Bróðir Thors
30.5.2015 | 13:50
Thor Jensen, ættfaðir Thorsaranna, átti 11 systkini og þar af fjögur hálfsystur. Einn bróðir Thors var líka vel gefinn piltur eins og Thor og komst á spjöld sögunnar líkt og hinn framtakssami bróðir hans á Íslandi. Hann hét Alfred J. Raavad (síðar stafað Råvad; Sjá ljósmynd til vinstri). Alfred breytti eftirnafni sínu árið 1880, enda Jensen bara nafn fyrir venjulegt alþýðufólk. Alfred fæddist árið 1848 og var því töluvert eldri en Thor, sem fæddist árið 1863. Faðir þeirra var Jens Christian Jensen múrarameistari og móðir þeirra hét Andrea Louise Martens.
Alfred Jensen Raavad
Alfred starfaði í Danmörku og Bandaríkjunum (þar sem hann kallaði sig Roewade). Hann var sæmilega vel þekktur fyrir nokkrar byggingar beggja vegna Atlantsála, en sömuleiðis fyrir áhuga sinn og skrif um borgarskipulag, sem hann byrjaði að sýna áhuga í Bandaríkjunum. Hann varð t.d. fyrstur manna til að teikna skipulag Reykjavíkur, þar sem hann hugsaði sér einhvers konar Akropolis stjórnsýslunnar og "aðalsins" í Öskjuhlíðinni.
Íslenskur arkitekt, Hilmar Þór Björnsson, sem oft skrifar áhugaverðar greinar um byggingalist fyrir alþýðuna á bloggi sínu á Pressunni, hefur haldið því fram, að Alfred J. Raavad hafi aldrei notið sanngirni þegar seinni tíma menn útmældu heiður fyrir landvinninga í byggingarlist og bæjarskipulagi (sjá hér, hér og hér).
Hilmari Þór telst svo til, að Alfred J. Raavad hafi fyrstur stungið upp á fingraskipulagi stór-Kaupmannahafnar, sem löngum hefur verið kennt við Peter Bredsdorff og Steen Ejler Rasmussen og talið að þeir hafi átt heiður að því þegar þeir kynntu það árið 1947. Hilmar Þór álítur að Raavad hafi ekki notið heiðursins vegna þess að hann hafi verið gyðingahatari. Þarna held ég að Hilmari Þór förlist byggingalistin í sagnfræðiathugunum sínum, því þetta er einfaldlega ekki rétt og meinloka og óhugsuð samsæriskenning í besta lagi.
Þó svo að Alfred J. Raavad hafi verið svæsinn gyðingahatari, félagi í Foreningen til Fremmedelementers Begrænsning, sem síðar var gefið nýtt nafn (Dansker Ligaen), þá var gyðingahatur svo rótgróið í löndum Evrópu á fyrri hluta 20. aldar, þar með talið Danmörku, að lítið var eftir því tekið, nema hjá þeim sem fyrir því urðu. Íslendingar flestir geta ekki gert sér grein fyrir því hatri. Það var því ekki Raavad sem var fórnarlamb, heldur fólkið sem hann hataði.
En nú er það einu sinni svo, að gyðingar stjórna ekki ritun sögunnar í Danmörku eða almenningsáliti. Gyðingar höfðu ekki og hafa aldrei haft þau völd í Danmörku, að skipa mönnum sess í sögunni og gera minna úr verkum þeirra til að hefna haturs í garð gyðinga.
Hvaðan Hilmar Þór hefur þess þvælu, veit ég ekki. Hún sýnir frekar fordóma í garð gyðinga en vitsmunalega þanka. Vona ég svo að þessu upplýstu, að fólk sem hugsanlega enn telur Thorsaranna gyðingaættar, fari að taka sönsum, þegar þeir frétta af þessum skoðunum ættingjanna í Danmörku.
Tiltölulega nýlega birtist bók eftir Anne Sofie Bak um Gyðingahatur í Danmörku og þá fyrst var aftur farið að minnast á gyðingahatur Raavads og ýmissa annarra þekktra manna manna í Danmörku. Þess er greinilega getið í yfirlitsverkum og alfræðiritum í Danmörku að hann eigi heiðurinn eða réttara sagt hugmyndina að framtíðarskipulagi stór-Kaupmannahafnar áður en Ejler Rasmussen og Bredsdorff nýttu sér hugmyndir hans. Sá heiður hefur aldrei verið tekinn af Alfred Raavad, hvorki af gyðingum með "öll þeirra völd", né öðrum.
Þessi bygging, sem Raavad teiknaði með öðrum í Chicago, líkist engum byggingum sem hann skildi eftir sig í Kaupmannahöfn. Hún hafði heldur engin áhrif á Guðjón Samúelsson.
Teiknaði hús fyrir Íslending af gyðingaættum
Máli mínu til stuðnings verð ég að nefna 20 blaðsíðna ritling þann er Alfred birt árið 1918 og sem út var gefinn hjá Høst og Søn í röðinni Dansk-Islandsk Samfunds Smaaskrifter / 1. Bæklingurinn var tvítyngdur og kallaðist á íslensku Íslensk Húsgerðarlist (Hilmar Þór fer rangt með nafnið og kallar bæklinginn "Íslensk Húsagerðarlist") og á dönsku Islandsk Architektur. Bæklingurinn var gefinn út fyrir tilstuðlan manns af íslenskum ættum og gyðinglegum. Það var enginn annar en Aage Meyer Benedictsen (1866-1927), sem ég hef greint frá hér, hér og hér.
Aage var í móðurlegg kominn af íslenskum og dönskum kaupmönnum, en faðir hans Philip Ferdinand Meyer (1828/9 -1887) var gyðingur sem snerist til kristni og kallaði sig síðan Johan Philip Ferdinand Meyer. Meyer, sem lifði framan af tiltölulega áhyggjulausu lífi þökk sé auðlegð föður hans, byggði sér sumarhús árið 1912, sem enn stendur. Hann kallaði húsið Videvang (Víðavang), og er húsið nærri bænum Videbæk á Jótlandi og í dag í eigu austuríska milljónamæringsins og Vínarbarnsins Kurt Daell (f. 1940,hann hét upphaflega Kurt Hauptmann) síðasta eiganda Daells Varehus í Kaupmannahöfn. Uppeldisdóttir Aaage Meyer Benedictsens og konu hans Kari ól upp tvö börn frá Austurríki. Nokkrum árum eftir að húsið var byggt hafði Aaage áform um að byggja annað hús í íslenskum stíl. Hafði hann samband við Alfred J. Raavad, sem skömmu áður hafði verið á Íslandi og farið með bróður sínum til Bandaríkjanna (sjá um þá ferð hér í prýðis grein Péturs heitins Péturssonar) og voru þeir báðir Aage og Alfred félagar í Dansk Islandsk Samfund.
Meyer Benedictsen hafði í hyggju að byggja sér "Ráðmannsíbúð" með kirkju og "Klukkuhliði", sem Raavad birti teikningar af í ritlingi sínum. Meyer Benedictsen fékk einnig teikningar frá Raavad og eru þær í skjalasafni Meyer Benedictsens í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn (sjá efst og hér fyrir neðan). Því miður varð ekkert úr þeirri byggingu, og ég veit ekki af hverju, en tel sennilegt að Aage hafi skort fjármagn til þeirra.
Þegar yfirlýstur gyðingahatari eins og Alfred J. Raavad, frændi Thorsaranna á Íslandi, gat unnið með Meyer Benedictsen og öfugt, er kannski of mikið gert úr gyðingahatrinu í karlskömminni honum Alfred.
Kirkja sem Meyer Benediktsen vildi reisa. Stal Guðjón þessu frá Alfred Raavad? Ekki man ég eftir því.
Var Guðjón Samúelsson hugmyndaþjófur?
Hilmar Þór Björnsson gerið því líka skóna, að Alfred J. Raavad hafi ekki hlotið þann heiður á Íslandi sem honum bar, og telur Guðjón Samúelsson hafa leitað of fjálglega smiðju Raavads án þess að Raavad fengi neinar þakkir fyrir. Þar á meðal telur Hilmar Björn að Guðjón hafi sótt um of í smiðju Raavads og megi það t.d. sjá á teikningum Raavads að Ráðsmannsíbúðinni.
Ekki var það þá vegna þess að Raavad var gyðingahatari. Ég get vissulega samþykkt að Guðjón hefur greinilega lesið ritling Raavads um íslenska húsgerðarlist, en hvort það var meira en það, stórefa ég. Raavad byggði engin hús í "islandica stíl" með burstum og slíku í Danmörku og það þarf að rökstyðja það vel, ef einhver sér svip með húsum Guðjóns á Íslandi og húsum Raavads í Danmörku eða Bandaríkjunum. Burstahús Guðjóns svipar ekkert til tillögu Raavads að Íslandshúsi gyðingaafkomandans Meyer Benedictsens frá 1917.
Arkitektar leita svo sem oft í smiðju starfsbræðra sinna án þess að geta þess og það er mönnum oft efni í margar, langar og leiðinlegar ritgerðir (sjá hér og myndirnar hér fyrir ofan). Maðurinn er í eðli sínu hópdýr og eftirherma (kópíisti) og langt er á milli þeirra sem fá nýju og stóru hugmyndirnar, og eru þeir sjaldan spámenn í sínu heimalandi. Hvað varðar bæjarskipulag Raavads fyrir Reykjavík, er hægt að sjá að ýmsar hugmyndir Guðjóns eru komnar frá Raavad. En Guðjón setti þó sinn Akropólis á Sólavörðuholtið en ekki í Öskjuhlíðina.
Alfred var vissulega merkilegur "Thorsari" og saga hans afar áhugaverð, nema hvað hann trylltist víst (stundum) þegar hann sá og heyrði gyðinga. En það gerðu menn og gera svo margir enn. Hatrið stendur oft lengur en rammgerðustu byggingar stórra arkitekta.
Ef til vill hefur hinn mjög svo rómaði Guðjón Samúelsson einnig leitað í smiðju Alfred Jensens Raavad. En við skulum þó aldrei útiloka að menn geti fengið sömu hugdettuna.
Grein þessi byggir eins og margar greinar höfundar á rannsóknum hans í Ríkisskjalasafninu í Kaupamannahöfn. Teikningarnar Raadvads af Ráðsmannsíbúð og kirkju er að finna í einkaskjölum Aage Meyer Benedictsens. Ljósmyndin af Aage Benedictsen Meyer er frá 1909 og er í eigu háskólans í Vilnius í Litháen.
Hér má lesa meira á Fornleifi um athafnasemi Alfreds Raavads í grein sem Fornleifur kallar Auðunnir 100 Dollarar.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Gömul hús, Húsagerðarlist, "Menningararfurinn" | Breytt 12.12.2021 kl. 05:20 | Facebook
Athugasemdir
Afar fróðlegt.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 31.5.2015 kl. 13:37
Það gleður mig. Lestu líka framhaldið http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1770841/
FORNLEIFUR, 1.6.2015 kl. 06:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.