Sonur Þórhildar gerist gamall

Relateret billede

Friðrik Danaprins verður 100 ára eftir 50 ár. Hann hélt upp á það um daginn með því að hlaupa dágóðar vegalengdir eins og bandóður maður í nokkrum að helstu bæjum Danmerkur. Það er örugglega viturlegt áður en lagst verður í lagkökuát. Blessaður prinsinn þreytti afmælishlaup sitt annan í Hvítasunnu, þrátt fyrir að vera sárþjáður maður með þursabit og gigt. 

Pingo den 1 2
Blaðamaður Fornleifs, sem er snobb og laumu-konungssinni, fór á stúfana til að kanna líkamlegt ástand þessa hálfgerða forngrips, sem verður að bíða konungstignar þangað til mamma hans, sem er hálfgerður fornleifafræðingur, er orðin langþreytt. Ekki held ég að Frederik þurfi þó að bíða eins lengi og frændi hans Charles á Englandi, sem vel gæti tekið upp á því að hrökkva upp af áður en móðir hans gerir það. Vonum að svo verði ekki. Hann yrði líka dágóður kóngur.

Danskir þegnar sóttu mjög í að hlaupa með prinsi sínum í tilefni fimmtugsafmælisins. Svo mikill fjöldi hljóp á götum höfuðborgarinnar, að ljósmyndari Fornleifs hætti að skima eftir erfingjanum og tók bara myndir í belg og við Norðvesturhornið á Konunglega leikhúsinu. Heppnin var með honum, því það tókst að ná mynd af prinsinum, þar sem hann nálgaðist leikhúsið með tvo fíleflda lífverði sér við hlið.

Þarna við hornið, þar sem ég hafði komið mér fyrir, átti hlaupaprinsinn að stöðva og skokka á staðnum meðan að hann hlustaði á fjölda kóra syngja óð sem saminn hefur verið sérstaklega honum til heiðurs. Sá gamli gleymdi því alveg og hljóp rakleiðis áfram, án þess að hlusta á afrakstur margra vikna æfinga fjölda góðra kóra. Kórstjórinn og höfundur söngsins sem pantaður var af hirðinni, lét þau orð falla, eftir að Friðrik Prince Light hafði hoppað framhjá, að nú væri hann orðinn repúblikani. 

Ég skil nú prinsinn eiginlega vel. Hvaða tilgangur er með því að taka þátt í hlaupi sjálfum sér til heiðurs, svo farlama fólk og hækjulið fari fram úr manni vegna þess að maður þarf að hlusta á lofsöng einhvers pöpuls rétt áður en komið er í mark. Hins vegar þykir mér vitaskuld mjög leitt að frú Fornleifs, sem söng fyrir hans konunglegu hátign, ásamt fjölda annarra góðra söngvara, hafi ekki fengið fulla athygli þessa gamla skólafélaga sinn úr stjórnmálafræðinni í Árósi.

Lífið er hraðhlaup, en söngurinn lengir það. Hér er hægt að hlusta á sönginn eftir kórstjórann Peter Spies, þegar fyrstu æfingar hluta kórsins fór fram. Þórhildur gamla er örugglega búin að fá sönginn á diski og flautar hann dagana langa, alein og yfirgefin í höllinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband