Grófur plattfiskur og spilletittlingar: Nokkur brot úr skreiðarsögunni

Snijders Pushkin 2

Yfirfiskmatsmaður rannsóknarsviðs fornleifadeildar Fornleifs hefur um langt skeið verið að leita uppi gamla skreið í útlöndum, fyrst enginn annar gerir það og skreiðarbækur hafa birst án myndskreytinga. Með hanska og í hvítum slopp leitar matsmaðurinn að öllum heimildum um skreið sem hann kemst í. Stundum kemur fyrir að 350 ára skreiðarleifar finnist í ruslagryfjum stórborgum útlanda, og þá gleðst auðvitað yfirfisksmatsmaðurinn hér á ritstjórn Fornleifs. 

Helst er það skreið og harðfiskur sem fyrir löngu er kominn yfir sölutíma, og sem gæti átt ætti sínar að rekja til Íslandsmiða, sem kitlar matsmanninn. Það er nefnilega hægt að leita fiskjar og veiða ýmislegt bitastætt í listasögunni á veraldarnetinu.

Í Hollandi nútímans er skreiðin þó frekar lítilfjörleg. Ég fann t.d. 350 grömm af einhverri tittlingsskreið fyrir 21 evru. Látið það nú ekki lokka ykkur af votum draumi inn í ESB. Í Evrópu vilja þeir fiskinn ókeypis til að græða sem mest á honum og þar að auki ótakmarkaðan aðgang að Íslandsmiðum, sem er og verður ófrávíkjanleg krafa ESB.

Screenshot_2021-04-05 stokvis 2 personen (350 gram) - Piet Korf Vishandel

Ef menn kafa niður í listasögu Niðurlanda er marga skreiðina hægt að finna. Myndin efst, sem hangir á Puskín listasafninu í Moskvu, er frá 1616. Hún er máluð af Frans Snijders (nafnið var einnig ritað Snyders). Frans (Franciscus)Snijders fæddist í Antwerpen árið 1579 og starfaði þar lengst af, fyrir utan nokkur ár í byrjun 17. aldar er hann dvaldi á Ítalíu. Frans þótti gaman að mála mat sinn eða annarra líkt og mörgum í Niðurlöndum, þannig að nóg var að gera fyrir hann í listinni sem hann efnaðist betur á en meistari Rembrandt í Amsterdam. Málverkið hér fyrir ofan í Moskvu var alls ekki eina matarverkið sem Frans Snyders málaði af fiskverslun. Hann var harla stórtækur útgerðarmálari og þótti á allan hátt næsta frábær í stillebenslist (uppstillingum) sinni.

Málverkið er ágæt heimild um þá skreiðarpakka sem fluttir voru út frá Noregi og Íslandi. Nú skulum við ekki fara að rífast um hvaðan skreiðarpakkinn hjá Snyders er ættaður. Það gæti frændum okkar leiðst og þeir farið að gráta og þvælst út í málaferli og bætt því við eignarhaldskröfu sína á Snorra og annað íslenskt sem gnæfði yfir hæstu tinda norskrar afdalamenningar. Við á Íslandi vitum örlítið um hvernig menn pökkuðu skreiðina fyrr á öldum. Furðanlega hafa Norðmenn ekki eins mikla vitneskju, enda var skreiðin ávallt mikilvægari Íslendingum en þorra Norðmanna.

Takið eftir stærð skreiðarbaggans! Hann virðist girtur með tágargjörðum og sérfræðingur einn af norðan, sem er borgarbarninu Fornleifi oft innan handar um fornar venjur, skrifaði er hann sá málverkið: Það hefur verið tveggja manna tak að flytja svona bagga til, en líklega hefur fiskurinn varðveist vel þegar svona var gengið frá honum.

Rýnt í málverkið í Moskvu 

Snijders Pushkin 3

Fyrir utan fisksölukonuna í Antwerpen? með allar fiskiafurðirnar sínar, er lítill drengur með rauða skó á málverki Snyders. Snáðinn er kannski sonur hennar. Hvað ætli hann tákni eða rauðir skórnir sem hann heldur á? Allt táknaði eitthvað í list Niðurlanda. Kannski ætti ég að "kvíra" (queer) málverkið eins og var í tísku hér um árið: Sá litli er hugsanlega að segja að hann vilji verða ballettdansari en ekki sjómaður. Að vonum er harðkaþólsk móðir hans ekki ánægð með slíkt : Aðrar túlkanir eru auðvitað möguleikar, þótt sú fyrsta sé vitaskuld raunhæfur möguleiki eins og allt fjas og orðflúrið í listfræðinni. Kannski langaði þeim litla einfaldlega ekki að starfa í slori með skreiðarfýlu fyrir vitunum dagana langa. Menn hafa farið í viðskiptafræði fyrir minni ástæðu.

Ýmsar aðrar myndir af fiskkaupmönnum og fisksölum eru til frá hendi Snyders og á nokkrum þeirra bregður skreiðinni fyrir í for eða bakgrunni. Njótið skreiðarinnar hér fyrir neðan.

Frans_snyders-fish_market

Frans_snyders-fishmonger_s 2

Frans_Snyders_and_Cornelis_de_Vos_-_Fish_Market

Frans_Snyders_and_Cornelis_de_Vos_-_Fish_Market 2

Falleg skreið (stokvis/rondvis) í Andvörpum. Á Ítalíu supu þeir hveljur yfir þessum girnilegum Stoccafissum, sem sumir Íslendingar vilja helst ekki heyra um, lykta né sjá. Menn eru farnir að reisa skreiðartrönur á fjöllum til að verja þorpara lykt af peningum. Aðrir eru alveg hættir öllu veseni með skreið. Hvað varðar úrvalið á fiskbúðin Hafberg ekki sjans í þetta fiskival. Hefur Hafberg haft skjaldbökur á boðstól? Æi nei!

Skreið fannst í tunnu í flaki skips 

Hér um árið greindi Fornleifur frá leifum af fiski, hugsanlega plattfisksskreið (Malflattri skrið), sem fundust í flaki hollensk skips (sjá hér) sem sökk árið 1593 í miklu skipsskaðaverði við eyjuna Texel. Texel komst einnig í fréttirnar hér um árið, þegar eyjaskeggjar sumir fóru nokkuð illa út úr klónum á íslenskum bankaræningjum. 

Þeir sem vel eru að sér skreiðarmálum vita að ekki var öll skreið/harðfiskur verkaður á sama hátt. En það vita sumir fornvistfræðingar nútímans ekki allir. Þeir hafa líkast til aldrei bragðað útvatnaða og soðna skreið og rugla oft saman saltfiski og skreið.

Leifar þeirrar skreiðar sem fannst í SO1 flakinu við Texel, er líklega það sem hér fyrr á öldum var kallaður malflattur fiskur á Íslandi, eða plattfiskur á Hansaramáli (danska: Platfisk). Malflattur fiskur var einnig kallaður kviðflattur eða reithertur harðfiskur á Íslandi. Í einu fremsta skreiðarlandi Evrópu, Noregi, var malflattur fiskur kallaður rotskjær, råskjær eða splittfisk á dönsku. Á þessu sést að ekki var menningarheimurinn alveg sá sami í Noregi og á Íslandi þegar kom að skreið. 

Kaupendur settu kröfur og löngum var það erfitt fyrir Íslendinga að skilja að verð fór eftir gæðum.

Skreiðin íslenska eins og við þekkjum hana í dag, þar sem tveir fiskar eru eftir afhausun, slægingu og hreinsun, bundnir saman við sporðinn og þurrkaður á trönum. Það verður því miður æ sjaldséðara á Íslandi og lyktin maður, minnumst ekki á lyktina. Skreiðarfýlu hefur verið úthýst á Akranesi, því íbúarnir voru farnir að ilma af sápu.

Trönuþurrkaðan fisk kalla menn í Evrópu Stockfish/Stokvis/Stokfisk/Stoccafisso. Norðmenn kölluðu þá skreið stokkfisk eða rundfisk. Heitið rondvis notuðu Hollendingar einnig um skreið en þó mest orðið stokvisk. Þvílíku ástfóstri tóku menn í Hollandi og Belgíu við þennan vinsæla innflutta fisk að þeir tóku sér ættarnafnið Stokvis. Margar ættir í Hollandi báru þetta eftirnafn, og mörgum tilfellum voru Stokvis ættirnar gyðingar, sem voru öflugir sem fisksalar í Amsterdam upp úr miðri 18. öldinni.

Einn helsti skreiðarsögusérfræðingur Íslands, áður en Gísli Gunnarsson var og hét, var Jón Aðils. Jón talaði jafnan um harðfisk en ekki skreið. Hann skýrði margt í bók sinni um Einokunarverslun Dana á Íslandi 1602-1787 sem út kom árið 1919 (sjá bls. 480-484). Jón heldur því fram að Malflattur fiskur hafi fyrst og fremst verið verkaður á Suðurlandi og við Ísafjarðardjúp. Jón taldi einnig að flatti fiskurinn hafi verið hertur á rám í trönum eða hjöllum og kallaður ráskerðingur, sem er íslenskun á dansknorska orðinu fyrir plattfisk. Jón Aðils skýrir þetta á þennan hátt:

Hann hefur stundum að því er virðist verið þaninn út með spelkum eins og lax í reykingu til þess að hann legðist ekki saman og harðnaði fyrr og var þá kallaður Spillefisk eða Spilefisk á dönsku. Jón Aðils upplýsir einnig að Snæfellingar hafi tekið upp á því á árunum 1680-90 að hnakkfletja fiskinn og herða hann síðan á rá. "Varð hinn mesti úlfaþytur út af því, og hvernig sem á því hefur verið staðið, þá fekk þessi hnakkaflatti fiskur, eða Hængefisk sem Danir kölluðu, hið versta orð á sig erlendis".

Aðils upplýsti, að þar fyrir utan væru aðalharðfisktegundirnar flokkaðar eftir stærðinni; Þannig var vertíðarþorskur jafnan kallaður Grov Platfisk af dönskum einokunarkaupmönnum eða Grov Hængefisk, stútungar voru kallaði Middel-Platfisk og Middel-Hængefisk og þyrsklingurinn var kallaður Plat-Titlinger, Hænge-Titlinger eða Spil(l)e-Titlinger. Svo var varan; Ef fiskurinn var ekki þorskur, þá var hann einnig tilgreindur í heimildum  eftir fisktegundinni og verkunaraðferðinni: T.d. Plat-Kuller (ýsur) og Plat-Langer (löngur). Ég hef hér flysjað skán úr verki Jóns Aðils svo að menn geti sjálfir melt hans mikla fróðleik um skreiðarverkun á einokunaröldinni sem hann lét okkur í té.

Screenshot_2021-04-02 Figure 1 3 Butchery of cod family fish for the production of stockfish

    Bein frá SO1

Þegar fiskurinn var kviðflattur, voru ákveðin bein bols þorskfisksins fjarlægð þegar hann hafði verið hausaður og slægður, eins og sjá má á efri teikningunum hér fyrir ofan. Neðri myndin sýnir hvernig aðgerðin að þorskinum hafði skilið eftir merki í beinin í skreiðarinnar í flakinu SO1 við eyjuna Texel.

InnsigliPlattskreið mót

Tvær gerðir af harðfiski/skreið á 16. og 17. öld. Til vinstri er venjuleg skreið (stokkfiskur) á innsigli Íslands, Sigillum Insulae Islandiæ frá 1593 (Þjms. 4390) og til hægri er hinn dýrari plattfiskur á prentmóti frá Hólum sem fyrst var notað til prentunar í sálmabók árið 1589 (Þjms. 445).

. image017

Detalje

Fyrir nokkrum árum síðan var hér á blogginu í fyrsta sinn á Íslandi birt mynd af málverki sem líklega er er elsta málverkið sem málað hefur verið af þessari verðmætu útflutningsvöru. Á málverkinu heldur hollenskur kaupmaður í Björgvin á skreið, og ekki er um að villast að það sem hann heldur á er greinleg ekki meira en meðal skreið/stokkfiskur, jafnvel norskur tittlingur.. Fræðist um myndina hér. Stokkfiskinn var einnig hægt að finna í innsigli Lýbiku-kaupmanna, enda skreiðin ein af mikilvægustu innflutningsvörum Hansa-bandalagsins. Skreiðin kemur einnig síðar fyrir í innsiglum Björgvinjarkaupmanna og víðar, t.d. innsigli á Tromsö, Færeyjum og jafnvel í borginni Deventer suður í eystri hluta Hollands.

Hér fyrir neðan: Málverk frá því um 1595, málað af flæmska meistaranum Lucas von Valkenborch (1535-1597). Á veggnum fyrir aftan konuna, sem er innanbúðar hjá fisksalanum (hún er líklega atvinnurekandi hans), hangir veglegur grófur plattfiskur úr norðurhöfum,sem ég er viss um að frúrnar í Brabant (Brabant er hérað á landamærum Hollands og Flæmingjalands og þaðan mun þessi kvenbúningur vera) hafi verið sólgnar í, þegar kom að löngu föstu og þær komnar í trúræktina og algjért kjétbann. Mér sýnist að eigandi verslunarinnar sé að taka saman kippu af reyktri síld fyrir fínu konurnar.  

14048421731_d5f745a079_o(1)

 14048421731_d5f745a079_o(1) 2

Þegar menn máluðu skreið á 16. og 17 öld er erfitt að segja til um hvaðan skreiðin sem máluð var var ættuð. Skreiðin á myndum í þessu greinarkorni gæti jafnt verið frá Noregi sem Íslandi eða Færeyjum, en líklega hafa Norðmenn þegar eignað sér hana.

Hér geta hinir áhugasömustu lesið grein um rannsóknir á fiskibeinum frá Hansabæjum eftir Hans Christian Küchelmann, þar sem hann vitnar m.a. í grein eftir dr. Guðbjörgu Ólafsdóttur á HÍ-setrinu á Bolungarvík et al. (inter al. est etiam dr. Ragnar Edvardsson, sem er eiginmaður Guðbjargar) sem lesa má hér.

image010

Flattur, hertur fiskur teiknaður á spássíu handritabrots íslensks, sem er varðveitt í Konunglegu Bókhlöðunni í Stokkhólmi. Handritið fjallar um reglur varðandi kirkjuhald og er talið vera frá því um 1360.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband