Færsluflokkur: Minningar

Sur une croisière

Lafayette 1930 c

Ritstjóri Fornríms þjónaði sem ungur piltur farþegum af ferðamannaskipum sem vörpuðu akkerum á ytri höfninni sunnan Engeyjar.

Eftir að hafa verið sendill nokkur sumur hjá Ríkisútvarpinu við Skúlagötu, útvegaði afi minn mér nýja vinnu. Hann var besti atvinnumiðlari sem ég hef þekkt.

Nýja sumarstarfið var líkamlega meira krefjandi vinna hjá Reykjavíkurhöfn (sem í dag heitir Faxaflóahafnir). Vinnan var afar fjölbreytileg: Skurðagröftur, málningarvinna, vegagerð, sandblástur, hreinsun á baujum, hreingerningar í Hafnarhúsinu, rif á gömlum bryggjum, steypuvinna alls konar, holræsagerð, aðstoð við trésmiði og bryggjusmiði og bíltúrar með Reyni heitnum Kristinssyni um Reykjavík til að kaupa langloku, kók og horfa á stelpur. Annar bílstjóri vann þarna en hann var mest fyrir stráka. Sem sagt afar fjölbreyttur og nútímalegur vinnustaður. Ég glápti þó ekki á ókunnar stúlkur á ferð í appelsínugulum Kassabenz Reynis, enda fyrir löngu búinn að setja radarinn á eina útvalda, sem ég þó missti ugglaust af vegna algjörrar draumværu. Og "sú útvalda" náði líklega aldrei radarsendingum úr höfði fábjánans - c´est la vie.

Hjá Reykjavíkurhöfn var maður kominn út í hið óvægna líf fullorðinsáranna. Fólk var jafnvel rekið fyrir að neita að vinna við gerð eldhúsinnréttingar heima hjá Hafnarstjóranum í Reykjavík. Stjórinn, sem aldrei lét sjá sig, lét bæjarstarfsmenn einnig þvo bílinn sinn, enda kominn af velmegandi og siðlausu fólki. Við vorum þó heppnir unglingarnir sem þarna höfðum góða vinnu og ágæt laun upp úr krafsinu og vorum tilbúnir að líta til hliðar þegar sjálftaka yfirmanna var annars vega.  Margir gamlir og sumir skemmtilegir karlar unnu þarna með okkur, þar á meðal gamlir sjóarar, einstaka fyllibytta og uppgjafabændur og við lærðum ýmislegt um sögu þessara manna og hvað varast ætti í lífinu. T.d. kenndi Árni gamli, maður um áttrætt, sem var ættaður úr Flóanum, hávaxinn og dökkur eins og Berbi, okkur hvernig við ættum að sýnast vera að vinna, þó við værum ekkert að því - þegar verkstjórann bar að. Þetta trikk Árna gamla reyndist mér þó aldrei gott, enda var eg lengi vel ákafamaður til allrar vinnu, ef ég má sjálfur segja frá.

Stefán Sigmundsson (1912-2006) hét yfirverkstjórinn í bækistöðvum vinnandi manna við Reykjavíkurhöfn. Stebbi var hinn vænsti karl, ættaður frá Neskaupstað ef ég man rétt, en frekar uppstökkur eins og þeir geta verið fyrir austan. Líklegast eru það frönsku genin. Hann var líka stríðinn á sinn undarlega máta. Stefán verkstjóri taldi mig vera vel lesinn og prúðan menntskæling, svo hann setti mig oft í starf sem ég hafði dálítið lúmskt gaman að. Ég var af og til útnefndur gæslumaður án kaskeitis við eystri Verbúðarbryggjuna skáhöllu við Suðurbugt, sem þar voru áður en flotbryggjurnar voru byggðar þar. Enn austar hafði staðið sams konar hallabryggja, hin margfræga Loftsbryggja sem var rifin 1973 og aðrar enn austar (t.d. Grófarbryggja). Upp Loftsbryggju gengu ýmsir frægir menn sem sigldu til Íslands á 20 öld. Hinir hvítu léttabátar sem sigldu fram og til baka með ferðamenn úr ferðamannaskipum sem ekki gátu lagst að í Sundahöfn, lögðust eftir 1973 að við eystri Verbúðarbryggjuna, en lóðsbátar lágu þar við megnið úr árinu þegar engin ferðamannaskip voru á höfninni. Nokkrum árum áður hafði maður stundum farið með vinum í strætó niður í bæ til að dorga við bryggjurnar við Suðurbugt.

Screenshot_2020-10-08 Sarpur is - Bátur, Bíll, Bryggja, Búningur, Karlmað

Sænskum farþegum hjálpað í land árið 1960 við eystri bryggjuna við Suðurbugt, þar sem ég stráði sandi forðum mestmegnis undir þýsk gamalmenni. Mér sýnist að sandari án kaskeitis hafi starfað hjá Reykjavíkurhöfn á undan mér, því það er greinilega sandur á bryggjunni. En hann er þó ekki hvítur. Ægisgarður til vinstri. Ljósmynd Ingimundar Magnússonar sem er varðveitt á Þjóðminjsafni Íslands.

Fyrir neðan eru listagóð mynd sem Vilborg Harðardóttir tók og þar sem sést í sporðinn á bryggjunni sem ég sandaði á sínum tíma. Sú ljósmynd er í vörslu Þjóðminjasafns, sem líkt og Borgarminjasafn hefur ekki sett sig nægilega vel inn í innviði hafnarinnar, nöfn og þess háttar. Eins mikið og ég elskaði þetta svæði á yngri árum, hata ég það álíka mikið í dag, þegar það er orðið að stórri okursölubúllubyggð sem sendir menn slippa og snauða heim eftir heimsókn. Aðeins ein af sölubúllunum þarna og nú við Ægisgarð og vestur úr út á Granda er í sérflokki. Það er bíll, sem úr er seldur Fish and Chips. Afgreiðslumaðurinn þar ber orðið remúlaði fram með einstaklega smekklegum pólskum hreim - og fiskurinn er líka 100%. Það er langt á milli góðra búlla í gömlu Reykjavík.

Screenshot_2020-10-09 Sarpur is - Bátur, Bryggja, Hús, Höfn, Karlmaður, S

Þar sem eystri Verbúðarbryggjan gat verið mjög hál þegar fjaraði út, varð maður að skafa hana alla og strá á hana hvítum skeljasandi sem var tiltækur í tunnu inni í skúr efst á bryggjunni. Þetta stráaldur var bráðnauðsynlegt svo að gamlingjarnir sem komu í land með hvítu léttabátunum dyttu ekki og slösuðu sig. Þarna í gráum skúr gat maður svo að loknum skylduverkum setið og lesið og virt fyrir sér og jafnvel talað við sjóarana af Ferðamannaskipunum sem oft voru Ítalir, Portúgalar og stundum frá Norður-Afríku, Túnis eða Egyptalandi.

Þar sem flestir farþegar sem komu með bátunum í land voru Þjóðverjar og Austurríkismenn, vissi maður að einhver hluti þeirra hafði ugglaust hrifist af Hitler og jafnvel barist og myrt fyrir foringjann. Þegar ég var búinn að strá undir þetta lið hvítum Saga-sandi, sat ég makindalega og starði á þýsku kallana þegar þeir gengu í land á Saga-Insel; Sumir þeirra illa lemstraðir úr stríðinu og margir enn í gamla stílnum í grænum Lodenfrökkum og með svarta Brimarhatta á kollinum.

Fyrsti eyjaskegginn sem þeir sáu svo leit ekki beint út eins og arísku illmennin sem þeir sjálfir voru á yngri árum, og hann hafði fyrir sið að hlaupa fyrir þá og strá sandi undir þá og hrópa að þeim Achtung, Rutschgefähr!

Lafayette á Ytri höfninni

Lafayette á Ytri höfninni. Ljósmynd úr safni French Line. Fyrirtækið upplýsir hins vegar ranglega, að myndin sé tekin í Noregi.

Lafayette

Lafayette 1930 b

Steríoskyggnumynd (gler) úr ferð Lafayette á til Norðurhafa árið 1930.

Það getur verið ansi hált á þiljum minninganna, og nú er ég án þess að vita hvað tímanum leið kominn aftur á 8. áratug síðustu aldar í lystiskipaminningunum. Eiginlega ætlaði ég bara að hafa örlítinn kafla um franska farþegaskipið Lafayette, sem kom nokkru sinnum til Reykjavíkur á 4. áratug síðustu aldar. Í fyrsta sinn  árið 1930, en það ár var skipinu hleypt af stokkunum.

FL006054_web1Steríó (Stereo)-skyggnumyndin efst(sem er hægt að skoða betur hér fyrir ofan) er tekin í þeirri ferð. Ég keypti hana í Þessaloniki í Grikklandi. Skipafélagið franska C.G.T - Compagnie Générale Transatlantique (einnig kallað French Line) sem gerði út Lafayette sendi ávallt ljósmyndara með skipum sínum í ferðirnar (sjá mynd af einum þeirra hér til vinstri) og ljósmyndastúdíó var um borð á skipunum. Farþegar gátu keypt myndir af sjálfum sér og myndir voru teknar fyrir auglýsingavinnu.

Lafayette03

Í ferðinni til Íslands 1930 voru teknar steríóskyggnur og þær skoðaðar í þar til gerðu tæki um borð á Lafayette, þar sem menn fengu einhvers konar þrívíddartilfinningu. Nokkrar myndanna hafa fyrir einhverjar sakir lent á Grikklandi. Enginn veit af hverju; Kannski var hægt að kaupa slíkar myndir.

Á myndinni efst sem tekin var úr turni Landakotskirkju, má sjá ýmislegt áhugavert. Þarna sér maður út yfir Hólavallakirkjugarð, Melavöllinn, Loftskeytastöðina, Grímsstaðaholtið og Skerjafjörðinn. Allt er á sínum stað en Háskólinn var bara kálgarður, eins og hann er víst enn. Nær má sjá Sólvalla-, Ásvalla- og Brávallagötur og hluta af elliheimilinu Grund. Hávallagata virðist ekki vera til þegar myndin var tekin enda nafn hennar ekki samþykkt fyrr en 1934.

FL008225_web Mr Henri yfirbryti á Lafayette

Monsieur Henri var bryti um borð á Lafayette. Með nefið

niður í hvers manns koppi.

FL016433_web

Hárgreiðslustofa Monsieurs Fleury um borð á Lafayatte.

FL016447_web

Skurðstofan á Lafayette.

Lafayette, sem var langt frá því að vera glæsilegasta fley C.G.T. skipafélagsins, varð ekki langlíft skip. Það brann og bókstaflega í brotajárn í höfninni í Le Havre árið 1938.

Notið svo fyrir mig grímuna eins og Kári leggur til. Það er einfaldlega ekki of mikið til af Íslendingum í heiminum.

Kveðja Forngrímur.


Skírteini lífsins

Barnamúsíkskólinn 1972 b

Seinni partinn í september var ég í algjörri kurteisisheimssókn á Íslandi, þar sem ég fæ enn að búa hjá aldraðri móður minni.

Móðir mín var einn daginn með óþarfa áhyggjur og vangaveltur út af einhverri endurgreiðslu sem Tryggingastofnun krafðist vegna skekkju stofnunarinnar í útreikningum á ellilífeyri. Ég þekki ekkert á "kerfið" á Íslandi, enda mestmegnis utan allra kerfa, og hafði því ekki vit til að hjálpa henni - en bað hana að biðja systur mína um að skoða málið þegar hún kæmi heim úr sínu sumarleyfi.

Þegar við töluðum um þessar áhyggjur sá ég glitta í gamalt skírteini mitt úr Barnamúsíkskólanum undir öllu pappíraflóðinu sem veldur níræðri konunni svo miklu hugarangri. "Engu skal hent" virðist vera viðkvæðið hjá henni í dag andstætt því sem áður var, þegar hún henti helst öllu gamla konan. Einhver nostalgía virtist nú vera komin í mömmu á efri árum og hún var farin að nota skírteinið mitt sem bókamerki. "Þú mátt alveg taka það", sagði hún þegar hún sá að ég  hafði margar minningar tengdar plastinu.

Ég man nefnilega þegar ég kom með ávísun til að borga ársgjaldið. Stefán Edelstein skólastjóri var á "kennarastofunni" með velyfirgreiddan skallann í tweedjakka með bótum á olnbogum og í rúllukragapeysu. Hann gekk oft með derhúfu með dúski á þeim tíma.

Þetta var allt eins og það hefði gerst í gær, en gerðist samt á efstu hæðinni í Iðnskólanum fyrir nærri hálfri öld. Skrifstofan var lítil og full af reykingasvælu. Stefán fór upp á upphækkunina við gluggann, þar sem skrifborð hans var; settist við ritvélina og pikkaði inn nafn mitt, heimilisfang og símanúmer á miða sem hann setti inn í plastið og færði mér það svo með pípuna í munnvikinu um leið og hann sagði: "Svakalegt nafn er þetta sem þú hefur, maður". Ég svaraði bara "já" eða jafnvel engu, enda hafði ég heyrt hve strangur Stefán var. Annars kunni ég vel að svara í stíl við "Veit ek vel, Sveinki", en tók ekki sjens í Stebba.

Aldregi var þetta Ausweis mitt notað til neins og það gulnaði bara í veski mínu til fjölda ára. Það gaf hvorki afslátt í verslunum né fyrirgreiðslu á flugvöllum eins og platínukort Hannesar Hólmsteins. Maður þurfti ekki að sýna þetta skírteini til að komast inn í skólann. En skírteini þurfti maður samt alltaf að hafa. Aginn lét ekki að sér hlæja. 

Nýlega fór ég með skírteinið í heimssókn í Tónmenntaskóla Reykjavíkur  við Lindargötu, sem er arftaki Barnamúsíkskólans.  Ég var að reyna að hafa upp á kennsluefni í sambandi við hljóðfærasmíði barna í skólanum á sínum tíma (sjá hér), og sér í lagi vegna smíða nemanda á langspilum. Ég lofaði skólastjóranum að skrifa henni sem fyrst, en geri það loks í dag. Hún ætlaði að spyrjast fyrir um námsefnið fyrir langspilssmíðar. Ég sýndi henni skírteinið, sem var hætt að nota er hún var í skólanum töluvert síðar en ég. Hún trúið vart sínum eigin augum.

Í gær fór ég svo í skjalsafn Fornleifs gagngert til að finna afrit af prófskírteinum aðalritstjórans er hann var í Barnamúsíkskólanum og kemur þá í ljós að ég lauk hvorki meiru né minna en "Burtfararprófi í tónfræði og hljóðfræðaleik úr framhaldsdeild skólans". Þuríður Pálsdóttir og Stefán Eldjárn gáfu mér "ágætt", sem varð ekki betra, og svo fékk ég næstbestu einkunn "gott" fyrri píanóleik minn og mátti víst vel við una, maður sem níddist á Bach, Bartok, Beethoven, Brahms, Beatles, BB King, og Bí-bí og Blaka. Umsögnin  fyrir hljóðfærið 1971-1972 var því: Framfarir hægar. Mætti æfa meira (sjá Ausweis HÉR). Ég tók þegar mið af því, enda ætlaði ég mér ekki að verða undirleikari fyrir eihverja kerlingu í gulum kjól og enn síður píanókennari. Ég sá bæði og heyrði hve leiðinlegt það var í Barnamúsíkskólanum.

Menntunin og burtfararprófið gaf mér hins vegar ákveðna innsýni í heim tónlistar. Ég hlusta mest, en skemmti stundum sjálfum mér með einleik í höfðinu, tek af og til aríur í baði eða trommusóló á potta og pönnur þegar ég syng ekki bakraddir með Björk í útvarpinu. Það er meira en nóg fyrir mig. Maður þarf ekkert skírteini upp á það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband