Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
Made in Japan
23.6.2012 | 19:56
Frétt um merkar fornleifar berast nú um allan heim eins og eldur í sinu. Fundist hafa þrjár perlur við fornleifarannsókn í Japan, n.t. í Nagaokakyo nærri Kyoto. Þessar þrjár meintu, rómversku perlur fundust reyndar þegar í fyrra. Japanskir fornleifafræðingar, sem fundu perlurnar í haug miklum, telja eftir eins árs umhugsum, að þær hafi hafi lent í haugnum á fyrstu öldum eftir Krists burð. Þeir eru greinilega ekki að slengja neinu út að óathuguðu máli, líkt og svo oft gerist við fornleifarannsóknir á Íslandi.
Þrátt fyrir varúð japanskra fræðimannanna, sem vitnað er til í fréttum, er í þessu samhengi fyndið að sjá hvernig íslenskir dellukallar takast á flug, þegar fréttist af fundi glerperla í landi þar sem mikill fjöldi manns safnar rómverskum minjum og etrúskum. Japanar eru miklir áhugamenn um Rómverja og í Japan er til á annan tug safna með rómverskar minjar og sum þeirra eru í einkaeigu. Sjá hér.
Ef perlurnar frá Nagaokakyo eru rómverskar perlur, en t.d. ekki frá Miðausturlöndum, sem ekki er þó alveg útilokað, er ekki lokum fyrir það skotið að einhver gárungur hafi verið að stríða fornleifafræðingunum með því að missa þær óvart í uppgröftinn. Það hefur svo sem gerst áður að menn hafi verið að planta fornleifum. Reyndar mjög oft, og einnig í Japan.
Svo eru "rómverskar", eða réttara sagt meintar rómverskar perlur ekki alveg óþekktar í Asíu, en kannski kannast japanskir kollegar mínir bara ekker við það. Sjá hér. Þær gætu því hafa slæðst alla leið til Japan, þó svo að Rómverjar hafi aðeins opnað rifu á dyr Asíu.
Íslenskir draumóramenn sjá með perlum þessum hins vegar strax Rómverja í Japan og telja þetta beinan stuðning við tilgátur um veru Rómverja á Íslandi, já allra þjóða frumkvikinda, svo sem Herúla, Krýsa, Kelta, Galla, og ég veit ekki hvað.
Allt annað en skandínavískur uppruni, með smá ívafi frá Bretlandseyjum, er nú í tísku hjá íslenskum Rómverjum, þótt ekkert annað en ósköp venjulegur skandínavískur, efniskenndur menningararfur og samtíningur með breskum áhrifum finnist í jörðu á Íslandi.
Ekki má gleyma því, að nokkrar rómverskar myntir hafa fundist á ólíklegustu stöðum á Íslandi, sem er þó ekkert óeðlilegt, því forfeður okkar voru margir hverjir myntsafnarar, og enn algengara var að rómverks mynt væri lengi í notkun og líka í Víkingaöld (söguöld). Lesið þessa ritgerð Davíðs Bjarna Heiðarssonar til fróðleiks. Ef fornleifafræðingar vilja svo ekki syngja með kór samsærisfornleifafræðinnar er þeim kennt um að hafa ekki grafið nógu djúpt og hafa ekki nógan áhuga.
Fyndið er að sjá viðbrögð sumra flughuganna á bloggi Ómars Ragnarssonar, og Ómar kemur með upplýsingar sem ég, fornleifafræðingurinn, hef aldrei heyrt um. Ómar segir frá siglutré úr gallísku skipi. Ekki meira né minna.
Skyldu Asterix og Obelix hafa verið á Íslandi? Össur Skarphéðinsson er vitaskuld greinilega galli, og er mönnum í sjálfsvald sett hvernig þeir bera þetta orð fram þegar að honum snýr.
Bíðum nú og sjáum hvað setur með perlurnar í Japan.
Forngripir | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Beinaflutningur á Stöng í Þjórsárdal
22.6.2012 | 08:45
Lengi var talið að aðeins væri um að ræða eitt byggingarskeið á Stöng í Þjórsárdal. Nú leikur enginn vafi á því að búseta hefur verið þar frá lokum 9. aldar og allt fram á þá 13.
ÁRIÐ 1104 varð mikið gos í Heklu. Elstu annálar greina reyndar aðeins frá eldi hinum fyrsta í Heklufelli og annað er ekki vitað úr rituðum heimildum með vissu um þetta gos. Þegar eldgosið hófst hafði byggð haldist í landinu í rúm 200 ár. Þrátt fyrir ýmsar náttúruhamfarir, sem fyrstu íbúarnir áttu alls ekki að venjast úr þeim löndum sem þeir komu frá, var Heklugosið árið 1104 að öllum líkindum það ískyggilegasta sem þeim hafði mætt í hinu nýja landi.
Jarðfræðingar geta nú frætt okkur um að þetta Heklugos hafi verið stærra en nokkurt annað gos í Heklu eftir landnám, hvað varðar magn gosefna (vikurs). Um önnur gos Heklu á miðöldum vitum við að þeim fylgdu miklir jarðskjálftar, og um nokkur gos sem nefnd eru í annálum er sagt að byggðir hafi lagst af í kjölfarið. Heklu er hugsanlega einnig getið í erlendum miðaldabókmenntum. Er fjalli nokkru á íslandi er lýst sem gátt helvítis í frönskum miðaldakvæðum er að öllum líkindum átt við Heklu. Júdas var þar fjallbúi ásamt öðrum fordæmdum sálum, sem veinuðu í kór yfir aumum örlögum sínum í vítislogum. í lok 12. aldar ritaði munkurinn Herbert í klaustrinu Clairvaux í Frakklandi Bók undranna (Liber Miraculorum). Þar lýsir hann mörgum eldgosum á íslandi og vel gæti hann átt við Heklu er hann ritar: Á vorum tímum hefur það sést einhverju sinni, að vítiseldurinn gaus upp svo ákaflega, að hann eyðilagði mestan hluta landsins allt í kring. Hann brenndi ekki aðeins borgir og allar byggingar, heldur einnig grös og tré að rótum og jafnvel sjálfa moldina með beinum sínum (Þýðing dr. Jakobs Benediktssonar).
FRÁ UPPGREFTRI á Stöng 1939. Hárprúði maðurinn fyrir miðju á myndinni er Kristján Eldjárn. Rétt austan við gafl skálans, sem verið er að grafa á myndinni, fannst kirkja Stangarbænda árið 1992. Þótt rannsóknarskurðir hefðu farið í gegnum grafir árið 1939 uppgötvuðust þær ekki þá, enda beinin fá. Ljósm. Aage Roussell 1939. Nationalmuseet Kaupmannahöfn.
Rannsóknir i Þjórsárdal
Í Þjórsárdal, um það bil 15 km norðvestur af Heklu, var frá landnámi byggð, sem lengi var álitið að Hekla hefði eytt snemma á miðöldum. Spurningin um það hvernig eyðingu dalsins bar að var ofarlega í hugum lærðra manna hér á landi allt frá síðari hluta 16. aldar og margar tilgátur voru settar fram um eyðinguna í aldanna rás. Árið 1937 voru þjóðminjaverðir Norðurlandanna staddir á fundi suður á Jótlandi og ákváðu að rannsaka eyðibyggð í Þjórsárdal sameiginlega.
Þýskir fræðimenn við fræðistofnun" SS-Ahnenerbe, höfðu sýnt fornleifarannsóknum á Íslandi mikinn áhuga á fjórða áratugnum og varð áhugi þeirra hugsanlega til þess að auka áhuga frændþjóða Íslendinga á rannsóknunum í Þjórsárdal. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafði barist fyrir þeim og leitað jafnt til Þjóðverja sem norrænna kollega. Ekkert varð úr rannsóknum þýskra fornleifafræðinga á íslandi m.a. vegna fjárskorts sem jókst í takt við hernaðarbrölt þriðja ríkisins. Rannsóknirnar í Þjórsárdal, sem fóru fram sumarið 1939, gáfu mjög áhugaverðar niðurstöður. I rannsóknunum tóku þátt fornleifafræðingar frá öllum Norðurlandanna nema Noregi. Rústir stórbýlisins á Stöng voru einar sex bæjarrústa sem rannsakaðar voru sumarið 1939. Engum fornleifafræðinganna hafði fundist rústirnar álitlegar nema danska arkitektinum og fornleifafræðingnum Aage Roussell. Hann hafði mikla reynslu af fornleifagreftri á Grænlandi og þekkti því rústir á norðlægum slóðum. Aðstoðarmaður hans var ungur fornfræðistúdent, Kristján Eldjárn.
Rústirnar á Stöng höfðu sérstöðu, vegna þess hve vel þær voru varðveittar. Veggir og mikill hluti torfhleðslna stóðu óhreyfðir. Engu var líkara en að húsaviðir hefðu verið fjarlægðir og bærinn yfirgefinn. Forngripirnir sem fundust bentu til búsetu á Stöng fram á 13. öld og rannsóknir Sigurðar Þórarinssonar á gjóskulögum bentu til hins sama.
Upphaflega taldi Sigurður að eldgos í Heklu árið1300 hefði grandað byggð á Stöng. Síðar komst hann á þá skoðun að Heklugosið árið 1104 hefði valdið eyðingu byggðar í Þjórsárdal.
FRÁ RANNSÓKN kirkjunnar og tættum smiðjunnar, sem hún var reist á. Gula strikalínan sýnir nokkurn veginn grunnflöt kirkjurúmsins. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1993.
Nýjar rannsóknir
Árin 1983-86 og 1992-94 fóru fram nýjar, ítarlegar fornleifarannsóknir á Stöng í Þjórsárdal og hafa þær varpað nýju ljósi á endalok byggðarinnar. Heklugosið árið 1104, sem þeytti upp hinum hvíta vikri sínum, eyddi ekki byggð á Stöng, eins og hingað til hefur verið haldið fram. Hinar nýju fornleifarannsóknir hafa skýrt endalok byggðarinnar og upphaf hennar. Með hjálp geislakolsaldursgreininga er komið í ljós að búseta hefur haldist á Stöng nokkuð fram yfir aldamótin 1200, þ.e.a.s. löngu eftir hið mikla eldgos árið 1104. Samtímis hefur verið sýnt fram á að upphaf byggðar á Stöng hafi verið skömmu eftir að landnámgjóskulagið féll. Jarðfræðingar telja nú næsta öruggt að það hafi gerst árið 871, eða þar um bil. Á Stöng hafa nú fundist leifar tveggja skála, sem eru eldri en sá er rannsakaður var sumarið 1939.
Elstu mannvistarleifar, sem fundist hafa á Stöng, eru eldstæði, sem var notað skömmu eftir landnám. í því fundust leifar brennds kambs og brennd hvalbein úr stórhveli. Smiðja frá 10. öld hefur verið rannsökuð að hluta til. Hún er forveri smiðjunnar sem fannst á Stöng árið 1939. Eldri skáli er undir íbúðarskálanum sem nú er til sýnis á Stöng. Eldgosið árið 1104 hefur ekki eytt byggðinni, nema hugsanlega að hluta til, og sama er hægt að segja um eldgos í Heklu árin 1159 og 1206. Ef þessi gos hafa valdið einhverri röskun á búsetu, hefur það aðeins verið til skamms tíma. Endalok byggðar í innsta hluta Þjórsárdals verður að líta á sem afleiðingu fleiri, samtvinnaðra þátta. Eldgosin léku þar stórt hlutverk, en uppblástur vegna gjósku, maðurinn og húsdýr hans og kólnandi veðurfar hafa einnig átt stóran þátt í að byggðin í Þjórsárdal leið undir lok á fyrri hluta 13. aldar. Fornleifar og gripir þeir sem fundust árið 1939 á Stöng og við síðari rannsóknir sýna einnig, svo ekki er um að villast, að búseta hefur verið á Stöng allt frá landnámsöld fram yfir aldamótin 1200. Afstaða gjóskulaga á Stöng, t.d. vikurinn úr Heklugosinu árið 1104 þar sem hann er undir mannvistarlögum, sýnir einnig að bærinn getur ekki hafa farið í eyði vegna eldgoss í Heklu árið 1104.

Við lok rannsókna sumarið 1993 var hægt að sjá helming kirkjurústarinnar (A) með kór og hluta af smiðjunni (B), sem er beint undir kirkjunni. Grafir (A) frá notkunartíma kirkjunnar hafa verið grafnar í gegnum vesturvegg smiðjunnar og gegnum gólf (grátt á teikningu) skála, sem liggur undir smiðjunni. Eldahella (rauðbrún á teikningu) í gólfi skálagólfsins hefur varðveist. Kirkjan er aðeins tæplega 5 metra löng að innanmáli og 2,8 metra breið. Veggir eru eins metra breiðir, hlaðnir úr þremur lögum af grjóti og torfstreng. Nánustu hliðstæður kirkjunnar á Stöng er að finna á Sandey í Færeyjum og meðal kirkna á Grænlandi. Einnig munu vera til rústir um 50 torfkirkna í Norður-Noregi, en engin þeirra hefur verið rannsökuð. Teikn. VÖV.
Kirkja á Stöng
Samkvæmt fyrri kenningum um eyðingu byggðar í Þjórsárdal átti búseta á Stöng ekki að hafa verið langvinn. Lengi var talið að aðeins væri um eitt byggingaskeið að ræða á bænum. Nú leikur enginn vafi á því að búseta hefur verið þar frá lokum 9. Aldar allt fram á þá 13. Ein af þeim rústum sem rannsakaðar hafa verið er rúst lítillar torfkirkju með rómönsku lagi frá 11. öld (myndir), elstu kirkju sem rannsökuð hefur verið á Íslandi. Eldri kenningar gerðu ráð fyrir því að aðeins ein kirkja hefði verið í Þjórsárdal á fyrri hluta miðalda, þ.e. kirkjan að Skeljastöðum. Rannsókn fór fram á kirkjugarðinum á Skeljastöðum árið 1939.
Kirkjan á Stöng var rannsökuð að hluta til árið 1939, en þá var rústin kölluð útihús.
Við rannsókn á ruslalagi árið 1992, er myndast hafði fyrir utan þetta hús, fannst framtönn og kjálkabrot með jaxli úr manni á milli beina af stórgripum og annars úrgangs. Frekari rannsóknir leiddu í ljós grafir og kistuleifar í nokkrum grafanna. Útihúsið" reyndist þegar betur var að gáð vera rúst formfagurrar og haglega byggðar kirkju. Eitt vandamál blasti við okkur. Aðeins örfá mannabein fundust í gröfunum. Kjúkur og hnéskeljar í einni gröf og ein tönn og tábein í annarri. Ekki var hægt að skýra það hvað lítið fannst af beinum í gröfunum með lélegum varðveisluskilyrðum. Það sannaði heilleg beinagrind konu, sem ýtt hafði verið til hliðar er yngri kistugröf hafði verið grafin. Í yngri gröfinni voru hins vegar afar fá bein á ruglingi í fyllingu grafarinnar. Nokkra stund stóðum við ráðþrota yfir þessu vandamáli.
Eftir ábendingu frá lögfræðinema, sem tók þátt í rannsókninni á Stöng skýrðist málið. Hann benti höfundi á stað í Grágás, elsta lagasafni íslensku.
Af beinaflutningi
Kirkja hver skal standa í sama stað sem vígð er, ef það má fyrir skriðum eða vatnagangi eða eldsgangi eða ofviðri, eða héruð eyði af úr afdölum eða útströndum. Það er rétt að færa kirkju ef þeir atburðir verða. Þar er rétt að færa kirkju ef biskup lofar. Ef kirkja er upp tekin mánuði fyrir vetur eða lestist hún svo að hún er ónýt, og skulu lík og bein færð á braut þaðan fyrir veturnætur hinar næstu. Til þeirrar kirkju skal færa lík og bein færa sem biskup lofar gröft að.
Þar er maður vill bein færa, og skal landeigandi kveðja til búa níu og húskarla þeirra, svo sem til skipsdráttar, að færa bein. Þeir skulu hafa með sér pála og rekur. Hann skal sjálfur fá húðir til að bera bein í, og eyki til að færa. Þá búa skal kveðja er næstir eru þeim stað er bein skal upp grafa, og hafa kvatt sjö nóttum fyrr enn til þarf að koma, eða meira mæli. Þeir skulu koma til í miðjan morgun. Búandi á að fara og húskarlar hans þeir er heilindi hafa til, allir nema smalamaður. Þeir skulu hefja gröft upp í kirkjugarði utanverðum, og leita svo beina sem þeir mundu fjár ef von væri í garðinum. Prestur er skyldur að fara til að vígja vatn og syngja yfir beinum, sá er bændur er til. Til þeirrar kirkju skal bein færa sem biskup lofar gröft að. Það er rétt hvort vill að gera eina gröf að beinum eða fleiri...(Byggt á Grágásarútgáfu Vilhjálms Finsens 1852).
Það hlýtur að hafa verið beinaflutningur eins og þessi, sem lýst er í Grágás, sem átti sér stað á Stöng. Allt bendir til þess, og að meginástæðan fyrir honum hafi verið eldgos í Heklu. Hvíti vikurinn, sem Hekla spjó árið 1104, hefur líklega enn hulið jörð að einhverju leiti er grafir voru tæmdar á Stöng. Þá fylltust nokkrar grafir að hluta til af vikrinum er þær voru tæmdar við beinaflutninginn. Hugsanlega hafa íbúar á Stöng yfirgefið bæinn um skeið, en þeir komu aftur og tóku kirkjubygginguna í notkun, nú sem útihús og minnkuðu húsið, reistu torfvegg um þveran kór kirkjunnar og fyrir vesturgafl, þar sem áður hafði verið brjóstþil. Smátt og smátt hafa áhrif vikursins þverrað. Yfir gröfunum í kirkjugarðinum myndaðist ruslalag úr úrgangi fólks sem bjó á Stöng fram til ca. 1225 ef dæma á út frá aldri forngripa og niðurstöðum geislakolsaldursgreininga.
Neðarlega í því lagi fannst síðan tönnin og kjálkabrotið sem beinaflutningsmönnum hefði yfirsést, en sem leiddi fornleifafræðinga, 800 árum síðar, í sannleikann um elstu kirkju landsins.
Dómsdagur
Á þennan hátt getum við ímyndað okkur að ákvæðum Grágásar hafi verið framfylgt á Stöng, en hver er skýringin á þessum beinaflutningum. Svarið er að finna í hugmyndaheimi miðaldamanna um hinn hinsta dag, dómsdag, þegar Kristur skyldi koma og dæma lifendur og dauða". Dómsdagstrúin var mjög mikilvæg miðaldamönnum. Dauðinn var á fyrri hluta miðalda túlkaður sem biðstaða, meðvitaður svefn fyrir hinn hinsta dóm. Gröfin, var eins og í gyðingdómi, hús lífsins og gleðinnar", staður þar sem mennirnir biðu með tilhlökkun og gleði eftir því sem koma skyldi á hinum hinsta degi er englar Herrans blésu í lúðra sína og legsteinum yrði velt frá gröfum í jarðhræringum og menn yrðu dæmdir hinum stóra dómi. Kristur kom með litlum fyrirvara. Því var mikilvægt fyrir þá dauðu að liggja reiðubúnir í gröfum sínum, það voru þeir ekki í gröfum við kirkju sem lögð hafði verið niður. Ákvæði Grágásar eru í fullu samræmi við dómsdagsspár Biblíunnar og beinaflutningsákvæðin eiga vel við í landi eldfjalla og jarðskjálfta, sem óneitanlega hafa minnt fólk á fyrirheit Biblíunnar.
FRÁ RANNSÓKN í kirkjugarðinum á Skeljastöðum í Þjórsárdal 1939. Beinin heilla. Allar upplýsingar um konuna til hægri væru vel þegnar.
GAMLA kirkjan á Skútustöðum við Mývatn árið 1896. Kirkjan hafði verið lögð af nokkru áður en myndin var tekin. Bygging þessi, sem hefur verið áþekk kirkjunni á Stöng, sýnir hina sterku formhefð sem ríkti í íslenskri kirkjubyggingalist frá öndverðu fram á 19. öld. Ljósm. H. Herdegen 1896. Nationalmuseet Kaupmannahöfn.
Þess má geta að þegar tíund var komið á árið 1096 eða 1097 hefur kirkjum væntanlega fækkað til muna hér á landi í kjölfarið. Gæti það einnig hafa verið ástæða fyrir beinaflutningum á 12. öld og önnur ástæða þess að kirkjuhald á Stöng lagðist af. Hvert beinin frá Stöng voru flutt vitum við ekki, en það hlýtur að hafa verið til sóknar- eða graftrarkirkju í sæmilegri fjarlægð frá Stöng, þar sem þau hafa væntanlega verið sett í fjöldagröf eða stakar grafir eins og Grágas boðar. Vart hafa beinin verið grafin á Skeljastöðum í Þjórsárdal, þar sem ekki fundust merki um flutning beina er kirkjugarður var rannsakaður þar árið 1939. Hugsanlega var grafið að Skriðufelli, þar sem vitað er til að hafi verið bænahús eða að landnámsjörðinni Haga, þar sem vitað er um kirkjugarð er kom í ljós er hús var byggt á 6. áratug þessarar aldar. Á íslandi hafa enn ekki fundist bein, sem flutt hafa verið á þennan hátt, en á Grænlandi er hugsanlega hægt að finna slík um atburðum stoð.
DAUÐIR rísa upp á hinsta degi. Úr tékknesku handriti frá 11. öld.
Við fornleifarannsóknir á kirkju þeirri sem er kennd við Þjóðhildi konu Eiríks rauða í Brattahlíð, fundust á fyrri hluta 7. áratugarins nokkrar grafið með beinum, sem höfðu verið flutt annars staðar frá. í einni fjöldagröfinni fundust bein 13 einstaklinga, fullorðinna og barna. Ekki er ólíklegt að á Grænlandi hafi verið í gildi svipuð ákvæði og í Kristinna laga þætti í Grágás og að bein hafi verið flutt frá kirkjum er lagst höfðu af. Hingað til hefur fjöldagröfin í Brattahlíð verið tengd Þorsteini Eiríkssyni rauða. Þorsteinn var að ná í lík bróður síns, sem hafði dáið á Vínlandi, er hann þurfti að hafa vetursetu í Lýsufirði í Vestribyggð. Þar dó hann sjálfur af sótt og allir hans menn.
Sagan segir að lík þeirra hafi verið flutt til Brattahlíðar og að prestur hafi sungið yfir þeim. Kolefnisaldursgreiningar, sem nýverið voru gerðar á beinunum úr fjöldagröfinni við Þjóðhildarkirkju, sýna, að beinin eru frá 12. öld og geta því ekki verið af Þorsteini og mönnum hans.
Flutningur á beinum forfeðranna hefur haft afar mikla þýðingu fyrir fjölskylduna á Stöng. Hún bjó í sjónmáli við gáttir helvítis, þar sem logamir brutust út að meðaltali einu sinni á mannsævi, og minntu á hvað beið hinna syndugu. Þetta hlutverk Heklu þótti óumdeilanlegt á miðaldavísu og kemur það greinilega fram í áðurnefndri Bók Undranna eftir Herbert kapellán frá Clairvaux, þegar hann skrifar um íslensk eldfjöll: Hinn nafnfrægi eldketill á Sikiley, sem kallaður er strompur vítis, - en þangað eru dregnar sálir dauðra, fordæmdra manna til brennslu, eins og oft hefur verið sannað, - hann er að því, er menn fullyrða eins og smáofn í samjöfnuði við þetta gífurlega víti.
Höfundur er fornleifafræðingur.
Grein þessi birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 18. janúar 1997.
Heimildir:
Sigurður Þórarinsson 1952: Herbert múnkur og Heklufell. Náttúrufræðingurinn 22. árg.; 2.h. , 1952, bls. 49-61.
Vilhjálmur Finsen 1852: Grágás, Islændingenes Lovbog i Fristatens Tid. Udgivet efter det Kongelige Bibliotheks Haandskrift og oversat af Vilhjálmur Finsen for de nordiske Literatur-Samfund. Förste Del. Text I. Kjöbenhavn.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1996: Gård og kirke på Stöng i Þjórsárdalur. Reflektioner på den tidligste kirkeordning og kirkeret pá Island. í J.F. Krøger og H.-R. Naley (ritstj.) Nordsjøen. Handel religion og politikk. Karmøyseminaret 1994 og 1995, bls. 119-139. Dreyer Bok Stavanger.
Sami 1996: Ved Helvedets Port. Skalk. nr. 4, bls. 11-15.
Myndin efst: HUGMYND höfundar að útliti kirkjunnar á Stöng. Teikn. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1996
Til vinstri á spássíunni er ýmis konar fróðleikur um Stöng og Þjórsárdal.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Slysin eru mörg
19.6.2012 | 12:47
Orri Vésteinsson er í dag (19. júní 2012) í Morgunblaðinu með heilmikla orrahríð í garð Menntamálaráðuneytisins vegna nýrra þjóðminjalaga, Laga um menningarminjar, sem hafa verið til umræðu á Alþingi. Kallar Orri grein sína Menningarslys.
En slysin eru að mati Fornleifs ærið mörg, ekki aðeins í gerð skriffinna á lögum til að þjónka við önuga og deilukennda stétt, þar sem siðferðið hefur ekki alltaf verið upp á marga fiska.
Kannski mætti Orri hafa stílað ádeiluna á fleiri en hið illa mannaða ráðuneyti, sem og aðra þætti sem valda því hægt er að deila á þessi nýju lög. Miðað við breytingartilögur á breytingartillögur allsherjar- og menntamálanefndar sjálfrar og umræðuna, sem hægt er að hlusta á á vef Alþingis, eru lögin illa unnin og gerð í litlu samráði við þá sem vinna eiga eftir þeim og af greinilegu áhugaleysi stjórnmálamanna, sem flestir hafa litla burði og getu til að vinna með þennan málaflokk.
Áhyggjur prófessors Orra, sem reyndar er sérfræðingur í sagnfræði, (sem er nú líka gamalt slys móðgun við stétt fornleifafræðinga), eru skiljanlegar. Deild sú við HÍ, sem hann stýrir, hefur pungað út fjölda fornleifafræðinga sem lítið eða ekkert fá að gera ef skráninga fornleifa falla nú að mestu á sveitarfélögin, misjafnlega illa efnuð. Sjá hér
Getur verið of mikil gróska í grein?
Vegna þeirra óhemjumiklu og í raun óeðlilegu grósku í íslenskri fornleifafræði, sem er meiri en annars staðar miðað við íbúafjölda landsins, þá munu stúdentarnir hans Orra ekki fá vinnu við skráningu í eins miklum mæli og hingað til. Víða er þegar búið að skrá fornleifar í ríkari sveitarfélögum landsins. Annars staðar er ekki til stök króna til slíkra verka.
Þannig verða fyrirtæki, sem lifað hafa af fornleifaskráningu, af fjármagni, t.d. það fyrirtæki sem Orri tengdist og tengist á vissan hátt enn, Fornleifastofnun Íslands. Sú stofnun", sem er reyndar bara sjálfsbjargarviðleitnisfyrirtæki úti í bæ, notar nafn eins og væru um opinbert apparat að ræða. Fyrirtæki þetta hefur notið mest allra góðs af því góðæri sem hefur ríkt í stuðningi til íslenskrar fornleifafræði og af framkvæmdagleðinni fyrir 2008-hrunið. Fornleifastofnun Íslands hefur notið ríkulegs stuðnings frá ríkinu, sem undrar miðað við stapp sem þetta fyrirtæki hefur átt í við ráðuneytið, Fornleifavernd Ríkisins og svo keppinauta sína. Fornleifavernd Ríkisins er einnig afar umdeild "stofnun", eins og málin með Þorláksbúð sýna best. Fornleifavernd á nú að setja undir einn og sama hatt með Húsafriðunarnefnd og er skálmöldin og slagurinn um stöður við þá stofnun þegar hafin að mér skilst. Það mun ekki verða friðsamlegt ferli.
Það er þó ekki eins og fornleifarnar séu allar að hverfa vegna skráningarleysis ef ríkið borgar ekki skilyrðislaust fyrir endalausar fornleifaskráningar. Þær munu hvort sem er verða skráðar og rannsakaðar ef til framkvæmda kemur á ákveðnum svæðum og svæðið fer í umhverfismat eins og vera ber.
Það sem nýju lögin hefðu átt að innihalda voru miklu frekar greinar um skipulega skráningu fornleifa í hættu vegna landbrots og skógræktar, svo eitthverrjar af hættunum séu nefndar. Það gætu flest sveitarfélög kostað og ríkið jafnvel líka, þótt það eyði frekar fé í ESB-ferlið. Í ESB hafa fornleifafræðingar það alls ekki eins gott og hin litla klíka sem hrifsað hefur til sín öll verkefni á Íslandi, jafnvel með aðstoð risavaxins prófessors úti í heimi, sem reyndi að neyða íslenskan stúdent úr doktorsnámi hér um árið til að hjálpa samstarfsaðilum sínum hjá Fornleifastofnun Íslands að komast yfir arðbær" verkefni á fornleifamarkaðnum. Sami prófessor lofaði mér að koma í veg fyrir að ég fengi nokkurn tíma vinnu í íslenskri fornleifafræði og að fjármagni frá BNA sem hingað til hafði runnið til fornleifaævintýra hans á Íslandi yrði beint "to the Soviets" eins og hann orðaði það.
Fyrst og fremst verktakar, svo fornleifafræðingar
Verktakaæðið í íslenskri fornleifafræði, þar sem margir voru undir pilsfaldi eða til reiðar við stóra prófessorinn í New York, er líklega að líða undir lok. Fornleifafræðin er vonandi að verða að fræðigrein, þar sem menn básúna sig aðeins minna í fjölmiðlum á sumrin en þeir hafa gert hingað til, um grænlenska sjúklinga, fílamenn, verstöð fyrir landnám og aðrar innihaldslausar sensasjónir og rugl.
Kennsla í fornleifafræði á Íslandi er kannski ekki eins nauðsynleg og halda mætti. Nám við erlenda háskóla í þeim löndum sem Ísland hafði menningartengsl við, er mun farsælli leið til að læra um fyrri aldir á Íslandi, en heimalningsfornleifafræði sú sem mér sýnist hafa verið kennd við HÍ. Í HÍ hafa skoðanir ákveðinna manna voru kenndar meðan aðrir fengu ekki rit eftir sig á lestralista deildarinnar.
Ef maður skoðar sumar ritgerðir í fornleifafræði við HÍ, sem hægt er að sjá á netinu er furðulegt hve lítil þekking er á menningarleifum og forngripafræði Norðurlandanna og annarra nærliggjandi landa. Það hlýtur að endurspegla kennsluna og leiðsögnina. Menn eru t.d. að skrifa um ákveðna gerð gripa en vantar helstu heimildir frá öðrum löndum. Menn geta ekki látið sér nægja nám við HÍ í fornleifafræði og ættu að leita út fyrir landsálana.
Fornleifafræðin á Íslandi gæti með tímanum orðið eins og Íslenskudeildin, þar sem menn voru fram eftir öllu að spá í hluti sem litlu máli skiptu, svo sem hver hefði skrifað Íslendingarsögurnar. Á meðan voru fræðimenn erlendis að nýta sér íslenskar miðaldabókmenntirnar á allt annan og frjósamari hátt. Einnig má nefna blessaða jarðfræðideildina (skorina), þar sem orð ákveðinna manna voru boðorð og trúarbrögð, og menn voru lagðir í einelti ef þeir dirfðust að andmæla.
Það þurfti t.d. jarðfræðing frá skoskum háskóla til að skilja og sjá að tilgátur mínar um að gosið í Heklu árið 1104 hefði ekki lagt byggð í Þjórsárdal í eyði. Fram að því höfðu flestir íslenskir jarðfræðingar og fornleifafræðingar með þeim ekki tekið það í mál. Þeir höfnuðu því án rannsóknar, að leirkersbrot frá 13. öld sem fundist hefur á Stöng í Þjórsárdal væri frá þeim tíma, eða aðrir gripir sem greinileg gátu ekki verið frá því fyrir gosið 1104. Menn þögnuð svo þegar kolefnisaldursgreiningarnar komu og kirkjan á Stöng og kirkjugarðurinn, sem ekki átti að vera það. Þegar 1104-gjóskan fannst undir mannvistarlögum fóru að renna á mennt tvær grímur. En þegar kom í ljós við rannsóknir annarra, að ég hafði á réttu að standa um endalok byggðar í Þjórsárdal, tók maðurinn sem hrópar nú á síðu 17 í Mogganum um Menningarslys, það að sér í vísindagreingrein sem hann léði nafn sitt líkt og stóri prófessorinn í New York, sem lofaði mér útilokun frá íslenskri fornleifafræði, að reyna að hylma yfir það sem ég hafði skrifað um endalok Þjórsárdal. Ein aðferðin var að vitna aðeins í elstu greinarnar eftir mig, sjá hér.
Prófessorar í fornleifafræði geta því einnig, að mati Fornleifs, hæglega valdið menningarslysum á Íslandi og ekki tel ég víst að þeir séu að hugsa um hag greinarinnar þegar þeir deila á ný lög. Hagur fyrirtækis vinanna á Fornleifastofnun Íslands liggur að mínu mati miklu nær hjarta Orra Vésteinssonar.
![]() |
Orri Vésteinsson: Menningarslys |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fornleifafræði | Breytt 14.7.2012 kl. 03:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað er í deiglunni ?
18.6.2012 | 08:39
Vaðlaheiðargöng er greinilega til annars nýt en að flýta fyrir ferðum manna inn í óörugga framtíð.
Greint var frá því á RÚV í fyrir nokkrum dögum, að fornleifafræðingar væru í óða önn að finna mikinn járnframleiðslustað frá miðöldum, þar sem Vaðlaheiðargöngin eiga að byrja að austanverðu.
Þetta er stórmerkur fundur og ljótt til þess að vita að þarna vinni fornleifafræðingar í kappi við klukkuna, fyrir skít á priki, til að rumpa af rannsóknarvinnu við það sem virðist einn heillegasti járnframleiðslustaður sem fundist hefur á Íslandi, og jafnvel smiðjustarfsemi líka. Greinilegt er af frétt Sjónvarps, að fornleifafræðingurinn heldur á deiglu. Kannski var þarna járnblástur og smiðja í tengslum við hann. Í fljótu bragði sýnist mér allt benda til þess að þarna sé verið að grafa upp stóra smiðju og það sem henni tengdist.
Fornleifur skorar á framkvæmdavaldið að gera þessari rannsókn hátt undir höfði og veita ríflegt fé í hana, svo heimildir fari ekki forgörðum. Þarna verður að ljúka rannsóknum að fullu.
Þarna við gangnamunnann bætist vonandi við vitneskja, t.d. við þá merku rannsókn á stórtækum rauðblæstri sem dr. Ragnar Eðvarðsson stýrði fyrir nokkrum árum síðan á Hrísheimum í Mývatnsheiði. Þar fundust einnig miklar leifar eftir járnvinnslu frá 10. og 11. öld. Sjá hér.
Fornleifar | Breytt 23.6.2012 kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gleðilega hátíð !
17.6.2012 | 18:13
Fornleifur bætir hér við fánaskrúð þjóðhátíðardagsins með íslenskum fánum úr hollenskum og belgískum Turmac sígarettupökkum frá 4. áratug síðustu aldar. Sjá ítarlegar hér.
Tapað fundið
14.6.2012 | 18:57
Í nýjasta hefti SKALK, hinu vinsæla, danska riti um fornleifafræði og sögu, er áhugaverð grein eftir ungan fornleifafræðing, Jens Winther Johannsen.
Greinin fjallar um grænlenskan grip sem fannst nýverið við fornleifarannsóknir í tengslum við byggingu neðanjarðarlestarstöðvar við Østerport í Kaupmannahöfn. Gripurinn grænlenski hefur endað í díki við Eystrahlið um miðja 17. öld.
Gripurinn er teinn eða oddur með krókum úr beini. Oddurinn er spjótsoddur af grænlensku fuglaspjóti, spjóti sem var kastað úr kajökum með kasttrjánungi. Gerir höfundur greinarinnar grein fyrir sögu þeirra Grænlendinga sem rænt var á ferðum Dana til Grænlands. Þeir voru færðir til Kaupmannahafnar á fyrri hluta 17. aldar til að svala forvitni konungs og svo hægt væri að uppfræða þau útí Guðshræðslu, Tungunni og borgaralegum Sýslum". Rekur Johannsen sögu þeirra í stórum dráttum og leggur til að spjótsoddurinn, sem fornleifafræðingar fundu í Kaupmannahöfn, hafi týnst er Grænlendingar sýndu norska fræðimanninum Jens Bjelke spjótið einhvers staðar við Østerport, og hafi oddurinn síðar ratað í díkið.
Persónulega finnst mér mun líklegra að einn hinna nauðugu Grænlending, sem dauðleiddist í Kaupmannahöfn og dóu flestir úr þunglyndi þótt þeim hafi annars verið lýst sem glaðværu fólki, hafi eitt sinn læðst út á andaveiðar og verið að veiða sér önd í matinn á díkjum Kaupmannahafnar er oddurinn brotnaði af kastspjótinu.
Svo mikið leiddist Grænlendingum í flatneskju Kaupmannahafnar, að þeir reyndu að strjúka á konubáti sem þeir smíðuðu sér, en komust aðeins yfir á Skán, þar sem þeir bjuggu í góðu yfirlæti hjá skánskum bændum áður en þeir voru fluttir aftur leiðindi Kaupmannahafnar.
Ég get ekki sagt meira um þennan skemmtilega fund við Østerport, nema að ég brjóti höfundarétt, og bendi lesendum á að finna sér eintak af Skalk nr. 2012 á bókasafni á Íslandi til að frétta frekar af örlögum frænda vorra á Grænlandi í kóngsins Kaupmannahöfn. Því óneitanlega er þetta merkilegur fundur, sem tengist enn merkilegri örlagasögu.
Einhvern tíman munu líklega finnast sauðskinnskór íslenskir með leppum í díkjum Kaupmannahafnar. Íslendingar köstuðu hins vegar svo vitað sé reiðhjólum í ölæði í díki Kaupmannahafnar, eins og menn geta lesið um í dönskum lögregluskýrslum sem upplýsa, að sökudólgarnir hafi verið tveir fornleifafræðingar, færeyskur og íslenskur - þó ekki sá er þetta skrifar. Kannski segir maður frá þeirri uppákomu í seinni tíma annálum á blogginu Fornleifi.
Efst er mynd af Grænlendingnum Poq, sem að eigin frjálsum og fúsum vilja fór til Danmerkur árið 1724, svo það var líklega ekki hann sem tíndi örvaroddi sínum. Hann var fyrsti Grænlendingurinn sem tókst að snúa aftur á lífi til síns heima eftir dvöl í hjarta ríkisins. Á málverkinu, sem nú hangir í Þjóðminjasafni Dana, þar sem einnig sést Piqueroq samlandi Poqs, heldur Poq á spjóti með króksoddum af sömu gerð og oddurinn sem fannst í 17. aldar lögum í díkinu við Østerport, og sömuleiðis kasttrjáningur eða teinn sá sem notaður var til að kasta fuglaspjótinu.
Forngripir | Breytt 25.9.2014 kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nálhúsið og hrosshárin frá Stöng
12.6.2012 | 09:15
Fimmtu getraun Fornleifs lauk eftir um það bil einn sólahring, þegar Bergur Ísleifsson gaf okkur rétt svör við öllum spurningum. Skulda ég nú lesendum Fornleifs ítarlegri upplýsingar um hrosshárið sem myndin með getrauninni var af.
Rannsóknir mínar á Stöng í Þjórsárdal hófust árið 1983. Þjóðhátíðarsjóður gaf mér það sumar smápening til rannsóknarinnar, sem dugðu fyrir nokkurra vikna launum fyrir tvo stúdenta. Árangurinn var góður. Við rannsókn á gólflögum skálans, sem enn stendur opinn á Stöng og er yfirbyggður, fundust eldri, óhreyfð gólflög, og sömuleiðis veggur eldri skála undir þeim sem nú er opinn gestum.
Nokkrir merkir gripir fundust við rannsóknina, en sá merkilegasti kom á næstsíðasta degi rannsóknarinnar. Það var nálhúsið sem þið sjáið hér á myndinni efst.
Nálhúsið fann ég í neðst í gólflagi skálans sem liggur undir yngsta skálanum sem til sýnis er í dag. Nálhúsið fannst rétt fyrir framan pallinn (setið) sem var meðfram veggjum skálans, framarlega (austast) í skálanum.
Ég og Einars Jónsson lögfræðingur og þá sagnfræðinemi, sem vann með mér, trúðum ekki okkar eigin augum og ánægja okkar fóru ekki framhjá hópi ferðamanna sem kom í heimsókn nokkrum mínútum eftir að við fundum hlutinn. Þar fór fyrir hópi Sigurjón heitinn Pétursson trésmiður, sem lengi var forseti borgarstjórnar í Reykjavík fyrir Alþýðubandalagið og einhverjir samflokksmenn hans og kollegar frá Norðurlöndum. Sigurjón fékk að höndla hlutinn og úrskurðaði með gantalegu brosi á vör að þetta hlyti að vera eitthvað stykki úr bíl og væri glænýtt.
Þó ég þekkti ekki neitt nálhús með þessu sama lagi, gerði ég mér strax grein fyrir því að þessi gripur væri nálhús, og staðfestu tveir sérfræðingar á Norðurlöndunum það, en þeir höfðu heldur ekki séð nálhús sem var með þessu lagi og töldu gripinn "austrænan".
Nálhúsið séð frá enda þess. Ljósm. VÖV.
Er gripurinn var kominn í hús, fór innihaldið í nálhúsinu að þorna, og losnaði það að lokum úr nálhúsinu. Þetta voru einhvers konar trefjar. Ég fór með þær til Danmerkur, þar sem þær voru greindar af dr. Jesper Trier forstöðumanni forvörslustofu Forhistorisk Museum Moesgård í Árósum, sem var á sama stað og fornleifadeildin við háskólann í Árósum, þar sem ég nam fræðin. Jesper Trier sem er "fiberolog" og hafði sérhæft sig í alls kyns tægjum og taugum í egypskum fornleifum, var ekki í miklum vafa þegar hann brá ögn af hárinu undir smásjána. Þetta voru samankuðluð hrosshár, sem ugglaust er ekki mikið öðruvísi en hrosshár af hesti Faraós.
Hrosshárin í nálhúsinu. Ljósm. VÖV.
Hrosshárum hefur líklega verið troðið inn í rör nálhússins, sem var opið í báða enda, og það gegnt því hlutverki að halda nálunum í skorðum. Ekki veit ég hvort hrosshár séu betri til þess arna en t.d. ull, en hver veit?
Aldursgreining á birkikolum og beinum úr gólflagi því sem nálhúsið fann hefur sýnt, að gólfið og húsið sé frá 11. öld. Sjá t.d. hér.
Ég tel að nálhúsið á frá Stöng geti allt eins verið íslensk smíð. Á Stöng var smiðja á 10 öld, þar sem menn unnu með kopar og á nálhúsinu er skreyti Þjórsárdals, sem er hringur með punti í miðjunni, svokallaðir "Circle-dot" eða "konsentrískir hringir", sem reyndar er líka mög algengt skreyti um allan heim. En í Þjórsárdal eru flestir gripir með skreyti einmitt með þetta einfalda, alþjóðlega "mynstur".
Nálhúsið hefur farið á sýningar í 4. löndum og talað hefur verið um að framleiða eftirlíkingar af því til sölu, og þætti mér það í lagi ef einhver hluti gróðans af slíku framtaki, sama hvað lítill hann yrði, færi á einhvern hátt í áframhaldandi rannsóknir á Stöng í Þjórsárdal, sem mér hefur reynst erfitt að fjármagna.
Nálhúsið er nú til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands í hinu kjánalega Þjórsárdalsbúri", sem er glerkassi hálffullur af vikri sem eitthvert hönnuðargrey hefur flippað út með í föstu sýningu safnsins. Kassinn á að gefa tilfinningu af eldvirkni og eyðingu byggðar. Eldvirkni, ein og sér, eyddi reyndar ekki búsetu á Stöng eða byggð í Þjórsárdal, svo kassinn er út í hött. Einnig er bagalegt, að vart er hægt að sjá gripina frá Þjórsárdal vegna þess að of dimmt er í þessum eldakassa Þjóðminjasafnsins, sem verður líklega að teljast eitt kjánalegast gimmick safnasögu Íslands. Vikurinn, sem notaður er í þennan undrakassa, er ekki eini sinni vikurinn úr Heklugosinu 1104, sem um tíma var talið að hefði grandað byggð í dalnum. Nú hafa fornvistfræðingar og jarðfræðingar einnig gert sér grein fyrir því, að Þjórsárdalur lagðist fyrst í eyði á 13. öld.
Ítarefni
Sami (1992) Færsla um grip númer 590 b í sýningarskránni Viking og Hvidekrist. Norden og Europa800-1200 (From Viking to Crusader; Wikinger, Waräger, Normannen; Les Vikings... Les Scandinaves et l'Europe800-1200) fyrir sýninguna Viking og Hvidekrist, sem var sett upp á Þjóðminjasafni Dana árið 1992 (sýningin var einnig í Paris - Berlín - Kaupmannahöfn 1992-93). Nordic Council of Ministers in collaboration with The Council of Europe; The 22nd Council of Europe Exhibition 1993.
Sami (1994) "Nálhús frá Stöng í Þjórsárdal. Í Á. Björnsson (red.). Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjasafn Íslands, Hið íslenska Bókmenntafélag. Reykjavík 1994.
Fornleifar | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5. getraun Fornleifs
10.6.2012 | 15:31
Fornleifur spyr eins og sauður að fornum sið: Hvaeretta á myndinni?
Veit hann það vel sjálfur, enda er leikurinn til þess gerður, að allir nema fornleifafræðingar svari. Fornleifafræðingar geta bara etið það sem úti frýs.
Vissuð þið, að hvergi í heiminum eru hlutfallslega til eins margir fornleifafræðingar eins og á Íslandi? Sú spurning er ekki hluti af getrauninni, en frekar spurning um raunalegt ástand, sem veldur því nú að þessi miklu fjöldi ágætu fornleifafræðinga mótmælir nýjum og illa hugsuðum Þjóðminjalögum sem greinilega voru ekki skrifuð af fornleifafræðingum. En var nú viturlegt að stofna fornleifafræðideild við Háskóla Íslands til að ala á heimalningshætti, skyldleikarækt og atvinnuleysi í greininni, þar sem fræðimennska er enn af skornum skammti, en stórtæk garðyrkja, óhemjuleg skurðagerð með tilheyrandi yfirlýsingagleði því mun algengari? Ef þið hafði skoðanir á því, lát heyra. En hér skal venjulegu fólki með áhuga á miklum aldri fyrst og fremst svara eftirfarandi spurningum
- A) Hvað er það sem á myndinni sést?
- B) Hvar fannst það?
- C) Í hverju fannst það?
- D) Hvað var hlutverk þess?
Fornleifar | Breytt 11.6.2012 kl. 06:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Hver er konan til vinstri ?
8.6.2012 | 07:07
Beinin heilla, og konan hér á myndinni er engin undantekning frá þeirri reglu. Ljósmynd þessi, sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands, var tekin sumarið 1939 í Þjórsárdal, nánar tiltekið í kirkjugarðinum að Skeljastöðum, sem var nærri þar er Þjóðveldisbærinn stendur í dag.
Ég á fórum mínum ljósrit af dagbók Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar frá rannsókninni, sem hefur farið framhjá ýmsum sem telja sig hafa gert rannsóknum í Þjórsárdal skil. Ekki kemur þar fram hvaða heimsókn þessi kona tengdist. Sumir, sem séð hafa mynd þessa hjá mér, létu sér detta í hug dr. Ólafíu Einarsdóttur, sem var fyrsti viðurkenndi fornleifafræðingur Íslands. Það þykir mér sjálfum ólíklegt, þar sem ég man eftir Ólafíu sem mun breiðleitari konu af Mýrarkyni með allt öðruvísi nef en konan sem skoðaði og kjassaði beinin í Þjórsárdal sumarið 1939. En hver veit?
Myndirnar sem teknar voru í garðinum þann dag sem konan lagðist með beinunum, eru einar af þeim fáu sem teknar voru af rannsókninni að Skeljastöðum, þar sem Matthías Þórðarson sem gróf að Skeljastöðum tók ekki ljósmyndir.
Til fræðslu fyrir þá sem alltaf eru halda því fram að beinin í Skeljastaðagarði hafi legið í gjósku frá Heklugosinu árið 1104, t.d. jarðfræðingur nokkur sem aldrei kom til Skeljastaða þegar verið var að grafa þar, þó svo að hann væri með í rannsókninni í Þjórsárdal árið 1939, þá má vera augljóst af myndunum , að svo er ekki. Þótt myndin sé svarthvít, get ég séð, að askan sem liggur undir konunni og beinunum er H3 gjóskan, sem er forsögulegt lag sem Hekla spjó yfir Þjórsárdal og víðar fyrir einum 2900 árum síðan, en gjóska þessi hefur víða blásið upp og flust mikið til, enda mjög létt. Flest mannabein í kirkjugarðinum lágu á uppblásnu yfirborðinu og höfðu bein sést þar í langan tíma og verið tekin af læknastúdentum og nasistum. Mun ég greina frá því betur síðar.
Allar upplýsingar um konuna til vinstri á myndinni (til hægri á þeirri neðri) væru vel þegnar. Einhver sonur eða dóttir þekkir kannski móður sína í hlutverki hinnar ungu og glaðlegu konu, sem greinilega hafði áhuga á fornum leifum og skjannahvítum beinum.
Saga íslenskrar fornleifafræði | Breytt 9.6.2012 kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Glataði sonurinn er fundinn
3.6.2012 | 15:34
Leiklistarsaga og saga kvikmynda eiga náð fyrir ásjónu Fornleifs, enda hvortveggja búið að gerjast á meðal okkar í meira en 100 ár.
Hér skal greint frá búningum sem teiknaðir voru fyrir leiksýningu í Drury Lane Royal Theatre í Lundúnum árið 1905, og sem verður að telja hluta af íslenskri leiklistarsögu, þótt Íslendingar hafi lítið komið þar nærri, en leikritið gerðist reyndar á Íslandi - eða einhvers konar Íslandi.
Um aldamótin 1900 heimsótti breski rithöfundurinn Hall Caine Ísland og heillaðist af þjóð og landi. Hann ferðaðist eitthvað um Ísland. Er heim var komið, hóf hann að rita sígilda sögu um glataða soninn, sem hann staðsetti á íslensku sviði og í þeirri náttúru sem heillaði hann. Verk hans The Prodigal Son kom út árið 1904 hjá Heinemann forlaginu og seldist vel í hinum enskumælandi heimi. Hall Caine, sem hafði alist upp á eyjunni Man, var einn af vinsælustu höfundum síns tíma, en í dag telst hann ekki lengur til sígildra höfunda, enda var hann uppi á tímaskeiði er leiklistarleg melódramatík og væmnisviðkvæmni voru í tísku.
Fljótlega var tekin ákvörðun um að setja verk Hall Caines á svið í Lundúnum. The Prodigal Son var sýnt við sæmilegar undirtektir, en ekki fyrir fullum húsum á fjölum Drury Lane Royal Theatre i Lundúnum. Handlitaða ljósmyndin hér fyrir neðan er einmitt tekin árið 1905 og sést skilti á leikhúsinu í Covent Garden sem auglýsir Glataða soninn.
Drury Lane Royal Theatre 1905
Hall Caine hafði þegar árið 1890 gefið út aðra sögu sem að hluta til gerðist á Íslandi og bar hún titilinn The Bondman: A new Saga (Leiguliðinn). Það leikrit var einnig sett á svið í Drury Lane Theatre árið 1906, en þá hafði atburðarásin, sem var sú sama og á Íslandi, verið flutt yfir á aðra eyju, allfjarri Ísalandi. Sikiley varð nú sögusviðið og í lok sýninganna, sem voru fáar, gaus Etna í stað Heklu. Sagan var kvikmynduð í Bandaríkjunum árið 1916.
Lítið er varðveitt frá sýningunni á Glataða syninum í Lundúnum nema frábærar vatnslitateikningar Attilio Comelli sem var einn fremsti leikbúningahönnuður í Lundúnum á þessum tíma. Fyrir fáeinum árum voru teikningar hans fyrir búninga sýningarinnar gefnar á V&A Museum (Victoria & Albert safnið), sem um sinn þjónar hlutverki leiklistasafns Breta, sem mun opna síðar í Covent Garden.
Skoðið svo teikningar Comellis hér (kvenbúningar) og hér (karlabúningar).
Ekki er gott að segja til um, hvort leikhúsið hafi fylgt öllum stúdíum Comellis, sem greinilega hefur leitað grasa í ýmsum verkum um Ísland. Ein mynd, sem Fornleifur hefur keypt vestur í Bandaríkjunum, af leikaranum Frank Cooper í hlutverki Magnús Stephensson á Drury Lane ári 1905, sýnir hann í búningi, kápu, sem svipar mjög til þess búnings sem Attilio Comelli teiknaði fyrir hlutverkið.
Frank Cooper i The Prodigal Son og teikning Comellis af frakkanum
Sumarið 1922 hélt 14 manna hópur frá Lundúnum til Íslands til að taka upp hluta af kvikmyndinni The Prodigal Son sem byggði á bók Hall Caines. Kvikmyndaleikstjórinn hét A.E. Coleby og var nokkuð vel þekktur á sínum tíma. Meðal leikaranna var ef til vill einn leikari sem var þekktur og lék í yfir 150 breskum kvikmyndum, en það var Stewart Rome (Wernham Ryott Gifford), sem lék eitt aðalhlutverkið, Magnús Stephensson. Kvikmyndin var m.a. tekin upp í húsi Ólafs Davíðssonar í Hafnafirði, sem varð að húsi Oscars Nielsens faktors í sögunni/myndinni, sem og á Þingvöllum. Filmur voru flestar framkallaðar á Íslandi. Heimsókn breska kvikmyndahópsins vakti töluverða athygli og var skrifað um hann í dagblöðum. The Prodigal Son var önnur leikna erlenda kvikmyndin sem tekin var á Íslandi.
Morgunbaðið birti mynd af hluta breska hópsins þann 16. ágúst 1922 (sjá ofar). og 30. júlí 1922 greindi blaði frá því að breskur læknir hafi slegist í för með hópnum sér til upplyftingar og hvíldar, eftir að hafa verið á vígstöðvunum í stríðinu. Læknirin hét dr. Moriarty ???. Hópurinn lenti m.a. í aftakaveðri. Skoðið það á timarit.is
Stewart Rome var mikill sjarmör
Stoll Picture Theatre, sem var fullbyggt árið 1911 og var tónleikahöllin m.a. framkvæmd Rogers Hammerstein hins bandaríska sjóvmanns, sem langaði að leggja Lundúnir undir fót. Það tókst ekki betur en svo, að hann tapaði 1/4 hluta þess fjár sem hann setti í verkefnið og tók þá Oswald Stoll (f. Grey) við taumunum. Þessi glæsilega höll var því miður rifin árið 1958. Mikil bíósaga fór þar forgörðum.
Kvikmyndin The Prodigal Son, sem frumsýnd var 1923, var löng og var sýnd í tveimur hlutum, og urðu sýningargestir því að fara tvisvar í bíó til að sjá hana til enda. Hún var frumsýnd í hinu risastóra Stoll Picture Theatre i Lundúnum. Gekk myndin fyrir fullu húsi í 6 vikur og einnig í öðrum kvikmyndahúsum í London.
Til Íslands kom kvikmyndin ekki fyrr en árið 1929, og var sýnd undir heitinu "Glataði sonurinn" og var svo að segja engin aðsókn að henni í Nýja Bíói, þar sem hún var aðeins auglýst í viku. Löngu áður en myndin kom til Íslands, var hún sýnd í Vesturheimi:
Þótt nokkuð hafi verið skrifað um sögur Hall Caines sem gerast á Íslandi í íslenskum dagblöðum, kom bókin ekki út á Íslandi fyrr en 1927 í þýðingu Guðna Jónssonar. 1971-72 var hún framhaldssaga í Tímanum. Það eru því ekki nema von að Framsóknarmenn komnir yfir fimmtug séu jarmandi væmnir og sentímental. Lesið bók Hall Caines á frummálinu hér.
Leiklistasaga | Breytt 12.6.2012 kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)