Þegar Matthíasi var hent á haugana
3.6.2014 | 20:30
Nú ætla ég að segja ykkur ljóta, íslenska sögu. Áður hef ég sagt hluta hennar þegar ég greindi frá landakorti sem henda átti út á Þjóðminjasafni í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Kortið, einblöðung, sem prentað var á þunnan dagblaðapappír, átti upphaflega Matthías Þórðarson þjóðminjavörður. Þegar skjala- og einkasafn hans var skráð á Þjóðminjasafninu fyrir rúmum 20 árum var á algjörlega óskiljanlegan hátt ákveðið að farga ýmsu úr einkasafni Matthíasar sem ekki þótti ástæða til að geyma á Þjóðminjasafninu.
Matthías safnaði öllu, t.d. öllum aðgöngumiðunum sínum í Tívolí til fjölda ára. Þeir voru einnig meðal þess sem þjóðminjavörður ákvað að farga í byrjun 10. áratugar síðustu aldar (sjá mynd efst). Matthías fékk líka mikið af rituðu máli frá háttsettum nasistum í Þýskalandi, sem stundum var áritað af höfundum. Svo mikið var af þannig bleðlum í því sem Þjóðminjasafnið henti út á tveimur pöllum á haugana, að vart verður í framtíðinni hægt að sjá að Matthías hafi verið hallur undir hakakrossinn eins og svo margir kirkjuræknir menn gátu verið á Íslandi. Að mínu mati heillaðist Matthías mjög af þýskri menningu, en var einnig veikur fyrir nasismanum eins og margir Íslendingar, sem ekki sáu í gegnum hatrið og helstefnuna.
Þegar persónulegri söfnunargleði Matthíasar Þórðarsonar var kastað á haugana var ég kominn með annan fótinn inn á Þjóðminjasafnið, og fékk leyfi þjóðminjavarðar í snarheitum að tína smáræði úr því "rusli" sem hent var úr geymslum Matthíasar Þórðarsonar, áður en því var hent inn í sendibíl. Meðal þess sem ég tók var kortið. En ég tók einnig sýnishorn af Tívolí, sirkusprógrömmum og nasistableðlum.
Matthías átti mikið af sérritum úr Völkischer Beobachter (Das deutsche Weltblatt im Kampfe gegen Alljuda) og frá Ahnenerbe-stofnun SS, sem "vinir" hans í Þýskalandi sendu honum. Þetta var nú í raun eins konar sirkusblað.
Eyðilegging Þjóðminjasafns á menningararfinum
Ímyndið ykkur hve mikið hefur verið eyðilagt af minjum um þá menningu sem ríkti á dansk-íslenskum heimilum í Reykjavík í byrjun 20. aldar. Hugsið ykkur hve mikilvægur þessi efniviður hefði verið þegar fólk fór loks að asnast til að rannsaka stöðu Dana og áhrifa danskra og annarra menningarstrauma á Íslendinga og Dani á Íslandi á 20. öld. Nýlega las ég um doktorsritgerð Írisar Ellenberger um þau málefni. Henni hefði ugglaust þótt bitastætt að komast í það efni sem sýndi áhuga Íslendinga á danskri skemmtanahefð snemma á 20. öld, en sem Þjóðminjavörður og safnstjóri Þjóðminjasafnsins létu henda á haugana.
Í þessu tilfelli var kastað á glæ einstakri heimild um fólkið sem menntaðist í Danmörku, sem fór til Hafnar til að ná sér í menningarauka. Þetta var fólkið sem ferðaðist á Gullfossum. Það var auðvitað ekki öllum gefið, en þessi menning var mikilvægur þáttur af menningarsögu Íslendinga. Matthías, sem um skeið var kvæntur danskri konu, Avilde Marie Jensen, hafði safnað saman sögu sinni í Kaupmannahöfn frá lokum 19. aldar og byrjun þeirrar 20, og fyrri konu sinnar. Því var kastað á glæ fyrir skammsýni Þórs Magnússonar Þjóðminjavarðar.
Kanahatrið efldi Danahatrið
Þjóðernishyggja vinstrimanna sem blossaði upp eftir síðara stríð, eða þegar bandarísk herlið kom aftur til að koma upp herstöð, olli á furðulega hátt ímugust á öllu dönsku. Keltamanían fékk byr undir báða vængi. Það komst í tísku að vera kelti en ekki einhver Skandínavi, sem bara höfðu verið Íslendingum til vansa síðan 1262. Aftur var farið að kalla Dana Bauni og Baunverja. Þjóðviljinn kepptist við að skíta allt danskt út og hamra á gömlum mýtum um stjórnartíð Dana á Íslandi. Herinn átti að vera álíka slæmur ef ekki verri en stjórnartíð Dana, og að sögn nýþjóðernissinnanna, sem trúðu frekar á Kreml en kapítalista, var bandarískur her hið nýja ok sem Íslendingar kölluðu yfir sig rétt eftir að þeir höfðu losað sig undan Dönum. Samlíkingar milli varnaliðs og meints oks Dana á Íslendingum komst í tísku. Þetta hugarfar smitaði langt út fyrir hugarheim þeirra sem notuðust við barnalegar þjóðernisklisjur líkt og Þjóðviljinn notaði óspart.
Á fundi þjóðminjavarða í Borgarnesi árið 1994, þegar minjar um síðari heimsstyrjöld á Norðurlöndunum voru m.a. á dagsskrá, hélt Þór Magnússon eintal um hvel lítils virði honum og Íslendingum þættu herminjar á Íslandi. Ég var ritari fundarins, og man að ég var að springa úr skömm. Augnagotur annarra Þjóðminjavarða sýndu mér líka, að menn voru forviða yfir áhugaleysi Þórs Magnússonar á stríðsára- og hernámsminjum á Íslandi. Ég greindi eftir fundinn þjóðminjaverði Dana, Olaf Olsen, frá því hvernig Þór hefði leyft að varpa nasistableðlum og öðrum afrakstri söfnunargleði Matthíasar Þórðarson á öskuhaugana. Ég vil ekki hafa það eftir sem Olaf Olsen, fyrrv. prófessor minn, sagði um fyrrv. þjóðminjavörð okkar.
En hér við þessa færslu sjáið þið úrval af þeim nasistaáróðri sem mér tókst að bjarga úr hrúgum þeim af ritum og bæklingum sem varpað var í tvö stór trog eða kassa, sem komið hafið verið fyrir á brettum. Mikið var af nasistaáróðri. Ég man eftir úrklippu, sem ég tók því miður ekki fyrir litarefni "Nationalbraun" sem men gátu keypt til að lita skyrtur sínar. Ef til vill hefur Matthías verið að velta fyrir sér að kaupa slíkan "taulit" til að vera í rétta tauinu þegar hann tók á móti "fræðimönnum" nasista sem ólmir vildu koma til Íslands.
Öllu þessu var lyft upp í sendibifreið og ekið á haugana. Ég sársé eftir að hafa ekki beðið sendibílstjórann um að aka þessu "drasli" heim til foreldra minna.
"Handritin heim", en dönsk-íslensk menningarsaga er sett haugana.
Á menningararfurinn á Íslandi aðeins að vera "hreinræktaður"? Það er þörf spurning handa Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, manninum sem í dag stýrir öllum menningararfinum úr ráðuneyti sínu. Hann situr einnig í forystu flokks sem notar hatur lítils hluta þjóðfélagsins í garð trúar- og minnihlutahópa til að snapa sér atkvæði í sveitarstjórnarpólitíkinni.
Það hefur líklega ekki farið framhjá ykkur, en aðrir en skyldleikaræktaðir heimalningar hafa búið á Íslandi og gefið íslenskri menningu mikið og stundum meira en þeir sem vart migu út yfir hreppamörkin.
"Menningararfurinn" | Breytt 18.7.2020 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)