Heimildir um langspil fyrir aldamótin 1900
23.3.2013 | 07:08
Á síðari árum hefur blómstrað mikill áhugi á langspilinu, einu af tveimur þekktum hljóðfærum Íslendinga fyrr á öldum. Af því sem skrifað hefur verið á síðustu áratugum um langspilið, er grein David G. Woods í Árbók hins íslenska Fornleifafélags sennilega besta heimildin um langspil á Íslandi og sú áhugaverðasta. Ég bendi áhugasömu fólki á að lesa hana. Hún er þó alls ekki tæmandi heimildarsafn um langspilið. Woods rannsakaði fyrst og frem hljómgæði hljóðfæra en hér verður lögð meiri áhersla á elstu heimildir og að sýna elstu hljóðfærin.
Hér skal tekið saman það sem vitað er um langspil á Íslandi fyrir aldamótin 1900, bæði ritaðar heimildir teikningar og ljósmyndir.
Í næstu færslu um langspilið verður greint frá þeim hljóðfærum sem til eru í söfnum og einkaeign og voru smíðuð fyrir aldamótin 1900 - þó ekki hljóðfæri smíðuð úr krossvið.
Arngrímur Jónsson
Arngrímur lærði (1568-1648) nefnir ekki, eins og margir halda fram, langspil í bók sinni Anatome Blefkeniana sem út kom á Hólum árið 1612 og ári síðar í Hamborg. Bókin var andsvar gegn falsi og lygum Ditmars Blefkens um Ísland og Íslendinga. Anna Þórhallsdóttir hin mikla áhugakona um langspilið skrifaði að Arngrímur hefði gert þessa athugasemd við lygar Blefkens: Hvað sönglist og lagfræði snertir, hafa landar mínir verið svo vel að sér, að þeir hafa búið til hljóðfæri upp á eigin spýtur og tekizt vel. Taldist Önnu til að þarna gæti verið átt við langspil.
En upphaflegi textinn hljóðaði nú svona þegar ég fór að lesa hann:
Quoad Musicam et melodiam, non fuerunt adeo amusi nostri homines, quin instrumenta Symphoniaca ipsi artificiose facerent, et melodiam vel musicam, ut vocant, figurativam, recentiore memoria noverint.
Sem getur aðeins útlagst þannig:
Hvað varðar tónlist og sönglist, þá geta landar mínir, það er við vitum síðast til eins og það er orðað, ekki hafa verið án hljóðfæra, sem þeir hafa byggt listavel, eða án tónlistar eða söngs
I handriti að Íslensk-latnesku orðasafni (AM 433 1, fol. I-IX) Jóns Ólafssonar Grunnvíkings, sem tekið var saman á árunum ca. 1736-1772, kemur orðið Langspilsstrengur fyrir. Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur á Árnastofnun hefur vinsamlegast upplýst mig að í seðlum Jóns Ólafssonar við orðasafn hans komir orðið langspil fyrir (sjá athugasemd Rósu í athugasemdum neðst).
Kveðskapur á 18. öld
Vísa Árna Böðvarssonar (1713-1776) á Ökrum á Mýrum tileinkuð Latínu Bjarna, Jónssyni (f. 1709), sem einnig var kallaður djöflabani. Bjarni Jónsson var bóndi og bjó á Knerri í Breiðuvík. Af Bjarna þessum eru einnig til þjóðsögur í safni Jóns Árnasonar.
Smiður bezti, vanur til veiða,
vistast hjá honum allar listir,
fiðlu, simfun, fer hann tíðum,
fiol, hörpu, langspil, gígju,
kirurgus er mörgum meiri
maður tryggur, vel ættaður,
orðsnotur, skáld, allvel lærður
Árni kveður um Jónsson Bjarna.
Jón Steingrímsson
Önnur 18. aldar heimild um íslenska langspilið er ævisaga séra Jóns prófasts Steingrímssonar (1728-1791) sem hann ritaði sjálfur á árunum 1784-1791. Í sögunni er tvisvar minnst á langspilsleik:
Hún [þ. e. Þórunn Hannesdóttir, síðar eiginkona höfundar] hafði mig og áður séð, er eg var í skóla [í Hólaskóla 1744-1750], því síra Sveinn [Jónsson, prestur á Knappsstöðum] og síra Pétur [Björnsson, prestur á Tjörn], skólabræður mínir, sem voru um hátíðir þar á klaustrinu,lokkuðu mig um ein jól að koma þangað að sjá stað og fólk og slá þar upp á langspil, er eg með list kunni, ásamt syngja með sér, hvar af klausturhaldari hafði stóra lyst á stundum. Þá eg í minni Setbergsferð, hvar um áður er getið, hafði næturstað á Bæ í Borgarfirði, sá eg þar snoturt langspil, er þar hékk, og þarverandi húsmóðir, Madame Þuríður Ásmundsdóttir átti og brúkaði. Hún, sem gera vildi mér alt til þénustu og afþreyingar, bauð mér það til að slá upp á það. Og þá eg það reyndi, gat eg það ei fyrir innvortis angursemi og hugsun til fyrri daga, hvað þá hún sá, tók hún sjálf að spila á það ein þau listilegustu lög, hvar við eg endurlifnaði við og fékk þar af sérleg rólegheit.
John Thomas Stanley
Enski ferðalangurinn og John Thomas Stanley barón af Alderley (1766-1850) stýrði leiðangri til Færeyja og Íslands árið 1789. Í ferð sinni um Ísland heimsótti Stanley og rannsakaði ýmsa þekkta staði og umhverfi þeirra. 28. ágúst 1789 var ritað í dagbók leiðangursins að Stanley hefði fundið íslenska hljóðfærið langspil (Þannig þýtt i grein D.G. Woods):
Þegar Stanley kom um borð í skip leiðangursins sýndi hann okkur íslenskt hljóðfæri, sem heitir langspil. Það er í lögun líkast stýfðum píramíða, 5 ½ þuml. sinnum 3 og 1 í toppinn, hæðin 39 þuml., með sex strengjum úr látúnsvír, hinn lengsti 37 og hinn stysti 12 ½ þumlungur festir líkt og gítarstrengir við grunn píramíðans, og leikið á þá með klunnalegum boga. Stanley lék á það, en naumast getur annað hljóð látið verr í eyrum en þau, sem úr því komu. [Hér vantar setningu hjá þeim sem þýddi]
(Upphaflegi textinn er þannig: When Mr. Stanley came on board, he shewed us an Icelandic Instrument of music called Langspiel. It is a frustrum of a rectangular pyramid 5½ in by 3 and 1 sq at the top. height 39 in with 6 Strings of thick brass wire the longest about 37 inches and the Shortest 12½ inches with stops like those of the Guitar - The strings come over a Moulding at the base of the pyramid and are played upon by a clumsy Bow. - Mr. Stanley played upon it but nothing is more grating to the ear than the sounds it produced. It is it seems a very Ancient intrument, introducing here perhaps by the first Norwegian Colonists.
Erfitt er að átta sig á útliti þessa 6 strengja hljóðfæris, með mismunandi lengd strengja.
William Jackson Hooker
Árið 1809 ferðaðist um Ísland ungur enskur grasafræðingur, William Jackson Hooker (1785-1865). Árið 1811 kom út í Yarmouth bók hans Journal [á 1. titilblaði stendur reyndar Recollections] of a Tour in Iceland in the Summer of 1809. Hooker, sem síðar varð forstöðumaður grasagarðsins fræga í Kew, lýsti með mikilli hrifningu heimsókn sinni að Innra-Hólmi nærri Akranesi, þar sem Magnús Stephensen bjó. Magnús var sem kunnugt er sonur Ólafs Stephensens og var hann lögmaður norðan lands og austan árið (1789), síðan settur landfógeti og árið 1800 og varð dómstjóri (háyfirdómari) í Landsyfirrétti, sem þá var nýstofnaður. Þar að auki bar hann titilinn Etatsráð (Etatsråd) sem var það sem Íslendingar komust næst aðalstign. Magnús bjó árið 1809 með fjölskyldu sinni að Innra-Hólmi við Hvalfjörð. Til er góð stutt íslensk endursögn á því sem Hooker sá á upplýsingarheimilinu að Innra-Hólmi í tímaritinu Brautinni árið 1928, en í bók Hookers sjálfs er lýsingar allar mjög langdregnar:
Segir Hooker, að þar sé ágætlega húsaður bær, enda búi þar maður sem sé háyfirdómari, og svo vel búinn að gáfum og lærdómi, að sómi myndi að honum í hverju þjóðfélagi sem væri. Alt benti til þrifnaðar, jafnvel útihúsin báru vott um smekk og snyrtimennsku. Var að vísu fylgt gamalli landsvenju i húsaskipun og byggingaefni. Mörg hús í röð hlaðin upp úr torfi og grjóti, en þó var svo frá öllu gengið, torfveggjunum og torfþökunum, að sannarlegt prúðmennskusnið var á. Útidyrnar voru málaðar og stórir gluggar á bænum. Var gengið inn löng göng alþiljuð, og með timburgólfi. Bókastofa húsbóndans var í meðallagi stórt herbergi, alsett bókum. Innar af því dagstofa, var hún blámáluð með gipsrósum á lofti. Var þar inni góður húsbúnaður líkur þvi er tíðkaðist á Englandi. Á veggjunum voru nokkrar litmyndir meðal annars af Napóleon Frakkakeisara og Nelson sigurvegaranum við Trafalgu. Strax er þeir voru seztir að, bar bóndinn fram hvítt vín og tvíbökur, og meðan beðið var til máltíðar sýndi húsbóndinn Hooker ýmsar fágætar og merkar bækur, og handrit um sögu landsins. Þar voru og bækur eftir merkustu rithöfunda, franska, þýzka, sænska og danska, og mikið af enskum skáldritum. Par að auki megnið af fornritum Grikkja og Rómverja. - Sönglistin var einnig í hávegum höfð á Innrahólmi. Stóð upp að vegg í dagstofunni stórt orgel, og þegar Hooker lét á sér skilja, að sig langaði til að heyra íslenskan söng, kom fjölskyldan inn, og söng fyrir hann nokkur sálmalög, en húsbóndinn lék undir á hljóðfærið. Einnig söng dóttir húsbóndans nokkra íslenzka og danska söngva, og lék undir á langspil. Um kl. 3 var sezt að miðdegi, var fram borin steik með sætu kirsuberjamauki og kálstöppu, en á eftir kom rauðvín, laufabrauð og kökur.
Hooker teiknaði eitt langspilanna eftir minni og birtist teikningin í bók hans um Íslandsförina árið 1811.
Í bók Hookers var langspilið sýnt á haus
George Steuart Mackenzie
Sir Mackenzie (1780-1848) kom einnig við hjá Stephensen fjölskyldunni á Innra-Hólmi á reisu sinni árið 1810 sem hann greindi frá í mikilli bók sinni Travels on the Island of Iceland during the Summer of the Year MDCCCX, sem var gefin út árið 1811. Mackenzie greinir svo frá langspilinu á bls. 146-47:
While busily engaged with our viands, our ears were all at once struck with musical sounds. Knives and forks were instantaneously laid down; and we gazed at each other in delight. Having heard nothing of the kind before in Iceland, except the miserable scraping of the fiddle in the Reikjavik ballroom, the pleasure we now derived from agreeable sounds and harmonious music, was very great. When our first surprise was over, and we could recollect ourselves, we thought that the music, which proceeded from an apartment above, was from a pianoforte; but we were told that it was an Icelandic instrument, called the Lang-spiel; and that the performers were the son and daughter of Mr Stephenson, whose proficiency upon this instrument was considered to be very great. The Lang-spiel, which was now brought down for our inspection, consists of a narrow wooden box, about three feet long, bulging at one end, were there is a soundhole,and termination at the end like a violin. It has three brass wires stretched along it, two of which are tuned to the same note, and one an octave lower. One of the two passes over little projections, with bits of wire on the upper part. These are so placed, that when the wire above them is pressed down by the thumbnail, the different notes are produced on drawing a bow across; and the other wires perform the same office as the drones of a bagpipe. In short, it is simply a monochord, with two additional strings, to form a sort of bass. When the instrument is near, it sounds rather harsh; but, from adjoining room, especially when the two are played together, as was the case when we first heard the music, the effect is very pleasing. The tunes we heard played were chiefly Danish and Norwegian. Mr Stephenson's daughter made me a present of her Lang-spiel,from which this description and the drawing were taken.
Við þessa frásögn er rista af langspilinu gerð af E. Mitchell.
Eftir dóm um miður fallegan söng ungra stúlkna á Innra-Hólmi skrifar Mackenzie: Mr Stepenson's family is the only one in Iceland that be said to cultivate music at all. He himself plays upon a chamber-organ, which he brought from Copenhagen a few years ago.
Auguste Étienne François Mayer
Smellið á myndina til að stækka hana
Listamaðurinn Auguste Mayer (1805-1890) ferðaðist með lækninum og náttúrfræðingnum Joseph Paul Gaimard (1796-1858) um Ísland árin 1835 og 36, og teiknaði af mikilli leikni það sem fyrir augun bar. Listaverk hans voru gefin út í þremur stórum bindum (Atlösum) sem fylgdu 11 binda ritröð um ferðir Gaimards til Íslands og Grænlands, sem bar heitið Voyage en Island et au Groënland. Ekki er í bókunum greint frá þeim "concert" sem frönsku ferðalangarnir upplifðu í hlóðaeldhúsinu á Grímstöðum á Fjöllum, en myndin sem birtist í öðrum atlas leiðangursins er steinprent (litógrafía) með lýsingunni: Un concert à Grimsstadir (Islande). Myndin er á við mörg langspil.
Benedikt Gröndal
Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1827-1907) verður að teljast með hér, þegar hann lýsir langspilsleik móður sinnar í Dægradvöl, bók sem út kom að honum látnum árið 1923 og var eins konar blogg þess tíma. Gröndal óð úr einu í annað. Kallinum þótti gaman að lífinu! Hann segir svo frá langspilinu í bókinni:
Um Langspil hjá Benedikt Gröndal: Dægradvöl (Afisaga Mín), Bókaverslun Ársæls Árnasonar , Rvík, Prentsmiðjan Gutenberg - MCMXXIII (bls. 40)
Einu sinni man jeg til at Bjarni Thararensen kom; jeg man eptir honum og sýndist mjer hann stærri en hann var í raun og veru, því að jeg var barn, en Bjarni bar sig hátt og ljet mikilmannlega; hann var á rauðum kjól, eðalmaður á hæð, baraxlaður og flatvaxinn; hann beiddi móður mína að spila á langspil, sem hún var ágætilega vel leikin í, og spilaði hún þá Lyt Elskede, ut", en Bjarni söng undir. Þetta hefur verið 1836 eða 7.; Þá voru Langspil alltíð á Alptanesi; í Mackenzies ferðabók er mynd af langspili með bumbu, alveg eins og móðir mín átti, með þrem strengjum, myndin er alveg rétt. Móðir mín var fræg fyrir þetta spil, hún ljek valsa og allskonar lög. Sum langspil voru ekki með bumbu, en einungis breiðari í þann endann sem hljóðopið var á og leikið var yfir; strengirnir voru þrír en nótur settar einungis á þann strenginn sem næstur manni var og hæst var stemdur. þar næst var strengur einni octövu lægri og svo bassinn. Í bók Ólafs Davíssonar um gátur og leiki og í Sunnanfara (nr. 6, 1893) er talað um langspil af töluverðum ókunnugleik (þar sendur og bls. 272 að M. St. hafi andast 1827) Ólafur ætlar að þau sjeu alíslenzk að uppruna,en þau eru sjálfsagt frá Noregi og heita (hjetu) "langeleg", "Langeleik" og "Langspel" (I. Aasen). Um langspil eru þessi vísa, líklega eptir Rósu;
"Netta fingur venur við
veifir slingur korða
hjartað stingur, fær ei frið,
fallega sýngur langspilið".
Vatnsenda Rósa
Það var Rósa Guðmundsdóttir (1795-1855) sem svo orti þannig um langspilið:
Hvort þetta var ort er Rósa var í þingum við Natan Ketilsson í Húnaþingi, eða síðar er hún bjó í Markúsarbúð undir Jökli (Snæfellsnesi), er ekki vitað, en falleg er vísan.
Ljósmyndir
Til eru tvær skemmtilegar ljósmyndir af mönnum sem leika á langspil. Ein er af Jóni Ásbjörnssyni (f. 1821), sem einatt var kallaður goskall. Jón var vinnumaður og bóndi víða í Borgarfirði og á sunnanverðu Snæfellsnesi en átti heima í Borgarnesi frá 1879 til dauðadags 1905. Myndina hefur Árni Thorsteinsson sennilega tekið (Úr ljósmyndasafni Þjóðminjasafns Íslands). Svo virðist sem Jóns leiki á langspil með bogadreginni hlið.
Hin ljósmyndin var tekin einhvers staðar í Húnaþingi (Skagaströnd) af danska ljósmyndaranum Johannes Klein sem ferðaðist með Daniel Bruun um Ísland árið 1898. Bóndinn leikur á langspil með bogadreginni hlið (sem sumir kalla bumbu).
Hljóðfæri | Breytt 31.1.2021 kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)