Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Déjà vu
5.10.2018 | 07:30
Eftirfarandi myndatexta mátti lesa á baksíðu Alþýðublaðsins sáluga sunnudaginn 13. júní 1965.
Gamli símklefinn á torginu horfinn
ÓÐUM er miðborgin að breyta um svip, gömul og virðuleg verzlunarhús úr timbri eru rifin og í þeirra stað rísa himinháir bankar og skrifstofubyggingar úr stáli og gleri. Og nú er gamli símaklefinn á Lækjartorgi horfinn, hann hefur staðið þarna í nokkra áratugi, en til hvers vita líklega færri, því síminn þarna hefur yfirleitt ekki verið í sambandi, en það er sama,turninn setti sinn svip á bæinn og er ekki laust við að Lækjartorg sé heldur sviplausara eftir að hann hvarf.
Ritstjóri Fornleifs var tæpra 5 vetra þegar þessi hræðilegi atburður átti sér stað. Hann man því lítið eftir þessum merka símklefa og þurfti sjaldan að hringja. Er ekki eins símóður og margir landar hans.
Þó hitnaði honum um hjartarætur þegar hann uppgötvaði að Hollendingurinn fljúgandi, sem kom til Íslands árið 1957, og sem greint var frá í færslunni í gær og fyrr, hafði tekið mynd af þessum merka klefa. Fornleifur, sem er eldri sál en ritstjórinn, telur víst að klefinn sé ættaður frá Svíþjóð. Hann hefur séð slíka klefa þar og hélt að þeir væru hernaðarmannvirki, til taks ef Rússarnir kæmu einn daginn.
Síminn á Lækjartorgi virtist þó ekki vera bilaður árið 1957 og stelpurnar í klefanum sýnast mér vera að hringja, eða voru þær bara flissandi í þykjustunnileik fyrir Hollendinginn, sem þeim þótti greinilega sætur.
Þrátt fyrir spár Alþýðublaðsins gæti þessi frétt hafa birtist nýlega, því enn er verið að reisa himinháa banka, skrifstofubyggingar og hótel úr stáli og gleri. Og samt er Lækjartorg enn líkt Lækjartorgi, og ungt fólk sem þar bíður verður enn ástfangið, þangað til það hverfur í hverfin sín með strætisvögnum Reykjavíkur sem nú heita bara því ómerkilega nafni Strætó.
Reykjavík var þarna á vordegi, eins og undarleg blanda af Múrmansk og New York. Blanda af draumum, hryllingi og norðanátt. Takið eftir sveitamanninum sem situr á bekknum til hægri. Það er eins og hann hafi brugðið búi í gær, eða sé að bíða eftir vagninum að Kleppi. Sá hann hvert stefndi?
Ljóshærði strákurinn glápir á undarlega útlendingin og grettir sig. Það gerir Fornleifur líka. Reykjavík er sem betur fer enn lítil, þrátt fyrir gler og stál. Gleðjumst yfir því, í stað þess að farast í græðgiskasti tengdu hinni eilífu, íslensku minnimáttarkennd.
Reykjavík er bara helvíti fín, gott fólk og spilltir stjórnmálamenn, eins og alltaf. Reyndar er búið að gera bankann í bakgrunninum að dómshúsi. Þangað mætti hífa borgarstjóra inn við tækifæri til að staga í götin í vösum þeirra. Því fylgir ábyrgð að stjórna borg, þar sem enginn símklefi er. En ef trúði og íhaldi tekst það, ætti mórauðum borgarstjóra með ólívukrullur að takast það líka. Það er nefnilega aldrei neitt eftirlit. Enn virkar síminn ekki og borgastjórinn verður upptekinn út kjörtímabilið. Hringið bara, ekkert svar...
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hin fagra framtíð
17.1.2014 | 08:57
Meðal þess sem menn dreymdi um var ljósapera, nánar tiltekið ljósrör (flikkerlicht), þar sem menn ímynduðu sér að lýsing skapaðist ef straumur yrði leiddur gegnum tinþráð. Rafmagnið ímynduðu menn sér að kæmi fyrst og fremst úr batteríum, svokölluðum Leydenflöskum. Menn trúðu því, að ef þær væru margar settar saman væri til frambúðar von um að hægt væri að nota strauminn til lýsingar.
Einnig gat karlinn lesið um unaðssemdir glerplötu sem á hafði verið sett tinþynna. Í þynnuna átti að skera út bókstafi með vasahníf! og svo leiða í gegnum þynnuna straum svo bókstafirnir lýstu með flöktandi ljósi (flikkerend licht).
Dreymdi menn þarna um fyrstu ljósaskiltin, fyrstu skjáina eða IPad ?
Langalangafi hefur vart trúað þessu rugli og tautað einhverja teutónísku með hrákahljóði í skeggið. Hann kveikti aldrei á perunni, svo mikið er víst. En nú eru þessi framtíðarsýn samtíðarmanna hans fornleifar einar og löngu kulnaðir draumar um bjarta framtíð.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)