Færsluflokkur: Merki, fánar, skjaldamerki

Skildir Íslands og Grænlands á miðöldum

le_roi_dillande_grande.jpgÁrið 1971 birtist í Árbók hin íslenska fornleifafélags grein á dönsku eftir danskan embættismann, Paul Victor Warming að nafni. Hann kynnti fyrir Íslendingum þá vitneskju að í frönsku handriti, nánar tiltekið skjaldamerkjabók, sem talin er hafa verið rituð á tímabilinu 1265-1275 og sem kennd er við hollenskan eiganda hennar á 19. öld, Wijnbergen, mætti finna skjaldamerki "konungs Íslands" á miðöldum (sjá mynd af merkinu úr handritinu hér til vinstri).

Í Wijnbergen-bókinni er skildinum lýst sem skildi le Roi dIllande. Þrátt fyrir að norskur sérfræðingur, Hallvard Trætteberg, hefði lagt lítinn trúnað á að þessi skjöldur hefði verið til í raun og veru, var grein Warmings á dönsku í íslensku riti hugsuð sem svargrein til Trætteberg. Greinin varð hins vegar að frekar krampakenndri tilraun Warmings, sem ekki fékk greinina birta annars staðar en í Árbókinni, til að sannfæra menn um að skjöldur þessi hefði ekki verið uppspuni einn líkt og Trætteberg hafði haldið fram.gissur_jarl_1275658.jpg

Grein Warmings í Árbók Fornleifafélagsins er öll full af fremur langsóttum skýringum, en þó hann fari út og suður í röksemdafærslum sínum þá hvet ég menn til að lesa greinina, ef danskan leggst vel í þá.

Warming taldi enn fremur víst að skjöldur sá sem Gissuri Þorvaldssyni var afhentur í Noregi árið 1258 með jarlstign sinni, líkt og greint er frá í Sturlunga sögu, hafi verið eins og skjöldurinn hér til hægri. Það eru 12 þverbjálkar, sex bláir og sex silfraði til skiptis. Warming taldi að skjöldur Gissurar hefði orðið að hluta skjaldamerkis Noregskonungs á Íslandi eins og því merki er lýst í Wijnbergen bókinni.

Í Sturlungu er grein þannig frá jarlstign Gissurar:

Ok þat sumar, er nú var frá sagt (þ. e. 1258), gaf Hákon konungr Gizuri jarls nafn ok skipaði honum allan Sunnlendingafjórðung ok Norðlendingafjórðung ok allan Borgarfjörð. Hákon konungr gaf Gizuri jarli stórgjafir, áðr hann fór út um sumarit. Hákon konungr fekk Gizuri jarli merki ok lúðr ok setti hann í hásætihjá sér ok lét skutilsveina sína skenkja honum sem sjálfum sér. Gizurr jarl var mjök heitbundinn við Hákon konung, at skattr skyldi við gangast á Íslandi. Í Björgyn var Gizuri jarlsjafn gefit á fyrsta ári ins fimmta tigar konungdóms Hákonar. Þá skorti Gizur jarl vetr á fimmtugan. En þá skorti hann vetr á fertugan, er hann gekk suðr, vetr á þrítugan, er Örlygsstaðafundr var, vetr á tvítugan, er hann gerðist skutilsveinn.

Enginn getur verið viss um, hvort að þessi skjöldur konungs Íslands hafi nokkurn tíma verið notaður á Íslandi, og þaðan að síður verið þekktur þar fyrr en Paul Warming skrifaði um hann á dönsku og gerði fróða menn á Íslandi viðvart um handritið sem skjöldinn er að finna í.

Í dag er ekki lengur hlaupið að því að fá upplýsingar um, hvar Weijnberger-bókin er niður komin. Koninklijk Nederlandsch Genootschap voor Geslacht - en Wapenkunde (Hið konunglega hollensk félag fyrir ætt- og skjaldamerkjafræði), þar sem handritið var í geymslu um tíma á 20. öld, hefur þurft að skila bókinni til eigandans, sem ekki vilja lengur sýna bókina nokkrum manni og leyfir ekki að nafn eiganda sé upp gefið fremur en heimilisfang. Slík sérviska er afar furðuleg á okkar upplýstu tímum. Mig grunar að eigandinn hafi annað hvort hellt kaffi eða rauðvíni á bókina, og sennilega skammast sín svo ærlega að hann hefur látið sig hverfa með bókina. En vart gefur aðgangur að handritinu, sem hefur verið lýst nokkuð vel af fræðimönnum áður en það var falið, frekari upplýsingar um skjöld Íslands, sem í henni er að finna.

Var skjöldur Íslands tilbúningur?

Persónulega hallast ég að skýringum Hallvards Trættebergs og tel ég afar ósennilegt, en þó ekki alveg óhugsandi að Noregskonungur hafi átt Íslandsskjöld, og enn síður að Íslendingar hafi þekkt þann skjöld sem teiknaður er í frönsku skjaldamerkjabókinni sem kennd er við Wijnbergen. Sennilegt þykir mér að einhver spjátrungur og merkikerti í Frakklandi sem sá um skjaldamerkjamál hirðar einhvers konungsins þar í landi hafi hugsað með sér: "Hvernig ætli skjaldamerki Íslands líti út?". Hann hefur ugglaust haft óljóslegar spurnir af einhverju Íslandi (Illande) og þekkt skjöld norska konungsins. Síðan hefur hann skáldað er hann teiknaði skjöld fyrir konungsríkið Illande (eða Islande, sem er sennilegra að standi í handritinu) eins og honum hefur þótt hann ætti að vera. 

Ef slíkur skjöldur hefði í raun verið til og verið notaður hér af erindrekum konungs eða skósveinum hans íslenskum og skutilsveinum, tel ég nokkuð öruggt að við þekktum hann úr íslenskum heimildum eða úr fjölda annarra svipaðra skjalamerkjaverka sem varðveist hafa frá miðöldum. Skjöldur Íslandskonungs í Wijnbergenbókinni er hins vegar einstakur í sinni röð og því ólíklegt að skjöldurinn sé annað en tilbúningur.

Við megum þó ekki útiloka, að einhvern daginn finni einhverjar fornleifafræðingaómyndir mynd "íslenska konungsskjaldarins", skjöld Gissurar og allra helst vel fægðan lúður hans undir stórum steini. Þangað til er víst best að slá alla varnagla frekar fast.

Skjaldarmerki "Grænlandskonungs"

Líkt vandamál og með íslenska skjaldamerkið gæti verið upp á teningnum með skjöld "Grænlandskonungs", sem teiknaður var í tvö skjaldmerkjahandrit á Englandi. Þau sýna hvítabjörn og þrjá hvíta fálka á grænum fleti.

Ef menn þekktu til Grænlands á annað borð, vissu menn ugglaust að þar væru birnir hvítir. Höfðu konungar á Bretlandseyjum fengið hvítabirni að gjöf frá norskum starfsbræðrum sínum (sjá hér og hér). Í miðaldaheimildum var iðulega minnst á hvítabirni í tengslum við Grænland. Veiðifálkar voru sérlega eftirsóknarverðið meðal konunga og greifa og bar hinn hvíti Grænlandsfálki þar af. Hvað var því meira upplagt en að setja þessi dýr á grænan skjöld? Landið hét þrátt fyrir allt Grænland.

En voru þessi skyldir til í raun og veru til og t.d. uppi við í kirkjum eða híbýlum Grænlendinga. Eða voru þeir einungis hugsmíð á bókfelli á Englandi og í Danmörku?

Nýlega nefndi Guðmundur Magnússon sagnfræðingur, blaðamaður og um tíma settur þjóðminjavörður með meiru, þetta grænlenska skjaldamerki. Guðmundur hefur um margra ára skeið verið mikill áhugamaður um hugsanlegt skjaldamerki Íslands sem finna má í Wijnbergen-bókinni. Á fasbók sinni nefndi Guðmundur handrit í Lundúnum sem sýna m.a. skjaldamerki Grænlandskonungs "Roy de Groyenlande", og vitnaði hann í málgagn sauðkindarinnar og basl- og biðraðaflokksins, Tímans sáluga, í grein sem birtist árið 1977 (sjá hér).

Handritin ensku eru tvö að tölu. Í greininni í Tímanum var sagt frá athugunum fyrrnefnds Paul Victor Warmings, sem þá gegndi stöðu skjaldamerkjaráðs dönsku drottningarinnar. Áður hafði Warming unnið sem dómarafulltrúi og síðar sem ritari, fulltrúi og deildarstjóri í ráðuneytinu fyrir opinberar framkvæmdir (Ministeriet for offentlige arbejder) sem lagt var niður árið 1987 og þá lagt undir samgönguráðuneytið.

Í grein Warmings, sem var endursögn úr grein sem áður hafði birst í danska dagblaðinu Berlingske Tidende, voru hins vegar margar villur og meinlokur. Ekki voru þó neinar þýðingavillur eða misskilningur á ferðinni hjá starfsmönnum Tímans. Warming var hins vegar eins og margir hirðmenn konunga fyrr og síðar, enginn sérstakur bógur í sinni þjónustugrein fyrir sinn höfðingja. Betra væri að skilgreina hann sem dugmikinn amatör. Furðulegustu menn og uppskafningar hafa sumir hafa tekið sér að kostnaðarlausu, helst til þess að geta talist til hirðarinnar og til að fá orður og nafnbætur. Slefandi snobbið þrífst við hirðir nútímans, líkt og svo oft áður. T.d. var einn af silfurgæslumönnum hirðarinnar á stríðsárunum lítilmótlegur nasisti, Dall að nafni, en löngu síðar tók við því starfi kennari nokkur sem engar forsendur hafði til þess annað en löngun til að vera í sambandi við "háaðalsborið og konunglegt" fólk.

Í greininni í Berlingske Tidende upplýsti Paul Warming, að hann teldi að til hefði verið skjaldamerki konungs Grænlands allt að tveimur öldum áður en elsta þekkta skjaldamerki Grænlands (hvítabjörn á bláum fleti) þekkist í Danmörku, annað hvort höggvið í stein eða málað. 

Ég hafði samband við British Library og Society of Atniquaries of London á síðasta ári til að ganga úr skugga um aldur þeirra handrita sem bera skjöld "Grænlandskonungs" og til að útvega mynd af skyldi þeim sem ekki var birt mynd af í Tímanum árið 1979. Hér skal sagt það sem rétt er um þessa tvo skildi og þau handrit sem þau er að finna í:

greenland_london_roll_1470.jpg

London Roll

Skjöld "Grænlandskonungs" sem sjá hér að ofan má finna í svo kallaðri London Roll. London Roll er ekkert annað en tæknilegt heiti á seinni tíma viðbót við rullu (roll) sem kallst The Third Calais Roll. Ritunartími The Third Calais Roll er tímasettur nokkuð nákvæmlega til ársins 1354. Handritið er varðveitt á British Museum í London. London Roll er  hins vegar safn fremur illa teiknaðra skjaldmerkja aftan á The Third Calais Roll og hefur þessi viðbót verið færð inn (rituð og skreytt) um 1470 eða nokkru síðar. Teikningin af hvítabirninum og fálkunum þremur í þessi handriti er því í mesta lagi 160-170 árum eldra en elsta þekkta birtingarmynd grænlenska ísbjarnarins á bláum fleti í Danmörku.

roskilde_dom_innen_orgel_2.jpgWarming taldi að elsta þekkta gerð skjaldamerkis Grænlands í Danmörku væri að að finna á skreyti, þ.e. útskornum skjöldum á elsta orgeli Hróarskeldudómkirkju. Skreytingin er tímasett til 1654, en kjarni orgelsins, er svokallað Raphaëlisorgel frá 1554-55, byggt af hollendingnum Herman Raphaëlis Rodensteen. Hugsast getur að hlutar af skreytinu, t.d. skildirnir, séu eldri en breytingin á orgelinu sem gerð var árið 1654. Því getur skjöldurinn á orgelinu í Hróarskeldu, sem sýnir skjöld Grænlandskonungs með hvítabirni á bláum fleti, fræðilega séð verið mun eldri en frá 1654, þótt áletrun á orgelinu upplýsi að það sé frá 1654.

Það var Paul Warming sem fyrstur manna uppgötvaði skjaldamerki Grænlands á orgelinu í Hróarskeldukirkju, en áður en hann gerði það töldu menn að elsta skjaldamerki Grænlands væri að finna á gullspesíu frá 1666, sem Kristján 4. lét slá með mynd af sjálfum sér og skjaldamerki ríkis síns á bakhliðinni (sjá mynd X). Svo virðist sem uppgötvun Warmings hafi ekki slegið í gegn eða komist til skila í fræðin, því enn eru menn að vitna í spesíu Friðriks 3. frá 1666 (sumir segja hvítabjarnarskjöldurinn hafi þegar verið á spesíudal Friðriks árið 1665 sjá hér) sem elstu heimild um hvítabjarnarskjöld Grænlands.

christian_1666.jpg

Ekki vissi Warming allt, því reyndar þekkist hvítabjörn á grænum fleti einnig af einu stórfenglegu safnskjaldamerki danska konungsríkisins frá 1654. Það var að finna á gafla skrautskips Kristjáns 4. Sophíu Amalie, en smíði þess lauk árið 1650. Til allrar hamingju eru til tvö samtímalíkön af skipinu - eitt í Kaupmannahöfn og hitt í Osló og sést þar ísbjarnarskjöldur með grænum bakgrunni undir skjaldamerki Íslands, tveimur skreiðum krýndum á rauðum fleti) og yfir færeyska lambinu á bláum fleti.

Til upplýsingar þeim sem stundað hafa opinbera skjaldmerkjafræði á Íslandi og skrifað um þær af miklum vanefnum á heimasíðu Forsætisráðuneytisins, er því hér með komið á fram að tvær krýndar skreiðar voru einnig notaðar sem skreyti á skildi Íslands á 17. öld. 

sophia_amalia_islandgr_nlandfaer_erne.jpg

sophia_amalia_traedaekker.jpg.

Sir William Neve´s Book

soc_ant_order_36.jpg

Þennan grænlenska skjöld Le Roy de Grenelond, dálítið frábrugðinn þeim sem er teiknaður í London Roll, er að finna í svokallaðri Sir William Neve´s Book (SAL MS 665/5), sem varðveitt er í Society of Atniquaries of London í Burlington House, Piccadilly í Lundúnum. Í Catalogue of English mediaeval Rolls of Arms (1950) eftir Anthony Wagner, sem var einn fremsti sérfræðingur Breta um skjaldamerkjafræði á 20. öld, er upplýst að þessi rulla sé 156 blaðsíður úr bók sem ekki er lengur til sem og að á blöðum þessum sé að finna lýsingar á 936 skjöldum. Taldi Anthony Wagner að bróðurpartur  bókarinnar hafi verið frá því um 1500, en bætir því við í lýsingu að handritið væri frá 16. öld, en að eldra efni hafi verið bætt inn í það. Því er hægt að fullyrða að margt sé enn á huldu um aldur þessa handrits.

Í Sir William Neve´s Book er hvítabjörninn teiknaður standandi (eða gangandi eins og það heitir á máli skjaldamerkjafræðinga). Eigandi þessara bókaleifa var Sir William le Neve af Clarenceux, sem mun hafa eignast bókina um 1640. William le Neve var uppi 1600-1661 og var skjaldamerkjaráð, safnari og greinilega hinn mesti furðufugl. Hann missti nafnbót sína árið 1646 og var síðar lýst sem "lunatic" árið 1658 og sem "insane" árið 1661. Ekki fór því vel fyrir þeim skjaldaverði.

hugoderoselbyleneve.jpgSir William le Neve í einhvers konar fornmannabúningi sem hann hannaði sjálfur og gekk í þegar hann tjúllaðist. Kannski var hann bara á undan sinni tíð, eins konar einhvers konar Sigurður málari þeirra Englendinga eða nafni hans Vigfússon.

Það voru því víst ýkjur hjá Paul Warming, að halda því fram að skildir "Grænlands- konungs" í enskum handritum væri allt að tveimur öldum eldri en hvítibjörninn á bláum fleti sem þekktur er í Danmörku á 17. öld. Eins og fyrr segir, var einnig til skjöldur með grænlenskum hvítabirni á grænum fleti á viðhafnarskipi Kristjáns 4. sem var fullsmíðað árið 1650. En hvort hvítabjörninn sem þekkist í enskum handritum hafi nokkru sinni verið notaður á Grænlandi af norrænum mönnum er hins vegar útilokað að segja neitt um út frá þeim brotakenndu heimildum sem til eru.

Silfurskjöldurinn frá rúst V 54 í Niaqussat

skjold_fra_hikuin_1980_lille.jpg

Það er ekki svo með sagt að ég telji að norrænir menn á Grænlandi hafi verið algjörlega menningarsnauðir og allslausir í hinni miklu einangrun sinni eða með minni aðgang að stórmenningu en t.d. frændur þeirra Íslendingar.

Vel getur verið áhugi á skjaldamerkjum hafi verið mikill á Grænlandi. Það virðist sem að einhverjir hafi jafnvel gengið með litla ættarskildi úr silfri á klæðum sínum á Grænlandi. Í kotlegri rúst í Vestribyggð á hjara veraldar fannst við fornleifarannsókn á 8. áratug 20. aldar örlítill skjöldur úr silfri. Hann er aðeins 1,8 sm. að lengd og 1, 2 sm. að breidd, eða eins og þumalsnögl að stærð. Ekki nóg með það: Í rústinni í Niaquassat í Vestribyggð, sem ber heitið V 54, hafa einnig verið höggnir út skildir án skjaldarmyndar í tálgusteinsgrýtur. Mögulega hafa íbúar á V 54-stöðum í Niaqussatfirði verið af fínum ættum og því þótt bráðnauðsynlegt að skreyta sig með skjaldamerkjum ættarinnar sem náð hafði lengra til vesturs en aðrir Evrópumenn.

Skjaldamerkjafræðingur einn danskur, sem tjáði sig um skjöldinn á V 54-stöðum er hann fannst, hefur með mjög hæpnum rökum talið silfurskjöldinn í V 54 vera frá 13. öld og bent á að hann eigi sér engar hliðstæður á Norðurlöndum. Sömuleiðis benti hann á að skjöldur skosku Campbell-ættarinnar bæri svipað merki og skjöldurinn sem fannst í V 54. Athyglisvert er þetta ef satt væri. Bjuggu kannski Skotar, fjarskyldir frændur Campbell-klansins, á Grænlandi á 13. öld? Skoðum málið aðeins betur:

Ef rýnt er í fornleifarnar sem fundust við rannsókn á V 54, undir stjórn danska fornleifafræðingsins Claus Andreasen, kemur fljótt í ljós að það kann sjaldan góðri lukku að stýra, að fornleifafræðingur sem lagt hefur stund á forsögulega fornleifafræði fer að fást við miðaldafræði á Grænlandi  - eða annars staðar. Claus Andreasen (sjá grein Andreasen hér) velur að fylgja hefðbundinni, og frekar kreddukenndri aldursgreiningu á endalokum byggðar í Vestribyggð, sem menn hafa ályktað að hafi orðið um miðbik 14. öld. Aðrar fornleifar frá V 54, svo sem gott safn horn- og beinkamba og kirkjubjöllubrot, sem einnig hafa fundist hafa annars staðar í Niaqussatfirði, benda til þess að búseta hafi að minnsta kosti haldist fram undir 1400.

Mjög góðar hefðbundnar kolefnisgreiningar á efni frá V 54 voru gerðar í Kaupmannahöfn, og gefa þær einnig til kynna að búseta á V 54 bænum hafi geta haldist allt fram á 15. öld og ef til vill lengur. En Andreasen vísaði kolefnisaldursgreiningum hins vegar alfarið frá í grein sinni. Hann upplýsti lesendur sína að þar sem ein hefðbundin aldursgreining endaloka byggðar í Vestribyggð hafi verið tímasett til 1350 þá hlyti kolefnisaldursgreiningin að vera röng, því samkvæmt rökum Andreasen:

"Denne officielle dato vil jeg holde mig til her, da der ikke er 100% sikkerhed for, hvad der egentlig er dateret med sidstnævnte datering."

Síðan Andreasen skrifaði þetta hafa menn breytt skoðun sinni og talað er um endalok byggðar á seinni hluta 14. aldar.

Ég leyfði mér sömuleiðis að rannsaka, hvers kyns sýnið var sem greint var og hafði samband við Þjóðminjasafn Dana sem sendi mér strax niðurstöður kolefnisaldursgreininganna sem Claus Andreasen birti ekki sem skyldi á sínum tíma (sjá hér). Þá kom í ljós, að Andreasen hefur ekki aðeins hafnað niðurstöðum fyrir gamla og forstokkaða kreddu sína, heldur einnig ruglað kolefnisgreiningunum sem gerðar voru á efniviði frá V 54 saman innbyrðis. Sýnið K-3060 sem Andreasen segir sýna of ungan aldur til að hann geti notað það gerir það alls ekki. Hins vegar sýndu sýnin K-3061 og K-3062 yngri aldur en hefðbundna lokaaldursgreiningu byggðar í Vestribyggð. En ber að hafna þeim niðurstöðum vegna þess að menn eru óöruggir með sýnið? Ekkert bendir til þess.

Meiri nákvæmni fornleifafræðingsins hefði verið óskandi fremur en frekar þóttafull höfnun hans á niðurstöðum. Þetta voru sannast sagna afar léleg vinnubrögð fornleifafræðings. Claus Andreasen hafðu, mér sjáanlega, enga haldbæra ástæðu til að hafna kolefnisaldursgreiningum á sýnunum. Niðurstöðurnar gætu einnig vel stutt þann möguleika að búseta hafi haldist lengur í Vestribyggð en menn telja almennt, án annars en gamalla tímasetninga byggða á eintómum alhæfingum. Ég endurreiknaði niðurstöður aldursgreininganna frá V 54, sem má sjá hér.

k-3062_kalibreret.jpg

c-14_dateringer_n_54_vesterbygden.jpg

Þar fyrir utan má vera ljóst, að ættaskjöldur Campbell-ættarinnar á Skotlandi er frábrugðinn silfurskildinum sem fannst í rústunum af "V 54 stöðum" á Grænlandi. Þríhyrningarnir í mynstri skjaldar Gampbell-ættarinnar snúq ekki eins og þríhyrningar skjaldarins sem fannst á Grænlandi.

Portúgalar á Grænlandi?

Ef til vill ber einnig að nefna, að skjöldurinn frá V54stöðum í Vestribyggð sver sig frekar í ætt við merki/fána Lissabonborgar. Portúgalar létu töluvert til sín taka í Norður-Atlantshafi á 15. öld.

Menn telja sig vita að konungur dansk-norska sambandsríkisins, Kristján 1., hafi leyft Alfons 5. (Alonso V) konungi Portúgals að senda leiðangra til Grænlands til að finna norðurleiðina til Indlands. Heimildir um það eru hins vegar af mjög skornum skammti og í raun ekki eldri en frá seinni hluta 16. aldar. Tengjast þær ferðasögur óljósum sögum af ferðum Diðriks Pínings og Jóhannesar Pothorsts til Grænlands og jafnvel til Vesturálfu, sem einnig reyndar er afar lítið vitað um.

Portúgalar eru taldir hafa fundið Nýfundnaland á tímum Alfons V, og á kortum kölluðu þeir eyju sem ekki er til í raun og veru Terra do Bacalhau (Þorskaland), og vilja margir menn meina að það hafi verið það nafn sem Portúgalar gáfu Nýfundnalandi. Vel er því hugsanlegt að Portúgalar hafi hafi einnig siglt á Grænland eða komið þar við. Tilgátur hafa einnig verið settar fram um að Portúgalar hafi sótt sér norræna menn á Grænlandi á seinni hluta 15. aldar og notað þá sem vinnuafl/þræla á Kanaríeyjum og Madeira. Ekki hefur þótt mikill fótur fyrir þeim tilgátum, en silfurskjöldur sem er með sama merki og gamall fáni Lissabonborgar, sem finnst í rúst bæjar á afskekktum stað á Grænlandi, þar sem byggð gæti hafa farið síðar í eyði en menn hafa talið, gæti frekar rennt undir það stoðum en hitt.

Ef til vill verðum við að vera aðeins meira opin fyrir öðrum hugmyndum en að skjöldurinn í rúst V 54 hafi týnst af klæðum Skota að nafni Campbell. Við þekkjum ekkert til ferða þeirrar ættar til Grænlands á 15. öld. Hins vegar er góðum líkum hægt að leiða að áhuga Portúgala á Grænlandi. 

Skjöldur Hákons unga, en hvorki Íslands né Portúgals

warming_portugaler.jpgÞví má við bæta í lok þessarar frekar löngu enn "merki"legu greinar, að lýsing skjaldamerkis Grænlandskonungs í handriti í eigu Sir William le Neve, handriti sem talið er vera frá því um 1470 eða síðar, er að finna fyrir neðan skjaldamerki Noregskonungs og meints merki konungs Portúgals (Le Roy De Portyngale), sem í bók Sir Williams eru þrír bátar, ofan á hverjum öðrum. Þetta merki þekkist hins vegar ekki í Portúgal, og gæti því verið enn einn uppspuninn og óskhyggjan í skjaldamerkjafræðunum af því tagi sem áður segir frá.

Það að merkin eru sýnd saman í bókinni þarf ekki að sýna tengsl á milli Noregs, Íslands og Portúgals líkt og Paul Warming lét sér detta í hug árið 1977 (sjá hér). Warming taldi hugsanlegt að vegna þess að skjöldur konungs Portúgals væri hafður með skjöldum Noregskonungs og Grænlands í handritinu, þá gæfi það til kynna að menn á Bretlandseyjum hafi verið kunnugur áhugi Portúgala á Grænlandi á 15. öld. Það verður nú að teljast frekar langsótt skýring áhugmannsins við dönsku hirðina.

Þrjú skip ofan á hverju öðru á rauðum fleti var nefnilega um tíma skjaldamerki Noregskonungs. Skjöldur með þremur bátum á rauðum fleti er þekktur á 13. öld í enskum handritum og þá nefndur í einu handritanna sem skjöldur Hákons unga (1232-1257), sonar Hákons gamla Hákonarsonar (hins fimmta) Noregskonungs (1204-1263), sem ríkti á tímabilinu 1217-1263. Hann var fyrsti konungur yfir Íslandi. Hákon yngri var eins konar hjálparkonungur frá barnæsku um 1240 og fram til 1257 er hann andaðist.

Skjöld Hákons unga er að finna í tveimur miðaldahandritum,sem eru samtímaheimildir. Annars vegar Historia Anglorum (Saga Englendinga) sem nær yfir tímabilið 1070-1253, og sem er hluti af safnritinu Chronica Majora (British Library; Royal MS 14 C VII (sjá hér). Bæði handritin eru eftir munkinn Matthew Paris (d. 1259). Historia Anglorum er öll skrifuð af honum sjálfum á tímabilinu 1250-1255. Í Historia Anglorum stendur í skýringu við merkið með þremur skipum:

“Scutum regis Norwagiae nuper coronati qui dicitur rex insularum” sem þýða má: Merki Noregskonungs sem nýlega var krýndur og kallaður er konungur eyjanna"

canvas.png

Sumir vafasamir skjaldamerkjafræðingar á veraldarvefnum (og nóg er greinilega til af þeim) hafa vegna vöntunar á lágmarkskunnáttu á latínu þýtt textann með "krýndur konungur eyjunnar" og bent á að "eyjan" væri Ísland. En nú stendur einu sinni rex insularum en ekki rex insulae. Þannig að sú kenning, sem er því miður farin á flug meðal rugludalla, er algjör fjarstæða. Annað er ekki hægt að staðfesta með nokkrum hætti, enda var Ísland ekki komið undir norskan konung þegar Hákon inn ungi dó árið 1257.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, í janúar 2016.


Hinn heilagi íslenski þjóðfáni

gledilega_hatid.jpgHér hefst röð nokkurra greina um merki Íslands, skjaldamerki fyrr og síðar, fána þjóðarinnar og skildi riddara hennar.

Ekki alls fyrir löngu sá ég í fréttum RÚV, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlaði að setja fram fjölda mála á þingi, þó engin stórpólitísk eða vitsmunaleg (sjá hér, 8:50 inni í fréttatímanum). Eitt að af keppikeflum hins landsföðurlega unglings er að leggja fram breytingar á lögum á þjóðfánanum til að leyfa notkun fánans á verslunarvörum sem framleiddar eru á íslandi; sem og í vörumerkjum og umbúðum (á það líka við list, sem líka er verslunarvara?). Hann boðið slíkt lagafrumvarp í fyrra en kannski var það eitthvað annað?

fanasala.jpg

Ljósmynd Haraldur Jónasson. Myndin efst er skönnuð af höfundi og er af safni hans af íslenskum fánum úr Turmac sígarettupökkum. Slík merki myndu ekki fá náð fyrir lögum Sigmundar Davíðs í dag.


Fáninn er sameign landsmanna. Frjálsa þjóðin í vestri er búin að nota Stars and Stripes í alls kyns tilbrigðum og Union Jack Breta hefur t.d. verið settur á kitlara (titrara/gervilimi) sem seldir eru í Soho, án þess að menn kippi sér hið minnsta upp við það. Það kemur því ekki á óvart að Sigmundur Davíð leikmyndahönnuður á Selfossi, maður með ríka fortíðarást gerist fánahyllir og leyfi fánann á hvað sem er, að því tilskyldu að framleiðslan sé alíslenskt og framleidd í landinu sjálfu undir strangri umsjón fánaeftirlitsmanna og fánalögreglunnar.

Þetta er auðvitað leynd aðför að minjagripasölumönnum á Íslandi, sem selja alls kyns rusl í fánalitunum og umvafið í þjóðfánann, búið til af börnum í Kína og Laos. Íslenskir minjagripir eiga að vera íslenskir og hráefnið í þá líka!

Rís þú upp unga Íslands merki
Þetta minnir mig allt á umbrot í MH á árum mínu þar (1976-79), þegar hópur kristinna í skólanum bað samnema sínu um að teikna Guð og þá var þjóðfáninn mönnum hugleikinn. Niðurstöðurnar voru birtar á sýningu og meðal þess kom í sarpinn var reður í reisn litað með fánalitunum. Einnig var teikning af Hallgrímskirkjunni sem portkona svört og mikið í netsokkum  sat klofvega yfir og gerði síg líklega til að gleypa turninn. Síðastnefnd teikning var gerð af guðsdreng einum í skólanum, drátthögum mjög í erótískri list. Þessir draumórar hans spurðust þó ekki vel fyrir hjá rektor Guðmundi Arnlaugssyni sem var alveg mát, og lét banna sýninguna. Flestir nemar skólans hlógu sig máttlausa enda komnir tíma þar sem menn tóku merki lýðveldisins ekki eins alvarlega og lýðveldið sjálft, sem er miklu mikilvægara en merki þess.

Sifjarspell
Ósk Sigmundar um að hafa fánann einvörðungu á höndum íslenskra framleiðenda, minnir mig á frekjudrós að Norðan, fyrrverandi fegurðardís úr Sjallanum, sem fyrir nokkrum árum reyndi með lögfræðingaaðstoð að banna konu sem í mörg ár hafði rekið fyrirtæki undir nafninu SIF að nota það nafn, vegna þess að hún væri sjálf farin að nota nafnið í sínum atvinnurekstri og væri hin eina og sanna SIF JAKOBS alþjóðlegur skartgripahönnuður, lærð í Svíþjóð: "Einnig kemur fram að hún sé aðalhönnuður eins af stærstu skartgripafyrirtækjunum í Kína og sömuleiðis séu skartgripir hennar seldir í Leonard hér á landi. Þá hafi hún hannað skartgripi sem seldir hafa verið til styrktar góðum málefnum, svo sem til styrktar Neistanum (styrktarfélagi hjartveikra barna), blindum börnum og Krabbameinsfélaginu. Af þessu hafi hróður hennar sem skartgripahönnuðar spurst út og hún orðin þekkt hér á landi sem og erlendis fyrrverandi hönnuður hjá stærsta skartgripafyrirtæki Kína" . Málatilbúningur var allur hinn hjákátlegasti (sjá hér), enda tapaði Sif (sem reyndar heitir Guðný Sif) máli sínu með glæsibrag í úrskurði Einkaleyfisstofnunar. Skartgripir hennar minna mig á hundaólar með "blingi" og glerdemöntum, og virðast fjöldaframleiddir af börnum í Kína á ómannsæmandi launum. Þess vegna er ég búinn að hafa samband við Marc Jacobs og hef sagt honum frá Guðnýu sem sumir halda að sé systir hans. Frekja Sifjar minnir mig á vissan hátt á Sigmund Davíð, sem ætlar að banna öðrum mönnum en íslenskum að nýta sér íslenska fánann. Nú á þetta að verða Íslenski fáninn by David Gunlogs. Hefur ráðherrann ekkert betra við tímann að gera?

Þegar faðir minn vanvirti íslenska fánann.
c_users_pabbi_pictures_wim_2_817312_1269458.jpgFaðir minn var erlendur maður að uppruna og kaupahéðinn. Þetta er hann á myndinni í æsku sinni. Eitt sinn fékk hann þá hugmynd snemma á 7. áratug 20. aldar að fá framleidd þjóðleg gluggamerki fyrir íslenskar bifreiðar, enda sá hann það greinilega fyrstur manna fyrir að Íslendingar myndu síðar flykkjast i ferjum til erlendra landa á drossíum sínum. Var þessu framtaki ekki tekið vel upp í ráðuneytum landsins þótt að merkin rokseldust. Faðir minn fékk bréf frá tveimur ráðuneytum og það í hótunarstíl. Honum var greint frá því að hann notaði skjaldamerki og fána Íslands í leyfisleysi.

Faðir minn, sem hafði í nær áratug verið íslenskur ríkisborgari hafði strax samband við Gunnlaug Þórðarson, sem oft hafði verið honum innan handa með lögfræðileg vandamál og var einnig um skeið endurskoðandi föður míns. Gunnlaugur sagði það af og frá að faðir minn væri að brjóta nokkur lög. Pabbi andaði léttar. En þá barst hótunarbréf um sektir og fangelsisvist og hvað eina, sem ég á því miður ekki búinn að finna. Hætti þá faðir minn sölu á þessum bílamerkjum og sneri sér að ermamerkjum með fána og skjaldamerki og lyklakippum með skjaldamerki Íslands sem aldrei var fett fingur út í og sem rokseldust í Rammagerðinni og í öðrum minjagripaverslunum, jafnvel á Langanesi.

Tel ég víst að einhver stór smásál að Norðan í íslenska stjórnkerfinu hafi ekki þolað að útlendingur væri að selja hinn heilaga íslenska fána. Gunnlaugur Þórðarson taldi hins vegar víst, að það hefðu hleypt galli í blóð stjórnvalda að faðir minn lét setja myndir af ýmsum opinberum byggingum á rúðumerkin, þannig að útlendingar sæju á bifreiðum Íslendinga hve kotungsleg dómkirkja, þinghús og forsætisráðuneyti landsins væru. Gunnlaugur taldi, sem sagt, að þetta kæmi við minnimáttarkenndina í sumum Íslendingum.

bilru_umerkib.jpg

Fyrir nokkrum árum tókst mér að bjarga nokkrum gluggamerkjum, svokölluðum decals, sem faðir minn lét framleiða í Hollandi hjá fyrirtæki í Amsterdam sem bar heitið ALIMEX. Fleiri gerðir voru til en þessar. Ein var t.d. með íslenska fánanum á skildi og önnum með íslenska skjaldamerkinu. Mig minnir einnig að Leifsstyttan á Skóavörðuholtinu væri á einu merkjanna.

bilrudumerki2b.jpg

Þessi merki rokseldust, en voru í óþökk verndara hins heilaga, unga, íslenska fána, sem hins vegar var stundum hylltur á afar sérstakan hátt (sjá hér), líkt og í Kaldárseli árið 1989, þar sem sannkristnir menn hylltu fánann með "rómverska" laginu. Ekkert var sagt við því í ráðuneytunum. Myndin er fengin úr Barnablaðinu 2.tölublaði, 1989.

heil_fani.jpg

Heil eða Saluto Romano, sem er seinni alda tilbúningur og á ekkert skylt við Rómverja.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband