Tímasetningar "biblíuumslags" og "biblíubréfs"

Biblíufréfið

Þjóðskjalasafnið gaf í dag frá sér þessa yfirlýsingu, því safnið hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að verðmætt og margumtalað umslag, sem jafnan er kallað Biblíubréf, sé ríkiseign. Eiginlega er Biblíubréfið umslag, en Þjóðskjalasafnið telur sig hafa bréfið sem í því var undir höndum. Safnið hefur komist að þeirri niðurstöðu að umslagið hafi hugsanlega verið tekið ófrjálsri hendi.

Þessi skýrsla Þjóðskjalasafnsins stendur aðeins í hálsinum á mér og sendi ég því eftirfarandi fyrirspurn til Þjóðskjalasafni, nánar tiltekið þeirra starfsmanna sem manni var bent á að hafa samband við í tilkynningu safnsins.

Sæl verið þið Hrefna og Njörður

Ég var að hlusta á fréttir í dag í Útvarpinu og heyrði frétt um yfirlýsingu Þjóðskjalasafns varðandi Biblíubréf svokallaða, í framhaldi af þætti sem nýlega var sýndur á RÚV - sem ég hef því miður ekki séð, þar sem ekki er hægt að horfa á hann erlendis.

Ég las aftur á móti mjög vel það sem Þjóðskjalasafnið hafði til málanna að leggja. Mig langar þess vegna að spyrja, hvernig stendur á því að bréfið sem þið teljið hafa verið inni í Biblíuumslaginu er dags. 30. september 1874, en bréfið sem þið viljið tengja því er er póststimplað þann 22. október 1874.

Ef þið skoðið Alþingisbréfið (sjá hjálög mynd) er ljóst að frímerkið var stimplað 22. október 1874. Bréfið sem sérfræðingar Þjóðskjalasafns telja að hafi verið í því umslagi er dagsettu 30. september 1874.

Getið þið skýrt þessa seinkun á sendingu bréfsins sem er undirritað 30.9. 1874. Beið Landsfógeti með að senda 2. sendingu í 22 daga eða voru stimplar pósthússins í ólagi? Ja, kannski var Óli Peter Finsen póstmeistari á fylleríi.

Með góðri kveðju,

Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ritstjóri á Fornleifi https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/

Ég lofa að skýra fyrir lesendum Fornleifs, það sem Þjóðskjalasafnið skýrir út fyrir mig, um umslag sem er stimplað 22. október 1874, meðan að bréfið sem Þjóðskjalasafnið telur að hafi verið í umslaginu er frá 30. september 1874.

Kannski hafa lesendur Fornleifs góðar skýringar? Kannski er önnur Pfizer sprautan eitthvað að rugla mig í ríminu? Fjandakornið nei, það er meira hálfur mánuður síðan að ég fékk hana og ég hef ekkert fundið fyrir heilatöppum.

Viðbót 14.5. 2021

Þjóðskjalasafnið hefur vinsamlegast svarað erindi mínu:

Heill og sæll Vilhjálmur

Til að svara fyrirspurn þinni. Samkvæmt bréfadagbók sýslumannsins í Árnessýslu barst bréfið frá landfógeta dags. 30. september 1874 til sýslumannsins 30. október sama ár. Samkvæmt bréfadagbókinni virðast 28 bréf hafa borist þennan dag til sýslumanns og eru þau dagsett frá 14. september til 27. október 1874. Þessi bréf eru skráð á þrjár blaðsíður í bréfadagbók sýslumanns. Ég læt fylgja með ljósmynd af síðunni sem bréfið frá 30. september 1874 er skráð á (nr. 526) og aðra mynd þar sem betur má lesa færsluna fyrir bréfið frá 30. september 1874. Þú sérð að í dálki lengst til vinstri er móttökudagsetning bréfanna en í dálki lengst til hægri er dagsetning bréfanna. [Sjá myndir hér og hér]

Rétt er að benda á að samkvæmt athugun Þjóðskjalasafns er hið svokallaða „Biblíubréf“ ekki umslag heldur er það hluti af bréfi til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 30. september 1874 frá landfógeta. Sá hluti sem hefur verið nefndur „Biblíubréfið“ hefur verið klipptur eða skorinn af bréfi landfógeta. Venjan var að bréf voru skrifuð á sambrotnar arkir þar sem innihald bréfsins var skrifað á fremra blað arkarinnar og utanáskrift bréfsins, þ.e. nafn móttakanda, aftan á síðari hluta arkarinnar. Síðan var bréfið brotið saman á tiltekinn hátt, það innsiglað með lakki og þrykkt á það skjaldarmerki embættisins sem sendi bréfið og frímerki síðan límt á þá hlið eftir atvikum. Á bréfi landfógeta til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 30. september 1874 má enn sjá brot í bréfinu og hvernig það hefur verið brotið saman. Til samanburðar birti Þjóðskjalasafn mynd af sambærilegu bréfi frá landfógeta til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 24. október 1874 þar sem sést vel hvernig sambrot voru á þessum tíma.

Með kveðju,

Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri skjala- og upplýsingasviðs

Þjóðskjalasafn Íslands

Laugavegur 162, 105 Reykjavík

Sími 590 3300 / 590 3322

 


Bloggfærslur 12. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband