Syndafall á Þjóðminjasafni
27.12.2019 | 10:17
Sumarið 1883 stundaði starfsmaður Forngripasafnsins í Reykjavík furðuleg forngripa(við)skipti með þjóðararfinn. Hann lét útsendara frá Nordiska Museet i Stokkhólmi hafa forláta brjóstkringlu frá 16. öld, sem hafði verið búningasilfur kvenna á Íslandi í aldaraðir. Brjóstkringlu þessa, sem sem er úr logagylltu silfri, fékk Nordiska Museet að því er virðist að gjöf þann 8. júlí 1883.
Árið 2008 fékk Þjóðminjasafnið brjóstkringluna aftur að láni í óákveðinn tíma og hefur hún nú hlotið safnanúmerið NMs-38867/2008-5-185. Það vekur hins vegar furðu að starfsmaður Þjóðminjasafnsins, sem fært hefur brjóstkringluna inn í Sarp, skráningarkerfi flestra safna á Íslandi, lætur þetta eftir sér hafa á Sarpi:
í skiptum fyrir R.A., 8.XII. Brjóstkringla. Efni silfur, gylt. Þverm. 6 cm. Sjá Afb. 2 - 3 , Pl. 3, 12 a - b. Fengin frá Forngrs. í skiptum af R.A., 8.XII.1883 kom hún.
Eitthvað virkar þetta eins og endasleppt ruglumbull. En með góðum vilja má ætla, að menn á Þjóðminjasafni viti á einhverju stigi ekki hvort brjóstkringlan hafi komið frá Svíþjóð, en þó er ég ekki viss, því mig grunar að starfsmaðurinn sem skrifar þessa þvælu kunni líklegast ekki setningarfræði og notkun spurningarmerkja. En kom kringan til Íslands? Það má vera eðlileg spurning miðað við allt þetta rugl á Sarpi.
Meðan að brjóstkringlan góða var í Svíþjóð, hafði enginn í Stokkhólmi burði til að rannsaka þennan grip eða uppruna hans, því ekki er hann íslenskur. Kringlan var aðeins skráð þar sem "smycken" frá Íslandi og upplýst er að Forngripasafnið hafi gefið hana Nordiska Museet.
Önnur kringla í "Endurlifnunarstíl"
Nú vill svo til að Forngripasafnið átti annan, sams konar grip og kringluna, sem gefin var til Stokkhólms. Hún ber númerið 2156 (sjá hér) og henni fylgir löng keðja; hvortveggja er logagyllt. Kringlunni þeirri í Forngripasafninu lýsti Sigurður Vigfússon á eftirfarandi hátt:
Hálsfesti úr silfri, algylt, l.um 135 cm., br. 6 mm., þ. 2 mm. Öll samfelld; kveiktir hlekkir, grannir, dálítið undnir, svo festin verður sljett; hún er svo sem tvöföld öll, samsett af tvennum hringum; kemur það glegst í ljós er undið er öfugt upp á hana. Á henni leikur lítill grafinn silfurlás, gyltur, með hring í, og í honum hangir kringlótt kinga, 5,9 cm. að þverm. og 48 gr. að þyngd, steypt úr silfri og gylt, með mjög upphleyptu verki beggja vegna og steyptri snúru umhverfis. Annars vegar er syndafallið, Adam og Eva standa hjá skilningstrjenu góðs og ills; Eva tekur ávöxt af trjenu og Adam heldur á öðrum. Ormurinn (djöfullinn) hringar sig um trjeð. Dýr merkurinnar (einhyrningur, uxi, svanur, hjörtur o.fl.) eru til beggja hliða. Yzt vinstra megin virðist vera Jahve og sendir frá sjer engil á flugi: en yzt hægra megin virðist engill(inn) reka Adam burtu; eru þær myndir miklu smærri en aðalmyndin. Trjeð er með mikilli krónu og fyrir neðan hana er letrað: MVLIER . DE - DIT. MIHI/ ET . COMEDI . - GE . 2. ( þ.e. konan gaf mjer og jeg át með. Genesis [1. bók Móse ] 2. [kap.]). Hins vegar er friðþægingin fyrir syndafall og syndir mannkynsins; Krossfesting Krists. Umhverfis Krist að ofan eru geislar í hálfhring. Sinn ræninginn er til hvorrar handar. María frá Magdölum krýpur við kross Krists og heldur um hann. Önnur kona ( María móðir Krists?) snýr sjer undan og gengur frá. Hermaður (Longinus) ætlar að stinga spjóti í síðu Krists; annar að brjóta með kylfu fótleggi annars ræningjanna. Höfuðsmaðurinn (Longinus) situr á hestsbaki hjá krossi Krists og hefur spjót sitt á lopti. Beggja vegna við krossana og milli þeirra er leturlína yfir þvera kinguna: MIS-ERERE. NO-BIS - DOMI-NE( þ.e. Miskunna oss drottinn ). Alt er þetta í endurlifnunarstýl og líklega frá 16.öld. Sennilega gjört í Þýzkalandi, í upphafi, að minsta kosti. - Festin (og kingan) er sögð að vera frá Jóni biskupi Arasyni, en seinast hefur átt hana Sigurður á Vatnsleysu (Jónsson) (S.V.).
Öll þessi fræðsla Sigurðar Vigfússonar var góð og blessuð, eins langt og hún náði, og Sigurður Vigfússon gerði sér eins og sannur síðendurlifnunarstílisti far um að fræðast, sem og upplýsa þá sem áttu þjóðararfinn. Mættu menn taka hann sér til fyrirmyndar, bæði í á Nordiska Museet og á Þjóðminjasafni nútímans.
Medalía en ekki brjóstkringla
Þó Sigurður Vigfússon hafi miðlað haldgóðum upplýsingum og komist nærri um flest hvað varðar "brjóstkringlu", og sem sögð var frá Jóni Biskupi Arasyni komin, hafði hann ekki aðgang af öllum þeim upplýsingum sem fólk hefur í dag, en sem sumir virðast þó ekki geta nýtt sér til gagns eða gamans.
Með örlítilli fyrirhöfn er fljótt hægt að komast að því að þær tvær "brjóstkringlur" sem varðveittust á Íslandi eru í raun medalíur, sem Jóhann fyrsti Friðrik hinn mikilfenglegi, kjörfursti af Saxlandi (Johann Friedrich der Großmütige von Sachsen;1532-1547) lét steypa (og ekki slá) einhvern tíma stuttu eftir árið 1535 - eða um það bil - eða að minnsta kosti áður en hann hrökk upp af vegna offitu og lystalifnaðs. Hann var mikill fylgisveinn Marteins Lúters og átu þeir kumpánar greinilega sams konar mat.
Lukas Cranach eilífaði Jóhann kjörfursta eins og kæfu í dós.
Medalíumeistarinn, eða listamaðurinn sem steypti medalíurnar, var Hans Reinhard inn eldri, sem starfaði á tímabilinu 1535 fram til 1568.
Nýlega var á uppboði í Vínarborg seld medalía af þeirri gerð, sem frekt og ríkt siðbótarfólk bar um hálsinn á Íslandi er það rændi og hlunnfór aðra. Medalían fór á 700 evrur (sjá hér).
Fornleifur vonar nú að Þjóðminjasafnið taki við sér og fari á árinu 2020 að skrá ókeypis upplýsingar um gripi safnsins sem Fornleifur hefur nú í allmörg ár miðlað hér á blogginu til almennings. Safnið verður vitaskuld að vitna í Fornleif og éta orðrétt eftir honum - Eða eins og ritað stendur ANTIQUUS DETID MIHI ET COMEDI og étið það!
Meginflokkur: Fornminjar | Aukaflokkar: Menning og listir, Silfur | Breytt s.d. kl. 10:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.