminjasafn Íslands sættir sig örugglega ekki við þessa túlkun, enda í engu greint frá henni á vefsíðu safnsins. Ekki óskað eftir störfum mínum og skoðunum framvegis árið 1996. Það gildir væntanlega fyrir niðurstöður mínar og álit líka.
Innsiglishringur, er gripur mánaðarins í júlí 2009 kannski ekki, og ekki hringur Jesús. En næsta líklegt tel ég að hann sé frá 18. eða 19. öld. og gæti jafnvel verið frímúrara- eða regluhringur.
Leyfi ég mér að minna á önnur innsigli sem ég hef skrifað um. Sjá t.d. hér.
Færsla þessi birtist áður hér þann 26.11.2009
ω
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 06:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1. getraun Fornleifs
25.9.2011 | 20:10
Ríðum nú á vaðið með fyrstu fornleifagetraun Fornleifs. Gripurinn á myndinni er getraunin. Svarið vinsamlegast eftirfarandi spurningum:
Hvað er þetta og úr hvaða efni?
Hvaðan er gripurinn?
Frá hvaða tíma er hann?
Hvenær kemur þessi gripur út?
Þið hafið viku til að svara. Skrifið svör ykkar í athugasemdir. Gripurinn er 16,2 sm að lengd.
Fornleifafræðingar og aðrir sérfræðingar, nema tannlæknar, eru útilokaðir frá þessum leik.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Næla frá Vaði
25.9.2011 | 04:43
Allmargir gripir sem ættaðir eru frá austurhluta Skandinavíu og löndunum við botn Eystrasalts hafa fundist í jörðu á Íslandi. Sumir þessara gripa eru greinilega gerðir þar austur frá, en aðrir eru undir stíláhrifum þaðan. Í raun hafa fundist fleiri gripir frá Eystrasaltslöndunum norðanverðum en gripir sem óyggjandi er hægt að tengja Írlandi eða svokölluðum keltneskum stíláhrifum.
Nælan frá Vaði í Skriðdal í Suður-Múlasýslu fannst í kumli árið 1894 en kom á Forngripasafnið tveimur árum síðar, Það er til góð lýsing á fundi hennar frá 1897 eftir Stefán Þórarinsson:
Þess skal þá fyrst getið að þessi staður er rétt fyrir utan og ofan túnið á Vaði á snöggu grasbarði. Þannig var varið að utan af þessu barði hefi blásið, grasrótin og moldin, sem mun vera c. 3 kvartél á þykkt ofan á aur. Svona hefur haldið áfram að blása upp þar til komið var að beinunum, þá lomu þau í ljós. Auðvitað sást ekki nema höfuðkúpan sem upp var komin, en þegar grafið var svo sem 4-5 þuml., og sumstaðar ekki nema 2-3 þuml., þá komu öll beinin í ljós. Öll mannabeinin sáust bæði tábein og fingur, nema hvað ryfbein og hryggur var farin að fúna, þar sem innýflin höfðu legið
Eftir því sem eg þekki best til átta, þá lág maðurinn frá há norðri til há suðurs, þannig að höfuðið snöri suður, en fæturnir norður. Beinin lágu öll reglulega, og var auð séð, að við þau hefði aldrei verið átt. - Sverð það sem sumir segja að hafi fundist hef ég ekki getað fengið áreiðanlegar sagnir um, enda hefði ég best getað trúað, að það væri ósatt? En Björn á Vaði segið það satt vera að þar hafi fundist hnappar nokkuð einkennilegir, en víst eru þeir tapaðir. Brjóstnálina fann eg af þeirri ástæðu að þegar ég sá höfuðkúpuna, þá fór eg að grafa þar niður og fann eg þá strax nálina hjá hálsinum.
Ég tók öll beinin saman og gróf þau í sama stað niður, þó nokkru dýpra. Þess skal getið að barðið er ekki blásið lengra upp inneftir en rétt yfir beinin, svo fleiri bein geta ef til vil verið þar. Sendi form. Forngripasafnsins mann hér austur þá er ég jafnan reiðubúinn að gefa þær upplýsingar er ég get af þessum fundi mínum.
Þessi hringlaga næla, sem er úr koparblöndu, er steypt og lokuð að aftan með plötu sem nál er fest á. Bronsplatan, sem hangir í keðjunum og sem á eru leifar af gyllingu, er með skrautverki í Borróstíl. Nælan, keðjurnar og axalaga plötu sem hanga á þeim benda til stíláhrifa frá baltnesku löndunum eða Rússlandi og að hún sé frá 10. öld. Svipaðar nælur finnast í Finnlandi, norður í Þrumu (Troms) í Norður-Noregi, en finnast hins vegar ekki í sunnan- og vestanverðri Skandinavíu. Austrænir hlutir finnast afar sjaldan þar. Tvær mjög líkar nælur hafa fundist á Íslandi.
Baltneskir, rússneskir og finnskir gripir, sem finnast í Norður-Noregi, eru jafnan tengdir samískri búsetu eða verslun Sama á þessum slóðum. Samar, sem áður voru kallaðir Lappar, hlutu ekki verðskuldaða athygli í fornleifafræðinni fyrr en fyrir nokkrum áratugum, og ekki eru mörg ár síðan þessi frumbyggjar Skandínavíu voru var nefndir í bókum um víkingaöldina. Þjóðernisnærsýni norrænnar fornleifafræði og sagnfræði gerði það að verkum að hlutu Sama í menningu járnaldar gleymdist og að þeir voru jafnvel taldir óæðri Skandínövum. Þótt enn sé vinsælt að sjá Sama í hlutverki náttúrubarnsins eru fræðimenn nú sammála um mikilvægi þeirra fyrir menningar- og verslunartengsl í Norður-Skandinavíu á járnöld og miðöldum.
Verslunarhæfileika Sama könnuðust fyrstu landnemar á Íslandi vel við, enda margir þeirra ættaðir úr nyrstu héruðum Noregs og voru jafnvel af samískum ættum. Rannsóknir danska mannfræðingsins Hans Christian Petersens í Þjóðminjasafni sumarið 1993 á beinum fyrstu Íslendinganna virðast eindregið benda til þess að þau tengsl kynni að vera meiri en t.d. Landnámabók getur um. Austrænir gripir á Íslandi gæti því sýnt tvennt. Annars vegar verslunartengsl við Norður-Skandínavíu, og hins vegar skyldleika Íslendinga við þá sem þar bjuggu.
Grein þessi birtist fyrst í bókinni Gersemar og Þarfaþing (1994), bók sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út á 130 ára afmæli safnsins og sem Árni Björnsson ritstýrði. Örlitlar viðbætur hafa verið gerðar við grein mína hér.
Ítarefni:
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, "Archaeological Retrospect on Physical Anthropology in Iceland". Populations of the Nordic countries Human population biology from the present to the Mesolithic." [Proceedings of the Second Seminar of Nordic Physical Anthropology, Lund 1990. Editors Elisabeth Iregren and Rune Liljekvist ]. Report Series from the Archaeological Institute, University of Lund No. 46 (1990), 198-214. Hægt er að lesa greinin hér í pdf sniði, en dálítinn tíma tekur að hlaða hana niður.
Fornleifafræði | Breytt 2.5.2020 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir neðan allar hellur
24.9.2011 | 07:58
Fyrirhuguð bygging Þorláksbúðar í Skálholti er einkennilegt mál, sem sýnir að menn lifa kannski á öðrum tíma en umheimurinn. Framkvæmdin hefur verið kynnt eins og verið væri reisa eftirgerð af miðaldarkirkju frá tímum Þorláks helga. Svo fer fjarri. Þorláksbúð var upphaflega byggð árið 1527 og hefur ekkert með 12. öldina að gera. Hún var byggð eftir bruna Árnakirkju árið 1527, og þá sem bráðabirgðaskýli yfir messuhald, búð eða kapella eins og húsið kallaðist í heimildum og fékk hún síðar nafnið Þorláksbúð.
Árni Kanelás Johnsen þingmaður, sem hefur verið stórtækur í endurgerðunum, segir að Gunnari Bjarnasyni smíðameistara Þorláksbúðar hinnar nýju hafi verið brugðið þegar skyndilega á lokastigi verksins hafið komið gagnrýni á verkefnið:
Honum varð ekki svefnsamt um nóttina eftir smíðar daglangt, en síðla nætur dró hann miða úr Mannakornum sínum, tilvitnunum í Biblíuna, og eftir það sofnaði hann vært.
Hann fékk tilvitnun úr 9. kafla Fyrra Konungabréfs þar sem segir að þegar Salómon hafði lokið við að byggja musteri Drottins vitraðist Drottinn honum í annað sinn og sagði (3. vers): Ég hef heyrt bæn þína og grátbeiðni, sem þú barst fram fyrir mig. Ég hefi helgað þetta hús, sem þú hefur reist, með því læt ég nafn mitt búa þar að eilífu og augu mín og hjarta skulu dvelja þar alla daga."
Jeremíah minn, hallelúja og ammen, svo Gunnar Bjarnason, sem reyndar er afar fær smiður og hagur, smíðar á vegum Drottins. Gerði hann það líka þegar hann smíðaði ævintýrakirkjuna í Þjórsárdal? Það var endurgerð kirkju á Stöng, sem ég rannsakaði sem fornleifafræðingur, sjá hér, hér, hér og sér í lagi hér, en sem arkitektinn Hjörleifur Stefánsson, með smiðinn Gunnar Björnsson í hirð sinni, ákvað að skrumskæla. Ég var útilokaður frá endurgerðinni og kirkja sú sem reist var er ein stór vitleysa frá upphafi til enda. Ég hef aldrei lagt blessun mína yfir hana, þó ég viti mest um þessa kirkju, og er árangurinn í raun draumórar eins manns, Hjörleifs Stefánssonar, sem oft hefur verið frekar stórtækur í endurgerðunum sínum, stórum sem smáum, sjá dæmi um það hér. Ekki var mér heldur boðið til vígslu Þjóðveldiskirkjunnar í Búrfelli og sárnaði mér það auðvitað mjög.
Ég get gefið yfirsmiðnum og þess vegna fyrrverandi forsætisráðherra og þeim sem borguðu fyrir kirkjuskömmina í Búrfelli tilvitnun í sálma og orðskviði við hæfi, um svik og pretti. En ég leggst ekki svo lágt að leggja nafn Drottins míns við hégóma - og Þorláksbúð er heldur ekkert annað en hégómi.
Sannast sagna, þá finnast mér komnar of margar endurgerðir og "tilgátubyggingar" á Íslandi. Ísland verður með þessu áframhaldi eitt stórt "fornminja-Disneyland". Betur hefði ef til vill tekist til, ef fornleifafræðingar hefðu getað liðsinnt áhugamönnum um þessar byggingar í stað arkitekta.
Ef menn vilja endilega reisa "Þorláksbúð", væri við hæfi að gera það fjarri steinsteypukirkjunni, og búa með tíð og tíma til Skálholt Theme-Park", (Fornleifasafnið í Skálholti), reisa þar t.d. hina stóru miðaldakirkju, sem Hörður heitinn Ágústsson teiknaði, reyndar allt of háa, enda var hann þjóðernisrómantíker af gamla skólanum. En það væri hægt að lækka bygginguna og spara efnivið. En öll svona verkefni eru auðvitað draumórar, þótt stundum geti verið gaman af þeim.
Af myndinni að ofan má ætla, að landnámsskjólukerlingin af mjólkurfernunum hér forðum sé enn í tísku.
Ítarefni: les hér.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Herminjar
23.9.2011 | 05:02
Herminjar hafa því miður ekki fengið verðskuldaða athygli á Íslandi. Á fundi þjóðminjavarða Norðurlandanna sem haldinn var í Borgarnesi árið 1995 lýsti Þór Magnússon því blákaldur yfir, að á Íslandi væru engar áhugaverðar herminjar, þegar þjóðminjaverðir hinna Norðurlandanna voru að ræða það sem dagsskrárlið. Íslenskir fornleifafræðingar hafa þó á síðari árum samviskulega skráð herminjar og rústir frá veru Breta og Bandaríkjamanna. Svo er líka alltaf verið að tala um Herminjasafn.
Hér skal hins vegar sögð saga af "forngrip", sem enn er ekki 100 ára, en sem segir samt mikla og merkilega sögu.
Löngu áður en ég fæddist bjó karl faðir minn um tíma í Keflavík eða réttara sagt í Innri Njarðvík. Ekki var hann þó Suðurnesjamaður, en hann fékk ekki lán í banka nema að hann lofaði að reka nýstofnaða heildverslun sína í Keflavík en ekki í Reykjavík. Bankastjórinn, sem setti þær einkennilegu reglur, hafði eitt sinn verið í íslenska nasistaflokknum og honum leist víst ekkert á föður minn, sem ættaður var úr Niðurlöndum.
Pabba líkaði dvölin í Innri Njarðvík og Keflavík vel. Tók hann herbergi og bílskúr á leigu en eyddi líka miklum tíma á Vellinum, enda átti hann þar marga vini með svipaðan bakgrunn og hann. Hann fór þó öðru hvoru í rútu til Reykjavíkur, því þar þurfti hann að skipa upp innflutninginum og koma honum í verslanir í Reykjavík.
Pabbi var svo tíður gestur á Keflavíkurflugvelli, eins konar Sloppy Joe, að hann fékk Fast Gestavegabréf Nr. 10. Vænti ég þess að Bjarni Ben og aðrir gestir á Vellinum hafi einnig átt Föst Gestavegabréf með enn lægri númerum en pabbi. Kannski á Björn Bjarnason enn skjöld föður síns og eins ánægjulegar minningar og ég frá Vellinum. Kannski á Björn Bjarna sjálfur svona skjöld? Oft hef ég velt fyrir mér, hvort konur þær sem kallaðar voru "Kanamellur" í "Ástandinu", hafi þurft að bera svona merki, þegar þær fóru á völlinn.
Síðar, þegar ég var ungur drengur, 1968-1974, kom ég mikið með pabba upp á Völl, stundum hálfsmánaðarlega. Það voru menningarlegar ferðir.
Mér er sérstaklega minnisstæð ein heimsókn. Við fórum þá með eldri manni, sem hét Schuster, sem vann á launaskrifstofu Vallarins, til að skoða rússneskar flutningavélar, sem leyft hafði verið að millilenda á Íslandi á leið til og frá Kúbu. Við komumst mjög nærri vélunum og viti menn, Rússarnir komu til okkar og voru hinir vinalegustu. Einn þeirra hafði greinilega gaman af börnum og gaf mér og öðrum dreng nokkur merki. Ég fékk t.d. litla brjóstnál með mynd af Lenín sem dreng. Ungliðaprjón þennan hélt ég mikið upp á og kenni honum oft um að ég gerðist sósíalisti um tíma. Ég notaði hann einnig sem vopn!: Í MH kenndi ungur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins mér um að ég hefði rænt honum og fært hann suður í Straum með valdi ásamt öðrum. Hann ásakaði ýmsa um það sama, áður en hinir einu sönnu glæponar fundust. Ég tók þetta vitanlega stinnt upp og stakk Lenínprjóni mínum í rass fórnarlambs mannránsins. Síðar var þessi góði maður, sem ég stakk með Lenín, m.a. lögreglumaður á Seltjarnarnesi, frægur fyrir að sekta menn fyrir hraðaakstur, lögfræðingur og eigandi súludansstaðar, áður en hann var allur. Blessuð sé minning hans.
Ég finn ekki lengur Lenínnálina, en tel víst að ég hafi náð henni úr rassi fórnarlambs mannræningjanna. Var hún lítið notuð eftir það. Vegabréf pabba á Keflavíkurflugvöll geymi ég hins vegar eins og annað erfðagóss, og mun það ganga í arf mann fram af manni, því aldrei veit maður hvenær maður hefur not fyrir slíkan skjöld.
Lenínnál, sem mun hafa verið svokallaður Oktyabryonok pinni fyrir ungliða, með blóði súludansstaðareiganda er kannski ekki hinn kræsilegast minjagripur að halda í. Ef ég finn hann, gef ég hann frekar Þjóðminjasafninu, því hann tengist á óbeinan hátt einu furðulegast glæpamáli sem upp kom á 8. áratug síðustu aldar, mannráni í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en það er ekki fornleifamál.
Færsla þessi birtist áður hér og er nú örlítið betrumbætt.
Fornleifafræði | Breytt 19.12.2020 kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Stiklur úr sögu fornleifafræðinnar á Íslandi - 1. hluti
21.9.2011 | 06:52
Saga fornleifafræðinnar á Íslandi hefur óneitanlega stundum verið mjög átakasöm á síðustu áratugum og mun víst vera það enn. Margir fornleifafræðingar "börðust" um þau fáu störf sem í boði voru á Íslandi. Í eina tíð var víst nóg að það væri einn fornleifafræðingur (sjá mynd), þó svo að hann væri ekki einu sinni fullmenntaður í greininni. Hann bauð fyrirmönnum með sér ofan í kuml og það var talin vera ágætis fornleifafræði.
Enn fleiri fornleifafræðingar eru nú á markaðinum, en lítið er að gera hjá flestum eftir hið íslenska efnahagshrun, nema kannski hjá prófessornum í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann er ekki einu sinni fornleifafræðingur, heldur sagnfræðingur. Kannski var kennsla í greininni við Háskóla á Íslandi tákn um aðvífandi vanda eins og í þjóðfélaginu öllu.
Hér fylgir fyrsta umfjöllun mín með sönnum sögum úr fornleifafræðinni á Íslandi, og fjallar hún mest um ráðningar manna, en einnig um klíkuskap, ættartengsl og kannski öfund og illgirni.
Sumir erlendir fornleifafræðingar hafa haldið því fram, að íslenskir starfsbræður þeirra leiki Sturlungaöld í frístundum sínum, og jafnvel öllum stundum. Ekki hafa menn þó farið varkosta af því, að erlendir aðilar, sem hafa komið með hendur fullar fjár til landsins og settu í fornleifarannsóknir sem nýst gátu þeim sjálfum, hafi leikið lykilhlutverk í skálmöldinni. Saklausir af deilum í stétt fornleifafræðinga eru heldur ekki kindugir karlar í öðrum greinum á Íslandi, sem sáu uppgang fornleifafræðinnar sem samkeppni og hótun. Síðar mun ég greina frá Bandaríkjamanni nokkrum, sem hafði í hótunum við íslenska fornleifafræðinga. Það er heldur ódæll fursti, sem sumir kollega minna eru enn í vasanum á.
Vegna hefðar á Íslandi, þótti lengi vel ekkert því til fyrirstöðu að ráða menn fyrir ættartengsl, klíku, flokkatengsl og jafnvel vegna útlits, frekar en af verðleikum og verkum. Lengi vel var hægt að fá vinnu við Þjóðminjasafn Íslands án þess að hafa lokið prófum, og jafnvel með því að kalla sig eitthvað sem maður gat ekki staðfest með vísun til prófgráða eða rannsókna við háskóla.
Er ég hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands árið 1993 fékk ég stöðu mína vegna tilskilinnar menntunar og reynslu. Afhenti ég prófskírteini og var dæmdur hæfastur umsækjenda. Ég var glaður og hinir umsækjendurnir leiðir eins og gengur. Enginn klíkuskapur eða pólitík var með í spilunum og fríðleiki minn er svo takmarkaður, að hann hefur örugglega ekki haft áhrif á stöðuveitinguna.
En eftir nokkra mánuði í starfi var ég búinn að fá rækilega nasaþefinn af þeim hörmungum sem riðið höfðu yfir vegna þess að ég var ráðinn, en ekki einhver annar gæðingur einhverrar klíku út í bæ, og var það ekki síst vegna þess að ég var ráðinn í tíð Guðmundar Magnússonar, sem á tímabili var settur Þjóðminjavörður vegna vandamála við rekstur og stjórnun Þjóðminjasafns undir fyrri þjóðminjaverði. Hann átti að endurreisa safnið, það vildu margir þeirra sem unnu þar ekki, og hann fékk heldur aldrei að ljúka starfi sínu vegna pólitísks baktjaldamakks og einhvers innra óeðlis í Sjálfstæðisflokknum.
Háskóli Íslands átti sæti í Þjóðminjaráði, þegar ég var beðinn um að setjast í fornleifanefnd. Maður nokkur í úr háskólanum, sem kominn var út af hreinskyldleikaræktuðu slekti Hriflu Jónasar, þótti auðvitað mesta óhæfa að vera að setja vel menntaðan fornleifafræðing í Fornleifanefnd og vildi fá annan umsækjanda, sem ekki hafði lokið sérlega löngu námi frá Svíþjóð, þó það væri ekki í réttri grein. Samt varð nú ofan á, að ég varð nefndarmaður, en fannst ég ekki sérlega velkominn, því formaðurinn, prófessor í lögfræði við HÍ, var ekki vanur því að menn spyrðu erfiðara spurninga í opinberum nefndum. Það átti ég nefnilega til.
16. janúar árið 1995 rennur í gegnum faxvél Þjóðminjasafnsins póstfax frá Póst og Símastöð 1 í miðbæ Reykjavíkur. Faxið var frá NN og innihaldið sést hér. Þarna voru komnar tregafullar vísur og hálfkveðnar, þar sem ýmislegt var gefið í skyn, og töldu fróðir menn þessu vera beint að minni persónu. Mér var mikið skemmt.
Töldu enn fróðari menn, að NN væri maður, sem enn væri ekki búinn að ná sér eftir ráðningu mína við Þjóðminjasafn Íslands. Ég skildi ekkert í þessum æsingi manna. NN, sendi m.a. þetta
Gott er að toga titla
Sem telja menn kannski fulllitla
Ég veit fyrir satt
að þeir vaxa mjög hratt
ef farið er við þá að fitla
höfundur er óþekkur
Þarna var verið að gefa í skyn að einhver starfsmaður Þjóðminjasafnsins væri með falsaða pappíra upp á vasann, sem er auðvitað mjög alvarleg ásökun, enda þorði NN ekki að koma fram undir nafni.
Þó fornleifanefndin sé fyllt hef ég séð
Fjölmargan á henni galla
Einkum þann helstan að ekki er hún með
öllum Mjalla
höfundur er óþekkjanlegur
Þegar farið var að rannsaka, hver þessi tregafulli maður, NN , var, kom fljótlega í ljós, að rithönd mannsins væri sú sama og arkitekts nokkurs sem hafði starfað mikið fyrir Þjóðminjasafnið og þegið þaðan stóran hluta af lífsviðurværi sínu. Borin var saman skrift þess manns og NN, og kom í ljós að þetta var einn og sami maðurinn. Vísurnar töldu sumir, að mágur hans hefði samið, enda er hann þjóðfrægt skáld, sem meira að segja ólst upp í Þjóðminjasafninu. Fyrrum íbúar safnsins voru enn að skipta sér að ráðningum manna þar á bæ.
Þar sem fornleifafræðingar á Íslandi kalla ekki allt ömmu sína, gleymdi ég þessu fljótlega, enda starf mitt mikið og enga hafði ég fengið starfslýsingu, vegna deilna um það á efri hæðum samfélagsins. Ég vissi einnig, að í þessu máli gilti það fornkveðna: Margur heldur mig sig, og skal það skýrt hér:
NN, og kona hans, unnu nefnilega árið 1994 til verðlauna fyrir handverk sem þau afhentu reynsluverkefni sem bar einmitt nafnið Handverk. Þau hjónin fegnu verðlaunin fyrir þjóðlegasta hlutinn, og Vigdís Finnbogadóttir forseti afhenti þeim þau með mikilli viðhöfn. Handverksstykki þeirra hjóna bar heitið Amma æsku minnar, og var það peysufatakerling með spangargleraugu og prjónaða vettlinga, sem hékk í gormi. Þegar var togað í pilsfaldfaldinn á henni, sveiflaðu hún englavængjum sínum. Samkvæmt verðlaunatilkynningu var hún úr íslensku birki, roðskinni, ull, endurnýttum pappír og o.fl.
Einn galli var bara á gjöf Njarðar, en hann var sá, að amma æsku þeirra var ekki eins frumleg og þjóðlega hugmynd og dómnefndin áleit, því þetta var stolin hugmynd. Frekar þjófleg en þjóðleg. Á verkstæði fyrir fatlaða í Wuppertal í Þýskalandi hafi í nokkur ár verið framleiddur Dragenflieger, sem kunni sams konar kúnstir og amma herra og frú NN. Fyrirtækið Wupper Exquisit Betrieb í Wuppertal var að vonum ekki ánægt með þennan hugmyndastuld, og aldrei varð neitt úr framleiðslu ömmunnar, þó svo það hafi staðið til. Pappírarnir voru nefnilega ekki í lagi, skírteinin ekki rétt útfyllt, fjölmargir voru á málinu gallar og virtist sem einhver hefði verið að fitla.
Skáldmæltur maður í stétt fornleifafræðinga, sem er hið mesta hrákaskáld að mínu mati, sendi mér eftirfarandi ambögu, þegar hann frétti af umbreytingu Herr Dragenfliegers í norðlenskt kerlingarhró:
Af hverju þetta pískur
þótt afi hann sé þýskur
hann fer oft í schkúf og peysu
vekur með því mikla hneisu
um daginn fékk hann prísa
fyrir að vera schkvísa
hann var algjört Favorít
enda ein bischen Transvestit
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Barbara í Kapelluhrauni
20.9.2011 | 07:42
Árin 1950 og 1954 rannsakaði Kristján Eldjárn litla kapellurúst í svokölluðu Kapelluhrauni sunnan við Hafnarfjörð. Hann skrifaði um það grein í Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags 1955-56, "Kapelluhraun og Kapellulág" og síðar í bók sína Hundrað ár í Þjóðminjasafni.
Löngu síðar fóru menn að ryðja allt svæðið sunnan Reykjanesbrautar gegnt álverinu í Straumsvík, þar sem kapellan liggur. Þá voru brjáluð áform um að stækka áverið sunnar Reykjanesbrautar. Allt var reyndar sléttað áður en tilkynnt var um hinn mikla framkvæmdavilja. Með jarðýtum og dýnamíti hefur landslaginu þarna verið breytt í auðn, eins og eftir tvær sæmilegar kjarnorkusprengjur. Á síðustu mínútu í æðinu mundu menn eftir blessaðri kapellunni, sem þarna stóð, og björguðu henni frá iðnvæðingunni. Hún stendur nú eftir á hraunstalli í miðri auðn íslenskrar ónáttúru, eins og ljót minning um mannsins skammsýni.
Fátt er reyndar fornt við þá kapellu, sem nú má finna við Reykjanesbrautina, nema staðsetningin. Um er að ræða uppgert nútímamannvirki (frá því á sjöunda áratug 20. aldar), hlaðið með öðru lagi en upphaflega og á í raun lítið skylt við þá rúst sem Kristján Eldjárn rannsakaði og teiknaði. Kaþólskir menn á Íslandi hafa svo komið fyrir líkneski af heilagri Barböru úr bronsi í rústinni.
Hraunið, þar sem kapellan er, hefur verið nefnt Kapelluhraun, en áður var það kallað Bruninn, og enn fyrr Nýjahraun, eftir að þar rann hraun á 12. öld (á tímabilinu 1151-1188). Við nýhlaðna kapelluna hefur verið hamrað niður staur með merki sem upplýsir að þarna sé að finna riðlýstar fornminjar.
Merkasti forngripurinn sem Eldjárn fann í kapellunni var brot af líkneski af heilagri Barböru frá miðöldum, 3.3 sm að lengd (sjá mynd að ofan, ljósm. VÖV). Löngu síðar setti ég þetta líkneski í samhengi við heimssöguna og sýndi fram á uppruna þess í Hollandi, sem og aldur þess. Líkneskið er ættað frá borginni Utrecht, þaðan sem föðurmóðir mín var að hluta til ættuð, og er gert í pípuleir (bláleir). Mjög lík líkneski hafa fundist í Utrecht. Skrifaði ég grein um uppgötvun mína að beiðni Kristjáns Eldjárns í Árbók. Ég uppgötvaði reyndar uppruna líkneskisins eftir að faðir minn heitinn keypti handa mér yfirlitsrit um fornleifafræði í Hollandi, þar sem var að finna ljósmynd af hliðstæðu Barböru í Kapelluhrauni.
Barbara var píslarvottur, sem samkvæmt helgisögum var uppi í lok 3. aldar e. Kr.. Hún var heiðingi sem gerst hafði kristin á laun. Faðir hennar gætti meydóms hennar vel og læsti hana inni í turni eins og gerðist á þessum tímum. Það skipti ekki miklu máli, því hún hafði heitið því ekki að giftast eftir að hún gerðist kristin. Eitt sinn er faðir hennar fór í reisu lét hann byggja fyrir dóttur sína baðhús. Meðan hann var í burtu, lét Barbara setja þrjá glugga í baðhúsið, í stað þeirra tveggja glugga sem faðir hennar, heiðinginn, hafði fyrirskipað. Hinir þrír gluggar Barböru áttu að tákna hina heilögu þrenningu. Þegar faðir Barböru kom úr ferðalaginu sleppti hann sér og ætlaði að höggva dóttur sína með sverði. Bænir Barböru urðu til þess að gat kom á veggin á turni hennar og hún flýði út um það upp í gil eitt nálægt. Seinna náðu vondir menn henni og hún var pínd og loks hálshöggvin af föður sínum, þegar heiðingjarnir voru búnir að fá sig sadda af alls kyns kraftaverkum sem áttu sér stað í dýflissunni.
Hér má lesa ágæta samantekt um kapelluna í Kapelluhrauni, sem er skrifuð af rannsóknarlögreglumanni sem dreif sig í fornleifafræðinám við HÍ. Ég leyfi mér að sekta "fornleifalögguna" fyrir að gleyma einni grein við yfirferðina um kapelluna. En hann lærði í HÍ, svo við sláum aðeins af sektinni, svo hann fari ekki á Hraunið, því í HÍ má ekki nefna suma íslenska fornleifafræðinga á nafn eins og hér greinir.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Líkþrái biskupinn í Skálholti
19.9.2011 | 16:26
Jón
nokkur var biskup í Skálholti frá 1406 til 1413. Afar lítið er vitað um þennan Jón, nema að hann var hinn fjórði meðal Jóna (Jóhannesa) á biskupsstóli í Skálholti. Í síðari heimildum var hann oft nefndur Jón danski. Hann var einn af fyrstu dönsku embættismönnunum á Íslandi. Áður en þessi Jón hneppti Skálholtsstól hafði hann verið ábóti í Munkalífi í Björgvin, sem var eitt ríkasta klaustur Noregs. Þegar Jón var kominn til Íslands reið hann vísitasíu norður um land, þar sem honum var vel tekið. Mikið meira en þetta er nú ekki vitað um blessaðan Jón.
Við vitum einnig, að Jón hefur líklega ekki gengið heill til skógar, og væntanlega hefur hann því verið sendur til Íslands til að deyja drottni sínum með Íslendingum. Hann var holdsveikur og dó á biskupsstóli árið 1413. Í páfabréfi frá 24. júlí 1413, sem Jóhannes XXIII páfi ritaði biskupinum í Lýbíku (Lübeck), er meginefnið veikindi Jóns biskups á Íslandi. Páfi bað biskupinn í Lübeck um að grennslast fyrir um hvort presturinn Árni Ólafsson, sem síðar varð biskup í Skálholti, væri nothæfur til að hafa andlega og veraldlega forsjá með þeim söfnuði á úthafseyju , sem mælt sé að fyrirfinnist á enda veraldar" Samkvæmt bréfi páfa var Jón yfirkominn af sjúkdómnum, og hold hans og bein hrundu af fótum og höndum.
Förum nú hratt yfir sögu. Árið 1879 fundu menn innsiglisstimpil í jörðu í Árósi í Danmörku. Innsiglisstimpillin hafði tilheyrt Jóni biskupi í Skálholti. Á innsiglinu mátti lesa þetta:
+ SIGILLU: IohIS: [DEI:GRA:EPIS] COPI:SCALOT
Enginn Íslendingur frétti af þessu innsigli áður en ég gerði það skömmu eftir að ég hóf nám í fornleifarfræði við háskólann í Árósi árið 1980. Ég hafði samband við Kristján Eldjárn forseta Íslands og ritstjóra Árbókar Hins íslenzka Fornleifafélags, (þegar enn var stíll var yfir því riti), og hann hvatti mig umsvifalaust til að skrifa grein um innsiglið, sem má lesa hér.
Eftir langa og lærða skýringu á því hvaða Jón hefði getað átt innsiglið, komst ég að þeirri niðurstöðu að innsiglisstimpill þessi hefði tilheyrt Jóni hinum fjórða í Skálholti og að hann hefði líklega verið að ættinni Finkenow. Ættmaður Jóns, Nikulás (Niels), hafði verið erkibiskup í Niðarósi. Niels var illa þokkaður af Norðmönnum. Rændi hann dýrgripum kirkjunnar þegar hann hvarf frá Niðarósi. Upphaflega var þessi Finkenow fjölskylda komin sunnan úr Þýskalandi til Danmerkur.
Síðar hef ég hallast meira að þeirri skoðun, sem ég viðra aðeins í greininni, að líklegast hafi þessi stimpill verið gerður af óprúttnum náungum sem ætluðu sér að misnota nafn Jóns Skálholtsbiskups í Danmörku. Líkþráir menn eru oft misnotaðir.
Nýlega fann ég, í gömlum pappírum, möppu með gögnum sem ég vinsaði að mér þegar ég skrifaði mína fyrstu grein í fornleifafræðinni. Þar var líka að finna þetta bréf frá dr. Kristjáni Eldjárn, sem ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast. Hann bauð mér þrisvar sinnum heim til sín í morgunkaffi snemma á sunnudagsmorgnum þegar ég var á Íslandi yfir sumarmánuðina. Hann útvegaði mér einnig vinnu við fornleifauppgröft með einu símtali. Hann hvatti mig til að rita tvær fyrstu greinar mína fyrir Árbók Fornleifafélagsins og til þess að sækja um fjármagn til að hefja fornleifarannsóknir í Þjórsárdal.
Áður birt hér 30.7.2009, birt hér stytt með betrumbætum.
Fornleifafræði | Breytt 20.9.2011 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)