Færsluflokkur: Torfbæir
Torfhús í Hollandi
25.3.2014 | 23:15
Margir Íslendingar skömmuðust sín mjög fyrir að hafa búið í torfhúsum. Sumir menn, sem fæddust á fyrri hluta 20. aldar og fyrr, hafa reyndar haft þá draumsýn að skálar að fornu hafi verið miklu merkilegri hús en síðari tíma gangna- og burstabæir, eða þá kotin sem þeir fæddust sumir sjálfir og ólust upp í, sótugir í fasi. Það er þjóðernisrómantík, sem hefur alið af sér sögufölsun og afskræmi eins og Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, sem á ekkert skylt við síðasta skálann á Stöng í Þjórsárdal, sem eftirlíkingin á að sýna.
Ekki var "torfkofinn" fyrr yfirgefinn á Íslandi, en að einhver ruddist yfir hann með jarðýtu sem fengin var að láni úr vegavinnunni. Ég hef talað við gamlan mann sem ruddi niður rústum og torfbæjum í sveit þegar hann vann við vegavinnu. Það var kvöldvinna hjá honum. Hann fékk kaffi, stundum eitthvað sterkara, og gott bakkelsi fyrir greiðann. Karl Marx nefndi þessi híbýli Íslendinga og gerði lítið úr þeim í einhverju verka sinna. Íslenskir marxistar, sem hafa lesið Marx eins vel og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur, hafa því alltaf verið miklir áhugamenn um steinsteypu. Danska hugtakið "Beton-kommunist" er því nafn með réttu, þó það hafi orðið til að öðru tilefni.
Fornleifafræðingar telja vitaskuld enga skömm af torfhúsum enda rum við flest komin af fólki sem byggði sér slík hús. Íslendingar byggðu með því efni sem þeir höfðu aðgang að. En sökum skammar og annarra þátta eru þau fáu torfhús sem enn standa á Íslandi söfn eða hluti af söfnum. Hitt varð tímans tönn að bráð eða jarðýtunum.
Torfhús í Hollandi
Eftir þetta formálasteyputorf er best að koma sér að efninu.
Það kemur kannski á óvart að torfhús voru einnig þekkt, og búið í þeim fram á 20. öldina í öðru Evrópulandi en Íslandi og það í landi sem er eitt rótgrónasta ESB-landið í Evrópu. Fæstir Hollendingar vita reyndar, að í landi þeirra bjó fólk í frekar hrörlegum torfhúsum sem Hollendingar kölluðu plaggenhut (plaggenhuten í fleirtölu). Fólk sem bjó í slíkum húsum var fátækt fólk til sveita, og það þótti skömm af búa úr slíkum hreysum, líklega svipað og að búa í Höfðaborginni í Reykjavík. Þessi hús var að finna í nyrstu héruðum Hollands, Drendthe, Fríslandi og Overijssel.
Ýmsar aðferðir voru við byggingar þessara hollensku torfhúsa. Stundum voru veggir úr eins konar torfhnauss, en torfið var ekki skorið af sömu list og á Íslandi. Þetta voru oftast kofar reistir í neyð og engin stórbýli. Stundum var gafl úr múrsteini eða timbri. Oftast var þekjan torfi lögð en brenndir þaksteinar voru undir að strá-/reyrmottur. Það var enginn stíll yfir þessu eins og stundum á Íslandi, enda torfið kannski eins gott alls staðar í Hollandi og það var á Íslandi. Langhús úr torfi voru líka reist á járnöld á Fríslandi og á Jótlandi og menn telja að torfhýsi hafi einnig verið til í Hollandi á miðöldum og síðar.
Í dag eru Hollendingar farnir, í nostalgíu og náttúruæði, að byggja eitthvað í líkingu við plaggenhuten fyrri tíma. Þeir koma víst ekki nær náttúrunni en það, í landi þar sem hver fermetri hefur verið umturnaður af mönnum. Þessar eftirlíkingar er ekki eins óhrjálegar og hús fátæklinganna sem bjuggu í hollensku torfhúsunum forðum. Í dag má einnig finna þessi torfhús endurgerð á byggðasöfnum og sumir hafa búið sér til sumarhús í þessum fátæklega byggingarstíl Hollendinga, sem vart getur talist til gullaldar þeirra.
Hér fylgja nokkrar myndir af hollenskum torfhúsum, stækkið líka myndina efst, hún er í góðri upplausn:
Þessi mynd sýnir örvingluð hjón í Suður-Hollandi sem hófu að byggja sér torfhýsi árið 1937, þegar þeim hafði verið varpað á götuna. Hollenskir lögregluþjónar koma að. Enn aðrir reistu sér þessi hús þó þeir væru komnir í góðar álnir og aðallega til að minnast æskuáranna. Fjölskyldan sem átti húsið hét Vis (sem þýðir fiskur).
Torfbæir | Breytt 4.5.2021 kl. 05:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)