Gleðilega hátíð

falkafani.jpg

Eins og kunnugt er áttu Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir páfagauk mjög skrafgjarnan og áhugasaman um pólitík. Hann var kallaður Poppedreng, sem var mjög algengt nafn á páfagauka í Danmörku, og er enn. Í einu af kvæðum Øhlenschlägers bregður Poppedrengen fyrir (sjá hér). Annars var Poppe komið úr þýsku og var gælunafn fyrir þá sem voru svo ólánsamir að heita Jakob. Hefði Jón því með réttu átt að kalla gauk sinn Kobba.

nonni_og_imba_1262287.jpgHvort Poppedrengen hafi verið á hægri eða vinstri vængnum, er ekki vitað, en hann skipti sér iðulega af stjórnmála- viðræðum á heimili Jóns og Ingibjargar. Þegar of miklar öfgar voru komnar í fuglinn og hann var farinn að kalla andstæðinga sína ljótum nöfnum, var í snarheitum breitt klæði yfir búrið sem hann bjó í til að róa kvikindið niður. Kem ég hér með þeirri aðferð til skila til háttvirts forseta Alþingis.

Ekki er til ljósmynd af Poppedrengen svo vitað sé, en Fornleifur óskar í staðinn lesendum sínum gleðilegrar hátíðar á afmæli Jóns með silkibút ísaumuðum með hinum konunglega íslenska fálka. Svona smádúk gátu heppnir reykingamenn í Belgíu og Hollandi átt það til að finna í sígarettupökkum fyrir rúmum 100 árum síðan. Það hefur væntanlega glatt margan krabbameinssjúklinginn.

Ef til vill hefur Sigurður Guðmundsson ætlað sér að hanna páfagauksmerki til heiðurs Jóni, en þá tekist það svo illa að úr varð fálki. Það er að minnsta kosti vinnutillaga dagsins.

picasion_com_4914de44e726a26def307bced518ae66_1262296.gif


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ágæt hugmynd og að öllum líkindum rétt. Það er þekktur siður að gera fyrirmönnum merki með dýrum sem framandi eru á þeirra slóðum eða hvergi til nema í hugmyndaheiminum og nægir að benda á skjaldarmerki Íslands og Danmerkur því til staðfestingar, þar sem bláum ljónum, risa og finngálkni bregður fyrir. Til að sjá geta verið allnokkur líkindi með fálka og páfagauki, sérstaklega ef maður er ekkert að hengja sig í smáatriði. Því má vel vera að gaukur hafi orðið valur í pensildráttum málarans og hefur annað eins gert.
Getur verið að gaukur Jóns og Ingibjargar hafi sloppið úr haldi, gerst útlagi i hinum danska beykiskógi og aukið þar kyn sitt? Ég hefði haldið það firru eina þar til í vor snemma að úr trjálundi vænum á Falstri bárust skrækir páfagauka við sólsetur. Þetta var með ólíkindum en hafandi áður heyrt ómstrítt org gaukanna á suðlægari breiddargráðum þóttist ég næsta viss. Og viti menn. Hið alvísa internet staðfestir að páfagaukar hafa að sönnu numið land í Danmörku, sbr. http://www.dof.dk/om-dof/nyheder?nyhed_id=255
Og ekki nóg með það. Mig grunar að þeir hafi líka fengið kosningarétt.
Gleðilega þjóðhátíðarrest Fornleifur góður.

Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 17.6.2015 kl. 18:53

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Du har skudt papagøjen, að venju Christian. Óþolandi eru fuglar sem í sífellu segja "Poppedreng ha´ sukker - Poppedreng ha´ sukker", en slíkt gagna stjórnmál mikið út á.

Samt þætti mér öfgar og dýraplagerí að breiða teppi yfir allt fuglahúsið við Austurvöll. Nóg er að skapa nótt fyrir illfygli þau sem mest eru til vandræða. Menn geta skotið þau niður í kosningum, jafnvel þótt sumt fiðurfé sé nærri ófleygt eins sumar álkur og mörgæsir. Ljótt er hins vegar að skjóta furðufugla í útrýmingarhættu, tittlinga, rindla og lóur og er ekki líka búið að friða skarfa. Vendisnípur eru friðaðar í Færeyjum.

Margir fuglanna sem hreiðrað hafa um sig við Austurvöll hefur verið klakið út í hitakössum sem framleiða það sem á erlendum málum eru kölluð avis, og sem nú er nær útdauð tegund í hinu hreina formi. Úrkynjun úr fúleggjum líkt og DV-krákuna mætti breiða yfir án þess að tjáningarfrelsi gaggandi vitlausra fugla væri misboðið.

Mundu, næst er þú ferð á þá marflötu eyju Falstur og er grænar pútur angra þig með gargi fram á rauða nótt, að páfagaukar eru ekki eins friðaðir í Danaveldi og á Íslandi. Á Íslandi er hinn ofsótti ófiðraði KFChicken orðinn þjóðarréttur sem lifandi ógnar verkfallsrétti og sem gerir aligæsir að farfuglum. Eins gott er að Tommaborgarar séu ófleygir.

Hætti ég nú þessu arnarþusi svo smáfuglarnir sem tína hér upp fræ viskunnar fari ekki að nota fleiri heilasellur en þær sem Guð á himninum hefur gefið þeim til að reyna að skilja þessa háfleygu fuglafræði á 17. júni annó 2015. Skál í vatni, ef þú átt slíka nærri pinna þínum.

FORNLEIFUR, 17.6.2015 kl. 22:56

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Ég frétti af því að gargandi stjórnlausir hettumáfar hefur verið að ybba gogg í dag fyrir utan fuglabúrið. Þeir eru ekkert betri en ránfuglarnir.

FORNLEIFUR, 17.6.2015 kl. 23:02

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Mæli ég með því að menn hlusti á upptökur rauðþrastar máli mínu til sönnunar: http://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1803102/

FORNLEIFUR, 17.6.2015 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband