Orðskrípið "útstöð" er afar þunnur þrettándi

Screenshot_2020-05-23 Morgunblaðið - Minjarnar taldar vera af vinnustað

Íslenskir fornleifafræðingar, sumir nær sprellfrískir af færibandi HÍ, eru farnir að ofnota hið leiðigjarna nýyrði útstöð.

Útstöð kom fyrst inn í tungumálið svo vitað sé sem þýðing á tölvumáli, eða á því sem kallast Thin client

Útstöðin í íslensku fornleifaorðagjálfri (jargoni) er sömuleiðis orðinn frekar þunnur þrettándi. Upphafsmaður þessa orðs í íslenskri fornleifafræði er að öllum líkindum vinur minn, dr. Bjarni F. Einarsson, sem kallar aðra hverja rúst sem hann grefur upp, algjörlega án haldbærra sannana, vera útstöð og það frá "landnáminu" fyrir hefðbundna landnámið okkar sem hófst svona cirka 870-80. Frægust útstöðva útstöðva Bjarna er útstöðin á Stöðvarfirði. Bjarni telur að fiskur hafi verið fluttur út til Noregs í miklum mæli frá Stöðvarfirði og það á tímum þegar nóg framboð var á fiski í Noregi.

Nú sjáum við aðra afar þunna notkun á útstöð; það er á fornleifum sem sumir kalla Bergsstaði í Þjórsárdal. Þar er að sögn einnig komin útstöð eða með orðum fornleifafræðingsins sem þar rannsakar fyrir einkafyrirtækið Fornleifastofnun Íslands:  

»Ekki hafa verið nein hús á forn­leif­a­svæði í Þjórsár­dal sem kennt er við Bergs­staði. Ragn­heiður Gló Gylfa­dótt­ir, forn­leifa­fræðing­ur hjá Forn­leif­a­stofn­un Íslands, seg­ir að við fyrstu sýn virðist þetta hafa verið vinnustaður, svo­kölluð út­stöð.«

Fyrirsögn Morgunblaðsins er svo glæsileg að hún verður að fylgja:

»Minjarnar taldar vera af vinnustað Fornleifarannsókn í Þjórsárdal Munir tengjast vinnu á landnámsöld«

Já þetta er verulega lært. Það er samt með ólíkindum að því sé haldið fram að eitthvað sé útstöð, þegar kolefnisaldursgreiningar hafa t.d. ekki einu sinni verið gerðar á efnivið frá staðnum. Á Bergsstöðum hefur reyndar fundist Þórshamar sem að öllum líkindum er frá því fyrir 1000 e. Kr. Fundur hans árið 2018 hafði för með sér yfirlýsingar sem sýndi að þeir sem rannsökuðu á Bergstöðum höfðu afar takmarkaða þekkingu á fornleifum í Þjórsárdal, sem og á þórshömrum á Íslandi yfirleitt, eins og reifað var á Fornleifi (sjá hér). Námið í HÍ var vegið og léttvægt fundið.

Thors Hammer Bergsstadir 2018

Þórshamarinn frá Bergsstöðum, sem hér var settur var í samhengi sem fornleifafræðingar í HÍ þekktu alls ekki.

Ljóst er af þessu, að ekki var verið að flytja út fisk til Noregs frá Bergsstöðum eins og frá Stöðvarfirði fyrir landnám, en kannski hefur verið hörkuofframleiðsla á þórshömrum úr steini á þessari "vinnustaðar-útstöð".

Mér sýnist að stúdentum í fornleifafræði í HÍ sé ekki kennt að taka nútímagleraugun af nefinu þegar þeir spá í fornleifar. Það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir alvarlega sjónskekkju. Lágmarksþekking er einnig nauðsynleg.

Mér sýnist að uppgraftarstöðin Fornleifastofnun Íslands (sem er einkafyrirtæki) hafi fundið afar þunnan þrettánda (thin client) á Bergsstöðum og að þeir séu að gefast upp í kulda og vosbúð, þar sem ekki kom í ljós stór og mikil langhúsrúst. Þetta finnst mér furðuleg fornleifafræði. Ekki gefast upp gott fólk! Þið hafið að minnsta kosti fundið vinnustað og útstöð og jafnvel blómlega Þórshamraiðju - og undir landnámi er alltaf annað landnám eins og einn kollega minna segir. Grafið dýpra og finnið fleiri Þórshamra.

Fréttin segir einnig frá holu með fuglabeinum. Jú, það stemmir. gæsaveiðar hafa alltaf verið blómlegar á þessum slóðum, löglegar sem ólöglegar. Kannski var reykt gæs flutt út til Noregs.

Fornleifafræði á Íslandi er orðin ævintýri líkust.


Bloggfærslur 23. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband