Stopp !! Fyrir alla muni

Skatthol Skúla

"Hver er eiginlega tilgangurinn með sjónvarpsþáttunum Fyrir alla muni", spurði einn vina Fornleifs í gær? Honum var greinilega niðri fyrir vegna þess hve lélegir honum þóttu þættirnir, enda er hann smekkmaður á fortíð, sögu og menningu.

Ég leit því á efnið í þessum þáttum. Nú síðast var búinn til einskis nýtur þáttur með þessu annars ágæta nafni fyrir skattpeninga landsmanna - af fólki sem greinilega veit lítið, eða alls ekkert, um hvað það er að ræða eða fræða um.

Jafnvel þótt þáttarstjórnendur leiti til rótgróinna menningarstofnanna eftir upplýsingum, verða þáttastjórnendur því miður einskis vísari. Allur vísdómur virðist hafa flutt úr landi og jafnvel löngu fyrir hrun.

Í síðasta þætti Fyrir alla Muni (sjá hér) var fjallað um meðalgæða empire-mublu (sem mér sýnist að sé spónlögð). Hún er, að því að mér sýndist, frá miðbiki 19. aldar. Í þættinum er sögð saga af fólki í Breiðholti sem telur að þetta skúffedaríum hafi verið í eigu Skúla fógeta Magnússonar og að forfeður þeirra hafi náð í það í Viðeyjarstofu er hún vað að hruni komin snemma á 7. áratugnum.

Þátturinn byrjaði reyndar á því að ekið vestur í bæ. En viti menn, allt í einu var bíllinn kominn upp í Breiðholt. Jafn öfugsnúið var allt annað í þessum þætti.

Sams konar (eða álíka) mublu, chatol eða skatthol eins og það heitir nú á íslensku, er hægt er að fá fyrir slikk í Danmörku, þaðan sem mér sýnist að skattholið sé ættað. Skattholið var reyndar ekki sýnt sérstaklega vel í þættinum Fyrir alla muni. Mér sýnist skúffedaríið vera lagt með spón af eik eða afrísku mahóní.

Eigendurnir sem eiga kjallarann í Breiðholti sjá líklega ofsjónum fúlgur faldar í skúffedaríinu, fyrst þeir halda eða telja sér trú um að Skúli fógeti hafi setið við það. Í fjölskyldunni var ævinlega talað um skáp/púlt Skúla.

Greint var frá því í þættinum, að afkomendur eiganda skattholsins hafi leitað til eins af stjórnendum þáttarins til að finna kaupanda í útlandinu.  Reyndar er mublan í Breiðholtinu, sem er sýnd mjög lítið og illa í þættinum, aðeins neðri hlutinn af skattholinu. Toppskápinn vantar. Það kom vitaskuld heldur ekki fram í þessu fræðsluefni á vegum RÚV, frekar en svo margt annað sem skipti máli við að leysa ráðgátuna sem sett var fram.

Stíllinn á skattholinu, einn og sér, sýnir það ljóslega að mublan er í empire (borið fram ampír) stíl og er hún frá miðbiki 19. aldar. Þess er ekki getið í þættinum. Danir framleiddu empire-mublur lengur en t.d. Frakkar, þannig að skattholið gæti hugsanlega verið frá síðari hlut 19. aldar (síð-empire).

Leitað til Þórs Magnússonar

Þó enginn starfsmanna fáliðaðs Þjóðminjasafns hafi haft burði til að fræða skransala og eina af þessum æsiblaðakonum sem vinna fyrir auglýsingatekjur RÚV, hefði ekki þurft að angra öldunginn og eftirlaunaþegann Þór Magnússon, þó hann sé sagður "vita allt", til að láta hann segja þjóðinni að þetta geti ekki verið mubla Skúla vegna þess að hann sá hana ekki í Viðey á 7. áratug síðustu aldar.

Rök Þórs voru æði furðuleg og alls ekki byggð á stílfræði húsgagnsins eða fræðilegu mati.

Þar sem Þór var viss um að hann hafði ekki séð skattholið í Viðey á 7. áratug síðustu aldar, þegar afkomendur stórbóndans Eggerts Briem Eiríkssonar fóru og sóttu skattholið, taldi Þór að þetta gæti ekki verið mubla Skúla. Furðulög rök það, en enn meiri furðu sætir að Þór beitir ekki fyrir sér mikilli þekkingu sinni og annálaðri og bendi einfaldlega á að mublan sé í empirestíl og geti því ekki verið frá tímum Skúla fógeta. Eitthvað viturlegra hefði vissulega getað hafa verið klippt út úr þættinum, því þáttagerðarmenn eru óprúttnir í viðleitni sinni við að "búa til góða sögu". Sannleikurinn er ekki alltaf besta sagan hjá fólki í þeim bransa.

Skúlaskeið

Afkomendur Eggerts Briem Eiríksson, sem námu á brott mubluna í Viðeyjarstofu, gætu hæglega verið að segja sannleikann um hvernig þau náðu í húsgagn forfeðra sinna, því mublan er frá 19. öld og gæti því hafa verið ritpúlt Eggerts Briem eða jafnvel föður hans Eiríks biskupsritara.

Eeeen ekki áttu allir Íslendingar svona fínar mublur á 19. öld. Þeir sem ekki voru höfðingjar, illmenni og arðræningjar urðu að láta sér nægja að geyma sitt dót í smákistlum og rita sín bænabréf við ljósið frá grútarlampa á heimasmíðaðri fjöl. 

Summa summarum er að skattholið í þættinum Fyrir alla muni hefur Skúli Magnússon hvorki setið við með bókhaldið sitt, né séð. Það geta allir fræðst um við einfalda leita að orðinu chatol (t.d. á dönsku) á netinu (leitið líka að myndum af chatol). Í leiðinni geta menn, sem ólmir vilja eignast "Skúlaskápa", litið á verð á álíka skattholum og séð að það er vafalítið lægra en innflutningskostnaður. Lítið fæst fyrir 19. aldar mublur þessa dagana. Kannski á það eftir að breytast.

21 chatol

Það verður að teljast stórfurðulegt, að verið sé að búa til heilan sjónvarpsþátt með kjánalegum spuna um eitthvað, sem auðveldasta mál hefði verið að ganga úr skugga um með leit á veraldarvefnum. Þá hefðu menn líklega einnig uppgötvað, að á mublunni í kjallaranum hjá Brímunum í Breiðholtinu vantar toppstykki, eins og það sem sjá má hér að ofan. Toppstykkið vantar greinilega líka í þættina sem Fornleifur leyfir sér að gagnrýna hér af sinni alþekktu grimmd.

Þjóð sem hendir

Íslenska þjóðin hefur flýtt sér svo mikið úr "helv..." fortíðinni, að fæstir þekkja vart stíl og smekk fólks fyrir 70-100 árum síðan eða fyrr. Nú er allt eins konar Ikea, nema menn teljist til Epal-elítufólks sem er svo vel í álnum og vitstola, að það kaupir það sem flott þykir á 100-200% hærra verði en það selst á í nágrannalöndunum. Íslendingar henda einnig manna mest í Evrópu á haugana.

Vanþekking íslenskra skransala í gegnum tíðina, á því sem þeir eru að selja, sýnir þetta líka mjög glögglega. Skransalar þurfa náttúrulega ekki að vita nokkurn skapaðan hlut, en það væri nú líklega til bóta ef lágmarksþekking væri fyrir hendir. En þegar sölumenn, sem eru að fara með "meint húsgögn" föður Reykjavíkur í sölu til útlanda, vita ekki neitt um það sem þeir taka að sér að selja, þá verða þeir fyrir alla muni að lesa sér betur til - og það hefur reyndar aldrei verið auðveldara. Lestrarkunnátta Íslendinga hefur aftur á móti aldrei verið verri.

Saga af skransala

Hér segir frá sölumennsku skransala eins í Reykjavík, sem hafði til sölu nokkuð kindugan róðukross, sem hann kynnti til sögunnar sem "rómverskan"; og geri aðrir betur. Það er kannski ekki í frásögur færandi, að skransala mannsins fór á hausinn og að hann er hinn sami Sigurður Helgi Pálmason (Gunnarssonar hljómlistamanns) sem sér um stjórn þáttanna Fyrir alla muni.

Áhugi þjóðar, sem af öllu hjarta fyrirlítur fortíðina, var ekki mikill á dýrkeyptu silfri skransalans, sem vildi selja flest sem gulls ígildi. Í dag er Sigurður Pálmason starfsmaður Myntsafns Seðlabankans, þegar hann er ekki að skýra út skran á RÚV með lítilli aðstoð frá stofnunum sem ætti að hafa vit á fortíðinni.

soluro_a.jpg

Róðukross samsettum úr hlutum frá mismunandi tíma, reyndi Safnaramiðstöðin að selja á 4,6 milljónir króna hér um árið. Hér má lesa fræðilegt álit á hinum heilaga krossi samsettum á síðari tímum óheiðarlegum. Kannski kemur þáttur um kross þennan í röðinni Fyrir alla muni og góð skýring á vel stæltum handleggjum Krists?

Fornleifur telur að sú ágæta kona, sem hlýtur brátt að verða útvarpsstjóri á RÚV, ætti að sýna sparnað í verki og velta starfsmönnum stofnunarinnar af makindalegri vindsæng Bjarna Ben og taka af þeim sólgleraugun. Síðan mætti skipa þeim að láta endursýna þættina Muni og Minjar, þótt það sé gamalt og sigið sjónvarpsefni (ja, vonandi er ekki búið að henda þeim þáttum á haugana). Fyrir mannsaldri síðan, reyndu Eldjárn og órykfallinn Þór Magnússon að minnsta kosti að miðla vitsmunum í þjóðina, Þeir fornólfarnir, Kristján og Þór, þurftu ekki að aka Miklubrautina vestur í bæ til að fara upp í Breiðholt til að fá gott "plott" í þættina sína.

Svo gerið það nú fyrir hann Fornleif að sökkva vindsængum RÚV í skítalæk í Fossvogi og látið svo hendur standa fram úr ermum. RÚV verður að geta gert betur fyrir allar auglýsingatekjurnar sem velta inn og sem ýmislegt græðgispakk á sólbekkjum lífsins vill fá fingurna í. En þættir, sem gerðir er líkt og menn gangi með tvöföld sólgleraugu í rökkri, eru kannski það sem menn vilja sjá til að láta ljúga sig stútfulla. 


Bloggfærslur 3. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband