Draumaráðningar í íslenskri minjavernd
2.2.2021 | 08:22
Ritstjórn Fornleifs, alveg eins og hún lagði sig í sófann, horfði á þáttinn Fyrir alla muni í Sjónvarpinu 31. janúar 2021 og hélt sig vera að dreyma (sjáið þáttinn í heild sinni hér meðan að það er hægt).
Þátturinn fjallaði um silfur Egils Skallagrímssonar og leitina að því meðal annars eftir draumsýn konu í Mosfellsbæ. En í rauninni sýndi þátturinn best getuleysi Minjastofnunar og hybris sumra fornleifafræðinga sem vita minna en þeir halda sjálfir að þeir geri.
Ég rauk strax til eftir að hafa séð þáttinn í sjónvarpinu og fann hér áhugaverða klausu úr einni af dagsskýrslum Minjaverndar Ríkisins 2019, því ég taldi mig áður hafa lesið um slíkar draumarannsóknir:
Berdreymin stúlka í Hafnarfirði hafði samband við Minjavernd Ríkisins og sagðist vita, hvar Gunnar hafði hoppað upp á nef sér í öllum herklæðum sínum. Stína sagði OK og vá! við fórum austur og grófum prufuholu (1x1 metra). Kiddi hoppaði ofan í holuna, en sá svo sem ekkert nema gjóskulag afar ógreinilegt, en þegar ég kom upp úr holunni dró sól fyrir ský og Stína sá að tvö fótarför voru í botni holunnar sem var svona 1.20 metrar að dýpt og mjókkað neðst. Við fundum þarna greinileg fótspor manns sem hafði tvístigið og jafnvel valhoppað. Hann var á einhverskona fornskóm með mynstri austrænu, stærð 41. Næsta dag, er við komu aftur í Hlíðina, hafði rignt um nóttina svo sporin sáust ekki lengur. Við flettum upp í Kuml og Haugfé en fundum ekkert um fótspor; Kiddi taldi sig hafa séð áletrun á fótsporinu, NOKI eða eitthvað sem gæti líkst því".
Til að eyða öllum misskilningi, þá er færslan hér að ofan skoplýsing - en þetta gæti vitaskuld vel hafa átt sér stað, því Minjastofnun Íslands, undir stjórn Kristínar Sigurðardóttur, rýkur út og grefur holur á kostnað skattborgaranna ef kerlingu í Mosfellsbæ dreymir silfur. Það er nú fest á filmu og væri við hæfi að stofnunin sendi ritstjórn Fornleifs skýrsluna yfir draumarannsóknina, því Egill er forfaðir okkar allra.
Ég held að það sé ekki aðeins okkur sem leikur forvitni á því hvernig draumafornleifafræði íslensk fer nákvæmlega fram.
Er ekkert stofnanaeftirlit á Íslandi hlýtur að vera spurningin sem vaknar?
Stofnun sem veitir þáttargerðarmönnum, sem eru að búa til alþýðlegan skemmtiþátt, leyfi til að leita að silfursjóðum með málmleitartæki, fer ekki að lögum. Það er svo ekki í fyrsta sinn að lög eru brotin af Minjastofnun Íslands. Stjórnsýslan í minjamálum er orðin einhvers konar geðþóttafyrirgreiðsla eins og svo margt annað í íslensku þjóðfélagi: Lög eru sett á Íslandi til að brjóta þau eða beygja að vild.
Nú eru íslenskir fornleifafræðingar farnir að trúa, en augsjáanlega mest á sjálfa sig.
Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur (á efstu mynd efst með Ray-Ban sólgleraugu), sem hinn sæmilega vantrúaði þáttastjórnendi (Viktoría Hermanns) tók viðtal við til að nálgast einhverja sérfræðiþekkingu, trúir að eigin sögn Egils-sögu sem áreiðanlegri heimild. Við því er lítið að gera, þegar að fyrir löngu síðan er komið í tísku meðal margra fornleifafræðinga á Íslandi að trúa ruglinu í sjálfum sér t.d. eskimóakonum á spítala á Íslandi og Allah-perlum í stórstöðvum austur á landi svo eitthvað sé nefnt.
Blind trú á ruglið í sjálfum manni og ástundun fræðakukls eru víst orðin grundvallaréttindi á okkar tímum. Vísindi og fræði, þar sem tilgátur krefjast sönnunar, áður en menn fara að tala um "kenningar sínar" með staðhæfingum og án þekkingar á því sem áður hefur verið rannsakað, hafa færst í vöxt á Íslandi. Og það ekki aðeins í fornleifafræði. Hvaða vísindi fær t.d. íslenska lækna til að setja órannsakaða plastbarka í helsjúkt fólk í samvinnu við einhvers konar pylsugerðarmeistara frá Ítalíu?
Við sjáum þessa miklu trú á "sjálfið" er Vala Garðarsdóttir, sem ég hefði annars ekki trúað slíkri trú upp á, færir eftirfarandi rök fyrir alþjóð í sjónvarpsþætti:
"Af hverju ætti hann [Jón Grunnvíkingur] að vita að Anslaf [sic] væri konunganafn Ólafs Kvaran. Það vissi enginn á 18. öldinni."
En hvernig veit Vala Garðarsdóttir það með vissu að enginn á 18. öldinni hefði ekki sett samasemmerki á milli "Anslafs" og Ólafs Kvaran? Að heyra svona staðhæfingu er eins og römm klípa í gamlan fræðilegan afturenda minn, svo óþægileg að staðhæfingunni verður þegar að andmæla - Því ekki er nóg með að einhverjir á 18. öld hafi vitað hver ANLAV var. Aðrir vissu það líka á þeirri 17. Svo situr íslenskur fornleifafræðingur fyrir utan Þjóðminjasafnið í sjónvarpsþætti og sýnir alþjóð að hann veit ekkert.
Hitt er svo annað mál að það voru Erlendur eða Jón sem tengja ANLAV-myntir við frásöguna í Eglu á silfurkistum Egils.
Nú er svo komið að það liggur við að maður nái í góðan miðil til að komast í beint samband við Jón Ólafsson Grunnvíking. Draugur hans mun víst enn halda sig í námunda við Sívalaturn í Kaupmannahöfn. Ég lofa samt engu, en læt ykkur vita ef ég rekst á Grunnavichensis afturgenginn. Ég mun svo sannarlega reka úr honum garnirnar um þessa Anslafs-mynt sem Erlendur bróðir hans sá árið 1725 og Jón ritaði um árið 1753.
En áður en ég kemst í beint samband við Jón handan við móðuna miklu, leyfi ég mér að benda á að Jón Ólafsson og bróðir hans Erlendur, sem um tíma var með honum í Kaupmannahöfn, gætu báðir hafa séð með eigin augum, ellegar lesið um myntir úr sláttu Ólafs Kvarans með áletruninni ANLAV. Einkamyntsöfn voru til á 18. öld í Danmörku og enduðu flest þeirra í Det Kongelige Møntkabinet sem var stofnað árið 1782.
Kristján Eldjárn, okkar mikli mentor, skrifar einnig eftirminnilega í neðanmálsgrein í doktorsritgerð sinni í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, Kuml og Haugfé, um meintan fund á mynt í Mosfellsdal sem Erlendur Ólafsson frá Grunnavík var heimildamaður fyrir:
Jóni Ólafssyni eða heimildamanni hans, sem var Erlendur bróðir hans, gat verið kunnugt um frásögn [Thomas] Bartholins [hins yngra] af írskum peningum með áletruninni ANLAF CVNUNG (Antiqvitatum Danicarum libri tres. Hafniæ MDCLXXXIX, P. 464) 1689 annaðhvort beint eða af tilvitnum Páls Vídalíns til hennar (Skýringar yfir fornyrði lögbókar, Reykjavík 1849, bls. 132); [Fornleifur skýring: Páll Vídalín (1667-1727) var höfundur] Ég þakka Jakob Benediktssyni fyrir að hafa bent mér á þessi rit.
Í stað þess að trúa Egils-sögu, leyfi ég mér að benda auðtrúa íslenskum fornleifafræðingum, sem í stundaræði í sjónvarpsþætti telja sig hafa höndlað sannleikann, að lesa Kuml og Haugfé (sem á margan hátt stendur fyrir sínu).
Hér er ljósmynd af bls. 464 í 2. bók Antiqvitatum eftir Thomas Bartholin hinn yngri (þess er átti Möðruvallabókarhandrit um tíma og gaf Árna Magnússyni það). Á þessari blaðsíðu greinir frá mynt með áletruninni ANLAF CVNVNC. Þetta er auðvitað allt á latínu og kemur því ekki að miklum notum á meðal íslenskra fornleifafræðinga, sem fæstir hafa lært latínu sér til gagns. Svo engum vafa sé undirorpið og fólk haldi ekki að kerlingarbækur á 21.öld séu trúanlegri en Páll Vídalín á 18. öld eru hér opna úr bók sem hann ritaði handrit að, en það var ekki gefið út fyrr en 1849. Stækkið með því að láta músina snerta myndina og lesið um vitneskju Vídalíns, á 18. öld, neðst á bls. 132 og efst á 133.
Þar sem mér heyrðist á þættinum Fyrir alla muni, að ekki væru menn alveg með það á hreinu hver ANLAF, eða Anslafr eins og Jón Grunnvíkingur kallar nafnið á mynt sem fundist mun hafa árið 1725 og hann skrifar um árið 1753 væri, þá er hér smávegis fróðleikur: Anlaf var einnig þekktur sem Amlaíb mac Sitric og var uppi á um 927 980. Hann var að hluta til af norskum ættum og hét upp á norrænu Óláfr Sigtryggsson (hinn rauði), en hann var einnig þekktur á gelísku sem Amlaíb Cuarán, eða Óláfr Kvaran. Hann var konungur á Norðimbrulandi og í Dyflinni, þótt Egils saga telji hann konung Skota.
Því verðu einnig fyrir alla muni að bæta við að annar konungar en Ólafur Kvaran notuðu fornensku myndina af nafninu Ólafur, ANLAF, á myntum sínum, t.d. sá konungur sem á norrænu kallast Óláfr Guðrøðsson, og sem einnig hefur verið kallaður Olav Gudfrithson af enskum - og upp á írsku Amlaíb mac Gofraid. Hann var hertogi/konungur í Dyflinni 924-939.
Myntin sem Jón Grunnvíkingur segir bróður sinn hafa séð árið 1825 og sem hann skrifar um eftir minni árið 1853 gæti einnig hafa tilheyrt allt öðrum ANLAF (Anslafri) en Ólafi Kvaran hinum rauða.
Úr sláttu Ólafs Kvarans (sem líka var ANLAF) og hér fyrir neðan slátta Ólafs Guðröðarsonar.
Fróðum mönnum í Kaupmannahöfn á 18. öld, t.d. Jóni Grunnvíkingi og Páli Vídalín uppi á Íslandi, treysti ég vel til þess að hafa gert sér fulla grein fyrir því að mynt sem ber áletrunina ANLAF CVNVNG, sem Jón gæti vel hafa lesið um hjá Thomas Bartholin jr. eða jafnvel sjálfur séð, væri úr sláttu Ólafs konungs Kvarans.
Bartholin hafði á 17. öldinni þegar tengt nafnið ANLAF Dyflinnarkonungum eins og þið og Vala Garðarsdóttir getið lesið hér að ofan. Ef menn hafa getað greint Dyflinnarkonunginn ANLAF á 17. öld hefur Jón, sem umleikis hafði handritaarf Íslendinga, vitað að þar var aðeins um tvo konunga að ræða.
Vala Garðarstóttir gerir að mínu mati lítið úr vitneskju fyrri tíma manna, og það vegna eiginvankunnáttu - en hún trúir greinilega frekar ruglinu í sjálfri sér? Þess konar trú er orðin reginvandamál í íslenskri fornleifafræði.
Ég er að verða of seinn í andaglas
Æi krakkar, nú er klukkan að verða margt. Ég þarfa að fara að hlaupa. Mér var nefnilega boðið ásamt þremur gömlum kollegum í mat og andaglas til að finna eitthvað annað gamalt og sem glittir í, t.d. hið heilaga Gral, sem einnig hefur verið leitað að á Íslandi, en án árangurs.
Mig langar í glasinu í kvöld að spyrja Njál á Bergþórshvoli um nokkur smáatriði í Njáls Sögu um hann og Gunnar. Ég mun lesa í bolla vina minna að íslenskum sið og segi sömuleiðis frá því víðar að íslensk minjayfirvöld geri berdreymnum stúlkum létt fyrir að fá leyfi til að leita að óáföllnu silfri sem þær fá pata af í heiftarlegum svefnleikjum sínum með stórum Víkingum að handan.
Á meðan eiga ekta fornleifafræðingar með próf upp á skeið, sköfu og skóflu í mestu erfiðleikum með að fá leyfi til að stinga niður reku. Látið ykkur dreyma elskurnar mínar. Sweet dreams!
Og hér eru að lokum áhugaverðar upplýsingar um draumaráðningar skyldi íslenska fornleifafræðinga fara að dreyma óáfallna silfursjóði. Munið svo gamalt húsráð Framsóknarflokksins og áfallna ættingja Framsóknarmanna í öðrum flokkum: Ef fallið er á silfrið, er það ekki íslenskt. Íhaldið ætti heldur ekkert að segja neitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)