Færsluflokkur: Vefurinn

Veftímaritið Herðubreið stelur ljósmynd

eimskip_1930

Viðbót 6.3.2019 - Herðubreið hefur nú birt nafn höfundar ljósmyndarinnar

31. janúar 2019 birtist smáklausa á Tímaritinu Herðubreið sem Karl Th. Birgisson er í forsvari fyrir. Klausan ber fyrirsögnina Einn í áhöfn og er eftir Úlfar Þormóðsson. Hún fjallar um þau örlög sem kapítalisminn hefur skapað, og sem veldur því að aðeins einn Íslendingur er í áhöfn á íslensku skipi. Nærvera Íslendings varnar því greinilega ekki að skip fái á sig brotsjó.

Til að myndskreyta klausuna gripu menn í Herðubreiðarlindum til vafasams myndastulds í anda verstu kapítalista. Þeir tóku hluta af ljósmynd sem ég hef tekið í Kaupmannahöfn og hef birt á tveimur blogga minna hér og hér á Fornleifi. Herðubreiðarmenn birtu hana án þess að nefna höfund ljósmyndarinnar.

Herðubreið

Skjámynd af vefritinu Herðubreið

Ég hafði samband við Herðubreið og fékk tvö svör, nafnlaus:

"Sæll og og forláttu síðbúið svar. Nú leggjumst við í rannsóknir. Vitum ekki hvernig myndin komst í myndabankann okkar, en takk fyrir að láta vita." Og síðar: "Sæll Vilhjálmur. Með fullri virðingu fyrir fræðistörfum þínum, þá getum við ekki fallist á að myndin sé eftir þig, þar sem hún er hluti af auglýsingu frá Eimskipafélagi Íslands, eftir því sem við komumst næst. Endilega láttu vita ef við förum vill vegar."

Þar sem ég taldi mig hafa skýrt málið út fyrir Herðubreiðarritstjóranum, eða réttara sagt þeim huldumanni sem svaraði mér, að þeir mættu nota ljósmynd mína ef þeir birtu nafn mitt og greindu frá því hvar myndin sem þeir skáru birtist skrifaði ég fyrr í dag til "Herðubreiðaröræfa":

Sæl "Herðubreið"

Ég tók ljósmyndina af auglýsingu í 80 ára dagblaði sem varðveitt er í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn. Ég birti myndina á bloggum mínu í lágri upplausn, en hún hafði ekki verið uppi á borðum Íslendinga fyrr en að ég gerði henni skil.

Þar sem engin undirritar skilaboð "Tímaritsins Herðubreiðar" til mín undir nafni, get ég ekki tekið þessi svör ykkar alvarlega. En mér er full alvara og hinn nafnlausi maður sem svarar fyrir Herðubreið er að mínu mati óvenjulega kokhraustur þegar hann ver þjófnað á myndverki mínu.

Ljósmyndin, sama hve léleg hún er,  er verk mitt. Ég miðlaði þessari 80 ára auglýsingu í morgunblaðinu Politiken til Íslendinga á bloggum mínum. Áður en það gerðist var auglýsingin ekki þekkt á Íslandi og var t.d. ekki með í bók um sögu Eimskipafélagsins. Veftímaritið Herðubreið tekur svo myndina og sker hana í búta og birtir einn bútinn án þess að minnast á höfund. Höfundar myndverka hafa rétt og ég er höfundurinn.

Vinsamlegast getið höfundar ljósmyndarinnar sem þið hafið notað. Nafn hans stendur fyrir neðan þessi svör.

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

 

Viðbót 6.3.2019 kl. 01.35 HERÐUBREIÐ hefur fyrir 10 mínútum síðan vinsamlegast fallist á ósk mína og merkt mynd mína mér (reyndar sést myndin ekki lengur, en það er tæknilegt atriði sem Herðubreiðarmenn verða að leysa). Myndin mun að sögn hafa verið notuð áður á Herðubreið. Ég þakka fyrir heiðarleg viðbrögð Herðubreiðar og verð að fara að vara mig á því að "stela" myndum frá öðrum. Við verðum öll að passa okkur og athuga hvað maður er að taka. Ég var ekki á höttunum eftir greiðslu, en stundum er það víst tilgangur manna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband