Eitt sinn var útsýnið gott úr Grjótaþorpinu

IMG_4101 d

Fornleifssafni vex fiskur um hrygg. Nýlegur safnauki kúnstkammers Leifs er Laterna magica myndskyggna frá 19. öld - nánar tiltekið frá 1882 eða 1883. Myndin er vafalaust ein af fyrstu "litljósmyndunum" sem til eru af Reykjavík. Myndin er vitaskuld handmáluð. Ég hef áður lýst einni slíkri mynd sem einnig er í Fornleifssafni en hún sýnir Austurvöll, Dómkirkjuna og Alþingishúsið (sjá hér).

Mynd þessi er gefin út af Riley Bræðrum (sjá frekar um þá og starfssemi þeirra til að kynna Ísland hér), og var gefin út með númerinu 4 í Standard V seríu fyrirtækisins árið 1893. 

David Francis safnvörður á Kent Museum of the Moving Image  hefur upplýst Fornleifssafn að safnið í Kent eigi sömu skyggnuna úr Standard V seríunni en ekki handlitaða. Eldri myndir af höfuðborgum og þorpum Evrópu sem til voru á lager úr eldri seríum Riley bræðra var safnað í nýja seríu, sem kölluð var Standard V. Þetta upplýsir Mr. Francis:

The slide you illustrate is the same as no 4 in the Standard V set. The Museum has the complete Standard V set. Riley Brothers "Standard" Series  were made up of odd slides they had in stock which were then worked into meaningful sets.

Meira um Mr. Francis hér.

Myndin var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og hægt var að kaupa þessar myndir hans á ljósmyndastofu hans í Reykjavík. Á ljósmyndastofu Sigfúsar lá frammi albúm sem menn gátu pantað myndir úr og er það albúm á Þjóðminjasafni Ísland. Safnið hefur verið spurt um hvort mynd þessi sé í albúmi ljósmyndastofu Eymundssonar. Sumar myndir hans bárust til Bretlandseyja og voru notaðar við gerð Laterna Magica skyggnumynda. Meira má lesa um þá iðn í þessari grein Fornleifs, þar sem farið er ítarlega yfir Íslandsseríur Riley-bræðra og annarra skyggnumyndaframleiðenda á Bretlandseyjum.

Nýja myndin í safni Fornleifs er tekin úr vestri. Fúsi karlinn hefur staðið fyrir ofan Aðalstræti og eilífað höfuðstaðinn. Lóðirnar þrjár sem sjást fremst á myndinni eru neðst í Grjótahverfi. Litla húsið lengst til hægri var þar sem Túngata og Kirkjustræti mætast. Ingó á Horninu bjó þarna miklu fyrr.

Austar í Kirkjustræti var númer 10 risið (1879), sem og Alþingishúsið, en við austanverðan Austurvöll, þar sem Hótel Borg er í dag, má sjá elsta pósthúsið í Reykjavík. Styttan af Thorvaldsen var komin á stallinn árið 1874.  Allt smellur þetta vel við dagssetninguna 1882-83. Eymundsson 1886

Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.

Árið 1943 voru sumar af borgarmyndum Eymundssonar gefnar út á prentuðum einblöðungum sem ferðamenn gátu keypt sér. Það væri álíka og ef Rammagerðin færi í dag að selja ljósmyndir frá æsku ritstjóra Fornleifs. Menn söknuðu greinilega gamla tímans í Reykjavík árið 1943. Hvenær fara menn að fjöldaframleiða myndir af núverandi borgarstjóra?

Það voru oftast konur sem sátu og lituðu skyggnur sem framleiddar voru á Bretlandseyjum. Einnig var hægt að fá skyggnurnar ólitaðar, en þær lituðu þóttu fínni. Ef maður hefur í huga, að flöturinn sem litaður var, var innan við 8x8 sm., þá er hefur kona sú sem litað hefur þessa mynd tekist mjög vel við himininn austan við læk. Það er næstum því van Gogh-handbragð á penslinum og bleiki liturinn samofinn við þann ljósbláa og hvíta á himnum líkt og maður sér á ýmsum málverkum Vincent van Goghs frá því um 1888, þegar hann í ófá skipti málar sama ferskjutréð í Arles. Van Gogh var að sögn undir áhrifum frá japanskri list og drakk staup af grænum absinth þess á milli.

IMG_4101 f

Þannig lítur himininn út á skyggnu 4 úr Standard V seríunni, þegar ekki er lýst í gegnum hann. Ljósmynd V.Ö.V. 2022.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband