Spurning varðandi Ruth Rubin

Endurtekið efni: Hér er gamalt efni. Þennan greinarstúf birti ég árið 2008 á postdoc.blog.is

d_billeder_ruth_rubin

Nýlega [þessi grein var upphaflega birt árið 2008], þegar fréttir bárust af hryllilegu morði á 10 ára barni í Svíþjóð, urðu menn forviða og harmi slegnir. Allir, og sérstaklega allir foreldrar, fyllast harmi og hryllingi við slíkar fréttir frá nágrannalandi okkar, þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur alið manninn og hlotið menntun sína og gildismat. Ekki vantaði heldur dóm íslenskra bloggverja yfir manninum sem framdi ódæðið. Hann verður örugglega dæmdur eftir þeim lögum sem gilda í Svíþjóð.

Annað var upp á teningnum fyrir fyrir u.þ.b. 16 árum, þegar farið var fram á rannsókn á máli meints stríðsglæpamanns á Íslandi sem hafði gerst íslenskur ríkisborgari eftir að hann strandaði hér á leið til Venezuela. Gömlum vitnisburði og skýrslum var til að byrja með hafnað sem KGB áróðri, t.d. af Morgunblaðinu, sem dældi út rógi um Simon Wiesenthal stofnunina. Lögfróðir menn, sem leitað var til, töluðu gegn betri vitund og rannsókn málsins var dregin á langinn. Maðurinn, Eðvald Hinriksson, var t.d. ásakaður um aðild að morði á ungri stúlku, Ruth Rubin, sem var í haldi lögreglusveitar þess sem hann var meðlimur í.  Evald Mikson hét hann, þegar sveit sú sem hann var í hóf gyðingamorð. Sveitin byrjaði á morðunum áður en Þjóðverjar voru almennilega búnir að ná yfirráðum í Eistlandi.

Mikson dó drottni sínum rétt eftir að Íslensk yfirvöld tóku við sér og ákváðu að líta á ásakanirnar á hendur honum.  Þrátt fyrir að honum hafi verið hlíft við rannsóknum og réttarhöldum, skilgreina eistnesk stjórnvöld hann nú sem stríðsglæpamann.

Forseti vor og utanríkisráðherra höfðu, þegar mál hins meinta stríðsglæpamanns var í gangi, ýmislegt til málanna að leggja. Hér  og hér getið þið lesið hvernig málið leit út frá þeirra sjónarhorni. Leiðtogar Hizbollah áttu alla samúð Ólafs, eins og það kæmi eitthvað máli eistnesks stríðsglæpamanns við, og Ingibjörg víðförla var á því að gyðingar ættu engan einkarétt á helförinni eða þjáningu. Mun hún endurtaka það í Öryggisráði SÞ?

Algjör þögn virðist nú vera um mál stríðsglæpamannsins á Íslandi. Blaðamaður í fremstu röð, "sem þorði meðan aðrir þögðu" var næstum því búinn að missa vinnunna vegna þess að hann skrifaði um málið. Hann ætlaði að skrifa bók um efnið, en stendur nú í staðinn í því að skýra gjörðir yfirvalda í Kópavogi. Ég bíð eftir bókinni.

Af hverju fyllist íslenska þjóðin af hryllingi yfir barnamorði í Svíþjóð, þegar stór hluti hennar vill verja mann sem ásakaður var fyrir að hafa nauðgað stúlku og myrt?

Ég geri mér grein fyrir því að fjarlægðin í tíma og rúmi getur gert menn miskunnsamari gagnvart voðaverkum og sekt? Það, að hinn meinti stríðsglæpamaður var orðinn Íslendingur og átti syni sem voru duglegir íþróttamenn á heimsmælikvarða, hafði líka mikið að segja í sambandi við álit Íslendinga. Hann var "einn af okkur". Svo þekkist viðkvæðið: "Aðrir skulu ekki koma hér og segja okkur fyrir verkum". Það heyrðist nýlega þegar Íslendingur fékk sjö ár í steininum í Færeyjum fyrir aðild að kókaínsmygli. Hann hefði, samkvæmt lögfróðum Íslendingum eins og Brynjari Níelssyni og Sigurði Líndal, aðeins fengið innan við ár á Íslandi. 

Það læðist að mér sá grunur að áhugi Íslendinga, og margra annarra, á fórnarlömbum og órétti stýrist t.d. af því hvaða þjóðflokkur hefur orðið fyrir órétti. Margir Íslendingar gráta frekar sænska stúlku en gyðingastúlku í Tallinn. Getur þetta verið rétt athugað hjá mér?

1929_Rubin_family
Ruth Rubin og fjölskylda hennar. Maðurinn lengst til hægri er Haim Arlosoroff, síonistaleiðtoginn sem myrtur var á hrottalegan hátt í Tel Aviv árið 1933. Kona hans, Sima, var föðursystir Ruth Rubin. Arlosoroff hafði á 2. áratug aldarinnar stundað nám í Berlín, þar sem hann var unnusti Mögdu Behrend, sem síðar fékk eftirnafnið Göbbels - já maðurinn hennar var einmitt sá Göbbels. Árið 2016 kom það fram að líffræðilegur faðir Mögdu Behrends hefði verið gyðingur, Richard Friedländer (sjá hér).
 
Mikilvæg viðbót:
 
Þegar þessi grein birtist fyrst árið 2008, gerði Þór Jónsson fyrrv. fréttamaður á Stöð 2 eftirfarandi athugasemd:

Komdu sæll, Vilhjálmur Örn, og gleðilegt sumar. Raunar sagði ég upp vinnu minni á Stöð 2 á sínum tíma vegna þess að þáverandi fréttastjóri [innskot Fornleifs: þetta var Ingvi Hrafn Jónsson] vildi að ég steinhætti öllum fréttaflutningi um Mikson-málið. Hann hafði áður látið klippa úr fréttum sem ég sendi að utan og ´kælt´ aðrar ofan í skúffu þar til aðrir fjölmiðlar hér á landi urðu á undan að flytja þær. - Það var forvitnilegt að sjá ljósmynd af Ruth litlu. Ég gleymi ekki þegar ég skoðaði frumgögnin um handtöku hennar og yfirheyrslu í þjóðskjalasafninu í Tallinn og barnslega undirskrift hennar á skjölunum sem áttu að gefa glæpsamlegu athæfi einhvers konar lögformlegan blæ. Hún var auðvitað drepin. Mig minnir að hún hafi verið 14 ára.

Þór Jónsson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 21:26


Bloggfærslur 21. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband