Fornleifur í fjarðaleit

39_fornleifur_1282073.jpg

P.s. Leitinni er lokið - Myndin er tekin í Trékyllisvík:

Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, sem er manna fróðastur um Strandir, áleit til að byrja með  að myndin væri tekin á Ingólfsfirði (sjá hér). Hann hafði þó samband við Guðmund Jónsson fyrrv. hreppstjóra í Munaðarnesi, sem þekkir einnig vel til á þessum slóðum, sérstaklega frá sjó, þó hann sé nú fluttur á Grundarfjörð. Guðmundur, taldi víst að myndin væri tekin í Trékyllisvík og tekur Haukur Jóhannesson heils hugar undir það. Haukur ritaði mér eftir að þessi grein hafði birst: "Ég er búinn að bera myndina undir Guðmund á Munaðarnesi. Hann segir að myndin sé tekin á Trékyllisvík og það er rétt þegar betur er að gáð. Skipið hefur verið undir bökkunum innan við Krossnes og það sést yfir Melavíkina og upp á Eyrarháls. Haugsfjall er á sínum stað og Eyrarfjall en hægra megin sést í Urðanesið undan Urðartindi milli Melavíkur og Norðurfjarðar.    Þetta er alveg örugg greining."

Fornleifur tekur einnig undir þetta og þakkar hér með Hauki og Guðmundi fyrir alla hjálpina í leit að hinu sanna um myndina af Camoens.

Sannast sagna hefur Fornleifur ekki minnstu hugmynd um hvar þessi mynd (sem er skuggamynd/glerskyggna) er tekin. Fornleifur verður nú að viðurkenna vanmátt sinn og biðja um hjálp lesenda sinna.

Um 1885-87, þegar þessari mynd, einni af elstu myndaskyggnum frá Íslandi, er lýst í sölulista fyrir skuggamyndasyrpu sem kölluð var England to Iceland, hét skipið Camoens. Skrifað stendur að skipið sé við Akureyri. Myndin er ugglaust tekin af tveimur Bretum, Burnett og Trevelyan, sem ferðuðust saman til Íslands til að stunda stangaveiðar og til að ljósmynda land og þjóð.

Ég kannast þó ekki við þessi fjöll úr sjóndeildarhring Akureyrar. Ég hef haft samband við frótt fólk á Seyðisfirði sem ekki telur myndina tekna þar. Ágæt hjón, sjómaður og bókavörður á Seyðisfirði, telja myndina ekki vera tekna á Austfjörðum. Þau létu sér detta Ólafsfjörð í hug. Þúsundþjalasmiður á Siglufirði telur myndina ekki vera frá Siglufirði og heldur ekki frá Ísafirði, þó svo að hann telji meira en mögulegt að hún geti verið frá Austfjörðum eða Patreksfirði. Ég hef ekki siglt nóg í fjörðum landsins til að þekkja fjöll. Mér finnst fjöllin í fjörðum alltaf breytast, eftir því hvað klukkan er og líka eftir árstímum. Þessi mynd er þó líklegast tekin í byrjun sumars.

Myndirnar í syrpunni England to Iceland, af þekktum stöðum snúa rétt þegar miðinn með titlinum England to Iceland og númerið snýr að manni. Hugsanlegt er þó, að þessari mynd hafi verið snúið rangt miðað við miðana. Ég set hana hér einnig fyrir neðan á röngunni ef vera skyldi að það sé réttan.

Vænt þætti mér ef fjarðafræðingar, sjómenn, bændur, prestar, Ómar Ragnarsson, ómagar og jafnvel þingmenn segðu mér, hvar þeir telji að myndin sé tekin. Allir sem þykjast vita meira en Fornleifur mega skrifa á athugasemdasvæði hans í dag.

93_rufielnorf.jpg


Bloggfærslur 22. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband