Della í Laugardagsmogganum

Carl Reichstein

Þegar Morgunblaðið hefur það eftir mönnum, að gyðingar hafi verið meðlimir í SS, og tekst ekki að reka það niður í kok á þeim sem halda slíkt, efast maður um burði blaðamennskunnar á Íslandi. Verður ekki að setja strangari kröfur til starfsmanna fjölmiðla?

Guðjón Jensson, maðurinn sem gerir því skóna að heiti einhver eftirnafni, þar sem orðið stein kemur fyrir, þá sé maður gyðingur, veit ugglaust ekki að stein í eftirnöfnum manna var ekki síður algengt í nöfnum kristinna Þjóðverja. Helsti hugmyndafræðingur gyðingaofsóknanna í Þýskalandi, Alfred Rosenberg, var ekki gyðingur, heldur Þjóðverji frá Eistlandi. Einn af herforingjum þýska hersins í Danmörku hét Paul Kannstein. Hann var heldur ekki gyðingur og þannig mætti lengi telja. Stein-nöfn voru oft tengd lágaðli í Þýskalandi. Menn báru t.d. nafnið Reichstein, þar sem þeir voru frá Reichstein við Königstein.

Menn sem báru -stein eftirnafn voru einnig rannsakaðir sérstaklega af ættfræðifíflum SS, og í raðir SS komust menn ekki með tána ef þeir ef þeir höfðu gyðingablóð í æðum, eða voru gyðingatrúar. Gyðingar sóttu heldur ekki eftir veru í þessum félagsskap, ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum.

Ef menn hafa fyrir því að athuga hve margir ekki-gyðingar báru nafnið Reichstein, þá þyrfti maður ekki að sjá grillufangarakenningu um gyðing í SS-búningi, "sem myrtur var á Íslandi". Er of lítið að gera hjá bókasafnsfræðingum?

Agnar Kofoed Hansen

Agnar Kofoed Hansen í þýska Lodenjakkanum sínum. Agnar, sem heillaðist af nasismanum, horfir hér hugfanginn á aðra flugása Þjóðverja en Reichstein, á Skeiðarársandi sumarið 1938 . Reichstein hafði framið sjálfsmorð nokkrum dögum áður. Mikið er hann Agnar nú líkur ónafngreindri stjórnmálakonu. Æi, ég man ekki hvað hún heitir.

 
Nær væri að leita upplýsinga um SS-félagann Reichstein í þýskum skjalasöfnum, t.d. í skjalasafninu í Freiburg í Þýskalandi.

Athugar maður skrár Yad Vashem í Jerúsalem yfir fórnarlömb helfararinnar er aðeins að finna 2 þýska gyðinga sem fórust í henni sem báru nafnið Reichstein. Skráin er ekki fullkomin, en á öllu því svæði sem gyðingar voru myrtir var sem sagt aðeins tveir gyðingar skráðir á dauðalista undir nafninu Reichstein. Hins vegar var fjöldinn allur af gyðingum sem bar nafnið Schultz og Kraus og voru myrtir þrátt fyrir erkiþýsk ættarnöfn sín. Vonandi skýrir þetta eitthvað fyrir bókasafnsfræðingnum.

Margar ástæður gætu verið fyrir því að SS-maður framdi sjálfsmorð. Í þessum hópi voru margir annálaðir æsingarmenn, sem ekki voru allir heilir á geði. Kærastan gæti hafa farið frá honum eða fjölskyldan búin að uppgötva að hann væri hommi sem gekk í kvenmannsfötum um helgar. Margt kemur til greina áður en að gyðingur er búinn til úr SS-liða.

Hver er ástæðan að baki slíkum vinnubrögðum og tilgátum sem þessum?

Í versta falli, ef þessi tilgáta bókasafnsfræðingsins væri ekki eins arfavitlaus og hún er, væri vel hægt að hugsa sér að það væri smá vottur af gyðingahatri falin í henni. Er ekki tilvalið að kenna gyðingum um helförina vegna þess að þeir voru í SS? Samfylkingarmenn og aðrir vinstrimenn, sem ekki kunna til verka, líkja Ísraelum við nasista og fyrrverandi bókavörður og dellugerðarmaður sem taldi sig vera "krata" og var meðlimur í Alþýðuflokknum hrósaði Dachau-búðunum í hástert árið 1936 eftir að hann lét nasista bjóða sér þangað (sjá hér).

Það er ekki öll vitleysan eins á Íslandi, en hún lifir greinilega góðu lífi.


mbl.is Dularfullur dauðdagi svifflugmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er fullyrðing Guðjóns, að dæmi hafi verið um að gyðingar hafi verið í SS, röng?

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.8.2018 kl. 18:19

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Já hún er alröng, Gunnar Th. Gunnarsson. Gyðingar, þeir sem fylgja gyðingdómi, voru ofsóttir af SS, og þeim vitaskuld ekki leyft að ganga í SS. Guðjón veður í alvarlegri villu, en hann hefur einnig til fjölda ára spyrt Ísraelsmenn við nasista vegna ímyndaðs stuðnings síns við málstað Hamas. Samlíking gyðinga við nasista er gyðingahatur og slíkt er glæpur - einnig á Íslandi.

FORNLEIFUR, 12.8.2018 kl. 18:52

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Fornleifur hefur sagt að myndgetraunir séu hæpin vísindi. Hvers vegna er þá myndin af Björk afbökuð. Nærtækt væri að spyrja móðir Bjarkar eða faðir hvort þau séu af samískum ættum? Björk hefur mikið svipmót með móður.

Vísindi verða að byggja á traustum grunni. Betra að vera ekki með getgátur ef eitthvað er ekki sannað. Minningarpistil  um Hjört Fjelsted verslunarstjóra löngu liðinn mann, finnst mér að eigi ekki að vera á síðu með nasistum. Tekið er fram að hann hafi ekki verið mikill nasisti og dulítill ævintýramaður. Sem verslunareigandi var hann traustvekjandi og lagði áherslu á ávexti. Aðal tóbakssalinn var í Bankastræti. 

Þegar verið er að draga látna menn fram í sviðsljósið undir fornmerkjum vísinda þarf það að byggja á traustum heimildum. Eftir að Austur-Evrópa fékk frelsi hafa verið opnuð mörg söfn um herferðina gegn gyðingum. Öll eru söfnin trúverðug með ýtarlegum upplýsingum. Um minnihluta hóp sem Biblían er sífellt að ásaka. Íslendingar áttu mikinn þátt í að því að Ísraelsríki var viðurkennt. Mikill breyting frá því landflótta gyðingum var snúið við á ytri höfninni.

Sigurður Antonsson, 12.8.2018 kl. 22:56

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Dómsmál yfir tóbakssalanum er til í skjalasafni í Kaupmannahöfn. Á henni byggja skrif mín um tóbakssalann. Hann var ekki barnanna verstur. Háskólarektorar og Gunnar Gunnarsson voru verri. Gott er að sjá að einvherjir eru að ná þessu.

Myndin af Björk er á engan hátt umbreytt. Ásökun þín er því mjög alvarleg aðdróttun. Björk hefur einkenni sem sumir telja samísk. Hvort hennar fenótypa sýni að hún er komin af Sömum er allt annað mál. En af hverju hafa menn eittvað á móti því? Er Samar ekki nógu góðir.

Það er langt frá því að öll söfn í Austur-Evrópu séu trúverðug hvað varðar sögu gyðinga. Í Litháen, Lettlandi og Eistlandi eru til söfn sem gera lítið úr helför gyðinga og reyna að leyna þætti heimamanna í henni; En gera því hins vegar skóna að gyðingar hafi átt þátt í eymd þessara landa og að þeir hafi allir verið kommúnistar. Sjón er sögu ríkari, Sigurður Antonsson.

Ber að þakka þér og Íslendingum fyrir að Abba Eban talaði Thor Thors til á hótelherbergi í New York. Thor var greindur maður, en ekki verður það sagt um alla Íslendinga.  

Umbreytt Björk.  Fuss, mikið hefur greinilega hringsólað í höfðinu á þér: Þú ert kannski ginnkeyptur fyrir tilgátu Guðjóns Jenssonar? Eru það mikil fræði? Gyðingur í SS-búningi. Ja hérna...

FORNLEIFUR, 13.8.2018 kl. 03:45

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Á FB síðu Svifflugufélags Íslands heldur Guðjón Jensson því fram að Carl Reichstein hafi "álpast" í SS.

FORNLEIFUR, 13.8.2018 kl. 05:33

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Flott hjá þér, dr. Vilhjálmur. En þú mátt kannski laga myndatextann með honum Agnari, ég átta mig varla á samhenginu þar.

Jón Valur Jensson, 13.8.2018 kl. 06:23

7 Smámynd: FORNLEIFUR

 Ég breytti smá. En þú áttar þig ekki á samhenginu þrátt fyrir það, því ekki stenst allt sem í kirkjubókum stendur.

FORNLEIFUR, 13.8.2018 kl. 06:45

8 Smámynd: Sigurður Antonsson

"einkenni sem sumir telja samísk" Eru það öll vísindin? Trúlega er myndin af Björk tekin þegar hún var unglingur. 

Söfn um gyðinga og marga alda ofsóknir í Eystrasaltslöndum eru væntanlega gerð í samráði við gyðinga sem bjuggu í löndunum?

Abba Eban var dugmikill diplómat og hefur eflaust haft áhrif á Thor Thors sendiherra. Hvort það hafi leitt til stefnubreytinga á afstöðu Íslendinga til gyðinga er ekki viðurkennt? Var það ekki Alþingi Íslendinga sem ákvað að viðurkenna Ísraelsríki?

Í athyglisverðri bók "Thorsararnir" er sagt frá því að Thor Thors hafi þurft á stundum að skipta um föt þrisvar á dag til að mæta í veislur og samkomur New Yorkborgar. Ekkert getið um samræður við fulltrúa Ísraela í bakherbergjum?

Sigurður Antonsson, 13.8.2018 kl. 23:16

9 Smámynd: FORNLEIFUR

Á tuðið að halda áfram, Sigurður Antonsson? Mikið ertu upptekinn af Björk - Ég fæ ekki betur séð en að hún sé enn með þessi einkenni sem ég sé þó ég viðurkenni ekki að athugun mín sé hávísindaleg. Hún heldur sér svo vel, nema þegar hún sleppir sér. En þú ert greinilega með einhverja vanlíðan gangvart þeirri hugmynd að Íslendingar gætu að hluta til átt samíska forfeður. Það vandamál þitt er ekki til umræðu í greininni sem menn geta gert athugasemdir við hér.

Söfn varðandi gyðinga í Austur-Evrópu hafa flest verð búin til að gyðingum sjálfum. Ég var reyndar að nefna söfn sem menn hafa reist til að gera lítið úr helförinni og gyðingum og meira úr örlögum annarra íbúa á tímum Sovétsins. Það er einhver furðuleg samkeppni í gangi hjá Austur-Evrópu um hver hefur þjáðst mest. Í þeim tilgangi er sagan skrifuð upp á nýtt, glæpamenn eins og Mikson gerðir að þjóðhetjum og því afneitað að þúsundir manna menn frá Eistlandi, Lettlandi og Litáen hafi tekið þátt í morðum helfararinnar.

Ég þekki enga samþykkt á Alþingi sem samþykkti Ísraelsríki. Ræðan sem Thor Thors hélt í nóvember 1947 var undir miklum áhrifum frá Abba Eban. Þeir Thors og Eban hittust ekki í bakherbergi heldur á hótelherbergi. Heiðri Íslands var bjargað þar sem ekki var komin nein mynd á utanríkisþjónustu Íslendinga árið 1947. Sendiherrar höfðu carte blanche til ýmissa hluta. Lestu þér til í stað þess að gefa í skyn og vera með dylgjur: Abba Eban, An Autobiography,  Random House 1977.

Langar mig að biðja þig að halda þig við efnið, sem ekki er Björk og því síður stofnun Ísraelsríkis eða þáttur Thors Thors í einni ræðu sem hann hélt í New York. Þú ert að skrifa athugasemdir við grein sem fjallar um dellu þar sem gyðingur er búinn til úr SS-manni. Eins grátbroslegt og það er, er slík tilgáta ekkert annað en gyðingahatur. Þú ferð hins vegar út um heim og geyma og skrifar um eitthvað sem málinu kemur ekkert við. Ég afþakka hér með áframhaldandi athugasemdir um það frá þér og bið menn að halda sig við efnið.

FORNLEIFUR, 14.8.2018 kl. 01:57

10 Smámynd: FORNLEIFUR

 Þarna fauk aðeins í mig, Sigurður. En ég er ekki á fullum launum sem alfræðiorðabók og reyni þó að skýra hlutina eftir bestu getu þegar ég hef tíma. Ef menn sætt sig ekki við það og halda sig vita betur bið ég þá vinsamlegast að koma með rök. Lestu svo það sem stendur um Björk í greininni, og þú munt skilja að ég setti þetta inn sem gamanmál. En mér er fúlasta alvara í þeirri skoðun minni að lítill hluti Íslendinga hafi í upphafi átt ættir að rekja til Norður-Noregs og hafi átt samíska forfeður. Í skýrslu sem þú finnur í blogg-grein minni sem þú skoðar aðeins myndir í, kemur það fram að mælingar á beinum elstu Íslendinganna sem hvíla á Þjóðminjasafninu, sýni þennan skyldleika. Frá því verður ekki hlaupið.

FORNLEIFUR, 14.8.2018 kl. 02:16

11 identicon

John Amery, British fascist, Hungarian Jewish grandmother

Hans Eppinger, Austrian, SS doctor, half-Jewish

Walter Hollaender, colonel, Jewish

Emil Maurice, German Nazi, Jewish great-grandfather

Erhard Milch, German Nazi, Jewish father (reclassified as Aryan by Adolf Hitler)

Bernhard Rogge, admiral, Jewish ancestry

Helmut Schmidt, former German chancellor, lieutenant, Jewish ancestry

Alexander Stahlberg, colonel, Jewish

Húsari. (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 09:28

12 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Æi, Húsari sem ekki er í húsum hæfum, enda með emil sem er: husari@gmail.hu

Nú hefur þetta tröll enn einu sinni farið inn á einhverja nasistasíðuna, sem hafa eltst við alla nasista sem þeir geta fundið gyðingaforfeður hjá í framættum.

Vitaskuld geta menn verið komnir af gyðingum og verið nasistar og hermenn Hitlers, en það gerir þá ekki að gyðingum, nema að maður sé nasisti og líti á skilgreiningu gyðinga eftir rasistalöggjöf þeirra.

Ekki er vitað til þess að svifflugukennarinn Carl Reichstein hafi verið gyðingur og enn síður gyðingarættar. Meira er ekki um það að segja. Þetta er della sem bókasafnsfræðingur hrasaði um.

Margt af þessu rugli nýnasista er af sama toga og hatur margra vinstri manna sem einnig kalla gyðinga og Ísraelsmenn í sífellu nasista. 

Svo nefnir Húsari SS-lækninn Eppinger, sem grillufangarar hafa verið að klína upp á gyðinga. Mér sýnist í yfirferðum vandaðra sagnfræðinga, að ekki sé neinn fótur fyrir því að Hans Eppinger hafi átt forfeður sem voru gyðingar. Þvert á móti. 

Sem sagt, þá er iðja Nýnasista saumaskapur sem Húsarinn er farinn að stunda. Eins konar hakakrosssaumur. Svo mikið er hatrið og ábreiðan sem saumuð er á að kenna gyðingum sjálfum um helförina. Fínn maður þessi Húsari. Hef heyrt að hann berji konuna sína tvisvar í viku.

En þar sem Húsari er nafnleysingi, og þar af leiðandi raggeit og greinilga eins konar áhuganasisti, sem ekki þorir að koma fram undir eigin nafni, því vitanlega er það skammarlegt og algjör hneisa að vera heimskur nasisti, sem trúir ritum Bryan Riggs og álíkra manna, þá er víst best að Húsara þessum verði vísað hér úr húsum sem fyrsta manninum sem Fornleifur úthýsir. Húsari er ekki húsum hæfur. Bless rugludallurinn minn.

Fornleifur lokaðu á the Gay Hussar. Við vitum svo sem hver hann er.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 14.8.2018 kl. 16:12

13 Smámynd: FORNLEIFUR

Skal gert bróðir sæll.

FORNLEIFUR, 14.8.2018 kl. 16:13

14 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sæll Vilhjálmur

Auðvitað er betra að hafa gamansemina með. Sammála þér að við eigum ættir að rekja til Norður-Noregs og Sama að hluta. Vísindin í dag ættu að getað sagt stærsta sannleikann um það. Efinn er alltaf nálægður og margt á þinum síðum vekur upp spurningar. Gagnrýni á því rétt á sér.

Viðskipti við Grænland og Ísland skýra vel mikla blóðblöndun við Suðureyjar og Skotland. Þangað til eitthvað annað kemur í ljós verðum við að trúa að allt að 60% mæðra okkar hafi komið frá Bretlandseyjum. Sama er um þjóðflutninga gyðinga, ákaflega fróðlegir að lesa sögu þeirra. Síður þínar eru áhugaverðar þar að lútandi.

Vegni þér sem best í þínum pælingum og með mátulegri kímni. Með það í huga líkar mér betur við skrif þín um Hjört og Björk.

Sigurður Antonsson, 15.8.2018 kl. 13:16

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vá! Úthýst af því hann bendir á að fullt af fyðingum voru nasistar!

Þú ert snar geðveikur með ofsóknarkennd, Fornleifur og ættir að leita þér læknishjálpar. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.8.2018 kl. 13:37

16 Smámynd: FORNLEIFUR

Gunnar, þú munt aldrei geta sett þig inn í hvað fólk þurfti að þola í Evrópu. Íslendingar voru heppnir. Þetta fjallar ekki um gyðinga sem lifðu af með því að leyna sér í herjum Þjóðverja, heldur um staðhæfingu manns um að gyðingar hafi verið í SS. Húsarinn sneri út úr og fór at tína til nasista sem hann heldur fram að hafi verið gyðingar. Enginn af þeim sem hann fann á nasistasíðunni var gyðingur, en einhverjir áttu vissulega forfeður sem höfðu verið gyðingar. Það gerir menn ekki að gyðingum. Áður en þú stimplar menn geðveika bið ég þig vinsamlegast um að líta í eigin barm.

FORNLEIFUR, 16.8.2018 kl. 15:21

17 Smámynd: FORNLEIFUR

Sigurður Antons skrifar:

"Vísindin í dag ættu að getað sagt stærsta sannleikann um það. Efinn er alltaf nálægður og margt á þinum síðum vekur upp spurningar. Gagnrýni á því rétt á sér.Viðskipti við Grænland og Ísland skýra vel mikla blóðblöndun við Suðureyjar og Skotland. Þangað til eitthvað annað kemur í ljós verðum við að trúa að allt að 60% mæðra okkar hafi komið frá Bretlandseyjum".

DNA nútíma-Íslendinga og nútíma Suðureyinga sanna ekkert um uppruna fólks á Íslandi á Landnámsöld. DNA úr beinum forfeðranna getur gefið svarið, en þær greiningar sem hafa verið gerðar veita ekki staðfestingu á því sem áður hefur verið sagt um formæður Íslendinga hjá ÍE (deCode) nýlega var sagt frá því hér á Fornleifi.

Samanburðarmælingar á beinum kumlverja á Íslandi og beinum frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum frá sama, eða nokkurn vegin sama tíma, er besta leiðin til að sýna upprunann. Ef þú lest greinina með Bjarkarmyndinni getur þú fundið upplýsingar um að á Íslandi bjó margt fólk (ca. 15%) í öndverðu sem hafði sömu líkamsbyggingu og Samar eða afar líka. 10-15% höfðu líkamsbyggingu sem var algeng á Bretlandseyjum. Þó DNA yrði unnið úr þeim beinum er ekki víst að það sýni tengsl við DNA í nútíma-Sömum. Ýmsar breytingar hafa átt sér stað á 1100 árum. 

97 sýni fengu ÍE fólk að taka úr kumlverjum á Þjóðminjasafninu. Flest þeirra sýna var ekki hægt að nota til nokkurs skapaðs hlutar, en þau fáu sem hægt var að raðgreina sýndu ekki uppruna íslenskra kvenna á Bretlandseyjum.  ÍE á mjög erfitt með að segja frá þessari staðreynd. Það skiptir kannski ekki máli, þegar fólk vill ekki heyra sannleikann, og telur af og frá að það sé komið af sama fólkinu í Noregi og Samar nútímans.

FORNLEIFUR, 16.8.2018 kl. 15:35

18 Smámynd: FORNLEIFUR

Bið ég menn að halda sig við efnið, ef þeir vilja skrifa eitthvað hér. Efnið var ósvífin tilraun íslensk vinstrimanns að gera SS mann að gyðingi. Slíkt athæfi er greinilega í tísku hjá ákveðnum hópum manna á Íslandi og víðar. Ef menn sjá ekki að slíkt er ekki bara della, heldu getur einnig talist argasta gyðingahatur, er lítið sem ég get gert. Gyðingahatur er lögbrot og íslensk yfirvöld eiga samkvæmt lögum að koma í veg fyrir það og dæma menn í sektir eða til fangelsisvistar ef fólk brýtur lögin.

FORNLEIFUR, 16.8.2018 kl. 15:43

19 Smámynd: Sigurður Antonsson

Skarpar umræður geta hrist upp í allskonar fullyrðingum. Ef staðhæfingar ÍE um að meir en 50% mæðra fornmanna hafi komið frá Bretlandi standast ekki. Hvað svo? Allt á brauðfótum og IE mönnum vart trúandi? Nýtísku hátæknifyrirtæki við Tjörnina. 

Nýlega var fullyrt í frétt af vísindamönnum, að sala á tönnum úr rostungum hefðu haldið uppi efnahag norrænna manna í Grænlandi þar til þeir fluttu til Bretlandseyja. Hvergi í fréttinni var talað um rostungahúðir sem voru mun mikilvægari útflutningsvara.

Danir hafa rannsakað mikið grafir fornmanna í Grænlandi og ættu að getað staðfest hvaðan þeir komu af beinabyggingu? Fyrir tveimur áratugum var ég í gönguhóp í Grænlandi. Komum frá Görðum að Hvalneskirkju í blíðskaparveðri. Við kirkjuvegginn var norræn maður að hálfu í jörðu að grafa. Hér var að rannsóknum Knud Krogh, danskur fornleifafræðingur. 

Knud sýndi okkur þegar í stað hvað hann hafði orðið áskynja. Hélt síðan langan fyrirlestur um beinabyggingu fornmanna sem grafnir voru þarna. Fengum við að lýta á vel varveittan lærlegg af stórum manni í gröf sinni. Álíka háum og meðal nútímamanni. Taldi hann af rannsóknum sínum að norrænir menn hefðu búið við talsvert fjölbreytta fæðu. Að mestu af sjávarfangi, sauðfé, fuglum og hreindýrum.

Hvað með rannsóknir Íslendinga sem gætu sýnt fram á hvaðan við komum? Á þetta ekki að vera nokkurn veginn kortlagt með öllum þeim nútíma mælitækjum sem við búum við í dag?

Sigurður Antonsson, 20.8.2018 kl. 21:14

20 Smámynd: FORNLEIFUR

Því miður getur maður haldið að allt sé á brauðfótum hjá ÍE. Þeir svara heldur aldrei gagnrýni.

Hvað varðar rostungsgreinina, svo er mjög alvarleg villa í henni. Rangt er vitnað í Bjarna F. Einarsson kollega minn. Höfundarnir geta ekki lesið íslensku, en einhver á Íslandi er að mata þá rangfærslum. Um það í grein hér á Fornleifi mjög bráðlega.

Danir hafa fyrst og fremst rannsakað sjúkdómsþætti á beinum, en DNA rannsóknirnar sem gerðar hafa verið nýlega, eru mjög mikið hernaðarleyndarmál. Engar upplýsingar hafa enn sem komið út verið birtar, svo ég viti til.

Gaman að heyra að þú hafir þekkt Knud Krogh. Ég þekkti hann ekki mikið, en hann kom tvisvar á deildina mína í Árósum til að halda fyrirlestur og eitt sinn lenti ég á kjaftatörn við hann á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn, og náði ekki í banka til að taka út af bók til að hafa fyrir lestinni heim. Þetta var snemma á 9. áratugnum fyrir tíma korta. Góð ráð voru dýr, því Krogh var ekki heldur með peninga á sér , en Vingjarnleg stúlka á safninu lánaði mér fyrir miðanum og ég komst heim sama kvöldið.

FORNLEIFUR, 22.8.2018 kl. 10:52

21 Smámynd: FORNLEIFUR

Ég held að Krogh sé enn á lífi, fæddur árið 1932. Best að vera ekki að tala um hann í þátíð.

FORNLEIFUR, 22.8.2018 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband