Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
Frelsið fuðrar upp í Danmörku
28.4.2013 | 07:11
Þegar ég vaknaði fyrr í morgun og skoðaði niðurstöður úr Alþingiskosningum, sá ég í dönskum fjölmiðlum að Frelsissafn Dana, Frihedsmuseet, stóð í ljósum logum.
Safnið, sem hefur alltaf verið bölvaður hjall, og Dönum til lítils sóma, hálfgerð móðgun við andófið í Danmörku undir hæl nasismans, þótt það hafi verið veikburða, er víst brunnið að miklu leyti. Þvílík hörmung.
Samkvæmt fyrstu sjónvarpsfréttum í Danmörku í morgunsárið, brann allt sem brunnið gat, en einhverjum safngripum tókst að bjarga út úr sýningarskálanum og skjalasafnið hefur samkvæmt fyrstu fréttum bjargast. Eldurinn hófst í suðurálmunni, sem hýsir skrifstofur á efri hæðinni og geymslur og skjalasafn í kjallaranum, einnig útbyggingu þar sem var matsalur, líkastur grillbar og pulsubar. Danir fögnuðu frelsinu með vínarpylsum. Fyrstu fréttir herma að eldurinn hafi kviknað á þessum pulsubar. Fjölmiðlarnir greina þannig frá:Folk på stedet er her til morgen i fuld gang med at tømme museet for våben og andre værdigenstande.
Ég minntist strax, áður en ég sá fréttir um að skjalasafnið hefði líklegast bjargast, setu minnar á skjalasafninu með Leif heitnum Rosenstock, gömlum sagnfræðikennara sem lengi vann í sjálfboðavinnu á skjalasafninu. Leif sýndi mér oft merkar myndir, sem maður hafði aldrei séð í bókum. Ætli þær séu allar brunnar nú? Hann sýndi mér t.d. skjöl um lítilmennsku stjórnenda Rauða Krossins eftir stríð. Þeir vildu einvörðungu bjarga íslenskum nasistum. Ég minnist þess þegar ég fór með vini mínu Erik Henriques Bing til að skanna myndir úr safni Elias Levins sem hafði verið fangi í Theresienstadt, fyrir bók Eliasar um dvöl hans í fangabúðum nasista i Theresienstadt. Ég vona að engin skjöl hafi fuðrað upp.
Skráningarkort Elías Levins i Theresienstadt sem varðveitt var á Frihedsmuseet og sem ég skannaði árið 2001.
Það var mikið ólán að Frihedsmuseet fór undir Þjóðminjasafn Dana. Frihedsmuseet hefur löngum verið í algjöru fjársvelti og Þjóðminjasafni Dana hefur á síðustu árum verið stjórnað að óhæfu fólki, sem ekki hefur séð sóma sinn í að efla þetta merka safn.
Það er eins og að Danir vilji ekki minnast annars en samvinnupólitíkurinnar (samarbejdspolitikken, sem aðrir kalla miklu réttar kollaborationspolitikken) við Þjóðverja, forspilinu að þrælstilvist Dana í ESB, og lifa á lyginni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Samískur uppruni Íslendinga - með getraun
26.4.2013 | 12:31
Árið 1993 sótti ég ásamt mannfræðingnum og tölfræðingnum dr. Hans Christian Petersen, sem nú starfar sem lektor við Syddansk Universitet í Óðinsvéum, um byrjunarstyrk til norræns sjóðs, NOS-H (Nordisk samarbejdsnævn for Humanistisk Forskning). Um styrkinn sóttum við að rannsaka elstu beinagrindurnar á Þjóðminjasafni Íslands. Sumarið 1993 mældi Hans Christian Petersen og kona hans beinin á Þjóðminjasafni Íslands og margar merkar niðurstöður fengust við þær mælingar. Voru niðurstöðurnar sendar sjóðsstjórn í skýrslu í von um frekari styrk, því niðurstöðurnar voru bæði mjög góðar og merkilegar.
Vegna einhverrar öfundar og ónota íslensks fornleifafræðings sem þekkti stjórnarmann í sjóðsstjórn NOS-H, fékk rannsóknin ekki fé til frekari rannsókna. Síðar fór fornleifafræðingurinn, sem beitti sér svo lítilmótlega, í einhverjar mannfræðirannsóknir, sem aldrei urðu að neinu vegna samvinnuörðugleika.
Mjög merkar niðurstöður fengust hins vegar af mælingum Hans Christians Petersens á Íslandi árið 1993 og leyfi ég hér með fólki að lesa þær. Þær staðfestu ýmislegt sem ég hafði leyft mér að benda á í þessari grein Ástæðan fyrir birtingu skýrslunnar er að um daginn leitaði ungur fornleifafræðinemi við háskólann í Tromsø norður í Þrumu, til mín og spurði um örvaroddinn klofna sem ég hef greint frá, og meira að segja í tvígang. Lofaði ég honum að birta skýrsluna frá mannfræðirannsókninni á Íslandi árið 1993, en tel víst að öðrum þyki skýrslan fróðleg.
Meginniðurstaða Hans Christians Petersen, sem einnig gerði úttekt á annarri vitneskju um uppruna Íslendinga, er að fólk sem settist að á Íslandi var af mjög mismunandi uppruna. Greinilegt er t.d. að Íslendingar eru komnir af fólki sem var blandað Sömum, líkt og þeim svipaði einnig mjög til fólks á Bretlandseyjum eða Íra sem uppi voru á sama tíma, en þorri landnámsmanna var þó af "norrænum" stofni úr Noregi. Meginniðurstaðan er þó svo, að elstu Íslendingarnir eru ekki sem heild, eða hlutar þeirra, alveg eins og neinn annar hópur á sama tíma á þeim svæðum sem liggja í námunda við landið.
Eins og má sjá má á meðfylgjandi myndum af veðurbörðum og útiteknum Sömum sem teknar voru af leiðangursmönnum Rolands Napoléon Bonaparte, 6. prinsins af Canino og Musignano (1858-1924), sem var barnabarn bróður Nablajóns keisara, til Norður Noregs árið 1884, virðast Samar þess tíma vera mjög fjölbreyttur (blandaður / heterogeneous) hópur, líkt og Íslendingar hinir fyrstu voru greinilega í upphafi samkvæmt niðurstöðum Hans Christians Petersen. Sumir þeirra bera rússnesk nöfn sem benda til blöndunar við Sama eða Skoltsama austan landamæranna við Rússland. Sérstakur er hann Anders Andersen Anto sem líklega var dvergvaxinn fyrir utan að vera hrokkinhærður. Já margt er manninn lagt.
Ljósmyndir er mjög auðveldlega hægt að misnota sem vísindaleg gögn, en af myndinni að dæma virðist Anders Andersens Anto einna helst af afrísku bergi brotinn. En erum við það ekki öll í byrjun? Í útliti þessa manns árið 1884 er ekki neitt sem við getum ályktað um uppruna Sama og jafnvel þótt mælanleg einkenni negra hafi fundist í einstaka einstaklingi á Íslandi við mælingar Hans Christians á fornum beinum, þá skýrir það líklega ekkert annað en Jazzáhuga sumra Íslendinga. Mælingar geta líka sýnt undantekningar. Alnafni Anders, Anders Andersen Anto (nr. 50 í myndaröð Bónaparts prins), og kannski frændi, líkist hins vegar skagfirskum bónda.
Anders Andersen Anto (nr. 50)
Hvaðan er konan?
Efst á þessu bloggi hef ég sett mynd af konu, sem ég bið fólk að segja mér upprunann á. Þetta er hættulegur leikur og ég tek fram að slíkar myndagetraunir eru alls endis ófræðilegar, líkt og þegar menn rannsaka DNA úr nútímafólki til að segja til um upprunann. Eina trausta leiðin er sú sem Hans Christian Petersen notaði, þ.e. að nota mælingar á beinum fólks frá sama tímabili í sögunni og gleyma því jafnframt ekki að umhverfisþættir geta breytt útliti fólks og stærð mjög fljótt.
Gaman væri nú að vita, hvort lesendur mínir geti sagt mér hvaðan konan á myndinni efst er ættuð. Og hugsanlega vilja einhverjir finna Samann í sjálfum sér og senda mér myndir sem kannski sýna svart á hvítu, eða í lit, að þið líkist frændum okkar Sömunum, frumbyggjum Skandínavíu. Þá sem með réttu eiga olíuna undan ströndum Noregs, ef fara skal út í tæknileg atriði.
Hér koma svo nokkrar myndir af Norskum sömum sem ljósmyndaðir voru í leiðangri Bónaparts árið 1884.
Mena Abrahamsen og Ellen Andersen Labba
Nicolas Nielsen og Karen Mikelsdatter
Ivar Samuelsen og Ole Olsen Niki
Hendrich Martissen Kyrre og Offa Dimitrowitch
Hægt er að stækka allar myndirnar með því að klikka á þær.
Vísindi og fræði | Breytt 2.5.2020 kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Sendiherrann
16.4.2013 | 09:01
Þessi reffilegi músílmann hét Abd el-Ouahed ben Messaoud bin Mohammed Anoun og var sendiherra Marokkó við ensku hirðina árið 1600. Hann dvaldi aðeins sex mánuði á Englandi en hafði þó tíma til að sitja fyrir.
Eins og stendur á málverkinu var Abd el-Ouahed 42 ár þegar hann sat fyrir. Málverkið er varðveitt í safni háskólans í Birmingham. Það er málað á eikarborð og er verkið nokkuð stórt, 113 sm að lengd og 87,6 sm að breidd.
Abd el-Ouahed var sendimaður Muley Hamets konungs af Fez og Marokkó við hirð Elísabetu I. Marokkómenn vildu um aldamótin 1600 aðstoða enska flotann við að ráðast inn í Spán, en Elísabet I lét nú ekki verða að því.
Sumir telja að Shakespeare hafi byggt sögupersónuna Óþelló (Othello) á þessum manni, þó það sé nú frekar ólíklegt. Ekki er þó útilokað að Shakespeare hafi séð sendiherrann. Hið ljósa litarhaft sendiherrans minnir þó lítið á dökka húð márans eins og Shakespeare hugsaði sér hann. Vegna mikilla vangavelta manna um uppruna Shakespeares var eitt sinn búinn til brandari um að hann hafi verið múslími og heitið Sheikh Zubair.
Gamlar myndir | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað fær maður fyrir silfur sitt ?
13.4.2013 | 10:41
Væntanlegar er í verslanir tveggja binda verk Þórs Magnússonar fyrrverandi Þjóðminjavarðar um silfur fyrr á öldum. Þetta verður örugglega kærkomin viðbót við það litla kver, Silfur í Þjóðminjasafni, sem Þór lét fara frá sér árið 1996 og gárungarnir héldu að væri afrakstur þess dæmalausa starfsleyfis sem hann var settur í á tvöföldum launum við að skrifa um silfur Íslands fyrir Iðnsögu Íslands.
Eftir þá vinnu og þar að auki langa vist á kvistinum á Þjóðminjasafninu, eftir að hann var settur af sem þjóðminjavörður fyrir að hafa litla sem enga yfirsýn yfir skotsilfur stofnunarinnar, kemur loks afraksturinn af silfurrannsóknum Þórs. Það gerir rit eins og þessa ritgjörð úrelta, en hún er eftir Ole Villumsen Krog, danskan kennara og áhugaljósmyndara, sem vegna áhuga síns á silfri og umgangs við det Royale hefur hlotnast næstum óraunverulegu titlar: Hendes Majestæt Dronningens sølvregistrator, Det kongelige Sølvkammers kurator, direktør i internationale relationer. En þessi með afbrigðum snobbaði Jóti, sem menn á Íslandi kölluðu jafnan Krókinn, er sá maður sem við getum þakkað fyrir að koma Þór á bragðið í silfurrannsóknunum. Þór var aðeins með einhvern minniháttarpappír í þjóðháttafræði upp á vasann er hann var gerður að Þjóðminjaverði, og hefur enga fína titla eins og Krog, þó hann sé mikill vinur ókrýndrar drottningar okkar, Vigdísar Finnboga. Á Krókurinn danski því bestar þakkir fyrir.
Eins gott og yfirlit yfir silfurmeistara íslenska í Kaupmannahöfn og smiði síðari alda og silfurstimpla verður ugglaust í bókinni, þá grunar Fornleif, að yfirlit Þórs yfir silfur á söguöld verði frekar handahófskennt, og ekki býst ég heldur við miklum fræðilegum viðbótum við silfur miðalda, sem Þór hefur veigrað sér að tjá sig og tala um er leikir hafa beðið hann að halda fyrirlestra. Fyrir fáeinum árum vildi hann ekki tjá sig um elstu kaleikana á Íslandi og miðað við það sem hann skrifaði fólki sem báðu hann um það, virtist sem hann hefði litla þekkingu á þeim. Ég tók að mér það verk og mun síðar í ár greina frá niðurstöðum mínum á þeim rannsóknum hér á blogginu.
Silfur finnst sjaldan í jörðu á Íslandi meðan gull hefur greinilega ekki verið grafið niður í sjóðum á Íslandi eins og í sumum nágrannalöndum okkar.
Margir hafa spurt mig hvað þeir fái fyrir sinn snúð á Þjóðminjasafninu eða úr ríkissjóði ef þeir finna fornan sjóð og skila honum til réttra aðila.
Ég svara nú ekki fyrir Þjóðminjasafnið eða hálftóman ríkiskassann, en bæti þó venjulega við að finnendur fái fyrst og fremst heiðurinn, og enn fremur að þeim sé borgað dagsverðið á silfri út frá þyngd sjóðsins og 10% af útreiknuðu heildarverð í ofanálag. Má vera að fundarlaunin hafi hækkað síðan þessi fundarlaun sem ég þekki voru við lýði. En undir öllum kringumstæðum ber að skila fornum sjóðum til Þjóðminjasafnsins um leið og þeir finnast, annars brjóta menn lög.
Menn þurfa ekkert að vera að pússa hann upp úr Goddard fægilegi eða neinu slíku nýmóðins drullumalli, þegar miklu betri mold finnst rétt við bæjardyrnar á Egilstöðum.
Óánægja með fundarlaun
Menn hafa ekki alltaf verið ánægðir með fundarlaun sín, og skilur maður það á vissan hátt, en það verð sveiflast eftir kapítalístískum reglum sem sumir kapítalistar skilja ekki einu sinni sjálfir.
Hér skal sagt frá greiðslum sem inntar voru af hendi fyrir margfrægan silfursjóð sem síðast fannst austur á landi árið 1980. Þó svo að yfirmenn fornleifamála þess tíma hafi svarið og sárt við lagt að allar upplýsingar hafi komið fram um fund sjóðs og sögu hans, er það nú ekki raunin og hefur t.d. verið bent á það hér. Þau gögn sem hér birtast í þessari grein sem þið lesið nú, voru ekki lögð fram við rannsóknir tengdum sjóðnum.
Finnendur silfursjóðsins á Miðhúsum spurðu fljótt eftir fundarlaunum og þau fengu þau einnig fljótt. Þeim var skipt á milli eiganda og finnanda. Hver þeirra fékk greiddar 107.828 kr. (Sjá hér og hér) fyrir myntbreytingu þá sem varð um áramótin 1980/81 er tvö núll voru fjarlægð aftan af krónunni. Þetta urðu því 10.782, 80 í 1981 krónum, sem voru auðvitað miklu meira virði en jafnmargar krónur í dag, en auðvitað ekki neinn happadrættisvinningur fyrir blessað fólkið sem fann þennan óáfallna sjóð.
Fundarlaunin voru rífleg
Ég er þó hræddur um að silfurverðið hafi verið reiknað ríflega af þjóðminjaverði sem gaf 300 kr. fyrir grammið, sem hann sagði vera silfurverðið grammið, með 10% í ofanálag samkvæmt lögum.
Silfurverð náði miklum hæðum á fyrri hluta árs 1980, og fór eitt sinn mest upp í 130 Bandaríkjadali únsan, en hélt sér, þegar það var mest virði, í tæpum 49 $. Þegar silfrið á Miðhúsum fannst var verðið aftur komið í mun eðlilegra horf, eða um 11 $ únsan, sem er um 0,388 $ á grammið. Samkvæmt sölugengi Bandaríkjadals á Íslandi þ. 16 september 1980 var dalurinn seldur á 513,10 kr., 0,388 dalir voru því rúmar 199 kr. 1. gramm af silfri samkvæmt heimsmarkaðsverði kostaði 199 kr. og með 10% uppbót hefði Þór Magnússon aðeins átt að greiða finnendum um 219 kr fyrir grammið: Sjóðurinn sem vegur 653,5 gr. hefði með 10% ábót átt að færa finnanda og landeiganda 130.046 kr. í aðra hönd (65.023 á sitt hvorn), en Þór Magnússon bætti við samanlagt 85.610 í fyrirmyntbreytingarkrónum, sem verður að teljast frekar rausnarlegt. Líklegt þykir mér að Þór hafi notast við heildsöluverð þess sterlingssilfurs sem selt var gullsmiðum á Íslandi.
Silfurverð 1980
Þar að auki fékk landeigandi greiddan fararkostnað til að fara frá Reykjavík þar sem hann var staddur er sjóðurinn fannst. Það gerðu 63.200 að auki. Þetta held ég að hafi verið verð á báðum leiðum. En reikningurinn sem sendur var dagsettur meira en mánuði eftir að ferðin var farin (sjá hér). Ekkert af þessu kom reyndar fram í skýrslum um silfursjóðinn, hvorki í Árbók hins Íslenzka Fornleifafélags né í skýrslu sem unnin var upp úr skýrslu Danska Þjóðminjasafnsins, sem fengið var til að rannsaka sjóðinn að hluta til þar sem menn sættu sig ekki við síðari niðurstöður rannsóknar bresks sérfræðings í víkingaaldarsilfri, Prófessors James Graham Campbells, á eðli sjóðsins.
Finnendur kvörtuðu enn í bréfi til Þjóðminjasafnsins árið 1995 yfir því hve lítið þeir fengu fyrir sjóðinn, er þeir höfðu verið spurðir um fundaraðstæður 1980.
Eitt er víst að þau lög hvetja að okkar áliti ekki þá sem finna fornminjar til að láta yfirvöld vita um slíkan fund. Við myndum að minsta kosti hugsa okkur tvisvar um að tilkynna slíkan fund ef við findum svona sjóð í dag. Það er rétt að það komi fram, að það fyrsta sem Hlyn datt í hug þegar hann sá hvað þetta var að hér væri komið tilvalið smíðaefni, og því best að láta kyrrt lyggja. Við vissum ekki í byrjun hver hvert við ættum að tilkynna þetta, (höfðum ekki einu sinni leitt hugan á því að svona gæti gerst) en það var Hilmar Bjarnason á Eskifirði sem hvatti okkur til að hringja í Þór Magnússon Þjóðminjavörð [sic].
Ég hefði líka hugsað mig tvisvar um að afhenda sjóð sem fundist hefði óáfallinn í jörðu. Slíkt er einstakt í sögunni.
Meira fengu svo finnendur fyrir sinn snúð löngu síðar eftir að Þjóðminjasafninu og mér hafði verið stefnt vegna vafa sem breskur sérfræðingur hafði látið í ljós og niðurstöðu Þjóðminjasafns Dana sem greindi frá þvi að hluti sjóðsins væri frá því eftir Iðnbyltingu eftir rannsókn sem Þjóðminjasafnið, Þjóðminjavörður (Guðmundur Magnússon) og Þjóðminjaráð létu breska sérfræðinginn James Graham Campbell framkvæma.
Fundarlaunin á hreinu en margt er enn á huldu
Þjóðminjasafnið hefur til dæmis enn ekki tekið afstöðu til álits dr. Susan Kruse, fremsta sérfræðings Breta í efnagreiningum á silfrinu frá Miðhúsum. Kruse lýsti því yfir árið 1995 að efnagreining Þjóðminjasafns Dana væri til einskis nýt eins og hún var unnin og lögð fram, en því hefur Þjóðminjasöfnin í Kaupmanganhöfn og Reykjavík náttúrulega ekki viljað svara. Danska þjóðminjasafnið hefur þó margoft sagt og ritað að sjóðurinn sé ekki allur frá Víkingaöld.
Þeim tveimur aðilum var fengið það hlutverk að sjóða upp úr dönsku skýrslunni endanlega og ásættanlega skýrslu á íslensku, þar sem reyndar er vitnað rangt í skýrslu Danska Þjóðminjasafnsins. Danska skýrslan var gerð af fólki sem fékk ónógar upplýsingar. T.d. vissu þeir ekki að silfrið hafði fundist óáfallið í jörðu. Fornt silfur finnst ekki óáfallið í jörðu! Rannsóknarskýrsla, sem ekki upplýsir allt og sem leynir öðru er náttúrulega ekki nein venjuleg rannsóknarskýrsla. Menn töluðu mikið um að sjóðurinn væri falsaður eftir að niðurstaða Breska sérfræðingsins var þekkt. En mér er öllu nær að halda að rannsóknarskýrsla íslensku nefndarinnar sé fölsun. Þeir sem skrifuðu hana mættu t.d. skýra út hvernig silfrið fannst óáfallið og hvað þeim þykir um skoðun Susan Kruse. Einn nefndarmanna, sem er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, vill ekki tjá sig og hefur vísað á Þjóðminjasafn Íslands. ´
Annar nefndarmanna, Lilja Árnadóttir, lét taka jarðvegssýni á Miðhúsum, en þeim hefur, þrátt fyrir að allt sem á Þjóðminjasafninu er sé skráð og varðveitt, verið hent. Þjóðminjasafnið neitar að gefa skýringar á því háttalagi. Barnabarn Jónasar frá Hriflu sem vinnur við Háskóla Íslands fékk líka mold frá Miðhúsum, en upplýsir ekkert. Við vitum því enn ekki hvort eitthvað var í jarðvegnum á Miðhúsum sem gerði að sjóðurinn fannst gljáandi í jörðu, svo óáfallið að Kristjáni Eldjárn þótti það lygilegt.
Ég vona ekki, eftir þessa góðu auglýsingu mína fyrir silfurrit Þórs Magnússonar, að ég hafi nú latt menn til skila af sér fornu silfri og öðrum eðalmálmum til Þjóðminjasafnsins eins og lög gera ráð fyrir að menn geri. En nú líður reyndar langur tími á milli þess að slíkir fundir finnast, svo ekkert er í hættunni.
En gleymið nú ekki að sjá til þess að fallið hafi á silfrið sem þið finnið, svo einhverir ómerkilegir fræðingar fari ekki að spyrja óþarfa spurninga, t.d. um landeiganda sem lært hafði silfursmíðar í Svíþjóð og keypt málmsmíðaverkfæri til Eiðaskóla (sjá hér). Héraðsdómar dæma slík ummæli ómerk.
Myndin efst sýnir Þór Magnússon fyrrv. þjóðminjavörð leita að silfri á Miðhúsum árið 1980. Miðað við aðstæður og markaðsverð á silfri gerði Þór mjög vel við finnendur silfursins. Vonandi gerir hann silfrinu vel skil í bókum sínum tveimur, en eitthvað segir mér að hann ræði ekki silfursjóðinn á Miðhúsum eins náið og ég geri hér.
Mikilvæg neðanmálsathugasemd:
Gögn um Miðhúsasjóðinn sem hér birtast í pdf-skjölum, líkt og önnur skjöl sem áður hafa verið birt um þann sjóð hér á Fornleifi, gleymdist að birta eins og margt annað sem átti samkvæmt fyrirskipun ráðuneytis að birta í tengslum við rannsóknir á silfursjóðnum frá Miðhúsum árið 1995. Sú gleymska að mikilvæg gögn voru ekki birt, þó því væri lofað, var ekki vegna þess að pdf-ið hafði ekki verið fundið upp á þeim tíma. Það var vegna þess að skýrsla Þjóðminjasafns Íslands var ófullkomin og hlutdræg og innihélt þar að auki vísvitandi rangfærslur. Skýrslan ber þar að auki vott um afar lélegan dönskuskilning þeirra sem skrifuðu hana. Meira um það síðar og t.d. mótsagnir um fundaraðstæður silfursjóðsins frá Miðhúsum.
Takið eftir: Sunnudaginn 14. apríl (2013) kl. 14-16 er almenningi boðið að koma með eigin gripi í greiningu til sérfræðinga Þjóðminjasafnsins. Sérstök áhersla er lögð á silfurgripi að þessu sinni.
Greiningin er ókeypis en fólk er beðið að taka númer í afgreiðslu safnsins.
Fornleifar | Breytt 17.7.2020 kl. 06:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rómardraumar
12.4.2013 | 09:10
Mikið er alltaf gaman að sjá áhuga manna á því sem kynni að finnast í Vatíkaninu, en um leið vanþekkingu þeirra á þeirri stofnun sem Archivum Secretum Apostolicum Vaticanum er. Kári Bjarnason íslenskufræðingur hlýtur þó að þekkja nokkuð til, því hann fékk styrk til mánaðar dvalar árið 1992 til að rannsaka Maríukvæði, en það hefur þó líklegast verið í bókasafni Vatíkansins.
Rómantísk er sú skoðun manna, að Íslendingar hafi í tíma og ótíma verið að senda Páfanum í Róm einkabréf. Ef slík bréf voru send, komust þau ekki alltaf á leiðarenda. En hver veit, fyrst ég fann prestsinnsiglisstimpill Jóns Arasonar í Kaupmannahöfn, þá er eins víst að hægt sé að finna bréf Jóns í Vatíkaninu. Varla mun nokkur maður sitja eins við í skjalasafni og Kári ef hann yrði sendur suður í Róm til að leita. La dolce vita Rómaborgar heillar hann ekki né truflar. Menntamálaráðuneytið myndi fá eitthvað fyrir gjaldeyrinn ef Kári yrði sendur, eða ekki neitt, því maður getur aldrei vitað hvað skjalasöfnin geyma.
Þó að skalasöfn Vatíkansins sé lokuð bók um upplýsingar um uppruna Kólumbusar og aðra þætti sögunnar, t.d. þá sem lúta að ofsóknum kirkjunnar á gyðingum, þá er ekki eins og skjalasafn Vatíkansins sé órannsakað. Þar fer fram mjög öflug rannsóknarstarfsemi og nú tölvuskráning, og tel ég víst að safnið hefði haft samband við Íslendinga, ef þeir finndu eitthvað bitastætt.
Reyndar eru um 84 hillukílómetrar í safninu og safnskráin telur um 35,000 bindi. En það sem líklega hefur einna helst valdið því að íslenskir fræðimenn hafa ekki ílenst á skjalasafni Vatíkansins er að Íslendingar eru ekki eins sleipir í latínu og þeir voru fyrr á tímum. Ég þekki ekki í svipinn neinn sagnfræðing, nema hugsanlega prófessor Sveinbjörn Rafnsson, sem kann eitthvað í latínu. Latína var ekki kennd almennilega í menntaskólum eftir að latínukennsla Teits Benediktssonar var skorin við nögl í MH. En áður en sá hræðilegi atburður átti sér stað naut ég góðs af kennslu hans og tók þar alla áfanga í latínu. Hef aldrei orðið samur maður eftir það, en því lofaði Teitur líka í fyrsta áfanganum.
Ef menn fá pening til að leita að nál í heystakk Vatíkansins, er inngangur skjalsafnsins við Porta de S. Anna í via di Porta Angelica. Allir fræðimenn með tilskylda menntun og reynslu af skjalarannsóknum geta sótt um aðgang. Þeir þurfa að hafa meðmælabréf frá viðurkenndri rannsóknarstofnun eða viðurkenndum fræðimanni á sviði sagnfræði eða líkra greina.
Í bókasafni Vatíkansins bar á tíma mikið á því að 8. boðorðið væri brotið. Þess vegna var þessum ágæta útbúnaði komið fyrir:
![]() |
Óþekkt gögn um Ísland í Páfagarði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Iceland, the greatest Smorgasbord ever
7.4.2013 | 14:51
Eitt sinn var til forláta veitingastaður á Broadway í New York, þangað sem norrænir menn og aðrir streymdu til að fá eitt annálaðasta Smorgasbord (Smörgåsbord/Smørrebrødsbord) sem sögur fara af. Staðurinn bar auðvitað nafnið ICELAND, hafði þrjú show á hverju kvöldi og tvær hljómsveitir. Ekki var ýkt þegar því var haldið fram, að þetta væri stærsti næturklúbbur á Broadway.
Þarna var svaka bar, og í miðjum salnum blakti fáni Fullveldisins Íslands, og síðar lýðveldisins, yfir öllum herlegheitunum.
Nýlega rakst ég á auglýsingu sem myndin er af efst í einu blaði Dana í Bandaríkjunum í síðara stríði. Blaðið hét Nordlyset, og vildi ég vita hvernig stóð á því að veitingastaður á Broadway státaði af þessu fallega nafni. Ég er engu nær um eigendur, en ég veit að Michael Larsen, danskur maður, rak staðinn.
Barinn á Iceland
Nú er Iceland ekki lengur merkilegt land, og ekki þykir einu sinni ástæða að hafa almennilegan bandarískan ambassador á Íslandi. Smorgasborðið er ekki lengur það sem stjörnurnar á Broadway sóttu í, en líklegt tel ég þó að Harrison Ford myndi hafa þótt barinn á Iceland gjaldgengur. Hann er nú líka svo gamall, að hugsast gæti að hann hafi jafnvel setið þarna og borðað heilt smorgasbord.
Ef einhver man eftir þessum stað og getur deilt með okkur minningunum, eru þeir velkomnir að setja hér inn athugasemdir. Einhvern veginn hef ég þó á tilfinningunni, að ég hafi misst af þeirri kynslóð. Nú er það sushi og eitthvað enn fínna sem fær fólk til að dansa.
Fróðir menn telja að orðið smorgasm hafi orðið til þarna á 680 Broadway. Nú heitir þessi staður ROSELAND (sjá sömuleiðis hér/Þarna hélt Hillary Clinton, sem árangurslaust reyndi að hringja í Össur Skarphéðinsson, eitt sinni afmælisveislu sína og Björk kynnti plötu sína Biophilia á þessum stað árið 2011). Væri það ekki ágætt nafn í stað Íslands eftir allsherjargjaldþrot?
Þessi grein var upphaflega birt á postdoc.blog.is árið 2010. Örlitlu hefur verið við hana bætt.
Ég keypti skömmu síðar í Bandaríkjunum sjaldgæf póstkort með myndum af smurbrauðborðinu á Iceland og barnum þar.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)