Sonur forsetans dæmdi mann til dauða

nazi-bjorn.jpg

Ég sit þessa dagana og næstu mánuðina ásamt öflugum dönskum sagnfræðingi og leita uppi Dani sem gengu í SS-Frikorps Danmark 1942-43, og sem síðar voru þjálfaðir voru í illræmdum fangabúðum og vinnubúðum SS, Waldlager nærri Bobrusik í Hvítarússlandi. Þar voru gyðingar myrtir í þúsundatali og voru morð á gyðingum liður í þjálfun SS-manna frá Danmörku og annars staðar frá. Við vonumst til að finna á lífi einhverja þeirra 800 - 900 Dana sem fengu þjálfun í Bobruisk.

Fjöldi þessarar Freikorpssveitarmanna féll á Austurvígstöðvunum, Króatíu og víðar í þjónustu Þýskalands, en margir komust líka aftur heim. Þeir sem aftur sneru fengu 2-6 ára dóma, þá þyngstu fyrir skítlegt eðli sem þeir sýndu í Danmörku en alls ekki fyrir "störf" sín í Bobruisk. Framferði Danskra Frikorps-manna við gyðingadráp höfðu dönsk yfirvöld engan áhuga á. Flestir danskra Frikorpsmanna sem voru í Bobruisk voru sloppnir aftur út í þjóðfélagið eftir 1-2 ára vist í fangelsi. Tveir þessara manna voru þegar fundnir á lífi áður en rannsókn okkar Larsens fyrir Simon Wiesenthal Center i Jerúsalem hófst, og gengur annar þeirra, Helmuth Leif Rasmussen, frjáls ferða sinna um götur Kaupmannahafnar og hefur aldrei verið sóttur til saka fyrir þátttöku sína í gyðingamorðum í búðunum í Hvíta-Rússlandi. Hann hlær af fórnarlömbunum, m.a. þegar hann heldur því fram að hann hafi mestar áhyggjur af því að "vinir hans sem séu gyðingar snúi við sér bakinu" vegna upplýsinga um veru hans í búðunum í Hvítarússlandi.

Þegar íslenskur nasistaveiðimaður veiðir dönsk illfygli í dönskum skjalasöfnum er alltaf einhver aukaafli, fyrir utan kvótann. Ég hef þegar rekist á upplýsingar um íslenska nasista, þó ekki menn sem tóku þátt í gyðingamorðum í Waldlager við Bobruisk

Sonur forsetans

Þekktastur allra íslenskra nasista er líklega sonur fyrsta forseta lýðveldisins, sonur Sveins Björnssonar, Björn Sv. Björnsson. Um hann hefur verið rituð mikil ógrynni af efni í bókinni Berlínarblús, sem og í æviminningum Björns sem Nanna Rögnvaldsdóttir ritaði og sem út kom árið 1989. Nýlega birtist einnig grein á vefsíðunni Lemúrnum, þar sem birt voru áhugaverð gögn um Björn Sv. Björnsson sem ekki höfðu áður sést. Mesta furðu mína við lestur athugasemda við þá grein vakti það hve rómaður Björn Sv. Björnsson var meðal sumra samferðamanna sinna og nemenda.

Björn sýndi ófína takta á Stöng í Þjórsárdal árið 1986

Ég hef sjálfur mætt þessum manni tvisvar á ævinni. Fyrst sá ég hann ungur að árum þegar hann lék á fiðlu í uppsetningu óperettu í skóla á Seltjarnarnesi, þar sem annar hver söngvara söng rammfalskt. Afi mín og amma drógu mig og systur mínar með á þessa hörmung. Annað skiptið sem ég rakst á Björn var þegar hann kom sem fararstjóri með hóp þýskra ferðamanna að Stöng í Þjórsárdal, þar sem ég stýrði fornleifarannsóknum. Þetta var sumarið 1986.

Ég og 2-3 samstarfsmenn mínir voru önnum kafin við teikningar og ljósmyndun áður en rigning gerði vinnu okkar ófæra. Þegar Björn Sv. Björnsson, sem gekk með staf vegna bæklunar, hefur kjagað upp að Stöng, heimtaði hann með frekju og yfirgangi að ég héldi ræðu um rannsóknirnar fyrir þýsku ferðamennina. Ég segi honum fyrst mjög kurteislega að ég hafi ekki tíma til þess. Þá reiddist Björn, sem greinilega var vanur að fá það sem hann vildi þegar hann skipaði mönnum fyrir. Hafði hann í hótunum við mig um að hafa samband við Þjóðminjasafnið og Þjóðminjavörð og kæra mig. Ég sagði honum þá eftir stundarþögn, því fokið var í mig, að það væri honum velkomið að gera þar sem þessi rannsókn væri alls ekki á vegum Þjóðminjasafnsins, en ég gæti vitaskuld einnig sagt samferðafólki hans öll deili á honum og það á þýsku, sem og að ég teldi hann ekki vera Íslending. Við það lyppaðist karlinn niður og sagði ekki aukatekið orð, vappaði síðan um eins og særður fugl og haltraði niður hólinn. Rútubílstjórinn hans, sem varð vitni að ófyrirleitinni framkomu Björns í minn garð sem og erlendra samstarfsmanna minna, og blöskraði það, tjáði mér frá uppákomum á ferðum sínum með honum og sagði mér sögu af því hvernig Björn Sv. Björnsson hafði fengið hóp af þýskum gamlingjum til að syngja gamla nasistasöngva þegar hópurinn var staddur á Edduhótelinu í Skógum undir Eyjafjöllum.

Framkoma Björns Sv. Björnssonar á Stöng sýndi mér eðli þeirra manna sem heilluðust af nasismanum.

bjorn_og_roosevelt.jpg

Faðir Björns Sv. Björnssonar, Sveinn Björnsson forseti, ræðir við Franklin D. Roosevelt í Hvíta Húsinu árið 1945.

Sonur forsetans dæmdi mann til dauða

Við vinnu mína í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn, hef ég þegar rekist á nafn Björns í fjórum mismunandi dómsmálum. Í tveimur málum kemur hann við sögu sem settur útvarpsstjóri SS í danska Ríkisútvarpinu, þar sem hann hafnar vinnuumsókn eins manns. Í öðru máli gegn dönskum SS-manni kemur nafn hans fyrir á lista danska nasistaflokksins yfir Danska SS-liða, sem gengið höfðu i SS í Þýskalandi fyrir árslok 1943.

Það sem vakti þó mesta undran mína, m.a. vegna þess að það hefur ekki komið fram í ævisögu Björns eða öðrum bókum, er að að Björn Sv. Björnsson var skipaður í dómarasæti þann 30. apríl 1945 og dæmdi ásamt 2 öðrum SS-mönnum fyrrverandi danskan SS-mann til dauða fyrir liðhlaup og þjófnað:

"In der Strafsache gegen den dänischen Staatsangehörigen

SS-Rottenführer N.N.
Geb. 31.1.1915 in B...
SS-PZ. Gren. A.u.E. Batl. 11, Graz,

wegen Fahnenflucht u.a.,

hat das am 30. April 1945 in Kopenhagen zusammengetretene Feldgericht, an dem teilgenommen haben
                          als Richter:

SS-Hauptsturmführer und SS-Richter Dr. Espig, als Vorsitzer,
SS-Untersturmführer Björnson
SS Standarte "Kurt Eggers",
SS-Sturmann Dahlmann
SS-Standarte "Kurt Eggers", ...

...
für Recht erkannt:
Der Angeklagte N.N. wird wegen Kriegsverrats, Fahnenflucht im Felde, Preisgabe von Dienstgegenständen in 2 Fällen, Einbruchdiebstahls in 2 Fällen und wegen einfachen Diebstahls
                           zum Tode
Verurteilt, aus der SS ausgestossen und für wehrunwürdig erklärt."

fb4da183f75d.jpg

Björn Sv. Björnsson, dauðadómari og síðar fararstjóri

Dómurinn yfir liðhlauparanum frá Fjóni var staðfestur þann 3. maí 1945, deginum fyrir uppgjöf Þjóðverja, og var dómnum að öllum líkindum þess vegna ekki framfylgt.

Í Berlín var árið 1944 skrifað á eftirfarandi hátt um íslenska SS-manninn Björn Sv. Björnsson:

"Sem yfirmaður Kaupmannahafnardeildar herdeildarinnar [Standarte Kurt Eggers] hefur Björnsson liðsforingi unnið framúrskarandi starf í nýliðun Waffen-SS-sveitanna og aukið ítök í dönskum fjölmiðlum. Reyndist einnig vel í bardaga sem hermaður við innrásina í Sovétríkin. Er sonur núverandi forseta Íslands, sem ber að hafa sérstaklega í huga við mat á frammistöðu og verkum hans".

Nú vitum við, að hinn ólánssami sonur forseta Íslands var einnig reiðubúinn að dæma aðra ólánssama menn til dauða, og fóru létt með það. Það sýnir okkur að seint ber mönnum að treysta sjálfsævisögum og metsölubókum um nasista sem gefnar eru auðtrúa fólki sem jólagjafir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þótt nasistum sjálfum hafi þótt talsvert til þess koma hvers son maðurinn var og að því sé mikið flaggað ævinlega þegar fjallað er um faðerni hans, er það almenn skoðun mín að það sé ekki sanngjarnt þegar sífellt er tönnlast á svona skyldleika, saklausum aðstandendum og ættmennum til armæðu.

Ómar Ragnarsson, 25.10.2015 kl. 22:48

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Nú hef ég lesið almenna skoðun þína, Ómar. Hún er persónuleg, og alls ekki almenn.

Sveinn Björnsson gat ef til vill ekki gert af því að eiga þennan son, en hann var samt sonur hans, og ættingi þeirra ættingja sinna sem hafa þagað um hann í stað þess að fordæma þá stefnu sem hann aðhylltist.

Björn kvartaði sífellt við yfirmenn sína, um að hann væri hlunnfarinn um tign og titla, en hann tók aldrei út þann dóm sem meðreiðarsveinar hans fengu, en sem hann slapp við vegna klókinda íslenskra stjórnmálamanna. Að mínu mati var þessi maður ekki Íslendingur eftir 1941. Hvað ættingjum hans mætti þykja um álit mitt og annarra á glöpum forsetasonarins skiptir ekki máli, því þeir eru ekki þeir seku. Skömm þeirra, ef hún er einhver, kemur fyrst og fremst af því að þeir hafa aldrei tekið afstöðu gegn þeirri helstefnu og mannfyrirlitningu sem frændi þeirra fylgdi og var tibúinn að dæma menn til dauða með.

FORNLEIFUR, 25.10.2015 kl. 23:11

3 Smámynd: FORNLEIFUR

 Þegar Sveinn Björnssson fór í jarðarför Kristjáns X, var hann tvístígandi um, hvort hann ætti yfirleitt að mæta. Sveinn var mest smeikur við viðbrögð danskra dagblaða. Sum þeirra voru ekki búin að gleyma "ham med nazistssønnen".

C.A.C. Brun, fyrrverandi sendirráðunautur í danska sendiráðinu í Reykjavík, síðar sendiherra á Íslandi og yfirmaður pólitískrar deildar utanríkisráðuneytisins, tók ekki annað í mál, en að Sveinn kæmi, og svo varð úr.

Áður en Sveinn kom, var Brun persónulega búinn að heimsækja ritstjóra helstu blaðanna í Kaupmannahöfn og biðja þá um að skrifa ekki eitt aukatekið orð um "soninn", sem aldrei var dæmdur, og sem mörgum manninum var enn minnistæður.

Þegar Sveinn kom til Kastrup, og hafði flugvélinni seinkað, tók á móti honum Knútur prins, því Friðrik 9. fann sér ástæðu til að mæta ekki eins og fyrirhugað var. Knútur, sem ekki steig í vitið, var búinn að éta ríflega af rækjusnittum og drekka vínið sem boðið var upp á í Kastrup áður en Sveinn lenti. Brun ræddi við Knút, sem spurði hvað þessi forseti frá Íslandi, sem sveik föður sinn þegar á reyndi, væri að vilja í jarðaförina. C.A.C. Brun skýrði út fyrir hinum konunglega kjána, að Sveinn Björnsson hafi alla tíð staðið við hlið konungs síns, meðan Ísland heyrði undir hann. Þá hrekkur út úr Knúti. "þetta vissi ég, en segðu bróður mínum þetta, næst þegar þú hittir hann".

Friðrik 9. nærði á fordómum i garð ákveðinna Íslendinga, og lét eitt sinn þau orð falla í við hádegisverð á Amalienborg, að allir Íslendingar væru velkomnir til að gista hjá sér í höllinni nema Sveinn Björnsson. Enn þurfti Brun að skýra hið rétta fyrir hinum nýja konungi.

Kann að vera að "sonurinn úr SS" hafi eitthvað átt hlut í máli, en kannski ekki, því nú vita allir í Danmörku að hluti dönsku konungsættarinnar var einnig höll undi nasismann.

FORNLEIFUR, 26.10.2015 kl. 10:16

4 identicon

Í bókinni Berlínarblús er góð samantekt um nazistann Björn Sv. Björnsson.  Hann var útvarpsstjóri Danska útvarpsins en eftir stríðslok gaf hann sig fram við lögreglu  og óskaði eftir að verða settur í varðhald.  Þetta var eftir að Guðmundur Kambann hafði verið myrtur af félögum í andspyrnuhreyfingunni.  Móðir Björns frú Georgína reyndi að fá hann lausann og lögfræðingur hennar funduðu með Utanríkisráðherra Danmerkur Chrismas Møller og gaf hann fyrirmæli um að Björn skyldi látinn laus en herstjórn Bandamanna fór ekki eftir þeim tilmælum.  Eftir að Björn var látinn laus og var lagður af stað til Íslands fór faðir hans fram á við íslensk dagblöð að þau minntust ekki á son sinn og öll blöðin urðu við þeirri beiðni nema Þjóðviljinn.  Það er enginn vafi á því að Nazistinn Björn SV. Björnsson naut í gegnum alla sína ævi forréttinda sem fylgdu því að vera fæddur inn í valdaklíkuna á Íslandi. Engin ástæða er til að "hlífa" aðstandendum hans við sannleikanum.  T.d. bjó Björn á Bessastöðum eftir að hann kom til Íslands. Hvorki Björn né fjölskylda hans virtust skilja að Björn var landráðamaður sem hafði með ofbeldi yfirtekið Danska Ríkisútvarpið og átti að sitja í fangelsi.  Forsetinn hélt meira að segja veislu á Bessastöðum eftir stríðslok þar sem Nazistinn Björn Sv. Björnsson var meðal gesta.  Danski Sendiherrann gekk út úr þeirri veislu og þá virðist Forsetinn hafa skilið að SS Sonurinn væri óæskilegur.

Þráinn Kristinssonq (IP-tala skráð) 26.10.2015 kl. 10:50

5 Smámynd: FORNLEIFUR

 Þakka þér fyrir Þráinn. Bók Ágústs stendur a margan hátt fyrir sínu, og þessi grein mín er aðeins lítil viðbót sem hann þekkti ekki og gat ekki þekkt. Ég held að þú hafir á réttu að standa. Sumir á Íslandi sáu ekki hve mikið brenglun nasisminn var. Það held ég þó að Sveinn Björnsson hafi gert, en hann reyndir að eyða umræðunni og stakk höfðinu í sandinn. Ég tel víst að ættmenni almúgamanna sem einnig veðjuðu á nasismann og SS hafi þótt þægilegast að öllu yrði gleymt.

FORNLEIFUR, 26.10.2015 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband