Sjóræningjaleikur í sandkassa: Gullskipið fundið

het_wapen_van.jpg

Fáeinir fullorðnir menn á Íslandi ætla í sjóræningjaleik í sumar. Þeir eru meira að segja búnir að fá til þess leyfi frá Minjastofnun Íslands, sem hins vegar bannar á stundum fornleifafræðingum að rannsaka menningararfinn.

Leyfið til sjóræningjanna gengur út á að svífa yfir sanda með mælitæki til að finna gull og geimsteina. Fornleifafræðingur verður að vera með í sandkassaleiknum segir í leyfinu. Sá aumi félagi úr íslenskri fornleifafræðingastétt sem tekur slíka róluvallaleiki að sér verður sér til ævarandi skammar og háðungar. Hann verður þó líklega sá eini sem græðir á ævintýrinu, ef honum verður yfirleitt borgað. Það verður þó aldrei greiðsla í gulli, geimsteinum, demöntum eða perlum.

Minjastofnun hefur leyft fyrirtæki ævintýramanna undir stjórn Gísla nokkurs Gíslasonar að leita að "Gullskipinu" margfræga, sem er betur þekkt annars staðar en á Íslandi sem Het Wapen van Amsterdam. Síðast er leitað var að flaki þessa skips sem strandaði við Ísland árið 1667, fundu menn þýskan togara sem strandaði árið 1903. Hafa sumir greinilega ekkert lært af því. Þessi greindartregða virðist lama allt á Íslandi. Þetta er eins og með hrunið. Það var rétt um garð gengið þegar menn byrjuðu aftur sama leikinn og rotnir pólitíkusar taka ólmir þátt í græðgisorgíunni.

Leitið og þér munið finna

Stofnað hefur verið sjóræningjafyrirtæki sem kallar sig Anno Domini 1667. Sjóræningjarnir eiga sér einkunnarorð. Það er vitaskuld stolið, og það úr sjálfri Biblíunni: "Leitið og þér munið finna." Þeir rita það á bréfsefni fyrirtækisins á latínu. Afar furðulegt þykir mér, að menn sem eru svo vel sigldir í fleygum setningum á latínu geti ekki lesið sér heimildir um skipið Het Wapen van Amsterdam sér til gagns.

Sjóræningjarnir gera sér von um, samkvæmt því sem þeir upplýsa, að finna 1827 tonn af perlum. Vandamálið er bara að farmskrár skipanna, sem Het Wapen van Amsterdam var í samfloti við þegar það strandaði við Íslandsstrendur, upplýsa ekkert um 1827 tonn af "ýmis konar perlum", heldur um 1,827 tonn af perlum sem voru ekki nauðsynlega á Het Wapen van Amsterdam. Yfirsjóræninginn hjá 1667, Gísli Gíslason menntaðist víst í Verslunarskólanum, til að byrja með. Þar hélt ég að menn hefðu lært á vigt og mæli. Lítið hefur Gísli greinilega lært, því 1,827 tonn (þ.e. eitt komma átta tvö sjö tonn) verða að 1827 tonnum af perlum. Hvernig getur það verið að þessum talnasérfræðingi sé veitt leyfi af ríkisstofnum til að leika sjóræningja sem leitar að sandkorni í eyðimörkinni? Hvað halda landkrabbarnir í sjóræningjafélaginu að skipið hafi eiginlega verið stórt?

Slíka vitleysu höfum við séð áður í tengslum við leit að "Gullskipinu", þegar "fróðir menn" héldu því fram að rúm 49 tonn af kylfum og lurkum væru um borð (sjá hér). Á einhvern ævintýralegan hátt tókst einhverjum álfi að þýða orðið foelie sem kylfur.  Þetta var alröng þýðing eins og ég fræddi lesendur Fornleifs um fyrr á þessu ári, áður en að kunngert var að sjóræningjaleikur myndi fara fram aftur á Skeiðarársandi. Foelie er gamalt hollensk heiti fyrir múskatblóm, hýðið utan af múskathnetunni. Þetta krydd, sem hægt er að kaupa undir enska heitinu mace á Íslandi, var fyrrum gulls ígildi. Þó að það hafi verið um borð á Het Wapen van Amsterdam, er ég hræddur um að Matvælastofnum geti ekki leyft neyslu þess. Síðasti söludagur rann ugglaust út fyrir nokkrum öldum. Ef múskatblóma fyndist væri úr henni allur kraftur og hún væri frekar vatnsósa og ónýt til matargerðar.

Það verður að grípa í taumana. Sjóræningjar mega ekki ganga lausir á Íslandi. Einnig mætti ráða hæft fólk til Minjastofnunar. Mest að öllu vorkenni ég börnum íslensku sjóræningjanna sem eyða peningum fjölskyldna sinna sem ella gætu hafa runnið til barna og barnabarna mannanna, sem vonandi munu stíga meira í vitið en þeir. Öll vitum við að síðustu karlarnir með Asperger-heilkenni sem leituðu að "Gullskipinu" eins og að sandi í eyðimörkinni létu íslenska ríkið ganga í ábyrgð fyrir vitleysunni.

Mann grunar að menn eins og fyrrverandi sjálfkrýndur "forleifaráðherrann", Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefði verið til í svona sjóræningjaleik. Vonandi hefur hann nú ekki skrifað undir gruggugan sjóræningjasamning hjá 1667 sem skattgreiðendur verða svo að borga á endanum eins og allar aðrar vitleysur í íslensku þjóðfélagi. Legg ég hér með til að sjóræningjarnir fari frekar og hjálpi kollegum sínum, íslensku stórþjófunum og skattskvikurunum við að grafa upp gull þeirra og geimsteina í heitum sandinum á Tortólu, og skili sköttum og gjöldum af því fé í sameiginlega sjóði landsins. Það væri þjóðþrifamál á við nokkur gullskip.

Myndin efst

er hluti af stærra málverki eftir hollenska meistarann Aelbert Cuyp. Þarna sjást tvö skip VOC (Vereenigde Oost-Indische Compagnie/Sameinaða Austur-indíska Verslunarfélagsins) í Batavíu um 1660. Batavía var helsta höfn Hollendinga í Indónesíu. Í dag heitir borgin á þessum stað Jakarta. Ef vel er af gáð, sjá menn kannski að skipið til hægri ber skjaldamerki Amsterdamborgar.

Hugsanlega er þetta skipið sem menn eru að leita að á Íslandi. Einhver annar en listamaðurinn Cuyp hefur skrifað 'Banda' á skut skipsins. Banda var ekki nafn þessa skips heldur höfnin á samnefndri eyju á Malaccasundi, þar sem múskattréð óx upphaflega. Höfnin í Banda var heimahöfn múskatsskipsins Het Wapen van Amsterdam, sem sigldi með mörg tonn af því verðmæta kryddi í síðustu för sinni. Menn mega trúa mér eða ekki. Ef ekki, mega þeir trúa ævintýramanninum Old Red Gísli Gold sem hér sýnir innistæðulaust sjóræningjakort nútímans, með leyfi Minjastofnunar Íslands til að leita uppi vitleysuna endalausu. Það kalla menn víst ævintýri.

0aaba8bfd1812b33b5fc646681a5c432.jpg


Bloggfærslur 23. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband