Nú er það svart maður: Seðlabankastjóri og fræðimaður skaka tennur

asgeirÞegar jarðeldar í landnámi Ingólfs Arnarssonar eru vart kulnaðir, berast þau válegu tíðendi ofan af meginlandinu, að menn berist á banaspjót út af lausaralegum tilgátum um rosmhvalaveiðar við Íslandsstrendur í fyrndinni, þá er allt var miklu betra og fegurra en á okkar svörtu pestartímum.

Fræðimaður einn, sem byggt hefur upp miklar hugarborgir tilgátna - reyndar án mjög sannanlegra raka - ásakar fjárhaldsmann þjóðarinnar inn helstan, Ásgeir Jónsson haugfjárhaldara íslenska ríkisins, um stuld. Ásgeir á, hvorki meira né minna, að hafa framið hugmyndastuld um hábjartan dag.

Fjárhirðir þjóðarinnar er rómantískur drengur, og les greinilega mikið á vakt sinni yfir fé þjóðarinnar og greinilega margt annað en það er varðar fjárbúskap og peningahald. Hvernig honum gefst tími til þess væri gaman að vita - við tækifæri. 

Dr.art. Bergsveinn Birgisson rithöfundur og fræðimaður ásakar dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um ritstuld. Bergsveinn hefur sett fram frekar illa undirbyggðar tilgátu um miklar rostungsveiðar við Ísland í tveimur bókum, norskri árið 2013 og íslenskri bók, Leitin að svarta víkingnum (LSV), sem út var gefin árið 2016. Bergsveinn hugmyndasmiður telur að seðlabankastjóri hafi gert strandhögg í bók sína og gefið út stolnar hugmyndir í jólabók sem bankastjórinn, dr. Ásgeir, kallar Eyjan hans Ingólfs og selur nú fyrir jólin.

Á Fornleifi hef ég lítillega skrifað um kenningarsmíðar Bergsveins, sem mér þótti harla lítið til koma hér um árið (sjá hér). Hann gerir ekki aðeins Geirmund Heljarskinn að veiðimanni, heldur einnig að tvífara kokksins á veitingastaðnum Asíu á Laugarvegi. Persónulega finnst mér sú tilgáta mjög langsótt og færði ég, að því er ég tel, fyrir því frekar haldbær rök í grein minni.

heljarskinn.jpg

Bergsveinn gerði Geirmund Heljarskinn að fjölmenningarbarni frá Noregi í bókum sínum um Geirmund. Ef maður stelur þeirri tilgátu varðar það við lög, og barnasáttmála SÞ.

_rvaroddur_fundinn_i_reykjavikFornleifafræðingurinn í mér telur telur svo enn fremur, að lítil sem engin fornleifafræðileg rök séu fyrir því að á Íslandi hafi verið stundaðar miklar rosmhvalaveiðar við landnám - og enn síður fyrir landnám, eins og fornleifafræðingur einn lætur sig dreyma um og kallar búsetu landnámsmanna fyrir landnám "stöðvar".

Í Reykjavík hefur fundist rostungstönn, sem er mun eldri en landnám og þær byggðarleifar sem hún fannst í. Hún gæti hæglega hafa verið ættuð úr hræi/beinagrind rostungs sem menn hafa fundið við ströndina. Engar leifar um umfangsmiklar veiðar og vinnslu rosmhvala hafa fundist við hinar ýmsu fornleifarannsóknir í Reykjavík, og hvergi annars staðar á landinu. Þess má þó af sanngirni geta að einn spjótsoddur fannst í Reykjavík af norðurnorskri/austrænni gerð, sem einnig gæti bent gæti til stórveiða, en oddurinn gæti hafa borist með landnámsmönnum sem stunduðu slíkar veiðar í Noregi, áður en þeir fluttu sig um set (sjá meira um oddinn hér). Ég var fyrstur manna að greina frá þeirri tilgátu minni. Henni hefur nú verið stolið og hef ég ekki fengið grænan skilding fyrir. Þjófurinn telur sig vera sósíalistagrey.

Í hvorugri bóka Bergsveins, sem eru tilgátubækur, eru færð fullnægjandi rök fyrir tilgátunni um hrakningar Ketils Gufu landnámsmanns við misheppnaða rosmhvalaútgerð, tilgátu sem Ásgeir hauggæslumaður við Ingólfshól (Arnarhól) er ásakaður um að hafa stolið fjálglega úr hugdettubók Bergsveins. Hvergi eru í rituðum heimildum, íslenskum frá 12. öld eða síðar (sem Bergsveinn kallar ávallt norrænar), nefndar veiðar rostunga eða rostungar sem ástæður hrakninga Ketils. Því hlýtur Ásgeir, samkvæmt Bersveini, að hafa rænt tilgátu sem ekki byggir á heimildum í bókinni LSV; Bersveinn ritar:

"Það sætir kannski ekki undrum að Ásgeir kemst einmitt að þeirri sömu niðurstöðu eftir að hafa greint frá hrakningasögu Ketils gufu, hann skrifar: «Hins vegar þoldi rostungsstofninn illa mikla veiði. Sú ákvörðun Geirmundar heljarskinns að hætta rekstri þrælabúða á Hornströndum, til að veiða sjávarspendýr, sýnir án efa að stofninn var kominn nálægt útrýmingu og veiðar borguðu sig ekki lengur þar vestra. Ketill gufa og faðir hans virðast hafa ætlað að reyna að halda áfram með þetta viðskiptalíkan. Ketill gufa þvældist meðfram ströndum með þræla sína, væntanlega til að leita uppi síðustu rostungana en með rýrum árangri. Auk þess var hann hrakinn úr einum stað í annan … Þrælarnir í verbúðunum á Mýrum hafa væntanlega verið svo aðframkomnir af hungri að þeir neyddust til að stela sér til matar. Rán þeirra og manndráp markar lokin á upphafstímabili Íslandssögunnar, þegar landið var veiðistöð» (bls. 50).

Í LSV stendur skrifað eftir að rakin hefur verið hrakningasaga Ketils gufu: «Sé tilgátan rétt hefur Ketill ekki verið meðal hinna fyrstu ævintýramanna sem fengu gnótt veiði á Suðurlandi. Hann kemst ekki yfir nógu mikið hráefni til að halda útgerðinni gangandi. Sögnin af strokuþrælunum gefur þetta til kynna: Ketill hefur ekki lengur efni á að halda eftirlitsmenn … Saga Ketils er vasabrotsútgáfa af sögu Geirmundarveldisins; rostungaveiðimaður sem notar írska þræla til að vinna hráefnið sem hann ætlar að selja gegnum viðskiptasambönd í vesturvegi. Það fer að hrikta í útgerð Ketils á síðustu áratugum 9. aldar. Það útilokar samt ekki þann möguleika að hann hafi stundað veiðar með góðum árangri fyrir þann tíma. Eins og við vitum fer helst sögum af því þegar vandræðin byrja; velgengni er ekki söguefni. Þá er meirihluti rostungsstofnsins í suðri annaðhvort styggður, flúinn eða uppveiddur og þetta á einnig við um Breiðafjörð» (bls. 285–286)."

Bergsveinn segir enn fremur í greinargerð, sem hann hefur fengið birta í visir.is og þar sem hann ásakar bankastjórann um hugmyndarán:

"Og ekki get ég að því gert, að mér sýnist í þessu dæmi speglast margt í þeirri «hagfræði» sem reið húsum hér í upphafi aldar, nefnilega sú að vissir útvaldir hafi fullan rétt á að eigna sér það sem aðrir hafa lagt hart að sér við að búa til. Ef leyfa á þeirri hugmyndafræði að leggja undir sig vísindi og listir, er vissulega um endalok húmanismans að ræða, og, við nánari íhugun, endalok allra vísinda og lista. Hef ég því lagt málið fyrir Siðanefnd Háskóla Íslands og Nefndar um vandaða starfshætti í vísindum."

"Engin sagnfræðileg heimild er til um það að menn sigli eftir «allri strönd Noregs» til Hvítahafsins til að veiða rostung. Til er ein sagnfræðileg heimild um norðmann í Norður-Noregi sem siglir austur til Hvítahafsins til að versla við Bjarma (Óttar)[sic], en það að sigla alla ströndina er einungis til í minni bók, og þá sem tilgátuferðalag föður Geirmundar, Hjörs konungs."

Nú er þetta reyndar ekki alls kostar rétt hjá Bergsveini. Ferðalag Óttars (sjá kort) frá Hálogalandi í lok 9. aldar, sem Alfreð Englandskonungur lét skrá í frásögn af Ohthere (Óttari) í viðbót við þá þýðingu sem Alfreð konungur lét gera af mannkynssögu spænska munksins Orosiusar sem uppi var á 5. öld eftir Krist, var var bæði langt og mikið. Ferð Óttars var ekki aðeins farin til Bjarmalands, til að versla við fólk sem ekki var asískt, þó svo að Bergsveinn ímyndi sér það. Í framhaldinu hélt Óttar með varning sinn suður í Víkina; Þá til Heiðarbæjar í Danmörku og áfram til Lundúna. Ef Óttar háleygski hefur farið slíka ferð, er ekkert því til fyrirstöðu að aðrir hafi farið hana einnig, þó það standi ekki í "norrænum heimildum".

525px-Ottars_reise

Nú er það ekki á hverjum degi að bankamaður sé sakaður um stuld. Haukur Heiðar bankastarfsmaður stundaði slíka hjávinnu á 8. áratug síðustu aldar. Annars voru Íslendingar blessunarlega lausir við þjófótta bankamenn, allt þar til Hrunvíkingar dönsuðu og töldu stórum hluta hinnar auðtrúa þjóðar trú um að hægt væri að verða ríkur með því að ávaxta fé sitt hjá þeim.

Er hægt að ræna vitleysu?

En hefur seðlabankastjóri stolið tilgátu, ef tilgáta sú sem hann er ásakaður um að hafa rænt úr bókum Bergsveins, er fræðilega röng? 

Geta menn stolið vitleysu?

Það verður harla erfitt verkefni þeirra nefnda, sem Bergsveinn hefur kært seðlabankastjóra hjá, að leysa úr þeim vanda.

Slíkar nefndir geta vitaskuld ekki leitað til núverandi og fyrrum sérfræðinga sem unnið hafa við Háskóla Íslands sem einnig telja, og það án mikilvægra vitrænna raka, að rosmhvalaveiðar hafi verið mikilvægar fyrir efnahag landnámsmanna á Íslandi.

Rosm 1

Eitt sinn málaði íslensku listamaður sjálfan sig með rostungstennur og bjó þannig til mjög ófrýnilega fígúru, sem kom við sögu í myndsköpun hans. Ég viðurkenni ófúslega að ég leiti í smiðju hans þegar ég rek hér rosmhvalatennur upp í  skolt Bergsveins og Ásgeirs. Um leið ætla ég að vona að þeir finni sættir eins og siðmenntaðir menn, líkt og forfeðurnir á gullöldinni gerðu nú oftast, í stað þess að verða sér að athlægi í deilum um alls endis óundirbyggðar tilgátur og óskhyggjuna eina. Vonandi fara sérfræðingar í stíftönnum ekki í mál við mig fyrir ófína tannsmíði.

Það er annars fyndið að verða vitni að því á 21 öld, að Íslendingar líti enn svo mjög til sögualdar, sem væri hún þeim einhvers konar gullöld og paradís í sömu sveit. Og þeir heimfæra jafnvel ójöfnuðarkapítalisma nútímans upp á þann tíma, meints þrælahalds. Þjóðveldisöldin verður líka fyrir barðinu á hugsuðum nútímans.

Nú síðast las ég að Hannes Kiljan Gissurarson telur Snorra Sturluson hafa verið frjálshyggjumann. Hann boðar einnig bók um það áhugaverða efni. En afkomendur Snorra eru víst þegar farnir í skotgrafirnar að hafa haft samband við vísa menn og konur í fýlaklettum HÍ, til að undirbúa mál gegn Hannesi. Skammt er úr skoðanafrelsi yfir í málsókn, þegar miklir hugmyndasmiðir taka sig einum of alvarlega.

Auglýsing í boði Fornleifs:

Laxness Lei´´

Jólagjöfin í ár. Ókeypis netbók á Fornleifi. Gefið hana bókmenntasinnuðum ættingjum yðar, sem vitna í Laxness sem heilagan sannleikann. Þeir eiga hana skilið.

Sækið hana hérPDF sign

Rosmhvalurinn hefur hins vegar engan sem hann getur beðið um að fara í mál við frjálshyggjuhrappa, nema kannski Bergsvein tilgátusmið.

Við skulum leyfa Bergsveini og Ásgeiri að skaka tennur sínar í friði. Það verður vonandi meinasaklaust at, sem við verðum búin að gleyma eftir nokkra mánuði. Það er vart hægt að hlæja að því meðan að yfir stendur.

En ef menn vilja meiri skemmtun í innilokun pestarinnar, getur einhver nefnd alvísra siðapostula ugglaust kroppað í tilgátur og vangaveltur Bergsveins og sagt Ásgeir hafa stolið þeim. Við öllu er að búast á landi eldsumbrota og pesta.

Siðlegra væri ef fræðimenn tryðu ekki strax tilgátum sínum og að hagfræðingar héldu sig við efnið og væru ekki að básúna dagdrauma sína um suðureyskan uppruna sinn, þó þeir séu rauðskeggjaðir. Skeggið á haugstjóranum er vafalítið alnorskt, en auðvitað væri hægt að láta Kára skera úr um það á kostnað ríkisins; vel að merkja ef hann man að leiðrétta röngu líkindafræðina sem varð til þess hér um árið að flestar landnámskerlingar áttu vart að hafa samkjaftað á gelísku alla landnámsöldina og signdu sig sig í bak og fyrir í bænastellingu er þeim var nauðgað barnungum af norrænum ribböldum sem stundu , hú og húúúú... Lítið hefur greinilega breyst.

Já þessi fína þjóð, sem kom frá Suðureyjum, samkvæmt Seðlabankanum, eins og allar hugmyndir hennar og tweedið sem bankastjóri gengur enn í, ofveiddi rosmhval eins og heima hjá sér ... í Suðureyjum, og var hraðlygin að auki líkt og frændur þeirra á Írlandi, þaðan sem skeggið á Ásgeiri er reyndar ekki ættað.

Við skulum vona að kapítalistarnir ræni ekki Bergsvein frekar og að hugmyndafræði þeirra leggi ekki undir sig vísindi og listir. Þá yrði vissulega um "endalok húmanismans að ræða", og, við nánari íhugun, "endalok allra vísinda og lista", líkt og Bergsveinn Birgisson bendir á - en líklegast að hluta til ranglega. Heitir það ekki "overkill" á fræðimálinu.

Ekki er slíku á eldgos, heimshitnun og pestir bætandi.


Bloggfærslur 9. desember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband