Færsluflokkur: Pakkamyndir

Pakkamyndir fortíðar 1. hluti

IMG_0006 b

Í dag ferðast fólk um heiminn sem aldrei fyrr, eins og það hafi étið óðs manns skít. Mengunin sem því fylgir er gríðarleg. Þeir sem ferðast einna mest syngja í helgikórnum Heimsendi, sem einatt kyrjar söngva um heimshitnun og náttúruhamfarir af mannsins völdum, en sem allir aðrir en þeir sjálfir eiga sök á. "Er að fara til Víetnam á morgun - nenni ekki að ansaessu rugli", svo dæmi sé tekið um svör við ásökunum um aðild að heimshitnun.

Dóttir ritstjóra Fornleifs, sem stundar nám á þriðja ári í sálfræði, sem er tilvalin grein þegar maður á föður eins og hún, hefur þegar verið í Víetnam og kennt þar unglingum sem vart voru eldri en hún sjálf. Ekki langar mig þangað í mergð af mýflugum og illfygli, en kannski pínu-ponsu. En dóttir mín er vitaskuld mjög meðvituð um mengun og hamfarir að völdum minnar og eldri kynslóða. Við vorum algjör svín að hennar mati, þó við eigum enga hlutdeild í glæpum verstu græðgiskynslóðar allra tíma - hinni baneitruðu 68-kynslóð. Það var bansettur ruslalýður.

Sú var tíðin að almenningur þurfti að lesa sér til um suðræn lönd og komust menn aðeins þannig til fjarlægra stranda. Einnig gátu menn gerst sjómenn eða trúboðar til að finna fjarlægar og framandi þjóðir. Aðrir, eins og margir frönskumælandi menn og Hollendingar, létu sér nægja að dreyma um pálmalundi eða spúandi eldfjöll með því að kaupa sér kakó eða súkkulaðipakka. Í pökkum með ýmsu nautnaefni og annarri vöru fylgdu einatt pakkamerki með ýmsum fróðleik. 

Fornleifssafn hefur í nokkur ár sankað að sér súkkulaðikortum og pakkamerkjum, sem og öðrum kortum sem fylgdu ýmsum vörum þar sem draumamyndum var stungið í pakkann. T.d. voru slík kort mjög algeng með súpukrafti í nokkrum löndum Vestur-Evrópu fyrir rúmlega 100 árum síðan.  Það eru fyrst og fremst myndir sem varða Ísland sem Fornleifur eltir uppi á forn og skransölum. Flest þessara korta hafa með tímanum farið forgörðum og einstaka eru afar sjaldséð. Allir sem komnir eru á aldur muna eftir "leikurunum" sem krakkar söfnuðu. Fótboltakortin í dag eru líklega angi af þeirri menningu. En það er ekkert barnalegt við það að láta sig dreyma í stað þess að hrifsa, taka og ræna, eins og svo margt gengur út á í dag.

Mórallinn með fræðslu og skemmtikortum í pakkavöru var að upplýsa almenning, sem hafði ráð á súkkulaðimolum eða vöru sem var stungið mynd. Þeir sem ekki höfðu það og þar sem sígarettur voru keyptar í stað þess að fá kolvetni fyrir heilann, gátu líka fundið miða, fána og og fróðleik um lönd í tóbakspökkum. Nú eru tímarnir breyttir og myndin er af illkynjuðu krabbameini. Allur þessi áróður í nautnavöru bar að lokum árangur. Kirkjan tók meira að segja upp á því að gefa myndir. Sumir prestar tóku of mikið fyrir eins og nú er orðið kunnugt.

Í dag ferðumst við eins og zombíar, hvert á land sem er, án þess að hugsa nokkuð út í afleiðingarnar en brjálumst þegar eldgos, þ.e. algjörlega náttúruleg mengun, uppi á Íslandi stöðvar þessa sjúklegu ferðaáráttu okkar.

Svo að efninu

Eftir þennan langa formálsvafning, sem að lokum mun líklega eyða ósónlaginu, mun Fornleifur í dag og á næstunni opna nokkra forna súkkulaðipakka og borða innihaldið með góðu kaffi og halda nokkrar sýningar á Íslandskortum sínum úr kaffi-, súkkulaði-, sígarettupökkum og skókössum - svo eitthvað sé nefnt.

Sumir safna hringum af vindlum, (vindlamerkjum) og eitt sinn sá ég dágott safn af vindlamerkjum með íslenskum þemum.  Það er örugglega hægt að komast á flug með þeim líka. Ég vonast til að geta sett safnið mitt smátt og smátt til sýnis hér á blogginu, áður en flæðir yfir danska láglendið vegna hitnunarinnar af allri ferðamennsku nútímans.

IMG_0003 b


Í dag skal byrjað í Frakklandi, sem vafalaust var Mekka pakkamerkjanna. Þar í landi gleymdu menn svo sannarlega ekki Íslandi - frekar en flestum öðrum þjóðum. Frakkar kunnu eitt sinn að láta sig dreyma. Nú hafa þeir orðið allt til alls, óánægja innflytjendur, nærri fullkomna bíla en sumir hanga þó enn í sér eldri konum. Það er vitaskuld líka áhugaverður forngripaáhugi, en verður seint að söfnunaráráttu.

Nýlega eignaðist Fornleifur tvö súkkulaðikort frá verðlaunaðri súkkulaðiverslun, Guérin-Bouteron sem eitt sinn um aldamótin 1900 lá á Boulevard Poissonniere (Fisksalabreiðstræti) nr. 29 í París og sem framleiddi gæðasúkkulaði í eigin verksmiðju á Rue du Maroc númer 23 og 25.  Verðlaunaðir á öllum sýningum, að eigin sögn, og með súkkulaði í hágæðaflokki. Þetta var tilkynnt kaupandanum aftan á kortum sem voru af ýmsum gerðum og sýndu myndir frá mismunandi löndum heims en einnig kyndir með öðru efni en landafræði fyrir alþýðuna. 

Fyrirtækið Courbe-Rouzet í Dole í Júrafjöllum og í París á Rue d´Haueville prentuðu myndirnar fyrir fyrrgreinda súkkulaðiverslun á Boulevard Possonnierre sem og margar aðrar verslanir.

Efst sjáið þið kort sem sýnir smalastúlku gæta lamba, meðan að Hekla lætur aðeins á sér kræla.

Flest litprentskortin frá þessum tíma, um og rétt eftir aldamótin 1900, voru notuð af fjölda verslana. Auglýsingin á bakhliðinni gat verið mismunandi. Til að mynda á Fornleifssafn kortið með smalastúlkunni við Heklu með auglýsingu fyrir framleiðanda skótaus "fyrir ríka sem fátæka" og íþróttaskæðis, Huet, á Rue de Rivoli og Rue de Roule í Paris.

IMG_0011 b

Kortið hér fyrir neðan sýnir tvo ferðalanga með íslenskum leiðsögumanni, dást að himinmigunni í Haukadal sem nú er vart lengur hægt að skoða fyrir útgeldingum sem ferðast um heiminn eins og heimsendir sé í nánd. IMG_0002 b

Kortin tvö eru 6,3 x 10,5 sm stór. Fáið ykkur nú suðusúkkulaði og njótið nægjuseminnar fyrir rúmum 100 árum síðan. Þið fáið aldrei svona kort í Costco. Aðeins á Fornleifi.

  • chokoblog_fornleifur_thumb_1296161Leyfi mér að lokum að minna lesendur á plakatið með Súkkulaði-Siggu, sem er mynd af korti sem stungið var í súkkulaðipakka í Frakklandi. Plakatið er enn fáanlegt (sjá hér). 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband