Veftímaritið Herðubreið stelur ljósmynd

eimskip_1930

Viðbót 6.3.2019 - Herðubreið hefur nú birt nafn höfundar ljósmyndarinnar

31. janúar 2019 birtist smáklausa á Tímaritinu Herðubreið sem Karl Th. Birgisson er í forsvari fyrir. Klausan ber fyrirsögnina Einn í áhöfn og er eftir Úlfar Þormóðsson. Hún fjallar um þau örlög sem kapítalisminn hefur skapað, og sem veldur því að aðeins einn Íslendingur er í áhöfn á íslensku skipi. Nærvera Íslendings varnar því greinilega ekki að skip fái á sig brotsjó.

Til að myndskreyta klausuna gripu menn í Herðubreiðarlindum til vafasams myndastulds í anda verstu kapítalista. Þeir tóku hluta af ljósmynd sem ég hef tekið í Kaupmannahöfn og hef birt á tveimur blogga minna hér og hér á Fornleifi. Herðubreiðarmenn birtu hana án þess að nefna höfund ljósmyndarinnar.

Herðubreið

Skjámynd af vefritinu Herðubreið

Ég hafði samband við Herðubreið og fékk tvö svör, nafnlaus:

"Sæll og og forláttu síðbúið svar. Nú leggjumst við í rannsóknir. Vitum ekki hvernig myndin komst í myndabankann okkar, en takk fyrir að láta vita." Og síðar: "Sæll Vilhjálmur. Með fullri virðingu fyrir fræðistörfum þínum, þá getum við ekki fallist á að myndin sé eftir þig, þar sem hún er hluti af auglýsingu frá Eimskipafélagi Íslands, eftir því sem við komumst næst. Endilega láttu vita ef við förum vill vegar."

Þar sem ég taldi mig hafa skýrt málið út fyrir Herðubreiðarritstjóranum, eða réttara sagt þeim huldumanni sem svaraði mér, að þeir mættu nota ljósmynd mína ef þeir birtu nafn mitt og greindu frá því hvar myndin sem þeir skáru birtist skrifaði ég fyrr í dag til "Herðubreiðaröræfa":

Sæl "Herðubreið"

Ég tók ljósmyndina af auglýsingu í 80 ára dagblaði sem varðveitt er í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn. Ég birti myndina á bloggum mínu í lágri upplausn, en hún hafði ekki verið uppi á borðum Íslendinga fyrr en að ég gerði henni skil.

Þar sem engin undirritar skilaboð "Tímaritsins Herðubreiðar" til mín undir nafni, get ég ekki tekið þessi svör ykkar alvarlega. En mér er full alvara og hinn nafnlausi maður sem svarar fyrir Herðubreið er að mínu mati óvenjulega kokhraustur þegar hann ver þjófnað á myndverki mínu.

Ljósmyndin, sama hve léleg hún er,  er verk mitt. Ég miðlaði þessari 80 ára auglýsingu í morgunblaðinu Politiken til Íslendinga á bloggum mínum. Áður en það gerðist var auglýsingin ekki þekkt á Íslandi og var t.d. ekki með í bók um sögu Eimskipafélagsins. Veftímaritið Herðubreið tekur svo myndina og sker hana í búta og birtir einn bútinn án þess að minnast á höfund. Höfundar myndverka hafa rétt og ég er höfundurinn.

Vinsamlegast getið höfundar ljósmyndarinnar sem þið hafið notað. Nafn hans stendur fyrir neðan þessi svör.

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

 

Viðbót 6.3.2019 kl. 01.35 HERÐUBREIÐ hefur fyrir 10 mínútum síðan vinsamlegast fallist á ósk mína og merkt mynd mína mér (reyndar sést myndin ekki lengur, en það er tæknilegt atriði sem Herðubreiðarmenn verða að leysa). Myndin mun að sögn hafa verið notuð áður á Herðubreið. Ég þakka fyrir heiðarleg viðbrögð Herðubreiðar og verð að fara að vara mig á því að "stela" myndum frá öðrum. Við verðum öll að passa okkur og athuga hvað maður er að taka. Ég var ekki á höttunum eftir greiðslu, en stundum er það víst tilgangur manna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Til að svara vangaveltum Úlfars og fleir varðandi skipshafnir þessara skipa, þá bendi ég þeim á að þessi skip eru ekki íslensk heldur sigla undir fánum annarra landa og eru skráð og greiða skatta þar. Skipafélögin hér leigja einungis þjónustu þeirra.

Það var kannski of freistandi fyrir þá að sýna hakakross í tengslum við grein um hinn illa kapítalisma.

Það hefði verið greindarlegri snertiflötur á svona greinarskrif er sú staðreynd að Eimskip á þessi erlendu skip í gegnum allskonar vöflur og vafninga og er þetta dæmi sem ætið hefur blasað við fyrir þá sem vilja komast í anndnauð yfir skattaskjólum. Hér hafa þeir dæmið og hvers vegna svo er. Ef þeir greiddu skatta hér og greiddu áhöfnum eftir Íslenskum samningum, þá væru engin skipafélög hér né skipaflutningar. Skiljanlegt að menn hafi skautað hentuglega fram hjá þessu.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.3.2019 kl. 08:42

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Karl á að vita að höfundarréttur mynda snýst um myndina sjálfa en ekki innihaldið. Ef innihaldið væri einkaréttarvarið þá væru ansi margir eigendur að Eiffelturninum, já og Kirkjufelli og skógarfossi ef út í það er farið.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.3.2019 kl. 08:47

3 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Herðubreið dugar þá væntanlega að taka mynd af þinni mynd til að gera hana að sinni mynd?

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 5.3.2019 kl. 09:05

4 identicon

Ég verð að valda þér vonbrigðum Fornleifur. Ljósmyndin þín er ekki höfundavarin enda uppfyllir hún ekki skilyrði um frumlegheit eða sköpun. Hún er bara afrit. Ljósmynd af Eiffelturninum væri hins vegar sjálfstætt listaverk enda gæti slíkt aldrei talist afrit.

Óli Gneisti Sóleyjarson (IP-tala skráð) 5.3.2019 kl. 09:15

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Mynd mín er ekki afrit, ljósrit, eða skán. Mynd mín er ekki af Eiffelturninum, Óli Gneisti. Hún er af síðu úr dagblaði sem varðveist hefur í Kaupmannahöfn, en sem enginn þekkti lengur á Íslandi fyrr en ég fjallaði um auglýsinguna á bloggi mínu. Mynd mína birti ég á bloggi mínu og ég tók hana með mikilli fyrirhöfn á safni í Kaupmannahöfn. Ég er ljósmyndarinn og þú ert greinileg ekki löglærður.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.3.2019 kl. 10:00

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Bjarni Gunnlaugur, kannski hafa þeir gert það, en ekki sögðu þeir það í nafnlausum svörum sínum.

Þakka þér Jón Steinar. Þú hefur á réttu að standa.

Ef ég hef rænt mynd án þess að vita að þær væru varða höfundarétti fjarlægi ég þær ef ég fæ beiðnum slíkt. Eitt sinn birti ég mynd af íslenskum rithöfundi, ungum, sem er annt um náttúruna. Hann hafði fengið styrk úr sjóði sem upphaflega var stofnaður fyrir fé stolnu af gyðingum. Rithöfundurinn bað ljósmyndara myndarinnar sem var notuð víða án þess að hans væri getið að hafa samband við mig og fjarlægja myndina. Það gerði, en ekki batnaði málstaður rithöfundarins við það.

Eitt sinn birti ég mynd af konu í bikiníi. Myndin hafði löngum verið notuð hér og þar á netinu, þar sem konan hafði unnið kroppasýningu í Eistlandi um árið. Allt í einu var hún orðinn sérfræðingum yfirvalda um Palestínu. Hún hafði samband við blog.is og vildi að ég fjarlægði myndina af sér við grein sem ég skrifaði um þekkingarbresti hennar. Það gerði ég vitaskuld með glöðu geði - og setti mynd af kjúklingi í bikíní í staðinn og skýringu á hvarfi myndarinnar. Það átti vel við, enda konan líka í lífrænum kjúllabisness á Kjalarnesi.

Karl Th. eða hver sem það er, telur hins vegar í lagi að nota mynd sem ég hef tekið. Útlilegumenn í Herðubreiðarlindum gefa í skyn að ég sé ekki ljósmyndarinn, þegar ég bið lítillátlega um að nafn mitt verði birt við myndina. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.3.2019 kl. 10:11

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Merkilegt hjá þessum mönnum að kjósa heldur fánýtar orðasennur og þvergyrðingshátt við þig í stað þess að setja smáletrað undir. "Ljósmynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson" og kannski eitt copyrightmerki með.  Sjálfsögð kurteysi, en það er þeim líklega ekki í blóð borið.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.3.2019 kl. 10:19

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég þarf að greiða fyrir afnot af myndum frá ljósmyndasafni Reykjavíkur og taka fram hvaðan hún er, hvort sem ég copyera hana af netinu eða tek ljosmynd af ljósmyndinni. 

Jón Steinar Ragnarsson, 5.3.2019 kl. 10:22

9 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Mikið rétt Jón Steinar.

Svo langar mig að taka fram að mynd mín birtist við grein sem fjallaði um skoðanir starfsmanna Eimskips á gyðingum sem ferðuðust með skipum félagsins á 4. áratug síðustu aldar. Karl Th Birgisson telur greinilega mikilvægara að nota mynd mína við klausu sem fjallar um að aðeins einn Íslendingur sigli nú orðið á Eimskipafélagsskipi í brotsjó. Hætta Íslendingar aldrei að hafa útlendinga á hornum sér?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.3.2019 kl. 10:56

10 identicon

Það væri án efa kurteisi að setja "Mynd: Villi" en það breytir því ekki að þú átt engan höfundarétt á myndinni. Þetta er ekki frumlegt verk í skilningi höfundalaga.

Ef við ætlum að vera ströng á höfundalögum þá gætum við spurt hvort þú sért að brjóta höfundarétt listamannsins sem bjó til upphaflegu myndirnar í auglýsingunni. Er hann búinn að vera dauður í rúm 70 ár? Ef ekki þá eru erfingjar hans rétthafar.

Óli Gneisti Sóleyjarson (IP-tala skráð) 5.3.2019 kl. 13:00

11 Smámynd: FORNLEIFUR

Gneisti, ég nenni ekki að elta ólar við kverúlanta og besserwissera eins og þig. Hvergi kemur fram í auglýsingunni frá 1930 hver sé auglýsingateiknarinn. Þú þekkir greinilega ekki íslensk lög.Þú veist ekkert um myndina sem ég hef tekið, en ert ávallt tilbúinn í eitthvað testósterónkast gegn mér persónulega. Ég veit ekki hvað ég hef gert þér. Ég talaði við Myndstef í Morgun, og er því viss um að þú ferð með rangt mál. Ég tók myndina af dönsku dagblaði, þar sem eru myndir sem ekki er merktar neinum. Ég get auðvitað haft samband við Politiken og beðið blaðið um að rukka Herðubreið. 

FORNLEIFUR, 5.3.2019 kl. 13:33

12 identicon

Vilhjálmur, veistu að mér finnst þú merkilega skemmtilegur á köflum þó ég sé oft ákaflega ósammála þér. Ég er ekki að taka neitt kast gegn þér. Þetta er bara vinsamleg ábending byggð á því að ég hef skoðað íslensk höfundalög fram og til baka enda voru höfundaréttarmál stór hluti af meistaraverkefni mínu í hagnýtri menningarmiðlun.

Ef við hugum að frumleika og sköpun, geturðu þá útskýrt fyrir mér hvaða sköpun fór fram þegar þú tókst þessa mynd? Varstu að reyna að ná sem nákvæmastari mynd af því sem var í blaðinu eða varstu að reyna að nota tól ljósmyndatækninnar til þess að búa til listaverk? Hið fyrrnefnda er afrit en hið síðarnefnda er sköpun.

Ég held að þú sért fyrst og fremst sár vegna vinnunnar sem þú lagðir á þig sem er ekki metin þegar þetta er birt án þess að vísa á þig. Slíkt er kannski ókurteisi en höfundalög ná ekki yfir svoleiðis.

Varðandi myndahöfund þá er rík skylda í höfundalögum á að maður reyni að finna höfund verks. Það eru allar líkur á að það sé hægt að finna hann og ef hann lifði nógu lengi þá eiga afkomendur hans væntanlega ennþá réttinn. Hins vegar myndi ég telja að þú hafir fullkominn rétt á að nota myndina enda eru ákveðnar undanþágur í lögunum varðandi fræði- og vísindi. Í praxís þá er auðvitað öllum sama um eldgamla auglýsingamynd, hún er í senn verðlaus og ómetanleg.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 5.3.2019 kl. 20:07

13 Smámynd: FORNLEIFUR

Gneisti, mín sköpun á ljósmynd við grein um gyðingahatur á Íslandi, sem Íslendingar virðast ekki geta sætt sig við að þeir hafi stundað - þó öllum heiminum sé það ljóst, var greinilega nógu kræsileg til þess að vefrit taldi ástæðu til að nota mynd frá 1930 við frétt frá 2019 um að einn íslendingur sé í áhöfn eins fossana. Myndavalið var auðvitað algjörlega rangt og svo var myndin tekin af mínu bloggi án þess að ljósmyndara væri minnst.

Fyrst öllum er sama um gamla auglýsingamynd, eins og þú heldur fram, af hverju ert þú þá að belgja þig um eitthvað sem þú veist ekkert um og æ minna um hvað vakti fyrir mér þegar ég tók myndina. Menn hafa, eins og þú veist, skitið í dós og kallað það listaverk. Mynd mín við grein um gyðingafordóma á Íslandi var mitt hugverk og henni verður ekki stolið af fólki sem er með þjóðernisstæla vegna þess að einn maður, íslenskur, er um borð á skipi Eimskipafélagsins. Ef þeir sem nota myndina kjósa að setja hana við frétt frá 2019 verða þeir að geta nafns ljósmyndarans.

Þú getur haft samband við Myndstef. Þeir upplýstu mig í gær, að ég hefði rétt á því að fara fram á það við Herðubreið, að þeir nefndu mig sem höfund að myndinni.

Þú gleymir einnig í furðulegri bræði þinni, að myndin mín var einnig bútuð niður af Herðubreiðarliðinu án míns samþykkis. Listaverkið sem þú vitnar í sem sést á Herðubreið er aðeins fáni Eimskipafélagsins (svastikan). Lestu lögin og reglur Myndsýnar. Reglur höfundalaga um sæmdarrétt og notkun mynda af heimasíðum annars fólks. https://www.sky.is/images/stories/2015_Skjol/20_BirtaVef/MyndStef.pdf

Ég hef ekki bannað neinum að vitna í og nota myndir á bloggum mínu, þar sem þær eru oftast í óbirtingahæfri stærð/upplausn fyrir prentun, en menn verða að greina frá nafni mínu ef ég er höfundur ljósmyndanna sem þeir taka á bloggi mínu.

Ég bað síðuhaldara í Bandaríkjunum sem hafði notað alla mynd mína af blaðsíðunni í Politiken í grein um hakakrossa, að nefna mig sem höfund. Á Íslandi eru menn auðvitað að streitast á móti, því þeim þykir allt í lagi að stela mynd við grein sem fjallaði um gyðingafordóma á Íslandi og nota hana við grein um fordóma gegn erlendum áhöfnum á "íslenskum" skipum. Lítið hefur breyst.

FORNLEIFUR, 6.3.2019 kl. 00:13

14 Smámynd: FORNLEIFUR

HERÐUBREIÐ hefur vinsamlegast fallið á ósk mína og merkt mynd mína mér. Myndin mun að sögn hafa verið notuð áður á Herðubreið. Ég þakka fyrir heiðarleg viðbrögð Herðubreiðar og verð að fara að vara mig á því að "stela" myndum frá öðrum. Við verðum öll að passa okkur og athuga hvað maður er að taka. Ég var ekki á höttunum eftir greiðslu, en stundum er það víst tilgangur manna.

FORNLEIFUR, 6.3.2019 kl. 01:37

15 identicon

Vilhjálmur, ég átta mig ekki alveg á með hvaða tón þú ert að lesa athugasemdir mínar ef þú heldur að það sé vottur af bræði í þeim.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 6.3.2019 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband