Færsluflokkur: Menning og listir

Var Sæmundur Fróði á gyðingaskóla í Þýskalandi?

Sæmundur á Selnum2

Grein þessi, sem örugglega er eftir að standa í hálsinum fræðimannaumhverfinu við Háskóla Íslands, eru viðbrögð, athugasemdir og viðbætur við merkilega og áhugaverða grein eftir prófessor við University College i London, Richard North. Greinin sem ber heitið ´Resident stranger: Sæmundr in the Ashkenaz´, mun brátt birtast í Strangers at the Gate: the (Un)welcome Movement of People and Ideas in the Medieval World, ed. by Simon C. Thomson, Leiden: Brill.  

Mynd: Kisinn á steininum er Sæmundur Séní, heimilisfress í Odda á Rangárvöllum.

Höfundur texta: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, Ph.D.

Sæmundur Sigfússon á selnum (ca. 1056-1133) ætlar víst að gerast ári víðförull áður en menn sættast á hvar hann lagði stund á fræðin sem gerðu hann svo fádæma fróðan.

Sæmundur var þó aldregi í Svartaskóla í París eins og lengi var ætlað, því Sorbonne-háskóli var ekki enn til er Sæmundur var uppi. Eftir að mönnum varð það ljóst að hann var ekki í París, eins og þjóðsögur segja, eru tilgátusmíðar um staðsetningu lærdómssetursins þar sem Sæmundur sótti nám sitt orðnar nokkuð margar og sumar ærið ævintýralegar - jafnvel hlægilegar á stundum.

Erlendir menn, bókmennta og sagnfræðingar sem þora að sökkva sér niður í fornbókmenntaarf okkar Íslendinga (sem fyrir löngu eru orðinn alþjóðlegt allramannagagn), eru oft miklu frjórri í hugsun en margir Íslendingar sem leggja stund á sömu áhugamál/fræði (nema kannski helst Ármann Jakobsson). Bæði er þetta vegna þess að menn erlendis geta jafnvel verið fróðari Íslendingum og haft langtum víðari sjóndeildarhring en landinn. Einnig hanga erlendir fræðimenn  ekki alltaf í sama farinu, líkt og sumir Íslendingar eiga til þegar þeir sýna því meiri áhuga hver ritaði söguna en hvort sagan geymdi aðrar nothæfar upplýsingar, sem miðaldaheimurinn var fullur af. Hins vegar er einnig hægt að leita of langt yfir skammt í tilgátusmíðamennskunni - og svo fara sumir menn að trúa á tilgátur sínar. Þeir hafa sumir tiltækan lofsöngskór af lærisveinum sem taka trúna á boðskapinn, sama hvað vitlaus hann er.

Leitin að skóla .þeim sem Sæmundar gekk í er eitt af þessum séríslensku átistaáhugamálum. Nú eru útlenskir fræðaþulir farnir að leyfa sér að þora að vera með - hugsanlega vegna þess að kynjafræðin getur ekki umbreytt Sæmundi í kenjótta prestsmaddömu eða eitthvert álíka absúrdítet þegar menn stunda þá fornu list að mjólka heimildir sem því miður eru ekki fyrir hendi og verða það aldrei.

Ritstjóri Fornleifs telur það þó vera fjandanum áhugaverðara að leita dauðaleit eftir nýjum upplýsingum en að kýta um hver stóru karlanna hafi skrifað bókmenntirnar. Tilgátur geta leitt af sér aðrar tilgátur og upplýsingar og þannig geta menn stundum fundið "nýjan" og betri "sannleika". Menn verða bara að varast að trúa því ekki blint sem þeir sjálfir leggja til og blanda ekki saman hýpótesu og teóríu og syntesu.

Ég hef  á Fornleifi rætt um frjó skrif ungs bókmenntafræðings sem heitir Richard Cole, sem nú kennir við háskólann í Árósum. Mér finnst gaman að lesa bókmenntafræði hans, enda maðurinn fjölfróður um annað en íslenska menningu.  Hann hefur skoðað hugsanleg, og líka óhugsanleg, áhrif gyðinglegra fræða og rita á íslenskar bókmenntir til forna. Mér hefur orðið um og ó vegna greinar hans um andgyðingleg minni sem hann telur að sé að finna í skrifum Snorra Sturlusonar. Einnig telur hann að Mökkurkálfi Snorra sé gyðingleg minni sem Snorri hefur tekið láni. Ég er hvorugu sammála, enda enginn að ætlast til þess, og færði fyrir því rök því í tveimur greinum hér á Fornleifi. Lesið þær svo ég þurfi ekki að vífilengja hér (sjá hér og hér).

Nú, maður getur auðvitað lítið gert við því að erlendir fræðimenn sjái ljós og fái hugljómun við að grúska í íslenskum fornbókmenntir. Ása-Þór er nú t.d. orðinn gay, eftir að kynjafræðiáhugafólk kastaði sér yfir hann. Ég er ekki enn búinn að skilja af hverju Þór ætti að hafa vera hýr og kann ekki formúluna að slíkri röksemdafærslu.

Nýjasta brumið í hugleiðingum um dvöl Sæmundar erlendis slær öllu við. Þær hafa verið settar fram í grein sem ekki er formlega komin út, en von er á henni. Greinin hefur, eins og áður segir, þegar verið sett út á Academia.edu sem sá um að ég fékk hana með bjöllukalli um miðja aðfararnótt annars í jólum.

Eins og flestir sem fylgst hafa með Sæmundi áður en hann og þjóðsöguselurinn strönduðu í mýrinni í  túnfæti Háskóla Íslands er tilgátuflóran um lærdómsetur það sem heimildir greina frá á Frakklandi, æði blómleg. Fyrrum og með Oddaverja annál í vinstri og þjóðsögur í hinni, töldu menn víst að hann hefði verið í Frakklandi og nánar tiltekið í háskólanum í Sorbonne. Þetta var fyrir þann tíma að heimildarýni fór að tíðkast á Íslandi. Sorbonne-háskóli eins og áður greinir ekki til á tímum Sæmundar og engir aðrar háar menntastofnanir í Parísarborg. Síðar bentu menn á, að með Frakklandi meintu menn ekki Frakkland nútímans, heldur Frankóníu eða Franken sem er landsvæði vestur af Tékklandi í Þýskalandi nútímans. Aðrir hafa, og mig grunar vegna lélegrar landafræðiþekkingar, fært það svæði aðeins úr böndunum.

Nýlátinn kaþólskur prestur og fræðimaður í Stykkishólmi, Edward Booth nafni, vildi staðsetja Sæmund í skóla í borginni Fulda í Franken, en hans fræðilega aðferð var miklu frekar "bókstafstrú" á tilgátuna um Franken í stað Frakklands, en "haldgóð" rök.

Nú hallast líklegast flest "átorítet" um Sæmund kölskaknapa á að með Frakklandi á 11. öld hafi menn átt við þær borgir sem lágu flestar við Vesturbakka Rínar, sjá staðsetningu á kortinu:

SpeyerWormsMainz

Sæmundur á meðal gyðinga í Ashkenaz? 

Hér kem ég mér svo loks að nýju greininni um Sæmund. Hana las hana fyrst fyrir nokkrum náttum, þegar fjörleg heilastarfssemi mín á stundum yfirbugaði nætursvefn og ég varð að fara framúr til að grúska eða skrifa. Kerfið í Academia.edu,(þar sem einstaklega fróðir menn setja inn eftir sig boðskap og afurðir), er svo bandsett að það lætur mann vita sérstaklega ef maður er nefndur í tilvísun í nýrri í grein. Ég er hafður fyrir því í fyrstu neðanmálsgrein hjá North, að gyðingar hafi ekki komið til Íslands fyrr en seint og síðar meir, en svo svissar höfundurinn út á eftirfarandi hátt:

While there is no evidence that the Jews reached Iceland until the seventeenth century, it may be suggested that Sæmundr inn fróði (the learned) Sigfússon (1056-1133), priest of Oddi and Iceland’s first book-learned historian, lived as a stranger among them in Germany in the 1070s.

Hér getið þið svo lesið grein Norths ef þið viljið fræðast.

Greinin ber titilinn Resident stranger: Sæmundr in the Ashkenaz. Í stuttu máli telur Richard North prófessor við University College í London sig leiða góð rök að því að Sæmundur hafi ekki verið í neinum venjulegum klausturskóla. Hann telur líklegra að hann hafi verið á gyðinglegu fræðasetri í borg við ána Rín þar sem hún rennur gegnum Þýskaland í dag. Skólar við samkunduhús gyðinga voru kallaðar jeshivur (yeshiva þýðir seta á íslensku; staður það sem maður situr við lærdóm). North telur, út frá því  fá sem við vitum um Sæmund úr síðari heimildum en löngu týnd rit hans,   aðeins til tvö atriði sem gæti bent til þess að Sæmundur hafi verið nemandi gyðings sem var meistara við gyðinglega skóla. Annars vega er það fjöldi beina í líkamanum, sem kemur fram í heimildum sem vitna í rit Sæmundar sem ekki eru til. Richard North ályktar að þar sem fjöldi beina mannslíkamanas í þessum íslensku heimildu kemst næst fjölda beina í trúarritum gyðinga, að þá sé líklegt að hann hafi lært í gyðinglegu umhverfi. Reyndar bendir hann á að sami fjöldi beina sem menn hafa eftir Sæmundi sé einnig þekktur úr síðari tíma heimildum sem vel gætu hafa verið þekktar á Íslandi.

Hitt atriðið sem Richard North telur benda til þess að Sæmundur hafi stúderað á meðal gyðinga, er frásögnin í Jóns sögu Hólabyskups ens helga um að Sæmundur hafi eftir ca. 10 ára dvöl sína erlendis fyrir 1078-79 misst niður móðurmálið og ekki lengur munað hvað skírnarnafn sitt, íslenskt, var. Sæmundur sagði Jóni Ögmundssyni (síðar Jóni biskup helgi) er Jón heimsótti Sæmund, að hann héti Kollur

Í lok greinar Richard North, sem ráðfært hefur sig við sérfræðinga í gyðinglegum fræðum, sem er alltént betra en að að nota aðeins argumenta e silentio sem margir íslendingar eru reyndar heimsmeistarar í, veltir hann út þeirri tilgátu að Kollur sé íslensk  "afmyndun" á hebreska orðinu kol (sem þýðir allt). North telur ungan mann, sem að sögn hafði misst niður móðurmál sitt, hafi verið kallaður "kol" af skólafélögum og  sínum og lærimeistara sínum; og að hann hafi kallað sig Koll (kollur í nefnifalli) er Jón Ögmundsson spurði hann til nafns. Jú, þetta gerist oft þegar höfundur eru orðnir bálskotnir í tilgátu sinni. Af hverju? North skýrir:

KolCould Kollr, Sæmundr’s new name which is open to so many interpretations, be derived from Hebrew kol [all], for the student of the bible who wanted to know everything? The rest is universal history.

Með lærdómi sínum um stjörnur og galdra braut Sæmundur samning sinn við meistara sinn (sem því miður er ekki nefndur á nafn), og þeir Jón komust til Íslands. 

Ekki er hér ætlunin að afskrifa tilgátu Richards North, þó hún færi okkur vart meira en fyrri tilgátur um Sæmund Fróða. Þó kol á hebresku þýði  allt, er kol ekki þekkt sem gælunafn fyrir fólk sem var sólgið í fræði og grúsk. Lexikonheilar og grúskarar af guðs náð eru ekki "kol" eða "kollar" þótt  kunningjar Richards North við Kings College í Lundúnum teljir að kollur hljómi eins og kol (allt) á hebresku. En maður sem misst hafði móðurmálið hefur vafalaust átt erfitt með því að ræða við Jón Ögmundsson og útskýra fyrir honum nýtt nafn sitt, nema að hann hafi gert það á Latínu. En þá má með réttu spyrja: Var latína  kennd í mörgum skólum gyðinga? Að illir nauðsyn hafa vel menntaðir gyðingar örugglega lært, eða réttara sagt þurft að lesa latínu. Latínu þurftu gyðingar sem aðrir að kunna til að standa í samskiptum við lærða sem leika, og þar sem afskipti yfirvalda voru alltaf mikil af gyðingum, hljóta þeir að hafa móttekið feiknin öll af opinberum bréfum á latínu, þegar þeim voru veitt leyfi til dvalar eða þegar þeir voru hraktir á braut eftir duttlungum latínulærðra.

Athugasemdir og viðbætur

Hér leyfi ég mér að benda Richard North, höfundi greinarinnar sem vitnar í mig í fyrstu tilvitnum, á frekari vísdóm. Vona ég að hann deili þessum fróðleiksmolum með prófessor Sacha Stern og júdaistanum Israel Stern á University College, sem og handritafræðingnum Stewart Brookes á Kings College, sem hjálpuðu honum með gyðinglegar skýringar í hluta greinarinnar.

Orðið kol á hebresku (sem = allt á íslensku) er ekki það eina sem hægt er að tengja Kollsnafni Sæmundar.

I) KOLONYMOS: Margar kynslóðir rabbína sem störfuðu í borgunum  Mainz (sem í íslenskum heimildum var kölluð Meginsoborg (Lat. Mogontiagum), Worms og síðar Speyer (í Speyer var reyndar var ekki komin nein sýnagóga meðan að Sæmundur var þar hugsanlega við nám) báru hið gríska nafn Kolonymos (sem á íslensku þýðir hið Shem tovsanna nafn - og sem er grísk þýðing á shem tov á hebresku). Ætt þessi með hið hellenska nafn kom að því að best er vitað frá Lucca á Ítalíu og sumir upphaflega frá því svæði sem nú heitir Gaza. Löngum voru nemendur (sem kallaðir voru bochurs/Buchers á jiddísku sem þróaðist á þessum slóðum í Þýskalandi) við trúarlega skóla gyðinga, jeshivur (Flt. Heb.: Jeshivot)  kenndir við lærimeistara sína eða ættir þeirra sem stofnuðu skóla þeirra sem oft báru nöfn ættarinnar.  Hallast maður frekar að bæjum við Rín frekar en kaþólska strangtrúarskóla í Fulda er nafn Sæmundar í náminu, Kollur, gæti alveg eins verið leitt af fyrst liðnum í nafni Kolonymos ættarinnar (sem einnig má bera fram sem kal) og verið bein vísun til að Kollur gengi á jeshivu einhvers Kolonymos/Kolonomus prestanna. Þetta er vitaskuld bara tilgáta mín, en engu fráleitari en að kol í Kollur sé allt á hebresku.

Kalonymus_house_pillar

Afsteypa af skreyti sem talið er hafa verið í húsi Kolonymos ættarinnar í Mainz.

II) KOLLEL: Hugsanlega hafa fullveðja menn, sem Sæmundur var líklegast orðinn, þegar hann hverfur frá námi og skilgreinir sig sem Koll er Jón Ögmundsson vitjar hans, vart lengur ver ungnemandi á jeshivu. Þá hefur hann verið orðinn hluti af Kollel Kollel(ísl: samkunda) sem var jeshiva fyrir fullorðna fræðaþuli eða kvænta menn. Þar lærðu (lernuðu svo notuð sé ís-jíddíska) menn dagana langa og unnu lítt annað þar fyrir utan. Þeir voru í fullu fræðastarfi. Ég veit sannast sagna ekki hvort Kollel voru til á tímum Sæmundar en tel það þó líklegt. Koller er þekkt eftirnafn meðal gyðinga og er vart dregið af Kohler, kolanámu eða kolagerðamanninum á þýsku, heldur af Kollel á hebresku. Koller var maður sem stundaði trúfræði á háu stigi á Kollel. Kannski leysir þetta kollgátuna?

III STJÖRNUSPEKI: Annað sem Richard North láist að minnast á í rannsókn sinni á því hrafli sem þrátt fyrir allt er til um Sæmund í síðari heimildum og þjóðsögum, er þekking Sæmundar á stjörnum og stjörnufræði. Stjörnufræði voru stunduð af sefardískum rabbínum (frá Spáni og Norður-Afríku) sem farnir voru að kenna á fræðasetrum í Vestur-Ashkenaz þessa tíma sem Sæmundur var uppi á, þ.e.a.s. í Þýskalandi og austasta hluta Nútíma-Frakklands, t.d. í Strasbourg þar sem gyðingleg búseta mun hafa hafist um 1000. Astrolabium (pl. Astrolabia; Isl. Stjörnudiskar/Stjörnuskífur) sem margir gyðingar í Spáni og í Portúgal voru meistarar í að smíða bárust til Frakklands og Rínardals og elstu byggða gyðinga þar. Kennsla í stjörnufræði var hins vegar harla ólíkleg austur í Fuldu þar sem séra Edward Booth vildi staðsetja Sæmund í náminu. Heimildir frá Fuldu geyma hins vegar ekkert bitastætt um kennslu í stjörnuspeki.

Psalterium-Ibn-Ezra

Hér sjáið þið síðu úr saltara Blönku eða Mjallar (Sp. Blanca) af Castilíu og Loðvíks IX. Handritið er frá því um 1220. Á lýsingunni í saltaranum má sjá fjölfræðinginn  Abraham ben Ezra (1092-1167), útbúa samning með hjálp stjörnuskífu (Astrolabium) við tvo munka sem hafa rakað koll sinn (krúnu, Lat. Tonsura) meðan gyðingurinn ben Ezra ber kollhúfu. Abraham Ben Ezra var flæmdur frá Spáni árið 1140 og lifði alla ævi flökkulífi í Norður-Afríku, Palestínu, Sýrlandi, Ítalíu og á Englandi. Frá Englandi fór hann til Rúðuborgar í Normandí, áður en en hann settist að í ellinni í Suður-Frakklandi. Meðal margra rita hans um hin ólíklegustu málefni var handrit sem síðar hefur verið nefnt  Keli ha-Nechoshet (bókstaflega á ísl: ritgerð um koparinn) og gerð stjörnuskífunnar. Ritið var snemma þýtt yfir á latínu. Ekki er ólíklegt að menn sem lærðu á stjörnur í skóla líkt og Sæmundur mun hafa gert samkvæmt varðveittum upplýsingum, hafi lært á stað þar sem kennd var notkun stjörnuskífunnar. Það gerðist helst hjá gyðingum búsettum við Rín og miklu frekar þar en hjá þeim sem bjuggu norðan og austan við Rín eða austar í Evrópu, sem fyrst og fremst voru uppteknir að trúarlegum vangaveltum, en síður stjörnuspeki.

1200px-Synagoge_Worms-4125

Mikveh i Worms (efst) og neðst í Speyer

speyer-mikwe-treppe-innenportal-ca-1920er

Lokaorð

Með þessum viðbótum mínum finnst mér grein Richards North um Sæmund í Ashkenaz ekkert vitlausari en svo margt annað sem ritað hefur verið um Sæmund Fróða. Það er að minnsta kosti gaman að greininni og hver veit, kannski var Sæmi á ungur fræðimaður (koller) á kollel (háskóla) í Mainz? Það er svo gaman að láta sig dreyma. En varast ber að trúa því öllu.

Við endum í gamansömum tón, því fyrrnefndur fróðleikur er allt fúlasta alvara; Nú býst maður við því að Steinunn Kristjánsdóttir eða einhver annar fornleifafræðingur sem grefur prufuholur út um allt, fari næsta sumar að Odda og finni þar algjörlega óáfallið astrolabium, tefillin Sæmundar og jafnvel bút af lögmálsrúllu hans.

Líklegt má einnig teljast að hellirinn sem byrjað var að rannsaka í Odda árið 2018 geymi mikveh (trúarlegt bað, laug) Sæmundar. Sæmundur hefur ekki lagt í að grafa sig lengra niður að grunnvatni eins og menn gerðu við böðin (hreinsunarlaugarnar) í Speyer, Worms, Köln og Friedberg (frá 13. öld; Friedberg liggur norðaustur af Frankfurt am Main). Um böðin skrifaði ég m.a. um í ritgerð um guðshús gyðinga á miðöldum (1986) sem var síðasta ritgerðin mín sem ég skrifaði um leið og ég vann með kandídatsritgerðina. En á þeim tíma datt manni sannast sagna ekki í hug að velta fyrir sér Sæmundi Fróða á vesturbakka Rínar. En eitt sinn fór hann yfir Rín og alla leið heim til sín.

Koller

Marx Brider: Oy vey, Koller der shlemyel iz antlafn.

Vau?

Tsu Iseland, aoyf di tsurik fun a groys treife fish.


Haraldsslátta - og fyrsta íslenska verkfallið

Væringjalenín

Efni þessarar greinar er fyrsta verkfall Íslendings sem skráð er á bókfell. Greinin er í pólitískari endanum.

Verkfall var eitt sinn vopn þeirra sem voru láglaunaðir til að verja kjör sín og bæta og verjast því að á rétti þeirra væri troðið. En í dag er svo komið að hálaunamenn misnota almennan verkfallsrétt til að hækka laun sín úr öllu valdi. Það er náttúrulega ekki verkalýðsbarátta, heldur hin gamla íslenska græðgi þeirra sem þegar hafa nóg.

Ef einhver nennir að lesa verkalýðssöguna hér fyrir neðan, komist þið að því hvernig tvær fornar myntir og fornleifarannsókn tengjast fyrsta verfalli Íslendings óbeint - en á áhugaverðan hátt. 

Á hinum fyrsta, glaða og jafnvel fáránlega áratug þessarar aldar voru umsvifin mikil á Íslandi. Sumir íslendingar ímynduðu sér að þeir ættu orðið afar mikilvægu hlutverki að gegna á meðal þjóðanna. Ísland fór í gegnum hybris-tímabil, sem ein af afleiðingum eyjaþjóða-háttarlags og oft á tíðum hálfhjákátlegrar þjóðhverfu, sem einnig á um margt skylt við minnimáttarkennd.

Höfði House, norsk bygging í iðu dekkjaverkstæða og raftækjaverslana í Borgartúni í Reykjavík, hafði nokkrum árum fyrr verið lánað út undir mikilvægan lykilfund heimsstjórnmálanna. Þar með virtist tími skuttogara, dorgs og hraðfrystihús vera liðinn í takt við að veggur í Berlín var rifinn. Á Íslandi voru svín tekin í heilagra dýra tölu í stað sauðkindarinnar.

Íslenska þjóðfélagið hafði einnig verið tölvuvætt. Allt þetta venjulega varð vitaóarðbær, t.d. gamalt fólk, sér í laga það gagnrýna. Það var bara fyrir. Nýr aðall á Íslandi hagaði sér eins og kóngar og prinsessur - en þetta voru hrappar eins og við vitum nú öll, og þessi frásögn fjallar einmitt líka um konunglega hrappa og hvernig Íslendingar tóku þá í karphúsið.

Fornleifarannsóknir á fyrirhrunsárum

Því sem ég segi nú frá, gerðist á þeim tímum er sumir töldu peninga vaxa á trjám á Íslandi og bankaræningjar riðu sem hetjur um héruð og fóru í Víking í löndum þar sem fólk þyrsti eftir að láta pretta sig. Í þá daga var einnig þjösnast upp á hálendið til að grafa upp einhverjar fornleifar sem voru fyrir mikilvægum virkjunarframkvæmdum. Nógir peningar voru til alls. Nú átti að selja rafmagn til Evrópu gegnum óskhyggjuleiðslur eða hreinan þankaflutning. Fornleifafræðingar flógu feitan gölt á þessum uppgangstímum ímyndunarveikinnar á Íslandi. En þeir eru eins og kunnugt er afar látlaust og lítillátt fólk.

 

124699054_10158550191490967_6910451342396712910_o

Frá rannsókn FÍ á seljarústinni "Pálstóftum". Ljósm. Fornleifastofnun Íslands á FB. Þröngt hefa menn setið í seli.

Forn seljarúst uppi á heiði, sem annars hefði farið á bólakaf í uppistöðulóni Kárahnjúkavirkjunnar, var meðal þess sem tókst að rannsaka sökum beljandi uppgangs og blindrar bjartsýni í þjóðfélaginu. Seljarústin sýndi okkur vita óarðbæran rekstur fyrri alda í mæðu, móðuharðindum, riðu og ráðaleysi. En nú voru nýir tímar. Mistök fyrri alda átti að grafa úr moldu, svo þau yrðu ekki endurtekin.

Gildismatið var hins vegar ekki eins gott og vísustu menn töldu sig hafa fyrir séð. Allt fór loks í harðlífi og kút árið 2008. Sumir hafa þegar gleymt því eða troðið því neðst niður í undirmeðvitundina.

Á hinum hryllilegu árum, eftir allan uppganginn og svo hrunið, fóru sumir menn að berja á eldhúsáhöld í örvilnan sinni - en þeir sem valdið höfðu fárinu lögðu bara ný plön fyrir áframhaldandi prettum og fúski eins og erfðamengi þeirra hafði valið þeim að gera. Í  ónáttúrulegu vali manngerðarinnar homo fraudationis, sem hefur komist til mikilla metorða á Íslandi, gerjast alltaf eitthvað í pottinum.

Fornleifastofnun Íslands (FÍ) heitir fyrirtæki eitt úti í bæ. Þrátt fyrir hið mikilfenglega nafn, sem leiðir hugann um veglega og gljápússaða ganga í háskólabyggingu sem ber nafn Kristjáns Eldjárns, er FÍ hvorki háskóla- né ríkisstofnun. FÍ dafnaði vel á velmektarárunum fyrir hið andlega hrun þjóðarinnar árið 2008.

Fyrirtækið vann meðal annars útboðið á rannsókn á seljarústunum sem kallaðar er Pálstóftir í hausinn á Páli Pálssyni í Aðaldal, sem upphaflega hafði fundið rústina. Rannsóknir fóru fram árið 2004 og 2005 og rústin fékk nýtt vinnuheiti ættað úr tölvufræði sem hefur haslað sér völl í fornleifafræðinni á heldur furðulegan hátt. Grafin var upp "útstöðin" Pálstóftir. Nú, á hinum miklu framgangstímum var ekki lengur hægt að tala um eins skammarlegt fyrirbæri og útnorskt eins og sel. Mörgum varð reyndar ekki um sel er það gerðist.

FÍ heldur um þessa mundir upp á 25 ára starfsafmæli sitt, með rekstri sem það getur mest megnis þakkað opinberu fjármagni. "Einkavæðing" fornleifafræðinnar var hugsanlega nauðsynleg, til að koma henni úr ládeyðu þeirri sem ríkti meðan öll fornleifasýsla í landinu fór í gegnum í hæsta lagi tvo starfsmenn fornleifadeildar Þjóðminjasafns -  og síðar líka gegnum vitstola kerfi Þjóðminjaráðs og Fornleifanefndar, sem mest stóðu í því að reyna að ryðja ládeyðunum burt af Þjóðminjasafninu. Þetta var auðvitað allt áður en eldhuginn sem nú stjórnar Þjóðminjasafninu til sögunnar og framkvæmdastjóri Minjastofnunar eldaði grátt silfur við Fornleifastofnun Íslands. Varð oft af þessu mikil skemmtun, en í raun er öll þessi saga meinasorgleg.

En ekki vil ég útiloka að það væri betra að láta lítil fyrirtæki berjast fyrir því sem gera þurfti, en aldrei gerðist, vegna þess að Þjóðminjavörður var ódugandi, ráðuneytið skilningssljótt og stjórnmálamenn eins og álfar út úr hól eða á Klausturbar.

Versta hlið einkavæðingarinnar á uppgangstímunum var náið samstarf FÍ og annarra aðila við ráðríkan prófessor í New York, sem vildi hafa Ísland sem sitt eigið konungdæmi til að grafa upp dýrabein í öskuhaugum, og oftast í leyfisleysi. Stórkaninn (sem var eins konar homo trumpensis) reyndi leynt og ljóst að bola öðrum soltnum löndum sínum frá fjármagni til Íslandsrannsókna, sem hann mjólkaði einn í BNA, meðan að leppmenn hans á Íslandi hjá einkafyrirtæki með ríkisnafn mjólkuðu íslenska ríkiskassann í boði vinalegra ráðherra.

Til að halda upp á afmælið sitt, hefur FÍ birt nokkra pistla á Fjasbók sinni, þar sem greint er frá sumum merkum rannsóknum fyrirtækisins. Nú um daginn var röðin komin af útstöðinni Pálstóftum og var fróðleiksfúsum lesendum sagt, hvar þeir gætu fengið betri upplýsingar um rannsóknina.

Haraldsslátta og Íslendingurinn Halldór Snorrason

Það kom mér mjög á óvart, að síðan ég las grein um rannsóknirnar á Pálstóftum í Árbók hins íslenska Fornleifafélags (sjá hér), hafði vitneskjan og andlegi auðurinn úr jörðinni ekkert ávaxtast. Ekki virðist hafa verið leitast eftir því að verða vísari um það sem fundist hafði.

Þrátt fyrir heldur ófjölbreytta forngripaflóru, sem er víst tilfellið í mörgum seljarústum þar sem búseta var tímabundin í skamman tíma í senn, þá hefur ekkert meira verið ritað um tvær myntir sem í norskri og íslenskri tímaritsgrein var nefnd til sögunnar sem koparmynt frá tímum Haraldar Harðráða Noregskonungs sem ríkti frá 1047 til 1066.

Haraldur ætlaði í stríð við Vilhjálm Hróbjartsson fursta frá Normandí, en mátti í óðagoti sínu láta lífið í orrustunni við Stamford Bridge. Normannarnir voru einfaldlega sterkari en frændur þeirra Norðmenn. Í grein í Norwegian Archaeological Review, sem þýdd var yfir á íslensku í Árbókinni, sást engin viðleitni til þess að skilja eða hvað þá velta því fyrir sér hverju það sætti, að tvær myntir úr myntsláttu sama Noregskonungs fundust í seljarúst á afdölum Íslands. Reyndar er minnst örlítið á myntirnar tvær frá Pálstóftum í þessari B.A. ritgerð við HÍ. Ritgerðin gefur ágætt yfirlit.

Ég er ekki að biðja um að menn skáldi eitthvað þegar þeir sigla lens í fræðunum, eins og þegar menn fóru að trúa því að þeir hefðu fundið eskimóakonur austur á landi og austurlenska Allah-perla á Stöðvarfirði eins og margfrægt er orðið. Það er skáldskapur og allt önnur grein en fornleifafræði.

En þar sem myntirnar fundust austur á landi, hlaut að vera einhver merkileg saga á bak við þá, eða í það minnsta tengd þeim. Og fornleifafræðin er oftast lyginni sterkari. Það er fræðigrein þar sem menn þurfa eigi að stunda lygafréttir til að komast af. En fornleifafræðin á Íslandi hefur nú líka frekar verið framkvæmdarsýsla en fræðimennska í nokkra áratugi. Ég sendi Fornleifastofnun reikninginn fyrir fræðilega greiningu.

124766237_10158550191300967_100622818716712415_n

Myntirnar tvær í "Pálstóftum" hafa verið boraðar tveimur götum og þræddar upp á sörvisband (perlufesti), sem sumir seljadrengirnir skörtuðu líklega við mjaltir í kvíum. Þær teljast til mynta með skreyti sem ber gríska heiti fléttunnar/hnútsins sem skreytir þá, þ.e. Triquetra (Triquetra-gerð). Triquetra táknaði um miðja 11. öld heilaga þrenningu enda konungar þeir sem notuðu það kristnir. Skreytið kemur fyrr fyrir á dönskum og Engilsaxneskum myntum. Þessar myntir eru afar sjaldgæf gerð (skreyti) og árið 1975 höfðu aðeins fundist 257. En myntina er þó hægt að kalla grunninn að fyrsta myntkerfi Noregs. Sérlega sjalfundnar eru þeir peningar með þrífléttunni sem Haraldur Harðráði lét slá og sem hafa hring sleginn í fyrsta fjórðunginn (efst til vinstri) á bakhliðinni.  Norski myntsérfræðingur Kolbjørn Skaare  kallar þá gerð 75/R89. Vegna þess að þessi slátta Haralds innihélt stundum meiri kopar en silfur var ekki mikið lagt í sláttuna og stundum var textinn sem upphaflega var á latínu og jafnvel á norsku með rúnum orðið ólæsilegt hrafl eins og tilfellið er með myntirnar sem fundust í Pálstóftum. Þetta var svo sannarlega álkróna síns tíma. Ljósm. Fornleifastofnun Íslands.

Myntir geta sagt mikla sögu, fyrir utan að gefa góða hugmynd um að búsetalög, sem þær finnast í og við, séu ekki mikið eldri en myntin (ef hún hefur ekki fallið niður um rifu í gólfi). Þessi regla á kannski ekki við um myntir sem finnast í seljarústum. Ekki held ég að myntir hafi oft fundist við seljarannsóknir eða í "sætrunum" í Noregi. Hvað áttu menn svo sem að gera við peninga í seljum. Þeir sem þar unnu voru hálfgerðir þrælar eða á neðsta þrepi í launastiganum.

Starfsmenn FÍ nýttu sér ekki myntirnar og leitaði yfirmaður rannsóknarinnar, sem nú er prófessor við HÍ, ekki til þess mynt"sérfræðings" sem oftast hefur verið leitað til, Antons Holt fyrrv. safnstjóra Seðlabankans. Nei, í rauninni var lesandanum í sjálfvald sett að velta fyrir sér myntunum alveg einir og óstuddir. Það getur vitaskuld verið varasamt, ef maður er ekki fornleifafræðingur. Fornleifafræðingurinn sem stjórnaði rannsókninni var greinilega ekki vel að sér í fornleifafræði Norðurlanda, enda aðfluttur frá Bretlandseyjum. Ef hann hefði haft lágmarkskunnáttu á myntfræði Norðurlanda (sem fornleifafræðingar á Norðurlöndum eru ekki einu sinni sjálfir), hefði hann uppgötvað ýmislegt, sem gert hefði niðurstöðurnar fyllilegri og skilað meiru frá Fornleifastofnun Íslands til þjóðarinnar sem borgaði fyrir rannsóknina - svo atvinnuvegirnir og sala á rafmagni mætti blómgast í gylltri framtíð fyrirmyndaríkisins Íslands, þar sem bankar möluðuð gull úr lofti líkt og áburðarverksmiðjur.

Myntirnar tvær sem fundust í rústum Pálstófta eru úr svo kallaðri Haraldssláttu. Haraldsslátta var, eins og fyrr segir, slátta Haralds harðráða Noregskonungs, og er sláttunnar og annmörkum hennar rækilega getið í Sögu Haralds Harðráða sem sumir telja að Snorri Sturluson hafi ritað. Elsta varðveitta handritið er í Morkinskinnu frá 1275-1300 (GKS[Gammel Kongelig Samling]-1009 fol.; Handritið er enn í Kongunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn).

Mig grunar, að Haraldur kóngur (hinn þriðji) hafi verið ættingi og jafnvel forfaðir sumra útrásarvíkinga Íslands á 21. öld. Hann var að minnsta kosti með sömu brenglaða siðferðið og þeir. Hvort veldur uppeldi eða erfðir veit ég ekki. Hann þynnti kaupsilfur sitt með kopar. Það hefur aldrei verið talið efnilegt. Hann var því  svikahrappur og þessi málmblanda hans var ekkert annað en verðbólguskapandi aðgerð, sem ekki var algeng annars staðar í Vestur-Evrópu á hans tíma. Þessi meðferð á silfrinu fór líka í skapið á íslenskum hirðmanni hans, sem var forfaðir ritstjórans á Fornleifi. Silfrið í sláttu Haralds harðráða Sigurðssonar gat farið alveg niður í 50% eða minna. Á tímum, þegar nóg var til að silfri og koparpeningar ekki talin gangmynt var þessi þynning konungs afar einkennileg aðgerð til að pretta menn, enda var myntin ekki gjaldgeng annars staðar en í Noregi.

Í Sögu Haralds Harðráða og Sona Hans (hér höfð með smávægilegum leiðréttingum eftir útgefu Finns Jónssonar: Finnur Jónsson (1932) Morkinskinna; udgivet for Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur LIII. J. Jørgensen, Kbh, greinir frá Íslendingi einum, Halldóri Snorrasyni í Hjarðarholti (f. ca 1014), sem var liðsmaður Haraldar Sigurðssonar, er þeir voru væringjar, leiguliðar í lífverði keisarans í Miklagarði. Sagan segir frá óánægju Halldórs vegna lélegs silfurs sem Haraldur borgaði mönnum sínum með:

Oc er cømur enn atti dagr iola var monnum gefinn mali. Það var callat Harallz slatta. var meiri lutr copars. Þat bezta costi at veri helmings silfr, oc er Halldorr toc malann. hefi hann i mauttuls skavti sino silfrit ok litr á. oc syniz eigi scirt mala silfrið. lystr vndir neþan annaRi heNndi. oc feR þat allt i halm niðr. Barþr melti. q[aþ] hann illa meþ fara, mon konvngr þicciaz svivirðr i. oc leitað a við hann vm malagjofna. Ecki ma nv fara at slico s[egir] H [alldor]. litlo hettir nv til. Nv er fra þvi sagt at þeir bva scip sin eptir iolin. etlar konvngr svþr fyr land. oc er konvungr var mioc sva bvuinn. þa biosc H. ecki. oc melti Barþr. hvi bystv eigi Halldorr. Eigi vil ec s[agði] hann. oc ecki etla ec at fara, se ec nv at konvngr þoccar ekki mitt mal. Barþr s[egir] Hann mon þo at visu vilia at þv farir. Fer Barðr siðan oc hittir konvung, segir honum at Halldorr bysc ecki. mattv sva etla at vandskipaðr mon þer vera stafniN i stað hans. Konvngr melti. Seg honom at ec etla at ham scyli mer fylgia. oc þetta er ecki alogat feþ sia er með ocr er vm hriþ. Barðr hittr Halldor oc letr at konvngr vili enski costar lata hans þionosto. oc það rezc or at Halldorr feR. ...

En áfram hélst óánægja Halldórs, því fyrir utan nánasahátt Noregskonungs voru einnig þjóðernisfordómar í gangi á 11. öld. Þegar konungur hafði brotið frekar á Halldóri setti drengurinn Dóri önnur skilyrði:

H[ann]. s[agþi]. Eigi scal ec þo optaR vera a konvngs scipino. oc ef hann vill hafa mitt foroneyti lengr. Þa vil ec hafa scip til stiornar oc eignz þat. B[arþr]. s[agþi]. Þat samir eigi at lendir menn lati scip sin fire þer. oc ertv of framgiarnn. H.[alldorr] quaz eigi fara myndo elligar. Barðr s[agþi] konvngi hvers beitt er af Halldors hendi, oc ef hasetar þess skips eo jafntravstir sem styrimaþr þa mon vel hlvþa. Konvngr melti. Þott þetta þicci framala melt vera. þa scal þo af nacqvat gera.

Sannarlega var Halldór þessi forfarði ritstjórans hér á Fornleifi, og er greint frá því í nútímauppflettinu Íslendingabók. Trúi hver sem trúa vill, en ég er samkvæmt hinni mjög nákvæmu ættfræðiskrá (sem einnig var afsprengi fyrirhrunsæðisins), afkvæmi Halldórs Snorrasonar í 26. lið - enda jafn helvíti þrjóskur og þver og karlinn. 

En svikahrappar halda ávallt uppi uppteknum hætti, þannig að Halldór, sem var kannski ekki launþegi í nútímamynd orðsins, efldist allur í launabaráttunni gegn Noregskonungi. Í gildi miklu í Niðarósi var Halldór meðal gesta konungs. Hann sletti þessu í kóngsa við tækifæri:

... oc se ec at drotning [innskot Fornleifs: Ellisif Elisheva/Elísabet Jaróslavsdóttir] hefir hring ahendi þvi hofi mikinn. fa mer þann. Konvngr s. Þa verþvm vit fara eptir scalvm oc vega hringiN. Ecki þarf þess s. H. tec ec hann fyr lvt minn enda montv nv ecki prettonom viþ coma at sinni. oc sel fram titt. Trotning melti. Ser þv eigi s. hon. at hann stendr ifr. þer vppi meþ vighvg. tecr siþan hringinn og fer Halldori. Hann tecr við oc þaccar þeim baþom gialldit. oc bidr þar vel lifa. oc mono ver nv scilia. gengr nv vt oc melti við foronavta sina. biþr þa hlavpa sem tþast til scipsins. þvi at ofuss em ec atcveliaz lengi ibønum. Þeir gera sva. coma a scipit. og þegar inda svmir upp seg. svmir ero at bati. svmir heimta vpp aceri. oc bergsc hveR sem ma. oc er þeir sigldo vt scorti eigi hornnblastr i bønum. oc það sa þeir siðarst at .iii. langscip voru a floti. oc logþo eptir þeim. en þo beR þa vundan oc ihaf. scilr þar meþ þeim oc byrjaþi H. vel vt til Islanz. en konvungs menn hvorfo aptr. er þeir sa er Halldor bar vndan oc i haf vt. Nocorom svmrom siþar sendi Haralldr konvngr orþ Halldori. Snorra s[agði]. at haN scylldi raþas enn til hans. oc let at eigi scylldi verit hafa hans virþing meire en þa ef hann villdi farit hafa. En HalldoR quaz ecki nv myndo fara akonvngs fvnd heþan i fra. oc mondi nv hafa hvaR sem fengit hefþi. oc se ek gorla s.[agði] hann at þar etlar hann mer galga. ef ec køm. oc kan ec scaplyndi hans. oc mvn ec ecki trva honum. Oc er aleiþ mioc efi Harallz konvngs. þa er sagt at  [hann] seNdi Halldori orþ til að hann scylldi senda honum melracka belgi. villdi ger af þeim ifir recio sina. þvi at konvngr þottiz þa þurfa hlys. oc er Halldori com sia orðsending konvngs. þa er sat at hann scyti þvi orþi viþ i fyrstto. elldisc argalin [árgalinn/haninn] nv saþi hann en sendi honum belgi.

 

Savnet fra Bergen

Armhringur þessi (úr gulli) var meðal fleiri hundruða gripa sem rænt var á forngripasafninu í Bergen fyrir nokkrum árum síðan. Mikill hluti gripanna er kominn í leitirnar, en enn hafa menn ekki haft upp á þessum hring, sem gæti hafa verið eittvað í stíl við það sem Ellisif Jaróslavsdóttir úr Kænugarði bar og forfaðir minn hrifsaði með sér til Íslands og þóttist þá kvittur við kóng.

Svona lagað er auðvitað ekki hægt að gera lengur, enda eru sumir launþegar á Íslandi farnir að leika hlutverk konungsins.

Hvort refabelgirnir hafi verið fyrir rekkju konungs eða í kápu mikla á rússneska kerlingu hans, læt ég ósagt, en gamli konungurinn hafði greinilega tak á Halldóri sem líklegast hefur ekkert fengið fyrir sinn snúð fyrir láfætlur og skaufhalana, nema að Snorri Sturluson sé að ljúga þessu öllu.  

 

Hvað sýnir sagan og myntirnar í Pálstóftum okkur?

Myntslátta svikahrappsins Haralds Harðráða, og sagan sem sögð var um sláttuna snemma á 13. öld, sýnir okkur hve nauðsynlegt það er að svara fullum hálsi illa siðuðu fyrirmönnum og yfirmönnum, sem hafa ofmetnast, þannig að þeir telja valdsvið sitt og gerðir hafin yfir alla gagnrýni. Hrappsháttur er til í öllum þjóðfélagsstigum, og manngerðin sem hana ber kemur alltaf fljótt upp um sjálfa sig.

Halldór Snorrason var hins vegar ekki hinn dæmigerði launþegi. Hann var í austurvíkingi með norskum fursta. Þegar norrænir menn rændu og rupluðu meðal framandi þjóðar, voru þeir ekki taldir til þjófa, ef þeir sem rændir voru vissu að þeir væru rændir. En fólks sem stal frá öðrum í leyni, líkt og Haraldur konungur gerði, voru ótíndir hrappar og þjófar. Víkingar og Væringjar litu hins vegar ekki á sig sem þjófa því þeir létu þá sem þeir rændu finna fyrir því að verið var að ræna þá og jafnvel með brandinum og atgeir, og síðar með krossi.

Myntir Haralds konungs svikahrapps sem fundust á Íslandi, sýna okkur að við eigum heldur ekki að láta einkafyrirtæki með ríkisnöfn, sem siðlausir ráðherrar hafa sett beint á ríkisspenann, komast upp með það að skila af sér skýrslu fyrir rannsóknir, sem kostaðar voru með fleiri milljónum króna af almannafé, ef fornleifafræðingarnir/höfundar vita ekki að myntir þær sem þeir fundu hafi komið úr Haraldssláttu.

Þessar myntir voru ekki mikils virði er þær voru komnar til Íslands, hugsanlega með öðrum mönnum en Halldóri Snorrasyni, sem einnig höfðu verið sviknir af Noregskonungi. Myntirnar voru orðnar að skrauti og greinilega bornar hvunndagslega í seljum í lok 11. aldar.

Harla svívirðilegt væri af fornleifafræðingum á Íslandi, sem nokkrum er í nöp við heimildagildi fornritanna, að afgreiða Haralds Sögu Harðráða sem skáldsögu og uppspuna Snorra Sturlusonar; ef það var þá hann sem ritaði. Við höfum myntirnar tvær undir höndum og þær staðfesta söguna og sagan þær. 

Til hamingju Fornleifastofnun Íslands

En ég óska þó hér í lokin "stofnuninni" til hamingju með fyrstu 25 árin og fyrir að henni hefur öll þessi ár tekist að telja erlendum samstarfsaðilum trú um að þetta væri stofnun, Institut.

Fornleifastofnun Íslands hefur ekki alltaf staðið sig í stykkinu þau 25 ár sem hún hefur starfað og barist með ríkisfé í asa við aðra fornleifafræðinga á "markaði" og þjóðminjayfirvöld.

Ég hef því miður sært fólk með því að upplýsa það um hið hálfhrappslega nafn fyrirtækisins. Það er örlítill Haraldssláttubragur yfir því, ef ég leyfir segja skoðun mína. Einn erlendur maður lét eftirfarandi orð falla, er ég kom honum í skilning um að Fornleifastofnun Íslands væri bara einkabissness: Well, some people just need to be institutionalized.

Ítarefni: Coins and Coinage in Viking-Age Norway: The establishment of a national coinage in Norway in the XI century, with a survey of the preceeding currency history. Universitetsforlatet, Oslo-Bergen-Tromsö. Bókin er til á norsku í Seðlabanka Íslands. Ég set pdf-skrá með mikilvægustu blaðsíðunum í bókinni varðandi Haraldssláttu.

en-historisk-mynt-khm-970

Efst: Haraldsslátta áður en hún þynntist, og fyrir neðan mynt sem nýlega var seld á uppboði í Danmörku. Hún mun vera af sjaldgæfustu gerð peninga úr Haraldssláttu en með sæmilegu silfurinnihaldi.

image00328


Þeir eru að fáana á Spáni

103272070_2663645677247290_3888717254164586686_o

alterskab_08_3bÞeim sem þykir gaman af líkneskjum aftan úr pápísku og sem lásu greinar mínar um Madonnuna frá Múla nýlega (sjá hér og hér, mynd hér til vinstri) þykir líklega sú veiðifrétt sem sögð verður hér nokkuð góð fiskisaga.

Í miðri ánni Sar, sem á íslenskan mælikvarða er töluverð spræna en ekki straumhörð þegar hún rennur gegnum Santiago, hrasaði Fernando um hálan stein þegar hann leitaði betri fótfestu í eltingaleik sínum við þann stóra.  Honum var litið á bölvaðan steininn eins og menn gera þegar þeir kenna dauðum hlutum um klaufsku sína. Á móti starði kona upp úr slýgrænni ánni. Fernando Brey datt um fornt líkneski, styttu af Maríu mey, sem situr í sömu stellingu og Madonnan frá Múla, sem er sjúkdómsteppt í Barcelona með soninn í kjöltunni.

a-virxe-do-sar-15Veiðimaðurinn til vinstri.

Það bar vel í veiði hjá spænska stangveiðimanninum Fernando Brey, sem í byrjun júní brá sér í veiðiferð við ána Sar nærri Santiago de Compostela á Norðvestur-Spáni. Eins og margir Spánverjar, langþreyttir og hrjáðir af faraldrinu sem hrjáir okkur öll, sótti Fernando út í náttúruna til að róa geð sitt í einangruninni. Stöng og vöðlur er leið hans til afslöppunar.

Maria SAR Brey gerði safnafólki þegar viðvart og sérfræðingar frá Pílagrímasafninu (Museo das Peregrinacións) í Sankti-Jakobsborg komu á vettvang með grímur. Í veiðifatnaði og í tilhlýðilegri fjarlægð frá hverjum öðrum, dáðust fornleifafræðingar og listfræðingar safnsins að styttunni í ánni.

1592284071606

María komin á Safn Pílagrímanna í Santiago.

IMG_2333-1536x1024

Undir fæti styttunnar í ánni var höggvið blóm og fléttuverk. Kannski hefur steinninn verið endurnotaður? Kannski var styttan tilraun ungs steinhöggvara, sem mistókst?

Styttan er um 700 ára gömul og er líklega eitthvað yngri en  Múla-María, sem er frá seinni hluta 13. aldar.  Farið var með styttuna til Santiago til rannsóknar og lítið hefur síðan frést til hennar, nema hvað upplýst hefur verið að hún sé um 150 kg. að þyngd.

Hvað olli því að menn losuðu sig við svona forlátafína styttu skal ósagt látið, en henni hefur ekki verið kastað þar nýlega. Líklega skoða sérfræðingar kirkjur og klaustur í nágrenni fundarstaðarins til að leita að hugsanlegum uppruna Maríumyndarinnar í ánni Sar. Guðshús eru þar fjölmörg, enda áin Sar nærri Sankti Jakobsvegi, sem sífellt verður vinsælla að arka eftir, sama hvaða trúar maður er.

a-virxe-do-sar-13

Nú bíður forvarsla.


Ég ætla að mála allan heiminn, elsku mamma

selardalur_ljosmynd_jo_minjasafn_slands-Colorized

Eftir að MyHeritage.com gerði fólki kleift að lita gamlar svarthvítar ljósmyndir, hefur verið mikið að gera á síðunni. Ég prófaði apparatið á tvær gamlar ljósmyndir Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar sem hann tók í Selárdalskirkju árið 1913. Myndirnar eru varðveittar í Þjóðminjasafni.

Myndirnar tvær voru frábærar í sínum upphaflega fjölbreytileika grámyglunnar, sem getur verið afar fallegur. Hér sýni ég ykkur hvað leiktæki það sem MyHeritage hefur upp á að bjóða getur gert. Það er gaman af þessu föndri, sem þið getið reynt á myndir ykkar sjálfra. Ég held hins vegar fast í upphaflegu litina. Líklegast er hægt að gera það sama á góðum ljósmyndaforritum. En ég á ekkert slíkt og fitla sjaldan við myndir, nema til að gefa þeim smá skerpu.

Ég hef skrifað um forna ljósahjálma á Íslandi í nokkrum greinum sem menn geta fundið neðarlega á hægri spássíu bloggsins Fornleifs, Fyrsta greinin heitir Fiat Lux.

Selardalur 1913 lille colorized

Ljósahjálmurinn sem hékk í Selárdalskirkju er einstakur í heiminum. Hjálmurinn hangir nú einhvers staðar bakdyramegin á Þjóminjasafninu og er ekki sýndur almenningi, enda var hann tekinn úr kirkjunni í óþökk sumra heimamanna fyrir vestan. En við getum líklegast öll verið sammála um að hjálmurinn á best heima á Þjóðminjasafninu. Það ræði ég því ekki frekar.


Konum stillt upp við vegg

IMG_9086 c

Á þessum síðustu og verstu veirutímum, þegar fjölþjóðakenndin rýrnar óneitanlega heldur geyst eftir óyfirveguð skítaferðalög lítilla mannvitsbrekka, er um að gera að fara í bröttustu brekkuna og hefja óbeislað mansal og annan ósóma sem hægt er að hella yfir þjóðina hér á Moggablogginu. Við verðum  nefnilega að vera samstíga um "fordervelsi" heimsins.

Fornleifur hefur nú fengið veirurnar margar og er nú líka kominn með slæma bakteríu fyrir grænlenskum konum og stúlkum. Áður en Fornleifur verður grýttur og settur í gapastokk tel ég réttara að afhjúpa að veikleiki Fornleifs er einvörðungu fyrir grænlenskum konum sem hann kaupir, og helst fyrir slikk, þar hann nær í þær, stundum á netinu en annars á mörkuðum heimsins. Þegar hann dregur þær í hús kastar hann þeim upp á vegg og dáist að fegurð þeirra og glæsileika við þá meðferð.5 groenlandske piger ved en væg b copyright FornleifurLjósmyndin var seld sem Laterna Magica skyggna hjá fyrirtækinu Newton og Co. Ltd. í Covent Garden í Lundúnum. Fyrirtækið var þar til húsa á tímabilinu 1912-25. Myndin er líklega frá því fyrir 1920. Frótt fólk á Grænlandi og í Danmörku vinnur nú að því fyrir Fornleif að fá úr því skorið hvar myndin var tekin, en það var vafalaust á Vestur-Grænlandi. Því miður hefur hvorki varðveist heil sería með myndum frá Grænlandi frá Newton & Co Ltd., né skrá yfir slíkar myndir.

Víst má nú telja, að rennusteinsdómarar Raufarhafnar dæmi Fornleif sem Vínsteinsdóna og setji hann í göngugrind. Því langar mig að taka það greinilega fram að aðeins er um kaup á ljósmyndum að ræða af grænlenskum konum, í alls konar stellingum, en kappklæddar. Eins og allir vita er Fornleifur með sterk söfnunargen, en aftur á móti veika litninga gagnvart fegurð kvenna hvers konar. Þó safnar karlinn myndum af íslenskum karlmönnum frá 19. öld. Það verður að vera smá ljótleiki í veruleikanum.

Fornleifur hefur áður greint frá grænlenskum kvenpeningi í geymslum hans, sem eru í miklu uppáhaldi hjá honum. Sjá t.d. myndina og söguna af Sofie litlu í Upernavik hér.

IMG_6429 detail

Nú í miðri veiruplágu þeirri sem Drottinn hefur lagt á herðar þjóðanna, leyfði Fornleifur sér að vera góður við sjálfan sig og kaupa smá gott handa sjálfum sér á laugardegi. Hann keypti fimm grænlenskar stúlkur á fæti. Þurfti ekki einu sinn að sótthreinsa þær. Hann kenndi svo í brjósti um þær þar sem þær höfðu orðið ómóðins og afvegalagðar einhvers staðar á Englandi á fyrri hluta 20. aldar, jafnvel rétt eftir spænsku veikina. Nú eru þessar fimm konur komnar í bás hjá Fornleifi. Hann strýkur þeim mjög en kastar þeim annað slagið á vegginn.

En þar sem karlinn er dóni eins og allir kallar - og dónar eiga það til að vilja deila gleði sinni með öðrum, ákvað Fornleifur, eftir mörg varnaðarorð og fjölmörg ammen frá mér ritstjóranum, að bregða konunum fimm upp á vegginn hér í von um að það veitti gleði í miðju kórónafaraldrinu. Lekur nú neftóbakið úr nösum sumra smekkmanna, ætla ég.


Madames et Monsieurs

Bjarni Rektor

Fornleifur og frú eru búin að vera á Paris í tvo daga og upplifa margt merkilegt. Í gær var m.a. farið á Musee de l´Homme. Þaðan er útsýnið að Eiffelturninu einna best í heiminum. Vorið er að skella á í París og veðrið var fallegt miðað við fyrsta daginn, þegar þar var stinningskaldi og  hálfíslenzkt sumarveður.
Velkominn

Á Mannkynssafninu  var ágæt sýning, nýleg, sem ekki kom þó mikið á óvart þar sem ég var búin að lesa töluvert um hana. Það sem Fornleifi þótti mest bitastætt var, að gestir voru boðnir velkomnir á fjölda tungumála á leið sinni upp miklar tröppur sem leiða fólk upp á 2. hæð þar sem sýningin um þróun mannsins hefst. Maðurinn hefur þó ekki þróast meira en svo í París að safnið sem segir sögu mannsins, virðist hanga dulítið í gamalli kynjastefnu 19. aldar. Þannig eru Íslendingar ekki boðnir velkomnir í fleirtölu, Velkomin, heldur í eintölu karlkyns, Velkominn. Fornleifur mun fljótlega skrifa Macron og biðja hann um að leiðrétta þetta þegar konan hans leyfir.Auðvitað voru fleiri Íslendingar á sýningunni, en á Musee de l´Homme hitti ég Bjarna rektor Jónsson, sem Fornleifur hefur í mörg ár ætlað sér að mæla sér mót við í París. Bjarna hef ég ritað um áður hér og hér.

dddd

Bjarni Jónsson á sýningu í París 1856-57. Skannað hefur Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Á nýju sýningu Mannkynssafns er Bjarni rektor kominn á góðan stað í þróunarsögu mannkyns, og sýnir það hvítt á svörtu.

Bjarni er líkast til hvítasta dæmi mannkyns á allri sýningunni, því hvergi er minnst á albínóa. Ekki er ég viss um að Jón heitinn Valur og aðrir hvítingjar hefði sætt sig við örlög Bjarna rektors, en þarna er hann einfaldlega í allri sinni dýrð og ekkert er við því að gera - nema að einhver klagi í Macron.

Mission Vigipirate b

Mission Vigipirade

Þegar við komum út úr safninu eftir tvær og hálfa klukkustund, sáum við ekkert meira né minna sýnikennslu á hryðjuverkavörnum Frakka. 15 vígreifir hermenn hörfuðu skipulega að þremur litlum og ómerkilegum Renault bílum í eigu hersins eftir að hafa "sýnt sig" á Place du Trocadéro gegnt Eiffelturni. Hermennirnir voru fyrir utan árásarriffla vopnaði Baskahúfum í hlægilegri yfirstærð. Almennilegir terroristar hefðu fljótt gert þessa dáta óvirka með því einu að slá pottlokið af þeim.  Á sýningunni í Mannkynssafninu var einmitt sýnt hvernig höfuðstærð, höfuðskraut og jafnvel yfirvarskegg á stærð við frímerki gat aukið virðinu manna og annarra apa fyrr á tímum.  Heil menningarþjóð í námunda við Frakka féll fyrir slíkri hormottu.

Svo var spásserað yfir Signu í austurátt og að loku tekin Metro að Montmartre þar Fornleifur hefur hreiðrað um sig bak við Sacre Coeur kirkju, (sem ég sagði frá um daginn), í miklum vellystingum.

Ritsjóri Fornleifs er alls staðar tekinn sem ekta Fransí biskví þótt að hann sé ekki að Austan. Fólk hér hefur hörkuviðræður við mig á tungumáli sínu, t.d. á frábæru veitingahúsi nærri Place du Bastille í París, þar sem ég hitti gamla kollegu og eiginmann hennar sem er embættismaður hjá UNESCO.

Au revoir mis ames.


Ónafngreindur lundi í póstkassanum

Lundi frá Ólundi

Fornleifur fær ekki oft póstkort frá framandi löndum, nema frá einstaka gamlingja á ferðalagi. Honum brá því mjög í brún þegar hann opnaði póstkassann í gær. Þar lá aldrei þessu vant enginn reikningur, en hins vegar póstkort með mynd þessum fína lunda á syllu.

Lundinn hafði verið sendur 27. janúar frá Íslandi og því flöktað um í póstkerfinu í heila viku, sem þykir nú orðið bara nokkur góður tími.

Mér þótti strax furðulegt að lesa það sem á kortinu stóð. Sendandinn hafði ekki skrifað neitt á kortið, heldur prentað skilaboð sín og nafn og heimilisfang mitt í prentara, klippt það út og límt á kortið.

Lundinn er líka dývítis dóni, því skilaboðin voru heldur ekki undirrituð. Þau á þessa leið:

Áhugaverð lesning bíður þín á:

https://skemman.is/handle/1946/23442

Góða skemmtun

Ólund í Lunda

Venjulega opna ég hlekki sem nafnleysingjar og tröll eru að ota að mér, en þar sem ég veit hvað skemman.is er, ætlaði forvitnin næstum því að drepa mig. Ég opnaði hlekkinn, sem ekki týndist í póstkerfinu, og þar kom fram meistararitgerð Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar við félagsvísindadeild HÍ, sem ber heitið Þjóðminjasafn Íslands. Þættir úr stofnanasögu (2016).

Einhvern tíma áður hef ég opnað þessa ritgerð og kíkti þá meira í hana en ég las. Ég man að mér þótti þetta frekar þunnur þrettándi fyrir mastersritgerð og hugsaði með mér að kannski hefði bréfum fækkað í bréfasafni Þjóðminjasafns frá þeim tíma að ég vann þar.

Ég kíkti aftur í gær í ritgerð þessa. Það er tóm tímaeyðsla eins og blogg þetta, og skemmti ég mér ekki yfir ritgerðinni frekar en fyrri daginn. Mér finnst skautað hratt yfir sum vandamálatímabil Þjóðminjasafnsins.

Mér þykir enn furðulegt að forstöðumaður ríkisstofnunar, sem í öðrum löndum yrði að hafa doktorsmenntun, skrifi meistararitgerð um stofnun sína og sögu hennar í starfi. Það er eiginlega það sama og að viðurkenna, að yfirmaðurinn hafi ekki verið meistari á stofnun sinni, áður en hann skrifaði ritgerð við Háskóla Ísland. Eins þykir mér með ólíkindum að menn hafi tíma til að skrifa slíka ritgerð, þegar þeir stjórna einni að helstu menningastofnunum landsins. Slíkt er örugglega á Íslandi talið til hæfileika, þegar kona á í hlut - og ég viðurkenni fúslega að konur eru til flestra verka hæfari en karlar. Mig grunar aftur á móti, að ef karlræfilstuska hefði gert það sama, hefði hann verið rekinn með smán fyrir að hafa verið í námi í vinnutíma - og ekki er Háskóli Íslands neinn kvöldskóli - eður hvað?

Lundi minn góður, sparaðu póstkortin og frímerkin. Saga Þjóðminjasafnsins hefur enn ekki verið rituð að viti. En það er þó harla fyndið að sjá lundarfar sumra manna að þeir telja það köllun sína að skrifa sögu embætta sinna, þegar þeir sitja enn á embættisstóli og allt leikur í lundi þegar ekki er verið að reka starfsmenn og líka á öðrum stofnunum. Það minnir mann einna helst á keisara í Róm. Tilfallandi lundapysjur og gamlir fornleifafræðingar eiga vitaskuld erfitt með að skilja slíkar prímadonnur. Við eru svoddan einfeldningar. Fornleifur las þó hér áður fyrr einhverja latínu með litlum skilningi og kann því að sjá í gegnum áróðursrit manna fyrir sjálfa sig.

En hvernig það er hægt að framleiða slíkt í HÍ um hábjartan dag og verða meistari fyrir, er ofar mínum skilningi. En meiri af tíma mínum eyði ég ekki í slíkar vangaveltur. Flest á hinu háa Íslandi er ofar mínum skilningi hvort sem er. Góðar stundir.

Er óreiða í Skemmunni?

Nokkrum mínútum eftir að ég birti ofanstæða frásögn af óundirrituðu póstkorti, ætlaði ég að sjá hvort allt virkaði á blogginu. Þá sá ég að ritgerðin eftir þjóðminjavörð var ekki lengur aðgengileg á Skemman.is. Það er búið að loka fyrir gegnsæið sem var þar í gær.

Viðbót við viðbótina einni og hálfri klukkustund frá birtingu þessa blogs. Sviðsstjóri þjónustu og miðlunar á Landsbókasafni upplýsir:

Í gær var afgreitt erindi frá höfundi ritgerðarinnar sem vildi láta loka aðgangi að henni.

Það var svar við erindi mínu til skemman.is, sem sent var kl. 9:17 að íslenskum tíma í dag 4. febrúar 2020:

Í gær opnaði ég og las í ritgerð á Skemmunni sem hægt var að finna hér:

https://skemman.is/handle/1946/23442

Í dag er búið að loka á lestur.

Mér leikur forvitni á því að vita hvað veldur þessu breytta ástandi á milli daga.

Líklegt tel eg að fleiri lundar hafi verið á ferðinni með póstþjónustunni.


Þórshöfn í Færeyjum 1905-1906

Tórshavn fra Richter nr. 11 lille

Tórshavn (Þórshöfn), höfuðborg Færeyja, er merkur bær og vinalegur, og ávallt er gaman er að koma þangað. Það verður að viðurkennast að nokkuð langt er síðan ég var þar síðast - en mig langar oft til Færeyja. Ég verð líklega að bæta úr því bráðlega til að geta kallað íbúanna frændur mína. Reyndar halda þeir í heiðri minningu eins frænda míns, sem reist hefur verið stytta á einu aðaltorgi bæjarins. Hann var ættaður úr Örfirisey, áður en sú merka eyja varð að fríhöfn kramkaupmanna, hörmungara og þjófa. Les má meira um ætt flóttamannanna í ætt minni, sem settust að í Færeyjum hér.

Fyrir rúmu ári keypti ég gamla ljósmynd af Tórshavn, sem er frá byrjun 20. aldar, Það væri auðvitað ekki í frásögur færandi, ef myndin væri ekki í lit. Reyndar er þetta handlituð glerskyggnumynd.

Danskur ljósmyndari, Vilhelm Pagh Richter (f. 1879), seldi glerskyggnur fyrir Laterna Magica sýningarvélar. Myndin af Tórshavn er frá fyrirtæki hans í Kaupmannahöfn. Fæstar þeirra skyggnumynda tók hann samt sjálfur.

2

Sama myndin sem ég á er til á Þjóðminjasafni Dana (hér fyrir ofan og einnig hér), en ekki í lit. Hún er ekki tímasett nákvæmar en til tímabilsins 1900-50. Mynd Þjóðminjasafnsins í Kaupmannahöfn kom fyrir nokkrum árum frá litlu safni á Orø, sem er eyja innarlega á Ísafirði (Isefjorden) á Sjálandi. Það var allri safnastarfsemi hætt fyrir nokkrum árum síðan.

Myndin var í tréöskju merktri "Færøerne". Í öskjunni var einnig seðill, listi yfir 57 skyggnumyndir frá Skotlandi, Skosku eyjunum og Færeyjum. Sömuleiðis var í öskjunni blað með stuttum fyrirlestri um Færeyjar, sem lesa mátti þegar myndirnar voru sýndar.

Á Þjóðminjasafni Dana (Nationalmuseet) hafa menn ekki enn gert sér ekki grein fyrir því að Vilhelm Pagh Richter tók langt frá því allar þær myndir sem hann seldi sem Laterna Magica seríur. Fyrirtæki hans seldi til að mynda skyggnumyndir í byrjun 20. aldar, sem t.d. voru teknar af skoskum leiðangri sem ferðaðist við Grænlandsstrendur á 9. áratug 19. aldar. Richter setti nafn sitt á myndirnar, en átti ekkert í þeim. Þær myndir höfðu um tíma verið seldar af fyrirtækjum á Bretlandseyjum í lok 19. aldar líkt og skyggnumyndaseríur frá Ísland (sjá hér).

Færeyskur sérfræðingur kemur til hjálpar

Hér verður bætt um betur hvað varðar aldursgreiningu á myndinni minni af Þórshöfn. Góður kunningi minn hér í nágrenni við mig í Danmörku, Ragnar M. Egholm, sem er Færeyingur með stóru F-i hefur aldursgreint myndina. Ragnar gat þegar sagt mér hve gömul myndin er og hér eru rök Ragnars: Þar sem Safnaðarheimilið (Menighedshuset) er á myndinni, er hún tekin eftir 1896, því þá var byggingu þess lokið - en myndin er tekin fyrir 1906 þegar pósthúsið var reist, en það er ekki með á myndinni. 

Restin var auðveld. Á annarri mynd í Færeyjaseríu Vilhelms Pagh Richters er skyggnumynd af tveimur breskum kafbátum sem heimsóttu eyjarnar. Einkennisstafir annars þeirra sést og er þar á ferðinni HMS C1, sem hleypt var af stokkunum árið 1905. Líklegast er því að myndin af Tórshavn sé frá 1905 frekar en 1906, en gæti verið tekin síðar, þar sem myndirnar í sérí V.Pagh Richters eru að öllum líkindum ekki allar frá sama tíma.

C1HMS C1 við Færeyjar 1905 eða 1906. Það gæti þó verið síðar, þar sem myndirnar í seríu V. Richters eru augsjáanlega ekki allar frá sama tíma. Kafbáturinn C1 var í þjónustu Royal Navy frá 1905 til 1918.

Ragnar M. Egholm bætti heldur um betur er hann upplýsti, að myndin hefði vafalaust verið tekin frá götunni Heygsbreyt, ca. við gatnamótin við Dalaveg. Stóri steinninn sem sést fremst á myndinni er enn til staðar og stendur í garðinum hjá ættingja Ragnars, Debes Danberg.

IMG_0004 b Fornleifur copyrightMynd skyggna er merkt sem nr. 11 Thorshavn og þykist ég nokkuð heppinn að hafa náð í hana, því færeyskir vinir mínir hafa sopið hveljur og farið og náð í grindarskutla sína þegar þeir hafa séð höfuðstað sinn í allri sinni dýrð á mynd minni. Ég skil þá vel ... Og nú hef ég hækkað verðið á þessari "fornleifð" minni með þessari grein. Eins og allir vita er Tórshavn dýr bær, en þó ekki eins dýr og Reykjavík.

Hér fyrir neðan eru svo nokkrar aðrar skemmtilegar myndir úr Færeyjasyrpu þeirri sem Vilhelm Richter seldi í byrjun aldarinnar, sem komu frá safni á Orø og eru nú varðveittar á Þjóðminjsafninu í Kaupmannahöfn. Myndirnar voru ugglaust ekki teknar af honum sjálfum.Untitled-Grayscale-02 b

Richter_F%C3%A6r%C3%B8erne_31

Richter_F%C3%A6r%C3%B8erne_28

Þessi mynd í syrpu sem V.Pagh Richter seldi virðist í fljótu bragði miklu yngri en yfirlitsmyndin af Þórshöfn. En ég er ekki viss.

Richter_F%C3%A6r%C3%B8erne_19 g

Richter_F%C3%A6r%C3%B8erne_16


Þingvalla-bagallinn endurskoðaður

Tau Bagall Þingvellir

Meðal fegurstu forngripa sem fundist hafa í jörðu á Íslandi er haus, eða öllu heldur húnn, af svo kölluðum tau-bagli (Þjms. 15776/1957-39) eða tau-staf, sem fannst í jörðu árið 1957. Bagallinn var lausafundur sem fannst við framkvæmdir á Þingvöllum og eru fundaraðstæður allar frekar óljósar (sjá um það hér á bls. 24-25). 

Tau-baglar (tau er borið fram á íslensku) eru þeir stafir kirkjunnar manna nefndir sem hafa T-laga haus. Tau er gríska heiti bókstafsins té. Bagall er hins vegar hið forna norræna orð fyrir biskupsstaf og er orðið afleitt af latneska orðinu fyrir staf, baculus (stundum ritað í hvorugkyni baculum), sem og gríska orðinu baktron, sem hinar margfrægu bakteríur (stafgerlar), sem hrjá mannkynið, mega þakka nafn sitt.

Ta-bagall-fra-thingvollumGripur þessi, sem væntanlega hefur verið biskups- eða ábótastafur, var sendur utan á mikla sýningu 1992-93 sem kostuð var af Norrænu Ráðherranefndinni og Evrópuráðinu. Ég (VÖV) ritaði um gripinn í sýningaskrár sem komu út í tengslum við hinar stóru farandsýningu sem sett var upp í París, Berlín og Kaupmannahöfn 1992-93. Skráin hét á dönsku Viking og Hvidekrist, Norden og Europa 800-1200; á ensku:  From Viking to Crusader, The Scandinavians and Europe 800-1200,  á þýsku Wikinger, Waräger, Normannen. Die Skandinavier und Europa 800-1200 og á frönsku Les Vikings... Les Scandinaves et l´Europe 800-1200.

Í afar stuttum texta sýningarskránna, gaf ég upp aðeins ítarlegri upplýsingar um tau-bagalinn frá Þingvöllum en t.d. Kristján Eldjárn eða James Graham-Campbell höfðu áður gert er þeir veltu fyrir sér þessum einstaka grip í verkum sínum, sem ég vitnaði sömuleiðis í.  Maður sökkti sér niður í fræðin, en gat þá ekki skrifað nema nokkra línur. Nú verður bætt úr því.

Tau-stafurinn frá Þingvöllum, sem er auðveldast að stílgreina sem tilheyrandi Úrnes-stíl, er ekki stór gripur. Lengd hans með leifunum af tréstafnum sem fundust í fal stafsins er ekki nema 7,1 sm og breidd er 8,6 sm. Viðurinn í stafnum hefur verið greindur sem blóðhyrnir (cornus sanquinea L.).

Tau-táknið og baglar voru á hámiðöldum taldir skírskota til tau-krossins, té-laga kross, sem var einkennistákn heilags Antoníusar munks í Egyptaland sem talinn er hafa verið uppi 3-4. öld e. Kr. Einnig hefur Tau-kross verið tengd heilögum Frans af Assisi í list síðmiðalda. Tau-stafir hafa lengir verið þekktir sem biskups og prestastafir í austurkirkjunni, í armensku kirkjunni, meðal koptískra kristinna og hjá Eþíópum.  Menn hafa leikið sér að tengja stafinn frá Þingvöllum við austurkirkjuna, en því miður er lítið sem stutt getur slík tengsl og Antoníus og heilagur Fransiscus (Frans) koma tau-baglinum á Íslandi ekkert við, enda er tau-kross hans ekki eins í laginu og bagall sá sem Antoníus og Frans eru sýndir með í freskum og altarislist miðalda.

Líkt og ég benti á í afar stuttum texta mínum um bagalshúninn frá Þingvöllum í sýningaskrám Víkingasýninganna í París, Berlín og Kaupmannahöfn, þá þekkjum við hausa úr viði af stöfum sem mest líkjast hausnum frá Þingvöllum. Þeir hafa fundist  í Dublin. Það hefur lengi verið ljóst að Íslendingar hafa grimmt sótt í vöruviðskipti í Dyflinni og í enskum verslunarstöðum á fyrrihluta miðalda (sjá nánar neðar í þessum texta). Ég er enn á því að húnninn geti verið verk frá Bretlandseyjum eða Írlandi, þar sem Íslendingar versluðu mikið á 11.12 og fram á 13. öld. Ég hika ekki við að aldursgreina stafinn til um 1100 e.Kr. og jafnvel getur hann verið eitthvað yngri. Hann er heldur ekki í hreinræktuðum Úrnesstíl.

Baglar kirkjunnar

Bagallinn, eitt af einkennistáknum biskupa og annarra háttsettra manna innan mismunandi kirkjudeilda, hafa gegnum söguna hlotið margar skýringar. Sumir vilja álíta að þetta sé fjárhirðstafur, með vísunar til þess að þessir menn gættu hjarðar Drottins. Flestir baglar fengu því fljótlega svipað form og krókstafir fjárhirða. Aðrir sérfræðingar sjá frekar uppruna tau-bagalsins meðal gyðinga sem fyrstir tóku kristni. Þeir áttu að hafa ættleitt bagalinn úr gyðingdómi. Tíu ætthvíslir gyðinga áttu sér hver sinn staf og var hver stafur merktir bókstafi ættarinnar, en sá sem kristnin "erfði" eða fékk að láni var stafur prestanna, Levítanna, sem blómsraði og laufgaðis (varð tré lífsins, lífsins tré arbor vitae; og síðar meir róðan/krossinn) þ.e. stafur Arons sem greint er frá í 4. Mósebók, 17 kafla og t.d. einnig í 2. Mósebók, 7. kafla: Drottinn ávarpaði Móse og Aron og sagði:

„Ef faraó segir við ykkur: Gerið kraftaverk, skaltu segja við Aron: Taktu staf þinn og kastaðu honum niður frammi fyrir faraó. Hann verður að eiturslöngu.“ Síðan fóru Móse og Aron til faraós og þeir gerðu það sem Drottinn hafði boðið þeim. Aron kastaði staf sínum frammi fyrir faraó og þjónum hans og hann varð að eiturslöngu. Þá kallaði faraó fyrir sig vitringa og galdramenn og spáprestar Egyptalands gerðu eins með fjölkynngi sinni. Hver þeirra kastaði staf sínum og stafirnir urðu að eiturslöngum en stafur Arons gleypti stafi þeirra. En hjarta faraós var hart og hann hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt.

41083148992_61188b5def_b

Stafur Móses er einnig nefndur í Síðari Konungabók, kafla 18:4, þegar segir frá Hiskía Akassyni, sem svo er kallaður á íslensku (Hezekijah ben Ahaz):

Það var hann sem afnam fórnarhæðirnar, braut merkisteinana og hjó niður Asérustólpana. Hann braut einnig eirorminn, sem Móse hafði gert, en allt til þess tíma höfðu Ísraelsmenn fært honum reykelsisfórnir og var hann nefndur Nehústan.

Síðast en ekki síst má finna "staðfestingu" á þessu í Nýja Testamentinu, nánar tiltekið í Jóhannesarguðspjalli 3:14, sem einnig skýrir af hverju menn voru með bronsstafi sem sýndu táknrænan orm á Íslandi um 1100 árum e.Kr.:

Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn svo að hann veiti hverjum sem trúir á hann eilíft líf. 

Eirormur var um langan tíma eitt af táknum Krists. Óneitanlega minnir bagallinn frá Þingvöllum á eirorm Móses, sem kallaður var Nehushtan, og sams konar mynd af krossinum virðist hafa lostið niður í biblíuglansmyndahöfunda í Bandaríkjunum á 20 öld og listamanna sem hefur skreytt kirkjuhurð í San Zeno í Verona á Ítalíu sem er frá fyrri hluta miðalda (12. eða 13. öld).MosesAndTheBrassSerpenturn cambridge.org id binary 20161128160751923-0656 9781316402429 12361fig61

Abraham og Drottinn

Sagan um stafi ætthvíslanna 12 á kirkjuhurðinn á San Zeno í Veróna; 1. Mósebók kafli 14: Þá kom orð Drottins aftur til Abrams: „Ekki mun hann erfa þig heldur sá sem af þér mun getinn verða. Hann skal erfa þig.“
Þá leiddi hann Abram út fyrir og mælti: „Líttu til himins og teldu stjörnurnar ef þú getur.“ Og hann sagði: „Svo margir munu niðjar þínir verða.“

Verona,_Basilica_Moses lögmálið og stafir ætthvíslanna

Móses fær lögmálið og Aron gætir stafa ætthvíslanna. Stafur ætthvíslar hans hans laufgaðist og blómgaðist.

Vangaveltur um eiganda bagalsins sem fannst á Þingvöllum

Heyrt hefur maður og lesið alls kyns vangaveltur um hugsanlegan eiganda tau-bagalsins sem fannst i jörðu á Þingvöllum. Eins og oft áður á Íslandi, skal sú leiða hefð í hávegum höfð, að einstakur gripur sem finnst í jörðu sé tengdur ákveðinni persónu í Íslendingasögum eða álíka bókmenntum. Slíkir órar eru algjörlega út í hött. Hvort þeir feðgar Gissur Ísleifsson eða Ísleifur Gissurarson biskupar hafi átt tau-bagallinn á Þingvöllum skal því hér með öllu ósagt látið, þó svo að  bagallinn falli tímalega að embættistíma þeirra sem biskupa í Skálholti. 

En kannski voru þeir feðgar, líkt og svo margir kirkjunnar þjónar, óðir með með öli, svo að þeir týndu embættisverkfærum sínum á víðavangi? Hugsanlega misstu þeir bagalinn á kvennafari og það með bráðóþroskuðum stúlkum? Enn annar þanki gæti gefið ástæðu til að ætla, að eins og fyrr og síðar hafi þjófar hreiðrað um sig á Alþingi. Baglinum gæti hafa verið stolið. Allt eru þetta þó óþarfa vangaveltur er menn vita ekki hvar á að leita að svörum um uppruna forngripa. 

Einhverjum datt nú síðast í hug að lögsögumenn hefðu gengið með einhver tákn um stöðu sína á þingi. Um slíkt var spurt á Vísindavefnum (sjá hér), þar sem sérfræðingur einn afneitaði sem betur fer með öllu að slík tákn hefðu verið notuð af lögmönnum; en af einhverjum furðulegum ástæðum birtist samt ljósmynd af Þingvallabaglinum við greinina á Vísindavefnum.  Stundum geta menn ekki setið á sér í vitleysunni?


Tá-baglar í Evrópu á miðöldum
Hvar finnur maður svo forláta bagal eins og þann sem fannst á Þingvöllum árið 1957? Sannast sagna hefur enn enginn tau-bagalshúnn líkur þeim sem fannst á Þingvöllum enn fundist í jörðu eða varðveist á annan hátt. Það ætti þó ekki að vera útilokað að eins eða svipaður gripur ætti eftir að finnast einhvers staðar í nágrannalöndum Íslands. Húnninn er steyptur og gætu fleiri húnar hafa verið steyptir eftir sama grunnmóti og hann. 


Þeir Tau-baglar sem nánast þola samlíkingu við stafinn frá Þingvöllum eru baglar sem höggnir voru út á lágmyndum á írskum hákrossum.

carved-stones-irland-offaly-1 2

carved-stones-irland-offaly-1

Mynd byggð á tölvumælingu af Durrow-hákrossinum í County Offaly á Írlandi. Þarna situr Jesús í dómsdagsmynd og heldur á tveimur af táknum sínum, krossinum og ormastaf ættar sinnar. cross-ring-detail

Hér fyrir neðan sést greinilega á 3 ljósmyndum tau-bagall á dómsdagsmynd á hákrossinum frá Muiredach sem stendur við klausturkirkjuna í Monasterboice i County Louth á Írlandi. Krossinn er aldursgreindur til 9. eða 10. aldar, sem stílfræðilega virðist vera góð tilraun að teygja græna lopann. Krossinn er öllu nær frá 11. öld.

33

Muiredach's_High_Cross_(east_face)_2

Muiredach's_High_Cross_(east_face)_(photo)

Hér fyrir neðan; Miðjumynd á hákrossi sem stendur í Clonmacnois í County Offaly. Á þessum krossi stendur Jesús einnig stoltur með tákn sín krossinn og með tau-bagalinn ormastaf Levítans) og kross.

Irish_high_cross_Clonmacnois 2

Á syðri hákrossinn í Kells á Írlandi sem kenndur er við heilagan Patrek og Kólumkilla má einnig sjá Krist standa með tross og ormastaf. Þrívíddarmynd.

KELLS_SOUTH_CROSS_WEST_FACE_HEAD_CENTRE_WEB

Tau-baglar voru greinilega í tísku á Írlandi á fyrri hluta miðalda. Baglahúnar úr tré sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í Dyflinni á Írlandi sýna það glöggt. Ekki er nú alls endis víst að um baglahúna sé að ræða í öllum tilvikum. Her eru teikningar af þremur af fjórum þeirra, sem  upphaflega birtust í bók James T. Lang (1988): Viking-Age Decorated Wood: A study of its Ornament and Style [Medieval Dublin Excavations 1962-81. Ser. B, vol 1], National Museum of Ireland.

DW58

DW44

3

Nokkur dæmi um taubagla í Vestur-Evrópu á fyrri hluta miðalda

Enginn tau-bagall hefur enn fundist eða varðvesit í Skandinavíu; En víða í Norður- og Vesturevrópu hafa varðveist tau-baglar og einnig sjást þeir í kirkjulist, sem sýnir að tau-stafir hafa verið algengir víða um álfuna. Hér sýni ég fáein dæmi til gamans:

markImage
Brotinn húnn af tau-staf sem skorinn hefur verið úr fílabeini eða rosmhvalstönn.  Hann er varðveittur í St.Peter Schatzkammer í Salzburg í Austurríki. Húninum er er gefin mjög breið aldursgreiningin eða 800-1250, þótt tímabilið 900-1150 sé mun líklegri greining. Silfurumgjörð með áletrun, sem er háls stafsins, er mun yngri en stafurinn og húnninn. Mál húnsins eru 4,8 x 13 sm (sjá nánar hér). Sjáið hve eyrun á orminum líkjast eyrum á orminum á tréhúninum hér að ofan frá Dyflinni.

02-0803-1 Köln dom ca. 1000Húnn af tau-staf úr fílabeini frá því um 1000 e.Kr., varðveittur í Dómkirkjunni í Köln.

Maastricht,_Schatkamer_Sint-Servaasbasiliek,_Servatiana,_zgn_staf_van_Sint-Servaas
Húnn af tau-bagli úr fílabeini varðveittur í Schatkamer Sint-Servaasbasiliek (kirkju heilags Servatíusar) í bænum Maastricht í Hollandi.

1280px-Brit_Mus_17sept_010-crop

Tau-bagall frá 11. öld sem varðveittur er í British Museum. Hann er í Engil-Saxneskum stíl sem svo er kallaður.

03-crozier

Írskur tau-bagall sem talinn er vera frá 12. öld og sem varðveittur er í Þjóðminjasafni Íra í Dyflinni.

broughanleaTvenns konar baglar höggnir í lítinn steinkross í Broughanlea í County Antrim á Norður-Írlandi. Aldur óviss.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

31.12.2019


Syndafall á Þjóðminjasafni

Screenshot_2019-12-27 Smycke

Sumarið 1883 stundaði starfsmaður Forngripasafnsins í Reykjavík furðuleg forngripa(við)skipti með þjóðararfinn. Hann lét útsendara frá Nordiska Museet i Stokkhólmi hafa forláta brjóstkringlu frá 16. öld, sem hafði verið búningasilfur kvenna á Íslandi í aldaraðir. Brjóstkringlu þessa, sem sem er úr logagylltu silfri, fékk Nordiska Museet að því er virðist að gjöf þann 8. júlí 1883.

Árið 2008 fékk Þjóðminjasafnið brjóstkringluna aftur að láni í óákveðinn tíma og hefur hún nú hlotið safnanúmerið NMs-38867/2008-5-185. Það vekur hins vegar furðu að starfsmaður Þjóðminjasafnsins, sem fært hefur brjóstkringluna inn í Sarp, skráningarkerfi flestra safna á Íslandi, lætur þetta eftir sér hafa á Sarpi:

í skiptum fyrir R.A., 8.XII.  Brjóstkringla. Efni silfur, gylt. Þverm. 6 cm. Sjá Afb. 2 - 3 , Pl. 3, 12 a - b. Fengin frá Forngrs. í skiptum af R.A., 8.XII.1883 kom hún. 

Eitthvað virkar þetta eins og endasleppt ruglumbull. En með góðum vilja má ætla, að menn á Þjóðminjasafni viti á einhverju stigi ekki hvort brjóstkringlan hafi komið frá Svíþjóð, en þó er ég ekki viss, því mig grunar að starfsmaðurinn sem skrifar þessa þvælu kunni líklegast ekki setningarfræði og notkun spurningarmerkja. En kom kringan til Íslands? Það má vera eðlileg spurning miðað við allt þetta rugl á Sarpi.

Meðan að brjóstkringlan góða var í Svíþjóð, hafði enginn í Stokkhólmi burði til að rannsaka þennan grip eða uppruna hans, því ekki er hann íslenskur. Kringlan var aðeins skráð þar sem "smycken"  frá Íslandi og upplýst er að Forngripasafnið hafi gefið hana Nordiska Museet.


Önnur kringla í "Endurlifnunarstíl"

Nú vill svo til að Forngripasafnið átti annan, sams konar grip og kringluna, sem gefin var til Stokkhólms. Hún ber númerið 2156 (sjá hér) og henni fylgir löng keðja; hvortveggja er logagyllt. Kringlunni þeirri í Forngripasafninu lýsti Sigurður Vigfússon á eftirfarandi hátt:

sigur_ur_vigfussonHálsfesti úr silfri, algylt, l.um 135 cm., br. 6 mm., þ. 2 mm. Öll samfelld; kveiktir hlekkir, grannir, dálítið undnir, svo festin verður sljett; hún er svo sem tvöföld öll, samsett af tvennum hringum; kemur það glegst í ljós er undið er öfugt upp á hana. Á henni leikur lítill grafinn silfurlás, gyltur, með hring í, og í honum hangir kringlótt  kinga, 5,9 cm. að þverm. og 48 gr. að þyngd, steypt úr silfri og gylt, með mjög upphleyptu verki beggja vegna og steyptri snúru umhverfis.   Annars vegar er syndafallið, Adam og Eva standa hjá skilningstrjenu góðs og ills;  Eva tekur ávöxt af trjenu og Adam heldur á öðrum.  Ormurinn (djöfullinn) hringar sig um trjeð.  Dýr merkurinnar (einhyrningur, uxi, svanur, hjörtur o.fl.) eru til beggja hliða. Yzt vinstra megin virðist vera Jahve og sendir frá sjer engil á flugi: en yzt hægra megin virðist engill(inn) reka Adam burtu; eru þær myndir miklu smærri en aðalmyndin. Trjeð er með mikilli krónu og fyrir neðan hana er letrað: MVLIER . DE - DIT. MIHI/ ET . COMEDI . - GE . 2. ( þ.e. konan gaf mjer og jeg át með. Genesis  [1. bók Móse ] 2. [kap.]). Hins vegar er friðþægingin fyrir syndafall og syndir mannkynsins; Krossfesting Krists. Umhverfis Krist að ofan eru geislar í hálfhring.  Sinn ræninginn er til hvorrar handar.  María frá Magdölum krýpur við kross Krists og heldur um hann.  Önnur kona ( María móðir Krists?) snýr sjer undan og gengur frá. Hermaður (Longinus) ætlar að stinga spjóti í síðu Krists; annar að brjóta með kylfu fótleggi annars ræningjanna. Höfuðsmaðurinn (Longinus) situr á hestsbaki hjá krossi Krists og hefur spjót sitt á lopti.  Beggja vegna við krossana og milli þeirra er leturlína yfir þvera kinguna: MIS-ERERE. NO-BIS - DOMI-NE(  þ.e. Miskunna oss drottinn ). Alt er þetta í endurlifnunarstýl og líklega frá 16.öld.  Sennilega gjört í Þýzkalandi, í upphafi, að minsta kosti. - Festin (og kingan) er sögð að vera frá Jóni biskupi Arasyni, en seinast hefur átt hana Sigurður á Vatnsleysu (Jónsson) (S.V.).

Öll þessi fræðsla Sigurðar Vigfússonar var góð og blessuð, eins langt og hún náði, og Sigurður Vigfússon gerði sér eins og sannur síðendurlifnunarstílisti far um að fræðast, sem og upplýsa þá sem áttu þjóðararfinn. Mættu menn taka hann sér til fyrirmyndar, bæði í á Nordiska Museet og á Þjóðminjasafni nútímans.

Medalía en ekki brjóstkringla

hans-reinhard-d.AE.-taetig-1535-1568-fuer-johann-friedrich-den-grossmuetigen-von-sachsen-1532-1547-1066510
Þó Sigurður Vigfússon hafi miðlað haldgóðum upplýsingum  og komist nærri um flest hvað varðar "brjóstkringlu", og sem sögð var frá Jóni Biskupi Arasyni komin, hafði hann ekki aðgang af öllum þeim upplýsingum sem fólk hefur í dag, en sem sumir virðast þó ekki geta nýtt sér til gagns eða gamans.

hans-reinhard-d.AE.-taetig-1535-1568-fuer-johann-friedrich-den-grossmuetigen-von-sachsen-1532-1547-a-1066510

Með örlítilli fyrirhöfn er fljótt hægt að komast að því að þær tvær "brjóstkringlur" sem varðveittust á Íslandi eru í raun medalíur, sem Jóhann fyrsti Friðrik hinn mikilfenglegi, kjörfursti af Saxlandi (Johann Friedrich der Großmütige von Sachsen;1532-1547) lét steypa (og ekki slá) einhvern tíma stuttu eftir árið 1535 - eða um það bil - eða að minnsta kosti áður en hann hrökk upp af vegna offitu og lystalifnaðs. Hann var mikill fylgisveinn Marteins Lúters og átu þeir kumpánar greinilega sams konar mat. 

Lucas_Cranach_d.J._-_Kurfürst_Johann_Friedrich_der_Großmütige_von_Sachsen_(1578)Lukas Cranach eilífaði Jóhann kjörfursta eins og kæfu í dós.

Medalíumeistarinn, eða listamaðurinn sem steypti medalíurnar, var Hans Reinhard inn eldri, sem starfaði á tímabilinu 1535 fram til 1568.

Nýlega var á uppboði í Vínarborg seld medalía af þeirri gerð, sem frekt og ríkt siðbótarfólk bar um hálsinn á Íslandi er það rændi og hlunnfór aðra. Medalían fór á 700 evrur (sjá hér).

Fornleifur vonar nú að Þjóðminjasafnið taki við sér og fari á árinu 2020 að skrá ókeypis upplýsingar um gripi safnsins sem Fornleifur hefur nú í allmörg ár miðlað hér á blogginu til almennings. Safnið verður vitaskuld að vitna í Fornleif og éta orðrétt eftir honum - Eða eins og ritað stendur ANTIQUUS DETID MIHI ET COMEDI og étið það!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband