Færsluflokkur: Flugfornleifafræði

Flugvélafornleifafræði: SÓLFAXI TF-FIP

Icelandair Heathrow 1965
Sólfaxi TF-FIP var fræg flugvél sem æ færri muna eftir. Vélin var vitaskuld ein af hinum endingargóðu Douglas Cloudmaster DC-6B vélum. Þær voru bæði sterkar og fagrar á að líta, líkt og konur.

Vélin er smíðuð í júlí 1952 hjá Douglas Aircraft Company í Santa Monica í Kaliforníu. Raðnúmer hennar var 43549.

Á Íslandi var vélin skráð 3. janúar 1964 sem eign Flugfélags Íslands hf. Flugvélina keypti flugfélagið af SAS, en hún hafði áður átt heimavöll í Noregi og svaraði nafninu Heming Viking LN-LML .

Heming Viking Skotlandi

Heming Viking á Skotlandi

Áður en vélin kom til Íslands hafði SAS selt hana til Taílands. Þar flaug hún skráð sem HS-TGB, en SAS keypti hana aftur og var vélin um tíma skráð sem SE-XBO.

Sólfaxi flaug mikið á millilandaleiðum Flugfélags Íslands. En eftir að Gullfaxi, Boeing 727, fyrsta þota Íslendinga kom árið 1967, hafði Sófaxi frekar frá verkefni fyrir Icelandair eftir það. Vorið 1972 var vélin seld Delta Air Transport í Belgíu. Hún var tekin af skrá á Íslandi 18. apríl 1972. Í Belgíu var vélin ekki notuð lengi og  seld í september 1972. Hér fyrir neðan er mynd af henni í einhverjum erindagjörðum í Napólí.

Efst er mynd sem nýlega komst í einkaeigu Fornleifs (varist myndaþjófnað). Myndin var tekin af vélinni á Heathrow-flugvelli árið 1965. Hér fyrir neðan er hún komin í búning Delta Air Transport (með skráningarnúmerið OO-RVG). Vélin var stolt Íslands, þar sem hún stóð í sólinni á Heathrow. Þá voru hlutirnir líka betur gerðir. Ég er t.d. fæddur árið 1960 og miklu betur byggður og betri en margar síðari árgerðir. Ég veit að því er erfitt að kyngja, en þannig eru staðreyndir lífsins.

Douglas DC-6B - Delta Air Transport - in Napoli1972

Sólfaxi varð að Delta Air Transport-vél og sést hér árið 1973 á flugvellinum í Napólí.

Árið 1974 var vélin hins vegar komin til Bandaríkjanna og var þá í eigu flutningafyrirtækisins Zantop International Airlines í Detroit í Bandaríkjunum. Fyrir Zantop flaug vélin með einkennisstöfunum NR549H.  Síðar keypti CONIFAIR í Kanada vélina og skráningarnúmerið varð nú C-GBYH. Síðast var hún í þjónustu Northern Air Cargo í Kanada og flaug með einkennisstafina N6204U.

Sólfaxi í Alaska 2004

Myndin hér fyrir ofan er af vélinni í Alaska árið 2004. Vélin virðist hafa verið tekin af skrám árið 2005. Þá var þessi fagra vél orðin líffæragjafi fyrir aðrar Douglas DC-6 B vélar. Leifar hennar ætti því helst að vera hægt að leita uppi í Alaska. Reyndar upplýsir þessi danska vefsíða, að ætlunin hafi verið að setja flugvélina í stand árið 2011, en Fornleifi hefur ekki tekist að finna upplýsingar um að því verki hafi verið lokið. Ef þessi upplýsing er rétt, flýgur Sólfaxi ef til vill enn um loftin blá, 65 árum eftir að flugvélin flaug frá Santa Monica í fyrsta skipti.

Þetta var fögur vél árið 1964, þegar Icelandair keypti gamlar vélar með eldgamlar innréttingar sem allir gerðu sér að góðu. Þá var heldur ekki til óþakklátur yfirstéttarskríll á Íslandi eins og sá sem nú hefur myndast, sem berst á líkt og pakkið tilheyri einhverjum forgömlum erfðaaðli. Fyrir nokkrum árum heimtaði nýríkur lögfræðingur nýja innréttingu í flugvél sem hún flaug með, því hún var með miða á Saga-Class. Hún hafði auðgast á að skipta fjármunum Landbankans (almennings í landinu) beint niður í budduna sína - sjá færsluna hér á undan.


Meet the Fokkers

76_h17_18_met_violet_in_packard.jpg

Flugfornleifafræði er merkileg grein. Nú á miklum tímamótum í sögu Fokkersins á Íslandi, er gaman að minnast örlítið Anthony Fokkers (1890-1939), flugvélabrautryðjandans hollenska, sem stundum var kallaður Hollendingurinn Fljúgandi. Í leiðinni væri vert að minnast einnar konu hans.

Það hafa kannski ekki margir velt því fyrir sér, er þeir flugu um loftin blá með Fokkerum Flugfélags Íslands eða Landhelgisgæslunnar, að ein eiginkvenna Fokkers flugvélasmiðs var af alíslenskum ættum. Hún hét Violet Helga Austmann, betur þekkt sem Violet Eastman og var dóttir sæmdarhjónanna Snjólfs Jóhannssonar Austmanns frá Krossi á Berufjarðarströnd í S-Múlasýslu (f. 1860) og konu hans Sigríðar Jónsdóttur sem ættuð var úr Skagafirði. Þau hjónin höfðu sest að í Winnipeg í Kanada og dóttir þeirra Violet fæddist þar aldamótaárið 1900.

violet_fokker.jpg

Þegar Fokker kvæntist Violet Eastman árið 1927 var hann nokkrum árum áður skilinn við fyrri konu sína, Sophie Marie Elizabeth von Morgen, sem var dóttir þýsks hershöfðingja úr fyrri heimsstyrjöldinni. Anthony Fokker hafði árið 1910 eignast son, Tobias, með fyrstu ástinni sinni, hinni vellauðugu rússnesku flugkonu Ljubu Galanschikoff.

Fokker flugvélaverksmiðjurnar þénuðu vel í fyrri styrjöldinni á því að selja flugvélar til Þjóðverja. Fokker var því efnaður vel þegar hann kvæntist hinni fögru Violet Austmann. En sælan entist ekki og ekki kom Fokker Friendship nafnið til út af því hjónabandi.

fokker_anthony_in_f10a_of_richfield_occ_1256575.jpg

Violet Austmann (Eastman) Fokker og maður hennar (fyrir miðju) í Fokker F-10A flugvél árið 1928. Myndin efst er af herra Fokker og konu hans Violet, sem var af alíslenskum ættum.

Einn morgun árið 1929 flaug hin íslenskættaða Violet. Ekki í flugvél, heldur beint út um gluggann á íbúð þeirra hjóna á 15. hæð á 285 Riverside drive á Manhattan í New York. Upphaflega var ályktað að hún hefði framið sjálfsmorð. Síðar fengu lögfræðingar Fokkers því breytt í "dauða vegna lofthræðslu (vertigo)". Þegar nægir peningar voru annars vegar, komu víst aðrir möguleikar ekki til greina. Violet var lögð til hinstu hvílu í New York. Í sömu borg dó Anthony Fokker tíu árum síðar úr heilabólgu eftir uppskurð á ennisholum. Hann var lagður til hvílu í Hollandi. Violet sem dó á gangstétt á 110 stræti gleymdist, en Anthony Fokker er minnst sem hetju háloftanna.

285_riverside_dr_1256577.jpg

Hvað fær unga konu til að fljúga út um gluggann heima hjá sér, þegar hún gat flogið hvert á land sem var með flugvélum manns síns? Dauði Violets Austmann Fokkers er einatt afgreiddur á mjög furðulegan hátt af karlmönnum með flugdellu. Líkt og að hún hafi bara verið gallaður varahlutur við söguna um hinn merkilega flugkappa Anthony Fokker:

Apparently an unstable character to begin with, her complete disillusionment about the marriage led her to leap to her death from their Manhattan appartment on February 8, 1929. Fokker, in the Dutch version of his autobiography, admitted somewhat sadly to his inability to communicate and love. (Sjá hér).

Í Morgunblaðinu stóð þetta hér um árið: Anthony Fokker Elizabeth skildu þar sem Fokker þótti bæði kvensamur og villtur í líferni. Samband þeirra Fjólu eða Violet varð ekki langlíft þar sem hún framdi sjálfsmorð árið 1929 með því að stökkva út um glugga á íbúð þeirra hjóna í New York. (Sjá hér).

Ef við skoðum samtímaheimildir, t.d. frétt á forsíðu Brooklyn Daily Eagle má lesa þetta 9. febrúar 1929, daginn eftir dauða Violets:

Wife´s Plunge to Death; Accident, Says Fokker

Mrs. Anthony H.G. Fokker

fokker.jpg

 

Declaring his wife´s death an accident, Anthony H.G. Fokker, designer and manufacturer of Fokker airplanes, today began funeral arrangements for Mrs. Fokker, killed last night when she fell from a window of their apartment on the 15th floor at 285 Riverside dr. to the sidewalk in 101st st.

   Mrs. Fokker had returned from Presbyterian Hospital a few hours before her fall. She had been suffering from a nervous disorder for some time.

   Fokker returned from an air flight yesterday feeling drowsy and went to sleep after a light supper. While he was asleep Mrs. Fokker, who was lying down, asked a maid to get her a glass of water. When the maid returned Mrs. Fokker has dissappeared. She had evidently fallen over the low sill of the window.

   Amos Erickson of 1760 Jerome ave. found the body and called a policeman. Mrs. Fokker was dead when an ambulance arrived. Herbert Reed, secretary and treasurer of the Fokker Aircraft Company, gave a statement in which he said Mrs. Fokker had evidently fainted.

Þannig var það bara afgreitt.

285_riverside_dr.jpg

Það þótti nú ekkert slor að búa á 285 Riverside dr. í den, eða jafnvel nú. Miðað við að Violet "féll" út um glugga á 15. hæð niður á gangstétt á 101 stræti, þá hafa þau búið í horníbúð. Ein svipuð íbúð á 11. hæð var seld á tæpar 1.4 milljónir bandaríkjadala fyrir nokkrum árum síðan.

285_riverside.jpg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband