Ísland skuldbatt sig - og Ísland sveik

Simone Veil,

Í lok árs 2002 ritaði ég menntamálráðuneytinu stuttan tölvupóst og spurðist fyrir um stefnu í kennslu um helförina (Holocaust / Shoah) á Íslandi, þ.e.a.s. um evrópsku morðölduna sem margar Evrópuþjóðir steyptu yfir gyðinga og fólk af gyðingaættum á 4. og 5. áratug síðustu aldar.

Ísland lofaði hátíðlega á ráðstefnu í Stokkhólmi árið 2000 að hefja fræðslu/kennslu um helförina og sjá til þess að henni yrðu gerð skil í sögubókum/námsefni sem kennt er á Íslandi.

Fræðsla er besta ráðið gegn fávisku

Starfsmaður í Menntamálráðuneytinu, Sólrún Jensdóttir (skrifstofustjóri), svaraði mér í byrjun 2003;(Sjá hér og neðanmálsgrein 44). Eftir það svar ég nokkuð vongóður.

En nokkrum árum síðar, þegar ég hringdi til að fylgja eftir fyrirspurn minni og til að heyra hvað gerst hefði á vakt ráðherranna Tómasar Inga Olrichs og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur - kom greinilega í ljós að akkúrat ekkert hafði gerst. Ég bað um að fá að vita með hvaða hætti loforðinu hafði verið framfylgt.

En ljós kom að Ísland hafði enn eina ferðina blekkt aðrar þjóðir. Ég lét þá skoðun mína í ljós í samtali við Sigrúnu Jensdóttur, sem þá fór algjörlega úr böndunum og hellti yfir mig alls kyns ósmekklegheitum og lét m.a. þau orð falla að "ekki þurfti minnast neins meðan að Ísraelsmenn höguðu sér eins og þeir gerðu".

Sólrún Jensdóttir upplýsti 7. janúar 2003 að Ísland hefði ákveðið að halda minningardag um Helförina í skólum frá og með árinu 2003 í samræmi við ákvörðun sem tekin var á fundi sem fór fram  á vegum Evrópuráðsins í Strasbourg 17-19 október 2002. Fundurinn bar heitið “Teaching about the Holocaust and Artistic Creation” (sjá hér; Myndin efst við þessa grein sýnir Simone Veil halda erindi á ráðstefnunni).

Algjörlega óhæfir íslenskir embættismenn

Jens Benediktsson

Þó ég undirstriki að fræðsla um helförina sé aðalatriðið, verð ég að geta þessa að Sólrún Jensdóttir fyrrverandi skrifstofustjóri í Menntamálaráðuneytinu er dóttir Jens Benediktssonar guðfræðings og nasista (1910-1946).

Sólrún hefur sjálf verið viðloðandi flokk sem Viðreisn kallast. Sá stjórnmálaflokkur stjórnast af börnum karla, sem á einn og annan hátt tengdust Þýskalandi nasismans með félagsskap í nasistaflokki eða með veru sinni í Þýskalandi á stríðsárunum.

Sem dæmi má taka föður eins stofnanda flokksins, sem nú hefur verið settur út af sakramentinu af félögum hans í flokknum.  Faðir formannsins stundaði nám í Þýskalandi nasismans og vann á góðum Reichsmarkslaunum  fyrir alræmda verksmiðju í Þýskalandi sem notaði þræla sem vinnuafl (sjá hér).

Sólrún hefur um langt skeið verið stjórnarmaður í íslenska Richard Wagner-félaginu. Minningu Wagners hefur Sólrún eflt meira í frístundum sínum en hún efldi minninguna um helförina í opinberu starfi sínu. Eins og flestir vita var Wagner blessaður gerður að undirleikara í helförinni (algjörlega óviljugur), enda Hitler mjög hrifinn af tónlist hans - en kannski ekki á sama hátt og félagsmenn í Richard Wagner félagsskapnum á Íslandi.

Nú, aftur að svikum Íslands, lands sem EKKI hefur hafið fræðslu um helförina líkt og ríkistjórn landsins lofaði fyrir rúmum tveimur áratugum síðan. Ég tel að augljóst samband sé á milli þeirra svika/gleymsku og þess þegar gyðingahatrið blossar upp á Íslandi í hvert skipti og öfgamenn hefja árásir á Ísraelsríki.

Öfgamennirnir vilja útrýma gyðingum í Ísrael sem og gyðingum annars staðar. En gleymum ekki, að þegar sumir Íslendingar fara algjörlega úr límingunni og tjá sig um að "Hitler hefði átt að ljúka ætlunarverki sínu" og álíka óþverra og styðja við samtök sem hafa útrýmingu þjóðar á stefnuskránni er það kannski vegna þess að fræðslunni í landinu er ábótavant. Fólk er illa upplýst, skólarnir og Menntamálaráðuneytið hafa brugðist. Því segir fólk óyfirvegað hræðilega hluti sem það myndi ekki gera, ef það þekkti sögu 20. aldar.

Lengi vel var lítið minnst á helförina í kennslubókum um sögu Evrópu á 20. öld og hve lítilfjörlegt það efni var má lesa um í stuttri en hnitmiðaðri skýrslu frá Háskólanum á Akureyri frá 2004, Report on Holocaust education in Iceland (sjá hér).

Börnin hafa svo sem fyrir þeim er haft - en þegar skólakerfið bregst og ráðuneytin svíkja alþjóðlega loforð er ekki nema að vona að hatur á gyðingum sé enn landlægt í sumum afkimum valdastéttarinnar á Íslandi, þar sem pabbastelpur og -strákar, jafnt til hægri og vinstri, stjórna landinu að gamalli venju í gamla þjóðrembustílnum.

Gaman væri að sjá, hvað íslensk yfirvöld hafa gert til að efla kennslu um helförina í grunnskólum og framhaldsskólum.

Ég veit að háskólinn á Akureyri hefur reynt að kenna um helförina og árið 2006 var haldin ráðstefna um helförina á Akureyri, þar sem mér var boðið að taka þátt. Sérfræðingur um sögu 20. aldar og helförina, sem er prófessor á Akureyri, Markus Meckl hefur sýnt málinu mikinn áhuga.

Það eru ekki bara börnin sem vita lítið um mestu ódæðisverk 20. aldar. Kannski hafa Íslendingar aldrei haft áhuga á sögu annarra en sjálfra sinna. Það grunar mig. 

Þegar ég hugsa um þessa hluti, þakka ég mínu sæla fyrir að Íslendingar búa á eyju. Það hefði orðið ljótur vígvöllur ef nasistagerpin á Íslandi hefðu búið nær átrúnaðargoðinu sínu.

Ég verð að nefna að nokkrir alþingismenn hafa reyndar óskað eftir árlegum minningardegi um helförina. Sjá hér. Það er prýðileg ef úr verður, en þegar sömu þingmenn lýsa yfir stuðningi við öfl eins og Hamas, eru slíkar óskir vitanlega alls endis óskiljanlegar og jafnvel afar ósmekklegar.

Samfélag gyðinga á Íslandi, undir væng Chabad-samtakanna, hefur haldið minningardag í janúar sl. 2 ár í samstarfi við sendiráð fjögurra landa á Íslandi. Síðara árið (2021) var athöfnin án gesta en henni var streymt. Fyrsta árið var ég viðstaddur. Gyðingahatarar misnotuðu þá athöfnina sem fór fram í pólska sendiráðinu í Reykjavík (sjá hér). Fjölmiðlar á Íslandi ákváðu að þaga um þann hluta athafnarinnar, alveg eins og fjölmiðlar þögðu samtaka um stríðsglæpamanninn Evald Miksons (Eðvald Hinriksson),sem stóð að morðum á gyðingum í Eistlandi. Aðeins einn blaðamaður hafði siðferðislegan styrk til að segja frá. Það var Þór Jónsson, en sumir yfirmenn hans höfðu í hótunum við hann fyrir að gera það. 

Og enn er logið...

Hér má lesa hvernig nýir embættismenn á Íslandi ljúga að hluta til að Evrópuráðinu í skýrslu árið 2019. og hver stefnan er í raun, þvert á það sem lofað var árið 2003. Kannski er lygin ekki ætlunarverk og líklegast þekkja þeir sem vinna fyrir Ísland í Evrópuráðin ekki sögu sína.

Maður neyðist þó til að spyrja hvaða embættismaður hefur framreitt þessar lygar fyrir Evrópuráðið - og ekki síst hvaða ráðherra hefur lagt blessun sína yfir bullið (Það var reyndar hún Lilja Alfreðs, sem ekki tímdi að bjóða fyrsta gyðingnum sem fæddist á Íslandi á 80 ára afmæli hans. Honum var vísað úr landi af flokksfélögum hennar). Ég mun hafa samband við Evrópuráðið og fá nauðsynlegar upplýsingar, ef blókin sem skrifaði þetta gefur sig ekki fram og skýrir mál sitt.

Helförin er ekki framandi Íslendingum. Gyðingar voru sendir úr landi frá Íslandi með þeim skilaboðum til danskra yfirvalda, að ef þau vildu ekki vernda gyðinga þá sem Íslendingar sendu úr landi, væri Ísland viljugt til að borga fyrir að senda flóttafólkið áfram til Þýskalands. Íslensk yfirvöld frömdu einfaldlega glæp. Í dag segjast yfirvöldin ekkert vita og ekkert muna, meðan flokkur forsætisráðherrans langar að minnast helfararinnar. En sami flokkur lýsir yfir stuðningi við öfl sem ætla sér að útrýma gyðingum og ríki þeirra Ísrael.

Hluti af því gyðingahatri sem menn svala sér og öðrum með í "stuðningi" sínum við öfgasamtök Palestínuaraba, er ósköp einfaldlega íslenskum yfirvöldum að kenna. Þau hafa trassað fræðslu sem þau höfðu lofað að veita - fræðslu sem hefði getað komið í veg fyrir öfgar fólks sem styðja útrýmingu eina lýðræðisríkisins fyrir botni Miðjarðarhafs.

Lágt er flogið og mikið logið.

Mitt framlag:

Höfundur þessarar greinar hefur aldrei sætt sig við aðferð íslenskra stjórnvalda að þaga mál í hel. Að bestu getu hef ég reynt að gera því skil, hvernig Ísland tengdist helförinni beint eða óbeint.

productKafli í bókinni Medaljens Bagside (sem má finna á nokkrum bókasöfnum á Íslandi) er helguð Íslandi. Hér má einnig lesa grein um sögu gyðinga á Íslandi og í bókinni Antisemitism in the North má lesa grein eftir mig um gyðingahatur á Íslandi. Fræðsla er eina vopnið gegn gyðingahatri. Ísland hefur hingað til komið í veg fyrir fræðslu um efnið, þó landið hafið hátíðlega lofað öðru.

 

Vinsamlegast lesið einnig ýmsa þætti um íslenska nasista sem ekki hafa birst annar staðar áður, hér á dálkinum til vinstri. Ég gæti kannski verið að skrifa um pabba ykkar.


Bloggfærslur 8. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband