Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

10. getraun Fornleifs

getraun_ha_ha_1255430.jpg

Er ekki kominn tími til getrauna?  Spurt er, hvað er þetta græna og hitt líka:

Hvað er þetta, hvar var það búið til og hvenær, hvar fannst það og hvenær? Mikið er spurt.

Fornfræðingar og rasistar mega ekki taka þátt, enda kannski lítil hætta á því. Þeir geta kvartað ef þeim finnst brotið á mannréttindum sínum. Ekki verður svarað. Þeir eru margir hræddir við Fornleif. Hattur og svipa er kennileiti hans. Kannski notar hann slík verkfæri? En það er ekki hluti af getrauninni. Haldið ykkur við efnið.


Gyðingarnir í Glückstadt og Íslandsverslunin

imgp6687_b.jpg

Í októbermánuði síðastliðnum (2014) fór ég í stutta reisu suður til Þýskalands. Það land er vissulega ekki í uppáhaldi hjá mér til ferðalaga, fyrir utan að ég dvelst oft með ánægju í Berlín með konu minni og börnum. En í október var ég í rannsóknarferð sem lengi hafði verið í bígerð. Á heimleiðinni að loknu aðalverkefninu ók ég til bæjarins Glückstadt á Holtsetalandi til að sjá þá gömlu dönsku borg, sem alls ekki ætti að vera í eigu Þjóðverja - að mínu mati. Glückstadt er ekki ýkja gömul borg. Hún var stofnuð á valdatíma Kristjáns 4. Danakonungs. Árið 2017 verður því haldið upp á 400 ára afmæli borgarinnar.

imgp6769_b.jpg

Ég kom m.a. við í bænum Glückstadt til að skoða söguslóðir Hallgríms Péturssonar, sem vann þar í smiðju er Brynjólfur biskup kom við forðum og heyrði Hallgrím ragna vinnuveitanda sínum. Hugsanlega var vinnuveitandinn Det Islandske Kompagni, en útibú þess var stofnað i Glückstadt árið 1619. Hallgrímur gæti þó einnig hafa unnið hjá einhverjum hinna gyðingalegu þegna í bænum. Hjá mönnum sem einnig tóku þátt í Íslandsversluninni. Bara ef maður vissi, hver var atvinnuveitandi blótsama sálmskáldsins.

giesshaus_gluckstadt.jpg

Gießhaus í Glückstadt forðum og nú.

imgp6714.jpg

Brynjólfur biskup kom eins og kunnugt er Hallgrími Péturssyni til náms við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, náms sem hann aldrei lauk, eins og siður margra Íslendinga var vegna fátæktar og stundum óreglu. Hálf menntun var ávallt vænlegri til embætta og metorða á Íslandi eins og allir vita, og er enn.

imgp6672_b_guckstadt_2014.jpg

Ég kom einnig við í Glückstadt til að skoða bæinn sem Kristján IV Danakonungur stofnaði árið 1617. Hann bauð gyðingum fríhöfn þar í von um að það myndi verða viðskiptalífinu til gangs og efnahag Danmerkur til framdráttar.

Maður, líklega gyðingur, málaður á verkstæði Rembrandts líklega af nemanda hans Govært Flinck

Í Glückstadt bjuggu í fyrstu fjölmargir gyðingar af portúgölskum, frönskum ítölskum ættum, sem komu frá Hollandi, Hamborg og Selé í Marokkó, en upprunalega frá Portúgal eftir að gyðingar voru hraktir þaðan á 15. og 16. öld. Leiðir þeirra lágu eftir það um Norður-Afríku, S-Frakklands eða t.d. til Livorno (Leghorn) á Ítalíu, Jafnvel til Tyrklands, Palestínu og allt austur til Indlands. Þeir og afkomendur þeirra tilheyrðu þjóðinni sem Hallgrímur, í anda samtíma síns, hataðist svo mikið út í í höfuðverki sínu, Passíusálmunum. Sálmum, sem enn eru í miklum metum hjá Íslendingum, jafnvel hjá trúlausum þingmönnum lengst til vinstri, sem þykir heiður af því að fá að standa við grátur í kirkju og þylja sálma Hallgríms sem eru uppfullir af fordómum 17. aldar. Þessi vinstri menn í trúarfári 17. aldar bera líklega við tjáningarfrelsinu til varnar þessu undarlegu óeðli sínu, sem ég leyfi mér nú einfaldlega að kalla gyðingahatur til vinstri.

rembrandtwoburn.jpg

Sérfræðingar í Hallgrími Péturssyni við heimalningaakademíu Íslands (HÍ) hafa löngum ruglað Glückstadt við Glücksburg-kastala, sem er allt annar staður á hinu gamla Suður-Jótlandi (Slésvík). Hefur Glückstadt þannig verið kölluðu Lukkuborg í ritum þessara "sérfræðinga". Mér þótti því orðið tímabært að heimsækja hinn rétta bæ, þar sem Hallgrímur ól manninn og bölvaði mönnum í sand og ösku.

Efri myndin af gyðingunum frá Hollandi er eftir  nemanda Rembrandts, Govaert Flinck, en gamli rabbíinn sem hangir á herrasetri á Englandi fékk Rambrandtsfullgyldingu árið 2012.

imgp6655_1253033.jpg

AQUI REPOVZA
O EXELENTISSIMO VARAO
DOVTOR DANIEL NACHIMIAS
CVIA BENDITTA ALMA GOZA
DIANTE SEV CRIADOR
O FRVTO DE SVAS OBRAS
FALESEV EM SEST FEIRA
5 DE ROSHEDES ADAR
ANNO 5419

GRAFSTEINN DOKTORs DANIEL NACHMIAS
SEM DÓ FÖSTUDAGINN 5. ROSHODES ADAR ÁRIÐ 5419
(28. FEBRÚAR 1659)

imgp6650_b.jpg

Ég heiðraði minningu gyðinga Glückstadts með því að heimsækja grafreit þeirra í bænum. sem fyrir tilviljanir og hreina heppni voru ekki eyðilagðir í síðari heimsstyrjöld.

Því miður vantar mig enn heimildir um veru Hallgríms í Glückstadt. Til málamynda heimsótti ég það hús sem hýsti hina konunglegu smiðju, sem reist var eftir að Hallgrímur var farinn frá Glückstadt. Hún hefur væntanlega, að sögn fróðra manna, ekki staðið fjarri þeim stað þar er eldri smiðjan hafði verið. Bölvaði ég og ragnaði Hallgrími Péturssyni til heiðurs og þók mynd af húsinu sem hefur veri afmyndað af einhverjum lélegum arkitekt á 20. öld.

privilegia_1633b.jpg

Prentsmiðja var strax stofnuð í Glückstadt, og þetta leyfisbréf gyðinga í bænum var prentað í henni. Prentsmiðja er enn á sama stað í bænum og heimsótti ég hana og segi kannski frá henni bráðlega.

Eftir að gyðingum hafði verið boðið að setjast að í Glückstadt var útibú af Det Islandske Handelskompagni einnig stofnsett í bænum. Það var félag einokunarkaupmanna á Íslandi, sem upphaflega hafði aðeins stundað útgerð frá Kaupmannahöfn og í Helsingjaeyri (Helsingør). Á fyrri hluti 17. aldar naut íslenska verslunarfélagið m.a. góðs af skipakosti aðfluttra gyðinga í Glückstadt til Íslandssiglinga. Meðan Kristján IV mátti ekki vera að því að sinna þegnum sínum á Íslandi sáu gyðingar Glückstadts Íslenska Verslunarfélaginu fyrir skipum til þess að Íslenska þjóðin gæti fengið nauðsynjar. Íslandskompaníið hefur verið ásakað fyrir margt illt, en á stundum var þetta einokunarfyrirtæki hins vegar þess valdandi að hægt var að halda lífi í Íslendingum og tryggja nauðsynlegar vörusendingar til landsins. Ástæðan til þess að Brynjólfur biskup kom við í Glückstadt var vitanlega aðeins vegna þess að vorskipin sigldu til bæjar í danska konungsríkinu, þar sem mest gróska var í Íslandsversluninni. Ætli Hallgrímur hafi ekki einnig starfað þar í bæ vegna Íslandsverslunarinnar?

Myndirnar af legsteinum í grafreit gyðinga í Glückstadt tók höfundur.

Steinninn efst sýnir skjöld á legstein Moses de Joshua Henriques sem andaðist árið 1716. Myndin sýnir, hvar Móses laust stafnum og fram spratt lind úr kletti*: steinninn hér fyrir neðan er steinn konu hans sem hét Hava, þ.e. Eva, Henríques. Hún andaðist árið 1694. Myndmálið vísar einnig greinilega til fornafns hennar.

Í garðinum voru einnig steinar einstaklinga af ættinni Coronel, sem tengist inn í ættir forfeðra minna í Hollandi.

imgp6690_b.jpg

*Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka. Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: "Gef oss vatn að drekka!" En Móse sagði við þá: "Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?" Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: "Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?" Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: "Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig." En Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað. Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka." Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: "Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?"


Presta tóbak prísa ég rétt

joos_van_craesbeeck.jpg

Einstaka sinnum les ég mastersritgerðir stúdenta í fornleifafræði við Háskóla Íslands á Skemman.is. Þær eru misgóðar eins og gengur. Fáeinar eru reyndar furðanlega lélegar, sem meðal annars er hægt að skrifa á reikning kennslunnar og kennara deildarinnar sem fæstir eru menntaðir í miðalda- eða eftirmiðaldafornleifafræði. Nýlega birtist M.A. ritgerð Aline Wacke um leirpípur sem fundist hafa að Hólum í Hjaltadal. Þetta er ágæt ritgerð, sem ég hefði gefið góða einkunn. Mæli ég með að menn lesi ritgerðina sér til fræðslu, því margt er hægt að fræðast um í henni um tóbak og sögu reykinga á Íslandi, en þó mest annars staðar en á Íslandi.

Villur og vöntun

Galli er þó ávallt á gjöfum Njarðar. Í ritgerð Wacke sakna ég ýmissa upplýsinga. T.d. vantar tilfinnanlegar ljósmyndir eða teikningar af mismunandi gerðum krítarpípna og pípubrota frá Hólum í samanburði við nýjustu tímasetningar á t.d. hollenskum pípum (sem má t.d. finna hér).

Sömuleiðis vantar ljósmyndir eða teikningar af stimplum á hæl pípnanna og á leggnum. Það hefði mjög tilfinnanlega þurft að undirbyggja með rökum, af hverju höfundur telur eitt pípubrot af mörgum vera frá 16. öld. Engin haldbær rök eru sett fram því til stuðnings. Hugsanlega hefur brotið fundist með öðrum gripum úr lögum sem með vissu eru frá 16. öld, en ekkert er heldur útlistað um það í ritgerðinni. Þetta hlýtur að hafa dregið nemandann niður í einkunn - verður maður að ætla.

Þó Aline Wacke geri sér far um að lýsa ýmsum þáttum framleiðslusögu pípna úr leir og elstu sögu tóbaksreykinga í Evrópu sem og á Íslandi, þá vantar sömuleiðis nokkrar íslenskar upplýsingar eins og t.d. vísu Stefáns Ólafssonar í Vallanesi (1619-1688), sem sýnir augljóslega, að ekki vissu allir prestar hvers eðlis tóbakið var um miðbik 17. aldar:

Presta tóbak prísa ég rétt,
páfinn hefur það svo til sett,
að skyldi þessi skarpa rót
skilning gefa og heilsubót.

fumatore_brouwer.jpg

Eins vantar í ritgerð Aline Wacke umræðu um hve almenn tóbaksnotkunin hafi verið á Íslandi fyrir miðja 17. öld. Því er víða haldið fram að tóbak hafi fyrst að ráði borist til Íslands um miðja 17. öld. Fyrst fer sögum af því að Íslendingur hafi tottað pípu árið 1615. Það gerði Jón Ólafsson Indíafari: Þannig segir hann frá því í Reisubók sinni.

"Einn maður var þar innan borðs Rúben að nafni. Hann sá ég fyrst tóbak með hönd hafa og hvert kvöld taka og þá list að læra gjörðist minn tilsagnari. Skipherrann og allt fólkið unntu mér hugástum" . Þarna var hinn elskulegi Jón, síðar bøsseskytte í þjónustu konungs, kominn á enskt skip, sem sigldi á Newcastle.

sk-a-4040_b_1254799.jpg

Einnig veit Wache ekki að minnst er á tóbak á Íslandi í bréfi sem séra Arngrímur Jónsson lærði ritar vini sínum Ole Worm í ágúst 1631.

Árið 1650 er sagt frá manni í Selárdal er vanrækti kirkjuna á helgum dögum þá predikað var en lagðist í tóbaksdrykkju um embættistímann. Hélt hann þeim hætti þrátt fyrir áminningar prestsins, þar til sunnudag 1650 að hann sofnaði útfrá tóbaksdrykkjunni á kirkjuveggnum og vaknaði aldrei þaðan af, lá svo dauður þá út var gengið. Þessar heimildir bráðvantar í ritgerðina.

Gyðingar og tóbak á Íslandi

Einnig hefði höfundur mátt nefna að Jacob Franco, Hollenskur gyðingur af portúgölskum uppruna, sem hafði fengið leyfi til að setjast að í Kaupmannahöfn, fékk verslunarleyfi og boð um að taka til og flytja út allt það tóbak sem til Íslands og Færeyja átti að fara (Sjá hér). Á fyrri hluta 17. aldar var ein af bækistöðvum Íslenska verslunarfélagsins með aðsetur í Glückstadt (sjá nánar í næstu færslu). Í Glückstadt fengu gyðingar að setjast að árið 1619 og leigðu þeir út skip sem þeir áttu til Íslandssiglinga. Ugglaust hafa fyrstu pípurnar og tóbakið á Hólum getað hafa borist til Íslands með þeirra tilstuðlan og samböndum við Holland.

Tími til kominn að menn geri sér grein fyrir, hvað einokunarverslun á Íslandi var

Að lokum verð ég að leiðrétta þann leiða misskilning sem ríkir enn meðal margra fornleifafræðinga og sagnfræðinga á Íslandi og þar með talið Aline Wache. Þó að á Íslandi hafi verið sett á einokunarverslun árið 1602, þýðir það ekki að aðrir hafi ekki verslað við Íslendinga en Danir einir og það með leyfi Danakonugns. Aline Wacke sér einokunarverslunina á mjög furðulegan hátt. Konungur seldi hæstbjóðanda verslunina.

Einokun var ekki sett á til að "pína" Íslendinga, heldur til þess að konungur þénaði sem mest og best. Hollendingar versluðu við Íslendinga alla 17. öldina og oft með leyfi og í umboði Danakonungs, þó ólögleg launverslun hafi ugglaust verið algengari. Því er engin furða að menn finni hollenska verslunarvöru við fornleifarannsóknir á Íslandi, og þar með talið pípur. Leirpípur voru oft hásetavara, sem áhöfn tók með sér og seldi í landi fyrir annan varning, vettlinga, smjör eða aðra vöru sem kom sér vel á sjó.

Því er athugasemd eins og þessi, sem finna má í rigerð Wache, algjörlega út í hött:

"The monopoly was not just put on “luxury goods” like clay tobacco pipes, but on all trade. Also it seemed sensible for the Danish king who wanted to impress his power in this way that the clay pipes would bear the names of the Danish manufacturers."

Danakonungur þurfti ekki að heilla neinn né skjalla með pípuframleiðslu, sem var nú heldur ekki á hans könnu, heldur þeirra sem hann seldi verslunarleyfin í hendur. Á því græddi konungur sem og á tollum. Það er neyðarlegt, hve menn misskilja enn hugtakið Einokunarverslun, og í raun íslensku skólakerfi til vansa. Ekki bætir úr þegar útlendingar, "ólæsir á íslenska menningarsögu" (eins og prófessor Sveinbjörn Rafnsson skilgreindi það einhverju sinni á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar - ef ég man rétt) fara að fabúlera um eitthvað sem þeir hafa ekki sett sig nógu vel inn í.

claesz_pieter-still_life_with_clay_pipes_1254807.jpg

Í ritgerð Aline Wacke er hins vegar greint frá því hvernig aðrir fornleifafræðingar og sagnfræðingar á Íslandi, sem fengist hafa við fornleifafræði, hafa afgreitt stórmerkilegt efni til tímasetninga sem pípur eru, án þess að fá nokkuð út úr þeirri heimild. Nefna má t.d. lélega yfirreið Margrétar Hallgrímsdóttur, núverandi þjóðminjavarðar og sérlegan ráðgjafa Sigmundar Davíðs í minjamálmum 2014-15, á leir/krítarpípum úr rannsóknum þeim sem hún stýrði í Viðey. Þar sem fundust fleiri en 1000 pípubrot, en engum til gangs, því sérfræðiþekkingu vantaði. Ritgerð Aline Wacke er því bragarbót og sýnir, að sumir þeirra sem taka próf við HÍ í fornleifafræði geta kallað sig fornleifafræðinga nokkurn veginn kinnroðalaust.

minar_pipur_b.jpg

Höfundur á tvær krítarpípur frá Amsterdam (á myndinni hér fyrir ofan), sem safnari tíndi upp í byggingargrunnum í þeim hluta miðborgarinnaar sem kallast Vlooienburg, þegar þar var reist óperuhús á 9. áratug síðustu aldar. Í Vlooienburg bjuggu margir forfeður mínir, og þar bjó faðir minn með foreldrum sínum fyrsta ár ævi sinnar. Mér voru gefnar tvær pípur þaðan fyrir um 20 árum síðan. (Sjá hér).

Á hæl (eða fæti) einnar þeirra stendur PD með kórónu yfir. Við vitum að PD var pípumerki Pieter Donckers í bænum Gouda og að pdeugtj.jpgþessi pípa er frá því 1715. Hin pípan, sem er frá sama tíma er stimpluð með hoed_1254733.jpg

hatti og krónu yfir og GOUDA hefur verið pressað á legginn. Hattarmerkið á pípum var var notaður af pípugerðarmeistaranum Cornelis van Leeuwen. Þar sem ég hætti að reykja á 3. eða 4. árið, hef ég ekki reynt að reykja þessar pípur, en forfeður mínir gætu vel hafa tottað þessar pípur.

_pipunni.jpg

Frá pípuárum höfundar er allt fólkið unntu mér hugástum

Fyrir allmörgum árum flutti faðir minn, sem um árabil rak heildsöluna Amsterdam á Íslandi, inn mikið af leirtaui frá Hollandi. Eitt sinn sendi einn af þeim framleiðendum sem hann verslaði við honum nokkrar eftirgerðir af pípum frá 18. öld frá Gouda. Á menntaskólaárum mínum tróð ég eina þeirra með Mac Baren whisky-tóbaki og reykti. Það var ekki sérlega spennandi upplifelsi, en líklega hefði ég þurft að reykja pípuna til.

Myndin efst: "Sterkt tóbak" Reykingarmaður. Málverk eftir flæmska málarann Joos van Craesbeeck (f. 1605/06-ca.1660)

Pípulist

Hér er ég svo í lokin lítil málverkasýning á litlu broti málverka meistara 17. aldar og síðari tíma. Myndlist hefur, þótt undarlegt megi virðast, oft gleymst sem heimild þegar aldursgreiningar leirpípna voru gerðar í Hollandi. Myndefni hefur svo sannarlega verið skorið við nögl í ritgerð Wache.Í fljótu bragði sýnist manni að sumar pípurnar, sem fyrirsæturnar reykja, passi ekki alveg inn í tímasetningar van der Meulens.

Eins langar mér að benda lesendum mínum á þessa ágætu grein, þar sem einnig má horfa á gamlar kvikmyndir um leirpípnagerð.

sk-a-86_1254968.jpg

Maður sem reykir pípu. Gerard Dou (1630).

rp-t-1965-180_1254970.jpg

Stúdía af sitjandi reykingamanni. Dirch Hals (1622-27). 

sk-a-399.jpg

Múrari reykir pípu. David Teniers yngri (1630-1660).

sk-a-299.jpg

Ferðalangar hvílast. Adriaen van Ostade (1671).

sk-a-4040_b.jpg

Reykingamaðurinn. Adriaen Brouwer (1630-1638) úrdráttur.

sk-c-260_1254814.jpg

Reykingamaðurinn. Ary de Vois (1655-1680). 

sk-a-250.jpg

Gamli drykkjumaðurinn. Gabriël Metsu (ca. 1661-1663).

03_hals_the_smoker_mma_1622-25_1254810.jpg03_hals_the_smoker_mma_1622-25_1254809.jpg

Unglingur með pípu og kona sem hlær. Frans Hals (1623-25).

drunken_party_900.jpg

Reykt og drukkið á 18. öld. Brotnuðu pípurnar í svona veislum á Hólum í Hjaltadal?

Svo neyðist ég víst að lokum til að minna á að reykingar eru hættulegar heilsu manna og geta valdið hjarta og æðasjúkdómum, getuleysi, krabbameini og lungnaþembu ... og leitt til dauða, svo eitthvað af því versta sé nefnt. Málverkið er eftir meistara Vincent van Gogh. Verkið kallast Hauskúpa með logandi sígarettu (1885/86).

van_gogh.jpg

  

 


Gamlar kvikmyndir: Flugsaga

faxi.jpg

Danir líta á þennan kvikmyndabút, sem lýsir flugvélakosti Íslendinga árið 1958, sem danskan menningararf. Kannski hefur skrásetjari ekki frétt af sambands- slitum ríkjanna og stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944.

ar-120529658.jpg

Myndbúturinn, sem hægt er að sjá hér, var tekinn af Frank Poulsen og er úr safni DR (Danmarks Radio). Hugsanlega hefur þessi mynd verið sýnd í danska sjónvarpinu.

Frábært er að sjá lendingu Catalinu flugbátsins TF-Skýfaxa á Skutulsfirði og farþega að fara um borð á Gunnfaxa TF-ISB, DC-3 flugvél FÍ á Egilsstöðum. Það er ekki langt síðan þetta var, en samt virkar þetta eins og svipmynd aftan úr fornöld.

faxi_3.jpg

Stoltur faðir gengur um borð á Reykjavíkurflugvelli, og efst má sjá farþegum hjálpað í bát sem sigldi með þá í land á Ísafirði.

Takið eftir að blessaður Mogginn var helsta róandi meðalið um borð líkt og í dag. En hvað var fólk að lesa? Greinilegt er að þetta var í miðju þorskastríðinu árið 1958. Þegar Íslendingar hótuðu t.d. að fara úr NATO og fengu styrki frá Moskvu. Ugglaust hafa blaðamenn frá Danmarks Radio verið sendir til að fylgjast með málinu. faxi4.jpg

Maðurinn hér á myndinni til hægri er að lesa Morgunblaðið þann 26. nóvember 1958, þegar landhelgismálið var í algleymingi. Bretar voru auðvitað ósvífnir og ruddalegir að vanda.

Fyrirsögnin var svo eftir því í Mogganum: "Afsýra verður voðanum að ofbeldi Breta".

faxi2.jpgMisfínir karlar fljúga frá Egilsstöðum.


Stórnefjur í Amsturdammi

huge_nose_house_in_amsterdam_2.jpg

Fyrir réttu ári síðan heimsótti ég Holland í rúma tvo daga, m.a. til að skoða sýningu á Gemeendtemuseum í den Haag sem ég hafði lagt til upplýsingar og skrifað örlítið í risavaxna og glæsilega sýningarskrá fyrir sérsýningu. Ég heimsótti daginn áður Amsterdam til að ganga á fund prófessors Joost Schokkenbroeks sem m.a. er forstöðumaður rannsóknardeildar Siglingasögusafns Hollands, en einnig til að hitta Ninu Jaspers fornleifafræðing og sérfræðing í keramík sem ég skrifaði nokkrar línur með í sýningarskrána, sem hún var ein af aðalhöfundunum að. Ninu og prófessor Schokkenbroek hef ég fengið til að vera með í stóru verkefni sem nú er reynt að koma á laggirnar undir yfirstjórn dr. Ragnars Edvardssonar. Meira um það síðar, ef úr verður.

restaurant.jpg

Meðan ég beið eftir því að hitta Ninu og samstarfsmann hennar Sebaastian Ostkamp í litlu sérfræðifyrirtæki sem þau reka í miðborg Amsterdam, fór ég á elsta kínverska veitingastaðinn í Amsterdam, sem ég hef fyrir sið að fara á í hvert skipti sem ég er staddur í borginni. Hann er í dag kallaður Oriental City (sjá mynd hér til hægri). Mér var vísað til borðs við glugga á 2. hæð, þar sem ég hafði aldrei setið áður. Meðan að ég er að bíða eftir matnum, er mér litið yfir síkið (díkið/dijk) og sé léttklædda konu í glugga í húsi á hinum bakkanum. Þótt þessi kínverski staður sé ekki alllangt frá helstu rauðljósgötum Amsterdam, þá var konan í glugganum alveg örugglega ekki ein af þessum léttklæddu portkonum eða dækjum sem baða sig rauðu ljósi til að auglýsa kjöt sitt við díkin (síkin). Hún bjó nefnilega á þriðju hæð. Konan sem ég sá í glugganum var greininga heiðvirð, ung kona sem var nýkomin úr baði.

huge_nose_house_in_amsterdam_1254311.jpg

Ég leit því blygðunarlega undan ofan í matinn sem kominn var á borðið. Hann bragðaðist vel að vanda. En vitaskuld leit maður aftur yfir síkið til að gæta að því, hvort konan væri nokkuð í hættu. Ástríðglæpur, Rear window ... þið vitið hvað ég er að fara. Þannig var því sem betur fer ekki háttað. Engar blóðslettur voru sjáanlegur.

En þá tók ég eftir öðru efst á gafli hússins sem unga, léttklædda konan bjó í. Þar er mikið skjaldamerki, sem mér þótti áhugavert. Þar sem unga, allsbera konan var löngu farin úr glugganum, tók ég upp myndavél mína, Pentax Optio E80 vasamyndavél, og með aðdrætti ríkulegum sá ég betur þetta einstaka skjaldamerki. Á því sjást þrír mjög stórnefjaðir menn og stytta, brjóstmynd af stórnef einum, er efst á mæninum.

Um daginn var ég að skoða myndir ársins 2014 og staldraði aðeins við skjöldinn á húsi nöktu konunnar sem stendur á Oudezijds Voorburgwal númer 232. Eftir örlitla leit á vefnum fann ég skýringuna þessu skjaldamerki. Árið 1625 byggði Pieter nokkur Parys þetta hús, en í byrjun 18. aldar bjó kaupmaðurinn Jan-Frederik Mamouchette (Mamouchet) og spúsa hans Catherina van Heusden í húsinu og settu á það nýjan gafl. Þessi skjöldur á að tákna tengsl ætta þeirra hjónanna.

mamouchette_1254316.jpg

Margar kenningar hafa verið settar fram um "Húsið með stóru nefin" eins og húsið er kallað í daglegu tali. Sumir segja stórnefirnir séu vísun í eftirnafnið Mamouchette, það er "ma mouchette" - stóra trýnið mitt. Það þykir mér sjálfum ólíkleg skýring. Aðrir benda á að myndin sýni múslíma eða Saracena, en Mamouchette verslaði einmitt fyrir botni Miðjarðarhafs. Mouchette getur einnig þýtt neftóbaksdós eða sá sem tekur í nefið en sá siður ruddi sér til rúms í byrjun 17. aldar (Sjá hér). Þá eru þetta kannski bara neftóbakskarlar. Hver veit? Líka má ímynda sér að þetta séu gyðingar, en stór nef hafa löngum loðað við þá, segja fróðir menn.

Kannski veit nakta konan í húsinu eitthvað meira. Hér kemur svo myndin af henni. ........

........

Æi nú, hún reyndist ekki alveg í fókus. Ég spyr hana um sögu hússins þegar ég er næst í Amsturdammi. Vona ég að hún stökkvi ekki upp á ættarnefið, en sannast sagna tók ég ekkert eftir nefinu á henni. Svona í bakspeglinum minnir mig að hún hafi verið snoppufríð stúlkan sú. En þegar maður er bara með Pentax Optio E80 í vasanum, er ekki hægt að búast við góðu minni og smáatriðum.

_gugavert.jpg


Meira um Gunnar Gunnarsson í Þýskalandi

reichenber_a_lille_bb_1254254.jpg

Ekki á eg einungis í fórum mínum gamlar (nasista)myndir af Gunnari Gunnarssyni hjá Hitler og að halda fyrirlestra á nasistasamkomum i Þýskalandi. Það eru myndir sem sumir menn þola víst ekki að sjá.

Ég á líka rituð gögn í fórum mínu, sem þeir sem hafa hreinsað nasismastimpilinn af Gunnari hafa ekki haft rænu eða jafnvel vitsmuni til að finna er þeir skrifuðu stórverk sín um skáldið eða gáfu honum syndaaflausnarvottorð sín.

gunnar_koenigsberg_1_a_lille_1254233.jpg

Dönsk yfirvöld höfðu miklar áhyggjur af samskiptum Gunnars við Þriðja ríkið og var fylgst grannt með honum. Konsúlar sendu upplýsingar um ferðir Gunnars í Þýskalandi til sendiráðsins í Berlín og utanríkisráðuneytisins í Kaupmannahöfn.

Herluf Zahle sendiherra Dana í Berlín, sem ekki kallaði allt ömmu sína í samskiptum við nasista, var þó ekki hrifinn af fyrirlestrum Gunnars hjá Nordische Gesellshaft í ársbyrjun 1940. Þó Zahle hafi oft verið ásakaður um veikgeðja afstöðu til nasista, þá var hann alfarið á móti gyðingahatri þeirra - svona oftast.

Vegna þess vildi hann ekki heiðra Gunnar Gunnarsson, fimmtudaginn 1. febrúar 1940, þegar Gunnar hélt fyrirlestur í Berlín. Hann tók fram í bréfi til Utanríkisráðuneytisins í Kaupmannahöfn, að hann myndi ekki mæta á fyrirlestur Gunnars, vegna þeirrar stjórnmálalegu starfsemi sem Nordische Gesellschaft var farin að sýna í ritum sínum. Þetta ætlaði hann að tilkynna Gunnari við hádegisverð í sendiráðinu áður en Gunnar átti að halda fyrirlesturinn.

Zahle skrifaði:

     Herved tillader jeg mig at indberette, at den islandske Digter Gunnar Gunnarsson í Morgen Torsdag paa Foranstaltning af Nordische Gesellschaft holder Oplæsning her i Berlin og derefter vistnok i en Række tyske Byer. Jeg giver ikke personligt Møde for paa denne Maade overfor Nordische Gesellschaft at antyde, at jeg ikke er indforstaaet med den politiske Virksomhed, det i den senere Tid har indaugureret i sine Tryksager, Gesandtskabet vil blive repræsenteret af en af sine Medarbejdere. Jeg skal forklare Hr. Gunnarsson, der spiser Lunch paa Gesandtskabet i Morgen, dette.  (Sjá frumheimild hér).

zahle_um_gunnar.jpg

Gunnar hélt ótrauður áfram fyrirlestrarferð sinni og heimsótti loks Hitler í óþökk Dana. Þó Danir vildu heldur ekki gyðinga, líkt og Hermann Jónasson og Co, vildu þeir ekki umgangast gyðingahatara. Það gerði Gunnar. Hann var í félagsskap þeirra í samtökum sem Himmler og Alfred Rosenberg vernduðu. Svo segja menn að hann hafi ekki verið nasisti, heldur saklaus sauðbóndi uppi á Íslandi og að menn þurfi að drepa til að kallast nasistar.

Mikla furðu mína vekur sú aðferðafræði sumra íslenskra ævisöguritara Gunnars, að taka barnabörn og jafnvel barnabarnabörn hans gild sem heimildamenn um forföður þeirra, en sneiða síðan hjá samtímaheimildum.

Barnabarnabarn Gunnars hefur t.d. upplýst að afi hans hafi verið í danska heimavarnarliðinu. Það er út í hött. Hann (Gunnar Björn Gunnarsson) hefur einnig haldið því fram að Hitler hafi æst sig við Gunnar á fundi þeirra vegna meintra ummæla Gunnars um Finnland. En hvað sagði Gunnar sjálfur?. Í Fálkanum var föstudaginn 19. apríl 1940  viðtalsgrein við Gunnar um Þýskalandsför hans:

Nú fer jeg að fara í kringum það við Gunnar, að marga langi til að forvitnast eitthvað um fundi hans og Hitlers ríkiskanslara.

Gunnar brosir við.

- Jæja, einmitt það. Annars hefi jeg svo sem ekki margt að segja um það.gunnar_gunnarsson_meets_hitler_detail.jpg

- Þið hafið væntanlega eitthvað minnst á íslensk efni.

- Já, meðan annars sagði jeg Hitler frá því, að nú væru 37 ár liðin síðan íslenskur bóndi bar fram á Alþingi frumvarp um þegnskylduvinnu. En ekki var Hitler kunnugt um það. Kvaðst hann hafa fengið ýmsar hugmyndir að þýsku þegnskyldunni frá Búlgaríu.

- Hefir Hitler ekki mikinn persónulegan kraft til að bera, eða sýndist yður hann vera þreytulegur?

-Kringum slíka menn er auðvitað aflsvið. - Nei hann sýndist ekki vera þreyttur. En hann sagðist ekki hafa búist við stríði. Hefði hann verið byrjaður á mörgum stórvirkjum víðsvegar um landið, en nú yrði þau að bíða vegna ófriðarins. Hitler sagðist í raun rjettri ekki mega vera að því að standa í stríð, hann væri orðinn fimmtugur og hefði nógum öðrum störfum að sinna." (Sjá hér)

Gunnar var sem sagt nasisti. Það er enginn ástæða að fara ofan af þeirri skoðun minni og það er sæmd að láta ritskoða sig af glansmyndasöfnurunum á fasbókinni Gamlar Ljósmyndir fyrir að vera á þeirri skoðun. Gunnar vildi ræða um þrælslund sumra Íslendinga og þegnskylduvinnuhugmyndir Hermanns Jónassonar frá Þingeyrum, sem aldrei urðu að neinu eftir að Páll J. Árdal (1857-1930) orti svo glæsilega, og hjálpaði vísa hans í þjóðaratkvæðagreiðslu um máli árið 1916. Hitler sótti hugmyndir um þegnskylduvinnu til Búlgaríu en Gunnar var greinilega hallur undir slíkar fasískar hugmyndir:

Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi landið heitt,
mætti hann vera í mánuð þræll
og moka skít fyrir ekki neitt.

.


Gamlar Ljósmyndir: Konungssýningin 1921

konungssyningin_fyrir_fornleif.jpg

Því miður var maðurinn sem hefur höndina inni í fingrabrúðunni Fornleifi, settur út af sakramentinu á smettiskruddubók "Gamalla Ljósmynda", því hann birti "ljótar" myndir af Gunnari Gunnarssyni í nasistastellingum. Gunnar er sumum Íslendingum eins og Múhameð spámaður er flestum múslímum. Höfuð fljúga ef maður leyfir sér að birta myndir af Gunnari eins og hann var. Gömlum ljósmyndum er sýnilega stjórnað af einhverjum gömlum DDR-kommum eða framsóknardraugum sem þykjast vera kratar.

Frá Konungskomunni 1926

konungskoman_1921.jpg

Áður en mér var mjög ódrenglega varpað út af glansmyndafeisbókinni Gamlar Ljósmyndir, sem er undir stjórn Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings og kynlegra kvista Þormars ættarinnar, sem seldi Gunnari Gunnarssyni Skriðuklaustur, leitaði ég þar upplýsinga um kvikmynd Bíó-Petersens og Magnúsar Ólafssonar, sem þeir tóku við konungskomuna árið 1921.

Mig langar mjög að sjá kvikmyndina, til að athuga hvort ég gæti séð afa minn sýna fimi sína fyrir konung og frítt föruneyti hans. Afi minn var í fimleikaflokki ÍR sem gerði æfingar við Konungssýninguna árið 1921.

1921_konungssyningin_2_1254174.jpg

Afi stökk yfir hest og sýndi listilegar sveiflur á tvíslá. Fyrir það fékk hann medalíu sem afi gaf mér þegar ég var um það bil 12 ára gamall. Medalían hafði verið útbúin úr dönskum silfurpening frá 1916. Á myndinni efst er fimleikahópur ÍR og afi, Vilhelm Kristinsson er sá lágvaxni og sæti, 4. frá vinstri í efri röðinni.

vilhelm_afi_vilhjalms.jpg

Afi varð síðar einn elsti kratinn á Íslandi og keypti manna lengst bleðil þann sem bar nafnið Alþýðublaðið. Honum leist ekkert á þá krata sem komu fram á sjónarsviðið eftir Eið Guðnason. Hálfsystur hans, Sigríði Jensen í Kaupmannhöfn, tókst einnig það afrek að verða krati lengst allra í Danmörku. Kratar í Danmörku urðu ekki gamlir, því þeir reyktu allir. Tante Sigga, eins og Sigríður frænka var kölluð í fjölskyldunni á Íslandi, varð hins vegar 102 ára, ef ég man rétt. Ég og kona mín heimsóttum hana stuttu eftir 100 ára afmælið. Kratar í Danmörku böðuðu hana blómum, svo hún gat vart verið í litlu íbúðinni sinni í Gladsaxe. Mektarmenn á við Anker Jørgensen heimsóttu hana á afmælisdaginn, sem tók tvo daga.

Ef einhver getur útvegað mér kvikmynd Bíó-Petersens og Magnúsar Ólafssonar, eða hefur vitneskju um ljósmyndir frá Konungssýningunni árið 1921, þá þætti mér vænt um að heyra frá ykkur.

Morgunblaðið fjallaði um komuna og upplýsir að fimleikasýningin hafi farið fram á íþróttavellinum (Melavellinum).


Út skulu þeir...

sendira_i.jpg

Margumtöluð kynþáttahyggja/útlendingahræðsla Framsóknar-flokksins á sér dálitla sögu, þótt hún sé líkast til ekki samhangandi:

Í nóvember 1938 skrifaði ríkisstjórn Hermanns Jónassonar til sendifulltrúa Íslands í Kaupmannahöfn, Sveins Björnssonar, og ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar: "Ríkisstjórnin principielt mótfallin að veita þýzkum Gyðingum dvalarleyfi Íslandi."

Hermann Jónasson hafði áður, í nóvember 1937, skýrt þetta út fyrir sendifulltrúa í sendiráði Dana í Reykjavík, C.A.C. Brun: "Island har altid før været et rent og nordisk Land, frit for Jøder, og de der er kommet ind de sidste Aar skal ud igen". Þessi ljósmynd var tekin í sendiráðinu við Hverfisgötu sama kvöldið og Hermann Jónasson (Framsókn) lýsti þessu yfir.

Lesið meira í bók minni Medaljens Bagside. Á vefsíðu forlagsins Vandkunsten er pdf-skrá með kaflanum sem segir frá afrekum Hermanns Jónassonar


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband