Hrekkjavöku 2020 þjófstartað á Kveik

Screenshot_2020-10-09 Menningar­verð­mæti og íslenskir vegir

Nokkrir "vinir" Fornleifs/Forngríms sendu honum hlekk í þátt á RÚV, sem KVEIKUR er kallaður. Ritstjórinn hefur sárasjaldan haft tíma til að horfa á þessa Sjónvarpsþætti. Sjá hér og hér .

Mig grunaði fyrst að þeir sem sendu mér hlekkinn hafi viljað drepa karlinn. Því svona hryllingsmynd, sem tekin er upp í dimmum og djúpum geymslum þjóðararfssafnara, getur valdið skynditappa og skjótum dauða hjá elstu mönnum hér á ritstjórn Fornleifs. Bara nafn þáttarins, Kveikur, getur sett ótta að heiðvirtustu safnamönnum.

Þessi þáttur Kveiks var að mati Fornleifs ein besta hryllingsmynd sem framleidd hefur verið á Íslandi og fær hún því sex skínandi Forngrímur, sjá neðst.

Fyrst í þættinum var talað um vegakerfið á Íslandi sem er sígilt vandamál og hryllingur á stórum köflum, en þó hálfgert kraftaverk miðað við stærð þjóðar og lengd vega. Geri aðrir betur þótt slæmt sé - og svo er alltaf hægt að aka hægar. Þið eruð ekki með í lélegri hraðaksturskvikmynd líkt og stundum mætti halda. Njótið útsýnisins og akið hægar! Það er álíka öryggi og að setja á sig sóttvarnagrímu.

Hins vegar var síðari hluti Kveiks enn hryllilegri en vandi veganna. Þjóðararfurinn er á heljarþröm. Það er vitaskuld sígild saga. Hvað á Fornleifur gamli að skrifa um, ef hann fuðrar upp eða flýtur út, og blekið rennur í stríðum straumi af skjölum sem maðkur kemst annars að?

Við að horfa á þáttinn og tilheyrandi frétt á RÚV, fékk maður á tilfinninguna að brennuvargurinn úr Klúbbnum væri á bak við næsta horn og að allir myndu núna þvo hendur sínar af mögulegum slysum við varðveislu þjóðararfsins í réttarhöldum eftir menningarlegt slys, þegar skjöl Tryggingarstofnunar fuðra upp í framtíðinni.

Ábyrgðin öll er vitaskuld hjá stjórnmálamönnunum, en ekki nema að litlu leyti starfsmönnum safna. En starfsmennirnir þora ekki að hrópa upp um vandann, því vinnan er í húfi.

Stjórnmálamenn eru margir brennuvargar með skemmdarfíkn sem búa til hættulega vegi. Stór hluti íslensku þjóðarinnar velur fólkið og hefur því ekki hinn minnsta áhuga á skjalaverki og skúfum safnanna, rokkum né kistlum Þjóðminjasafns. Málverk eru fyrir aðra -  eitthvað sem þeir kaupa í fermetratali til að betrekkja veggina heima hjá sér í kúlulánahöllunum við Svikaveg. Það pakk kaupir bara Kjarval og Erró eins og aðrir kaupa sér ost í matinn. Eitt sinn sá ég nýdæmdan Núpshlunkinn kaupa Kjarval fyrir slikk á uppboði í Kaupmannahöfn. Gaman væri að vita hvar sá arfur er nú niður kominn.

Upptökur með Stuðmönnum eru flestum mun verðmætari en eitt forpoka kuml úr Skagafirði. Þjóðin er því illa meðsek. Vill hún eiga betri söfn, þarf hún að borga hærri skatta eða fá minna í laun. Maður er eftir að sjá hvað gerist. Þangað til eiga Klúbbsbrennuvargar og hans líkir og afkomendur í þriðja lið náðuga daga á friðarstóli. - Kannski var þetta ekki góð samlíking, enda Klúbburinn lítill menningarstaður.

Ef "draslið" brennur, hvað á þá að sýna ferðamönnunum sem rísa upp úr Cóvinu. Halda menn að túristarnir, nútímasauðir Íslands, álpist til Íslands eingöngu til að skoða fjöll í rigningu, eða til að láta féfletta sig svo mjög að síðustu 5 dagarnir fari í að éta SS-pylsur?

Byggðarsafnið í Skógum hefur líka lengi verið ofarlega á lista flestra sem til Íslands koma. Söfn eru ávallt best í rigningu og af henni er og verður nóg á Íslandi. Hvar á að féflétta ferðamenn, íslenska sem og aðra?

Kveikur fær sem sagt Sexgrímu fyrir bestu hrekkjavökumynd ársins. Það er unaðslegt að sjá, hvernig nýjar hefðir ryðja sér til rúms á Fróni, þegar hinar eldri hverfa í brennum og vatnselg.

En hvernig það getur verið að kvikmynd frá Sovexportfilm (sjá efst) sé talin til þjóðarverðmæta Íslendinga? Það er mér algjörlegur óskiljanlegur hryllingur. Það er samt rosaflott auka-konfekt hjá Kveiksmönnum. Það verður víst að fínstilla áherslurnar hjá starfsmönnum safna sem draga fram sovétskt rauðkál á besta sendingatíma þegar ræða á um íslenska menningararf sem allar heimsins hættur steðja að.

Sexgrímur

 


Bloggfærslur 9. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband