Færsluflokkur: Fornvistfræði

Kamban og kalkúnninn

800px-Gefaelschtes-Truthahnfries-Ausschnitt

Það fer að líða að jólum og þá falla oft margir kalkúnar. Guðmundur Kamban var mikill áhugamaður um kalkúna og alveg er ég viss um að Sveinn Einarsson hafi sagt frá því í bók sinni um Kamban. En hvað sem því líður, þá læt ég söguna flakka hér, enda hef ég ekki lesið bókina hans Sveins.

Árið 1888 fékk forvörðurinn August Olbers þann starfa að forverja kalkmálverk í dómkirkjunni í Slésvík. Olbers var Ólafur forvörður síns tíma, en ekki eins vandaður af meðölum og Óli falsarabani nútímans. Olbers tók sig til og málaði stóra kalkúna hátt uppi við kirkjuhvelfinguna, kalkúna sem aldrei höfðu verið þar áður (sjá mynd). Enginn tók eftir þessum nýju kalkúnum sem bætt var við meistarastykki frá 14. öld.

Í byrjun árs 1939 fékk prófessor Fey frá Lübeck þann starfa að forverja kalkmálverkin í dómkirkjunni, en vegna veikleika þessa prófessors og eins samstarfsmanna hans, sem hét Lothar Malskat, fjölgaði nú kalkúnunum um helming.

Það fréttist í þetta sinn fljótt að kalkúnshanar væru efst uppi á veggnum undir kirkjuloftinu í Slésvík, og þótti mönnum það mjög merkilegt. Áður en menn vissu af, var heimsfrægur Íslendingur orðinn að helsta sérfræðingi nasista í kalkúnunum í Slésvík á miðöldum. Það var enginn annar en "Prófessor" Guðmundur Kamban. Prófessorstitlinum klíndu Þjóðverjar alltaf á Kamban, án þess að Kamban væri að fúlsa við því. Þar var hann ekkert öðruvísi en margur landi hans sem hefur gengið kinnroðalaust með falstitil.

header-schwahl

Kamban tjáði sig um kalkúnana, Die Truthahnen, í dómkirkjunni í skrifaði grein sem birtist í nasistafjölmiðlum um hvernig kalkúnninn hafði borist frá Vesturheimi til Evrópu með Íslendingum (sjá hér). Kamban taldi víst, að kalkúnarnir hefðu verið veiddir af norrænum mönnum og teknir með til Grænlands, fyrst og fremst karlfuglar, hanar, sem voru sterkari til feðralaga en kvenfuglinn. Myndir hrappanna Feys, Malskats og Olbers voru einmitt af kalkúna-hönum. 

Kamban taldi, að forfeður sínir hefðu haft fuglana sér til matar á langferðum sínum frá Vesturheimi og þannig hefðu þeir náð til Evrópu, löngu, löngu áður en Kólumbus lagði sér til munns "safaríkar" kalkúnabringur.

Lothar Malskat

Lothar Malskat (1913-1988) var frægur falsari og falsaði annað en kalk- og Kalkúnsmálverk. Grallaralegur var hann. Hann var mest leiður yfir því að prófessor Fey hefði fengið mestan heiður fyrir myndverkin af kalkúnunum í Slésvík. Fey fékk 20 mánuði í steininum en Malskat aðeins 18. (sjá)

Þannig var nú Kamban, íslenskur rugludallur, sem fólk vill hefja til skýjanna árið 2013. Árið 1952 viðurkenndi Lothar Malskat fyrir rétti í Lýbíku að hann hefði bætt við kalkúnum á kirkjuloftinu í dómkirkjunni í Slésvík árið 1938, og enn er hægt að sjá Kambanskalkúnana, því menn ákváðu að fjarlæga ekki fölsunina eins og gert var við aðrar falsanir sem Malskat málaði í Maríukirkjunni í Lýbíku.

Ég vona að Sveinn Einarsson sé mér ekki gaggandi reiður fyrir birta efni sem hann hlýtur að vera með í bókinni sinni um Kamban.

Leggur Fornleifur hér með til að Þakkargjörðarhátíðin, Thanks Giving, sem ameríkaníseraðir Íslendingar eru farnir að halda í miklum mæli, verði héðan í frá kölluð Kambansvaka, til heiðurs þessum fremsta sérfræðingi þjóðarinnar í kalkúnum.

Turkey

Kambankambankambankaka


Draumur fornleifafræðingsins

er að finna kúk. Einn slíkur, sem enn var mjúkur en frekar rýr, fannst um daginn í Óðinsvéum. Hann mun vera um 8-900 ára gamall og því jafnvel varðveittur og Landnámabók. Saur þessi er mikil og góð heimild um danska sögu ef marka má áhuga fjölmiðla.

Excrementum Othenarum

Excrementum Othenarum

Blaðamenn eru seigir að þefa og grafa upp skít, og einn fremsti rannsóknarblaðamaður Politiken labbaði einmitt framhjá holunni í hægðum sínum um leið og kúkurinn fannst in situ. Kúkurinn lyktaði enn. Blaðamaðurinn, sem ekki kallar allt ömmu sína þegar að kúkum kemur, spurði strax fornleifafræðingana, hvernig þeir vissu að þetta væri ekki manni. Vildu fornleifafræðingarnir ekki útiloka það, en töldu að hann væri of breiður til að hafa komið úr mennskum rassi. Þeir vita greinilega ekki hve stór sum rassgötin geta verið í blaðamannastétt. Sjá hér

Fullvissuðu fornleifafræðingarnir í Óðinsvéum blaðamanninn um að kúkurinn yrði rannsakaður betur en með lyktarskyninu einu, til að ganga úr skugga um hvað hundurinn hefði étið. Mann grunar að heilmargar aðrar upplýsingar gætu komið úr þessu stykki. Hvar hundurinn liggur grafinn fylgir ekki sögunni.

H. C. Andersen félagið í Óðinsvéum telur öruggt að hér sé fundið nýtt ævintýri meistarans. Leikmannafélag kaþólskra í Danmörku telur að þarna séu komin jarðteikn, helgir dómar heilags Knúts. Engar upplýsingar eru þó um slíkt í análum. Grænlenski róninn i Vestergade er hins vegar fullviss um að þetta sé tútílak tíkar hans sem fór á lóðarí um daginn. Hún er grafhundur, Canis archaeologorum.

Gott er að gamall saur leysist betur upp á Íslandi en í Danaveldi, því annars fylltust allar geymslur Þjóðminjasafnsins og varðveita þyrfti stykkin í gámum. Hugsið ykkur ástandið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband