Dýr var Denni ekki

denni_dyri_1278175.jpg

Sumt af því sem safnað er á Þjóðminjasafni Íslands er selt fyrir slikk á eBay. Ekki svo að skilja að Þjóðminjasafnið sé farið að selja út af Þjóðararfinum. Nei, nei svei mér þá, en safngeymslurnar líkjast æ meira skranverslun með 20. aldar gripum, meðan fjárlög fara í að gylla þjóðminjavörð með titlum. Á eBay er oft hægt að finna hluti sem kannski ættu frekar heima á Þjóðminjasafninu en pakki af Melrósate frá 1970. Maður veit þó aldrei hvað síðar meir verður þjóðmenning. Mat manna er mjög mismunandi. Sumir brenna fyrir einhverja nostalgíumenningu frá framsóknarheimili, þar sem uppskriftir húsmæðraskólanna voru a við boðorðin í Biblíunni. Fyrir aðra eru bensíndunkar stærri hluti af íslenskri menningu en koparristumyndir af íslenskum dýrum frá 18. öld sem ekki eru til á söfnum á Íslandi.

Sumar persónur verða einnig fljótt safngripir, og eiginhandaáritun þeirra fer fyrir morðfé. Söfn berjast meira að segja við að ná í jarteiknirnar eins og væri það táin af Kristi. Fólk borgar jafnvel aðgangseyri til að sjá hrafnasparkið þeirra eða borð sem brjálæðingur nokkur frá New York hefur teflt við fjandann við og talið flugur í lampanum yfir. Sá vitleysingur fékk íslenskan ríkisborgararétt að launum - eða var það gyðingahatrið sem var launað?

Ekki vissi ég fyrr en nýlega, að ótíndir íslenskir stjórnmálamenn, sem ekki komust á Bessastaði hefði látið ljósmynda sig til að senda aðdáendum um allan heim. Það var víst tilfellið. Nú er t.d. hægt að kaupa mynd af Steingrími Hermannsson Original, og eiginhandaráritun hans í kaupbæti á eBay. Þetta er til í Þúsundvatnalandinu og hægt að fá fyrir skitnar 171,73 danskar krónur sem gera tæpar 3243 freðkrónur á dagsgengi. Það er náttúrulega skítur á priki og ætti að vera sjálfsagður hlutur fyrir Framsóknar-Reichsstórsafnið við Suðurgötu að kaupa, ef Finnar vilja ekki varðveita portrettið af Denna. Ef Þjóðminjasafnið nær ekki í Denna gæti hugsast að danska sendiráðið kaupi og hengi myndina upp á gestasalerni sínu, þar sem Steingrímur lokaðist eitt sinn inni með vinveittri sendiherrafrú.

En óttalega er Denni nú billegur. Það hefur líklega kostað meira að láta prenta myndina og nota tíma í að árita hana en 3243 krónur. Þó hlýtur Denni að vera dýrari allur en 20 bréf af Melrósatei. Ég trúi ekki öðru. Ég vona að Þjóðminjasafni kaupi þennan dýrgrip, í það minnsta til að sýna framtíðinni hve uppi var typpið á sumum mönnum í landinu okkar á hjara veraldar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband