Gripur úr gulli eldist um nær 200 ár í nýrri íslenskri bók
21.11.2022 | 10:00
Í framhaldi af alþýðlegri grein Fornleifs um alþýðleg fræðistörf Þorvalds Friðrikssonar um hugsanlegan heim írskra og skoskra landnámsmanna á Ísland, barst mér bók Þorvalds með hraði frá Íslandi.
Góður gestur af rammírskum ættum, fornvinur fjölskyldu norrænnar konu minnar (sem er dönsk) kom í heimsókn ásamt konu sinni og færði hann mér bók Þorvalds að gjöf. Ég er þó enn ekki búinn að glugga djúpúðugt í kverið. Þorvaldur Friðriksson telur reyndar að "Djúpúðga"/sem er sama og Djúphugaða (eins og Auður landnámskona er kölluð í Færeyjum) geti þýtt "Guðs félagi" (sjá bls. 117 í "gelísku" orðasafni Þorvalds í bókinni hans Keltar).
Þorvaldur má halda það ef hann vill. Villuþankar eru ekki bannaðir á okkar tímum, því í dag getum við svarað þeim.
Gull/Óir - (Lat. Aurum)
Fornleifur rak vitaskuld strax augun í gull á blaðsíðu 49. Þar birtir Þorvaldur mynd af litlu broti (sem er aðeins um 1. sm að stærð) af nælu sem fannst við fornleifauppgröft í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi fyrr á öldinni.
Án nokkurra vitrænna tilvitnanna í þennan fund frá Vatnsfirði við Djúp, dregur Þorvaldur eftirfarandi ályktun af gullbroti þessu:
Nælan er frá tímabilinu 850-950 e.kr. [sic]. Hún kann að vera dýrgripur úr konungsgarði Kjarvals Írakonungs. Snæbjörn Eyvindarson, sem bjó í Vatnsfirði, var ömmubarn Raförtu dóttur Kjarvals. Gripurinn var bútaður í sundur, sem títt var á víkingatíð, og það þynnubrot sem fannst í Vatnsfirði var sennilegast notað sem hálsmen því búið var að gera gat í gegnum það.
Fornleifi leið sannast sagna hálfilla eftir að hafa lesið þetta kjaftæði, bullocks, eins og það er kallað á enska tungu og það sem Írar kalla bullán (uppruninn má vera öllum skýr). Þessi vinnubrögð koma auðvitað því óorði á íslenska fornleifafræðinga, að þeir séu eintómir grillufangarar og bullustrokkar.
Með öll þau hjálpartæki sem menn hafa í dag, og meðal annars veraldarvefinn, hefði Þorvaldur getað komist að því sanna um Kite-formed broches (flugdreka-laga nælur, sem er vitaskuld nýlegt fræðiheiti og ekki góð gelíska). Slíkar nælur voru vissulegar framleiddar á Írlandi.
Brotið sem fannst við rannsóknir í Vatnsfirði er af nælu eins og þeirri sem fannst í Waterford á Írlandi. Nú er Waterford vitaskuld norrænt/enskt nafn á írskum bæ á SA-Írlandi og Waterford þýðir það sama og Vatnsfjörður eins og glöggir menn sjá þegar.
Nælur þessar eru ekki frá tímabilinu 850-950 eftir Krists burð, eins og Þorvaldur heldur fjálgur fram og það án tilvitnanna - sem reyndar er engar að finna í bók hans - heldur frá því um 1100 e. Kr.
Leyfum fornleifafræðingum í Waterford að segja sitt fræðilega álit í stað þess að trúa bulláni Þorvalds:
A fusion of Irish, Scandinavian, English and continental European influences
Though Irish in type, the decoration shows English, continental European and Scandinavian influences as you would expect in the Hiberno-Norse town of Waterford. The body of the brooch was made of a cast hollow silver kite-shaped box to which was attached a hinge and long silver pin to fasten the cloak. The box was decorated with gold filigree, impressed with gold foil and amethyst-coloured glass studs. The studs were probably also made locally and it is possible that the wearer believed that they were real gems. (Sjá hér).
Vinnubrögð eins og við sjáum á bls. 49 í bók Þorvalds Friðrikssonar, Keltar, eru leiðigjarnt grillufang af verstu gerð. Slíkt á ekki að bera á torg í bókum um fræðileg málefni, þó svo að bókin komi út á Íslandi, eigi að vera "alþýðufræði" og höfða til fólksins. Íslensk alþýða hefur sama rétt á því að þekkja sannleikann eins og allir aðrir. Fornleifafræðin fjallar ekki um að framreiða langsóttar vangaveltur og skemmtiefni fyrir auðtrúa fólk - setta fram af fólki með takmarkaða þekkingu á því sem það skrifar um. Þannig er það nú bara.
Agaleg (áibhéalach) lesning. Stundum hef ég haldið að Þorvaldur sé það sem Írar kalla Greannmhar (Grínmaður, og er orðið komið frá norrænum mönnum), en honum er greinilega fúlasta alvara.
P.s. ég tek mér það bessaleifi, að birta hér persónulegt mat íslensks sérfræðings í Keltafræðum sem skrifaði eftirfarandi:
Jamm. Það er ekki bara í málfræðinni sem Þorvaldur fer með fleipur. Dæmið sem þú rekur er nú heldur snautlegt fyrir mann sem er lærður í fornleifafræði. Hann virðist fylgja mottóinu "Hafa skal það sem betur hljómar", sbr það að tengja næluna við írskan konung, án þess að það sé nokkur fótur fyrir því. Það er ekki beinlínis vísindalegt. Ég fékk þessa bók í jólagjöf. Ég lauk ekki við að lesa hana, satt best að segja, því það stendur ekki steinn yfir steini hjá honum. T.d. tínir hann til orð úr orðabókum en lætur alveg vera að setja þau í málsögulegt samhengi. Orð í gelísku í dag hefur td ekki sama framburð og fyrir þúsund árum. Eins afgreiðir hann orð sem keltnesk, þó að þeirra sé getið í Orðsifjabókinni, eða hjá Fritzner, svo dæmi sé tekið. Svo er auðvitað ótækt nú á dögum að hafa engar tilvitnanir eða heimildir í svona riti. En hann náði að auglýsa sig ansi hressilega fyrir jólin og hefur auðvitað sambönd inn á alla fjölmiðla sem gamall fréttamaður. Hann fékk m.a.s. uppslátt í Guardian sem byltingarkenndur hugmyndasmiður. En það er satt sem þú segir; svona skrif gera fræðunum mikið ógagn. Og það versta er að maður finnur að fjöldi fólks er tilbúinn til að trúa þessum málflutningi. Það hefur reyndar verið hljótt um bókina síðasta misserið. Vonandi fellur hún í gleymsku....
Athugasemdir
Bestu þaakkir fyrir síðast. Þetta var alveg yndislegt að hitta ykkur.Og nú er tilgnginum náð með að afhenda þér þessa bók.
Vænti reyndar meiri fróðleiks eftir að þu hefur lokið lestrinum.
mbk Kristján
Kristján Baldursson (IP-tala skráð) 24.11.2022 kl. 16:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.