Pabba kné er klárinn minn, en Hitler hann er foringinn
24.10.2015 | 18:53
Aldamótaárið 1900 sat fimm ára, prúðbúinn drengur í matrósafötum og á sauðskinnskóm á hné föður síns, Þórðar Guðjohnsens (1844-1926) verslunarstjóra á Húsavík. Drengurinn hét Halldór Jóhannes Guðjohnsen.
Þórður gamli, Halldór sonur hans og tvær systur hans sátu fyrir er Frederick W.W.Howell kom við á einum af ferðum sínum um landið sem hann eilífaði í frábærum ljósmyndum, sem maður þreytist seint á að rýna í. Kannski var tilefni myndatökunnar að Þórður var að hætta kaupmennsku á Húsavík aldamótaárið 1900, og fluttist hann skömmu síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann vann lítillega við verslun. Þar óx Halldór sonur hans úr grasi ásamt sumum systkina sinna og lærði samkvæmt íslenskum heimildum (hinni óskeikulu Íslendingabók) búfræði og varð síðar á ævinni titlaður framkvæmdastjóri.
Ljósmynd Howells af Þórði og börnum hans þykir mér meðal bestu mynda Howells frá Íslandi. Þær eru nú varðveittar í Fiske-safninu í bókasafni Cornell háskólans. Ég hafði svo sannarlega ekki búist við að finna neinar frekari tengingar við þessa ágætu ljósmynd, en stundum rekst maður á menn á myndum í mismunandi samhengi.
Síðustu vikurnar og næstu mánuðina sit ég á Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn og stunda "nasistaveiðar" fyrir Simon Wiesenthal Stofnunina í Jerúsalem, sem Íslendingar bölsótuðust út í þegar stofnunin vildi lögsækja eistneskan morðingja sem hafði verið friðaður af íslenskum stjórnmálamönnum og eistneskum kollegum þeirra.
Þegar íslenskur örn veiðir dönsk illfygli fyrir alþjóðlega stofnun er alltaf einhver aukaafli, fyrir utan kvótann af vondum Dönum sem eru undir smásjánni. Ég hef þegar rekist á upplýsingar um löngu liðna íslenska nasista, sem ekki hafa birst í ritum um íslenska nasista, þ.e. í hinum annars ágætu ritum Berlínarblús eftir Ágúst Guðmundsson eða Íslenskum Nasistum eftir tómstundanasistaveiðarana Hrafn og Illuga Jökulssyni.
Íslenskur liðsmaður HIPO-sveitanna
Halldór Jóhannes Gudjohnsen (1895-1966) var einn af þeim sem heillaðist af nasismanum. Hann fékk 5 ára fangelsisdóm í borgarétti Kaupmannhafnar í lok janúar 1946 fyrir störf sín fyrir HIPO-korpset (Hilfspolizei), ET ("Efterretningstjenesten") sem var deild í HIPO-korpset, sem og fyrir deild C9 sem einnig var var kölluð Lorenzengruppen, og sem var botnlangi löðurmenna í HIPO-sveitunum. HIPO var sveit fúlmenna og lítilmenna sem unnu fyrir Þjóðverja við að herja á og myrða meðlimi dönsku andspyrnuhreyfingarinnar og til að brjóta niður hvaða mótþróa við Þriðja ríkið sem var. Sveitirnar muna menn mest eftir vegna óvenjumikils hrottaskaps þeirra, þegar þeir unnu skítverk fyrir setulið Þjóðverja í Danmörku.
Konan njósnaði í sporvögnum
Strax skal tekið fram, að Halldór Jóhannes Gudjohnsen var ekki í framvarðarliði HIPO-sveitarinnar sem barði á fólki. Málin þróuðust þannig að hann fékk vinnu hjá HIPO árið 1944 gegnum tengsl sem kona hans hafði, en hún var dæmd fyrir að vera Sporvognsstikker. Hún var með öðrum orðum launuð kjaftakerling, sem ók um í sporvögnum Kaupmannahafnar og hlustaði á allt það sem farþegar kynnu að segja ljótt um Þjóðverja og kom upplýsingum um það til Gestapo, HIPO eða annarra óþokka.
Halldór var hins vegar ráðinn til að kenna liðsmönnum Hipo leikfimi og Jiu-Jitsu sjálfsvarnarlist. Engar sögur fara af því hvar hann lærði þá list, en vart hefur það verið á Húsavík.
Liðsmenn Hipo-sveitarinnar voru hins vegar þekktar fyrir mest annað en sjálfvarnir. Barsmíðar á saklausu fólki og fólskulegar árásir þeirra voru þeirra sérgrein. Eitthvað hefur kennsla íslenskættaða Jiu-Jitsu meistarans hjá HIPO farið fyrir ofan garð og neðan.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu eftir stríð, þegar Halldór hafði verið handsamaður, bar hann því við að hann hefði aldrei gert annað en að kenna leikfimi og Jiu-Jitsu. Þegar kom í ljós að mjög fáir sóttu þessa tíma Halldórs, nema skrifstofublækur HIPO, ákvað einn yfirmanna HIPO að Halldór skyldi sinna vaktskyldum á götum Kaupmannahafnar í einkennisbúning E.T., leyniþjónustu HIPO. Halldór þvertók fyrir að hafa gert það og sagðist hafa neitað að gera það með óbeinum líflátshótunum frá yfirmanni sínum fyrir vikið. Nokkur vitna í máli Halldórs höfðu hins vegar með vissu séð hann við þá iðju og í einkennisbúningi E.T. Halldór sagðist hins vegar hafa fengið það hlutverk ásamt rauðhærðum liðsmanni HIPO að svara símum fautanna á skrifstofum þeirra á aðallögreglustöðinni í Kaupmannahöfn. Þar sagðist hann einnig hafa tekið að sér, þegar símarnir voru ekki rauðglóandi af klögumálum nasista, að hreinsa og smyrja byssur Jørgens Lorenzens sem eftir stríð var dæmdur til dauða og síðar til ævilangrar fangelsisvistar. Vitni upplýstu hins vegar að Halldór hefði einnig kennt vopnaburð og meðferð skotvopna hjá HIPO. Önnur vitni töldu einnig öruggt, að Halldór hefði tekið það að sér rétt fyrir stríðslok að brenna og eyða gögnum um HIPO sveitirnar.
Danskir HIPO-liðar. Margir þeirra voru dæmdir til dauða.
Ekkert verra sannaðist upp á Halldór Jóhannes Guðjohnsen - fyrir utan að andspyrnumaður einn í úthverfi Kaupmannahafnar, þar sem Halldór bjó ásamt konu sinni og tveimur börnum, upplýsti yfirvöld um að nágrannar Halldórs hefðu sagt sögur af honum og seðlabúntum með 100 krónu seðlum, sem Halldór var sagður veifa framan í fólk til að sýna því hve vel maður gat þénað í þjónustu sinni fyrir nasismann og Þýskaland, sem hann studdi heils hugar samkvæmt yfirheyrsluskýrslum dönsku lögreglunnar. Vel launaður var hann vissulega í þessu óheppilega starfi sínu. Þegar lögreglan ætlaði að hafa hendur í hári mannsins sem stærði sig af seðlum sínum, kom í ljós að hann sat þegar inni, og kona hans einnig. Þegar lögreglan hringdi í heimasíma Gudjohnsens fjölskyldunnar í Rødovre, svaraði dóttir þeirra hjóna og upplýsti að báðir foreldrarnir sætu í steininum.
Líkt og margir minniháttar nasistar í Danmörku var Halldór sýknaður ári eftir að hann var dæmdur til 4-5 ára fangelsisvistar. Fyrir landráðið sat Halldór því ekki meira en rétt rúm 2 ár.
Lýk ég þessum pistli um áður óþekktan, íslenskan nasista með ljósmynd af einum af liðsmönnum HIPO sem er að sparka mann til óbóta. Ólíklegt þykir mér að óþokkinn sá hafi lært brögð af Jiu-Jitsu meistara HIPO, Halldóri Jóhannesi Guðjohnsen. En hvað þykir ykkur góðu landar, kunnið þið Jiu-Jitsu?
Meginflokkur: Besættelsestiden | Aukaflokkur: Íslenskir nasistar | Breytt 7.9.2019 kl. 05:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.