Um tattúin tvö, Eggert og Vilhjálm Higginson
24.5.2023 | 07:48
Ég sá um daginn á FB, að hinn síungi skólafélagi minn úr barnaskóla, Eggert Pálsson, var á tónleikaferðalagi í Edinborg. Hann er eins og allir vita páku-maestro Sinfóníunnar.
Öfunda ég Eggert af því að vera í borginni fögru, þó að hann sé þar örugglega í S-inu sínu. Eggert hefur nefnilega lengi verið Helgarskoti (sem er eins konar drag-fyrirbæri). Hann bregður sér oft í litrík kjölt og blæs úr sekk sínum - þ.e. löngu eftir að hann hætti að vera Ironmann (sem var í bernsku). Svo langt geng ég auðvitað ekki, þó ég hafi alltaf verið fullgildur Superman og örugglega ekta McWilliams inn við beinið.
Ég var í Edinborg í fyrra eftir langt hlé, og hef plön um að fara þangað aftur bráðlega.
Fyrir fáeinum dögum horfði ég ég þátt í norska sjónvarpinu um sögu Tattoosins i Edinborg (Eidyn´s borg /Auðunarborg: á skosk-gelísku Dùn Èideann). Sú saga hófst árið 1949. Norðmenn eru sólgnir í að horfa á þessa hátíð í kringkastinu, enda verða flestir þeirra glaðir, og jafnvel graðir, þegar þeir heyra lúðrasveit - og sannanlega stífgraðir af að ganga í takt.
Þó ég sé friðsemdarmaður, hef ég alltaf haft gaman að horfa á hina árlegu þætti frá þessum hátíðum með sekkjapípum, trommuslætti, herlúðrasveitum og hátíðarheræfingum. Þar gætu gömlu, norsku erfðaeindirnar í mér enn verið að gerja .
En þessar kenndir og fiðringur koma líklega til af því, að fyrst er ég sigldi út fyrir landsteinanna með foreldrum mínum (1971), á Gullfossi, var fyrsti viðkomustaðurinn Edinborg. Þar náði faðir minn í miða á Tattúið sem voru fyrir sæti efst á trépöllunum sem þá voru, sem allir riðluðust og hristust. Það var rigningarsuddi það kvöld, og heldur köld upplifun - og ég að drepast í lofthræðslunni.
Pallarnir fyrir Tattúið eru nú ekki ósvipaðir geimskipi í Spielberg-mynd. Ljósm. VÖV, 2022.
Það sem fæstir vita ef til vill ekki, er að orðið tattoo er komið úr 17. aldar hollensku og hefur ekkert með húðflúr að gera. Á 17. öld lét herinn trumbumeistara sína ganga um öldurhúsahverfi Amsterdam og tromma viðvörun til kráareigenda um að taka hanann af öltunnum sínum. Það var kallað "að taka hanann af": doe den tap toe. Þetta var gert svo að hermenn og sjóliðar sneru til herstöðvar sinnar eða leiguhúsnæðis á guðlegum tíma. Þessi stoppklukka með trommum og pákum varð síðar að fastri siðvenju, tattoo, til að koma hermönnum í bælið. Nú spyrja örugglega einhverjir, hvort að tattúið sem fólk er að skreyta sig með í dag sé eitthvað þessu skylt. Svo er alls ekki; það tattoo (upprunalega tattow á ensku) er fengið að láni úr máli Samóaeyinga, tatau, sem þýðir að slá - með vísun í vængjabein af stórri leðurblöku með oddi sem þá var notuð til húðflúrs, með því að slá því á ákveðin hátt í húðina. Þá er það komið á hreint.
Ég hef aldrei verið gefinn fyrir húðflúr, en Tattooið í Edinborg heillaði mig og gerir enn, þó ég sé ekki einn af þeim sem ganga mikið í takt. Norsku litningagarmarnir verða ekki svo kátir að mér rísi af því hold. Minningin um hátíðahöldin í Edinborg, þegar ég kom þar í ágúst 1971, heillar mig enn.
Þegar ég var þar í fyrra með frú Irene, fórum við upp að kastala og allt var lokað vegna tattoosins. Ég spurði hvort hægt væri að fá miða. Blessuð konan í miðasölunni hló bara og sagði sposk á skotaensku:
Darrhling, you hoeve tuu mudder to get them, or buyi them a yeeeehar in advance, or even tuu yeeeharsh.
Næst er ég verð í Auðunarborg, kaupi ég miða fram í tímann og verð svo í McWilliam kjöltu, en án varalits, á 6 röð (80 pund).
Hér er ástin mín hún Irene með mér í janúar 1989 uppi á Kastalahæð klædd í gamlan Aquascutum frakka föður míns sem ég notaði töluvert á Englandi 1988-89. Þá var ég oft spyrður, hvaðan af Bretlandseyjum ég kæmi, m.a. vegna rykfrakkans. Ég svaraði venjulega: From the Northern most of the Isles, where your balls freeze like Haggis if you wear a kilt. Háskólinn í Durham tókst einnig að gefa mér nýtt nafn í einu bréfi sinna til mín, því Sheila á skrifstofu deildarinnar var illilega orðblind. Ég varð að Higginson. Google gefur skýringar á öllu: The original Gaelic form of Higginson was O hUgin, which is derived from the word uiging, which is akin to the Norse word Viking.
Myndin efst var tekin af mér í bol, skyrtu, peysu og jakka í 20 stiga hita af einhverjum snápskota á Edinborgarhæð í ágúst 1971. Ég var því ekki eins herðabreiður og McWhorther vörður, þó þannig gæti það litið út. McWhorther ættin vill helst ekki láta rugla sér við Markwhortherættina.
Myndin, meee..eeh, hér fyrir neðan sýnir, hvers konar herbergi kindarlegur Higginson frá Íslandi fær sjálfkrafa, svo hann þjáist ekki af heimþrá.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.